Gengið var að Óttarsstaðafjárborginni (Kristrúnarborg). Borgin er mjög heilleg. Hún var hlaðin af Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum ásamt vinnumanni hennar, Guðmundi Sveinssyni, árið 1870.
Skammt austan við hana er Smalaskálahæðir. Í þeim rauðamölshóll í djúpri hraunkvos (Smalaskálakeri). Á hólnum stóð eitt sinn listaverk eftirmyndlistamanninn Hrein Friðfinsson er hann nefndi Slunkaríki, en er nú niðurnítt.
Gengið var upp að Brennuseli, en á leiðinni var leitað að öðru kolaseli, sem fannst fyrir u.þ.b. tveimur árum, en týndist aftur. Það fannst skammt norðan við Brennisel. Það virðist vera mun eldra. Brenniselið er með fallegri fyrirhleðslu og tótt í gróinni kvos. Birki grær yfir hana að sumarglagi svo erfitt getur reynst að koma auga á hana á þeim árstíma. Austan hennar er hlaðið fjárskjól og varða ofan þess. Þarna mun hafa verið reft yfir stóru hleðsluna fyrrum og hún verið notuð sem fjárskjól sbr. örnefnaskrá Óttarsstaða.
Álfakirkjan var talinn einn helgasti staður álfanna í Hraunum. Hraunmenn voru ekki neitt smeykir við að nýta fjárskútann undir klettinum því það var trú mann að álfarnir héldu verndarhendi yfir sauðfénu.
Haldið var upp í nyrsta krossstapan (hinir eru ofan við Lónakotssel), Álfakirkjuna, einn helgasta stað álfanna í Hraunum, og hún skoðuð. Norðan og undir henni er hlaðið fjárskjól. Þá var haldið til suðurs upp í Lónakotssel. Í selinu eru þrjú hús, þrír stekkir og fjárskjól í hraunkvos. Fjárskjólið er niður og utan í hraunkvosinni vestan við selið. Í henni er einnig einn stekkjanna eða gömul rétt. Norðaustan seljanna er stekkur og annar sunnan þeirra. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Þá var haldið yfir að Óttarsstaðaseli. Suðvestan þess er Þúfhólsskjól, hlaðið fjárskjól. Vestan selsins er annað hlaðið fjárskjól, Óttarsstaðarselsskúti nyrðri. Sunnan við selið í Tóhólatagli er Tóhólaskúti, fjárskjól með fyrirhleðslu. Selið sjálft er einungis eitt hús, sem er óvenjulegt miðað við önnur sel á Reykjanesskaganum. Í flestum seljanna er húsin þrískipt; viðverurými og geymsla og síðan utanáliggjandi eldhús með sérinngangi.
Sunnan selsins er þrískiptur stekkur og lítil rétt. Enn sunnar er Óttarstaðarselsskúti syðri, hlaðið fjárskjól. Norðnorðaustan hans er hlaðinn nátthagi. Norðan selsins er Meitlahellir eða Meitlaskúti, svo til alveg við Óttarsstaðaselsstíginn (Skógargötuna). Stígnum var fylgt til norðurs. Á leiðinni var komið við í Sveinsskúta, hlaðið fyrir fjárskjól, og Bekkjarskúta, einnig hlöðnu fjárskjóli í hraunkvos. Komið var niður á Alfararleið og henni fylgt til vesturs uns hringnum var lokað.
Frábært veður.