Færslur

Hlíðarborg

Stekkir voru nánast við hvern bæ á Reykjanesskaganum, stundum fleiri en einn. Stekkir í seljum voru jafnan tiltölulega litlir. Endurspegluðu þeir fjölda fjár á hverjum tíma. Eftir að hætt var að hafa fé í seli voru stekkir hlaðnir nær bæjunum. Flestir voru þeir svolítið stærri en hinir. Enn má víða sjá leifar af hlöðnum stekkjum og slíkir uppgrónir eru ekki allfáir. Upp úr sumum þeirra voru hlaðnar fjárborgir. Nokkur dæmi eru um að hlaðnar hafi verið réttir við hlið stekkjanna eftir að fráfærur lögðust af, s.s. við Garðastekk, Óttarsstaðastekk og Þorbjarnarstaðastekk. Gjarnan er bent á réttirnar sem stekkina fyrrum, en svo er alls ekki fyrir að fara. Sennilega er það vegna þess að gömlu grónu stekkirnir eru í dag orðnir ógreinilegar fyrir augum ókunnugra.

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Garðastekkur er sunnan undir jaðri Garðahrauns. Hann er orðinn gróinn og líkist fremur aflangri húsatóft en stekk. Ef vel er að gáð má sjá tvíhólfa skiptingu í tóftinni; annað fyrir ær og hitt fyrir lömbin. Austan við stekkinn er nú hlaðin fjárrétt, sem oftar en ekki er nefnd Garðastekkur. Uppi á hraunbrúninni er gömlu fjárborg, sennileg frá stekkstíðinni.

Garðastekkur

Garðastekkur efst til hægri.

Óttarsstaðastekkur er norðan undir Miðmundarhæð. Á hæðinni er Miðmundavarða, eyktarmark frá Óttarsstöðum. Stekkurinn er algróinn, en þó vel greinanlegur. Hann hefur verið að svipaðri stærð og Garðastekkur. Vestan við stekkinn er grjóthlaðinn rétt með lambakró/lambhúsi innanvert.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – stekkurinn er hægra megin við réttina.

Þorbjarnarstaðarstekkur, oftast nefndur Stekkurinn, er norðan undir Stekkatúnshæð. Þar var Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Gamli stekkurinn sést enn vel, hlaðinn úr grjóti, en nokkuð gróinn. Gerðið er sunnan við stekkinn. Vestan við stekkinn var síðan hlaðin rétt. Innst í henni er lambakró.
Hér á eftir verður lýst verklagi í og við stekkinn forðum.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur.

Stekkur
Stekkir voru venjulega hlaðnir úr grjóti, en líka úr torfi og grjóti. Í stekknum var stíað. Hann var tvískiptur og var lengri á annan veginn. Stundum voru náttúrlegar aðstæður nýttar til stekkjargerðarinnar að hluta. Yfirleitt var stekkurinn ekki langt frá bænum eftir að selstöðurnar lögðust af í lok 19. aldar, kannski í 10.-15 mín. fjarlægð. Stekkurinn var tvískiptur; annars vegar fyrir ærnar, sem mjólka átti, og hins vegar fyrir lömbin eftir að stíað var frá. Lambhús var sumstaðar fyrir endanum á stekknum, hlaðið úr torfi og grjóti, þó aðallega úr grjóti. Ekki var ræktað tún í kringum stekkinn en þar greri upp og varð grænna en annars staðar, vegna húsdýraáburðarins.

Stekkjatíð

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stíað var í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum. Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en ekkert sérstaklega smalanum. Börnum var bannað að kyssa lömb, því að þá gat tófan bitið þau.

Kvíar

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur. Stekkurinn efst vinstra megin.

Kvíað var í fjárrétt sem hlaðin var úr grjóti. Í einum dilknum í réttinni voru kvíærnar mjólkaðar. Fyrir dilk var sett grind og hann síðan kallaður kvíar. Réttin var notuð til að rétta í henni um haustgöngur og við rúning á sumrin. Oft var réttin líka fyrir nærligghjandi kot eða bæi. Mikil for var í gólfinu og lausagrjót saman við. Réttin var skammt utan við tún og var aðeins nokkurra mínútna gangur þangað. Taðið var ekki hreinsað út, enda mikið grjót saman við úr gólfinu en þetta greri upp strax og hætt var að mjólka.

Komið er heim á kvíaból
kýrnar, féð og smalinn.

Nátthagi

Óttarsstaðastaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Yfirleitt var nátthagi skammt frá stekknum eða kvíabólinu, stundum fleiri en einn. Nátthaginn var skjólgóð hvylft eða lægð í landslaginu. Hlaðið skjól fyrir smalann var við suma nátthaga eða lagaður hraunskúti.

Mjólkurær og lömb

Þórustaðaborg

Þórustaðir – stekkur.

Lömbin voru u.þ.b. mánaðar gömul þegar fært var frá. Málbærar voru þær ær kallaðar sem báru á réttum tíma. Misjafnt var hvort fært var frá öllum málbærum ám. Frekar var fært frá ám með gimbrum, því að fráfærulömb voru oftast sett á, svo og ám með sérlega stórum lömbum. Lömb sem fæddust seint voru kölluð síðborin lömb. Lambgotur voru þær ær sem báru dauðu, þær voru mjólkaðar ef þær voru heimavið til þess þær geltust ekki. Þegar vanið var undir var bjórinn tekinn af dauða lambinu og settur á lambið sem venja átti undir. Ef ær týndi lambi og það fannst ekki var yfirleitt erfitt að venja undir hana, var þó stundum reynt að taka hana inn með lambinu. Lömb sem villtust undan voru kölluð frávillingar og þau sem þrifust illa voru kölluð vanþrifalömb.

Fráfærur

Ás

Ás – stekkur.

Fráfærur var notað um atburðinn að færa frá og tímann sem ær voru mjólkaðar í kvíum. Þegar fært var frá var rekið inn í stekkinn og lömbin sett út. Á óþæg lömb sem ekki vildu fylgja hópnum var snúið saman lambahaft úr ull. Það var sett á framfæturna og var hvert haft bara notað einu sinni. Lömbin voru höfð heima hálfa aðra viku. Voru þau ýmist höfð inni eða setin, þar sem ærnar heyrðu ekki í þeim meðan þau voru að spekjast, annars var hætta á að þau týndust. Síðan voru þau rekin á afvikinn stað í nágrenninu, oft í dalkvos. Geldfé var ekki rekið á fjall með lömbunum, það fór fljótt eftir rúning. Staðurinn sem lömbin voru rekin í var kallaður afrétt. Lömb voru ekki setin á afréttinni. Í undantekningatilfellum voru lömb kefluð.

Hjáseta

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.

Starfið að sitja yfir, kallaðist hjáseta. Orðið búsmali var gjarnan notað um smalann. Sá sem sat yfir fénu á sumrin kallaðist smali. Yfirleitt var eitthvað af börnum húsbónda látið sinna smalastarfinu. Ekki fékk smalinn neitt sérstakt sumarkaup, né önnur hlunnindi fram yfir önnur börn á heimilinu. Smalinn hafði með sér hund ef hann var við og það sem til féll í nesti, bar hann með sér í smápoka. Sniðugir smalar komu sér upp afdrepum. Þeir leituðu sér skjóls í skútum og ef vont var hrófluðu þeir stundum hærra, gömlum tóftarbrotum til að skýla sér í en reftu ekki yfir. Smalar voru notaðir í ýmsa aðra snúninga sem til féllu. Smalar urðu að passa að koma með allt féð heim að kveldi og að láta það ekki vera of þétt saman meðan því var beitt. Setið var yfir fénu frá því um níuleytið á morgnana til níu á kvöldin, fram að mánaðamótum ágúst-september. Setið var yfir í öllum veðrum. Smalarnir fundu út hvað tímanum leið eftir því hvar sólin var stödd. Þegar hún hvarf innundir var orðið framorðið og mál að halda heim. Eftir mjaltir voru ærnar bældar. Þá var orðið áliðið og mál fyrir smalann að fara að sofa.

Kvífé

Smalaskjól

Smalaskjól.

Efnahagur fólks var ógjarnan miðaður við eign í kvífé. Þó voru dæmi þess. Mylkar ær í kvíum kölluðust kvíær. Ær sem sóttu í tún voru kallaðar túnarollur og oft þurfti að vaka yfir túninu til að verjast þeim. Oft var eitur sett í gömul hræ út á víðavangi fyrir tófuna en því var hætt vegna þess að það kom fyrir að hundar drápust af eitrinu. Farið var á greni á vorin til að drepa tófu. Bjöllur voru ekki hengdar á kvífé en þær voru oft hengdar á forystusauði til þess að sauðamaðurinn ætti hægara með að fylgjast með fénu.

Mjaltir

Smali

Smali við færikvíar.

Notaðar voru blikkfötur og tréfötur við mjaltir. Þær voru svipaðar að stærð, c.a. 10 lítra. Þær voru hvorar tveggja heldur víðari að ofan en neðan. Föturnar voru ekki misjafnar að stærð en þær voru nokkuð margar í brúkinu í einu. Þær voru kallaðar skjólur. Eftir að mjólkin hafði verið borin úr kvíunum var hún látin í trébakka, mjólkurbakka. Mjólkin var látin standa í sólarhring, síðan var tappinn tekinn úr og undanrennunni hleypt niður um gatið. Rjóminn var eftir og var strokkað úr honum smjör. Sauðasmjör var feitara og hvítara en kúasmjör og mjög ljúffengt. Undanrennan var soðin og saman við hana látinn hleypir og þéttir. Hleypirinn var búinn til þannig að vinstur úr kálfi var hreinsað og þurrkað og látið síðan í bleyti. Lögurinn af því var notaður sem hleypir í skyrið. Í þéttinn var notað fínt skyr. Undanrennunni var hellt heitri í tréílát sem kölluðust skyrbiður. Þegar mjólkin var mátulega volg var hleypinum og þéttinum bætt í . Skyrbiðurnar voru úr tré, talsvert viðari en venjulegar fötur og tóku 20 til 30 lítra. Eftir sólarhring var skyrið síað. Á kvíarnar var farið í verstu fötunum sem til voru, gömlum flíkum sem hálfpartinn var búið að slíta. Þau voru ekki kölluð neitt sérstakt. Við mjaltir stóðu konurnar hálfbognar fyrir aftan ána og héldu með vinstri hendi utan um júgrið og mjólkuðu fyrst annan spenann með hægri hönd og síðan hinn. Þær studdu löngutöng öðru megin við spenann og hreyfðu hana ekki en með þumalfingri struku þær mjólkina niður úr spenanum.

Venjulega var mjólkað í tveimur umferðum, fyrst obbinn af mjólkinni, síðan var hreinsað. Þær voru kallaðar fyrirmjölt og eftirmjölt. Ekki þurfti að merkja ærnar, því að þær stóðu alltaf í sömu röð. Kvíamjöltum var hætt í byrjun september. Síðasta mjöltunin kallaðist að hreyta. Stundum var kúamjólk blandað í sauðamjólk í vinnslu. Þegar fé barðist, vissi það á veðrabreytingar. Þegar ær leituðu heim var sagt að það legðist vont í þær.

Fráfærur felldar niður
Fráfærur voru víðasthvar felldar niður fljótlega eftir 1920. Þá var farið að rækta meira landrými og hægt var að fjölga kúm. Fólk var að mörgu leyti fegið þessu, frjálsræði þess óx og lömbin urðu vænni og fallegri.

Mjaltarstúlka

Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.