Færslur

Óttarsstaðaselsstígur

Gengið var um Straumsselsstíg/Rauðamelsstíg/Hrauntungustíg norðan við Hrútafell. Þeim síðastnefnda var fylgt um Hörðuvelli, Einihlíðar, Dyngnahraun og Mosa. Þar beygir stígurinn inn í Skógarnef og til norðurs vestan við Óttarsstaðasel. Norðan við selið liggja Rauðamelssígur og Óttarsstaðaselsstígur saman. Stígurinn hefur stundum verið nefndur Mosastígur milli Mosa og Óttarsstaðarselsstíg. Einnig Skógargata inn í Skógarnef. Leiðinni var fylgt áfram niður á Alfaraleiðina utan við Smalaskálahæð, yfir hana og áfram niður fyrir Rauðamel.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fornar leiðir; Ólafur Þorvaldsson.

Sennilega er eðlilegast að nefna Hrauntungustíginn kaflann frá Hádegisskarði að Sauðabrekkum, Straumsselsstíginn kaflann frá Straumi upp fyrir Hrúthólma að gatnamótum Rauðamelsstígs og Rauðamelsstíginn kaflann, annað hvort frá Óttarsstöðum, eða mótum hans og Óttarsstaðarselsstígs norðan selsins að gatnamótum Straumsselsstígs norðan Hrútafells. Kaflinn frá þeim gatnamótum að Ketilsstíg gæti heitið hvort sem er Rauðameslsstígur áfram og/eða Straumsselsstígur.
Ólafur Þorvaldsson getur hvorki um Rauðamelsstíg né Straumsselsstíg í grein sinni um “Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Ætla mætti af því að þar hafi ekki verið alfaraleiðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hraunin voru á þessum tíma ekki heldur hluti af Hafnarfirði heldur Garðahreppi. Af þeirri ástæðu hefur hann e.t.v. ekki talið ástæðu til að fjalla um þá stíga sérstaklega. Með greininni fylgir þó uppdráttur af hinum fornu slóðum og á honum eru bæði Straumsselsstígur og Rauðamelsstígur merktir skilmerkilega.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Auk þess að skoða Rauðamelsstíg frá Hrútafelli var skoðuð gata út frá norðvestanverðum Hrúthólma að Mávahlíðum. Gatan er á sléttu helluhrauni og bæði breið og greinileg á köflum. Ein lítil varða er á milli hólmans og fellsins. Þegar komið er að hlíðum þess liggur gata til suðurs með því austanverðu. Einnig til norðurs sömu megin. Að þessu sinni var fyrstnefnda gatan rakin áfram vestur yfir lágan sandháls og niður hlíðina að norðvestanverðu. Þar sést stígurinn vel þar sem hann liðast um slétta hraunhelluna neðanverða, áleiðis að Dyngjurana. Þar kemur hann inn á Rauðamelsstíginn.
Ástæða þótti til að skoða þessa leið sérstaklega, bæði vegna þess að hún er einstaklega falleg og greiðfær og auk þess er hún skemmtileg hliðar- og hringleið frá Rauðamelsstíg. Og ekki skemmir tignarleiki Mávahlíðanna fyrir útsýninu á leiðinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Þegar gengið er eftir Rauðamelsstíg frá Hrútafelli er í fyrstu gengið um slétt helluhraun. Stígurinn er vel greinilegur. Þegar nálgast tekur lága mosavaxna hraunbrekku mjókkar stígurinn. Hann liggur síðan gróinn, en þó greinilegur, með fallegum hraungíg og síðan áfram að norðurenda Fíflavallafjalls. Austan við endann er djúp gígskál og er stígurinn með austurbarmi hennar. Norðan skálinnar beygir stígurinn til norðurs þar sem hann liðast niður mosahlíð niður að Hörðuvöllum. Á leiðinni greinist stígurinn í nokkrar götur, en þær eru kindargötur er myndast hafa í mosasléttuna. Áberandi og breiður stígur liggur þó yfir að suðurhlíðum Mávahlíðar og er þar enn einn stígurinn í stígakerfi svæðisins.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur að Óttarsstaðaseli.

Ólafur teiknar Rauðamelsstíginn þarna niður hlíðina á uppdrátt er fylgdi umræddri grein hans í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48 (útg. 1949), í beina stefnu á Ranann. Stígurinn beygir þó þarna til vesturs og síðan aftur til norðurs. Tekinn er bogadreginn krókur niður fyrir hærri hraunkant að neðanverðu. Kannaður var möguleiki á beinni leið þarna niður eftir, eins og uppdrátturinn sýnir, en stór gjá hindrar þar umferð.
Norðan við Ranann sést vel niður eftir stígnum þar sem hann liðast áfram til norðvesturs niður hlíðina, áleiðis að Lambafelli. Stígurinn er þarna nokkuð breiður, en ástæðan er sú að bíl hefur verið ekið eftir honum upp á brúnina og áfram upp fyrir enda Fíflavallafjalls. Gamla stíginn má þó sjá á köflum til hliðar við slóðann. Norðaustan við Lambafellið eru gatnamót og það greinileg.
Rauðamelsstígurinn liðast áfram til norðurs, en önnur gata liggur þarna til suðurs austan Lambafellsins. Líklega er þar um að ræða hestagötu er lá áfram inn með Eldborg, Trölladyngjurótum og áfram inn á Selsvelli þar sem hún hefur m.a. mætt Þórustaðastíg um hálsinn yfir til Vigdísarvalla. Auk þess hefur þarna legið leið t.a.m. til og frá Selatöngum. Á heforingjaráðkorti frá 1908 (endurgert 1936) sést gatan liggja áfram upp í Sogin og einnig inn með Núpshlíðarhálsi.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígurinn liðast nú í gegnum hraunið, um þriggja metra breiður á kafla. Hestagatan, klöppuð í slétt bergið, sést þarna á nokkrum stöðum. Hún er lítillega til hliðar við meginleiðina. Með lagni má sjá lægðir í óhreyfðum mosanum og fylgja götunni nokkurn spöl. Síðan þrengist hann verulega og verður ógreinilegri. Einungis ein varða, og það vel mosaskeggvaxin, er við norðurenda hans – þar sem hann kemur niður í Mosana. Mosinn á vörðu þessari er sérkennilegur og öðruvísi en almennt gengur og gerist. Þarf ekki að undra að til skuli vera hátt í átta hundruð mosategundir hér á landi.
Þarna er gott útsýni yfir norðvestanverðar Einihlíðar. Stórbrotið er að sjá hvernig nýjasta hraunið, sennilega frá því í goshrinunni á 12. öld (1151-88) hefur runnið sem foss fram af og niður hlíðarnar á tveimur stöðum.
Þegar staðið er þarna virðist eðlilegra að stígurinn hafi legið svo til beint og á ská um hlíðina ofanverða til suðurs. Hún virðist greiðfær, en ekki mótaði fyrir heilstæðum stíg þar þrátt fyrir greinanlega útidúra.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur – vörður við gatnamót stígsins, Óttarsstaðaselsstígs og Skógargötu um Mosa.

Þegar niður á slétt helluhraun Mosanna er komið má sjá móta fyrir hestagötu klappaða í hraunhelluna við hlið hinnar almennu. Mosinn hefur víðast hvar þakið hana, en ef vel er að gáð má sjá götuna á köflum.
Ofarlega í Mosunum greinist gatan í tvennt; annars vegar beint áfram að Bökkuklettum og hins vegar til norðvestur niður með brún Eldborgarhrauns. Þá leið er m.a. hægt að komast niður í Seltóu í Afstapahraui og þræða síðan Tóurnar langleiðina niður að Kúagerði.

Þegar komið er niður að hraunnefi er skagar inn í Mosana úr norðaustri greinist gatan. Hin breiða almenna heldur áfram niður eftir, áleiðis að Bögguklettum, sem eru tveir klofnir klettastandar í annars sléttri hraunhellunni. Nýlegra hraun, mjög þunnfljótandi, hefur runnið líkt og vatn niður sléttlendið, smurt sig upp á klettana og síðan sjatnað á ný. Hraunhellan er ekki nema nokkrurra sentimetra þykk og hefur forstveðrun náð að brjóta hana í smærri einingar á stórum köflum.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Hin gatan liggur til norðausturs með hraunbrúninni. Gróið er í kantinn svo ekki skal undra að hestamenn skuli hafa valið þess leið um Mosana. Leiðirnar tvær koma síðan saman á ný norðan Böggukletta þar sem hún kemur inn á lítillega hækkun í hrauninu.

Hestagatan sést vel svolítinn spöl. Þá greinist stígurinn í tvennt; annars vegar til hægri, sem hefur verið meginleiðin, bæði breið og greinileg og liggur áleiðis inn í Skógarnef, og hins vegar (að öllum líkindum) hestaleiðin (beint áfram), niður með hraunbrún Skógarnefsins. Þar liðast hún um grónina undir hraunbrúninni. Þessar leiðir koma síðan saman á ný við tvær vörður við norðanvert Skógarnef.

Skógarnef

Skógarnef – varða.

Stígurinn í gegnum Skógarnefið er óglöggur vegna þess að gróið hefur yfir hann að mestu. Ef vörðum er hins vegar fylgt þvert í gegnum Nefið má fylgja stígnum eins og hann var. Hann sést undir klapparhæðarbrún og síðan vel skömmu áður en komið er út úr því að norðanverðu. Þar er verklega hlaðin varða, líklega landamerkjavarða á sléttlendi, og síðan tvær aðrar er áður var minnst á.
Héðan er stígurinn vel varðaður niður að gatnamótum Óttarsstaðarselsstígs norðvestan selsins, skammt neðan Meitlanna. Sunnanverð vesturhlíð Almennings er þarna vel gróin og liggur Rauðamelsstígur á ská til norðurs um gróninga og hraunbolla. Nota þarf fulla athygli til að fylgja stígnum rétta leið um þetta svæði. Varða við skjól vestan Óttarsstaðasels sést í norðaustri og þegar lengra er komið sést selsvarðan ofan við selið. Frá gatnamótunum, þegar gengið er til suðurs milli vörðubrotanna er beint sjónlína í Trölladyngju.

Almenningur

Almenningur – kort.

Stígur gengur upp frá Óttarsstaðaseli að Búðarvatnsstæðinu og síðan áfram upp að norðanverðum Mávahlíðum. Þar kemur hann inn á stíg þann er fyrr var líst frá Hrúthólma að hlíðunum. Vörður eru við stíginn á stöku stað. Að og frá Búðarvatnsstæðinu er hann vel áberandi.
Við fyrrnefnd gatnamót eru tvær fallnar vörður, næstum jarðlægar. Frá þeim liðast Óttarsstaðaselsstígur (Rauðamelsstígur) niður hraunið, niður Bekkina, að og yfir Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja og áfram áleiðis að Óttarsstöðum. Áður en námurnar voru teknar í notkun í Rauðamel hefur stígurinn legið norðan við Melinn og síðan áfram að Óttarsstöðum. Námurnar hafa tekið hann í sundur á stuttum kafla, en stígurinn kemur á ný í ljós norðvestan við þær. Þar lauk göngunni að þessu sinni.

Almenningur

Almenningur – vörðukort (ÁH).

Rauðamelsstígurinn er vel greinilegur mest alla leiðina milli gatnamótanna norðan Hrútafells að Óttarsstöðum.
Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman norðvestan við Ketilinn. Auk þess er vel vörðuð leið upp frá Lónakotsseli að Sauðabrekkum, en hennar hefur hvergi verið getið svo vitað sé. Stundum var um fleiri en eina götu að velja á köflum sömu leiðar.
“Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma”. Á þessu gamla færeyska orðtaki byrjar Ólafur Þorvaldsson lýsingu sína á “Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar” er birtust í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

“Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn sem þar hafa ferðast; um alla þá erfiðleika sem þeir áttu við að etja á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru – en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga. Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim sem um þær fóru á sínum tíma.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t.d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og líka oft pottuðu hestskónöglum hefur sorfið götur oft 10-20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir hefur umferð hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.
Óvíða sér nema eina götu í hraunlendi eða þar sem grágrýtsiklappir eru. Þó ber aðeins út af. Þar sem vegir lágu um svona ógreitt land urðu menn oft að teyma lestir sínar hverja á eftir annarri. Vegna þess að aðdráttarferðir manna voru á nokkuð ákveðnum tíma, sér í lagi á vorin, sammæltust oft menn úr sömus veit til slíkra ferðalaga, og gátu oft slegist í förina fleiri menn með hesta í hópnum þar sem hver maður var oftast með 5-8 hesta. Þegar menn fóru lausríðandi og leið þeirra lá um slíkt land urðu þeir að “lesta sig” sem kallað var, gátu ekki riðið hlið við hlið, og var þetta stundum kallaður “gæsagangur”. Aftur á móti þars em götur lágu eftir grónu landi, t.d. grasdölum, árbökkum eða meðfram sjó, sjást sums staðar allt að tuttugu götur hlið við hlið, þá gátu menn teymt lestir sínar samsíða, eða ef lausir voru, riðið hver við annars hlið, spjallar saman, rétt milli sín tóbaksílát og ef til vill vasafleyg sem hressti þá og lífgaði á margra daga lestarorri.”

Reipshögld

Reipshögld.

Ólafur heldur áfram að lýsa hinum gömlu götum: “Oftast nær var það svo að þeir sem fóru um þessar gömlu götur, þó lausríðandi væru, urðu að fara hægt yfir landið, þar eða þær götur voru víða þröngar eða ógreiðar yfirferðar. Þetta hafði vitanlega sína ókosti og líka kosti. Ókostirnir voru helst taldir þeir að menn voru lengur en ef gatan hefði verið greið – einnig það að oft voru á þessum götum klif eða skarpar beygjur sem varð að fara hægt yfir og fyrir, og gátu baggar rekist í og hrokkið af klakk. Sáust þess stundum merki meðfram fornum götum að slíkt hafði hent, þó jafnvel sjaldnar en búast mátti við. Athugull ferðamaður komst stundum auga á brotna högld af reipi utan við veginn, kom þá stundum í ljós, ef menn nenntu að taka upp og skoða þetta gamla, þögla vitni hinar fornu og miklu umferðar, að það var komið um óravegu, jafnvel yfir fleiri sýslur, úr fjarlægum landsfjórðungum. Reipshagldirnar voru þá alltaf brennimerktar bæði nafni eiganda og hreppsbrennimerki.

Skeifa

Skeifubrot í alfaraleið.

Það ber einnig við að menn sjá við þessar gömlu götur skeifubrot eða jafnvel heila skeifu, sem er kannske orðin tvöföld að þykkt frá uppruna af ryði og sandi samanblönduðu, má oft merkja aldur hennar bæði af lagi og gatafjölda…
Þá er að geta kostanna við þessar gömlu götur að nokkru, þeir voru ef til vill færri en ókostirnir, en þó skal nefnt hér t.d. aðþar gáfust ótal tækifæri til athugunar á því sem fyrir augu bar, svo sem landslagi, kennileitum, hvernig örnefni hefðu myndast o.fl. Út frá ýmsum þessum athugunum spunnust oft milli samferðamanna fróðlegar og skemmtilegar umræður.

Rauðamelsstígur

Rauðameslsstígur – vörður.

Til var það á leiðum milli byggðalaga, þar sem talin var hálfnuð leið, að menn nefndu t,d, Hálfnaðarklett, Hálfnaðarhól, Hálfnaðarskarð, Hálfnaðarsprungu. Öll þessi leiðarmerki af núttúrunnar hendi eru nú týnd eða að týnast með niðurlagðri umferð um fornar slóðir.”
Rétt er að láta þessi síðustu orð Ólafs Þorvaldssonar verða áhrínins- og áminngarorð til handa núlifandi kynslóð. Ástæðulaust er að láta þennan miklvæga þátt forsögunnar týnast eða gleymast. Glötuð gata er glataður menningartengill milli fortíðar og nútíðar. Framtíðin mun ekki varðveita slík verðmæti nema vitneskjunni verði komið á framfæri.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum.
Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu t.a.m. Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur. Drumbsdalastígur þræðir sig áfram frá Bleikingsvöllunum sunnan Vigdísarvalla austur að Krýsuvík.
Rauðamelur var áður fyrr tveir rauðir gjallhólar en eru nú malargryfjur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Stígurinn, sem lá frá Rauðamel í suðurátt er, sem fyrr segir, nokkuð greinilegur á köflum og heitir ýmist Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur en þegar ofar dregur mun hann heita Mosastígur og liggja upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Vænlegt er að stika Rauðamelsstíg. Mikilvægt er að gera það eins nákvæmlega og vandlega og hægt er. Þetta er falleg, merkileg og áhrifarík leið yfir skagann. Hún var örugglega ein af höfuðleiðum vermanna og annarra ferðalanga sem komu langt að og fóru þessa leið (og margar aðrar) í vetríðarbyrjun síðla á þorranum eða byrjun góu og í lok vorvertíðar í maí. Hver veit nema þetta hafi einnig verið flutningsleið brennisteinsmanna að og frá Krýsuvík á meðan Þýskubúð var kaupvangur í Straumsvík á 15. öld og hluta 16. aldar og brennisteinninn var nýttur í Baðstofu og við Seltún.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur.

Umferð um Rauðamelsstíg hefur verið lítil sem enginn í áratugi, allt frá því að bíllinn kom til sögunnar. Víða er stígurinn að gróa upp og sennilega verður ekki langt að bíða þess að hann hverfi algerlega. Ástæða er til að hvetja fólk, sem treystir sér til, að feta hann og viðhalda þannig þessari gömlu þjóðleið. Fé hefur verið rekið um stíginn, en auk þess hefur hann verið farvegur fólks og fararskjóta um langan aldur. Það ber hin djúpmarkaða gata greinilegan vott um.
Eftir að hafa skoðað Rauðamelsstíginn vaknar grunur um að hann hafi verið hluti af mun eldri, almennari og lengri leið, þ.e. gleymdri götu, sem legið hefur frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin, en þar Krýsuvíkurleiðin einungis verið hliðarstígur frá Lambafelli. Þær grunsemdir verða gaumgæfðar nánar á næstunni.

Gengnir voru 21 km á 6 klst og 46 mín. Frábært veður um frábært land.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.

Rauðamelur

Litli Rauðamelur við Rauðamelsstíg.

Óttarsstaðasel

Gengið var eftir Óttarsstaðaselsstíg (Skógargötu/Rauðamelsstíg) upp í Óttarstaðasel. Til hliðsjónar var uppdráttur frá árinu 1932, en á hann er stígurinn merktur.

Óttarstaðasel

Óttarsstaðasel – vatnsból.

Tóftir selsins voru skoðaðar, litið á fallegt vatnsstæðið norðaustan þess og síðan haldið áfram sem leið lá upp eftir ætluðum stíg sunnan selsins. Hraunið er vel gróið þarna og ef stígur hefur legið í gegnum selið og áfram upp á hæðirnar væri hann að öllum líkindum horfinn. Gengið var framhjá Rauðhólsskúta og mið tekið á vörðu á hraunhól í hæðunum. Önnur varða var skammt ofan við hana, en síðan ekki söguna meir. Stefnan var því tekin meira ti vesturs, yfir í Skógarnef. Þegar komið var að landamerkjagirðingu Óttarsstaða og Hvassahrans var byrjað að skyggnast eftir Skógarnefsskúta, bæði ofan við ásana neðst í nefninu og neðan þeirra, en án árangurs að þessu sinni.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Landamerkjalínan, sem kemur ofan úr Markhelluhólnum við Búðarvatnsstæðið, um Kolhól og Skógarnef, á að liggja um Skógarnefsskútann og Skógarnefnsgrenin og áfram niður í gegnum Mið-Krossstapa og niður með Skorás. Grenin sáust skammt neðan við bakkana, skammt vestan girðingarinnar. Hlaðið er um eitt grenið og tveir uppraðaðir steinar þar hjá. Heilleg varða er á hraunhól við girðinguna ofan við bakkana.
Á leið til norðurs í gegnum gróið hraunið neðan við Skógarnefið var komið að hlaðinni vörðu. Við hana var gata með stefnu upp að þeirri við girðinguna í Skógarnefi. Önnur stærri var á hraunhól skammt frá. Þegar betur var að gáð sáust vörður eða vörðubrot í stefnu til norðurs með ca. 10-20 metra millibili.

Þeim var fylgt áfram niður hraunið, en ekki var að sjá greinilegan stíg. Hins vegar var leiðin mjög greiðfær í hrauninu þar sem hún lá með hólum og hryggjum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Vörðurnar voru greinilega mjög gamlar, en auðvelt var að fylgja þeim. Þegar komið var á stíginn, sem liggur milli Óttarstaðasels og Lónakotssels, skammt vestan við hið fyrrnefnda, mátti sjá vel hlaðna vörðu. Stígurinn hélt þar spölkorn áfram til norðurs og beygði síðan til norðausturs, inn á Óttarsstaðaselsstíg / Rauðamelsstíg neðan (norðan) við Meitlana. Þar við gatnamótin voru tvær fallnar vörður og enn önnur skammt sunnar, með stefnu á milli hinna tveggja. Rauðamelsstígurinn upp í Óttarstaðaselið er þarna greinilegur, en gatnamótin hins vegar ekki, nema mjög vel sé að gáð. Telja má nær öruggt að þarna sé sá hluti Rauðamelsstígsins er nefnist Mosastígur.

Óttarsstaðaselsstígur

Gatnamót Skógargötu (tvær vörður).

Þetta er mjög líklega sá hinn sami stígur og Hraunamenn nefndu Mosastíg. Hann var farinn þegar menn voru að rífa mosa til upphitunar (JG). Það er reyndar annar Mosastígur sem liggur upp með Brunanum, sem er á allt öðrum stað (miklu mun vestar og liggur frá Mosum áleiðis niður að Hvassahrauni).
Í Skógarnefi er hann varðaður þar í gegn, áleiðis upp á Mosa þar sem Mosastígur tekur við áleiðis upp fyrir Lambafell. Á uppdrættinum er hann sýndur liggja til vesturs norðan Trölladyngju, en af stígnum að dæma virðist hann liggja til suðurs austan við Trölladyngju, áleiðis yfir að Hrútafelli og að Ketilsstíg yfir Sveifluháls.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðaselsstígur.

Straumsselsstígur

Gengið var eftir Straumsselsstíg frá gamla Keflavíkurveginum áleiðis upp í Straumssel. Ætlunin var að ganga í gegnum það upp fyrir Almenning og síðan til baka um Bringur og Óttarsstaðasel.

Hellir

Mannvistarleifar í helli.

Þegar komið var yfir Alfaraleiðina liggur stígurinn áfram til suðausturs vestan Miðmundarhæðar, yfir haft á hraunhrygg, áfram yfir Selhraun og síðan vestan Draughólshrauns, við vesturenda Straumselshæða og upp í selið. Draughóllinn sést vel efst í hrauninu, mosavaxinn. Hraunið virðist vera á litlum bletti í grónu Hrútargjárdyngjuhrauninu. Það er eitt af nokkrum svonefndum Selhraunum á þessu svæði. Straumsselið er skammt ofar.
Að þessu sinni var vikið út af selsstígnum ofan við fyrrnefnt haft á hraunhryggnum. Ofan þess er hlaðið skeifulaga byrgi refaskyttu. Frá því hefur hún hafu gott útsýni yfir slétt hraunflæmið. Gæsir, sem höfðu hópað sig saman á Tjörnunum milli Þorbjarnastaða og Gerðis, tóku sig á loft og virtust stefna til veturssetu sunnar í álfunni. Hraunin við Straumsvík og umhverfis Þorbjarnarstaði eru að mestu klædd gamburmosa en grónir grasbalar eru áberandi næst bújörðum sem og selstöðunum. Gróður við tjarnirnar er einstakur þar sem hann hefur þurft að aðlagast ísöltu vatni, aðlögun sem einungis hefur staðið í 5-7 þúsund ár, eða frá því hraunið rann.
Þorbjarnarstaðir, Péturskot og Gerði bera með sér búsetulandslag með hlöðnum veggjum, stekkjum, réttum, tröðum, brunngötum, alfaraleið og öðrum minjum. Þorbjarnarstaðatjarnir, Gerðistjarnir og umhverfi eru jafnframt á náttúruminjaskrá.
Gengið var til norðausturs yfir á selsstíg, sem gjarnan hefur verið nefndur Straumsselsstígur, en liggur frá Þorbjarnastöðum um Flárnar upp í Gjásel og Fornasel. Við norðanverða Katlana liggur síðan tengistígur af honum upp í Straumssel um Straumsselshæðir. Á kafla, þar sem hraunhellan er hvað sléttust, má sjá djúp för í klöppina. Líklega hefur þessi stígur legið upp í Fornasel og Gjásel. Þau lögðust af mun fyrr en t.a.m. Straumssel. Einhvern tímann hefur verið gerð hjáleið frá Straumsseli niður á stíginn og hann að öllum líkindum síðan notaður sem annar selstígur af tveimur upp í selið.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur.

Á leiðinni var tækifærið notað og litið á Kápuhelli við vesturjaðar Laufhöfðahraunsins. Tiltölulega auðvelt var að rekja tengistíginn upp í Straumssel. Að vísu er hann merktur á kort of austarlega þannig að hætta er á að fólk geti lent í tímabundnum vandræðum, en ef farið er skammt vestar og hæðir skágengnar er leiðin greiðfær. Þá þarf hvergi að klöngrast yfir grjót og misfellur.
Hraunin í Almenningi (stundum nefndur Hraunskógur) eru að mestu klædd gamburmosa en er einnig víða vaxin kjarri. Í lok nítjándu aldar var kjarrið nánast eytt af hrístöku og fjárbeit, því sauðfé var öldum saman haft á útigangi í afréttum. Eftir að dró úr lausagöngu búfjár um aldamót 19. og 20. aldar hafa birki, víðir og einir tekið mikinn vaxtarkipp. Á stöku stað má nú sjá allt að fjögurra metra há birkitré, einkum norðan Óttarsstaðasels, ofan Meitlanna.
Almenningur hefur einkum í seinni tíð verið nefnd hraunhæðin efst á hraunbrúninni þar sem eru Stórhæðir, Hafurbjarnarholt, Skógarhæðir og jafnvel yfir í Einihlíðar. Áður var hann haunspildan milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit sem fyrr sagði. Á Almenningi er einn hinna mörgu Gvendarbrunna, við gömlu Alfaraleiðina ofan Gvendarbrunnshæðar og norðan við Löngubrekkur.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

Annars er Almenningur gamalt dyngjuhraun kennt við Hrútagjárdyngju. Það er sjálfvaxið mosaþembu og kjarrlendi en að hluta til er þar ræktaður skógur. Svæðið er að mestu innan vatnsverndarsvæðis eins og það er skilgreint í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Við norðurmörk afmörkunar á umhverfisverndinni eru þessar mannvistarminjar; Lónakotssel, Óttarsstaðsel, Straumssel, Gjásel, Fornasel og Fjárborgin. Fleiri mannvistarminjar, hleðslur, stekkir, gerði og fjárhellar með fyrirhleðslum eru á þessum slóðum. Um Almenning lágu alfaraleiðir til forna s.s. Rauðamelsstígur, Straumsselsstígur, Hrauntungustígur og Stórhöfðastígur. Auk þess eru aðrar leiðir sem tengdust hinum ýmist til styttingar eða þær voru valdar eftir veðurlagi hverju sinni.
Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu sem fyrr segir Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík. Fleiri leiðir mætti nefna, en göngufólki er ráðlagt að rýna ofan í svörðinn og skoða gamlar götur sem víða mótar fyrir þó þær séu ekki jafn augljósar og fyrrum.

Straumssel

Neðri-Straumsselshellar.

Straumsselið var skoðað. Selið er eitt örfárra á Reykjanesskaganum er óx og varð að bæ. Vel má sjá hvernig bæjarhúsin voru, kálgarður norðvestan við þau og garður umleikis. Norðar er vatnsstæðið, garður umlykur heimatúnið og hlaðið gerði er austan við bæjarhúsin. Gamla selið er skammt norðaustar.
Haldið var áfram og götu fylgt upp í Neðri-Straumsselshella. Fallegar hleðslur eru fyrir þremur opum hellanna. Þeir eru frekar lágir innvortis, en í þeim má sjá stuttar hleðslur út frá veggjum. Skammt norðan hellanna er hið ágætasta vatnsstæði.
Þegar komið var upp í Efri-Straumsselshella sáust vel hinar miklu hleðslur þar sem grunnt jarðfall hefur verið notað sem aðhald. Inn úr því er rúmgóður hellir með hleðslum við opið. Inni er gólfið sléttað. Ekki er að merkja að þar inni hafi verið haft fé. Líklega hefur hellirinn verið mannaskjól, en inni í því hafa sléttar hellur verið réttar upp til að loka fyrir að t.d. fé kæmist lengra inn eftir honum. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem rétt um tíma. Dilkur er norðvestan við gerðið. Úr veggjum þess hafa síðar verið tekið grjót og skjól hlaðið með norðurveggnum. Það munu refaskyttur hafa gert um miðja síðustu öld. Væntanlega hafa þeir einnig notað hellinn sem skjól á meðan dvalið var við veiðarnar í Almenningi.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Þá var ætlunin að rekja Straumsselsstíginn áfram upp Almenning, framhjá Gömluþúfu og áleiðis að Sauðabrekkum eins og hann hefur verið sýndur á uppdráttum. Almenningsnafnið mun dregið af því að þar var sameiginlegt beitiland Hraunbæjanna.
Auðvelt er að áætla stígsstæðið að skarði norðan við Gömluþúfu og síðan í sneiðin upp brekkuna að henni. Suðvestan Gömluþúfu er varða. Önnur varða er suðaustan hennar. Með jákvæðu hugarfari má rekja götuna upp að síðarnefndu vörðunni, en austan hennar tengist stígurinn inn á vestari leið Hrauntungustígsins er liggur áfram áleiðis að Fjallgrensvörðu og áfram að Sauðabrekkum.
Þegar horft er af brún Almennings yfir neðanvert hraunsvæðið, afurð Hrútargjárdyngju fyrir 5-7 þús. árum, á þessum árstíma (hausti) er litadýrðin óvíða meiri á landinu – og eru þá Þingvellir meðtaldir.
Víða má sjá vörður þarna efra. Flestar eru landamerkjavörður, ýmist á mörkum Þorbjarnastaða og Straums eða Straums og Óttarsstaða. Ein slík er á Klofakletti. Hann er á mörkum efst í svonefndum Bringum. Ofan hans heita Mosar. Skv. örnefnalýsingu eiga nöfn jarðanna er þarna koma saman að vera klöppið á bergvegg við vörðuna. Ekki var að sjá að svo væri.

Óttarsstaðasel

Vatnsból í Óttarsstaðaseli.

Þá var Almenningur skágenginn til suðvesturs áleiðis að Óttarsstaðaseli. Á leiðinni voru vörður og önnur kennileiti skoðuð. M.a. var skoðuð varða ofan á hraunklofa ofarlega í heiðinni. Op er á henni neðanverðri svo refaskytta, sem setið hefur á bak við vörðuna, hefur haft hið ágætasta útsýni láglendið fyrir neðan þar sem tófan hefur átt leið um.
Annars má víða sjá ummerki eftir refaskyttur í Almenningi, sbr. byrgið við Efri-Straumsselshella svo neðan (norðvestan) við Búðavatnsstæðið.
Búðarvatnsstæðið mun vera þar sem Helguflöt norðan á Búðarhólum er, sbr. kort af Almenningsskógi Álftaneshrepps, dags. 20. apríl 2004. Sumir hafa viljað meina að Markhelluhóll hafi verið þar rétt ofan við stæðið, en síðar “færst” lengra frá því til austurs þar sem nú eru áklappaðir stafir þeirra bæja er munu hafa átt landamerki að hólnum.
Þegar gengið var áleiðis niður að Óttarsstaðaseli mátti vel sjá hversu leiðin er greið ofan við það að Búðarvatnsstæðinu og áfram upp með Mávahlíðum. Til þeirra sést vel af hæðunum ofan við Óttarsstaðaselið. Komið var niður að Rauðhólsskúta og frá honum gengið að vatnsstæðinu norðaustan við selstöðuna. Í því var nægt vatn.
Óttarsstaðaselið er rýmra en margar aðrar selstöður í Almenningi og á Reykjanesskaganum. Rýmin eru þrjú líkt og hefðbundið er í seljum á þessu landssvæði. Íverurýmið og búrið (framar) hafa haft sama inngang (gengið inn að suðvestan) og eldhúsið, að norðaustanverðu, hefur haft sérinngang. Það er einnig óvenju rúmgott. Enn má sjá hlóðahleðslurnar. Selið er heillegt þótt vel gróið sé. Líklegt má telja að selstaðan hafi verið ein sú síðasta slíkra, sem lagðist af á þessu svæði.
Selsstígnum var fylgt áleiðis að Alfaraleiðinni. Á leiðinni var komið við í Meitlaskjóli undir Meitlum, Sveinsskúta og Bekkjaskúta, en allir þessir skútar eru einungis kippkorn frá stígnum.

Óttarsstaðasel

Varða við Óttarsstaðaselsstíg.

Þegar komið var niður eftir var haldið að þeirri leið er jafnan (einkum upp á síðkastið) hefur verið nefnd Straumsselsstígur. Fyrst var þó komið við í Gránuskúta sunnan Miðmundarhæðar.
“Straumsselsstígurinn” liggur nú um norðaustanverða Réttarhæð og kemur niður af henni suðvestan Þorbjarnarstaðaréttar (-stekks). Þaðan liggur leiðin áfram að austurgarð Þorbjarnarstaða. Sú leið virðist hins vegar ekki mjög sannfærandi, a.m.k. ekki sem tengileið fyrir Straumsselsstíginn er liggur upp frá Straumi. Sá stígur kemur beint inn á “austari” leiðina sunnan Miðmundarhæðar og er hún beint framhald af honum alla leið upp í Straumssel.

Líklegt má telja að gata hafi legið frá Þorbjarnastöðum frá túngarðinum, yfir Alfaraleið og til austurs sunnan Réttarhæðar. Sú leið virðist eðlilegri og greiðfærari tenging við “Straumsselsstíginn” vestari, sem að öllum líkindum hefur upphaflega verið selstígurinn upp í Fornasel og Gjásel, en þar voru einmitt selstöður frá Þorbjarnastöðum, miklu mun eldri en Straumsselið, svo og fjárskjólin sem þar eru í og við Brundtorfur (Brunatorfur). Gatan ber þess líka glögg merki á köflum.
Gengnir voru 17.7 km á 7 klst. og 7 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/gongu.htm

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Ratleikur Hafnarfjarðar

Þema Ratleiks Hafnarfjarðar í ár, þann 25. í röðinni, eru fornar þjóðleiðir, gamlar götur og stígar.
Guðni Gíslason hjá Fjarðarfréttum (Hönnunarhúsinu) leggur leikinn. Þátttakendur geta nálgast frítt ratleikskort í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar við Strandgötu, á bensínafgreiðslustöðvum N1, í Fjarðarkaupum og sundlaugum bæjarins.

1. Garða(Kirkju)vegur (norðan Hjallabrautar)

Hjallabraut

Gamlar götur vestan Hjallabrautar.

Hafnfirðingar og Garðbæingar í Hraunum sóttu kirkju að Görðum á Garðaholti allt fram til þess að Fríkirkjan í Hafnarfirði (vígð 14. desember 1913) og þjóðkirkjan (vígð 20. desember 1914) voru byggðar. Allar götur þangað til gengu kirkjugestir eftir Kirkjuveginum ofan Akurgerðis, fram og til baka, að og frá Garðakirkju. Veginum var síðar breytt norðan Víðistaða, upphlaðinn af Sigurgeiri Gíslasyni og vinnuflokki hans til flutninga milli bæjarins og fiskvinnslunnar á Langeyri. Út frá honum voru ótal fiskreitir og hjallar.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Sigurgeir átti blett við Víðistaðatún, s.a.s. fast við Kirkjuveginn. Vegurinn sá lá upp frá miðbæ Hafnarfjarðar sunnan Akurgerðis, upp með Víðistöðum og áfram yfir hraunið að Görðum. Í dag sjést vegurinn enn ofan Akurgerðis (Byggðasafnið), auk þess sem mótar fyrir honum á Víðistaðatúninu að vestanverðu Skátaheimilinu. Í Norðurbænum er vegurinn kominn undir byggðina.
Sigurgeir var vegavinnuverkstjóri við flestar vegaframkvæmdir inn og út frá Hafnarfirði í byrjun 20. aldar, s.s. Suðurnesjaveginn til Njarðvíkna, Grindavíkurveginn, Hafnarfjarðarveginn til Reykjavíkur og Járnbrautarveginn í gegnum Hafnarfjarðarhraun.

2. Engidalsstígur (norðan Fjarðakaups)

Garðahverfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Enn má sjá nokkurra metra kafla af Engidalsstígnum, uns hann hverfur undir hugsunarlausa framkvæmdargleði nútímamannsins. Þarna lá gamla leiðin suðurúr frá gatnamótunum í Engidal. Hraunkanturinn er þarna skammt norðar, en austar er m.a. tóft sauðakofa og síðan rétt og fleiri mannvirki skammt inni í hrauninu ofan við kantinn. Hraunsholtshellir, Arneshellir, er við Hraunsholt. Á milli Hafnarfjarðarvegarins og réttarinnar liggur Hraunsholtsselsstígur í gegnum hraunið, að Hádegishól, þar sem Hraunsholtsselið var fyrrum sunnan undir honum. Selsminjarnar hafa, því miður, verið í auðn lagðar vegna framkvæmda – eitt þriggja þekktra selja af u.þ.b. 400 slíkum á Reykjanesskaganum.
Skammt sunnan við Engidalsstíginn gamla er listaverkið Jötnar eftir Grím Marinó frá árinu 2000.

3. Hagakotsstígur (á móts við Járnbrautarveginn)

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Hagakotsstígur lá frá Hofstöðum að selstöðu bæjarins við Urriðavatn. Nafnið er dregið af Hagakoti, sem var hjáleiga frá Hofstöðum og stóð skammt norðan við Hraunsholtslæk (Hagakotslæk), ofan við Hagakotsvað. Stígurinn sést enn mjög vel í gegnum Hafnarfjarðarhraunið frá hlaðinni tóft á hól sunnan lækjarins við vaðið að mislægum gatnamótum er liggja nú að Kaupstaðahverfinu. Þar hverfur hann undir nútímaframkvæmdir.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Járnbrautarvegurinn (Atvinnubótavegurinn) í Hafnarfjarðarhrauni var stórframkvæmd í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hann liggur hann yfir Hafnarfjarðarhraun (nú Garðahraun) sem er hluti Búrfellshrauns.
Atvinnubótavegurinn var lagður frostaveturinn mikla 1918. Þá strituðu verkamenn í miklum frosthörkum við að ryðja og hlaða upp veg gegnum hraunið með handaflinu einu saman. Engu að síður voru þeir starfinu fegnir. Þetta var eina vinnan sem í boði var á erfiðum tímum og löngu fyrir tíma atvinnuleysisbóta og viðlíka úrræða af hálfu hins opinbera. Vonir stóðu til að leggja varanlega járnbraut millum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur…

4. Útnesjaleið á Alfaraleið (kapellan)

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Útnesjaleiðin lá frá Hafnarfirði (Innnesjum) út á Suðurnes (Útnes). Frá Hraunabæjunum nefndist gatan Alfaraleið að Kúagerði, þá Almenningsvegur ofan Vatnsleysustrandar og Stapagata frá Vogum til Njarðvíkur. Gatan sést í grónu Hellnahrauninu vestan golfvallarins á Hvaleyri um Leyni. Þar fór hún upp á Brunann (Nýjahraun/Kapelluhraun), en öllu því hraunssvæði hefur nú verið spillt, utan lítils hóls, sem endurgerð kapellutóft stendur nú á. Vestan við hana sést bútur af götunni þar sem hún á að hraunbrúninni við Gerði. Þar sést hvar Útnesjaleiðin og Alfaraleiðin koma saman.

Alfaraleið

Útnesjaleiðin (Alfaraleiðin) – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja á Reykjanesskaganum. Um hana fóru allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig enn eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim kennileitum, sem enn eftir standa.

5. Selvogsgata (Setbergssel)

Setbergssel

Setbergssel við Selvogsgötu – nátthagi.

Sunnan Selvogsgötu suðaustan Fjárhúshlíðar eru tvö sel, Setbergssel og Hamarskotssel. Varða ofan og milli hraunrásar er á mörkum jarðanna. Vestan við austara opið sést móta fyrir hlaðinni kví í skjóli fyrir austanáttinni. [Þessi kví mun hafa tilheyrt Hamarsskotsselinu]. Ofar eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru, s.s. hlaðið gerði. Í hraunrásinni er Setbergsselsfjárhellir (Selshellir) að norðanverðu (hlaðinn garður er þvert fyrir hellinn) og Hamarskotsselsfjárhellir að sunnanverðu. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar, en selið lagðist af í lok 19. aldar.

Fjárhús

Fjárhús.

Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vandaða vörðu á Fjárhúshlíð, má enn sjá háar hleðslur af gömlu fjárhúsi, sem byggt voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsselinu. Gott útsýni er til selsins frá vörðunni.
Tveir aðrir hellar eru í hraunrás austan og ofan seljanna; Kershellir og Hvatshellir. Selvogsgatan liggur ofan við jarðfallið, sem myndar opið. Þar er hlaðin varða.

6. Selvogsgata (Helgadalur)

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Selvogsgata liggur þvert yfir Helgadal. Vestan götunnar er gróinn Helgadalur með vatni í undir háum hamravegg og að austan er hraunsvæði Búrfellshrauns. Í því eru nokkrir hellar, s.s. Rauðshellir, Hundraðmetrahellir og Fosshellir. Allir eru í sömu hraunrásinni, sem lokast á millum. Í grónu jarðfalli við op fyrstnefna hellsins eru miklar hleðslur, bæði neðar og ofar. Þar eru og undir jarðveginum hleðslur einhverra fornra skjóla. Skammt norðar jarðfallsins er hlaðinn stekkur.
Nyrst í austanverðum Helgadal eru tóftir, annað hvort fornbæjar eða, sem er öllu líklegra, fornar selstöðu, sem lítt hafa verið rannsakaðar.

7. Kaldárselsvegur (vestan Borgarstands)

Kaldárselsvegur

Kaldárselsvegur.

Kaldárselsstígur var fyrst sem selstígur frá Görðum um Setberg (Selvogsgatan) þar sem hún lá af götunni til vesturs ofan misgengis austan Klifsholts að Kaldárseli, en síðar sem frá Hafnarfirði upp á Öldur og þaðan inn með vestanverðri Sléttuhlíð að Borgarstandi og þaðan að selinu. Gatan er enn vel greinileg vestan og norðan Borgarstands þar sem hún er grópuð í hraunhelluna.
Á Borgarstandi voru fyrrum tvær topphlaðnar fjárborgir, en önnur þeirra var endurnýtt (sú austari) af handverksmönnum er unnu að gerð vatnsleiðslunnar frá Kaldárbotnum til Hafnarjarðar árið 1919.
Leifar af undirhleðslu vatnsstokksins úr Kaldárbotnum, þar sem vatninu var fleytt yfir þverhleðslu Lambagjár og áfram yfir í Gjáahraunið þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum ofan Hafnarfjarðar.

8. Kúastígur (sunnan Kaldársels)

Kúastígur

Kúastígur frá Kaldárseli.

Kúastígur liggur frá Kaldárseli með stefnu á Kúadal, inn á Undirhlíðaleið vestan Undirhlíða og inn í Kúadal þar sem beit var fyrir kýr. Slíkir staðir eru fáir í nágrenni við selið. Reyndar voru kýrnar fáar og einungis í stuttan tíma, þ.e. á meðan búið var í selinu undir það síðasta.

Kúastígur

Kúastígur að Kúadal.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Kaldársel

Kaldársel – nú og fyrrum.

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun um 1880.

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.
Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.
Hafnarfjarðarbær keypti Kaldársel 1912 og árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli, nánast ofan í seltóftunum.

9. Undirhlíðaleið (Litli-Skógarhvammur)

Litli-Skógarhvammur

Litli-Skógarhvammur.

Undirhlíðaleið liggur, eins og nafnið bendir til, með vestanverðum Undirhlíðum frá Kaldárseli, í Sandfellsklofa og áfram til suðurs vestan við Sveifluháls að Ketilsstíg. Í Undirhlíðum hefur verið plantað í skógarreiti.
Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Birkið og víðitrén áttu í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða lundinn. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

10. Undirhlíðaleið (Stóri-Skógarhvammur)

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur.

Stóri-Skógarhvammur er eitt best varðveitta leyndarmál hafnfirskrar skógræktarsögu. Þangað liggur enginn akfær vegur, einungis slóði, sem ætlunin er að betrumbæta. Hvammurinn er í norðanverðum Undirhlíðum milli Bláfjallavegar og Krýsuvíkurvegar og var áður vinsæll áningastaður þeirra sem fóru Undirhlíðaleið, gömlu þjóðleiðina milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.
Auðvelt er að komast í Stóra-Skógarhvamm með því leggja bílnum á afleggjara af Kýsuvíkurvegi norðan við Vatnsskarð eða við aflagða malarnámu í Undirhlíðum við Bláfjallaveg. Þar eru stikur sem vísa á Undirhlíðaleið. Leiðin að Stóra-Skógarhvammi er tæplega 2 km löng, hvora leiðina sem farið verður.

Undirhlíðaleið

Undirhlíðaleið.

Eins og nafnið gefur til kynna var Stóri-Skógarhvammur vaxinn gömlum birki- og víðiskógi þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk svæðið til umsjónar og ræktunar 1958. Byrjað var á að girða 56 ha. spildu af sumarið 1958 en árið eftir hófst plöntun trjágróðurs af fullum krafti.
Samið var við Hafnarfjarðarbæ um að piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík önnuðust ræktunarstarfið undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Þegar vinnuskólinn í Krýsuvík var lagður niður haustið 1964 var formlegu ræktunarstarfi lokið í Stóra-Skógarhvammi. Skógurinn hefur fengið að aðlagast landsháttum undanfarna fjóra áratugi og hefur nánast verið sjálfbær þennan tíma.

11. Dalaleið (um Leirdal við Leirdalshöfða)

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur  til norðurs- Helgafell fjær.

Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um og eftir Bakhlíðum að Leirdalshöfða. Leiðin liggur um Leirdal (Slysadal), yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, inn með utanverðum Breiðdalshnúk með stefnu á Vatnshlíðarhorn og um Blesaflatir að Kleifarvatni vestan Lambhagatjarnar. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Ytri- og Innri Stapa í áttina að Vesturengjum austan Seltúns í Krýsuvík.

Slysadalur

Slysadalur til suðurs – Breiðdalur og Vatnshlíð framundan.

Þegar vatnsyfirborð Kleifarvatns var hátt, sem gerist af og til, þurftu ferðalangar að „fara Helluna“, þ.e. að feta móbergshallan ofan við bergið norðan Ytri-Stapa. Það gat verið varasamt vegna sleipu á kafla og reyndist stundum þörf á að fara hann á sokkaleistunum. Enn má sjá þar rás í hallanum. Við Seltún var brennisteinsnámusvæði fyrrum, auk boranatilrauna, bæði eftir heitu vatni og jarðgufu. Seltún dregur nafn sitt af fyrrum seli frá Krýsuvík. Selshúsin voru jöfnuð við jörðu í byrjun sjöunda áratugs tuttugustu aldar þegar til stóð að reka þar kúabú, en enn ná sjá leifar gerðis og stekks austast í túninu (austan vegarins), sem hross Hafnfirðnga hafa smám saman verið að jarðlægja.
Í nútíma ferðalýsingum er Dalaleið sögð liggja upp úr Fagradal, um ofanverða Vatnshlíð austan Kleifarvatns, um Hvammahraun og Austurengjar að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Sú leið var farin af rjúpnaveiðimönnum fyrrum, enda jafnan veiðivænt í hlíðunum og með hraunkantinum efra.

12. Stórhöfðastígur (varða)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastígur liggur frá Ási um Hádegisskarð og Dalinn (Ásflatir), sniðhallt yfir Bleiksteinsháls, út á Selhraunið að Stórhöfða, upp með honum að vestanverðu uns hann beygir yfir Hellnahraunið yngra og Brunann í átt að Snókalöndum. Þar fer hann yfir Krýsuvíkurveginn og síðan suður hraunið upp að Fjallgjá, fylgir misgengi að Fjallinu eina, upp með því að austanverðu að austurjaðri Hrútagjárdyngju og með upprisuvegg hennar að Undirhlíðaleið.
Skammt vestan Stórhöfðastígs á móts við vesturhorn Stórhöfða er heillegt hlaðið fjárskjól og gerði í hraunkrika. Gegnt Stórhöfða hefur stígurinn verið lagaður í gegnum hraunið, sem nú hefur verið úr lagi færður á stórum kafla vegna skammsýnnar efnistöku.

13. Hrauntungustígur (varða)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur við Krýsuvíkurveg – vegvísir.

Hrauntungustígur liggur frá Ási um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina með stefnu á Hrútargjárdyngju, samhliða henni að Hrúthólma og upp með austanverðu Hrútfelli að Ketilsstíg.
Hrauntungustígur frá Hádegisskarði með Hamranesi og yfir fyrrum fiskhjallahraunið (Hellnahraun) er horfin undir byggð og aðrar framkvæmdir. Varða ein er á Brunahraunbrúninni vestan Krýsuvíkurvegar. Stígurinn sést vel frá veginum að henni, en síðan tekur við eyðilagt hrauntökusvæði í boði Skógræktar ríkisins. Ef stikum er fylgt í gegnum svæðið má finna stíginn þar sem hann kemur inn í Hrauntungur og síðan upp úr þeim norðvestan við skógræktina í Brunntorfum. Á þeirri leið er m.a. Hrauntunguskjólið, sem nýtt hefur verið til kolagerðar í tungunum.

14. Hrauntungustígur (Brunntorfur)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustíg má auðveldlega rekja í gegnum Hrauntungur upp í Brunntorfur. Eftir að komið er úr Hrauntungum (þar sem m.a. má líta Hrauntunguskjólið augum) liggur gatan um Brunntorfur (Brundtorfur). Þar hefur nú verið komið upp miklum skógi af hálfu úthlutaðra spilduáhugagræðara. Á Brunabrúninni má sjá steinhlaðna “skýjaborg”; Þorbjarnarstaðafjárborgina. Fjárborgin var hlaðin af börnum hjónanna á Þorbjarnarstöðum, Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi og Ingveldar Jónsdóttur, dóttur Jóns Guðmundssonar, bónda á Setbergi um aldramótin 1900. Systkinin, sem voru 11, hafa eflaust setið yfir fé í Torfunum og ætlað sér að byggja þar topphlaðna borg líkt og þau þekktu frá Djúpudölum í Selvogi. Miðveggurinn í henni var ætlaðu að halda undir þakið, þegar að því kæmi, en líklega hefur þeim verið bannað að halda verkinu áfram því hlutfallslega hefði tilgangurinn ekki helgað meðalið – til þess var ummál borgarinnar allt of mikið.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Ofan Brunntorfa liggur Hrauntungustígur upp að Fornaseli og síðan áfram upp í Almenning, áleiðis að Fjallsgrensvörðunni, um Sauðabrekkur og áfram á Ketilsstíg.

15. Stórhöfðastígur (ofan Brunntorfa)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – gerði.

Stórhöfðastígur um Brunntorfur liggur um gróið Hellnahraunið. Þar er hlaðið gerði í krika. Skammt norðan þess er varða er vísar leiðina inn í Snókalönd, sem eru óbrinnishólmar í Brunanum. Eftir að komið er á stíginn sunnan Krýsuvíkurvegar liggur hann um tiltölulega slétt Hrútagjárdyngjuhraunið. Í því ofanverðu, áður en komið er að Fremstahöfða, má víða sjá stíginn mótaðan í hraunklöppina eftir umferð manna og dýra um aldir.

16. Gerðisstígur (ofan Gerðis)

Gerðisstígur

Gerðisstígur.

Gerðisstígur liggur frá Gerði í Hraunum, upp með vesturbrún Brunans (Kapelluhrauns) og í gegnum Selhraun (þar sem hún hefur verið rudd í gegnum hraunið) í áttina að Neðri- og Efri-Hellum (fjárhellum). Stígurinn er varðaður að hluta. Hann liggur að malarnámum þar sem áður var Þorbjarnarstaðarauðamelur í áttina að Neðri-Hellum. Norðan námunnar má sjá fjárskjól með hleðslum í stuttum hraunrásum. Þaðan liggur stígurinn upp með Vorréttinni undir brunanum að Efri-Hellum, sem eru gróin fjárskjól með hleðslum í hraunrás undir háum hraundrang. Frá fjárskjólinu liggur leiðin upp að Kolbeinshæð þar sem fjárskjólið Kolbeinshæðarfjárskjól hvílir og áfram um Laufhöfðahraun að Gjáseli og áleiðis upp á Hrauntungustíg.
Gerðisstíg hefur nú verið spillt að hluta með óskiljanlegum moldartipp sunnan kvartmílubrautarinnar.

17. Alfaraleið (í Draugadölum)

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Alfaraleiðinni er fylgt til vestur frá Þorbjarnarstöðum. Hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókóttari þar sem hún þræðir um skorninga á milli hraunhóla og – hvela. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd, hlaðin í atvinnubótavinnu snemma á 20. öld líkt og nokkrar aðrar sambærilegar við leiðina. Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Þar við eru gatnamót Rauðamelsstígs (Óttarsstaðaselsstígs/Skógargötu).
Framundan er Gvendarbrunnshæð. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli.
Reimsamt þótti í Draugadölum. Þótti sumum sem þeir heyrðu þungan andardrátt fyrir aftan sig á göngunni í gegnum dalina, einkum eftir að skyggja tók.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar, örsutt ofan túngarðs, og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en aðrir segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu [ofan Þorbjarnastaða]. Síðan er þarna kallað Himnaríki.“

18. Rauðamelsstígur (gatnamót við Alfaraleið)

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígur liggur frá Óttarsstöðum upp í Óttarsstaðasel og síðan áfram upp Almenning inn á Hrauntungustíg efst í Almenningi. Stóri-Rauðamelur var fyrrum áberandi í landslaginu þar sem nú er niðurgrafin grjótnáma norðan Alfaraleiðar. Skammt norðan hans er Litli-Rauðamelur, sem í örnefnalýsingum er sagður horfinn. Því fer fjarri. Um er að ræða fagurfræðilegan afrúnaðan rauðamelshól í umluktu hraunlendi. Ofan Meitla sést vel heim til selsins. Skammt neðar er Meitlaskjól (fjárskjól).
Stígurinn var einnig nefndur Óttarsstaðaselstígur. Út frá honum liggur Skógargatan til suðurs. Við gatnamótin eru tvær nánast jarðlægar vörður.

19. Lónakotsselsstígur (gatnamót Alfaraleiðar)

Lónakotsselsstígur liggur frá Lónakoti upp í Lónakotssel undir Skorási. Á ásnum er varða, sem sést víða að.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við á hægri hönd. Þetta er falleg fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum svonefnda, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir vel í bók sinni Íslenskum aðli. Nú hefur verið komið fyrir grind af húsinu á gjallhaugnum til minningar um listaverkið sem þar var.

20. Straumsselsstígur vestari (vestan Draughólshrauns)

Straumsselsstígur vestari liggur upp frá Straumi, nokkru vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina, upp með vestanverðu Draughólshrauni að vörðu á þverleið milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þaðan sést vel til beggja seljanna.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Þegar þverleiðinni er fylgt til austurs er komið að Straumsseli. Í Straumsseli eru bæði leifar selsins sem og bæjar skógarvarðarins í Almenningum.
Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þótt kjörin væru kröpp.
Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

21. Skógargata (gatnamót við Rauðamelsstíg/Óttarsstaðaselsstíg)

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur neðan gatnamóta Skógargötu.

Á Rauðamelsstíg (Óttarsstaðaselsstíg) neðan Meitla eru tvær fallnar vörður. Þær eru á gatnamótum Skógargötunnar er liggur vel vörðuð upp í Skógarnef að Bögguklettum. Þaðan liggur leiðin um hraunið að Lambafellsklofa. Norðaustan hans skiptist leiðin; annars vegar upp að norðanverðum Dyngjurana, utan við Fíflvallafjall að Hrúthólma þar sem hún sameinast Hrauntungustíg, og hins vegar til suðurs austan Eldborgar að Trölladyngju og áfram um Selsvelli og Hraunsel vestan við Núpshlíðarháls niður á Krýsuvíkurleið milli Grindavíkur og Krýsuvíkur norðan Skála-Mælifells.
Merkið er nokkru norðan við gatnamótin.

22. Straumsselsstígur eystri (gatnamót Gjáselsstígs/Fornaselsstígs)

Straumsselsstígur eystri liggur upp frá Straumi sunnan garðs Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina og upp gróna kvos vestan Þorbjarnarstaðastekks (Stekksins), til austurs norðan Draughólshrauns um Flárnar ofan Katla. Neðan og norðan við Katlana greinist gatan; annars vegar heldur hún stefnu í átt að Laufhöfða (Laufhöfðavarða) þar sem hún stefnir á Gjásel og síðan áfram upp í Fornasel, og hins vegar stefnir gatan í átt að Kötlunum og upp með þeim í Straumssel.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur eystri -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

Upp frá Straumsseli liggur leiðin um Straumsselshellnastíg (framhjá Neðri- og Efri-Straumsselshellum) upp að Gömlu-þúfu í áttina að Sauðabrekkugjá þar sem stígurinn sameinast Hrauntungustíg við Fjallgrensvörðuna skammt norðan gjárinnar. Straumselsstígurinn eystri er í fari selstígsins að Fornaseli (ofar) og Gjáseli (neðar). Hvorutveggja voru sel frá Þorbjarnarstöðum. Á stígnum skammt ofan við Tobburéttar austari (sem er fast vestan við hann) má sjá hvernig mikil umferð í gegnum aldirnar hefur sett mark sitt á hraunhelluna.

23. Hrauntungustígur (Fjallgrensvarða)

Fjallgrensvarða

Fjallgrensvarða. Girðingarstaur á landamerkjunum sést í fjarlægð.

Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða við Hrauntungustíg á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þrem­ur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna eru þar skammt frá.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum segir m.a.: „Austur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
Hrauntungustígur virðist rangt stikaður á þessum slóðum.

24. Grásteinsgata (í Urriðakotshrauni)

Grásteinn

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Grásteinsgata lá frá Hraunsholtstúni til austurs með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum er fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun (Hafnarfjarðarhraun), framhjá Miðaftanshól og yfir núverandi Reykjanesbraut, en stígurinn er nú undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól (landamerki Urriðakots og Vífilsstaða), inn á Moldargötur og áfram eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun framhjá Grásteini að Kolanefi og þaðan á stíg upp með hlíðinni í Selgjá. Í gjánni voru 11 selstöður frá Garðabæjunum og sjást þar enn leifar þeirra.
Hluti gjárinnar, að vestanverðu, hefur nú verið friðlýstur.

25. Dauðadalastígur (ofan Helgafells)

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Á kortum er Dauðadalastígur sýndur koma frá austanverðu Helgafelli, inn í elsta Húsfellsbrunann frá því um 950 e.Kr. og síðan um eldri hraun er kom frá Grindaskörðum (1100 – 4000 ára). Síðan liggur hann um Tvíbollahraunið, niður á Hellnahraunið frá sama tíma um Dauðadali og eftir þeim til suðurs uns hann beygir upp með suðvestanverðum Markraka og fylgir honum síðan utanverðum áleiðis upp á Selvogsgötu. Eflaust hafa hellaopin í Dauðadölum litla athygli vakið fyrrum, enda voru ljóslausir ferðalangar ekki að gera sér sérstakan útúrdúr til að kíkja niður í slík „ómerkilegheit“ í þá daga. Nú sækjast ferðalangar einkum í litadýrð þessara hella (Dauðadalahella, Flóka o.fl.). Stígurinn kemur inn á Selvogsgötuna þar sem hún greinist annars vegar í leiðina að Kerlingaskarði og hins vegar í svo til beina stefnu að Grindaskörðum.

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Þegar gengið er um þetta hraunsvæði má, sem fyrr er lýst, sjá nokkur hraunskeið, s.s. hraun úr Grindaskörðum (1100-4000 ára gamalt, enda vel gróið líkt og sjá má í Grindarskörðunum sjálfum), Tvíbollahraunið (frá því um 950) og Hellnahraunið (rúmlega 2000 ára gamalt). Austar er Húsfellsbruni (frá svipuðum tíma og Tvíbollahraunið (950). Inni á millum er grágrýtismyndanir kaplatóarhæða (rúmlega 7000 ára gamlar). Efst, í bókstaflegri merkingu, trjóna Helgafells- og Húsfellsmóbergsmyndanirnar í norðvestri (eldri en 11000 ára). Í heildina er á svæðinu um að ræða einstaka jarðsögu (þ.e. ef fólk kann á annað borð að lesa úr henni). Ekki má horfa framhjá hinum stórkostlegu hraunreipsmyndunum í horfnum árfarvegi vestan Dauðadala.
Gatan var einkum notuð af rjúpnaveiðimönnum. Efst í Kristjánsdölum, skammt frá Selvogsgötunni, eru tóftir eftir hús þeirra.

26. Selvogsgata (Kaplatór)

Selvogsgata

Selvogsgata – rudd á kafla gegnt Kaplatór. Húsfell fjær.

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga. Ferðalangar fyrri alda hafa bæði mótað og sett spor sín á götuna sem liðast eins og farvegur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandartorfum og Kaplatór eftir varðaðri leiðinni um Hellur, upp í Grindarskörð (sem og Kerlingarskarð inn á Hlíðarveg) og áfram niður í Selvog um Hlíðardal og Strandadal.
Strandartorfur og Kaplatór voru kærkomnir áfangastaðir við götuna, enda báðir skjólgóðir og beitarvænir. Hlaðin varða trjónir yfir Kaplatór.
Miðkafli Selvogsgötunnar er vel varðaður og ruddur um úfnar hraunspildur á köflum. Þessi hluti götunnar, frá Grindarskörðum niður í Hafnarfjörð, notaður til flutnings á brennisteini úr námum í Brennisteinsfjöllum um skeið á seinni hluta 19. aldar.

27. Kerlingaskarðsvegur/Selvogsgata (gatnamót við Bláfjallaveg)

Selvogsgata

Selvogsgata um Grindarskörð og  Kerlingarskarðsvegur um Kerlingarskarð.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur eins og heimamenn í Selvogi nefndu leiðina) lá á millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Gatan er enn vel greinileg þar sem hún liggur upp frá Strönd í Selvogi, upp Selvogsheiði um Strandar- og Hlíðardal, yfir Hvalskarð og áfram að Grindaskörðum austanvert við Konungsfell (síðar Kóngsfell) þar sem undirlendið að Hafnarfirði blasti við.
Fyrir neðan Grindaskörð, við bílastæði neðan sæluhúss, sem þar er, eru gatnamót. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu áratuga hafa gjarnan frá þeim stað fetað aðra götu, sem brennisteinsmenn notuðu á leið sinni upp í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum í lok 19. aldar og Hlín Johnson lét síðar áframleggja niður að Hlíð við Hlíðarvatn, þ.e. upp Kerlingarskarð. Ofan þess hefur síðan vörðum frá því um miðja síðustu öld verið fylgt niður að Hlíðarskarði – og leiðin síðan jafnan verið kynnt sem hina einu sanna “Selvogsgata”.

Selvogsgata

Grindaskarðavegur.

Í rauninni er um þrjár götur að velja og er “túrhestagatan” nýjust. “Túrhestagatan” er seinni tíma “gata”, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna í þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn vera “sú eina” millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar önnur.
Tvær vörðuleifar eru enn á þessum hluta Selvogsgötunnar ofan gatnamótanna, en annars er yfir slétt mosavaxið helluhraun að fara áleiðis upp í Grindaskörð. Leiðin sú er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum; áningarstöðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Við það mótar enn fyrir jarðlægum tóftum.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðingum. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir það þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 80 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.

Grindarskörð

Grindarskörð og Kerlingaskarð.

Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður er liggur niður að Hrauni í Ölfusi.
Ofan Litla-Kóngsfells er varða og flöt uppsett hraunhella. Hvorutveggja eru merki um ofanverð gatnamót Selvogsgötu og Hlíðarvegar. Skammt vestar er vatnsstæði. Sunnan Hvalsskarðs þverast göturnar af Stakkavíkurselsstíg, sem liggur sem leið liggur niður að Stakkavík um Selstíg. Vestan við Hvalhnjúk taka við Vestur-Ásar.
Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrúnina. Þegar á brúnina kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist allnokkuð. Af henni blasir við undirlendið allt sem og hafið svo langt sem augað eygir til suðurs.

Sjá meira um ratleikinn HÉR.

Selvogsgata

Selvogsgatan að morgni dags.