Tag Archive for: Pálshús

Garðar

Í Fornleifaskráningu fyrir Garðabæ árið 2009 segir m.a um Garða á Garðaholti, Ráðagerði og Nýjabæ:

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Kirkjustaður. Hóll var hjáleiga 1803. 1307: „ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allann vidreka og hvalreka fra Ranganiogre og [i] Leitu kvenna bása. ad kalftiorninga fiouru.“ DI II, 362. 1367 átti kirkjan allt heimland, Hausastaði og Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Harunasholt og Hjallaland, auk þess afrétt í Múlatúni – DI III, 220 sbr. 1397 – DI IV, 107-108. 1558: Var kirkjujörðin Hlið lögð til Bessastaða en Garðar fengu í staðinn Vífilsstaði DI XIII, 317. 1697 var staðurinn 60 hndr.
Hafnarfjörður á 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti ad Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2. Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …” (ÁG Saga Hafnarfjarðar I, 101). Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægtí hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum…” Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar (ÁG Saga Hafnarfjarðar I, 102-104). Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2.
1703: „Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.“ JÁM III, 181.

Garðar

Garðaholt – loftmynd 1954.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for.
Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.“ […] Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu „byggingar staðarins […] á bæjarhólnum austan kirkju […] ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu“ […] Örnefnalýsing 1976-7 hefur þetta: „Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]“.“

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ósá.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Í grein frá árinu 1904 […] segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn „þar sem Garðakirkja stóð“ kallaður „Kirkjuhóll“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir hins vegar: „Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.“ […] Núverandi kirkja var reist árið 1966.“

„Bygt í tíð og með leyfi Peturs Reyelssonar kaupmanns lengra inn í Garðastaðar landareign en Einarhús [sem var líklegast innan núverandi marka Hafnarfjarðar] af búandanum i Digranesi á Seltjarnesi, sem þessi búð brúkaði og skipi sínu þar hjá til fiskjar hjelt um vertíð orðlofslaust af staðarhaldaranum, so vítt menn vita. Búðin iggur nú í eyði síðan fiskiríið brást í Hafnarfirði,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703.
Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðar

Garðar árið 1900.

„Byggð nokkru síðar en Digranessbúð í tíð Knúts Storms kaupmanns í Hafnarfirði og með hans leyfi að menn meina. Stendur þessi búð álíka lángt inn í Garða landareign sem Digranesbúð. Brúkaðist hún og brúkast enn núi fyrir verbúð um vertíð af ábúandanum á Hólmi við Seltjarnarnes í leyfi kaupmannsins í Hafnarfirði, so framt menn vita, að vísu leyfislaust af staðarhaldaranum, og gánga þar við þessa búð tvö tveggja manna för jafnlega um vertíð,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðar

Garðar fyrrum.

„Út með Hafnarfirði í Garðastaðalandi standa þessi tóm hús: Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallna búð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð. Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthússmaðurinn soðningskaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskiríið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallandi fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðahorlt

Garðaholt.

„Út með Hafnarfirði í Garðastaðalandi standa þessi tóm hús: Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallnabúð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð.
Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthússmaðurinn soðningskaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskiríið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallandi fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðaholt

Stríðsminjar á Garðaholti.

„Hefur verið tómthús, fyrir átta eður tíu árum fyrst uppbygt. … Nú er þetta býli öldungiss eyðilagt og i tóftarbrot komið og byggist aldrei nema stór fiskiganga inn á Hafnarfjörð komi,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. „Sýslumaður nefnir eigi býli þetta, en jarðabækurnar telja hér 3 smábýli, sem sé Garða kirkjueign (Lángeyri, Bali og Skerseyri), en prestur nefnir Lángeyri eingaungu,“ segir jarðaskrá Johnsens frá 1847. „Balatún: Tún býlisins Bala. Er eiginlega í Garðahverfi, en þar sem hann er á Hrauninu verður hann hér með. Balatúngarður: Túngarður austan túnsins aðallega,“ segir í örnefnaskrá Hafnarfjarðar.
„Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún. .. Íbúðarhúsið, sem nú er, stendur u.þ.b. 100 m beint upp af, þar sem gamli bærinn stóð. Það var byggt um 1931. Fjós og hlaða eru skammt upp af húsinu. Fjárhús standa upp við veginn til Hafnarfjarðar,“ segir í örnefnaskrá Garðahverfis. Nákvæm staðsetning býli þess sem getið er í jarðabók er ekki þekkt, en samkvæmt lýsingu hefur það sennilega verið skammt frá hjalli sem er nú á þessum slóðum og er á hraunbrúninni.

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Í manntali frá 1801 er Litla Langeyri talin milli Skerseyrar og Stóru-Langeryrar og vor þar þá tvö heimili með 4 og 2 mönnum. Í sóknarlýsingu frá 1842 er Litla-Langeyri talin meðal býla á svæðinu milli Fiskakletts og Skerseyrar. „L[itla]-Langeyratún: Tún býlis er þarna stóð. Síðar Brúsastaðir. L[itlu]-Langeyrartúngarður: Garður af grjóti kringum býlið. L[itlu]-Langeyrarbrunnur: Brunnur í laut sunnan við Bæinn. Aðeins á Fjöru. “ Brúsastaðatún: 1890 var grafið í gömlu bæjarústirnar og kom upp brot af leirbrúsa. Þar af kom nafnið.“ segir í örnefnlýsingu Álftaneshrepps. 1901 voru 5 heimilismenn á Brúsastöðum en fyrir aldamótin hafði þurrabúðin verið í eyði um skeið. Tvö hús standa bæjarstæðinu og er mikið af grjóthlöðnum görðum umhverfis, flestir nýlegir en hugsanlegt er að sumir séu leifar af túngörðum frá 19. öld.

Sjóminjasafn

Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.

1703 segir um Skerseyri „Hjáleiga í Garðastaðarlandi hjer um XX ára gömul og hefur þetta býli samkvæmt því fyrst byggst eftir 1680 “ „2 heimili með 6 og 2 mönnum voru á Skerseyri 1801 en 1816 var þar aðeins eitt heimili með 4 mönnum. Skerseyri er talin meðal býla í sóknarlýsingu frá 1842“ SSGK, 206. Samkvæmt manntali 1845 voru enn 4 til heimilis á Skerseyri. Samkvæmt manntali 1901 bjuggu 5 heimilismenn þar. Haustið 1902 var Skerseyri í eyði en byggðist þó aftur skömmu síðar.
„Skerseyrartún: Næsta býli við L[itlu]-Langeyri. Þar var kýrgras eitt sinn og býlið hjáleiga frá Görðum. Skerseyrartúngarður. Hann lá um túnið. En við sjó horfinn í Mölina.“ segir í örnefnalýsingu. Hús með torfþaki stendur rétt við ströndina byggt inn í hól. Upphlaðin leið liggur meðfram suð-vestur hlið. Húsið er tvískipt og eru á því tveir inngangar sem snúa í suð-austur. Framhlið er úr við, norð-austur og norð-vestur hlið eru klappir og suð-vestur hliðin er hlaðin úr grjóti. Þetta er ekki bæjarhús en er trúlega tengd búskap. Ekki að sjá neitt á svæðinu sem gæti verið bústaður.

Völvuleiði

Á Völvuleiði 1999.

„Þegar kemur vestur fyrir Stifnishóla, er Skerseyrarmöl, og í henni er Skerseyrarvör.“ „Skerseyrarvör. Hún var þarna í fjörunni á sinni tíð. Niðurlögð [1964].“ Þar sem vörin hefur verið er hlaðin og steypt varða.

Í Fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Suðvestan til í Garðaholti, norðvestur af Völvuleiði, fannst við Fornleifaskráningu 1984 kofi og sunnan hans kálgarður.“
Í Fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Kofinn er ferhyrndur og utanmál hans 7,25×5 m. Hann er hlaðinn úr grjóti, norðausturhliðin grafin inn í hæðina og grasþak á honum. E.t.v. Hefur þetta verið kartöflugeymsla.“

„Hún lá vestan Balaklettanna,“ segir í örnefnalýsingu Hafnarfjarðar. „Balaklettur gengur í sjó fram innan (austan) við Balamöl Vestan við hann var lending frá Bala,“ segir í örnefnalýsingu Garðahverfis. Ekki er greinanleg manngerð, rudd vör vestan Balakletta, svo lendingin hefur verið náttúruleg. Balavör hefur verið um 50 m VNV af Balaklettsvörðu.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

„Segir í örnefnaskrá Hafnarfjarðar. Varðan er á klett við sjávarmál, um 50 m suður af unglegum hjalli sem stendur líklega nærri fyrrum bæjarstæði Bala.
Varðan er á hraunkletti í sjó fram, skammt norðaustur af er hraunið gróið grasi. Varðan er um 1,3 m á hæð og um 1 m í þvermál. Hún er hlaðin úr hraungrýti og steypt er á milli umfara. Varðan er brotin að ofan og hefur því verið hærri áður fyrr.

Garðar

Garðar og nágrenni – örnefni. ÓSÁ.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakortinu 1918 má sjá gamla grafreitinn í Görðum rétt suðvestan við kirkjuna og bæjarhúsin. Skv. Örnefnalýsingu 1958 er Garðakirkjugarður neðan bæjarins, upp af þurrabúðinni Hól: „Þarna er svæði slétt upp að kirkjurúst, en á það vantar nöfn.“ […] Skv. Örnefnaskrá 1964 lá hann „neðan kirkjunnar og bæjarhúsanna“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: ,,Gamli kirkjugarðurinn er sunnan kirkjunnar og íbúðarhússins. Hann hefur nú verið stækkaður til vesturs.“ […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er kirkjugarðurinn beint niður og vestur af núverandi bæjarhúsum „girtur grjóthlöðnum garði“.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: „Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.“ […] Árið 1918 voru „um 40 minnisvarðar“ í Garðakirkjugarði.““ Ekki er þess getið í skráningu RT og RKT hvað gamli garðurinn sé stór, hvort hann hafi verið sléttaður eða hvort þar sjáist merki eldri kirkju.

„Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgði á leið til og frá Hafnarfirði.“ Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn horfinn.

Garðaholt

Garðaholt – götur og býli.

„Gardhus, hjáleiga fyrirsvarslaus samtýniss við hinar hverfinu.“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakortinu 1918 má sjá byggingu vestan við Garðatraðir og Garðahlið rétt innan túngarðsins, líklega svo nefnd Garðhús. Í Örnefnalýsingu 1958 er talað um hól vestur af Görðum ofan götu […] en skv. Örnefnaskrá 1964 var þetta „hjáleiga og þurrabúð“ upp við eða ,,vestan Garðahliðs“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Efst í Garðatúni, fast vestan við heimreiðina, eru gamlar tóftir af þurrabúðinni Garðhúsum.“ […] Fornleifaskráning fór fram 1984 og eru minjarnar neðan vegar rétt áður en kemur að „heimkeyrslu að Garðakirkju […]“ beint niður af spennistöð sem þarna er.“ „Þjóðvegurinn er beint upp af, tún niður af, að kirkjunni.“ Nokkru vestar kemur fram hluti af landamerkjagarði Garðalands og stefnir á Háteig.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Tóftin er ferhyrnd, mjög greinileg og virðist niðurgrafin. Hún skiptist í tvennt, innanlengdin 7 m að skilveggjum og 11,7 m frá honum, innanbreiddin um 3 m og veggirnir 1,5 m á breidd. Tóftin er full af grjóti, hefur nokkurn veginn sömu stefnu og vegurinn og vísar sú langhlið sem fjær honum er í suðvestur að Garðatúni. Fram af henni er eins konar bakki, e.t.v. Útlínur kálgarðsins sem þá er um 14 m breiður frá húsinu. Þetta kemur saman við Túnakortið sem sýnir aflangt torfhús með stefnuna norðvestur-suðaustur og áfastan kálgarð suðvestan megin.“

Bali

Bali – fjárhús.

Rúst af fjárhúsi er við gatnamót Garðavegar og afleggjarans sem áður lá að býlinu Bala. Umhverfis tóftina er grasigróið hraun.
Tóftin er hlaðin úr hraungrýti og er steypt á milli umfara, sem eru um 7. Veggjahæð er rúmlega 1,5 m og þykkt er milli 0,5 og 1 m. Hún er um 9 x 7 m að stærð og snýr NA-SV. Rústin er ferhyrnd og í henni eru tvö hólf, en vesturvegg vantar og hefur hugsanlega verið þil þar fyrir. Gólf eru steypt. Að líkindum er um rúst fjárhúss að ræða, en í örnefnaskrá segir að fjárhús Bala standi „upp við veginn til Hafnarfjarðar.“

„Skv. Örnefnaskrá 1964 tók Gálgahraunsstígur syðri við þar sem Dysjabrú sleppti. Hann lá austur frá Mónefi upp á Flatahraun við Hvítaflöt nokkru norðar, framhjá Oddsnefi og Bakkastekksnefi í hraunjaðrinum og um Gatnamót yfir í Engidal…Meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum eða fram til 1908 þurftu þeir að fara þessa leið en í miklum leysingum fóru þeir frekar Kirkjustíg síðasta spölinn,“ segir í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003.

Garðalind

Garðalind.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Garðalind er á Túnakortinu 1918 merkt inn beint suðvestur af Garðakirkjugarði þar sem túnið mætir mýrlendinu fyrir neðan, þ.e. Garðamýri […] Skv. Örnefnalýsingu 1958 er „við mýrarjaðarinn […] stór steinn, og hjá honum er uppspretta, sem heitir Garðalind.“ […] Í Örnefnaskrá 1964 er hún einnig nefnd Garðabrunnur: „Svo var aðalvatnsból hverfisins kallað. Lind með rennandi vatni góðu. Þar var brunnur grafinn undir stórum steini og hlaðin upp með tröppum niður að vatninu […] Þangað sótti allt hverfið vatn til fjóss og bæjar.“ Steinninn er kallaður Grettistak: „Mátti þar sjá fingraför Grettis er hann tók bjargið og færði í vegg brunnsins, lindarinnar.“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Garðalind er niður undir Garðatjörn, beint niður af bænum í Görðum. Stór klettur er yfir lindinni. Er hann nefndur Grettistak. Tvær, þrjár tröppur eru ofan að vatninu í lindinni. Í garðalind var sótt vatn frá mörgum bæjum í Garðahverfi og jafnvel öllum í miklum þurrkum. Aldrei þraut Garðalind, og þótti í henni bæði heilnæmt og gott vatn., Smálækur rennur frá lindinni.“ Samkvæmt Fornleifaskráningu 1984 er lindin beint niður af íbúðarhúsinu í Görðum, í vesturátt til sjávar, með grasbala ofan við upp að gamla kirkjugarðinum og blauta mýri framan við.“

Garðabúð

Garðabúð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Kletturinn liggur yfir lindinni eins og lok eða þak en nafnið Grettistak mun frekar ungt. Í Fornleifaskýrslu sinni um Garða árið 1820 lýsir séra Markús Magnússon þessu allnákvæmlega: ,,Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestsetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu ein og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum svo að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú, eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann.“ […] Árið 1984 kemur vatnið enn undan þessu stóra bjargi sem skrásetjari kallar ,,framhlið vatnsbólsins en bárujárnsþak, þakið torfi hefur verið reist aftan við það […] Byggt hefur verið utan um vatnsbólið – hlaðið múrsteinum – ferhyrnt lítið (dælu)hús sem gengið er inn í um dyr að sunnan“, um 1,8x2m að stærð og 1,2 m á hæð. Vatnsrásin sem einnig sést á Túnakortinu liggur líkt og áður í átt til sjávar en út í skurð og meðfram henni á um 4rra m kafla næst steininum eru hlaðnir veggir. Dæluhús og seinni tíma hleðslur hafa síðan hrunið utan af lindinni sem varðveist hefur óskemmd með klettinum yfir.“

Garðaholt

Garðaholt – Götur.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Nokkru suðaustan Sjávargötu, milli samnefndrar leiðar og Garðalindar og ofan mýrlendis, er á Túnakortinu 1918 tvískiptur Kálgarður. Öðrum heimildum ber saman um að þarna sé hið gamla stæði Hóls, hjáleigu og þurrabúðar frá Görðum eða eins og segir í Örnefnalýsingu 1958: ,,Við mýrarjaðarinn er […] uppspretta, sem heitir Garðalind. Aðeins utar er Hóll.“ […] Skv. Örnefnaskrá 1964 stóð hann ,,neðar en Sjávargata í Garðatúni […] niður undir Garðamýri […]“ […] og í Örnefnalýsingu 1976-77 er sagt svona frá: ,,Hér áður voru tveir bæir niður við Garðatjörn, vestast og neðst í Garðatúni. Hét sá eystri Hóll, og voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.“ […]“

Garðaholt

Garðaholt.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Í Jarðabók 1703 segir: „Heimræði er árið um kríng og lending góð, og var hjer útræði hið besta meðan fiskur var á Hafnarfirði. Gánga hjer skip staðarhaldarans árið um kring eftir hentugleikum. Engin inntökuskip hafa hjer nýúngu gengið en mega þó vera, því að varir eru nógar.“ […] Skv. Örnefnaskrá 1964 var lending í Garðavör við Garðasjó, fjöruna sunnan Miðengisvarar. „Vörin var nokkuð mikil um sig, enda mikil útgerð oftast frá Görðum. Var ætíð talað um að róa eða lenda í Garðasjó, og sandhryggurinn eða sjávarkampurinn allt austur undir Bakka nefndur svo.“ Enn fremur er nefndur Garðagrandi en ..svo var sjávarkampurinn stundum kallaður mest allur“ eða „frá Miðengi suður að Bakka“ […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-77 er Grandi við sjóinn framan við Garðamýri […] en tveir bæir niður við hana ,,vestast og neðst í Garðatúni. […] Vestari bærinn hét Sjávargata.
Garðavör er neðan hennar, vestast á Granda.“

Garðar

Garðar – Móakot.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakortinu 1918 er bærinn í Háteigi beint norðvestan Garða, alveg upp við Garðatúngarð. Hann skiptist í fimm hús og er byggður úr steini. Girt er kringum tún hans en nokkru austar í því er hús sem gæti verið Ráðagerði. Bygginarefnið er skv. Fasteignabókum áfram hið sama 1932 […] en auk þess er nefnt timbur árin 1942-4 og húsið þá járnvarið […] Í Örnefnalýsingu 1958 segir að Ráðagerði sé neðar en Gata og „Háteigur í líkri hæð, svo Miðengi neðan undan Háteigi.“ […] Skv. Örnefnaskrá 1964 er Háteigur býli eða „hjáleiga frá Görðum litlu vestar en Ráðagerði“ og Háteigstún ,,nú sameinað Ráðagerðistúni.“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Býlið Háteigur er vestan Garða. Tún Háteigs liggur vestan Garðatúns, alveg niður að sjó. Íbúðarhúsið stendur efst í túninu, rétt fyrir neðan garðinn (þ.e. garðinn“ […] þ.e. túngarðinn.“

Garðahverfi

Garðaviti.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Á háholtinu er viti, Garðaviti. Þar var áður torfvarða og kveikt á lukt.“ […] Örnefnaskrá 1964 bætir við: „Hann mun hafa verið reistur um 1870. Hann stóð á holtinu norður frá Garðahliði.“ […]. Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Á klöpp fyrir ofan Háteig var viti hér áður, Garðaviti.“ […] Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóftir séu „uppi á háhólnum […] svo til beint upp af Háteigi“, alveg við veginn, ofan og austan hans og er hæðin grýtt allt um kring.“
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: ,,Leifar sjást af tveimur tóftum hlið við hlið og virðast þær samfastar. Sú austari er stærri og greinilegri, innanmálið um 5,8 x 2 m. Hún er nokkuð niðurgrafin og um 1,1 m á dýpt. Stefnan er norður-suður. Sú vestari er öll ólögulegri, um 2,5 x 2 m að innanmáli […] Vitinn var í notkun sem ljósgjafi á tímabilinu 1868-1912 […] Tryggvi Gunnarsson í Grjóta (f.1899) mundi eftir honum og sagði hann hafa verið notaðan sem mið af sjó fyrir fiskibáta en á stríðsárunum notuðu Bretar hann sem virki. Húsið var síðan „selt og flutt heim að Hlíð, þar sem það var notað sem kamar“.“

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Nokkru norðvestan við kirkjuna sýnir Túnakortið 1918 garð. Hlaðnir veggur liggja kringum hann upp að girðingu sem skilur milli Garða annars vegar, Háteigs og Ráðagerðis hins vegar. Þetta hlýtur að vera niðursokkni grjóthlaðni garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1984 og vísar eins og á Túnakortinu í norðvestur frá Garðakirkjugarði, „út að girðingu við Ráðagerði“. Hann beygir síðan í horn til vesturs.“

Móslóði

Móslóði.

„Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó. Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar.“ segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist
Fógetagötu í miðju hrauninu.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Við Lambhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim. … Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirra var lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessir klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.“ Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Við fornleifaskráningu 1984 segir að þetta sé í úfnum norðvesturhluta Gálgahrauns, um 650 m í norðnorðvestur frá fjárborginni og um 10 m yfir sjávarmáli: „Klofinn hraunklettur – 2 m bil þar sem mest er – á milli gjábarma.“ […] Gálgaklettar eru þó fjarri þingstað sveitarinnar í Kópavogi og heimildir eru ekki þekktar frá fyrri öldum um aftökur á þessum stað.“

Garðastekkur

Garðastekkur.

„Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta,á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ segir í örnefnalýsingu. Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft.
Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar.
Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11 x 9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19x6m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5x5m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10x4m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftanúr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.

Eskines

Eskines – sjóbúðir.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Í endurminningum sínum frá 1968 segir Ólafur Þorvaldsson: „Hrauntanga þann, sem gengur fram í sjó, milli Arnarnesvogs og Lambhúsatjarnarinnar, hef ég frá æskuárum heyrt nefndan „Eskineseyrar“ og munu eldri nágrannar þessa staðar enn kannast við það nafn, þótt enginn viti nú, af hverju dregið er.“ Síðan segir hann frá kofarúst í hraunjaðrinum upp af Eskineseyrum: „Sögu þessa tóttarbrots hef ég frá fólki, sem mundi byggingu hennar og tildrög. Það mun hafa verið skömmu eftir komu séra Þórarins Böðvarssonar að Görðum, sennilega nálægt 1870 að honum kom til hugar, hvort ekki mundi kleift að rækta æðarvarp á Eskineseyrum. Séra Þórarinn mun hafa verið kunnugur æðarvarpi frá Ísafjarðardjúpi, áður en hann fluttist að Görðum, og hvort tveggja vitað, bæði um gagnsemi þess og það, að mögulegt væri að koma upp varpi, þar sem ekki var áður, ef aðstaða væri sæmileg og natni og kunnátta viðhöfð.

Eskines

Tóft af hænsnakofa við Eskines.

Þar eð Garðkirkja átti þetta land, og svo vildi til, að mjög skammt undan var mikið varpland, Bessastaðanes, og fugl fór mikið um sundið milli nessins og Eyranna, mun séra Þórarinn hafa talið ómaksvert að reyna, hvort ekki væri hægt að fá eitthvað af fugli, sem þarna fór um, til þess að taka heima á Eskineseyrum, væri eitthvað til þess gert, byggð hreiður og annað, sem fylgir þess konar starfsemi. Hann lét ekki við hugmyndina eina sitja, heldur lét hann byggja kofa þann, sem enn sést móta fyrir og flutti þangað karl og konu, sem búa skyldu í haginn fyrir æðarfuglinn. Einnig lét hann þau hafa með sér nokkur hænsn, þar eð talið var, að hænsn lokkuðu fuglinn að með vappi sínu úti við, ásamt söng hanans. Lítinn eða engan árangur mun tilraun þessi hafa borið og var því bráðlega hætt frekari tilraun í þessa átt, og hefur víst ekki síðan verið freistað að koma æðarvarpi upp á Eskineseyrum.“ […]. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: ,,Skammt fyrir innan Gálga byrja Vatnagarðar, en svo heitir hraunið með Lambhúsatjörn. […] Nokkru fyrir ausatn þá eru Eskineseyrar svokallaðar. Í hraunjaðrinum fyrir ofan Eskineseyrar byggði séra Þórarinn í Görðum kofa, er hann hugðist koma sér þar upp æðarvarpi. Rústir kofans sjást enn. Eskineseyrar ganga til austurs út í Arnarnesvog. […] Á Eskineseyrum er fjörumór.“ […]. Skv. Fornleifakönnun 1999 er kofinn í gjá ofan við Eskines […] Séra Þórarinn (f. 1825) var prestur í Görðum á tímabilinu 1868-95.“ Eskinesbyrgi er ekki nánar lýst í fornleifaskráningu RT og RKT.

„Vestur frá Húsafelli er gamalt fróðlegt eldfjall, sem heitir Búrfell. Vestur úr því gengur Búrfellsgjá. Í gjánni er hellir, sem heitri Búrfellshellir, ágætur fjárhellir,“ segir í örnefnaskrá. Búrfellshellir er sunnarlega í Búrfellsgjá nærri eldfjallinu. Hellirinn er við vesturbakka gjárinnar og um 1,1 km sunnar í henni en Gjárrétt. Hellirinn er í fremur grónu hrauni.
Munni Búrfellshellis er 5-6 m breiður og um 3 m hár og snýr til suðurs. Hleðsla er fyrir munnanum og dyr á henni miðri. Hleðslan er mest 2 m há, 1 m breið og úr stóru til miðlungs hraungrýti. Dyrnar á hleðslunni eru um 1 m breiðar. Lofthæð hellisins minnkar þegar innar dregur og endar innst í um 1,2 m hæð. Hellirinn er um 9 m djúpur og víðast um 6 m breiður, en norðaustur úr honum liggur lítill afhellir, um 5 m djúpur og mest 2 m breiður. Sauðaskán er á hellisgólfinu.

Gjárrétt

Gjárétt.

„Við norðurenda Búrfellsgjár er gömul rétt, sem heitir Gjárrétt,“ segir í örnefnaskrá. Gjárrétt er merkt með skilti og er við göngustíg einna nyrst í Búrfellsgjá, um 320 m SSA af trébrú yfir Hrafnagjá við göngustíg.
Gjárrétt er á grónum hraunbotni Búrfellsgjáar, en Búrfellsgjá er á þessum slóðum breið og tiltölulega grunn.
Gjárrétt var hlaðin 1840 og var fjárskilarétt Álftaneshrepps til 1922, en eftir það var réttað í henni að einhverju marki allt til 1940. Réttin er þurrhlaðin úr miðlungs og stórum hraunhellum og eru í henni fremur fallegar hleðslur. Nokkuð eru hleðslurnar gengar til, en eru allt að 1,6 m þar sem þær eru hæstar og 8 umför. Þykkt veggja er 0,5 – 1 m. Hraunhleðslurnar eru grónar skófum og mosa. Réttin er nokkuð ferköntuð í laginu, u.þ.b. 35×25 m að stærð N-S og í henni eru 13 dilkar. Til suðausturs frá réttinni liggur nokkuð sigið garðlag, um 15-20 m langt, hæst 1 m (en víðast nokkuð lægra) og 0,5 – 1m breitt. Garðlagið liggur frá réttinni að öðru aðhaldi, við vesturbarm Búrfellsgjáar. Aðhaldið nýtir náttúrulega hraunveggi að norðan, vestan og sunnan, en austurveggurinn er hlaðinn úr hraungrýti og þar er inngangur. Austurveggurinn er um 25-30 m langur og liggur frá norðri til suðurs, og er inngangurinn skammt norðan við miðjan vegginn.
Hleðslan er hæst við innganginn, um 2,3 m, en annars er meðal hæð um 1 m og þykkt um 0,5 m. Veggurinn er fallega hlaðinn, en ráða má af skorti á skófum og mosa að þar sem hann er hæstur við innganginn, að hleðslan þar sé líklega nokkuð nýrri en annarsstaðar. Að innanmáli er aðhaldið allt að 20×20 m og innst (eða vestast) í því er hlaðið byrgi við náttúrulegan hraunvegginn. Vestast í aðhaldinu slútir hraunbrúnin fram til austurs og myndar grunnan helli, sem byrgið hefur verið hlaðið við. Hleðslur mynda norður-, austur- og suðurveggi byrgisins, en loft og vesturveggur eru náttúrulegir. Þar sem hleðslan er hæst og minnst tilgengin, nær hún enn upp í hið náttúrulega þak byrgisins, alls um 3 m og er 18 umför. Annars er hleðslan að nokkru leyti gengin til.
Á suðurvegg byrgisins og undir skyggni hraunbakkans eru dyr, um 1,5 m háar. Aðrar dyr, um 1 m háar, eru á austurvegg byrgisins, en austurveggurinn er afar breiður svo allt að 3 m löng göng liggja frá eystri dyrunum inn í byrgið. Sauðaskán er á gólfi byrgisins. Alls er rústasvæðið, réttin, garðlagið og aðhaldið, rúmlega 50 x 50 m að stærð

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

„Sunnan réttarinnar heita Garðaflatir. Þar mun hafa verið sel. Ef til vill eru Norðurhellarnir hér nálægt, enda eru hér miklar rústir uppi í brekkunni,“ segir í örnefnaskrá. Selrústin er á Garðaflötum austanverðum, í lágri brekku, um 660 m SA af Gjárrétt.
Kenningin í örnefnaskránni um að Norðurhellar kunni að vera nærri Garðaflötum er hinsvegar röng, því þeir eru mun norðar, eða norðan við Selgjá sem er aftur norður af Búrfellsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ selið hefur verið, en það er um 9,4 km frá bæ á Görðum.
Garðaflatir eru grasigrónar og þýfðar, en norður og vestur af þeim er mosavaxið hraun og melur suður og austur af. Einföld, nokkuð stór tóft er greinileg og um 5 m norðaustur af henni eru mögulega frekari rústir. Tóftin er um 10 löng og 5 m breið og snýr NV-SA. Hún hefur að líkindum verið hlaðin úr torfi og grjóti, en einungis glittir þó í grjót sitthvoru megin við innganginn að norðvestan. Tóftin er sigin, mest um 0,5 m á hæð en víðast nokkuð lægri og eru veggirnir útflattir og ríflega 2 m breiðir. Tóftin er algróin sinu og lyngi. Um 5-10 m norðaustur af tóftinni er möguleg rúst annars mannvirkis, en þó er það afar óljóst. Helst er sem greina megi vegg sem snýr eins og tóftin og svipað langur henni, en afar siginn og alveg yfirgróinn og ekki sést í grjót.

Vatnsgjá

Vatnsgjá í Búrfellsgjá.

Vatnsgjáin er sprunga í hrauninu í botni Búrfellsgjár, um 50 m NNA af Gjárétt 048 og er merkt með skilti.
Vatnsgjáin er vatnsból réttarinnar. Brunnurinn er náttúrulegt vatnsból í sprungu í Búrfellsgjá og er nauðsynlegt að fikra sig um 6 m niður þrönga sprunguna eftir einstigi til að nálgast vatnið. Þrep hafa verið hlaðin til að auðvelda ferðina niður í brunninn.

„Skiemma, útihús heima við staðinn í Görðum. Hefur um fáeina tíma ljeð verið manni einum til íbúðar, so sem hjáleiga og fylgdi því þá grasnyt sú, er nú er með hjáleigunni, er Garðabúð heitir, og var hún óbyggð á meðan Skemma bygðist so sem getið er áður við Garðabúð.“ Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skemma var skv. Jarðabók árið 1703 „útihús heima við staðinn í Görðum“ sem um tíma var leigt „manni einum til ábúðar“. Skemmu fylgdi sama grasnyt og seinna hjáleigunni Garðabúð sem kom í stað hennar.“

Garðar

Garðar – Höll.

„Óskarbud. Tómthús. Stendur í Garðastaðar landi og er uppbygð af Jakob Bang … Og bygð einnri konu að nafni Ósk, sem hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varníng. Síðan hafa sjer eignarráð yfir búðinni tiltekið Bessastaðamenn og hafa þar látið gánga kóngsbáta, stundum tíu, stundum fleiri, stundum færri, item inntökuskip fyrir undirgift eður annan góðvilja meðan fiskiríið var gott í Hafnarfirði. Búðin stendur enn nú, en þó í auðn,“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar. Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Jarðabók byggði Jakob Bang, síðar sýslumaður í Árnessýslu, verbúð eða tómthús í landi Garða, í valllendi nálægt Dysjamýri […] Hún var uppistandandi árið 1703 en óbyggð og ekki er greint nánar frá staðsetningu. Ekki er heldur minnst á tómthúsið í síðari heimildum.“ Í skráningu RT og RKT kemur fram að fornleifin sjáist ekki á yfirborði.
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Búðin var kend við Ósk, leigjanda Bang, sem „hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varníng.““

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Í bæjarstæði Hóls sýnir Túnakortið 1918 tvo samfasta kálgarða með hlöðnum veggjum og götuslóða á milli frá suðaustri til norðvesturs en skv. Örnefnalýsingu 1976-77 umgirtu þeir Hólsbæinn: „[…] voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.“ […].
Þetta virðist mega lesa úr lýsingu við Fornleifaskráningu 1984: „Þarna er allhár, greinilegur hóll með miklu grjóti í. Enga lögun tófta sér í honum.“ Hóllinn er um 16 m á lengd og 11,5 á breidd með stefnu norður-suður. Bakki liggur um 14 m suður úr honum, líklega hluti byggðaleifanna.“

Brúsastaðir

Brúsastaðir – uppsátur.

Tóft er við sjávarmál um 50 m suður af Brúsastöðum. Hún er byggð utan í klappir alveg við sjóinn. Hlaðið úr grjóti og að hluta styrkt með sementi.

Gata liggur til austurs, yfir hraunið. Að hluta byggð upp úr hraungrýti.

Þrír steyptir grunnar, trúlega braggar, eru sitthvoru megin við Herjólfsgötu, sunnan við þar sem hún mætir Garðavegi og Herjólfsbraut. Á hæð, um 500 m frá sjó. Hver grunnur um sig er um 14 x 35m, með steyptum veggjum 0,5-2m á hæð. Snúa allir norður-suður og hafa innganga á báðum endum. Búið er að setja upp körfuboltakörfur á mið grunninn.

Gönguhóll

Gönguhóll (Sönghóll), austan Langeyrarmala.

„Þegar komið er yfir Gönguklif, taka við Langeyrarmalir, og þar vestar er Rauðsnefstangi. Þar var eitt sinn hvalstöð, en lagðist niður vegna þess, að þar kom fyrir slys.“ segir í örnefnalýsingu. Rauðsnefstangi er mjög óslétt hraungrýtt svæði. Þar eru tvær litlar tjarnir, um 20 m frá sjó. A m k 7 litlar (3x5m) grjóthlaðnar tóftir eru á þessum stað, og grjóthlaðnir garðar á milli. Ein tóft stendur enn með þaki og timburstoðum.

„Hammershússlóð: Hún lá sunnan við Rauðsnef undir húsi sem Hvalfangarinn norski Hammer reisti þarna um 1860. Hér átti að verða Hvalstöð, en hætt var við það.“ Þetta hús hefur verið á sama svæði og eða heldur sunnar. Enginn húsgrunnur er þó þar.

„Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.“ segir í örnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hrauið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðusrs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna.

Garðagata

Garðagata – kirkjuvegurinn. Mæðgadysin fremst.

Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið. algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn.

Garðar

Krókur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir; „Á Túnakorti 1918 má sjá bæjarstæði Króks, austan Garða, alveg upp við túngarð og er girt kringum tún býlisins. Sunnan við Krók er Nýibær. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.“ […] Skv Örnefnaskrá 1964 var Krókur „hjáleiga og stundum þurrabúð frá Garðastað, suður með Garðatúngarði […] Krókstún: tún býlisins, ekki ýkjastórt, en þó nytsamt“ […]. Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Fyrir ofan Nýjabæjartún er túnið í Króki, og stendur húsið efst í því, rétt við veginn. Fjós og hlaða eru rétt austan þess. Samkomuhús er rétt ofan vegar, sunnan við Garðholtsveg (þ.e. veginn yfir Garðaholtið).““

Krókur

Krókur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir; „Árið 1918 samanstóð Króksbær af sex torfhúsum og snéru framgaflar með standþili suðvestur að Króksbrunngötu og garði. Við gerð Fasteignabókar 1932 var torfbærinn enn uppistandandi […] en skv. Fornleifaskráningu 1984 var nýtt íbúðarhús byggt þremur árum síðar […], timburhúsið með járnvörðum veggjum sem tilgreint er í Fasteignabók 1942-4 […]. Þessi bær stendur enn með þremur bárujárnsklæddum burstum og var sú sem er í miðjunni raunar byggð upp úr gamla torfbænum árið 1923. Austurburstin er frá 1934 en þá hafa torfveggirnir sennilega verið teknir niður og vesturburstin er frá 1945. Bærinn stendur nánast óbreyttur frá 1950 og er sérstakt að hann hefur haldið svipmóti torfbæjar, einnig hvað herbergjaskipan varðar. Fjósið og hlaðan á bak við eru frá 1920-30. Nú hefur bærinn verið endurgerður og er til sýnis fyrir almenning. Krókur er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á fyrri hluta 20. aldar.“

Garðahverfi

Álftanesgata/Fógetastígur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í Fornleifaskýrslu um Garða 1820 segir Markús Magnússon: „Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestssetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestssetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. […] Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestsetursins, er 13 álnir að umfangi og 1 3/4 alin að hæð og liggur flatur. Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann. Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja í sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að sjórinn hafi fyrrum gengið svo hátt sem kletturinn stendur nú, fremur en að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan, því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.“ […] Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir svo séra Árni Helgason: „Hvorki blótsteina né Grettistök þekki ég hér, en einstakur steinn, mikill um sig, stendur fyrir vestan Garða, er sumir segja sé brimbarinn þeim megin, er veit frá sjó (hann er frá sjó meir en 100 faðma og 5-6 eða meir yfir sjávarborðið).“ […] Við Fornleifaskráningu 1984 er getið um „tvö björg“ vestur frá Görðum, um 18 m suðaustan Garðalindar, austan við Garðamýri og er tóft byggð utan í þeim, vestan megin. Þetta gæti verið kletturinn sem séra Markús nefnir.“

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 er skólahús beint vestur af Króki, nokkru utan Garðatúngarðs. Húsið er úr timbri og hefur stefnuna norðvestur-suðaustur. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.“ […] Þarna er nú samkomuhús [Garðaholt].“

Garður

Garður – Garðavegur liggur að Garðatröðum.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 má sjá traðir sem byrja vestan bæjarhúsanna í Görðum, milli þeirra og kirkjunnar og liggja beint norðaustur að hliði í Garðatúngarði.
Mun það vera Garðahlið eða Garðastaðarhlið sem skv. Örnefnaskrá 1964 var Aaðalhlið á Garðatúngarði beint upp frá staðnum“ en frá því lágu Garðatraðir „heim á hlað milli staðarhúsa og kirkjunnar“.“ Ástandi traðanna er ekki lýst í skráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Rétt austan Háteigsbæjarins sýnir Túnakortið 1918 tvö hringlaga mannvirki sem gætu verið brunnar. Einhver punktalína liggur frá bænum framhjá þeim að Garðatúngarði en greinileg gata er þar ekki. Í Örnefnaskrá 1964 er þó minnst á Háteigshlið í garðinum […]“ Ekkert er sagt til um ástand minjanna í fornleifaskráningu RT og RKT.

Garðahverfi

Háteigur 1915.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakortinu 1918 er garður suðvestan megin framan bæjarhúsa í Háteigi, líklega sami og lýst var við Fornleifaskráningu 1984 „suðvestur af húsinu“ og var enn notaður. Garðurinn er grjóthlaðinn, nær upp í 1,2 m hæð og er um 17 x 48 m að stærð, með stefnuna norðvestur-suðaustur […]“

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 er tvíhólfa útihús úr torfi, upp við landamerkjagarð suðvestan Háteigs, miðja vegu milli hans og Miðengis. Gata er ekki sýnd milli bæjanna en e.t.v. Eru þetta samt gripahús sem skv. Örnefnalýsingu 1976-77 „eru aðeins vestar og neðar en íbúðarhúsið [í Háteigi], við veginn niður að Miðengi.““ Ekki er frekari lýsing á ástandi minjanna í fornleifaskráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: „Garðlag er og þvert yfir Garðahverfi sem skiptir því í austur og vestur hverfið. Fleiri garðlög finnast, er sýna, að hér eru tún forðum útgrædd upp í Garðaholt.“ […] Hér mun átt við Garðatúngarð sem skipti milli Garðatorfunnar meðfram sjónum og nytjalands hverfisins fyrir ofan. Á Túnakorti 1918 má sjá hvar hann liggur frá suðaustri til norðvesturs meðfram túnum bæjanna Dysja, Pálshúsa, Nýjabæjar, Garða, Ráðagerðis, Hlíðar, Hausastaðakots og Hausastaða. Hann byrjar við Balatjörn og endar við Skógtjörn. Skv. Fasteignabókum er enn túngarður við allar jarðirnar árin 1932-44.“

Garðar

Garðar – túngarður, og Hlíð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Garðatúngarður: Þetta var mikill túngarður, hlaðinn af grjóti. Lá neðan frá Dysjamöl við Balatjörn norður allt að Skógtjörn. Girti þannig af alla Garðatorfuna með hjáleignatúnunum. Séra Markús stiptprófastur Magnússon lét hlaða þennan garð á síðari hluta 18. aldar. Var það mikið mannvirki.“ […] Þegar garðurinn var lagður voru um leið fjarlægðir aðrir garðar sem voru ,,vítt um túnin ofanverð, og munu hafa verið nokkurs konar varnargarðar um akurreiti, þegar akuryrkja var stunduð […]“ Talað var um Austurgarð austur frá Garðahliði en Vesturgarð vestur frá því. […] Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður. Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta. […] Ætla má að allir íbúar garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari. Annars staðar á landinu eru varðveittir langir garðar sem varið hafa heilu byggðalögin og má nefna Skagagarð á Garðskaga og Bjarnagarð í Landbroti. Í Grágás eru lagaákvæði um byggingu slíkra garða og segir þar að Löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnir og faðma“.“

Garðar

Garðar 2021.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Mýrarhús hét skv. Jarðabók „hjáleiga í óskiftu Garðastaðalandi“ sem var komin í eyði árið 1701 en hafði verið byggð í 60 ár eða lengur. 35 álna landskuld hafði goldist í fiski í kaupstað og eitt kúgildi í fiski eða smjöri til Garða. Grasnautnin fóðraði kúgildið en hana brúkaði síðan staðarhaldarinn. […] Hjáleigunnar er ekki getið í síðari heimildum og hefur e.t.v. ekki byggst aftur. Af nafninu að dæma hefur hún verið staðsett nálægt mýri, trúlega Garðamýri […] en þar nokkru sunnar en Sjávargata og Hóll er greinilegur tóftarhóll.“

„Svo voru göturnar meðfram hrauninu úr Engidal í Vikið,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. „Moldargöturnar lágu vestan við Troðningana við Hraunsholtslæk og upp með Gálgahrauni að norðaustan, þvert suður frá vesturenda Troðninga,“ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar, göturnar eru jafnframt sýndar á korti á bls. 6 í sömu bók. Moldargötur voru áður fyrr austur af Garðahrauni og Gálgahrauni og vestur af því svæði sem Ásahverfið nú byggir. Á þessari landræmu sem snýr nokkurn veginn N-S frá Engidal norður í Hraunsvik, er nú gatan Hraunsholtsbraut og vestan við hana, meðfram hraunjaðrinum er malarborinn göngustígur. Engin merki Moldargatna sjást á vettvangi.

Garðahverfi

Katrínarkot yngra.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í Manntali 1845 er Tómthús talið meðal býla í Garðahverfi en þar bjuggu Jón Jónsson „grashúsmaður, vitstola í 10 ár“, kona hans Katrín Eyjólfsdóttir og fjögur börn þeirra, Eyjúlfur, Erlendur, Jón og Ingveldur. Auk þeirra voru Ingunn Helgadóttir sem lifði „af handavinnu sinni“ og sonur hennar Ólafur Einarsson […] Tómthús þetta er ekki nefnt í öðrum heimildum og hefur e.t.v. einungis verið í byggð í tíð þessara tveggja fjölskyldna. Nöfn húsfreyjunnar og elsta sonarins minna þó á fyrstu ábúendurna í Katrínarkoti sem hétu Katrín og Eyjólfu og gætu þar verið tengsl. Þar eð Katrínarkot á að hafa byggst á sama tíma og Tómthús birtist í Manntalinu vaknar sá grunur að um sama býli sé að ræða. Eðlilega hefur þá með tímanum verið farið að kenna það við húsfreyjuna sem hlýtur að hafa staðið ein fyrir öllum heimilisrekstri og búskap fyrst maður hennar var veikur. Það að Tómthús er í Manntalinu talið upp næst á eftir Hausastöðum en næst á undan Hausastaðakoti gæti bent til að það hafi verið staðsett í nágrenni þeirra eða á sömu slóðum og Katrínarkot. Á móti mælir hins vegar að Katrín og Eyjólfur í Katrínarkoti eru talin hafa verið hjón en ekki mæðgin eins og fólkið í Tómthúsi og því eru býlin skráð í sitt hvoru lagi. “ Ekki er greint frá aðstæðum á svæðinu né mögulegu ástandi Tómthúss í skráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Örnefnaskrá 1964 var Höll „hjáleiga og þurrabúð“ frá Görðum og stóð bærinn „utan Garðs, ofan Garðahliðs“ […] Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóft hans sé svo til beint upp af Garðakirkju, „rétt eftir að kemur að vegamótum heim að henni, að norðan“. Allt í kring er grýtt holtið. Mundi Tryggvi Gunnarsson í Grjóta eftir því þegar búið var í þurrabúðinni. Þarna er garður og við norðausturhorn hans lítil aflöng tóft, grjóthlaðin og niðursokkin. Hún er um 6 m á lengd og 2,1 m á breidd, þykkt veggja um 0,5 m. Stefnan er suður-norður og virðist inngangurinn vera á suðurgafli […]
Höll er hvorki nefnd í jarðabókum né manntölum.“

Garðahverfi

Hallargerði.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í Örnefnaskrá 1964 er Hallargerði sagt liggja kringum Höll: „Svo hét gerði umhlaðið miklum grjótgarði norðan vegar […] garður af grjóti kringum bæinn“ […]
Gerði sem teiknað var upp við Fornleifaskráningu 1984 er þó vestan við hústóftina.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: ,,ferhyrndur garður eða þurr grjóthleðsla, um 40,8 m á breidd og 18,2 m á lengd, veggir 1,8 m á breidd. Um 19 m frá austurendanum mótar fyrir yfirgróinni hleðslu, um 1,2 m á breidd, sem liggur þvert inn í garðinn.“

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Fornleifaskráningu 1984 var aðalloftvarnarbyrgi Breta á stríðsárunum hæst á hæðinni, þ.e. í Garðaholtsenda, og mjög grýtt allt í kring. „Nú stendur hús á staðnum og sér engin merki umsvifa Bretanna“.“

Hernám

Skotbyrgi á Garðaholti.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Fornleifaskráningu 1984 eru tvö samtengd skotbyrgi ofan Garðakirkju, í austurbrún Garðaholts, beint út frá útsýnisskífu, grýtt holtið allt í kring.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Þetta eru ferhyrnd steinsteypt byrgi 2 x 3 m að stærð. Á 18 m bili milli þeirra hlykkjast grjóthlaðin skotgröf eins og göng, um 1 m á breidd og 0,80-1 m á dýpt. Hún liggur suður út frá vestra byrginu, beygir til austurs, bugðast upp að og austur fyrir eystra byrgið og sveigir svo suður meðfram brún lítils klettabeltis. Útsýni er úr byrgjunum til norðurs, aðallega út á Álftanes.“

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: „Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu norðan Torfavörðu. Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […].“ Ekki kemur fram í skráningu RT og RKT hvernig ástand dysjarinnar er í dag.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Garðagata „frá Garðahliði norður hjá Prestahól í Stekkinn“ […], þ.e. Garðastekk og við hana hefur Götuhóll eða Göthóll e.t.v. verið kenndur, „klapparhóll litlu norðar en Presthóll, rétt við Garðagötu“ […] Framhald virðist vera af götunni um 100 m norðan við stekkinn, á móts við núverandi Garðaholtsveg, en þar liggur skv. Fornleifakönnun 1999 annar slóði upp í hraunið til norðausturs og sameinast Álftanesgötu eða Gálgahraunsstíg nyrðra eftir um 250 m.“

Hvíldarklettar

Hvíldarklettar.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Hvíldarklettar „grágrýtisklappir upp frá Álamýri. Austan Hausastaða.“ […].  Þeir eru ekki langt frá Garðavegi og hafa e.t.v. verið áningarstaður“

Garðar

Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í Minnispunktum úr skoðunnarferð 1978 segir Kristján Eldjárn: ,,Fjárborg hefur verið á hraunbrúninni; (Gálgahrauns) beint andspænis Görðum, fáeinum metrum ofan við réttina og aðrar minjar þar sem heitir Stekkur […]. Varla er unnt að segja með réttu að fjárborgin sé hluti af stekksminjunum, þótt hvort tveggja sé viðkomandi sauðfé, og þess vegna er borgin talin sér. Nú er ekkert eftir af borginni nema undirstöðurnar, en þær eru líka mjög greinilegar og skemmtilegar. Borgin hefur verið hlaðin úr hraungrjóti og alveg kringlótt, um 10 m í þvm út á ytri brúnir. Veggir allþykkir. Trúlegt virðist að borgin hafi verið rifin til þess að fá grjót í réttina sem hlaðin hefur verið á stekkjarstæðinu og enn stendur. Ég var að athuga stekkjarminjarnar og réttina 20. sept. þegar ég allt í einu rak augun í þennan skemmtilega hring í hrauninu. Grjótið er allt með skófum og litum eins og hraunið sjálft svo að næstum lítur út eins og náttúran sjálf hefði teiknað þennan hringferil svona hárrétt á jörðina. En svo er þó reyndar ekki, heldur er þetta eitt af mörgum fjárskjólum hér á Reykjanesi, þar sem útigöngufé var ætlað að ganga af, helst allan veturinn.“ Við Fornleifaskráningu 1984 er fjárborgin sögð vera „á hrauntá í jaðri Gálgahrauns“ um 30 m norðaustan og ofan fjárkofans og rúmlega 375 m frá Bessastaðavegi.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Rústin er mjög skýr, „hringlaga eða réttur hringur að utanmáli“,
um 11 m í þvermál. Veggir eru um 2 m á breidd og auðgreinanlegir því þeir eru ólíkt umhverfinu lítt mosagrónir. Hæð þeirra er ekki teljandi en í rústinni miðri er grjót og hún er há miðað við umhverfið.“

Gálgahraun

Gálgahraun – naust.

Í skráningarskýrslu frá 1999 segir OV: „Við norðvesturhorn Gálgahrauns, þar sem það rennur út í Lambhúsatjörn er dálítil vík og í henni hleðsla sem gæti verið eftir naust.“

„Upp með hraunbrúninni, ofan við Balatjörn, skerst hraunnef fram í tjörnina. Það heitir Mónef ,“ segir í örnefnaskrá AG. Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Örnefnaskrá 1964 náði Dysjamýri frá Garðatúngarði austur að hrauni, frá Dysjamöl og Balatjörn upp að holti“ þ.e. Garðaholti, en norðan við Bala er Mónef, ,,hraunsnef lítið, sem svo heitir.“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Dysjamýri er milli Garðahrauns og Garðaholts […] á hraunjaðrinum með henni […] norðan við Bala gengur Mónef fram í mýrina. Hér áður var tekin upp mór í Dysjamýri, en því var hætt, þegar Guðmann [Magnússon] man eftir. Mórinn mun hafa verið þurrkaður á Mónefni“ […] Skv. Jarðabók 1703 áttu flestar jarðir í Garðahverfi mótak í landi staðarins en þar segir: „Móskurður til eldiviðar hefur nægur verið, en fer í þurð og gjörist erfiður.“ […] Aðalmótekjusvæðið var þó í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog.“

Garðar

Bali – gerði.

Gerði er skammt suðvestur af enda afleggjarans sem áður lá að Bala frá Garðavegi. Gerðið er nærri sjó, 30-40 m suður af Balatjörn og 70-80 m VNV af hjalli sem stendur við Balakletta og er að líkindum nærri gömlu bæjarstæði Bala. Inni í gerðinu og í kring er algróið þykkri sinu og nokkuð þýft.
Gerðið er hlaðið úr hraungrýti, sem er gróið mosa og skófum. Það er um 35 x 25 m N-S að stærð og ferhyrnt, en þrengist til suðurs og er innan við 10 m á breidd syðst. Hleðslurnar eru um 1 m á þykkt og 0,5 m háar. Gerði þetta er án efa mun yngra en rétt 034 sem er hátt í 200 m norðaustar.

Garðar

Ráðagerði.

Ráðagerði var Garðakirkjueign. 1703: Hjáleiga Garða „Rádagierde, hjáliega í óskiftu staðarins landi. Jarðardýrleiki er óviss.“ JÁM III, 185.
1918: „Tún 1,4 teigar og kálgarðar 1020 m2.“

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 má sjá hús úr steini eða torfi ofarlega í túninu rétt suðaustan Háteigs og Götu, norðvestan Garða. Húsið hefur stefnuna norðvestur-suðaustur og kálgarðar eru til hliðar við það en líklega er þetta bæjarstæði Ráðagerðis sem nefnt er í Örnefnalýsingu 1958 […] og síðan í Örnefnaskrá 1964: „Fyrrum býli, hjáleiga frá Görðum, stendur ofar en Gata […]“ litlu austar en Háteigur sem það liggur nú undir. […]. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Ráðagerði var í Háteigstúni nærri túngarði milli Garða og Háteigs, neðanhallt við húsið í Háteigi. Það er farið í eyði fyrir lifandi löngu.“ […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta í grösugum aflíðandi halla á milli Háteigs og Garðakirkju. Um 19,15 m frá garðhleðslu sem þarna er sést óljós steinaröð, líklega frambrún bæjarins.

Garðahverfi

Nýibær.

Nýibær 1565: skrá yfir byggðar jarðir staðarins, sem ekki voru hjáleigur: „Nyiabæ Gudmunde fyrer iij vætter fiska. vallarslátt. Röa a skipenu heim um kring ár. med jördunna kugillde.“ Garðakirkjueign. „Nýebær, kallaður hálfbýli, því þarer ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.“ JÁM III, 184.
1918: „Tún 1,9 teigar“.

Garður

Nýibær – túnakort 1919.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti má sjá stæði Nýjabæjar með þyrpingu húsa og garða norðarlega í Nýjabæjartúni. Bærinn er úr torfi og hólfast í þrennt með stefnu suðvestur-norðaustur. Í Örnefnaskrá 1964 segir að hann sé „neðar í túni en Krókur“ […] og Örnefnalýsing 1976-7
bætir við: „Nýibær er upp af Pálshúsum og liggja túnin saman. Hlaða og fjós eru rétt austur af gamla húsinu. Nú hefur nýtt hús verið byggt í Nýjabæ í túnjaðrinum austur við veginn. Nýbýlið Grund, sem byggt var nálægt 1950, er ofan og austan við túngarðinn. Því fylgir ekki grasnyt, aðeins lítil lóð.“ […] Skv. Fasteignabókum var komið timburhús í Nýjabæ árið 1932 […] og járnvarið 1942-4 ef ekki fyrr […] Núverandi íbúðarhús hefur vafalaust raskað eldri byggingarleifum. Erfitt er að meta hvort einhverjar leifar bæjarhúsanna geti enn leynst undir sverðinum.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.

Garðaholt

Garðaholt – skotgrafir við Garðaveg..

 

Garðahverfi

Í Fornleifaskráningu fyrir Garðabæ árið 2009 er m.a. getið um Pálshús í Garðaholti:

Pálshús

Pálshús.

1565: Á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. „Pálshus byggd Heriolfe fyrer iij. vætter fiska. og vera fyrer skipe stadarens heima. og Röa á þvi epter þvi sem sá skicka vill sem Ráda á stadnum. er þar med j kugillde.“ DI XIV, 438. Garðakirkjueign. „Palshus, hjáleiga fyrirsvarslaus, stendur í óskiptu Garðastaðar landi og samtýniss við staðinn og hinar hjáleigurnar í hverfinu.“ JÁM III, 183.
1918: ,,Pálstún 1,5 teiga og 870 m2 kálgarða.“

Dysjar

Dysjar, Bakki, Pálshús – Túnakort 1918.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti árið 1918 má sjá bæjarstæði Pálshúsa austan megin í túninu. Bærinn er byggður úr torfi og hólfast í fimm hluta með stefnu nokkurn veginn suðurnorður. Skv. Fasteignabókun er komið timburhús árið 1932 […], járnvarið 1942-4 eða fyrr […]. Í
Örnefnaskrá 1964 segir: „Pálshús: Hjáleiga frá Garðastað neðan til við Nýjabæ, þar á bala.“ […]  Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 eru Pálshús ,,skammt noðan Dysja, en lengra frá sjónum.“ Ekki er nánari lýsing á Pálshúsum eða ástandi fornleifa þar í fornleifaskráningu RT og RKT.

Bakki

Pálshús – Garðafjara.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Í Jarðabók 1703 segir um réttindi ábúanda í Pálshúsum: „Uppsátur hefur staðarhaldarinn unt hönum hjer til þar sem heita Pálshúsvarir. Enn inntökuskip má hann eigi taka“ […] Skv. Örnefnaskrá 1964 var Pálshúsavör í smá viki austan Bakkabæjar, eða „austan til við lítið nef í Bakkafjöru“.“ Ekki er nánari lýsing á vörinni í fornleifaskráningu RT og RKT.

„Skv. Örnefnaskrá 1964 er Pálshúsabrunnur „rétt fyrir ofan bæinn. Allgott vatnsból“ […] Hann sést ekki á túnakorti.“

Heimildir:
-Fornleifaskráning fyrir Garðabæ 2009.
-Fornleifaskráning í Urriðaholti 2003.

Garðaholt

Garðaholt – bæir.

 

Garðahverfi

Í Fornleifaskráningu Garðahverfis 2002 má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Háteig, Hlíð, Hlíðarbúð, Garða, Garðhús, Garðabúð, Óskarsbúð, Pálshús, Dysjar, Dysjakot, Katrínarkot, Hausastaði, Hausastaðakot, Krók, Krókskot, Götu, Holt, Móakot, Höll, Hól og nokkrar merkar minjar:

Garðahverfi

Garðahverfi

Garðahverfi.

Örnefnaskrá frá 1864 segir: “ Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaða kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. Hér er nú átt við land það sem Garðahverfi tilheyrir. […] Garðahverfi: Þar er átt við Garða og hverfi þar í kring, en í eina tíð voru allir bæir þar hjáleigur frá Görðum.

[…] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi“.

Garðahverfi

Garðahverfi – flugmynd.

Hið forna Garðahverfi var við sjávarsíðuna á leiðinni út á Álftanes en innan þess voru miðað við Jarðatal 1847 þessar jarðir taldar frá suðaustri til norðvesturs: Dysjar, Bakki, Pálshús. Nýibær, Garðar, Ráðagerði, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir. Á hverri jörð voru auk þess hjáleigur og þurrabúðir, Dysjakot á Dysjum, Krókur, Háteigur, Garðhús, Hóll, Sjávargata og Garðabúð á Görðum, Hlíðarkot og Gata á Hlíð, Katrínarkot, Arndísarkot og Köldukinn á Hausastöðum. Ekki er vitað um staðsetningu Mýrarhúss, Óskarsbúðar og Tómthúss og sumar hjáleigurnar voru utan sjálfs Garðahverfis, Árið 1703 voru lögbýlin: Garðar, Bakki og Dysjar. Einnig hafði Hlíð verið lögbýli áður en Miðengi var hlutað úr landi hennar.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Garðar voru rétt suðaustan við miðju hverfisins. Norðvestan megin voru Ráðagerði, Háteigur og Miðengi næst sjónum en suðaustan megin Nýibær, Pálshús og Bakki niður við sjó. Milli Garða og Bakka er mýri sem kölluð var Garðamýri eða Garðatjörn. Á mótum hennar og Garðatúns er Garðalind, mikilvægasta vatnsból staðarins. Í hana sóttu stundum öll býlin vatn og þangað lágu götur frá öllu hverfinu en bæirinir voru tengdir saman með innbyrðis leiðarkerfi. Frá Hausastöðum í norðvesturendanum lá gata yfir í Hausastaðakot og þaðan áfram í Móakot, frá því yfir í Hlíð og frá Hlíð áfram í Háteig og Miðengi. Frá Háteigi lá leiðin framhjá Ráðagerði til Garða en frá Miðengi niður að Garðalind. Frá Dysjum í suðausturendanum niður við sjó lágu traðir til Pálshúsa og Nýjabæjar og þaðan áfram til Garða. Þá voru einni götur eða traðir frá bæjunum niður í sjávarvarir en nánast hver bær átti sína vör sem við hann var kennd. Voru víða hlið í sjógarðinum fyrir ofan þær. En leiðir lága líka í hina áttina um hlið á Garðatúngarði og stundum áfram út í land staðarins fyrir ofan þar sem býlin höfðu ýmsar nytjar og þaðan jafnvel til næstu byggða.

Garðahverfi

Garðahverfi austanvert.

Býlin í Garðahverfi liggja svo þétt að kominn er vísir að svolitlu þorpi og var girt í kringum það allt með görðum. Varnargarður lá meðfram sjónum og norðaustan megin teygði sig hinn mikli Garðatúngarður, frá Balatjörn í suðaustri, um Dysjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Garðinn lét séra Markús Magnússon reisa í kringum 1800 og væntanlega hafa allir íbúar hverfisins sameinast um verkið undir hans stjórn. Voru þá fjarlægð eldri garðlög við túnin ofanverð. Garðar hafa því verið þarna fyrr þótt þá þyrfti að endurhlaða með jöfnu millibili. Mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari og eru varðveittir garðar annars staðar sem vöru heilu byggðalögin, t.d. Skagagarður á Garðskaga og Bjarnargarður í Landbroti. Í Grágás eru jafnvel lagaákvæði um þetta og segir að löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja að ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnar og faðma“.

Háteigur (býli)
Býlið Háteigur er vestan Garða. Íbúðarhúsið stendur efst í túnin, rétt fyrir neðan garðinn (ÖS).
Tún Háteigs liggur vestan Garðatúns, alveg niður að sjó (ÖS). Garður er með Garðatúni. Garðinn lét séra Markús Magnússon hlaða á milli Skógtjarnar og Balatjarnar
fyrir ofan öll tún í Garðahverfi (ÖS).
Gripahús eru aðeins vestar og neðar en íbúðarhúsið, við veginn að Miðengi (ÖS).
Á klöpp fyrir ofan Háteig var viti hér áður, Garðaviti (ÖS).
Holt er þurrabúð. Þurrabúðin Holt var eina 150-200m norðvestur af Háteigi og verður þess nánar getið síðar (ÖS).

Hlíð (býli)

Garðahverfi

Hlíð.

Hlíð er talin meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum þegar árin 1397 og 1477. Hún er nefnd í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggð Hákoni og í Gíslamáldaga 1570. Hlíð var lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr landi hennar, skv. Jarðabók enn í eigu kirkjunnar árið 1703 og ábúendur þá orðnir tveir, Sigurður Sighvatsson með fimm í heimili og Bjarni Símonsson með fjóra og hafa búið í Hlíðar-Vesturbæ og Austurbæ. Í Manntali sama árs er einnig tilgreind húskonan Hallgerður Ásbjörnsdóttir. Skv. næsta Manntali bjuggu enn tveir bændur í Hlíð árið 1801. Hjá Sigvalda Guðmundssyni hreppstjóra og Margréti Pétursdóttur voru 9 manns í heimili og jafnmargir hjá hjónunum Gísla Jónssyni og Þóru Daníelsdóttur. Auk þeirra voru tómthúshjónin Sigurður Sigurðsson og Arnbjörg Jónsdóttir, e.t.v. búsett í einhverju af þurrabýlunum sem vitað er um á jörðinni, t.d. Hlíðarkoti eða Sólheimum. Þegar Manntal var tekið 1816 hafði heimilismönnum Sigvalda fjölgað í þrettán og m.a. bæst við systursonur hans, Samúel Jónsson, en Gísli var fluttur með sitt fólk og í hans stað kominn Halldór Erlendsson, kvæntur Elínu Þorsteinsdóttur. Alls voru sjö í heimili en átta í Skv. Jarðabókinni 1703: Hlýd. Hjáleiga í óskiftu staðarins landi. Hlíð var so sem lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina. Jarðardýrleiki er óviss.
Ábúendur Sigurður Sigvatsson býr á hálfri, annar Bjarni Símonsson. Landskuld xx álnir hjá hvörjum, af allri xl álnir. Betalast með ii vættum fiska í kaupstað.
Við til húsabótar leggja ábúendur. Leigukúgildi i sem hjáleigunni hefur að fornu fylgt, en nú tvö fyrir bón og nauðsyn ábúenda. Leigur betalast í fiski eður smjöri heim til staðarhaldarans. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Kvaðir eru mannslán árið um kring af sjerhverjum ábúenda, en búi einn á er ekki nema eitt mannslán. Hrísshestar tveir ef tveir búa á, einn ella. Dagslættir tveir ef tveir búa á, einn ella. Hestlán eitt ef einn býr á, annars eru tvö. Þessar kvaðir hafa um þrjú eður fjögur næstliðin ár fyrir fátæktar sakir ábúenda hvorki heimtar nje teknar verið fyrir utan dagsláttinn og mannslánið.
Kvikfjenaður er hjá Sigurði Sighvatssyni ii kýr, hjá Bjarna Símonssyni ii kýr. Fóðrast kann á allri jörðinni iiii kýr naumlega. Heimilissmenn hjá Sigurði v, hjá Bjarna iiii. Eldiviðartak af móskurði í kirkjunnar landi.
Manntali 1845. Þá hafði sonum þeirra hjóna fjölgað en sá elsti Erlendur Halldórsson var orðinn heimilisfaðir og bóndi á Dysjum. Ábúendaskipti höfðu einnig orðið á hinum Hlíðarbænum, Samúel var fluttur í tómthús í Miðengi en um aðra í fjölskyldunni er ekki vitað. Nýi bóndinn hét Þórarinn Þorsteinsson og húsfreyjan Geirlaug Jónsdóttir, bæði fyrrverandi vinnuhjú séra Markúsar. Þau voru komin með fjórar dætur og einn son. Loks bjuggu á jörðinni tveir tómthúsmenn, Þórleikur Arngrímsson ásamt konu sinni og móður og Erlendur Jónsson úr hjáleigunni Holti ásamt konu sinni Þóru Rafnsdóttur og tveimur börnum. Skv. Jarðatali var þó aftur aðeins einn ábúandi tveimur árum síðar 1847, jörðin áfram kirkjueign, einnig nefnd í Jarðabók árið 1861 og skv. Fasteignabókum enn í eigu kirkjunnar 1932 og 1942-4.
Árið 1565 galt Hlíðarbóndinn Hákon þrjár fiskavættir í landskuld. Kvaðir voru mannslán og formennska, kúgildi eitt en áður höfðu verið tvö. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld alls 40 álnir sem skiptust milli Sigurðar og Bjarna og guldust með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildið hafði fyrir bón þeirra verið aukið í tvö og guldust í smjöri eða fiski til staðarhaldara sem bar að yngja þau upp. Í kvikfénaði átti hvor um sig tvær kýr sem fóðruðust naumlega. Kvaðir sem skiptust milli ábúenda voru tvö mannslán árið um kring, tveir dagslættir og hrísshestar og tvö hestlán en hrís og hestar höfðu vegna fátæktar þeirra ekki verið heimt í 3-4 ár. Bjarni og Sigurður lögðu sjálfir við til húsabótar en höfðu eldiviðartak af móskurði í landi Garðastaðar.

Garðahverfi

Hlíð.

Árið 1847 var dýrleiki jarðarinnar enn óviss, landskuld hin sama og kúgildi sem áður tvö.
1861 var Hlíð talin 16,2 ný hundruð og 1932 með húsakosti metin á 93 hundruð kr. Þá voru kúgildi jarðarinnar fjögur en hún átti 80 sauði og tvö hross. Úr 2100,3 m² matjurtagörðum fengust 50 tunnur á ári og stundað var útræði og hrognkelsaveiði. Skv. Örnefnaskrá 1964 voru hrognkelsamið í Hlíðarþara utan Hlíðarvara niður af bæjunum. Árin 1942-4 var verð jarðarinnar 90 hundruð kr. en í bústofninum voru þá 5 nautgripir, 43 sauðir og eitt hross og afrakstur garðanna um 46 tunnur á ári. Auk fyrrgreindra hlunninda hafði Hlíð mótekju.
Áfram var tvíbýli í Hlíð og skiptist túnið í Hlíðar-Vesturbæjartún sem var 1,2 ha árið 1918 og Hlíðar-Austurbæjartún sem var 1,4 ha. 1932 hafði heildartúnið stækkað í 3,2 ha og í heyafla fengust 145 hestburðir í töðu en 60 í útheyi. Á árunum 1942-4 gáfu túnin 200 hestburði í töðu og 40 í útheyi. 1964 var Hlíðartún talið „allstórt, allt að fjögur kýrgrös“. Hlíðarkot var norðan í því og auk þess þurrabúðin Gata austur upp við Garðatúngarð.
Túnið lá að sjó, umgirt girðingum og görðum og á sjávarkambinum var sjóbúð kennd við Hlíð. Norðvestan megin var Móakot næst sjónum og Hausastaðakot nokkru ofar en suðaustan megin Miðengi og Háteigur. Í landi Hlíðar rétt utan Garðatúngarðs voru auk þess býlin Holt og Sólheimar.

Garðahverfi

Hlíð.

Á Túnakorti 1918 liggja fimm samfastir kálgarðar með hlöðnum veggjum kringum bæjarhúsin að norðaustan, norðvestan og suðvestan. Af þeim er væntanlega kominn stóri kálgarðurinn sem í Örnefnalýsingu 1976-7 er sagður vera „fast vestan við íbúðarhúsið“ sem Gísli Guðjónsson reisti 1924 í stæði gamla Austurbæjarins. Hluti garðsins fannst við Fornleifaskráningu 1984 framan eða norðvestan „við bæinn í Hlíð en skrásetjari taldi þar vera gömlu heimakálgarðshleðsluna. Þarna er „yfirgróin grjóthleðsla, nú mjög lág“ og nær um 30 m til norðurs framan eða vestan „við núverandi íbúðarhús […] þar kemur aðeins horn í hleðsluna til austurs“, síðan heldur hún „áfram um 16 m til norðurs“. Hleðslan „myndar bakka þarna í túnið“ og er „uppfyllt að austan“.
Á Túnakortinu 1918 virðist mega sjá varir sitt hvorum megin við enda sjávargötunnar frá Hlíðarbæjum. Í Örnefnaskrá 1964 eru nefndar Hlíðarvör vestri eða Vesturbæjarvör sem „tilheyrði vesturbænum í Hlíð“ og Hlíðarvör eystri eða Austurbæjarvör sem „tilheyrði Austurbænum“. Vesturbæjarvör er líklega rétt fyrir neðan Hlíðarbúð.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í fjörunni, beint niður af húsinu, er Hlíðarvör. Þar er fjaran nokkuð slétt, en safnaðist í hana stórgrýti á vetrum. Þurfti því að ryðja hana á vorin. Hlið var á garðinum fyrir ofan vörina, og voru bátarnir settir um það, upp á tún, ef sjógangur var mikill.“ Umrætt bátahlið má sjá á Túnakortinu þar sem gatan endar milli vara og er það nokkuð breitt. Í Örnefnalýsingu segir enn fremur: „Efra-Hlíðarsker er örskammt frá landi, rétt vestan við vörina. Fram í það er gengt á hverri fjöru. Ytra-Hlíðarsker er u.þ.b. 40 m beint út af því. Út í það er aldrei vætt nema á stórstraumsfjöru.“ Skerin framan við voru kölluð Hlíðarklappir og utan þeirra var hrognkelsamið í Hlíðarþara. Hlíðarklakkar hétu „sandbungur út frá skerjunum og þörunum“.

Hlíð

Hlíð.

Á Túnakorti 1918 eru gerði í túninu austan Hlíðarbæja upp við Garðatúngarð. Við suðausturenda þess syðsta er hústóft úr torfi og grjóti, aflöng með stefnuna suðvestur-norðaustur. Trúlega er þetta Gata sem skv. Örnefnaskrá 1964 var „þurrabúð við vestur túngarð Garða, ofan við Hlíðarbæi“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í suðaustur (u.þ.b. 150 m) frá íbúðarhúsinu var grasbýli, sem hét Gata. Hún fór í eyði um síðustu aldamót, og féll þá túnið undir Austurbæinn í Hlíð. Var þá byggður þar á tóftunum bær yfir karl og kerlingu á vegum hreppsins. Þau fóru þaðan um 1925, og keypti þá Gísli [Guðjónsson] bæinn og hefur haft hann fyrir fjárhús síðan og gert á honum ýmsar breytingar.“ Gísli mundi eftir bænum í Götu en „Götuland girðir að mestu land Miðengis af til austurs. Spildan frá Götu, sem ræktuð er ofan Miðengistúns, er nefnd Götuvöllur, og tilheyrir hún Hlíð.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Gata í eða við suðurhorn garðs „beint upp af Miðengi í suðaustur frá Hlíð“. Allt um kring er slétt graslendi og aflíðandi halli. Þarna eru tvö fjárhús úr torfi og grjóti með trégafla að ofan og bárujárnsþaki. Aftara eða austara húsið er um 5 m langt að utan og vísar í suðvestur (240°) en hitt húsið kemur hornrétt framan eða vestan á það. Suðurendi garðhleðslunnar liggur nokkurn veginn á mitt austara húsið. Væntanlega eru þetta húsin sem Gísli
byggði á bæjatóftunum.

Gata (leið)
Á Túnakorti 1918 má sjá hvar gata liggur frá gamla bæjarstæðinu í suðvestur að sjó og við enda hennar sýnist vera breitt hlið á varnargarðinum, líklega bátahlið.

Hlíðarbúð (sjóbúð)

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Á Túnakortinu 1918 er svolítið mannvirki byggt inn í sjógarðinn rétt norðvestan við bátahlið og götu. Það er hlaðið úr grjóti og hólfast í tvennt. Trúlega er þetta Hlíðarbúð sem var á sjávarkambinum.

Brunngata (leið)
Á Túnakorti 1918 má sjá götu sem byrjar við skemmu suðaustan Hlíðar-Austurbæjar og liggur þaðan suður um tún bæjanna og gegnum hlaðið í Miðengi. Líklega er þetta Hlíðarbrunngata eða Brunngata sem skv. Örnefnaskrá 1964 lá frá Hlíð og Miðengi að Garðalind „því þangað var sótt gott neysluvatn“. Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „lá brunngata frá Hlíð niður fyrir neðan Miðengi og þaðan austur í Garðalind“ og var vatn í Hlíð aðallega sótt þangað.

Gata (leið)
Á Túnakortinu 1918 liggur ónefnd gata frá Hlíðarbæjum austur um túnið. Hún kvíslast fljótlega í tvennt og liggur önnur kvíslin áfram austur yfir að Háteigi en hin sveigir í norðaustur meðfram gerðum hjá þurrabúðinni Götu. Leiðin liggur um hlið á Garðatúngarði að Illugagerði og býlinu Holti fyrir utan. Á þeim kafla götunnar sem næstur er túngarðinum er hlaðinn veggur vestan megin.

Illugagerði (gerði)
Rétt við norðurhorn kúagerðis, í miðjum Garðatúngarði, er á Túnakortinu 1918 sýndur ferhyrndur kálgarður með grjóthlöðnum veggjum og stefnu með túngarðinum. Þetta er trúlega Illugagerði sem skv. Örnefnaskrá 1964 var „rétt hjá Holtsgerði“, þ.e. stóra garðinum sem sést austan við það á kortinu. Illugagerði var „ræktað […] þarna á holtinu. Það gerði Illugi Brynjólfsson, er bjó um aldamótin 1900 í Holti“ en þess má geta að alnafni hans og e.t.v. ættingi var bóndi á nágrannabænum Ráðagerði skv. Manntali 1816 og bjó þar fram um miðja 19. öldina.
Garðurinn fannst við Fornleifaskráningu 1984 og er nánar tiltekið staðsettur framan og vestan við núverandi Holt.

Hlíðarkot (býli)

Garðahverfi

Hlíðarkot.

Skv. Örnefnaskrá 1964 var Hlíðarkot hjáleiga eða þurrabúð frá Hlíð og stóð vestan Hlíðarbæjanna „samhliða, með stétt“, skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „fast austan við Vesturbæinn. Kotið var löngu komið í eyði, þegar Gísli
[Guðjónsson] kom að Hlíð“ 1924. Skv. Fornleifaskráningu 1984 var það í hlaðinu á Hlíð. Minjarnar eru þó horfnar og í þeirra stað komin geymsla.
Hlíðarkot er ekki nefnt í heimildum frá 18. og 19. öld og ekki vitað hvenær það byggðist. Eitthvað af tómthúsfólkinu sem bjó í Hlíð þegar Manntöl voru gerð 1801 og 1845 gæti þó hafa átt heimili í kotinu.

Karkur (vatnsból)

Garðahverfi

Karkur.

Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Brunnur í grjótinu mitt á milli Grjóta og Hlíðar hét Karkur. Í hann safnaðist eingöngu rigningarvatn. Annars var vatn í Hlíð aðallega sótt í Garðalind. Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Karkur „um miðja vegu milli bæjanna“ og „grýtt allt um kring. Vatnsbólið var notað í minni Tryggva Gunnarssonar í Grjóta, þá „um 3 álnir á dýpt“. Brunnurinn er „um 0,75 í þvermál – ekki greinilega kringlóttur“, markaður með grjóti „á allar hliðar og sá í vatn, en hann er nú byrgður með fleka“.

Garðatúngarður (garður)

Garðahverfi

Garðatúngarður.

Á Túnakorti 1918 sést hvernig girt er í kringum allt Hlíðartún með görðum og girðingum. Meðfram Hlíðartröðum sem liggja frá Garðatúngarði til bæja er garður hlaðinn suðvestur að heimakálgarðshleðslunni. Annar garður sem er enn austar skilur milli Götu og Háteigs. Frá honum liggur síðan girðing í vestur milli Götu og Miðengis og við bæjastæði Hlíðar byrjar aftur garður sem nær suðvestur að sjó. Þar er sjóvarnargarðurinn hlaðinn eftir öllum sjávarkambinum framhjá Hlíðarvörum og hefur framhald hans varðveist neðan Móakots. Rétt austan varanna liggur girðing upp frá sjógarðinum að heimakálgarðshleðslunni og nokkru vestan þeirra liggur landamerkjagirðing milli Hlíðar og Móakots. Hún endar við austurvegg Móakotstraða sem liggja áfram norðaustur að Garðatúngarði. Skv. Fasteignabókum eru túngarðar og hagagirðingar við Hlíð árið 1932 og áfram. Við Fornleifaskráningu 1984 fannst hluti Garðatúngarðs ofan Hlíðar en hleðslubrotið endar ofan við Grjótahúsið. Þetta er „þurr grjóthleðsla, þakin skófum og nokkuð gömul að sjá, […] nú innan girðingar Hlíðarmegin á um 70 m kafla eða að heimkeyrslu Hlíðar – og síðan áfram svolítinn spöl“.

Garðar

Garðar.

Í Örnefnalýsingu 1976-7 er sagt ýtarlega frá byggingu sjógarðsins: „Á sjávarbakkanum fyrir Hlíðartúni lét Gísli [Guðjónsson] hlaða sjóvarnargarð á árunum 1928-38. Var hann bæði hlaðinn úr fjörugrjóti og grjóti, sem tekið var upp úr túninu. Grjótið í túninu var tekið upp með svonefndum grjótgálga, en slík verkfæri fluttust þá hingað til lands frá Noregi. Voru þeir ýmist gerðir af þrem eða fjórum löngum spýtum (u.þ.b. 3-4 m löngum). Spýturnar mættust í oddi, og var ein lengri og til stuðnings (tvær í fjögurra spýtna gálga). Efst í gálganum var þrískorin blökk og önnur tvískorin rétt fyrir neðan hana. Neðarlega á gálganum voru svo tannhjólin (tvö), og var sveifin fest á svera járnteina á milli aðalspýtnanna. Á endann á vírnum var fest stór járnkjaftatöng til að grípa um steinana. Á veturna var grjótið klofið í hæfilega hleðslusteina. Fyrst voru klappaðar raufir í steinana með stuttu millibili.
Mátti það helzt ekki vera lengra en spönn. Til þessa var notaður sérstakur klöppuhamar. Þá voru stálfleygar reknir niður í holurnar. Oddurinn mátti ekki nema við botn holunnar, því þá kom ekki þvinga á steininn. Til að koma í veg fyrir það var sett gyrði báðum megin á fleyginn, og þrýstist það til hliðanna, um leið og fleygurinn var rekinn niður. Eftir að fleygunum hafði verið fest í raufunum, var rekið nokkuð jafnt á fleygaröðina. Klofnuðu steinarnir þá af þvinguninni, og urðu kantarnir merkilega sléttir. Steinarnir, sem voru klofnir, voru fyrst og fremst grágrýti.“

Garðahverfi

Garðatúngarður.

Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: „Garðlag er og þvert yfir Garðahverfi sem skiptir því í austur og vestur hverfið. Fleiri garðlög finnast, er sýna, að hér eru tún forðum útgrædd upp í Garðaholt.“ Hér mun átt við Garðatúngarð sem skipti milli Garðatorfunnar meðfram sjónum og nytjalands hverfisins fyrir ofan. Á Túnakorti 1918 má sjá hvar hann liggur frá suðaustri til norðvesturs meðfram túnum bæjanna Dysja, Pálshúsa, Nýjabæjar, Garða, Ráðagerðis, Hlíðar, Hausastaðakots og Hausastaða. Hann byrjar við Balatjörn og endar við Skógtjörn. Skv. Fasteignabókum er enn túngarður við allar jarðirnar árin 1932-44. Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Garðatúngarður: Þetta var mikill túngarður, hlaðinn af grjóti. Lá neðan frá Dysjamöl við Balatjörn norður allt að Skógtjörn. Girti þannig af alla Garðatorfuna með hjáleignatúnunum. Séra Markús stiptprófastur Magnússon lét hlaða þennan garð á síðari hluta 18. aldar.
Var það mikið mannvirki.“ Þegar garðurinn var lagður voru um leið fjarlægðir aðrir garðar sem voru „vítt um túnin ofanverð, og munu hafa verið nokkurs konar varnargarðar um akurreiti, þegar akuryrkja var stunduð […]“ Talað var um Austurgarð austur frá Garðahliði en Vesturgarð vestur frá því. Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður. Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta.

Garðahverfi

Garðatúngarður.

Ætla má að allir íbúar Garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari. Annars staðar á landinu eru varðveittir langir garðar sem varið hafa heilu byggðalögin og má nefna Skagagarð á Garðskaga og Bjarnagarð í Landbroti. Í Grágás eru lagaákvæði um byggingu slíkra
garða og segir þar að Löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnar og faðma“.

Sólheimar (býli)

Garðahverfi

Sólheimar.

Býlið voru við heimkeyrsluna að Grjóta, rétt utan Garðatúngarðs að sögn Tryggva Gunnarsonar. Þar var tómthús en engar minjar fundust við Fornleifaskráningu árið 1984.
Sólheimar eru ekki nefndir í heimildum fyrri alda og því ekki vitað hvenær þeir voru í ábúð. Eitthvað af tómthúsfólkinu sem getið er um í Hlíð í Manntölum 1801 og 1845 hefur þó e.t.v. haldið til í þessu húsi.

Holt (býli)

Garðahverfi

Holt.

Skv. Örnefnaskrá 1964 var Holt „þurrabúð í Garðahverfi, ofan Hlíðarbæja“ eða „hjáleiga vestan við Götu“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í háaustur frá Hlíð er Holt. Þar er nú stórt timburhús, byggt nálægt 1942. Rétt fyrir norðan það er pakkhús. Gamli bærinn í Holti stóð u.þ.b. 20 m í suður frá íbúðarhúsinu, sem nú er. Svolítið gerði var í kringum hann og kálgarður í því, framan við bæinn. Sá bær fór í eyði rétt fyrir aldamótin 1900, og var Holt ekki aftur í byggð, fyrr en reist var húsið, sem nú er. Holt stendur rétt ofan við túngarðinn í Hlíð (þ.e. garðinn, sem Garðaprestar létu hlaða ofan túna í Garðahverfi).“
Holt er fyrst nefnt í Manntali sem „húsmannspláss“ árið 1801 en þá bjó þar Sigurður Nikulásson, jarðnæðislaus fiskari, ásamt konu sinni Álöfu Höskuldsdóttur og tveimur börnum. Þau voru flutt árið 1816 og í stað þeirra komið húsfólk úr Miðengi, Jón Erlendsson og Ólöf Helgadóttir en hann hefur trúlega verið bróðir Halldórs Erlendssonar Hlíðarbónda. Hjónin í Holti áttu tvo unglingssyni sem báðir hétu Erlendur og í heimili hjá þeim var einnig Guðrún Halldórsdóttir, 72 ára „niðurseta“. 29 árum síðar var Erlendur yngri kominn með eigin fjölskyldu í öðru tómthúsi í Hlíð en tvær nýjar fjölskyldur höfðu tekið við í Holti: annars vegar þau Guðmundur Jónsson, grashúsmaður og fiskari, og Helga Jónsdóttir með þrjú börn á aldrinum 16-22 ára, hins vegar hjónin Sigríður Guðmundsdóttir og Einar Guðmundsson, tómthúsmaður og fiskari.
Holt (býli)

Holtsgerði (gerði)

Holt

Holt og Holtsgerði – loftmynd.

Á Túnakorti liggur stór ræktarblettur út frá Garðatúngarði og Illugagerði ofan Hlíðar. Hann er óreglulegur í lögun en þó nokkurn veginn ferhyrndur, umgirtur hlöðnum veggjum, með stefnu norðvestur-suðaustur.
Þetta mun vera Holtsgerði en skv. Örnefnaskrá 1964 ræktaði Eyjólfur Eyjólfsson það umhverfis Holtsbæinn. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Gamli bærinn í Holti stóð u.þ.b. 20 m í suður frá íbúðarhúsinu, sem nú er.
Svolítið gerði var í kringum hann og kálgarður í því, framan við bæinn.“ Trúlega er þetta grjóthlaðni ferhyrndi garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1964. Hann liggur beint í suður út frá núverandi Holti, í smáþýfi þar sem er grýtt á köflum. Hann er um 30 x 32 m að stærð með stefnu í vestur, veggirnir 1,8 m á breidd.

Hlíðarbúð (sjóbúð)
Á Túnakortinu 1918 er svolítið mannvirki byggt inn í sjógarðinn rétt norðvestan við bátahlið og götu. Það er hlaðið úr grjóti og hólfast í tvennt. Trúlega er þetta Hlíðarbúð sem var á sjávarkambinum.

Hlíðarbrunngata (leið)
Á Túnakorti 1918 má sjá götu sem byrjar við skemmu suðaustan Hlíðar-Austurbæjar og liggur þaðan suður um tún bæjanna og gegnum hlaðið í Miðengi. Líklega er þetta Hlíðarbrunngata eða Brunngata sem skv. Örnefnaskrá 1964 lá frá Hlíð og Miðengi að Garðalind „því þangað var sótt gott neysluvatn“. Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „lá brunngata frá Hlíð niður fyrir neðan Miðengi og þaðan austur í Garðalind“ og var vatn í Hlíð aðallega sótt þangað.

Gata (býli)

Garðahverfi

Gata.

Á Túnakorti 1918 eru gerði í túninu austan Hlíðarbæja upp við Garðatúngarð. Við suðausturenda þess syðsta er hústóft úr torfi og grjóti, aflöng með stefnuna suðvestur-norðaustur. Trúlega er þetta Gata sem skv. Örnefnaskrá 1964 var „þurrabúð við vestur túngarð Garða, ofan við Hlíðarbæi“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í suðaustur (u.þ.b. 150 m) frá íbúðarhúsinu var grasbýli, sem hét Gata. Hún fór í eyði um síðustu aldamót, og féll þá túnið
undir Austurbæinn í Hlíð. Var þá byggður þar á tóftunum bær yfir karl og kerlingu á vegum hreppsins. Þau fóru þaðan um 1925, og keypti þá Gísli [Guðjónsson] bæinn og hefur haft hann fyrir fjárhús síðan og gert á honum ýmsar breytingar.“ Gísli mundi eftir bænum í Götu en „Götuland girðir að mestu land Miðengis af til austurs. Spildan frá Götu, sem ræktuð er ofan Miðengistúns, er nefnd Götuvöllur, og tilheyrir hún Hlíð.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Gata í eða við suðurhorn garðs „beint upp af Miðengi í suðaustur frá Hlíð“. Allt um kring er slétt graslendi og aflíðandi halli. Þarna eru tvö fjárhús úr torfi og grjóti með trégafla að ofan og bárujárnsþaki. Aftara eða austara húsið er um 5 m langt að utan og vísar í suðvestur (240°) en hitt húsið kemur hornrétt framan eða vestan á það. Suðurendi garðhleðslunnar liggur nokkurn veginn á mitt austara húsið. Væntanlega eru þetta húsin sem Gísli byggði á bæjatóftunum.
Gata, „húsmannspláss“, er nefnd í Manntölum árin 1801 og 1816 og bjuggu þar hjónin Guðmundur Þorsteinsson og Valgerður Þorkelsdóttir. Þau áttu tvö börn, Pál og Björgu, og um nokkurt skeið hafði hjá þeim heimili fátæk stúlka, Sigríður Gísladóttir. Fjölskyldan var jarðnæðislaus en stundaði sjóinn.

Hraunsholt (býli)

Garðahverfi

Hraunsholt – loftmynd.

Býli þetta stendur austanvert við Hafnarfjarðarveg (ÖS-AG). Hraunholtsbærinn stendur suðaustur á rana Hraunholtsins (ÖS-GS). Hraunsholt stendur upp á lágum ás, rétt austan við veginn frá Reykjavík til Hafnarfjarðar (Árbók FÍ 1936).

Hraunsholt

Hraunsholt 2020.

Efa menn hvort Hraunsholt sé hálflenda eða lögbýli, því þar er magoft ekki fyrirsvar nema til helminga, utan þegar vel fjáðir menn hafa ábúið og stendur þetta býli í óskiptu Garðastaðarlandi. Jarðdýrleiki er óviss, eigandi er
Garðakirkja (Jarðarbók ÁM og PV, 1923-24).

Hraunsholtssel (sel)
Selstígurinn lá suður með Hádegishól í Hraunsholtssel, en talið er að það hafi verið við Hraunsholtshella, öðru nafni Hraunsholtskletta og er þar grænka kringum, þó hellarnir séu litlir (ÖS).

Hraunholtsselsstígur (leið)
Af hraunbrúninni úr Fjarðargötu lá Hraunholtsselsstígur fram á hraunið (ÖS-GS). Selstígurinn lá suður með Hádegishól í Hraunsholtssel, en talið er að það hafi verið við Hraunsholtshella, öðru nafni Hraunsholtskletta og er þar grænka kringum, þó hellarnir séu litlir (ÖS).

Hraun (hús)
Íbúðarhúsið Hraun er skammt vestan við Ófeigskirkju. Er það eina húsið sem byggt er á þessu svæði, og sennilega verða ekki byggð fleiri, því allt hraunið á að verða útivistarsvæði (ÖS, 1976-77).

Engidalsgötur (leið)

Garðahevrfi

Engidalsvegur.

Engidalsgötur lágu niður með hrauninu og lágu allt niður í Vikið eða Hraunsvikið (ÖS-GS).

Moldargötur (leið)
Moldargötur lágu niður með hrauninu og allt niður í Vikið eða Hraunsvikið (ÖS-GS).

Gálgahraunsstígur (leið)
Úr Vikinu lá Gálgahraunsstígur vestur hraunið (ÖS-GS).

Gamli vegurinn (leið)
Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greindist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurn veginn á Holtsendann (þar sem sandnámið var). Hann var við líði fram til um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn svokallaði Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar. Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes.

Hausastaðakot (býli)

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Kringum 1565 galt Hausastaðabóndinn landskuldina með mannsláni um vertíð og mjöltunnu til Garða. Hélst svo meðan Hausastaðakot lá undir jörðinni eða fram um 1640. Kúgildi var eitt.
Árið 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuldin alls eitt hundrað, nú goldin með 6 fiskavættum í kaupstað. Kúgildi voru tvö og greidd í smjöri eða fiski en séra Ólafi í Görðum bar að uppyngja þau. Sigurður Jónsson átti þrjár kýr, kálf, þrjár ær, tvo tvevetra sauði og fimm veturgamla, fjögur lömb, hest og hross með folaldi en meðábúandi hans tvær kýr, hross með folaldi og lamb. Jörðin öll gat þó aðeins fóðrað fimm kýr og einn hest. Kvaðir voru dagsláttur, hrísshestur og hestlán af hvorum ábúanda. Bændur lögðu sjálfir við til húsabótar en höfðu eldiviðartak af móskurði í landi Garðastaðar og sóttu hrís og kol í skóginn. Torfrista og stunga voru bágar, rekavon lítil en þó festifjara, næg fjörugrasa- og sölvatekja, gagnvænleg hrognkelsafjara en lítil skelfiskfjara. Heimræði var árið um kring þótt lending væri bág og gengu skip ábúenda eftir hentugleikum.

Hausastaðir

Hausastaðir.

Hausastaðakot var hjáleiga sem lá undir Hausastöðum fram um 1640 en í eigu Garðakirkju eins og aðrar jarðir í Garðahverfi. Við gerð Jarðabókar árið 1703 var ábúandi Nikulás Jónsson og hjá honum sex menn í heimili. Skv. Manntali bjó þar árið 1801 nafni hans sem var jarðnæðislaus húsmaður og fiskari með konu og tvö börn en annar ábúandi var Árni Jónsson bóndi og fiskari með konu og eitt barn.
Skv. Jarðabók 1703: Hausastadakot, hjáleiga í óskiftu Garðastaðar landi, og segja menn hún hafi til forna legið til Hausastaða en verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslán og mjeltunnu, sem hvoritveggja var áður skilið í landskuld auk þeirrar sem nú er. Jarðardýrleiki er óviss. Ábúandinn Nichulás Jónsson. Landskuld xl álnir. Betalast með ii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandi. Leigukúgildi i. Leigur betalast í smjöri heim til staðarins. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn. Kvaðir eru mannslán árið um kring, hefur til forna leyst verið, stundum með einnri vætt fiska, stundum ekki heimt verið nema um vertíð, en stundum í tíð Sr. Brynjúlfs heimt og goldið verið árið um kring. Dagsláttur einn. Hrísshestar einn. Hestlán eitt sem annarstaðar. Kvikfjenaður i kýr, sem er leigukúgildið, i hross. Fóðrast kann ii kýr. Heimilismenn vi. Eldiviðartak af móskurði í staðarins landi.

Garðahverfi

Garðahverfi – túnakort 1918.

Hausastaðir eru nefndir meðal jarða í eigu Garðakirkju þegar í máldögum frá 1397 og 1477, í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, með Guðmund sem ábúanda og í Gíslamáldaga 1570. Skv. Jarðabók voru þeir enn kirkjueign árið 1703, þá með tvo ábúendur . Í Manntali sama árs eru nefndir þeir Guðmundur Jónsson með fjóra heimilismenn og Sigurður Jónsson með sjö og hafa búið í Austurbæ og Vesturbæ. Einnig er nefnt hjábýlisfólk en 5-6 hjáleigur hafa verið á jörðinni á fyrri öldum.
Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld 40 álnir, borguð með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildi var eitt, greitt í smjöri til Garðastaðar og uppyngdi staðarhaldari það. Í búpeningi átti bóndi eitt hross og eina kú en fóðrast gátu tvær. Kvaðir voru hestlán, dagsláttur, hrísshestur og mannslán allt árið. Ábúandi lagði sjálfur til húsavið en hafði móskurð í landi staðarins. Dýrleikinn var enn óviss 1847, landskuldin hin sama og kúgildið eitt en 1861 var jörðin talin 6,4 ný hundruð. 1932 var verð hennar með húsakosti 36 hundruð kr., kúgildi tvö, sauðir tíu og hrossið eitt. Afrakstur 1160 m² matjurtagarða voru 15 tunnur á ári. Jörðin hafði hrognkelsaveiði og útræði en uppsátur var í Hausastaðakotsvör. Á árunum 1942-4 hafði landverðið hækkað í 45 hundruð kr., í bústofninum voru fimm nautgripir, 14 sauðir og eitt hross og garðávextir um 13 tunnur á ári. Jörðin hélt fyrri hlunnindum. Árið 1918 var tún Hausastaðakots 1 ha en hafði 1932 stækkað í 1,5 ha og fengust af því 70 hestburðir af töðu. Norðaustan megin var Garðatúngarður en girt var umhverfis allt túnið. Austan í því var Grjóti og þarnæst land Hlíðar en að vestan voru Hausastaðir.
Túnakortið 1918 virðist sýna tvö bæjarstæði með húsaþyrpingum í Hausastaðakotstúni og er hið suðaustara merkt Hausastaðakot. Miðað við aðrar heimildir og upplýsingar heimamanna er þetta þó villa: húsin sem eru norðvestar, nær Hausastöðum, hafa tilheyrt Hausastaðakoti, en í hinu stæðinu var þurrabúðin Grjóti. Í norðvestara stæðinu eru tvær byggingar og kálgarðar. Nyrðra húsið er úr torfi, skiptist í þrennt og er líklega kotið en skv. Örnefnaskrá 1964 var það hjáleiga eða þurrabúð frá Hausastöðum. Í Örnefnalýsingu 1976 segir: „Grjóti […] er norðaustur af Hlíð. […] Býlinu fylgir land Hausastaðakots, en það stóð mitt á milli Grjóta og Hausastaða.“ Þetta kemur saman við Fornleifaskráningu 1984 þar sem segir að kotið sé „í hánorður frá núverandi Grjóta og í vestur frá Breiðholti, sem er nýtt hús. Mitt á milli Grjóta og Hausastaða.“ Þarna er sléttlent og þar sem bærinn stóð er nú kálgarður „girtur á háhólnum“.
Garðahverfi
Í Manntali 1801 hafði aðalábúandinn Þorvaldur Böðvarsson auk búskapar og útgerðar umsjá með Hausastaðaskóla sem stofnaður var 1791 fyrir gjafafé Jóns Þorkelssonar Skálholtsrektors. Þorvaldur hafði 11 heimilismenn og í heimavist skólans voru 14 börn. Þetta manntalsár var einnig skráð á Hausastöðum jarðnæðislaust húsmannsfólk sem lifði á útgerð, ein 5 manna fjölskylda og önnur þriggja manna. Þær hafa þá ef til vill haft aðsetur á einhverju Hausastaðabýlinu en þó hvorki í þurrabúðinni Köldukinn þar sem aðrir bjuggu né í Katrínarkoti sem mun ekki hafa byggst fyrr en nokkru síðar. Á þessum tíma hefur verið menningarmiðstöð á Hausastöðum því þar var einnig þingstaður Álftaneshrepps (190-6). Skólinn var þó lagður niður árið 1812 og Hausastaðaþinghá aðeins fjórum árum síðar flutt að Görðum. Skv. Manntali voru þá búsett á jörðinni Þorsteinn Magnússon hreppstjóri og kona hans Sigríður Magnúsdóttir úr Hlíð með fjögur börn og vinnufólk, þeirra á meðal Guðmundur vefari, sonur Einars og Rannveigar á Bakka, og nafni hans Guðmundsson, 66 ára húsmaður. Alls voru heimilismenn 12. Aðrir ábúendur voru hjónin Þorvarður Jónsson grashúsmaður og Guðrún Jónsdóttir með tvo á sínu framfæri.

Garðahverfi

Hausastaðir 2020.

Í Manntali 1816 var ábúandi einn, Gísli Sigurðsson, með þrjá í heimili en 1845 hafði aftur fjölgað í Koti eins og jörðin var einnig kölluð. Þar voru Ólafur Erlendsson hreppstjóri og fiskari og Helga Gamalíelsdóttir, fyrrverandi vinnukona í Miðengi, börn þeirra tvö, tvær vinnukonur og niðurseta. Tómthúsmennirnir voru tveir, báðir með konur og má ætla að önnur hjónin hafi átt heimili í þurrabúðinni Grjóta. Í Jarðatali 1847 er tilgreindur einn ábúandi og jörðin enn sögð kirkjueign. Hún er nefnd í Jarðabók 1861 og hélst skv. Fasteignabókum undir kirkjunni. Í Fasteignamati ríkisins má sjá að jörðin er enn í byggð en liggur nú undir Grjóta sem áður var þurrabúð. Núverandi eigandi Tryggvi Gunnarsson býr í Grjóta.
Þegar Manntal var tekið 1845 voru þau flutt í Krók en tvö uppkomin börn hreppstjórans höfðu tekið við ábúð og grasnyt á Hausastöðum. Margrét var ekkja og tveggja barna móðir og hafði einn vinnumann en Þorsteinn bróðir hennar var með sjö í heimili og hjá honum bjó faðir þeirra systkina, hreppstjórinn gamli. Auk þeirra voru tveir tómthúsmenn og fiskarar.
Skv. Jarðatali 1847 voru Hausastaðir kirkjujörð og ábúendur þrír, þeir eru nefndir í Jarðabók 1961 og voru áfram í eigu kirkjunnar þegar Fasteignabækur voru gerðar árin 1932 og 1942-44. Skv. Fasteignamati ríkisins er jörðin enn í ábúð og skráður eigandi er Hörður Sigurvinsson.

Garðahverfi

Hausastaðir 2020.

Árið 1847 var dýrleiki jarðarinnar enn óviss, landskuld hin sama og kúgildi sem áður tvö. 1861 voru Hausastaðir taldir 20,2 ný hundruð og 1932 með húsakosti metnir á 79 hundruð kr. Þá voru kúgildin orðin þrjú og þar voru 30 sauðir og eitt hross. Úr matjurtagörðum sem frá gerð Túnakorts 1918 höfðu stækkað úr 720 í 1400 m² fengust um 20 tunnur á ári og jörðin hafði áfram hrognkelsaveiði og útræði. Jarðarmatið hafði á árunum 1942-4 lækkað í 54 hundruð krónur en í bústofninum voru 5 nautgripir, 26 sauðir og eitt hross og afrakstur garðanna um 25 tunnur á ári. Auk fyrrgreindra hlunninda hafði jörðin mótekju og í Örnefnalýsingu 1976-7 kemur fram að þar var áfram sölvatekja, nánar tiltekið á Hausastaðagranda: „Sölvatekja var mikil á Granda. Voru sölin yfirleitt þurrkuð uppi á túni og þeim snúið með hrífu. Er sölin höfðu verið þurrkuð, voru þau látin í kassa úti í hlöðu. Kúnum voru svo gefin sölin, og þóttu þær mjólka vel af þeim. Lengst munu söl hafa verið tekin í Garðahverfi frá Hausastöðum, en þar var sölvatekjunni ekki alveg hætt fyrr en undir 1960.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var hrognkelsamið kallað Krókar í klofningum utanvert við Grandahausinn. Hausastaðatún taldist með þeim stærri í Garðahverfi, um 1,8 ha árið 1918 en 2,6 ha 1932 og fengust af því 100 hestburðir í töðu en 60 í útheyi. Á árunum 1942-44 voru hestburðir 150 í töðu en 40 í útheyi. Norðvestan megin í túninu var Katrínarkot og sá hluti þess kallaður Katrínarkotstún.

Hausastaðir

Hausastaðir 2020.

Skv. Örnefnalýsingum höfðu mismunandi túnskikar auk þess eigin nöfn: Guðrúnarvöllur hét vestan Katrínarkots, líklega þar sem Katrínarkotsbúð var í vesturhorni túnsins, en Högnavöllur lá vestan Hausastaðabæja niður að Skógtjörn. Hver Högni var er ekki vitað en nokkrar húsfreyjur á Hausastöðum báru gegnum tíðina hið vinsæla Guðrúnarnafn og hefur völlurinn ef til vill heitið eftir einhverri þeirra. Norðarlega í túninu kringum hjáleiguna Köldukinn var svo Köldukinnarvöllur. Enn norðar og niður við litlu tjörnina sem liggur austur úr Skógtjörn norðan Hausastaða eru rústir sem líka gætu verið af býlum. Vestur frá jörðinni liggur Skrefla eða Skerfla, tanginn sem skilur tjörnina frá sjónum, og þar var tómthúsið Arndísarkot. Skrefla nær alveg að Oddakotsósi þar sem sjór flæddi áður en um hana og Skógtjörn lágu landamerki Garðakirkjulands. Við sjóinn neðan túna Katrínarkots og Hausastaða voru túngarðar eða sjógarðar kenndir við bæina. Við suðausturmörk Hausastaða, u.þ.b. 200 m frá þeim, er nýbýlið Breiðholt, reist um 1962, en þar fyrir handan byrjar Hausastaðakotstún og breiðir úr sér norðaustar upp að Garðatúngarði sem skilur tún bæjanna frá nytjalandinu og nær norður að Skógtjörn. Í landi Hausastaða nokkru fyrir utan garð er nýbýlið Brautarholt.
Bæjarstæðið hefur verið jafnað út og eru lítil merki um húsaskipan. Grjót úr veggjum er þó sjáanlegt og virðast húsin hafa staðið í röð og snúið göflum í vestur út á sjó. „Komið mun hafa verið fyrst að bæjargöngum, syðst, og var eldhús þar fyrir austan. Aftan við norðurenda húsalengjunnar var hlaða sem vísar hornrétt á framhúsin, eða í N (10°) – greinilega yfirgróin, grjóthlaðin tóft. Lengd líkl. 4.1 og breidd 2.1.“
Túnakortið 1918 sýnir kálgarða vestan, sunnan og austan við bæjarhúsin. Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „er nú kálgarður“ þar sem land Hausastaðakots var og við Fornleifaskráningu 1984 segir að kálgarðshleðslan sé það sem greinilegast er í bæjarstæðinu. Garðurinn liggur í boga vestur af þar sem húsin munu hafa staðið og nær austur fyrir suðurenda húsaraðarinnar. Hann liggur um 9 m í norður frá bæjarhúsum en sveigir þá hornrétt til vesturs, um 23 m, en síðan um 29 m í suður.

Hausastaðir (býli)

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaðir.

Á Túnakorti 1918 sést steinhús með þrískiptum garði norðan Katrínarkota og Hausastaða. Þetta er nánar tiltekið rétt austan við götu í útjaðri túnsins. Hlaðnir veggir liggja kringum garðinn, milli norðurhluta hans sem er kálgarður, vesturhlutans sem er órækt og austurhlutans sem er túnblettur. Þetta gætu verið Rústirnar sem nefndar eru í Örnefnaskrá 1964: „Litlu norðar en Kaldakinn voru rústir, líklega af bæ.“
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Rústir eru rétt norðan við Köldukinn, en ekki veit Ólafía, af hverju þær eru.“ Á þessum stað er enn þá mjög greinilegt grjóthlaðið gerði og má vel vera að ein þurrabúðin hafi verið þarna.
Auk ábúenda í Vesturbæ og Austurbæ Hausastaða nefna Manntöl fjölskyldur í nafnlausum hjáleigum og tómthúsum og gætu Rústirnar og aðrar slíkar sem eru nær Litlutjörn verið af einhverju þeirra. Árið 1703 bjuggu búi þau Jakob Stefánsson „hjábýlismaður“, Álfheiður Sigurðardóttir „hans kvinna“ og Guðrún Bjarnadóttir „hennar móðir, ekkja“. Árið 1801 voru tvær jarðnæðislausar fjölskyldur sem lifðu af fiskveiðum: Sigurður Þórðarson húsmaður og Anna Jónsdóttir með þrjú börn á aldrinum 2 til 11 ára, og Sæmundur Friðriksson húsmaður og Ástríður Jónsdóttir með eins árs dóttur. Ekki er greint frá húsfólki á Hausastöðum árið 1816 en 1845 voru komnir þeir Eiríkur Árnason 34 ára og Sigurður Jónsson 61 árs, titlaðir tómthúsmenn og fiskarar. Kona hins fyrrnefnda hét Guðlaug Sveinsdóttir og áttu þau ungan son en kona hins síðarnefnda var Jórunn Eyjólfsdóttir.

Hausastaðir – Austurbær (býli)

Garðahverfi

Hausastaðir – kort.

Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjastæðið í miðju túni og er þar ein bygging sem skiptist í sex hólf. Hún virðist vera úr torfi og snýr nokkurn veginn í suður.
Aftan við hana eru húsatóftir upp við garðvegg. Líklega er þetta Austurbærinn sem nefndur er í Örnefnaskrá 1964. Vesturbærinn fór í eyði um aldamótin 1900 en „bæirnir stóðu saman meðan tvíbýli var“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 er lýst nýrri vistarverum: „Hausastaðir eru í norðvestur frá Grjóta. Húsið stendur nokkuð hátt, og er útsýni gott frá því. Það var byggt árið 1920 á sama stað og gamli bærinn var áður. Fast norðan við íbúðarhúsið er hlaða með sambyggðu fjósi og fjárhúsi og einnig vatnsgeymi, sem regnvatni var safnað í. Vatnið úr honum rann svo í fjósið. Hlaðan var byggð um 1930.“ Með gamla bænum er átt við Austurbæinn því Katrínarkot var um 1930 flutt þangað sem Vesturbærinn hafði staðið. Skv. Fasteignabókum 1932 og 1942-4 var nýja húsið úr timbri og járnvarið.
Skv. Jarðabókinni 1703: Hausastader, lögbýli kallað, því það hefur fullt fyrirsvar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn er Garðarstaðar kirkja.
Abúendur Sigurður Jónsson býr á hálfri, annar Sigurður Petursson býr á hálfri. Landskuld hjá hverjum lx álnir, af allri i [symbol]. Betalast nú yfir 60 ár með vi vættum fiska í kaupstað. Í gamla daga hefur þessi hundraðs landskuld betalast í fríðu hemi til staðarins. En þá var hjer að auki mjeltunna í landskuld og mannslán, sem hveritveggja lagðist af þá er Hausastaðakot var frá jörðinni tekið og lagt til hemiastaðarins, eftir því sem menn að góðra manna líkindum og undirrjetting ) ráða kunna. Við til húsabótar leggja ábúendur.
Leigukúgildi i hjá hverjum, alls ii. Leigur betalast í smjöri eður fiski heim til staðarhaldarans. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn.

Garðahverfi

Hausastaðir.

Kvaðir eru dagslættir tveir, sinn af hverjum ábúenda, en einn ella ef einn býr á. Tveir hrísshestar þegar tveir á búa, einn ella. Hestlán sitt af hverjum, en ef einn er ábúandi, þá vita menn ekki hvert venjulegt hafi verið eitt eður tvö að heimta.
Kvikfjenaður iii kýr, i kálfur, iii ær, ii sauðir tvævetrir, vi sauðir veturgamlir, iiii lömb, i hestur, i hross með fyli, i lamb. Fóðrast kann á allri jörðinni vi kýr ríflega og bjarga i hesti.
Heimilissmenn hjá Sigurði Jónssyni vi, hjá Sigurði Peturssyni ii. Skóg til hríss og kola lítilsháttar brúkar jörðin í staðarins skógi og stundum í almenningi.
Torfrista og stúnga bág og valla bjargleg. Fjörugrasa og sölvatekja nægileg. Rekavon lítil en þó festifjara. Hrognkelsafjara gagnvænleg. Skelfiskfjara lítil mjög og valla teljandi.
Eldiviðartak af móskurði í staðarins landi. Heimræði er árið um kring, en lending bág, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Inntökuskip hafa hjer skjaldan verið og mega þó vera, tekur þá ábúandinn undirgift af þeim. En Selskarð, Garðastaður kirkjujörð, brúkar hjer skipsuppsátur frí um lángan aldur og nær undir 30 ár verbúðar stöðu, sem ákomin skal vera eftir dispensation staðarhaldaranna.
Túninu er hætt við að spilli sjáfarágángur. Engjar öngvar. Útihagar sem heima á staðnum í óskiftu landi.

Hausastaðir/Vesturbær (býli)
Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjastæðið í miðju Hausastaðatúni. Á jörðinni var tvíbýli og er í Örnefnaskrá 1964 talað um Austurbæ og Vesturbæ: „bæirnir stóðu saman meðan tvíbýli var“. Byggingin sem sést á Túnakortinu mun vera Austurbærinn en Vesturbærinn var skv. Örnefnalýsingu 1976 „tómthús“. Hann „fór í eyði um aldamótin 1900, og var húsið þá flutt til Hafnarfjarðar“ en hjáleigan Katrínarkot síðar færð í vesturstæðið: „Íbúðarhúsið í Katrínarkoti stendur norðvestan hlöðunnar og fjóssins á Hausastöðum, en þangað var það flutt árið 1930. Fjós og hlaða, byggð um svipað leyti, standa fast norðvestan við húsið. […] Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.“ Stæði Vesturbæjarins og síðar hins yngra Katrínarkots var því norðvestan gamla Austurbæjarins og núverandi íbúðarhúss.

Hausastaðabrunnur (vatnsból)

Garðahverfi

Hausastaðakotsbrunnur.

Á Túnakorti 1918 er brunnur rétt utan Garðatúngarðs við enda Hausastaðabrunngötu og Katrínarkotsbrunngötu. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Hausastaðabrunnur: „Brunnur norðan bæjarins. Hlaðnar voru tröppur niður í hann. Vatnið spilltist af aðrennslisvatni.“ Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var Hausastaðabrunnur Katrínarkotsmegin: „rétt fyrir austan (u.þ.b 8 m) endann á Stíflisgarði“, sem lá milli Skógtjarnar og syðsta hluta hennar, Litlutjarnar. „Í hann var sótt vatn frá Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti og stundum einnig frá Grjóta og Móakoti. Ekki þraut í þessum brunni fyrr en á seinni árum. Einar 6-7 tröppur voru niður í brunninn. Hausastaðabrunnur lagðist af um 1927, og var þá grafinn brunnur frá Katrínarkoti. Slóðar frá bæjunum að Hausastaðabrunni nefndust Brunngötur. Var ein frá hverjum bæ.“ Brunnurinn sem grafinn var við Katrínarkot reyndist illa og var því aftur gerður Brunnur á slóðum gamla Hausastaðabrunnsins: „Litlamýri er fast austan við Litlutjörn, og flæðir sjórinn upp að henni. Á seinni árum gróf Valgeir, bróðir Ólafíu [á Hausastöðum], brunn í Litlumýri, og reyndist ágætt vatn í honum.“

Hausastaðabrunngata (leið)
Á Túnakortinu 1918 má sjá götu sem liggur norður frá bænum meðfram garði eða girðingu sem skilur milli Hausastaða og Katrínarkots. Hún endar í hliði á Garðatúngarði en þar fyrir utan er brunnur. Þetta er líklega Hausastaðabrunngata sem nefnd er í Örnefnaskrá 1964: „Brunngatan lá frá Brunninum heim til bæjar.“ Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 nefndust slóðar frá Hausastaðabrunni að Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti Brunngötur.

Hausastaðaskóli (skóli)

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Skv. Örnefnaskrá 1964 og Örnefnalýsingu 1976 stóð Hausastaðaskóli eða Thorkiliisjóðsskólinn áður í Húsagarði í austanverðu Hausastaðatúni.
Fyrir andlát sitt 1759 gaf Jón Þorkelsson Thorchillius, skólameistari í Skálholti, eigur sínar til skólahalds í Kjalarnesþingi. Skóli var ekki stofnaður strax en ýmsar hugmyndir voru um staðsetningu hans. Stóð m.a. til að hann yrði í Njarðvík og Thodal stiftamtmaður vildi hafa hann í nágrenni stjörnuathugunarstöðvarinnar á Bessastöðum þannig að stjörnuathugunarmaðurinn sinnti jafnframt kennslu. Að lokum fengust þó Hausastaðir endurgjaldslaust úr landi Garða og var skólinn stofnaður þar árið 1791. Þegar Manntal var tekið um aldamótin var ábúandinn á Hausastöðum, Þorvaldur Böðvarsson, einnig skólahaldari.

Garðahverfi

Minnismerki um Jón Thorkelsson.

Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi sérstaklega ætlaður alþýðubörnum. Hann var fyrir fátækar stúlkur og pilta úr Kjalarnesþingi og höfðu börn af Álftanesi ekki forgang umfram önnur. Markmiðið var „að ala upp mest þurfandi og fátækustu börn í Kjalarnesþingi; í stofnun þessari áttu börnin auk kristilegs uppeldis, að fá húsnæði, föt og fæði, alt þrifalega, en þó alþýðilega útilátið, þangað til þau gætu sjálf unnið fyrir sjer hjá öðrum.“ Börnin áttu að læra lestur og guðsorð, garðrækt og ýmis gagnleg störf. Í skipulagsskrá skólans var einnig kveðið nánar á um fæði þeirra, m.a. tekið fram að þau ættu að fá ferskt grænmeti. Börnin voru á aldrinum sjö til sextán ára en gert ráð fyrir að þau væru tólf, sex piltar og sex stúlkur. Þegar flest var voru sextán börn í skólanum en aðeins átta eða níu undir lokin. Þá var farið að sverfa að starfseminni vegna siglingateppu og dýrtíðar og var hann með öllu lagður niður árið 1812. Hreppstjórar Álftaneshrepps sendu þá sýslumanni bréf þar sem þeir fóru fram á aukið fé vegna barnanna sem komu úr skólanum: „Við beklögum Tíðanna óblíðn, sem stansa skilde þessa góðu guðlegu stiftun, og svifta mörg munaðarlaus börn uppfóstre og Forsorgun […]“. Á 20 ára afmæli Flataskóla, áður Barnaskóla Garðahrepps, 18. okt. 1978, ákvað skólastjórinn að vinna að því að reistur yrði minnisvarði um Hausastaðaskóla.
Þennan minnisvarða afhjúpaði svo Ólafía Eyjólfsdóttir, síðasti ábúandi Hausastaða, og stendur hann þar sem bugða er á veginum til bæjarins.

Hausastaðaþinghá (þingstaður)
Í Fornleifaskýrslu séra Markúsar Magnússonar árið 1820 segir: „Dómhringar (afmörkuð svæði þar sem dómar voru kveðnir upp). Merki sjást til eins slíks á jörð Garðakirkju, Hausastöðum, gömlum þingstað; hann er kringlóttur, um 30 faðmar að ummáli, en annars er ekkert merkilegt við hann.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var á Hausastöðum „þingstaður fyrir Álftaneshrepp, Hausastaðaþinghá.“ Hann var fluttur að Görðum eftir konungsbréfi 23. feb. 1816.
Skv. Sóknarlýsingu 1842 skiptist Hausastaðaþingsókn í Garðakirkjusókn og Bessastaðasókn. Í Garðakirkjusókn voru 32 býli og sátu á þeim 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurrabúðarmenn.

Niðurkot (býli)
Í túninu norðvestur af núverandi Katrínarkoti, liggur í túni. Um er að ræða horfnar minjar. Í mesta lagi sést hér ávalur hóll í túninu, það var mjög kafloðið þegar komið var á staðinn.

Katrínarkot (eldra) – (býli)

Garðahverfi

Garðahverfi -býli,  götur og garðar.

Nokkuð vestar og nær sjó en Hausastaðabærinn sést á Túnakorti 1918 hið gamla Katrínarkot. Bærinn er úr torfi og skiptist í sjö hólf. Hlaðnir veggir kringum garða ganga út frá framhúsunum. Í Örnefnaskrá 1964 er einnig talað um Niðurkot, e.t.v. vegna þess að býlið var niður við sjó: „Hjáleiga eða nýbýli stofnað um 1850 úr Hausastaðalandi […] í Garðahverfi vestast […] tún býlisins lá norðan og vestan Hausastaðatúns“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Þar byggðu fyrst hjón að nafni Eyjólfur og Katrín, líklega snemma á 19. öld, og dregur býlið nafn af konunni. Katrínarkoti fylgdi alltaf grasnyt. Bærinn var fluttur um 1930, þangað sem hann er nú, […] og útihúsin einnig. Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.“ Við Fornleifaskráningu 1984 segir að stæði gamla Katrínarkots sé „í túninu norð-vestur af núverandi Katrínarkoti niður við sjóinn“ en kotið var flutt ofar „undan ágangi sjávar“. Núna er þarna lítill ávalur hóll í mjög grónu túni.
Katrínarkot var eign Garðakirkju en lá sérstaklega undir Hausastöðum. Þess er hvorki getið í Jarðabókum né Manntölum frá 18. og 19. öld enda á það ekki að hafa byggst fyrr en um miðja 19. öld. Hjónin Katrín og Eyjólfur gætu þó verið skyld fólkinu sem bjó í svo kölluðu Tómthúsi árið 1845. Þar hét húsfreyjan líka Katrín, var Eyjólfsdóttir og einn sona hennar hét Eyjólfur. Eiginmaðurinn er hins vegar sagður Jón Jónsson, „vitstola í 10 ár“.
Athyglisvert er raunar að í Manntalinu er Tómthús talið upp á milli Hausastaða og Hausastaðakots eins og það sé staðsett á svipuðum slóðum og Katrínarkot. Freistandi væri að telja þetta eitt og sama býlið. Veikindi eiginmannsins gætu skýrt hvers vegna kotið hlaut nafn af konunni því allur búreksturinn hefur hvílt á henni. Það hefur auk þess komið í hlut elsta sonarins, Eyjólfs, að styðja við bakið á Katrínu og þess vegna hafa seinni tíma menn talið þau hjón.
Vitaskuld verður þó ekki fullyrt um þetta.
Skv. Fasteignabók var jörðin með húsakosti metin á 127 hundruð kr. árið 1932, átti fjögur kúgildi, tíu sauði og tvö hross. Matjurtagarðar sem áður voru 1300 m² voru þá orðnir 1700 m² og gáfu 18 tunnur garðávaxta og túnið hafði stækkað úr 2 í 2,5 ha og fengust af því 100 hestburðir af töðu. Í Fasteignabók 1942-4 hafði landverðið lækkað í 119 hundruð kr. en fjölgað hafði í bústofninum því nautgripir voru átta, sauðir tíu og hrossin þrjú. Sami tunnufjöldi fékkst úr görðunum og áður en af túninu 190 hestburðir af töðu.

Katrínarkotsbúð (sjóbúð)
Á Túnakorti 1918 má sjá ferhyrnt torfhús í suðurhorni Katrínarkotstúns rétt við sjógarðinn. Líklega er það Katrínarkotsbúð sem stóð við Skiptivöllinn á Hausastaðakambi, ofan varanna frá Hlíð, Móakoti, Hausastöðum, Selskarði og Katrínarkoti. Þetta er nánar tiltekið á Guðrúnarvelli, í krikanum þar sem Hliðsnesgata frá Hausastaðasjávarhliði og gatan út á Skreflu mætast og sjást tóftirnar greinilega.

Katrínarkotsbrunnur (vatnsból)

Garðahverfi

Katrínarkotsbrunnur.

Katrínarkotsbrunnur var skv. Örnefnaskrá 1964 „grafinn í túnið vestan bæjarins“ eftir að hætt var að nota Hausastaðabrunn „en reyndist ekki vel. Vatnið var svo saltmengað.“ Katrínarkotsbrunngatan yngri „lá frá heimabrunni til bæjar“ Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í túninu skammt vestur af Katrínarkoti (u.þ.b. 60-70 m) er hlaðinn brunnur. Hann var hlaðinn 1927 eða 1928 og átti að vera fyrir bæði býlin (þ.e. Katrínarkot og Hausastaði), en reyndist ómögulegur vegna seltu. Katrínarkot stóð áður beint, örskammt, vestur af honum.“ Brunnur var síðan grafinn aftur þar sem gamli Hausastaðabrunnurinn var. Katrínarkotsbrunnur hefur skv. þessu verið hlaðinn rétt áður en kotið var flutt í stæði Vesturbæjarins á Hausastöðum, staðsettur mitt á milli eldra og yngra kotsins. Hann er vel varðveittur, fallega hlaðinn úr grjóti og hefur ótvírætt minjagildi.

Katrínarkotsbrunngata (leið)
Á Túnakortinu 1918 liggur gata norðaustur frá Katrínarkoti að Hausastaðabrunni utan Garðatúngarðs. Hún liggur nánast samhliða Hausastaðabrunngötu svo líklega er þetta Katrínarkotsbrunngatan eða Brunngatan eldri sem skv. Örnefnaskrá 1964 „lá frá Hausastaðabrunni að Katrínarkoti“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 eru slóðar frá brunninum að Katrínarkoti, Hausastöðum og Hausastaðakoti kallaðir Brunngötur.
Katrínarkotsbrunngatan yngri lá hins vegar frá Katrínarkotsbrunni sem byggður var um 1928 í túninu milli hins gamla og nýja stæðis hjáleigunnar.

Katrínarkot yngra (býli)
Á Túnakorti 1918 eru tveir kálgarðar rétt vestan Hausastaða merktir Katrínarkoti. Þeir eru með hlöðnum veggjum og liggur landamerkjagarður Hausastaða og Katrínarkots þvert á eystri garðinn. Þarna er einnig umgirtur túnblettur. Af Örnefnalýsingu 1976-7 að dæma hefur Katrínarkot yngra verið byggt við þessa garða en ekki fyrr en nokkru síðar: „Íbúðarhúsið í Katrínarkoti stendur norðvestan hlöðunnar og fjóssins á Hausastöðum, en þangað var það flutt árið 1930. Fjós og hlaða, byggð um svipað leyti, standa fast norðvestan við húsið. […] Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.“
Fasteignabók árið 1932 var nýi bærinn úr steini með miðstöð og vatnsveitu.

Kaldakinn (býli)

Garðahverfi

Kaldakinn.

Skv. Örnefnaskrá 1964 var Kaldakinn býli eða „þurrabúð frá Hausastöðum“, norðan þeirra eða „norðast í Hausastaðatúni […] niður undir Aukatjörn“.
Köldukinnargerði hét „lítið gerði umhverfis þessa þurrabúð“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Köldukinn, þurrabúð frá Katrínarkoti, var norðan þess (þ.e. Katrínarkots), niður undir Skógtjörn. Tættur hennar sjást enn. Ólafíu [Eyjólfsdóttur á Hausastöðum] rámar aðeins í byggð í Köldukinn, en hún fór í eyði rétt fyrir aldamótin 1900.“ Skv. Örnefnalýsingu 1958 var Högnavöllur niður undir sjó en „þar norðar […] Köldukinnarvöllur […]“. Við Fornleifaskráningu 1984 er Kaldakinn sögð „norðaustan við Katrínarkot, neðan heimkeyrslu og kálgarðs sem þarna er, rétt við sjóinn. Austan þess er lítið steinsteypt hús, reist fyrir barnaheimili“. Þarna er mjög grasi vaxið en mest áberandi er veggjabrot, um 8,5 m á lengd og 0,5 m á hæð. Brotið stefnir til sjávar en út frá því „í vesturátt virðist hafa verið ferhyrndur garður, nú fremur óljós“, um 11,5 m á breidd. Tryggvi Gunnarsson í Grjóta telur líka byggðina hafa lagst af í kringum aldamótin.
Skv. Manntali bjuggu árið 1801 tveir jarðnæðislausir fiskarar ásamt konum sínum í húsmannsplássinu Köldukinn. Hjónin Halldór Stígsson og Guðrún Ögmundsdóttir áttu þrjú börn saman og hún auk þeirra einn son en hjónin Jón Gíslason og Margrét Þorsteinsdóttir voru barnlaus.
Norðan við Köldukinn og Rústirnar, eru aðrar rústir sem gætu verið af þriðja býlinu. Þetta er á bakka Litlutjarnar við Skógtjörn. Hjábýlis- og tómthúsfólk sem nefnt er í Manntölum gæti hafa búið þarna eða þar sem nú eru Rústirnar, ein fjölskylda árið 1703, tvær 1801 og aðrar tvær 1845.
Kaldakinn er norðaustan við Katrínarkot, neðan heimkeyrslu og kálgarð sem þarna er, rétt við sjóinn. Austan við staðinn er lítið steinsteypt hús, reist fyrir barnaheimili sem hér var.
Mjög er grasi vaxið á þessum stað. Það sem mest er áberandi er veggjaspotti, um 50 sm hár, yfirgróinn, sem stefnir í átt að sjó. Út frá honum í vesturátt virðist hafa verið ferhyrntur garður, nú fremur óljós. Lengd fyrirgreinds
hleðslubrots 8,5 m og breidd afgirts svæðis til vesturs 11.5 m. E.t.v hefur þetta verið kálgarður bæjarins.

Arndísarkot (býli)

Garðahverfi

Garður við Arndísarkot.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnt Arndísarkot: „Kot þetta stóð á Skerflu. Sér enn rústirnar […] Þurrabúð […] Þar bjó Arndís. […] Dalur: Vestan og neðan Katrínarkotstúns var lægð, í hana féll sjór úr Skógtjörn. Lægðin nefndist Dalur.“ Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Sléttur og grasi gróinn tangi liggur út í Hliðsnes á milli sjávar og Skógtjarnar. Vegurinn út í Hliðsnes liggur eftir honum. Tangi þessi heitir Skrefla. Næst túninu, norðan við Skreflu, er lægð, sem heitir Dalur. Á flóði fellur sjórinn (úr Skógtjörn) inn í hann. Þó er Dalurinn gróinn. Tóftarbrot er nálægt miðjum Dalnum. Þar var eitt sinn tómthús, nefnt Arndísarkot. Áður var Dalurinn minni og tilheyrði Arndísarkot þá Skreflu.“ Tóftirnar eru enn sýnilegar.
Kotið er talið kennt við Arndísi Jónsdóttur (1745-1806) sem kölluð var Barna-Arndís. Frá Arndísi er sagt í Íslenskum sagnaþáttum frá 1954. Hún var ættuð úr Skaftafellssýslu en var lengst af á hrakhólum, átti alls átta börn utan hjónabands, þar af fimm með giftum mönnum, og lenti í útistöðum við yfirvöld vegna þessa. Árið 1776 var hún gerð útlæg úr Sunnlendingafjórðungi en þá hefur hún e.t.v. flust til Gullbringusýslu. Ekki eru heimildir um hvenær hún bjó í Arndísarkoti en 1780 er vitað um hana í Hvaleyrarkoti við Hafnarfjörð. 1784 var hún dæmd í Spunahúsið í Kaupmannahöfn en þangað fór hún ekki. Árið 1786 giftist Arndís Jóni Jónssyni nokkrum og með honum átti hún eina dóttur. Þau bjuggu um nokkurt skeið að Eiði í Mosfellssveit. Þegar hún missti manninn sinn fluttist hún til Reykjavíkur og bjó síðustu æviár sín í Skálholtskoti.

Hausastaðatúngarður (garður)

Garðahverfi

Hausastaðatúngarður.

Á Túnakorti 1918 má sjá að girt er kringum tún Hausastaða á alla vegu og einnig milli þess og Katrínarkots. Í Fasteignabókum árin 1932 og 1942-4 er talað um túngarð og hagagirðingu. Garðatúngarður er norðan megin en Hausastaðatúngarður sunnan megin, nefndur í Örnefnaskrá 1964: „Hann lá á Sjávarkampinum, mikill grjótgarður“ og nefnist framhald hans Katrínarkotstúngarður. Auk þess eru þarna Hausastaðatúngerði neðri neðan Guðrúnarvallar og Högnavallar (G.R.G: 104), e.t.v. milli Hausastaða og Katrínarkots. Suðaustan megin milli Hausastaða og túnspildu frá Hausastaðakoti er sýnd vírgirðing á Túnakortinu en samsíða henni fannst við Fornleifaskráningu 1984 gamall yfirgróinn túngarður hlaðinn upp í 0,6 m hæð.

Katrínarkotstúngarður (garður)
Á Túnakorti 1918 má sjá að girt er kringum allt Katrínarkotstún en skv. Fasteignabókum 1932 og 1942-4 eru þar túngarðar og hagagirðingar. Garðatúngarður er norðan megin og í Örnefnaskrá 1964 er Katrínarkotstúngarður sagður sunnan megin: Hann var framhald Hausastaðatúngarðs og „lá niður undir sjó, frá Sjávarhliðinu vestur undir Dal“ á Skreflu „vestan og neðan Katrínarkotstúns“. Á Túnakorti sést girðing við túnið vestan megin en skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var a.m.k. byggður þar garður þegar kom fram á 20. öld: „Vestan við túnið í Katrínarkoti er hlaðinn torfgarður til varnar sjávargangi frá Skógtjörn, sem liggur vestan lands Katrínarkots og Hausastaða. Sigurjón Sigurðsson hlóð þennan garð um 1930.“ Garðurinn við Skógtjörn sést enn þá mjög skýrt.

Péturssteinar (landamerki)
Í Fornleifaskýrslu sinni um Garða 1820 segir séra Markús Magnússon: „Á rifi fram undan Garðahverfinu eru þrír steinar sem kallaðir eru Péturssteinar með bókstöfunum S.P.S.T. áhöggnum. Þeir eru taldir merkissteinar milli prestssetursins og nágrannajarðanna árið 1677 til afmörkunar á réttindum til sölva sem vaxa í fjörunni.“ Í Örnefnaskrá 1964 kemur fram að Péturssteinar eru á Hausastaðagranda: „Þrír steinar er liggja úti á Grandanum miðsvæðis […] Péturssteinn innsti: Allstór steinn á Grandanum austanverðum […] Péturssteinn mið: Steinn þessi liggur nokkru utar og vestar […] Péturssteinn ysti: Steinn þessi er yztur […]“. Grandanum og mismunandi hlutum hans er lýst nákvæmlega í Örnefnalýsingu 1976-7: „Fram af miðju Hausastaðatúni gengur skerjagrandi mikill í sjó fram […] Grandi þessi kemur aðeins upp úr á fjöru. […] Kringla heitir á Grandanum næst utan Gedduóss. Þar er Grandinn hæstur, og er Kringla því það fyrsta, sem upp úr kemur af honum. Þrír stórir steinar á Hausastaðagranda, út af Kringlu, heita Péturssteinar. Þeir koma upp úr næst á eftir Kringlu, og er steinninn í miðið þeirra stærstur. Oft liggja uppi selir á Péturssteinum. […] Sölvatekja var mikil á Granda.“ Þar eð kirkjan í Görðum var helguð heilögum Pétri hafa steinarnir e.t.v. verið kenndir við hann.

Pálshús (býli)

Garðahverfi

Pálshús.

Pálshús birtast fyrst í Jarðaskrá Garðakirkju árið 1565, hjáleiga frá Görðum byggð Herjólfi.
Árið 1565 leigði Herjólfur Pálshús fyrir þrjár fiskavættir og réri auk þess fyrir skipi Garða eftir vilja Jóns Loftssonar staðarhaldara. Kúgildi var eitt.
Í Jarðabók 1703 eru þau sögð „hjáleiga fyrirsvarslaus“, ábúandi Loftur Jónsson og skv. Manntali sama árs fimm heimilismenn auk hans: eiginkonan Aldís Ormsdóttir, þrjú börn og tvítugur „vinnupiltur“.
Árið 1703 var jarðardýrleiki óviss en 45 álna landskuld galt Loftur með tveimur fjórðungum fiska í kaupstað. Leigukúgildi var enn eitt, borgað í fiski eða smjöri til séra Ólafs í Görðum sem á móti bar að uppyngja það. Í kvikfénaði átti jörðin tvær kýr og fóðraði þær, eina ær, veturgamlan sauð, lamb og eitt hross. Miðað við einbýli voru kvaðir sérlega miklar á Pálshúsum: dagsláttur, tveggja daga hestlán, hrísshestur tekinn í almenningi og mannslán árið um kring. Bóndi varð að láta eina vinnupiltinn sinn róa til fiskjar á skipi prestsins og þurfti auk þess líkt og á fyrri öldum sjálfur að vera formaður. Lofti var því gert nánast ómögulegt að manna eigin bát og þar eð hann mátti ekki heldur taka inn aðkomuskip verður ekki séð að uppsátur jarðarinnar í Pálshúsavör hafi nýst honum. Hann lagði loks sjálfur efni til húsabótar en sótti eldivið í torf og skóg Garða. Árið 1847 var verðmæti jarðarinnar enn óvíst, landskuld hin sama og kúgildi eitt en 1861 var hún talin 10,8 ný hundruð. 1932 var verðið 85 hundruð kr., kúgildin voru orðin þrjú, 90 sauðir og tvö hross. Úr 900 m² görðum fengust 15 tunnur matjurta. 1942-4 hafði jarðarverðið hækkað í 96 hundruð kr., bústofninn taldi sjö nautgripi, 70 sauði og eitt hross og garðarnir gáfu 19 tunnur.

Garðahverfi

Pálshús.

Pálshúsatún var frekar stórt, stækkaði á tímabilinu 1918-32 úr 1,5 í 2,2 ha og líklega enn meir næsta áratuginn því þá jókst heyaflinn úr 90 töðuhestburðum í 220. Skv. Örnefnaskrá 1964 skiptist túnið í Vesturtún og Austurtún en austast hét Pálshúsagerði. Þeim megin lágu Pálshús að hluta að Garðatúngarði og Dysjamýri en norðaustar var garður eða girðing milli þeirra og Nýjabæjar. Við norðurjaðar túnsins var Garðamýri og handan hennar Garðar sjálfir. Að vestan var girt gegnt Bakka og að sunnan gegnt Dysjum.
Þegar Manntal var tekið 1801 bjuggu í Pálshúsum hjónin Jón Magnússon og Guðrún Þorbjörnsdóttir ásamt fimm manns en í seinni Manntölum hafði heldur fjölgað í húsunum. Árið 1816 voru þar Höskuldur Þorsteinsson og Kristrún Guðlaugsdóttir með fjögur börn og vinnufólk, heimilismenn tólf talsins. Höskuldur var enn bóndi í Pálshúsum 1845 en virðist hafa misst konuna því hún er ekki nefnd. Yngsti sonurinn, Jón, var orðinn hafnsögumaður á Bakka og eldri börnin hafa væntanlega líka verið flutt að heiman. Bóndi var hins vegar komin með 12 ára gamlan fósturson og á heimilinu voru tvær nýjar vinnukonur, nýr vinnumaður og tveir niðursetningar. Í ónafngreindu tómthúsi bjuggu Eyjólfur Guðmundsson fiskari, Sólveig Einardóttir vinnukona og sonur þeirra, Guðmundur. Skv. Jarðatali var þó aðeins einn ábúandi í Pálshúsum árið 1847, þau voru enn í eigu kirkjunnar, nefnd í Jarðabók 1861 og svo í Fasteignabókum 1932 og 1942-4, kirkjujarðir sem áður. Skv. Fasteignamati ríkisins eru þau enn í byggð og skráður eigandi Jósep Guðjónsson.
Á Túnakorti árið 1918 má sjá bæjarstæði Pálshúsa austan megin í túninu. Bærinn er byggður úr torfi og hólfast í fimm hluta með stefnu nokkurn veginn suður-norður. Skv. Fasteignabókum er komið timburhús árið 1932, járnvarið 1942-4 eða fyrr.
Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Pálshús: Hjáleiga frá Garðastað neðan til við Nýjabæ, þar á bala.“ Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 eru Pálshús „skammt norðan Dysja, en lengra frá sjónum“.
Skv. Jarðabókinni 1703: Palshus, hjáleiga fyrirsvarslaus, stendur í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við staðinn og hinar hjáleigurnar í hverfinu. Jarðardýrleiki er óviss. Ábúandinn Loftur Jónsson. Landskuld xlv álnir. Betalast með ii vættum og ii fjórðúngum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandi. Leigukúgildi i. Leigur betalast í fiski eður smjöri heima til staðarhaldarans. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn.
Kvaðir eru mannlán árið um kring, dagsláttur einn, hestlán um tvo daga, hrísshestur einn, sem tekst í almenningi. Kvikfjenaður ii kýr, i ær, i sauður veturgamall, i lamb, i hross. Fóðrast kann ij kýr.
Heimilissmenn iiii. Eldivið af torfi og skóg hefur ábúandinn í óskiftu kirkjunnar landi. Bát að hafa hefur staðarhaldarinn leyft þessum hjáleigumanni, ef hann þará menn fengi annarstaðar að. En sjálfur á hann að róa á staðarhaldarans bát. Uppsátur hefur staðarhaldarinn unt hönum hjer til þar sem heita Pálshúsvarir. En inntökuskip má hann engin taka.

Pálshúsabrunnur (vatnsból)
Skv. Örnefnaskrá 1964 er Pálshúsabrunnur „rétt fyrir ofan bæinn. Allgott vatnsból“. Hann sést ekki á Túnakorti.

Pálshúsabrunngata (leið)
„Gatan lá frá brunninum heim á bæ.“

Pálshúsasjávargata (leið)
Bakkahryggur var skv. Örnefnaskrá 1964 „hryggur er lá eftir vesturtúninu heiman frá bæ allt niður undir Bakka“ og Pálshúsasjávargata „lá fram Bakkahrygg að sjó í Pálshúsavör“.

Miðengi (býli)

Garðahverfi

Miðengi og Gata (t.h.).

Skv. Jarðabókinni 1703: Mideinge, hjáleiga í óskiftu Garðastaðar landi, hefur ekkert fyrirsvar hvað ábýlið snertir, annars hefur hjer uppá lausafje megandi ábúenda stundum nokkuð fyrirsvar skipað verið.
Gamlir menn segja, að Miðengi sje fyrst bygt úr Hlíðar landi ekki fyrir fullum 100 árum, og hefur í manna minnum verið hálft fyrirsvar, áður en Sr. Ólafur tók það af violenter satis; imó mag. Jón Widalin man og veit að þar hefur hálft fyrirsvar verið. Jarðardýrleiki er óviss.
Ábúendur Ólafur Magnússon á hálfri, annar Jacob Stefánsson á hálfri. Landskuld er af hvörjum xx álnir en ef allri hjáleigunni xl álnir. Betalast með ii vættum fiska heim til staðarhaldarans. Við til húsabótar leggur staðarhaldarinn.
Kúgildi er i ordinarie og að gamalli venju, en nú fyrir bón og nauðsyn ábúenda sitt hjá hverjum. Leigur betalast í fiski eður smjöri heim til staðarhaldarans. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn hvort sem er eitt eður fleiri.
Kvaðir eru mannslán af hverjum ábúenda árið um kring, áður þegar einn var ábúandi leystist þetta mannslán venjulega þar með, að þá var landskuld einnri fiskavætt hærri. Dagsláttur einn af hverjum ábúanda, en búi einn á er dagsláttur einn. Hrísshestar heimtast nú ekki fyrir vanmegniss sakir ábúenda. Ei heldur hestlán. Annars ef borgnir væri landsetar, gyldust þeir tveir og tvö hestlán af tvíbýli, en ei nema eitt sjerhvert ef einn á bygði.
Kvikfjenaður hjá Ólafi i kýr, leigukúgildið, hjá Jacob i kýr, leigukúgildið. Fóðrast kann ii kýr ríflega. Heimilissmenn hjá Ólafi iii og fjórði að hálfu, hjá Jacob iii og fjórði að hálfu.
Eldiviðartak af móskurði í staðarins landi.

Garðahverfi

Miðengi 2013.

Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en í landskuld guldust 40 álnir í tveimur vættum fiska. Kúgildi var skv. fornri venju eitt en nú sitt hjá hvorum ábúanda, borguð í fiski eða smjöri til staðarhaldarans í Görðum sem uppyngdi þau. Kvaðir voru mannslán og dagsláttur af báðum árið um kring en hrísshestar og hestlán heimtust ekki vegna vanmegnis þeirra. Hvor hafði eina kýr sem jörðin fóðraði ríflega. Húsavið fengu þeir hjá staðarhaldara og sóttu eldivið eða mó í nytjaland hverfisins. Jarðardýrleiki var enn óviss árið 1847, landskuld hin sama en kúgildið eitt. 1861 taldist Miðengi 12,5 ný hundruð en 1932 var matsverðið 30 hundruð kr. Þá voru kúgildin orðin fjögur, þar voru 80 sauðir og tvö hross og 1180 m² kálgarðar gáfu af sér 18 tunnur. Árin 1942-4 hafði matsverðið hækkað í 52 hundruð kr., í bústofninum voru 5 nautgripir, 8 sauðir og 16 hross og 19 tunnur fengust af garðávöxtum. Jörðin hélt rétti til mótaks, útræði var þar og hrognkelsaveiði en uppsátur í Miðengisvör.
Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjarstæðið sunnarlega í Miðengistúni, nálægt sjónum. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Miðengi er niður frá Háteigi, og er sama heimreið að báðum bæjunum. Húsið í Miðengi stendur u.þ.b. 40-50 m fyrir ofan fjöru. Það var byggt fast aftan (norðaustan) við gamla bæinn (þ.e. þar sem hann var).“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 stóð gamli bærinn beint framan við núverandi íbúðarhús, þar sem hlaðið er nú.
Bærinn á Túnakortinu samanstendur af um sex torfhúsum en eitt þeirra er opin tóft. Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skrásetjari segir: „Hafa bæjarhúsin vísað til suðvesturs, út á sjóinn og má sjá á hleðsluraðir, niðurtroðnar í hlaðinu.“
Á Túnakorti 1918 eru tvö samföst útihús rétt vestan við bæinn. Þau eru líklega úr steini og hafa stefnuna suðvestur-norðaustur.
Á Túnakortinu 1918 má sjá tvo kálgarða framan við bæjarhúsin í Miðengi. Sá vestari við útihúsin er líklega sá sem skv. Örnefnalýsingu 1976-7 heitir Fjósgarður“. Á Túnakorti er kálgarður suðaustan við bæjarhúsin, líklega sá sem kallaður er Framgarður í Örnefnalýsingu 1976-7: „Rétt suður af bænum […] kálgarður, aflagður fyrir nokkrum árum.“

Garðahverfi

Miðengi.

Skv. Fornleifaskráningu 1984 er garðurinn „beint suður af íbúðarhúsinu“.
Miðengi byggðist fyrst úr landi Hlíðar skömmu eftir 1600 og var skv. Jarðabók Árna og Páls í eigu Garðakirkju árið 1703. Ábúendurnir Ólafur Magnússon og Jakob Stefánsson skiptu þá jörðinni til helminga og voru þrír heimilismenn hjá hvorum en sá fjórði að hálfu. Þegar Manntal var tekið 1801 bjuggu þar Sigurður Halldórsson með fimm í heimili og ung hjón, Jón Erlendsson húsmaður og Ólöf Helgadóttir með eins árs gamlan son og fátæka stúlku. Árið 1816 voru þau flutt í þurrabýlið Holt (188-27) í landi Hlíðar en í Miðengi komið annað húsfólk, Gísli Jónsson og Gróa Jónsdóttir með eina dóttur. Þá hafði Guðmundur Sigmundsson tekið við búskap á aðalbýlinu en hann átti konu og fjögur börn og auk þeirra voru þrír í heimili. Í Manntali 1845 höfðu enn orðið ábúendaskipti. Þá hét grasbóndinn Sigurður Árnason, með konu, þrjú börn og vinnukonu. Einnig voru tómthúsmennirnir Sigurður Guðmundsson og Samúel Jónsson úr Hlíð. Sá fyrrnefndi var kvæntur Guðrúnu Ólafsdóttur og átti með henni þrjú börn og hjá þeim var Jón Pétursson sem lifði af sveit. Húsfreyja Samúels hét Arnleif Guðmundsdóttur og áttu þau þrjú börn. Einnig voru hjá þeim móðir húsbóndans og vinnumaður. Í Jarðatali árið 1847 er þó aðeins tilgreindur einn ábúandi og jörðin sögð kirkjueign. Hún er nefnd í Jarðabókinni 1861 og var skv. Fasteignabókum enn kirkjujörð árin 1932 og 1942-44. Hún hefur verið í ábúð fram á þennan dag og skráður eigandi í Fasteignamati ríkisins er Ágúst Kristjánsson.
Við gerð Túnakorts árið 1918 var Miðengistún 1,4 ha og hélst svo fram til 1932 eða lengur. Þá var heyafli um 65 hestburðir í töðu en 80 árin 1942-4. Girt var kringum túnið á alla vegu með görðum og girðingum. Miðengi er niðri við sjó með Hlíð að norðan og norðaustan, Háteig, Ráðagerði og Garða austan megin.
Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 á jörðin einnig „land uppi á Garðaholti, og tilheyra því bæði Völvuleiði og Prestshóll. Einnig […] miðhluti Dysjamýrar ofan Garðaholtsvegar“.
Skv. Fasteignabók voru timburhús komin í Miðengi árið 1932.

Götusteinn (samgöngubót/álagablettur)

Garðahverfi

Götusteinn.

Götusteinn var skv. Örnefnaskrá 1964 „steinn er lá við götuna milli Hlíðar og Miðengis. Á steini þessum voru þau ummæli, að hann mætti ekki hreyfa.“ Við þetta gerir Kristján Eiríksson athugasemd í Örnefnalýsingu 1976-7: „Nokkuð stór steinn er í Miðengistúni, fast vestan við brunngötuna frá Hlíð. G.S. nefnir hann Götustein í lýsingu sinni. Kristján [Eyjólfsson í Miðengi] segir það rangt, en man ekki rétta nafnið.“ Steinninn er enn á sama stað.

Miðengistúngarður (garður)
Á Túnakorti 1918 má sjá að varnargarður er neðan Miðengistúns og út frá honum liggja girðingar kringum túnið. Skv. Fasteignabók var Miðengi árið 1932 umgirt túngarði og hagagirðingu (bls. 23). Miðengistúngarður hét sá hluti sjógarðsins sem var þarna, skv. Örnefnaskrá 1964 „þykkur og mikill“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Á bakkanum er grjótgarður til varnar ágangi sjávar.“ Neðan túnsins er breið klapparfjara og klapparnef fram í sjó. Þarna er ekkert landbrot en flæðir oft inn á lágt land innan við kambinn.

Miðengisbrunngata (leið)
Skv. Örnefnaskrá 1964 var Miðengisbrunnur „neðan og sunnan bæjarins“ og lá Miðengisbrunngata neðan frá honum „heim til bæjar“.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Gata liggur frá íbúðarhúsinu á milli Framgarðs og Fjósgarðs, og skiptist hún neðan garðanna. Liggur Sjávargata beint niður að vörinni, en Brunngata suður að Brunni.“

Miðengisbrunnur (vatnsból)

Garðahverfi

Miðengisbrunnur.

Á Túnakorti 1918 sést brunnur utarlega í túninu, suðaustan bæjarstæðisins, nálægt mörkum Miðengis og Garða. Miðengisbrunnur er nefndur í Örnefnaskrá 1964, „neðan og sunnan bæjarins. Ekki gott vatn.“ Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var hann „u.þ.b. 20-25 m norðaustur af hólnum“, þar sem sjóbúð var áður „á kampinum milli Miðengis og Garða […]. Af heimafólki var hann bara nefndur Brunnur. Vont vatn þótti í honum og saltblandað.“

Völvuleiði (legstaður)

Völvuleiði

Á Völvuleiði.

Í Fornleifaskýrslu sinni árið 1820 segir séra Markús Magnússon: „Hér eru engir haugar eða fornmannaleiði nema ef telja skyldi hér fyrir ofan prestssetrið á Garðaholti það sem kallað er Völvuleiði, sem fornar sagnir eru um að þar sé grafin Völva (spákona) sem farið hafi um í heiðni. En við leit finnast þar engar menjar eða leifar af nokkru tagi.“ Við þetta gerir Kålund eftirfarandi athugasemd 1984: „Samkvæmt fornleifaskýrslu (1820) fundust á Álftanesi nokkrar fornaldargrafir, sennilega þó ekki raunsannar […] meðal þeirra „völvuleiði“ […]“.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Syðst á Garðaholti heitir Holtsendi, þar sem nú eru geysimiklar sandgryfjur. Það, sem mest ber á á holtinu, er, að á því sunnarlega er smáhæð, sem heitir Völvuleiði.“ Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Svo var allmikil þúst kölluð austarlega á Holtinu. Þúst þessa bar all hátt.“ „Kirkjustígur lá af Flatahrauni vestur eftir holtinu norðan við Völvuleiði og Torfavörðu“. Örnefnalýsing 1976-7 hefur þetta: „Þá á Miðengi land uppi á Garðaholti, og tilheyra því bæði Völvuleiði og Prestshóll. Á háholtinu, suðaustan við Garðaholtsveg (þ.e. vegarins (svo) yfir holtið), er þúfa, sem kölluð er Völvuleiði. Torfavarða var gegnt Völvuleiði, hinum megin við veginn.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Völvuleiði „uppi á háhæð vestan við þjóðveginn út á Álftanes, sunnan vegar út að Görðum, syðst á Garðaholti“. Þar er miðlungsgrýttur melur, nokkuð grösugur allt um kring. Hóllinn sést greinilega langt að, grænni en umhverfið og stendur hátt. Hann er grasi vaxinn en sjá má grjót og hola er í honum miðjum. Hann er um 11 m að lengd og breidd
og snýr í austur (100°) út úr holunni.

Presthóll (huldufólksbústaður)

Garðahverfi

Presthóll.

Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Það, sem mest ber á á holtinu, er, að á því sunnarlega er smáhæð, sem heitir Völvuleiði. Heldur vestar heitir Torfavarða. Enn vestar, austanvert, þar sem Garðavegur kemur á Álftanesveg, er grasi gróinn klapparhóll, ber að norðan og vestan. Þessi hóll heitir Presthóll. Þar hlóð sr. Jón Loftsson, sem hér var prestur 1562, vörðu og dvaldi þar öllum stundum.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 er þetta „grágrýtisklapparhóll við vegamót Garðaholts- og Álftanesvegar“ en í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Presthóll er stór klettahóll, klofinn endilangs, í krikanum austan við Garðaholtsveg, þar sem hann liggur af Álftanesvegi.“ Kristján Eldjárn skoðaði hólinn árið 1978: „Þar sem vegurinn út á Álftanes liggur yfir Garðaholtið er til vinstri handar (þegar út á nesið er ekið) dálítill klettahóll, (eða kannski réttara að segja klappahóll), sem heitir Presthóll. Um hann eru þjóðsögur og mun vera huldufólk í.“ Kannski Garðapresturinn hafi átt vingott við það en hóllinn hans er enn á sínum stað.

Nýibær (býli)

Garðahverfi

Nýibær.

Nýjabæjar er fyrst getið í Jarðaskrá Garðakirkju árið 1565, þá leigður Guðmundi. Í Jarðabók 1703 er svo talað um hálfbýli með hálft fyrirsvar sem Guðmundar tveir, Ólafsson og Bjarnarson, skiptu til helminga, þrír heimilismenn hjá þeim fyrrnefnda en fimm hjá þeim síðarnefnda.
Árið 1565 galt ábúandi í landskuld þrjár fiskavættir, vallarslátt og skipsróður allt árið en jörðinni fylgdi eitt kúgildi.
1703 var jarðardýrleiki óviss og landskuld 80 álnir eða 40 á hvorn ábúanda, borguð með þremur vættum fiska og vallarslætti. Báðir höfðu tvö leigukúgildi sem þeir guldu með smjöri að frádregnum 5 álnum fyrir fæði sláttumannsins. Bar staðarhaldara að uppyngja kúgildin. Nafnarnir Ólafsson og Bjarnarson höfðu engan kvikfénað annan en fóðrast kunnu naumlega þrjár kýr. Kvaðir voru dagsláttur af hvorum, hrísshestur og hestlán. Mannslán sem var eitt af allri jörðinni guldu þeir þetta ár með hálfum skipshlut af eigin bátum en höfðu frí skipsuppsátur í Nýjabæjarvör í fjörunni neðan Bakka. Þeir lögðu sjálfir við til húsabótar en nutu skógartaks, eldingartorfs og annarra þvílíkra hlunninda úr landi Garða.
Skv, Jarðabókinni 1703: Nýebær, kallaður hálfbýli, því þar er ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.

Garðahverfi

Nýibær.

Eigandi er Garðakirkja. Jarðardýrleiki er óviss. Ábúendur Guðmundur Ólafsson býr á hálfri, Guðmundur Bjarnarson á annari hálfri. Landskuld lxxx álnir, xl álnir hjá hverjum. Betalast með iii vættum fiska og vallarslætti; fæðir bóndinn verkmanninn og eignast þar fyrir 10 álnir af leigum. Við til húasbótar leggur ábúandi. Leigukúgildi ii, sitt hjá hverjum. Leigur betalast með smjöri heim að fráteknum fimm álnum af hvers parti, sem niður falla fyrir vallarsláttumannsins fæði. Kúgildin uppýngir hússbóndinn. Kvaðir eru dagsláttur einn af hverjum, hrísshestur einn af hverjum, hestlán eitt af hverjum. Betalaðist með fimm álna virði sjerhvert ef ei fram kæmi in natura og ábúendur fullfærir væri til að betala. Mannslán plagar að gjörast in natura eitt af allri jörðinni, en nú um stundir hafa staðarhaldarinn og ábúendur so accorderað, að þeir bíhalda sínum mannslánum sjálfir á sínum eigin bátum og þar á mót gefa staðarhaldaranum hálfan skiphlut af sínum eigin bátum. Kvikfjenaður hjá Guðmundir Ólafssyni enginn fyrir utan kúgildið, hjá Guðmundi Bjarnasyni og ei nema kúgildið. Fóðrast kann iii kýr naumlega. Heimilissmenn hjá Guðmundi Ólafssyni iii, hjá Guðmundi Bjarnasyni v. Skógartaks, eldingartorfs og annara þvílíka hlunninda nýtur þessi jörð úr óskiftu að þörfum eins og hin önnur býlin í hverfinu. Skipsuppsátur heyrir þessu býli til í Bakkavörum frí.
Í Manntali tæpri öld síðar 1801 voru heimilin hins vegar orðin fjögur. Jarðnyt höfðu Þorvaldur Magnússon og kona hans Guðrún Ásgrímsdóttir, hjá þeim fóstursonur og vinnukona. Auk þeirra var húsfólk sem lifði alfarið af fiskveiðum, annar vegar hjónin Magnús Jónsson og Borghildur Jónsdóttir, hins vegar Brynjólfur Sveinsson og Guðrún Þorleifsdóttir sem áttu 2 ára barn.

Garðar

Garðar. Nýibær framar.

Sérstöðu hafði Þorkell Þorkelson smiður sem lifði af handverki sínu og hafði þrjá í heimili. Flestallt þetta fólk fór annað á næstu fimmtán árum og settust þau Brynjólfur og Guðrún að í Sjávargötu. Sjálfur var Þorvaldur bóndi þó enn búsettur í Nýjabæ þegar Manntal var tekið árið 1816 og giftur í annað sinn. Eiginkonan Vilborg Jónsdóttir hafði með sér þrjú uppkomin börn og einnig var á heimilinu Guðrún, niðurseta á miðjum aldri. Í Manntali 1845 voru ábúendur tveir, Jón Gíslason sem hafði gras og Sveinbjörn Jónsson fiskari, hvor um sig með sex í heimili. Hjá Sveinbirni bjuggu meðal annarra Sigríður Þorsteinsdóttir húskona og 25 ára gamall sonur hennar. Þegar Jarðatal var tekið 1847 var ábúandi þó aftur aðeins einn en Nýibær áfram kirkjueign, einnig nefndur í Jarðabók árið 1961 og í Fasteignabókum 1932 og 1942-44. Skv. Fasteignamati ríkisins er jörðin enn í ábúð og nú í eigu Ragnheiðar Jónsdóttur.
Árið 1847 var dýrleiki jarðarinnar enn óviss en þar voru tvö kúgildi. 1861 var jörðin talin 10,4 ný hundruð. Þegar kom fram á næstu öld var landverðið með húsakosti 44-5 hundruð kr. Árið 1932 voru kúgildin þrjú, á jörðinni 30 sauðir og tvö hross og afrakstur 1200 m² matjurtagarða 20 tunnur. 1942-4 átti jörðin í kvikfénaði fimm nautgripi, 42 sauði og eitt hross og í matjurtum fengust 25 tunnur. Stundað var útræði og hrognkelsaveiði og mór hafður í eldivið.
Nýjabæjartún var allstórt, 1,9 ha þegar Túnakort var gert árið 1918 og stækkaði á fjórtán árum í 2,2 ha sem gáfu 112 töðuhestburði en 170 árin 1942-4. Jörðin er með þeim syðstu í Garðahverfi, fjær sjónum, austur upp við Garðatúngarð, með Dysjamýri (185-70) þar fyrir utan. Handan túngarðsins er nú nýbýlið Grund. Norðan megin Nýjabæjartúns er svo girðing að Króki og Görðum en vestan megin að Pálshúsum.
Á Túnakorti má sjá stæði Nýjabæjar með þyrpingu húsa og garða norðarlega í Nýjabæjartúni. Bærinn er úr torfi og hólfast í þrennt með stefnu suðvestur-norðaustur. Í Örnefnaskrá 1964 segir að hann sé „neðar í túni en Krókur“ og Örnefnalýsing 1976-7 bætir við: „Nýibær er upp af Pálshúsum, og liggja túnin saman. Hlaða og fjós eru rétt austur af gamla húsinu. Nú hefur nýtt hús verið byggt í Nýjabæ í túnjaðrinum austur við veginn.
Nýbýlið Grund, sem byggt var nálægt 1950, er ofan og austan við túngarðinn. Því fylgir ekki grasnyt, aðeins lítil lóð.“ Skv. Fasteignabókum var komið timburhús í Nýjabæ árið 1932 og járnvarið 1942-4 ef ekki fyrr. Núverandi íbúðarhús hefur vafalaust raskað eldri byggingaleifum. Erfitt er að meta hvort einhverjar leifar bæjarhúsanna geti enn leynst undir sverðinum.

Móakot (býli)

Garðahverfi

Móar.

Móakot var hjáleiga frá Görðum, byggð úr landi Hlíðar um miðja 17. öld eða í minni manna sem lifðu þegar Jarðabók var gerð árið 1703. Þáverandi ábúandi hét Oddur Ásbjörnsson og voru fjórir í heimili. Í Manntali 1801 bjuggu hins vegar tveir bændur á jörðinni, Páll nokkur Ásgrímsson, „bonde af jordbrug og fiskerie“, ásamt konu, tveimur vinnumönnum, vinnukonu og hreppsómaga, svo og tómthúsmaðurinn Nikulás Guðmundsson ásamt konu, syni og hreppsómaga.
Skv. seinni Manntölum fækkaði fólkinu aftur eftir það. Árið 1816 höfðu hjónin Guðmundur Guðmundsson og Hlaðgerður Einarsdóttir tekið við og var hjá þeim ein vinnukona og niðursetningur. 1845 var Guðmundur látinn en Hlaðgerður áttræð að aldri orðin niðursetningur hjá nýrri fjölskyldu, Eyjúlfi Hendrikssyni, Guðrúnu Eyvindsdóttur og þremur börnum. Skv. Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi áfram einn og jörðin í eigu kirkjunnar, hún er nefnd í Jarðabók 1861 og síðan í
Skv. Jarðabókinni 1703: Móakot, hjáleiga í óskiftu Garðastaðarlandi (er bygt úr Hlíðarlandi fyrst í þeirra manna minni, sem nú lifa). Jarðardýrleiki er óviss.
Ábúandinn Oddur Ásbjörnsson.

Garðahverfi

Móakot.

Landskuld xl álnir. Betalast með ii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandi yfir 40 ár uppbótarlaust, Kúgildi i. Leigur betalast í smjöri eður þjónustulaunum heim til staðarhaldarans. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn.
Kvaðir eru mannslán árið um ) síðan í tíð prófastsins sál. Sr. Brynjúlfs Jónssonar, er hjelt staðinn Garða. Fyr var aldrei sú kvöð með skyldu ákveðin, en síðast í tíð Sr. Þorkels var fyrir utan áðurgreinda landskuld skilin á ábúanda formenska árið um kring fyrir fjegra manna fari því, er hálft átti staðarhaldarinn, en hálft ábúandi og lagði hvor til helming kostnaðar, og á meðan það hjelst hafði bóndinn frjálst, þegar brugðust menn á fjögra manna farið, að brúka sinn eigin bát, tveggja manna far, skilmálalaust. Nú gelst þetta mannslán ei in natura, heldur kvittast árlega með smíðum til fimm aura, og hefur þá bóndinn frjálst orðlof að láta sína báta gánga, tveggja manna för eður þriggja, hvort sem er einn eður fleiri. Hrísshestur einn betalast in natura. Dagsláttur gelst í smíðum. Hestlán so sem annarstaðar.
Kvikfjenaður ii kýr, i hestur, i hross. Fóðrast kann ii kýr naumlega. Heimilissmenn iiii. Eldiviðartak af móskurði í staðarins landi.
Árið 1703 var dýrleiki jarðarinnar óviss en landskuld 40 álnir og galst með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildi var eitt og greitt fyrir það í smjöri eða þjónustulaunum til staðarhaldara sem uppyngdi það. Í bústofninum voru tvær kýr, hestur og hross og fóðruðust kýrnar naumlega. Um og eftir miðja 17. öldina átti ábúandi fjögurra manna far hálft á móti Garðapresti og var formaður fyrir því en hvor lagði til helming kostnaðar. Ef menn brugðust á þetta far var honum
hins vegar frjálst að „brúka sinn eigin bát, tveggja manna far, skilmálalaust“.

Garðahverfi

Móakotsbrunnur.

Við gerð Jarðabókarinnar hafði þetta breyst þannig að mannslánið kvittaðist „með smíðum til fimm aura“ og Oddur hafði „frjálst orðlof að láta sína báta gánga, tveggja manna för eður þriggja“. Aðrar kvaðir voru dagsláttur sem einnig galst í smíðum, hrísshestur og hestlán. Bóndi varð sjálfur að leggja til húsavið „yfir 40 ár uppbótarlaust“ en hafði eldiviðartak af móskurði í nytjalandi staðarins. Árið 1847 var jarðardýrleiki enn óviss, landskuld hin sama og kúgildið áfram eitt en 1861 taldist jörðin 6,6 ný hundruð. Árið 1932 var verð hennar með húsakosti 33 hundruð kr., þar var einn sauður og 21 hross og úr 88 m² matjurtagörðum fengust 15 tunnur.
Móakotstún var lítill kýrgrasvöllur í kring um bæinn, skv. Túnakorti 1 ha árið 1918 en um þriðjungur norðan í því stórgrýttur. Túnið stækkaði í 1,3 ha áður en yfir lauk og gaf 72 hestburði af töðu. Það lá að sjónum og var sjógarður þeim megin en girðingar milli þess og næstu bæjatúna. Norðvestan megin var spilda frá Hausastaðakoti og henni næst Hausastaðatún, norðan megin var auk Hausastaðakots þurrabúðin Grjóti og austan megin Hlíð.
Á Túnakorti 1918 sést bæjarstæði Móakots nokkurn vegin í miðju túni, suðvestan Hausastaðakots og norðvestan Hlíðarbæja. Skv. Örnefnaskrá 1964 var býlið „hjáleiga frá Görðum. Ofar en Hlíð.“ Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Móakot var u.þ.b 150 m suðvestur af Hausastaðakoti. Það fór í eyði um 1930.
Svolítill blettur kringum kotið var nefndur Móakotstún. Bæjartóftirnar eru í landi Hausastaðakots, en túninu er skipt á milli Hlíðar og Hausastaðakots, og á Hlíð eystri hlutann.“ (Bls. 10). Við Fornleifaskráningu 1984 var Móakot staðsett „norðvestur af Grjóta, norðan við Hlíð […] slétt tún fyrir vestan og norðan – aflíðandi gróin en grýtt brekka að baki“.
Á Túnakortinu hólfast bærinn í fernt, byggingarefnið er torf en standþil á tveimur framhúsum, stærstu hólfunum, en þau snúa suðvestur að sjónum. Það kemur heim við lýsingu skrásetjara sem segir lengd bæjarhúsa til vesturs vera 5,85 m og þau hafa vísað göflum út á sjó. Aðeins mótar fyrir veggjum, um 1 m á breidd.
Skv. Fasteignabók stóð þessi torfbær enn árið 1932.
Fasteignabók 1932, enn kirkjujörð. Upp úr því fór hún þó í eyði skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 og skiptist túnið nú milli Hausastaðakots og Hlíðar.

Móakotsbrunnur (vatnsból)

Garðahverfi

Móakotsbrunnur.

Í þýfi um 17 m norðaustur frá Móakoti fannst við Fornleifaskráningu 1984 brunnur. Hann er hringlaga, um 1 m í þvermál og 1,5 m niður að vatnsyfirborði. Hann er hlaðinn úr grjóti og stendur opinn en gaddavír hefur verið settur fyrir.

Móakotsbúð (búð)
Móakotsbúð var við Skiptivöllinn á Hausastaðakambi, búð og hjallur frá Móakoti.

Ráðagerði (býli)

Garðahverfi

Ráðagerði.

Í forlið nafnsins Ráðagerði virðist vera orðið ráði en það vísaði í fornu máli sérstaklega til galtar sem hluta svínahjarðar. Nafnið sker sig að þessu leyti frá öðrum svona nöfnum í Garðahverfi því gerðin þar eru ekki kennd við skepnur heldur við þau býli sem þau tilheyra.
Ráðagerði er fyrst nefnt í Jarðabók árið 1703, þá hjáleiga frá Görðum. Bjuggu tveir ábúendur á sín hvorum helmingi, Stígur Jónsson og ekkjan Halldóra Illugadóttir, hvort með tvo heimilismenn. Í Manntali 1801 bjó þar svo Tómas Tómasson gullsmiður, bóndi og útgerðarmaður, með níu í heimili. Í Manntali 1816 hafði Illugi Brynjólfsson tekið við ábúð ásamt konu sinni Flórentínu Jónsdóttur og voru heimilismenn alls 11, auk vinnufólks þrú lítil börn, húskonan Valgerður Ögmundsdóttir og tvær dætur hennar.
Skv. Jarðabókinni 1703: Rádagierde, hjáleiga í óskiftu staðarins landi. Jarðardýrleiki er óviss. Ábúendur Stígur Jónsson býr á hálfri, annar ekkjan Halldóra Illugadóttir býr á hálfri.
Landskuld hjá hvörjum xxx álnir, af allri lx álnir. Betalast með fiski í kaupstað, ij vætt af hverjum. Við til húsabótar leggur staðarhaldarinn. Leigukúgildi eru nú fyrir nauðsyn ábúendanna ii. En annars fylgir ekki hjáleigunni meir en i kúgildi. Leigur betalast í fiski eður smjöri heim til staðarhaldarans. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn. Kvaðir eru mannslán árið um kring af hverjum þegar tveir ábuá en annars eitt. Tveir dagslættir ef tveir ábúa en einn er ella. Tveir hrísshestar ef tveir ábúa en einn ella. Hestalán eitt af hverjum ábúanda ef þeir eiga hest, ekkert ella. Eitt er hestlán ef einn býr á. Kvikfjenaður i kýr hjá Stígi, sem er kúgildið, hjá Halldóru i kýr, sem er kúgildið.
Fóðrast kann á allri hjáleigunni ii kýr. Heimilissmenn hjá Stígi ii, hjá Halldóru ii. Eldiviðartak af móskurð í staðarins landi.

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ósá.

Þegar Manntal var tekið 29 árum síðar var þetta fólk flest farið, Guðríður, dóttir þeirra Illuga og Flórentínu, var orðin vinnukona hjá séra Árna og Sigríði prestsfrú í Görðum en Tómas Gíslason og Signý Eiríksdóttir höfðu tekið við búskap í Ráðagerði. Sjö aðrir voru í heimili og þeirra á meðal raunar Illugi, gamli húsbóndinn, orðinn 69 ára og lifði af vinnu sinni. Annar ábúandi var silfursmiðurinn Sigurður Benediktsson með sjö í heimili.
Árið 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 30 álnir hjá hvorum ábúanda og galst með fiski í kaupstað. Leigukúgildi voru tvö og séra Ólafi Péturssyni borgað með fiski eða smjöri en hann uppyngdi þau. Halldóra og Stígur höfðu hvort um sig eina kýr. Kvaðir voru mannslán af báðum árið um kring, dagslættir, hrísshestar og hestlán. Garðar lögðu við til húsabótar og jörðin hafði móskurð í landi þeirra.
Árið 1847 var jarðardýrleiki enn óviss, landskuldin hafði hækkað um helming en kúgildin voru tvö sem áður.
1861 var jörðin talin 9,9 ný hundruð.
Rétt norðvestan við Ráðagerði, upp við túngarð, var Háteigur og höfðu býlin sameiginlegt tún sem var þó framan af kennt við Ráðagerði. Austan og sunnan megin var túnið frá Görðum en suðvestan megin Miðengi.
Árið 1847 voru enn tveir bændur á þessari Garðakirkjujörð, hún er nefnd í Jarðabók 1861 en síðan ekki.
Túnakort sýnir árið 1918 bæ þar sem Ráðagerði á að hafa verið en án nafns og gæti það bent til að býlið hafi verið komið í eyði á þeim tíma.
Á Túnakorti 1918 má sjá hús úr steini eða torfi ofarlega í túninu rétt suðaustan Háteigs og Götu, norðvestan Garða. Húsið hefur stefnuna norðvestur-suðaustur og kálgarðar eru til hliðar við það en líklega er þetta bæjarstæði Ráðagerðis sem nefnt er í Örnefnalýsingu 1958 og síðan í Örnefnaskrá 1964: „Fyrrum býli, hjáleiga frá Görðum, stendur ofar en Gata […]“ litlu austar en Háteigur sem það liggur nú undir.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Ráðagerði var í Háteigstúni nærri túngarði milli Garða og Háteigs, neðanhallt við húsið í Háteigi. Það er farið í eyði fyrir lifandi löngu.“
Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta í grösugum aflíðandi halla á milli Háteigs og Garðakirkju. Um 19,15 m frá garðhleðslu sem þarna er sést óljós steinaröð, líklega frambrún bæjarins. „Tvær grjóthrúgur eru í sömu línu“.

Ráðagerði (þingstaður)
Í lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: „Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofsstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.“ Hinn gamli þingstaður Álftnesinga var þó í dómhring á Hausastöðum áður en hann var fluttur að Görðum eftir konungstilskipun 23. feb. 1816.

Garðar (býli)

Garðahverfi

Garðar.

Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst. Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum. Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“ og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“. Um tveimur áratugum síðar var þetta ein þeirra jarða sem Árni Þorláksson Skálholtsbiskup deildi um við veraldlega höfðingja og er greint frá því í sögu hans. Staða-Árni eins og hann var nefndur réri að því öllum árum að kirkjan öðlaðist sjálfstæði í eigin málum og að allir kirkjustaðir kæmust undir hennar forsjá. Fékk hann m.a. þáverandi eiganda Garða, Sturlu Sæmundarson, til að sverja sér af hendi staðinn og lofa að „taka alldri síðan af kirkjufjám né hennar eign utan með biskups ráði“. Árni setti síðan systurson sinn Bjarna Helgason prest niður í Görðum. Leikmenn mótmæltu staðartökunni og fleiru í bréfi til biskups árið 1286 en þegar það bar ekki árangur kom goðorðsmaðurinn Hrafn Oddsson með herlið, stökkti séra Bjarna á brott og fékk Sturlu aftur „í hönd alla kirkjunnar eign“.

Garðahverfi

Núibær og Garðar.

Næst eru Garðar nefndir í Alþingissamþykkt frá 1307 og er þá séra Jón Þórðarson kominn þangað til starfa. Einhverjar heimildir eru svo um alla þá Garðapresta sem gegndu kallinu næstu aldir en þeir verða ekki taldir upp hér. Í máldögum árin 1397 og 1477 kemur fram að Garðakirkja var helguð Pétri postula og vel búin munum.
Meðal merkra kennimanna sem sátu á þessum kirkjustað má nefna Þorkel Arngrímsson (1629-77) sem tók við embætti árið 1658 og fékkst m.a. við skáldskap, þýðingar, útgáfur guðsorðabóka og lækningar. Séra Þorkell var í Görðum til 1677 og þar fæddist sonur hans, Jón Vídalín (1666-1720), sem gegndi prestsembætti á staðnum 1695-7. Eins og frægt er hófst hann síðar til biskups en þekktastur er hann líklega af hinni vinsælu húspostillu sinni sem við hann er kennd. Séra Markús Magnússon (1748-1825) kom til starfa árið 1780 og stóð að stofnun Landsuppfræðingarfélagsins, Hins íslenska biblíufélags og fleiri menningarfélaga. Að beiðni nefndar til varðveislu fornminja, „Commision for Oldsagers Opbevaring“, sem stofnuð var árið 1807, skrifaði hann einnig merka Fornleifaskýrslu um Garðajarðir árið 1820.

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Markús hafði forgöngu um mannvirkjagerð á staðnum og lét hlaða langan garð meðfram túnum bæjanna sem heyrðu undir Garða. Skv. Manntölum voru hjá þessum prófasti 30 heimilismenn árið 1801 og 23 fimmtán árum síðar, um helmingi fleiri en öld áður hjá séra Ólafi Péturssyni en Manntal var líka gert í hans tíð. Nefna má konu Markúsar, Þuríði Ásmundsdóttur, séra Sigurð Hallgrímsson „capellan“, hinn unga Jón Steingrímsson sem um skeið gegndi starfi skrifara, Guðmund Ormsson ráðsmann, Guðfinnu Bergsdóttur, unga frænku prófastins sem varð ráðskona hjá honum, Gísla Guðmundsson smið og Þórarinn Þorsteinsson smala. Auk þessa fólks voru á prestssetrinu tvö gamalmenni og fjögur börn, þrír vinnumenn og átta vinnukonur en bændasynir og dætur úr bæjahverfinu gegndu ýmsum störfum í Görðum. Markús hélt embættinu til æviloka. Skv. Manntali árið 1845 voru 25 í heimili hjá eftirmanni hans, séra Árna Helgasyni (1826-1894) sem skrifaði Lýsingu Garðaprestakalls árið 1843. Hann var prófastur 1825-58, mikilhæfur maður, stofnaði ýmis félög og gegndi biskupsembætti á tímabili. Frúin hans hét Sigríður Hannesdóttir en auk Óla Peter Finsens lærisveins, Ólafs Símonssonar gustukamanns og vinnuhjúa höfðu hjá þeim í húsnæði hjónin Magnús Brynjólfsson húsmaður og Þorbjörg Jónsdóttir. Kirkja (185-6) er enn í Görðum og jörðin í byggð.

Garðar
Bæjahverfi það sem með tímanum myndaðist kringum kirkjustaðinn lá meðfram sjávarsíðunni á leiðinni út á Álftanes og nefndist Garðahverfi. Með vísun til bæjatúnanna innan garðs var einnig stundum talað um Garðatorfuna. Garðar sjálfir eru rétt suðaustan við miðju hverfisins, næst þeim norðan megin hjáleigan Ráðagerði og niðri við sjó Miðengi en sunnan megin Nýibær og Pálshús. Handan Garðamýri hjá sjónum var auk þess Bakki, eitt af lögbýlunum og suður af því Dysjar sem líka var lögbýli. Norðvestan megin í hverfinu voru svo Hlíð, lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr því, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir. Allar þessar jarðir lágu undir Görðum og á sumum voru á tímabilum minni hjáleigur og þurrabúðir. Mýrarhús, Sjávargata, Hóll og Garðabúð voru við mýrina neðan Garða, Krókur, Garðhús, Háteigur og Höll við nytjalandið ofan þeirra. Þar í landi Hlíðar voru einnig Gata, Holt og Sólheimar en Hlíðarkot var í miðju túni og Dysjakot á Dysjum.

Grjóti

Grjóti.

Á mörkum Hlíðar og Hausastaðakots var Grjóti og í landi Hausastaða þrjú ef ekki fleiri býli, Kaldakinn, Katrínarkot og Arndísarkot á tanganum Skreflu, vestasta hluta hverfisins. Hvar Óskarbúð var er ekki vitað með vissu og sum býli eru nafnlaus. Í Manntölum er t.d. oft greint frá tómthúsfólki og húsfólki á aðaljörðunum án þess að getið sé um bústaði en tómthúsmenn bjuggu venjulega í sjálfstæðu húsnæði og húsmenn oft líka þótt sumir fengju inni á bæjum. Býlin í Garðahverfi hafa þó verið a.m.k. þau 34 sem hér á eftir eru skráð, á stundum trúlega færri eða fleiri. Skammt var á milli heimila og kominn vísir að smáþorpi enda virðast menn sums staðar hafa verið farnir að sérhæfa sig í ákveðnum störfum. Á prestssetrinu hefur verið miðstöð mannlífs en einnig var um skeið skóli á Hausastöðum og þingstaður en hann var fluttur í Garða. Bændur hverfisins skiptust á að gegna embætti hreppstjóra. Ljósmóðir var á Dysjum og hafnsögumaður á Bakka og Ósk í Óskarbúð rak svolitla verslun. Sumir eins og Guðmundur Einarsson vefari lifðu af handiðn sinni, handverkskonur og trésmiðir voru víða en gull- og silfursmiðir höfðu aðsetur í Ráðagerði. Mikið flakk var á fólkinu, a.m.k. þegar kom fram á 19. öld og þegar gömlu ábúendurnir fluttu tóku oftast við óskyldir menn. Nokkuð var þó um að fólk færi búferlum innan hverfisins og óvenjuleg nöfn eins og Ormur, Illugi og Nikulás sem skjóta aftur og aftur upp kolli í hverfinu gegnum aldirnar benda til innbyrðis skyldleika íbúanna. Ætla má að grjóthlöðnu gerðin sem eru sérkennandi fyrir Garðahverfi hafi tengst þéttbýlinu. Innan þeirra hefur verið sú litla lóð eða grasnyt sem hvert býli hafði. Flest eru kennd við búðirnar sem þau tilheyrðu: Hallargerði, Sjávargötugerði, Holtsgerði o.s.frv. Nokkur eru nöfnin tóm og hafa komið upp ýmsar getgátur um þau, Pálshúsagerði í Pálshúsatúni t.d. verið bendlað við akuryrkju og Hausastaðatúngerði á Hausastöðum talið landamerkjagarður en orðið gerði getur bæði vísað til ræktarlands og hlaðins garðs.

Garðar

Garðar um 1900.

Skv. Jarðabókinni 1703: Gardar. Kirkjustaður og beneficium. Jarðardýrleiki hefur óviss verið, so vítt menn vita, til Anno 1697, þá nefndur staður af sex mönnum (hverja prófasturinn í Kjalarnessþingi og sýslumaðurinn í Gullbringusýslu eftir amtmannsins tilsögn þar til útnefnt höfðu) virtur var xl [symbol] að dýrleika. Ábúandi er staðarhaldarinn Sr. Ólafur Petursson prófastur í Kjalarnessþingi. Landskuld er engin. Fyrgreindir sex menn hafa álitið að staðurinn sambyði ii [symbol] leigu. Leigukúgildi engin. Annars á kirkjan xx kúgildi, hvar af sum eru í leiguburði á kirkjunnar jörðum, sem á hjáleigunum í hverfinu um kring staðinn.
Kvikfjenaður iiii kýr og fimta leigukýr, i kviga þrevetur mylk, i tvævetur geld, ær xxxii, i sauður tvævetur, xviii veturgamlir, lömb xx, i hestur, iii hross, ii folar tvævetrir. Fóðrast kann v kýr og i hestur ríflega. Heimilismenn xv.

Kaldársel

Kaldársel við Kaldá – tilgáta ósá.

Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.
Skóg á staðurinn sem brúkast til kolgjörðar og tekur mjög að eyðast. Móskurður til eldiviðar hefur nægur verið, en fer i þurð og gjörist erfiður.
Fjörugrasatekja nægileg. Rekavon í minsta lagi og nær engin en þó festifjara. Sölvafjara bæði góð og mikil. Hrognkelsafjara gagnleg. Skelfiskfjara brúkast til beita en er aðsókt af mörgum og fer því til þurðar.
Heimræði er árið um kring og lending góð, og var hjer útræði hið besta meðan fiskur var á Hafnarfirði. Gánga hjer skip staðarhaldarans árið um kring eftir hentugleikum. Engin inntökuskip hafa hjer að nýúngu gengið en mega þó vera, því að varir eru nógar. Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.

Garðar

Garðar.

Í hverju bæjatúni var svolítill brunnur og sérstakar brunngötur til þeirra. Mikilvægasta vatnsbólið var þó Garðalind sem aldrei þraut og í hana sóttu öll heimilin vatn þegar þurfti. Til þessa hjarta Garðahverfis lágu að lokum allar leiðir en býlin tengdust með innbyrðis vegakerfi. Frá Hausastöðum og býlum þar lá gata yfir í Hausastaðakot og áfram í Grjóta, þaðan niður í Móakot eða yfir í Hlíð. Frá Hlíðabæjum lágu leiðir vestur í Götu og Háteig og Hlíðarbrunngata suður í Miðengi og síðan líklega áfram eftir jaðri túns og mýrar að Garðalind. Traðir tengdu saman Götu og Holt, Háteig og Ráðagerði en þaðan lá gata til kjarnans í Görðum. Frá hinum búðunum við Garðatúngarð var farið um Garðatraðir niður að kirkju og prestssetri og þangað var sérstakur stígur, Króksbrunngata, úr Króki. Þá lágu traðir milli suðaustustu býlanna Dysja, Pálshúsa og Nýjabæjar og frá þeim síðastnefnda í Garða en þaðan mátti loks ganga um Garðabrunngötu að Garðalind. Hins vegar lá Bakkabrunngata beint frá Bakka upp kringum mýrina og að lindinni. Þurrabúðarfólkið við Garðamýri hefur trúlega notað Sjávargötu sem lá milli þeirra og sjávarins annars vegar, Garða hins vegar, og síðan Hlíðarbrunngötu til að komast alla leið. Sérstakar sjávargötur lágu frá bæjum niður að sjávarhliðum í varnargarðinum ofan vara og neðan syðri jarðanna lá Bakkastígur eftir sjávarbökkum.

Garðahverfi

Garðahverfi – flugmynd.

Víðar hefur verið gengið við sjóinn en frá sjávarhliði Hausastaða lá svo nefnd Hliðsnesgata, framhjá Katrínarkoti og Arndísarkoti út á Skreflu og að Oddakotsósi. Þar varð svo að fara á bát yfir í Hliðsnes á móti. Í hina áttina lá gatan meðfram Skógtjörn, framhjá Köldukinn, og yfir grjóthlöðnu brúna Stíflisgarð. Þar var áður aðalleið úr hverfinu út á Álftanes. Í vestur lágu einnig Hausastaðatraðir frá Hausastöðum en slíkar traðir við bæina kenndar lágu frá þeim mörgum að hliðum á Garðatúngarði. Þaðan lágu leiðir svo út í nytjalandið og til næstu byggðalaga. Þannig lágu Garðatraðir frá Görðum um Garðahlið þar sem við tók Garðagata og hlykkjaðist þvert yfir Garðaholt að Garðastekk í jaðri Garðahrauns. Framhald stekkjargötunnar lá svo upp í hraunið nokkru norðar þar sem hún sameinaðist að lokum hinni fornu þjóðleið milli Álftaness og Reykjavíkur, Gálgahraunsstíg nyrðri, Fógetastíg eða Álftanesgötu. Sú gata lá á kafla meðfram Lambhústjörn og Arnarnesvogi. Þar í Hraunviki greindist annar stígur frá henni, Móslóði og lá í suðvestur um Garðahraun og Flatahraun í Garðahverfi. Um hann var farið með hesta klyfjaða mó úr Hraunholtsmýri en þessi vegur var sá austasti þeirra sem lágu yfir Garðahraun. Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét leiðin yfir hitt mósvæðið sem náði milli Garða og Flatahrauns en var kirkjugata því hana fóru Hafnfirðingar þegar þeir ætluðu í Garðakirkju. Dysjabrú var þá lokakaflinn á leið þeirra, frá svo kölluðu Mónefi sem skagaði vestur úr hrauninu. Vegurinn yfir hraunið að nefinu hét hins vegar Gálgahraunsstígur syðri og náði alveg frá Hafnarfirði. Dysjabrú var þó ófær í miklum leysingum og varð þá frá Gatnamótum vestast við Garðaholtsenda að fara Kirkjustíg yfir holtið og að Görðum. Hann lá vestur frá Urriðakoti og Setbergi um Gatnamót þar sem göturnar mættust.
Landamerki

Garðahverfi

Garðar.

Girt var milli túna einstakra jarða Garðahverfis og kringum það í heild. Varnargarður lá eftir sjávarkambinum að vestan og norður við Skógtjörn og Garðatúngarður skildi milli Garðatorfunnar og nytjalandsins austan megin. Mörk alls þessa svæðis náðu frá Balakletti við sjóinn suðaustan Dysja að Oddakotsósi á Hliðsnesi gegnt Skreflu og yfir Skógtjörn þvera, um Markatanga við Núpslækjarós, áfram um Lambhúsatjörn og austur í Eskines, þaðan lengst suður í Engidalsnef og svo aftur vestur í Balakletta. Innan þessara marka voru að fornu einnig jarðirnar Bali í suðurendanum og Selskarð milli Skógtjarnar og Lambhústjarnar. Þegar í máldögum 14. og 15. aldar kemur fram að Garðakirkja átti allt heimaland, Dysjar, Bakka, Hlíð, Hausastaði, Selskarð, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. Á 16. öld bættust við Nýibær og Pálshús, Vífilstaðir, Akurgerði og Hamarskot og ítök staðarins lágu miklu víðar. Í Örnefnaskrá segir: „Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaðar kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. […] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi.“. Í Landamerkjaskrá frá 1890 eru tilgreind víðari „merki á landi Garðakirkju á Álptanesi, samkvæmt máldögum og fornum skjölum: 1. Í móti Oddakoti í miðjan ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarð í Oddakoti. […] 2. Úr ósnum norður í hóla hjá Skógtjörn, er þar hlaðin merkjavarða; þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólum hjá Núpsstíflum, þar er og hlaðin merkjavarða. […] 3. Útí miðja tjörn þá, sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns og í miðjan tjarnarósinn og í mírina Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum uppí Stóra Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina uppí Dýjakrók […] þaðan í midt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýri beina línu til austur landsuðurs í miðja Kjóavelli, þaðan beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan í austur landsuður uppí Hnífsós, þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Standartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð Vatnsskarð, Markrakagil í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna, þaðan móts við Jófríðarstaðaland í norður vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðvesturs í vörðu á Heiðarþúfum, þá sömu línu í norðuröxl á Mosahlíð, enn sömu línu í vörðu norðanhallt á Kvíholti, loks sömu línu miðt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu fremst á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn. Þaðan land allt með Hafnarfirði norðaverðum vestur í ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti. […]
Innan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar, þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Lan[g]eyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir, sem allar hafa afmörkuð tún og rjett til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliða nota, en ekkert inskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhús sömuleiðis.“ Innan merkjanna eru einnig Vífilstaðir, Setberg, Urriðakot, Hofsstaðir, Hagakot og Akurgerði.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928: „Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“ Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“ Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for. Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu „byggingar staðarins […] á Bæjarhólnum austan kirkju […] ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu“.
Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]“.

Garðabúð (býli)
Gardabud, hjáleiga í óskiftu staðarins heimalandi, hefur grasnautn hina sömu sem áður fylgdi hjáleigu þeirri heima við staðinn, er Skemma var kölluð, og er það nú að kalla sú hin sama hjáleiga.
Jarðardýrleiki er óviss. Ábúandinn Jón Þórðarson.
Landskuld xl álnir. Betalast með ii vættum fiska eður peningum uppá fiskital heim til staðarhaldarans. Við til húsabótar leggur staðarhaldarinn.
Kúgildi til leigu hefur áður eitt verið, en er nú fyrir ljúfa tillátsemi staðarhaldarans ekkert. Kvaðir eru mannslán árið um kring, betalast nú ekki in natura, heldur leysist með hálfum, skiphlut árið um kring af tveggja manna fari, sem ábúandinn sjálfur á og leggur útgjörð að öllu. Dagsláttur einn. Hestlán á saman hátt sem annarstaðar er sagt. Hrísshestur segir prófasturinn fylgt hafi afgjaldi af Skemmu, en ábúandinn í Búð segir það hafi aldrei á sig skilið verið.
Kvikfjenaður i kýr, i ær með lambi, iii sauðir veturgamlir, ii hestar, og i hross með fyli. Fóðrast kann i kýr naumlega. Heimilissmenn iii. Eldiviðartak í staðarins landi af móskurði frí. Garðshús skv. Jarðabókinni 1703: Gardhus, hjáleiga fyrirsvarslaus samtýniss við hinar í hverfinu. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn Garðarkirkja. Ábúandinn Guðmundur Einarsson. Landskuld xxxv álnir. Betalast í fiski í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandi. Leigukúgildi i. Leigur betalast í smjöri. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn.
Kvaðir eru mannslán árið um kring, dagsláttur einn, hestlán eins og á hinum, hrísshestur einn, sem tekst í almenningi eður kirkjunnar landi. Kvikfjenaður er kúgildið og ekki víðara. Fórðast kann kúgildið naumlega. Heimilissmenn iiii. Eldiviðartak af móskurði frí í óskiftu staðarins landi.

Garðakirkja (kirkja)

Garðahverfi

Dysjar, Pálshús, Garðar og Garðakirkja (t.h.).

Í grein frá árinu 1904 segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn „þar sem Garðastaðarkirkja stóð“ kallaður „Kirkjuhóll“.
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir hins vegar: „Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.“
Núverandi kirkja var reist árið 1966.

Garðakirkjugarður (lestaður)

Garðahverfi

Garðakirkjugarður.

Á Túnakortinu 1918 má sjá gamla grafreitinn í Görðum rétt suðvestan við kirkjuna og bæjarhúsin.
Skv. Örnefnalýsingu 1958 er Garðakirkjugarður neðan bæjarins, upp af þurrabúðinni Hól: „Þarna er svæði slétt upp að kirkjurúst, en á það vantar nöfn.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 lá hann „neðan kirkjunnar og bæjarhúsanna“.
Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Gamli kirkjugarðurinn er sunnan kirkjunnar og íbúðarhússins. Hann hefur nú verið stækkaður til vesturs.“
Skv. Fornleifaskráningu 1984 er kirkjugarðurinn beint niður og vestur af núverandi bæjarhúsum „girtur grjóthlöðnum garði“.
Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: „Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðaholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.“ Árið 1918 voru „um 40 minnisvarðar“ í Garðakirkjugarði“.
Nokkru norðvestan við kirkjuna sýnir Túnakortið 1918 garð. Hlaðnir veggir liggja kringum hann upp að girðingu sem skilur milli Garða annars vegar, Háteigs og Ráðagerðis hins vegar. Þetta hlýtur að vera niðursokkni grjóthlaðni garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1984 og vísar eins og á Túnakortinu í norðvestur frá Garðakirkjugarði, „út að girðingu við Ráðagerði“. Hann beygir síðan í horn til vesturs.

Sjávargata (leið)

Garðahverfi

Garðar – sjávargata.

Á Túnakorti 1918 má sjá hvar gata liggur frá enda Garðatraða við bæjarstæði Garða vestur milli gömlu kirkjunnar og garðs og áfram í átt til sjávar. Líklega er þetta sú Sjávargata sem samnefnt býli hét eftir og nefnd er í Örnefnalýsingu 1958: Þríhyrningur gengur upp frá sjó milli túna Garða og Miðengis en „efst í honum er Grjóthóll. Neðar var svo Sjávargatan […].“
Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Svo var gatan frá Garðastað niður túnið í Garðasjó kölluð.“

Sjávargata (býli)

Garðahverfi

Gata frá Grjóta að Hlíð í Garðahverfi.

Í manntali sem tekið var árið 1801 er nefnt húsmannsplássið Götuhús. Þess er hvergi getið annars staðar og má vera að átt sé við Sjávargötu. Þar bjuggu hjónin Steinunn Helgadóttir og Gissur Tómasson, jarðnæðislaus húsmaður og fiskari, Katrín Brynjólfsdóttir, hús- og handverkskona og sonur hennar Jón Eysteinsson. Sjávargata er hins vegar örugglega nefnd í seinni manntölum. Árið 1816 voru komnir þangað tveir aðrir húsmenn, Brynjólfur og Bjarni, báðir Sveinssynir. Brynjólfur, eiginkonan Guðrún Þorleifsdóttir og dóttirin Elín voru áður til húsa í Nýjabæ en kona Bjarna var Guðrún, dóttir Jóns Þorsteinssonar bónda á Dysjum. Þau áttu tvö börn og einnig er nefnd Guðrún Sigmundsdóttir, 9 ára „niðurseta“ svo heimilismenn í litlu búðinni voru alls átta. Árið 1845 hafði svo Guðmundur Einarsson vefari tekið við Sjávargötu, bóndasonur frá Bakka sem áður vann fyrir sér á Hausastöðum. Hann var orðinn 58 ára, giftur Ingveldi Þórleifsdóttur og voru hjá þeim ein vinnukona og tvær aldraðar konur.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Á Túnakorti 1918 má sjá garð á þeim slóðum sem þurrabýlið Sjávargata á að hafa verið, þ.e. milli samnefndrar götu og landamerkja við Miðengi, skammt frá sjónum. Skv. Örnefnaskrá 1964 er þessi hjáleiga og þurrabúð „í vesturtúni við Sjávargötuna […] niður og vestur frá kirkjunni“.
Skv. Örnefnalýsingu 1976-77 voru „tveir bæir niður við Garðatjörn, vestast og neðst í Garðatúni. […] Vestari bærinn hét Sjávargata.“
Við Fornleifaskráningu 1984 var hann staðsettur norðan hins bæjarins Hóls og sunnan Miðengis, slétt tún sunnan og vestan megin. Þótt býlið sjálft sé ekki sýnt á Túnakortinu virðist mega sjá af lögun garðsins að það hefur verið í suðvesturhorninu enda nær hústóftin um 7 m inn í garðshornið þeim megin. Hún er um 6,5 x 7 m að innanmáli, veggir 1,5-2 m á breidd og sýnist inngangur vera suðvestan megin. Stefnan er SSV-NNA.
Túnakortið 1918 sýnir tvo samfasta garða í stæði hjáleigunnar Sjávargötu. Sá nyrðri á mörkum Miðengis og Garða er merktur Háteigi en sá syðri Görðum og er það trúlega svo nefnt Sjávargötugerði sem minnst er á í Örnefnaskrá 1964: „Lítið gerði umhverfis þurrabúðina.“
Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta ferhyrndur grjóthlaðinn garður, veggjabreidd 1,4-2 m. Að innan er hann um 27,2 m á lengd og 17-20 m á breidd, breiðastur í vesturendann og gengur annar minni grjótgarður úr honum í átt til sjávar en endar við girðingu milli Garða og Miðengis. Samanlögð lengd þeirra er 46,6 m og stefnan vestnorðvestur-austsuðaustur. Minni garðurinn er miðað við staðsetningu og stefnu sá sem heyrði undir Háteig.

Hóll (býli)

Garðahverfi

Hóll.

Nokkru suðaustan Sjávargötu, milli samnefndrar leiðar og Garðalindar og ofan mýrlendis, er á Túnakortinu 1918 tvískiptur kálgarður. Öðrum heimildum ber saman um að þarna sé hið gamla stæði Hóls, hjáleigu og þurrabúðar frá Görðum eða eins og segir í Örnefnalýsingu 1958: „Við mýrarjaðarinn er […] uppspretta, sem heitir Garðalind. Aðeins utar er Hóll.“

Skv. Örnefnaskrá 1964 stóð hann „neðar en Sjávargata í Garðatúni […] niður undir Garðamýri og í Örnefnalýsingu 1976-77 er sagt svona frá: „Hér áður voru tveir bæir niður við Garðatjörn, vestast og neðst í Garðatúni. Hét sá eystri Hóll, og voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.“ Við Fornleifaskráningu 1984 segir að þetta sé „vestan Garðakirkju“ rétt suðaustan við Sjávargötu, „ræktað tún allt í kring“. Þarna er „allhár, greinilegur hóll með miklu grjóti í. Enga lögun tófta sér í honum.“ Hóllinn er um 16 m á lengd og 11,5 á breidd með stefnu norður-suður. Bakki liggur um 14 m suður úr honum, líklega hluti byggingaleifanna.
Skv. manntölum bjó í þessari hjáleigu grashúsmaðurinn Torfi Sveinsson a.m.k. á tímabilinu frá 1801 til 1816, lifði á jarðnyt og fiskveiðum og hafði 4-5 heimilismenn. Í Manntali 1845 eru skráð þar Hákon Þórleifsson, tómthúsmaður og fiskari, Gróa Þóroddsdóttir, hans kona, og Jón Þórleifsson, fiskari og „sjálfs sín“.

Hólsgarðar (garður)

Hóll

Hóll og Hólsgarðar – loftmynd. Tóftir bæjar sjást lengst t.v.

Í bæjarstæði Hóls sýnir Túnakortið 1918 tvo samfasta kálgarða með hlöðnum veggjum og götuslóða á milli frá suðaustri til norðvesturs en skv. Örnefnalýsingu 1976-77 umgirtu þeir Hólsbæinn: „[…] voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.“ Þetta virðist mega lesa úr lýsingu við Fornleifaskráningu 1984: „Þarna er allhár, greinilegur hóll með miklu grjóti í. Enga lögun tófta sér í honum.“ Hóllinn er um 16 m á lengd og 11,5 á breidd með stefnu norður-suður. Bakki liggur um 14 m suður úr honum, líklega hluti byggðaleifanna.

Óskarsbúð (býli)
Skv. Jarðabókinni 1703: Óskarbud. Tómthús. Stendur í Garðarstaðar landi og er uppbygð af Jakob Bang, sem síðar varð sýslumaður í Árness sýslu, fyrir …) árum eða þar um og bygð einnri konu að nafni Ósk, sem hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varning. Síðan hafa sjer eignarráð yfir búðinni tiltekið Bessastaðamenn og hafa þar látið gánga kóngsbáta, stundum tíu, stundum fleiri, stundum færri, item inntökuskip fyrir undirgift eður annan góðvilja meðan fiskiríið var gott í Hafnarfirði. Búðin stendur enn nú, er þó í auðn. Afgift af búðinni meðan hún bygðist var engin að fráteknu mannsláni, en þar á mót var þessi búsetumaður skyldugur kauplaust til vöktunar og verkunar að taka að vertíðarlokum skipsábatana af kóngsskipunum sem þar gengu. Item að hýsa skipshafnirnar, so vel af kóngsskipunum sem hinum, er í Bessastaðamanna leyfi þar gengu, og fjekk hann af öllum þessum soðningarkaup og ekki framar. Þó segist að þá fiskiríið var í mesta máta og búðarmannsins ómak per conseqvens þess stærra hafi hann hjer fyrir utan hugnun nokkra þegið, einu sinni tíu álna virði eða þar um.
Eldiviðartak hafði þessi búðarmaður af mó í Dysjamýri þar nálægt án leyfi staðarhaldarans í Görðum. Um þessa búð er gömul controversia, standa Bessastaðamenn uppá margra ára brúkun, en staðarhaldararnir á Görðum meina þeir hafi þar ekkert eignarskjal fyrir.
Um kring búðina er valllendi, hvar úr tún nokkuð ræktast mætti ef lángvarandi hirðusemi á legðist, og kynni þá þetta hjáleigu ígildi að verða og ef sjer gefa hjer um hálft kýrfóður.
Skv. Jarðabók byggði Jakob Bang, síðar sýslumaður í Árnessýslu, verbúð eða tómthús í landi Garða, í valllendi nálægt Dysjamýri. Hún var uppistandandi árið 1703 en óbyggð og ekki er greint nánar frá staðsetningu.
Ekki er heldur minnst á tómthúsið í síðari heimildum. Búðin var kennd við Ósk, leigjanda Bang, sem „hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varníng.“ Síðar höfðu Bessastaðamenn útræði frá Óskarbúð og bar búðsetumanni kauplaust að taka skipsábata af kóngsskipum til vöktunar og verkunar og hýsa áhafnarmeðlimi allra skipa sem voru þar á vegum Bessastaða. Afgift af búðinni var auk þess eitt mannslán. Deilur voru um Óskarbúð milli Bessastaðamanna og staðarhaldara í Görðum sem sögðu þá vanta eignarskjal og sótti búðarfólkið í leyfisleysi mó í Dysjamýri.

Garðabúð (býli)

Garðahverfi

Leifar sjóbúðar frá Görðum.

Á Túnakorti 1918 sést hús úr torfi nokkru vestan Sjávargötugerðis, við Sjávargötuslóðann skammt frá sjónum og landamerkjum við Miðengi. Þetta gæti verið „verbúð frá Görðum“ sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Búðin, og „stóð ofanvert við vörina“, þ.e. Garðavör, „ofan við Garðasjó“. Kringum hana og aðallega ofan hennar var Búðarflötin og fyrir „framan hana var skiftivöllur“.
Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Grasi gróinn hóll, sléttur að ofan, er á kampinum á milli Miðengis og Garða. Hér áður mun hafa verið sjóbúð á þessum hól, en þess sjást nú engin merki.“ Líklega er þetta hóllinn sem við Fornleifaskráningu 1984 er kallaður Garðabúð eða Búð og er suður „frá bænum í Miðengi, alveg niður við flæðarmálið“, túnið ofan við en sjórinn að framan. Núna er þarna áberandi grænn hóll. Lengd hans meðfram sjávarmálinu er 8,5-9 m og breiddin um 5 m. Í honum er hleðslugrjót en lögun tóftarinnar sést ekki. Á a.m.k. einum stað utan í honum sér í mikið af skeljum.
Garðabúð var skv. Jarðabók og Manntali árið 1703 nýbyggð hjáleiga frá Görðum og tók í raun við af hjáleigunni Skemmu. Ábúendur voru hjónin Jón Þórðarson og Ingunn Ingimundardóttir, heimilismenn þrír talsins. Jarðardýrleiki var óviss en séra Ólafi Péturssyni greidd 40 álna landskuld með tveimur fiskavættum eða peningum upp á fiskatal. Leigukúgildi, venjulega eitt, var ekkert hjá Jóni þetta ár en hann átti kýr sem fóðraðist naumlega, ær með lambi, þrjá veturgamla sauði, tvo hesta og hross með fyli. Kvaðir allt árið voru mannslán sem leyst var með hálfum skipshlut af tveggja manna fari ábúanda og einn dagsláttur. Hætt var að heimta hrísshest sem áður hafði fylgt afgjaldi af Skemmu. Garðabúð hafði „grasnautn hina sömu“ og Skemma áður. Staðarhaldari lagði við til húsabótar en bóndi hafði móskurð í landi Garða.
Garðabúð er ekki nefnd í síðari Manntölum og Jarðabókum.

Garðavör (uppsátur)
Í Jarðabók 1703 segir: „Heimræði er árið um kríng og lending góð, og var hjer útræði hið besta meðan fiskur var á Hafnarfirði. Gánga hjer skip staðarhaldarans árið um kring eftir hentugleikum. Engin inntökuskip hafa hjer að nýúngu gengið en mega þó vera, því að varir eru nógar.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var lendingin í Garðavör við Garðasjó, fjöruna sunnan Miðengisvarar. „Vörin var nokkuð mikil um sig, enda mikil útgerð oftast frá Görðum. Var ætíð talað um að róa eða lenda í Garðasjó, og sandhryggurinn eða sjávarkampurinn allt austur undir Bakka nefndur svo.“ Enn fremur er nefndur Garðagrandi en „svo var sjávarkampurinn stundum kallaður mest allur“ eða „frá Miðengi suður að Bakka“. Skv. Örnefnalýsingu 1976-77 er Grandi við sjóinn framan við Garðamýri en tveir bæir niður við hana „vestast og neðst í Garðatúni. […] Vestari bærinn hét Sjávargata. Garðavör er neðan hennar, vestast á Granda.“

Garðalind (vatnsból)

Garðalind

Garðalind.

Garðalind er á Túnakortinu 1918 merkt inn beint suðvestur af Garðakirkjugarði þar sem túnið mætir mýrlendinu fyrir neðan, þ.e. Garðamýri.
Skv. Örnefnalýsingu 1958 er „við mýrarjaðarinn […] stór steinn, og hjá honum er uppspretta, sem heitir Garðalind.“ Í Örnefnaskrá 1964 er hún einnig nefnd Garðabrunnur: „Svo var aðalvatnsból hverfisins kallað. Lind með rennandi vatni góðu. Þar var brunnur grafinn undir stórum steini og hlaðinn upp með tröppum niður að vatninu. […] Þangað sótti allt hverfið vatn til fjóss og bæjar.“ Steinninn er kallaður Grettistak: „Mátti þar sjá fingraför Grettis er hann tók bjargið og færði í vegg brunnsins, lindarinnar.“ Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Garðalind er niður undir Garðatjörn, beint niður af bænum í Görðum. Stór klettur er yfir lindinni. Er hann nefndur Grettistak. Tvær, þrjár tröppur eru ofan að vatninu í lindinni. Í Garðalind var sótt vatn frá mörgum bæjum í Garðahverfi og jafnvel öllum í miklum þurrkum. Aldrei þraut Garðalind, og þótti í henni bæði heilnæmt og gott vatn. Smálækur rennur frá lindinni.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er lindin beint niður af íbúðarhúsinu í Görðum, í vesturátt til sjávar, með grasbala ofan við upp að gamla kirkjugarðinum og blauta mýri framan við.
Kletturinn liggur yfir lindinni eins og lok eða þak en nafnið Grettistak mun frekar ungt. Í Fornleifaskýrslu sinni um Garða árið 1820 lýsir séra Markús Magnússon þessu allnákvæmlega: „Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestssetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestssetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu eins og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum svo að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú, eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann.“ Við þetta gerir Kålund eftirfarandi athugasemd 1877: „Samkvæmt fornleifaskýrslu (1820) fundust á Álftanesi nokkrar fornaldargrafir […] einnig brunnur í klettaskjóli, afgirtur“.

Garðalind

Garðalind.

Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir svo séra Árni Helgason: „Mikill steinn stendur sem á hleðslu yfir Garða vatnsbóli, sem heitir Garðalind.“ Árið 1984 kemur vatnið enn undan þessu stóra bjargi sem skrásetjari kallar „framhlið vatnsbólsins en bárujárnsþak, þakið torfi hefur verið reist aftan við það […] Byggt hefur verið utan um vatnsbólið – hlaðið múrsteinum – ferhyrnt lítið [dælu]hús sem gengið er inn í um dyr að sunnan“, um 1,8 x 2 m að stærð og 1,2 m á hæð. Vatnsrásin sem einnig sést á Túnakortinu liggur líkt og áður í átt til sjávar en út í skurð og meðfram henni á um 4rra m kafla næst steininum eru hlaðnir veggir. Dæluhús og seinni tíma hleðslur hafa síðan hrunið utan af lindinni sem varðveist hefur óskemmd með klettinum yfir.
Í Fornleifaskýrslu um Garða 1820 segir séra Markús Magnússon: „Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestssetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. […] Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestssetursins, er 13 álnir að umfangi og 1 3/4 alin að hæð og liggur flatur.
Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann. Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja í sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að sjórinn hafi fyrrum gengið svo hátt sem kletturinn stendur nú, fremur en að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan, því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.“ Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir svo séra Árni Helgason: „Hvorki blótsteina né Grettistök þekki ég hér, en einstakur steinn, mikill um sig, stendur fyrir vestan Garða, er sumir segja sé brimbarinn þeim megin, er veit frá sjó (hann er frá sjó meir en 100 faðma og 5-6 eða meir yfir sjávarborðið).“ Við Fornleifaskráningu 1984 er getið um „tvö björg“ vestur frá Görðum, um 18 m suðaustan Garðalindar, austan við Garðamýri og er tóft byggð utan í þeim, vestan megin. Þetta gæti verið kletturinn sem séra Markús nefnir.

Garðabrunngata (leið)
Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Garðabrunngata sem „lá upp með Kirkjugarðinum að austan heim á hlað“ eða „frá staðarhúsum niður til lindarinnar“. Hún sést ekki á Túnakorti.

Skóli (hús)
Á Túnakorti 1918 er skólahús beint vestur af Króki, nokkru utan Garðatúngarðs. Húsið er úr timbri og hefur stefnuna norðvestur-suðaustur. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.“ Þarna er nú samkomuhús.

Garðhús (býli)

Garðar

Garðakot.

Á Túnakortinu 1918 má sjá byggingu vestan við Garðatraðir og Garðahlið rétt innan túngarðsins, líklega svo nefnd Garðhús. Í Örnefnalýsingu 1958 er talað um hól vestur af Görðum ofan götu en skv. Örnefnaskrá 1964 var þetta „hjáleiga og þurrabúð“ upp við eða „vestan Garðahliðs“.
Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Efst í Garðatúni, fast vestan við heimreiðina, eru gamlar tóftir af þurrabúðinni Garðhúsum.“
Fornleifaskráning fór fram 1984 og eru minjarnar neðan vegar rétt áður en kemur að „heimkeyrslu að Garðakirkju […] beint niður af spennistöð sem þarna er. „Þjóðvegurinn er beint upp af, tún niður af, að kirkjunni.“ Nokkru vestar kemur fram hluti af landamerkjagarði Garðalands og stefnir á Háteig. Tóftin er ferhyrnd, mjög greinileg og virðist niðurgrafin. Hún skiptist í tvennt, innanlengdin 7 m að skilveggnum og 11,7 m frá honum, innanbreiddin um 3 m og veggirnir 1,5 m á breidd. Tóftin er full af grjóti, hefur nokkurn veginn sömu stefnu og vegurinn og vísar sú langhlið sem fjær honum er í suðvestur að Garðatúni. Fram af henni er eins konar bakki, e.t.v. útlínur kálgarðsins sem þá er um 14 m breiður frá húsinu. Þetta kemur saman við Túnakortið sem sýnir aflangt torfhús með stefnuna norðvestur-suðaustur og áfastan kálgarð suðvestan megin.
Árið 1703 voru Garðhús skv. Jarðabók „hjáleiga fyrirsvarslaus“ í eigu Garðakirkju og bjó þar Guðmundur Einarsson með þrjá í heimili. Í Manntali 1801 var býlið kallað „húsmannspláss“ en þá hafði tekið við ábúð Stefán Þorsteinsson, jarðnæðislaus fiskari, og voru einnig hjá honum þrír í heimili. Í Manntali 1816 var þar húsmaðurinn Árni Magnússon með fjóra heimilismenn og 1845 Guðmundur Sveinsson með þrjá í heimili. Garðhús eru hvorki nefnd í síðari Jarðabókum né Fasteignabókum þegar kemur fram á 20. öld en Tryggvi Gunnarsson í Grjóta mundi eftir bæ á þessum stað.
Jarðardýrleiki var óviss í tíð Guðmundar Einarssonar en hann greiddi 35 álna landskuld með fiski í kaupstað og eitt leigukúgildi með smjöri. Séra Ólafur í Görðum uppyngdi það en hin eina kýr bóndans fóðraðist naumlega. Kvaðir voru mannslán árið um kring, dagsláttur, hrísshestur og hestlán. Bóndi lagði sjálfur til húsavið en hafði móskurð í landi Garða.

Garðhúsabrunnur (vatnsból)

Garðahverfi

Garðhúsabrunnur.

Skv. Örnefnaskrá 1964 var Garðhúsabrunnur „utan garðs rétt við Garðahlið. Allgott vatnsból, þar til sauður drapst þar í, var þá fyllt upp“. Brunnurinn sést ekki á Túnakorti.

Háteigur (býli)

Garðahverfi

Háteigur 1915.

Á Túnakortinu 1918 er bærinn í Háteigi beint norðvestan Garða, alveg upp við Garðatúngarð. Hann skiptist í fimm hús og er byggður úr steini. Girt er kringum tún hans en nokkru austar í því er hús sem gæti verið Ráðagerði. Byggingarefnið er skv. Fasteignabókum áfram hið sama 1932 en auk þess er nefnt timbur árin 1942-4 og húsið þá járnvarið. Í Örnefnalýsingu 1958 segir að Ráðagerði sé neðar en Gata og „Háteigur í líkri hæð, svo Miðengi neðan undan Háteigi.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 er Háteigur býli eða „hjáleiga frá Görðum litlu vestar en Ráðagerði“ og Háteigstún „nú sameinað Ráðagerðistúni“. Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Býlið Háteigur er vestan Garða. Tún Háteigs liggur vestan Garðatúns, alveg niður að sjó. Íbúðarhúsið stendur efst í túninu, rétt fyrir neðan garðinn“, þ.e. túngarðinn.
Háteigs er hvorki getið í jarðabókum né manntölum en var a.m.k. í eigu Garðakirkju 1932-44, metinn á 65-66 hundruð kr. Kúgildi voru tvö í byrjun tímabilsins og auk þeirra tíu sauðir og eitt hross en við lok þess átti jörðin fimm nautgripi og eitt hross. Túnið var um 1,5 ha fram um 1932 og heyafli 90 töðuhestburðir en 180 þegar nálgaðist miðja öldina, girt kringum það með görðum og girðingum. Norðvestan Háteigs voru Gata og Hlíð en nær sjónum Miðengi, suðaustan megin Ráðagerði og Garðar. Skv. Fasteignamati ríkisins er jörðin enn í byggð og nú eign Garðabæjar.

Háteigsbrunnur (vatnsból)
Rétt austan Háteigsbæjarins sýnir Túnakortið 1918 tvö hringlaga mannvirki sem gætu verið brunnar. Einhver punktalína liggur frá bænum framhjá þeim að Garðatúngarði en greinileg gata er þar ekki. Í Örnefnaskrá 1964 er þó minnst á Háteigshlið í garðinum.

Mýrarhús (býli)
Mýrarhús hét skv. Jarðabók „hjáleiga í óskiftu Garðastaðarlandi“ sem var komin í eyði árið 1701 en hafði verið byggð í 60 ár eða lengur. 35 álna landskuld hafði goldist í fiski í kaupstað og eitt kúgildi í fiski eða smjöri til Garða. Grasnautnin fóðraði kúgildið en hana brúkaði síðan staðarhaldarinn. Hjáleigunnar er ekki getið í síðari heimildum og hefur e.t.v. ekki byggst aftur. Af nafninu að dæma hefur hún verið staðsett nálægt mýri, trúlega Garðamýri en þar nokkru sunnar en Sjávargata og Hóll er greinilegur tóftarhóll.
Skv. Jarðabókinni 1703: Mýrarhús, hjáleiga í óskiftu Garðastaðarlandi, bygð yfir 60 ár eður lengur með xxxv álna landskuld, sem betalaðist í fiski í kaupstað. Kúgildi var eitt og guldust leigur heim til staðarins í smjöri eður fiski; nú hefur hjáleigan tvö ár í eyði legið og ekki fengist bygð, brúkar staðarhaldarinn grasnautnina, sem fóðraði eitt kúgildi meðan bygt var. Meinar prófasturinn aftur byggjast kunna ef staðarhaldarinn vill og fiskiríið batnar.

Tómthús (býli)
Í Manntali 1845 er Tómthús talið meðal býla í Garðahverfi en þar bjuggu Jón Jónsson „grashúsmaður, vitstola í 10 ár“, kona hans Katrín Eyjólfsdóttir og fjögur börn þeirra, Eyjúlfur, Erlendur, Jón og Ingveldur. Auk þeirra voru Ingunn Helgadóttir sem lifði „af handavinnu sinni“ og sonur hennar Ólafur Einarsson. Tómthús þetta er ekki nefnt í öðrum heimildum og hefur e.t.v einungis verið byggð í tíð þessara tveggja fjölskyldna. Nöfn húsfreyjunnar og elsta sonarins minna þó á fyrstu ábúendurna í Katrínarkoti sem hétu Katrín og Eyjólfur og gætu þar verið tengsl. Þar eð Katrínarkot á að hafa byggst á sama tíma og Tómthús birtist í Manntalinu vaknar sá grunur að um sama býli sé að ræða. Eðlilega hefur þá með tímanum verið farið að kenna það við húsfreyjuna sem hlýtur að hafa staðið ein fyrir öllum heimilisrekstri og búskap fyrst maður hennar var veikur. Það að Tómthús er í Manntalinu talið upp næst á eftir Hausastöðum en næst á undan Hausastaðakoti gæti bent til að það hafi verið staðsett í nágrenni þeirra eða á sömu slóðum og Katrínarkot. Á móti mælir hins vegar að Katrín og Eyjólfur í Katrínarkoti eru talin hafa verið hjón en ekki mæðgin eins og fólkið í Tómthúsi og því eru býlin skráð sitt í hvoru lagi.

Garðaviti (viti/skotbyrgi)

Garðahverfi

Garðaviti.

Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Á háholtinu er viti, Garðaviti. Þar var áður torfvarða og kveikt á lugt.“ Örnefnaskrá 1964 bætir við: „Hann mun hafa verið reistur um 1870. Hann stóð á holtinu norður frá Garðahliði.“
Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Á klöpp fyrir ofan Háteig var viti hér áður, Garðaviti.“ Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóftir séu „uppi á háhólnum […] svo til beint upp af Háteigi“, alveg við veginn, ofan og austan hans og er hæðin grýtt allt um kring.
Leifar sjást af tveimur tóftum hlið við hlið og virðast þær samfastar. Sú austari er stærri og greinilegri, innanmálið um 5,8 x 2 m. Hún er nokkuð niðurgrafin og um 1,1 m á dýpt. Stefnan er norður-suður. Sú vestari er öll ólögulegri, um 2,5 x 2 m að innanmáli.
Vitinn var í notkun sem ljósgjafi á tímabilinu 1868-1912. Tryggvi Gunnarsson í Grjóta (f. 1899) mundi eftir honum og sagði hann hafa verið notaðan sem mið af sjó fyrir fiskibáta en á stríðsárunum notuðu Bretar hann sem virki. Húsið var síðan „selt og flutt heim að Hlíð, þar sem það var notað sem kamar“.

Höll (býli)
Skv. Örnefnaskrá 1964 var Höll „hjáleiga og þurrabúð“ frá Görðum og stóð bærinn „utan Garðs, ofan Garðahliðs“. Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóft hans sé svo til beint upp af Garðakirkju, „rétt eftir að kemur að vegamótum heim að henni, að norðan“. Allt í kring er grýtt holtið. Mundi Tryggvi Gunnarsson í Grjóta eftir því þegar búið var í þurrabúðinni. Þarna er garður og við norðausturhorn hans lítil aflöng tóft, grjóthlaðin og niðursokkin. Hún er um 6 m á lengd og 2,1 m á breidd, þykkt veggja um 0,5 m. Stefnan er suður-norður og virðist inngangurinn vera á suðurgafli.
Höll er hvorki nefnd í jarðabókum né manntölum.

Hallargerði (garður)

Garðahverfi

Hallargerði.

Í Örnefnaskrá 1964 er Hallargerði sagt liggja kringum Höll: „Svo hét gerði umhlaðið miklum grjótgarði norðan vegar […] garður af grjóti kringum bæinn“. Gerði sem teiknað var upp við Fornleifaskráningu 1984 er þó vestan við hústóftina. Þarna er ferhyrndur garður eða þurr grjóthleðsla, um 40,8 m á breidd og 18,2 m á lengd, veggir 1,8 m á breidd. Um 19 m frá austurendanum mótar fyrir yfirgróinni hleðslu, um 1,2 m á breidd, sem liggur þvert inn í garðinn.

Torfavarða (samgöngubót)
Skv. Örnefnaskrá 1964 var á Garðaholti svo nefnd Torfavarða eða Torfaleiði „stór varða […] nokkru vestar en Völvuleiði […]“. Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Á háholtinu, suðaustan við Garðaholtsveg […] er þúfa, sem kölluð er Völvuleiði. Torfavarða var gegnt Völvuleiði, hinum megin við veginn. Hún er nú horfin, en lítið hús stendur nú, þar sem hún var.“ Þetta er við stíginn sem lá frá Flatahrauni, fram hjá Völvuleiði að Garðatúngarðshliði.
Torfavarða hefur líklega þjónað sem vegvísir við gamla stíginn en þegar hann hætti að gegna hlutverki hefur vörðunni ekki lengur verið haldið við og kann nafn hennar þá að hafa breyst í Torfaleiði með áhrifsbreytingu til líkinda við
Völvuleiði.

Skotbyrgi (stríðsminjar)

Garðahverfi

Garðaholt – Camp Tilloi og Camp Gardar. Skotbyrgi.

Skv. Fornleifaskráningu 1984 var aðalloftvarnarbyrgi Breta á stríðsárunum hæst á hæðinni, þ.e. í Garðaholtsenda, og mjög grýtt allt í kring. „Nú stendur hús á staðnum og sér engin merki umsvifa Bretanna“.
Skv. Fornleifaskráningu 1984 eru tvö samtengd skotbyrgi ofan Garðakirkju, í austurbrún Garðaholts, beint út frá útsýnisskífu, grýtt holtið allt í kring. Þetta eru ferhyrnd steinsteypt byrgi, 2 x 3 m að stærð. Á 18 m bili milli þeirra hlykkjast grjóthlaðin skotgröf eins og göng, um 1 m á breidd og 0,80-1 m á dýpt. Hún liggur suður út frá vestra byrginu, beygir til austurs, bugðast upp að og austur fyrir eystra byrgið og sveigir svo suður meðfram brún lítils klettabeltis. Útsýni er úr byrgjunum til norðurs, aðallega út á Álftanes.

Mæðgnadys (legstaður)

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: „Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu norðan Torfavörðu. Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […]“.

Garðagata (leið)
Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Garðagata „frá Garðahliði norður holtið hjá Prestahól í Stekkinn“, þ.e. Garðastekk og við hana hefur Götuhóll eða Göthóll e.t.v. verið kenndur, „klapparhóll litlu norðar en Prestahóll, rétt við Garðagötu“. Framhald virðist vera af götunni um 100 m norðan við stekkinn, á móts við núverandi Garðaholtsveg, en þar liggur skv. Fornleifakönnun 1999 annar slóði upp í hraunið til norðausturs og sameinast Álftanesgötu eða Gálgahraunsstíg nyrðra eftir um 250 m.

Hvíldarklettar (áningastaður)
Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Hvíldarklettar „grágrýtisklappir upp frá Álamýri. Austan Hausastaða.“ Þeir eru ekki langt frá Garðaveg og hafa e.t.v. verið áningastaður.

Garðastekkur (rétt)

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnalýsingu 1958 er Garðastekkur sagður vera norðaustan Presthóls, „niður við hraun“. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hann „í hraunbrún Gálgahrauns miðs vegar milli Garðaholtsenda og Lambhúsatjarnar […] spölkorn niður frá vegamótum. Þar eru hleðslur og tættur gamla stekksins.“ Við hann eru kennd Garðastekkatún „grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […] Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.“ Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið. Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ. b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ Kristján Eldjárn skoðaði svo minjarnar og lýsti þeim árið 1978: „Beint austur af [Presthól], við jaðar Gálgahrauns, heitir Stekkur og er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti. Vafalítið mun hafa verið þarna stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Talsverðar minjar er enn að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum, heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul. Mætti ef til vill segja að réttin sé almenningur og þrír dilkar. Hún er um 20 x 6 m og hlaðin upp að hraunbrúninni. Auðséð er að réttin hefur verið byggð á einhverjum rústum sem mótar fyrir inni í almenningnum og í krika milli norðurveggjar hennar og dilkveggjar þar. En rétt fyrir norðan réttina er grasivaxin tóft, um 10 m löng og 4-5 m breið. Ekki er skynsamlegt að fullyrða hvað þetta er, en sennilega eru öll þessi gömlu ummerki á einhvern hátt tengd stekkjarlífinu. Mikill graslubbi torveldar að gera sér grein fyrir rústunum. Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin. Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt. Heim að Görðum er hæfilegur stekkjarvegur og staðurinn er upplagður sem stekkjarstæði.“ Kristján rissaði upp réttina, hugsanlegar stekkjarleifar og tóft en suðurveggur hennar liggur nokkurn veginn samhliða norðurvegg réttarinnar. Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta um 350 m í norðaustur frá Bessastaðaveg. Þarna er ræktað tún sunnan undir hraunbrúninni, tveir túnbleðlar, og rústirnar þar upp við hraunið. Í vestsuðvestur sést lítill grýttur hóll. Um 10 m eru milli réttarinnar og tóftarinnar en hún er í vestari túnblettinum. Tóftin er skýr þótt hún sé grasi vaxin en lögunin ógreinileg. Hún mælist 10,1 m á lengd og 5,2 á breidd, veggirnir um 1 m á breidd og 0,5 m á hæð. Skrásetjari giskar á að þarna hafi verið fjárkofi. Aftur fór svo fram Fornleifakönnun 1999 og segir þá að í krikanum sem myndast vestan við réttina sé „grasi gróin tóft, 10 x 4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftanúr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.“ Tóftin hefur stefnuna norðvestur-suðaustur.
Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið. Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u. þ. b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg.

Garðahevrfi

Garðastekkur.

Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ Eftir að hafa sagt frá stekknum segir Kristján Eldjárn 1978 að þarna í stekkjarstæðinu séu enn „talsverðar minjar […] að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum [nr. 56], heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul. Mætti ef til vill segja að réttin sé almenningur og þrír dilkar. Hún er um 20 x 6 m og hlaðin upp að hraunbrúninni.
Auðséð er að réttin hefur verið byggð á einhverjum rústum sem mótar fyrir inni í almenningnum og í krika milli norðurveggjar hennar og dilkveggjar þar. […] Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta „vel hlaðin rétt, skiptist í 4 megin hólf – 1 „safn“ og 3 hólf […] hlaðin úr hvössu grjótinu úr Gálgahrauninu“. Veggir eru 0,3-1 m á breidd og 0,5-1 m á hæð. Við Fornleifakönnun 1999 segir svo: „Grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. […] Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11 x 9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19 x 6 m og er aðeins gengt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnan við. Þau eru bæði um 5 x 5 m með dyr á suðurvegg.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Garðastekkatún „grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […] Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.“ Um það segir Kristján Eldjárn árið 1978: „[…] er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti […] stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis. […] Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring.
Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin.
Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt.“ Við Fornleifakönnun 1991 segir: „Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp og er enn notað. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá þessari öld […] Fjær eru stórgrýttir flagmóar.“

Garðahverfi

Fjárborg við Garðastekk.

Í Minnispunktum úr skoðunarferð 1978 segir Kristján Eldjárn: „Fjárborg hefur verið á hraunbrúninni; (Gálgahrauns) beint andspænis Görðum, fáeinum metrum ofan við réttina og aðrar minjar þar sem heitir Stekkur. Varla er unnt að segja með réttu að fjárborgin sé hluti af stekksminjunum, þótt hvort tveggja sé viðkomandi sauðfé, og þess vegna er borgin talin sér. Nú er ekkert eftir af borginni nema undirstöðurnar, en þær eru líka mjög greinilegar og skemmtilegar. Borgin hefur verið hlaðin úr hraungrjóti og alveg kringlótt, um 10 m í þvm út á ytri brúnir. Veggir allþykkir. Trúlegt virðist að borgin hafi verið rifin til þess að fá grjót í réttina sem hlaðin hefur verið á stekkjarstæðinu og enn stendur. Ég var að athuga stekkjarminjarnar og réttina 20. sept. þegar ég allt í einu rak augun í þennan skemmtilega hring í hrauninu. Grjótið er allt með skófum og litum eins og hraunið sjálft svo að næstum lítur út eins og náttúran sjálf hefði teiknað þennan hringferil svona hárrétt á jörðina. En svo er þó reyndar ekki, heldur er þetta eitt af mörgum fjárskjólum hér á Reykjanesi, þar sem útigöngufé var ætlað að ganga af, helst allan veturinn.“ Við Fornleifaskráningu 1984 er fjárborgin sögð vera „á hrauntá í jaðri Gálgahrauns“ um 30 m norðaustan og ofan fjárkofans og rúmlega 375 m frá Bessastaðaveg. Rústin er mjög skýr, „hringlaga eða réttur hringur að utanmáli“, um 11 m í þvermál. Veggir eru um 2 m á breidd og auðgreinanlegir því þeir eru ólíkt umhverfinu lítt mosagrónir. Hæð þeirra er ekki teljandi en í rústinni miðri er grjót og hún er há miðað við umhverfið.
Skv. Fornleifakönnun 1999 eru um 200 m norðan við Garðastekk hugsanlegar „leifar af eldri stekk […] gömul hleðsla í hraunbrúninni […]“, þ.e. nánar tiltekið „þar sem gamla þjóðleiðin [Fógetastígur] kemur niður úr Gálgahrauni að vestan […] utan í hraunkantinum norðan við götuna […] vallgróinn hvammur næst, fjær eru flagmóar. Hleðslan er 3 m löng, einföld hraungrýtishleðsla, hvergi meir en tvö umför. Austan við hana er vallgróin hvilft upp í hraunbrúnina og er sokkin grjóthrúga um 16 m austar sem gæti hafa verið á móti hleðslunni. Á milli er óreglulegur þúfnarimi sem gæti verið yfirgróin vegghleðsla. Hefur verið einhvers konar rétt eða aðhald, mögulega stekkur.“

Gálgaklettar (aftökustaður)

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Austan við holtið og veginn tekur við hraun, sem nefnt er Garðahraun, og heitir nyrzti hluti þess Gálgahraun. Það liggur norður að Lambhúsatjörn. […] Út í Lambhúsatjörn ganga Hrauntangar. Þar innar með sjónum eru svonefndir Gálgaklettar, sem svo skiptast í Gálga og Litlagálga, sem er nær hrauni og innan við Stóragálga.“ Hraunið og klettarnir eru nefndir í Örnefnaskrá 1964: „Gálgahraun: Svo hét allur nyrsti hluti Garðahrauns, frá Gálgahraunsstígnum syðri allt út að Lambhúsatjörn. […] Gálgaklettar: Í miðju Gálgahrauni niður undir Lambhúsatjörn voru þrjár allháar klettasnasir, sem svo hétu. Þar var til forna aftökustaður frá Bessastöðum. Djúpar skorir voru milli klettanna, þar voru sakamenn dysjaðir. Þar hafa bein fundist. […] Stóri-Gálgi: Vestari klettarnir tveir voru kallaðir svo. […] Litli-Gálgi: Austan við stærsta klettinn var minni klettur. Við þessa kletta var Litli-Gálgi kenndur.“ Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir svo: „Skammt austur frá Hraundröngum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirra var lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessir klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun. Klettur milli Hrauntanga og Gálga er nefndur Litli-Gálgi.“
Við Fornleifaskráningu 1984 segir að þetta sé í úfnum norðvesturhluta Gálgahrauns, um 650 m í norðnorðvestur frá fjárborginni og um 10 m yfir sjávarmáli: „Klofinn hraunklettur – 2 m bil þar sem mest er – á milli gjábarma.“ Gálgaklettar eru þó fjarri þingstað sveitarinnar í Kópavogi og heimildir eru ekki þekktar frá fyrri öldum um aftökur á þessum stað.

Tóft (hús)

Garðahverfi

Tóftin við Eskines.

Í endurminningum sínum frá 1968 segir Ólafur Þorvaldsson: „Hrauntanga þann, sem gengur fram í sjó, milli Arnarnesvogs og Lambhúsatjarnar, hef ég frá æskuárum heyrt nefndan „Eskineseyrar“ og munu eldri nágrannar þessa staðar enn kannast við það nafn, þótt enginn viti nú, af hverju dregið er.“ Síðan segir hann frá kofarúst í hraunjaðrinum upp af Eskineseyrum: „Sögu þessa tóttarbrots hef ég frá fólki, sem mundi byggingu hennar og tildrög. – Það mun hafa verið skömmu eftir komu séra Þórarins Böðvarssonar að Görðum, sennilega nálægt 1870 að honum kom til hugar, hvort ekki mundi kleift að rækta æðarvarp á Eskineseyrum. Séra Þórarinn mun hafa verið kunnugur æðarvarpi frá Ísafjarðardjúpi, áður en hann fluttist að Görðum, og hvort tveggja vitað, bæði um gagnsemi þess og það, að mögulegt væri að koma upp varpi, þar sem ekki var áður, ef aðstaða væri sæmileg og natni og kunnátta viðhöfð.

Eskines

Tóft af hænsnakofa við Eskines.

Þar eð Garðakirkja átti þetta land, og svo vildi til, að mjög skammt undan var mikið varpland, Bessastaðanes, og fugl fór mikið um sundið milli nessins og Eyranna, mun séra Þórarinn hafa talið ómaksvert að reyna, hvort ekki væri hægt að fá eitthvað af fugli, sem þarna fór um, til þess að taka heima á Eskineseyrum, væri eitthvað til þess gert, byggð hreiður og annað, sem fylgir þess konar starfsemi. Hann lét því ekki við hugmyndina eina sitja, heldur lét hann byggja kofa þann, sem enn sést móta fyrir, og flutti þangað karl og konu, sem búa skyldu í haginn fyrir æðarfuglinn. Einnig lét hann þau hafa með sér nokkur hænsn, þar eð talið var, að hænsn lokkuðu fuglinn að með vappi sínu úti við, ásamt söng hanans. Lítinn eða engan árangur mun tilraun þessi hafa borið og var því bráðlega hætt frekari tilraun í þessa átt, og hefur víst ekki síðan verið freistað að koma æðarvarpi upp á Eskineseyrum.“
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Skammt fyrir innan Gálga byrja Vatnagarðar, en svo heitir hraunið með Lambhúsatjörn. […] Nokkru fyrir austan þá eru Eskineseyrar svokallaðar. Í hraunjaðrinum fyrir ofan Eskineseyrar byggði séra Þórarinn í Görðum kofa, er hann hugðist koma sér þar upp æðarvarpi. Rústir kofans sjást enn. Eskineseyrar ganga til austurs út í Arnarnesvog. […] Á Eskineseyrum er fjörumór.“ Skv. Fornleifakönnun 1999 er kofinn í gjá ofan við Eskines. Séra Þórarinn (f. 1825) var prestur í Görðum á tímabilinu 1868-95.

Móslóði (leið)
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Stígur úr Garðahverfi lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó. Troðningur þessi var nefndur Móslóði. […] Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. […] Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar.“ Við Fornleifakönnun 1999 segir: „Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist Fógetagötu í miðju hrauninu. Víða sjást troðningar á þessum slóðum en hvergi er hægt að rekja ákveðna götu alla þessa leið. Þessi leið hefur verið ívið greiðfærari með reiðingshesta heldur en aðalleiðin […] sem lá norðar.“

Álftanesgata (leið)

Garðahraun

Götur í og við Garðahraun.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Gálgahraunsstígur nyrðri: „Stígur þessi lá yfir Gálgahraun rétt fyrir sunnan Hrauntangaflöt yfir í Hraunsholt við Hraunsvík.“ Við stíginn var útsýnisklettur, „Stóri-skyggnir: Klettur austarlega í Gálgahrauni suður frá Gálga, sunnan við Gálgahraunsstíg.“ En Litli-Skyggnir hét „annar klettur minni á Gálgahrauni sunnan Stóra-Skyggnis.“ Þarna er verið að lýsa hluta hinnar fornu þjóðleiðar frá Álftanesi inn til Reykjavíkur en hún nefndist einnig Fógetastígur. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greindist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurn veginn á Holtsendann […] Móslóði. Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur. Skammt frá Skyggni var síðasta birkihríslan í Garðahrauni. Stóð hún af sér ágang manna og dýra fram undir 1940.“ Kristján Eldjárn skoðaði svo götuna árið 1979: „Alfaraleið hefur áður fyrri verið yfir Gálgahruan, frá Bessastöðum (eða Álftanesi) og til Arnarnesvogs og svo áfram til Kópavogs og Reykjavíkur. Hér er aðeins verið að tala um vegarspottann yfir Gálgahraun. Hann lést enn mjög greinilega og er ekki líklegur til að hverfa, þó að tímar líði. Vestan hraunsins er auðvelt að greina hina gömlu götuslóð, þó að tímans tönn hafi nokkuð svo máð yfirbragð þeirra, og síðan sveiflar gatan sér upp á hraunið, þar sem vel hefur þótt haga til, og er frá þeim stað ekki nema snertispölur að stekkjarstæðinu og réttinni sem hér er í hraunjaðri. Eins og aðrar hraunslóðir hlykkjar gatan sig þvert yfir hraunið, eftir því sem best hefur þótt henta, sneiðir hjá grófustu svæðunum og lætur sig ekki muna um útúrdúra til þess að sem sléttast sé undir og helst grasi vaxið. Alls staðar er þó grunnt á grjótinu og víða stendur hraunið upp úr, en athyglisvert er að hvergi er mjög áberandi að mörkuð sé gatan í helluna undan hestahófum, aðeins eins og lítið eitt slípað; kannski er hraunið nokkuð hart.
Að innanverðu kemur gatan út úr hrauninu niðri undir sjó, þar sem Arnarnesvogur teygir innsta eða vestasta anga sinn lengst inn í landið, og er lítill vandi að komast þaðan í skarðið sem er upphaf götunnar þarna megin.

Garðahverfi

Álftanesgata.

Gata þessi er merkileg, meðal annars fyrir það hve skýrt hún er mörkuð nú eins og nokkuð djúpur grasi gróinn skorningur. Maður undrast hvers vegna hún er svona djúp. Helst er að sjá að menn hafi hjálpað upp á hana heilmikið, en ekki að hún sé grafin af hestahófum einum saman. En hún er nú eflaust þrengri að sjá nú en hún hefur verið. Eins og kunnugt er, er Gálgahraun friðlýst, svo hér ekki hætta á ferð.“

Garðahraun

Garðahraun – götur: ósá

Götunni var einnig lýst nákvæmlega við Fornleifakönnun 1999 vegna fyrirhugaðra breytinga á veginum milli Engidals og Selskarðs: „Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m beint vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m.
Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við“ hleðslu sem mögulega er af gömlum stekk. „Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður.
Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk […] og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. […] Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið, algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.“

Krókur (býli)

Garðahverfi

Krókur.

Á Túnakorti 1918 má sjá bæjarstæði Króks, austan Garða, alveg upp við túngarð og er girt kringum tún býlisins. Sunnan við Krók er Nýibær. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var Krókur „hjáleiga og stundum þurrabúð frá Garðastað, suður með Garðatúngarði […] Krókstún: tún býlisins, ekki ýkjastórt, en þó nytsamt“.
Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: „Fyrir ofan Nýjabæjartún er túnið í Króki, og stendur húsið efst í því, rétt upp við veginn. Fjós og hlaða eru rétt austan þess. Samkomuhús er rétt ofan vegar, sunnan við Garðaholtsveg (þ.e. veginn yfir Garðaholtið).“
Árið 1918 samanstóð Króksbær af sex torfhúsum og snéru framgaflar með standþili suðvestur að Króksbrunngötu og garði. Við gerð Fasteignabókar 1932 var torfbærinn enn uppistandandi en skv. Fornleifaskráningu 1984 var nýtt íbúðarhús byggt þremur árum síðar, timburhúsið með járnvörðum veggjum sem tilgreint er í Fasteignabók 1942-4.Þessi bær stendur enn með þremur bárujárnsklæddum burstum og var sú sem er í miðjunni raunar byggð upp úr gamla torfbænum árið 1923. Austurburstin er frá 1934 en þá hafa torfveggirnir sennilega verið teknir niður og vesturburstin er frá 1945. Bærinn stendur nánast óbreyttur frá 1950 og er sérstakt að hann hefur haldið svipmóti torfbæjar, einnig hvað herbergjaskipan varðar. Fjósið og hlaðan á bak við eru frá 1920-30.

Krókur

Krókur.

Í Manntali árið 1801 er Krókur kallaður „húsmannspláss“ en þar bjuggu þá tvær jarðnæðislausar útgerðarfjölskyldur: hjónin Árni Einarson og Ólöf Torfadóttir ásamt Unu Ögmundsdóttur, frændkonu mannsins, og hjónin Þórður Jónsson og Guðrún Ásbjörnsdóttir ásamt Steinunni Jónsdóttur, fátæku barni. Þegar Manntal var tekið 1816 voru þau fyrrnefndu flutt en þau síðarnefndu bjuggu enn á jörðinni. Þórður hafði fengið titilinn „kirkjuforsöngvari“, Steinunn var orðin vinnukona á heimilinu og í fjölskylduna hafði bæst dóttirin Guðríður og fóstursynirnir Jón og Jakob. 29 árum síðar voru þau öll farin og hjónin Þorvarður Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir flutt úr grasbýli sínu á Hausastöðum í Krók en honum fylgdi einnig grasnyt. Hjá þeim voru Þorvarður 23 ára sonur og Ólöf 12 ára fósturdóttir. Býlið er ekki nefnt í Jarðatali 1847 en hins vegar í Jarðabók 1861. Það var í eigu Garðakirkju fram um miðja 20. öld. Árið 1934 fluttust hjónin Vilmundur Gíslason og Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir í Krók og bjó hún þar til 1986, þá orðin 87 ára gömul. Síðan stóð bærinn mannlaus en 1990 gáfu afkomendur þessara síðustu ábúenda húsið ásamt innbúi til Garðabæjar og stendur nú yfir viðgerð.
Árið 1861 var jörðin talin 5 ný hundruð en 1932 var hún metin á 17 hundruð kr. Kúgildi voru tvö, úr 1500 m² matjurtagarði fengust 12 tunnur og af 1 ha túni 36 hestburðir af töðu. 1942-4 hafði matsverð jarðarinnar hækkað í 29 hundruð kr., auk kúgildanna voru 8 sauðir og eitt hross, garðurinn gaf af sér 15 tunnur og túnið 58 töðuhestburði. Hlunnindi voru hrognkelsaveiði, útræði, mótak og ýmislegt fleira en í Örnefnalýsingu segir frá Birni bónda í Króki sem var þar fram um 1917: „einn þeirra, sem sótti þang til eldiviðar í Lambhúsatjörn, og mun hafa verið sá síðasti, sem það gerði. Taldi hann þangið úr Lambhúsatjörn betri eldivið en þangið úr fjörunni í Garðahverfinu. Bar hann allt heim á sjálfum sér, því hest átti hann ekki.“

Króksbrunngata (leið)
Á Túnakorti 1918 liggur gata milli bæjarstæðis Garða og hjáleigunnar Króks, e.t.v. hluti Króksbrunngötu sem nefnd er í Örnefnaskrá 1964: „Lá neðan frá Garðalind heim að Króki.“ Seinni spottinn sem ekki er sýndur á kortinu væri þá í raun samur og Garðabrunngata.

Króksbrunnur (vatnsból)

Garðahverfi

Króksbrunnur.

Króksbrunnur var neðan Króks og Nýjabæjar.

Gálgahraunsstígur syðri (leið)

Garðahverfi

Gálgahraunsstígurinn syðri.

Skv. Örnefnaskrá 1964 tók Gálgahraunsstígur syðri við þar sem Dysjabrú sleppti. Hann lá austur frá Mónefi upp á Flatahraun við Hvítaflöt nokkru norðar, framhjá Oddsnefi og Bakkastekksnefi í hraunjaðrinum og um Gatnamót yfir í Engidal: „Flatahraun: Svo hét hraunið við Garðaholtsendann allt austur í Engidal. Um það lá Gálgahraunsstígur syðri […] sunnan við Ófeigskirkju í Engidalshornið.“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir nánar: „Hvítaflöt er gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar liggur upp á hraunið. Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath. G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef.“ Meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum eða fram til 1908 þurftu þeir að fara þessa leið en í miklum leysingum fóru þeir frekar Kirkjustíg síðasta spölinn.

Ófeigskirkja (huldufólksbústaður?)

Ófeigskirkja

Meint Ófeigskirkja í Garðahrauni.

Ófeigskirkja (steinn): „Ófeigskirkja nefndist klettur sem brotinn var þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færst á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn“.
Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Framan við Flatahraun var klettur, sem hét Ófeigskirkja, en hann fór í veginn. Hann var þar sem gjóturnar byrjuðu.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 var kletturinn austarlega á Flatahrauninu, norðan við
Gálgahraunsstíg syðra. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir svo: „Ófeigskirkja nefndist klettur, sem brotinn var, þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færzt á gervigíg aðeins norðan við Álftanesvegin.
Íbúðarhúsið Hraun er skammt vestan við hann.“

Dysjabrú (leið)

Garðavegur

Garðavegur og gamla sjávargatan að Görðum.

Skv. Örnefnaskrá 1964 náði Dysjamýri frá Garðatúngarði austur að Garðahrauni, frá Dysjamöl og Balatjörn upp að Garðaholti, en norðan við Bala er Mónef, „hraunsnef lítið […] utan í þessu nefi má enn sjá gamalt vegspottabrot. Þar var vegabót til að auðvelda mönnum leið að Garðakirkju.“ Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét vegur sá „er lá af Mónefi norður yfir mýrina upp í holtið“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: Dysjamýri er milli Garðahrauns og Garðaholts. […] Áður lá vegur af Mónefi yfir Dysjamýri. Hann var nefndur Dysjabrú.“ Meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum eða fram til 1908 þurftu þeir að fara þessa leið og var hún oftast nefnd brú eða brúin. Í lýsingu á kirkjuferð til garða árið 1891 segir Ólafur Þorvaldsson þingvörður veginn yfir mýrina hafa verið allgóðan yfirferðar í þurru á sumrin en botnlaus aurbleyta í votviðrum, einkum þó þegar frost fór að leysa úr jörðu.
Þegar svo var fóru menn frekar Kirkjustíg. Framhald Dysjabrúar í átt að Hafnarfirði lá meðfram hraunjaðrinum um Gatnamót.

Gatnamót (leið)

Í Örnefnaskrá 1964 eru Gatnamót sögð vera vestast við Garðaholtsenda. „Þar kom troðningur frá Hafnarfirði, troðningur Kirkjustígs frá Urriðakoti, og Setbergi. Þaðan lágu stígar að Garðahliði út á Álftanes, og þaðan lá Gálgahraunsstígurinn syðri yfir í Engidalsgötur.“

Kirkjustígur (leið)
Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Kirkjustígur „af Vegamótum eftir holtsendanum vestur eftir holtinu að Garðahliði og heim að Görðum.“ Þegar Dysjabrú var ófær vegna frostleysinga fóru menn frekar Kirkjustíg.

Bakki (býli)

Garðahverfi

Bakki.

Bakki er talinn meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum frá 1397 og 1477 , hann er nefndur í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggður Jóni Jónssyni og í Gíslamáldaga 1570. Þegar Jarðabók var gerð 1703 var þetta lögbýli í kirkjueign, ábúandi Jón Pétursson með fimm í heimili en Guðlaugur Grímsson hreppstjóri hefur eftir Manntalinu að dæma tekið við af honum sama ár, heimilismenn sjö talsins. Þá er einnig tilgreindur Þorsteinn Pétursson, húsmaður um þrítugt með konu og lítið barn. Í Manntali 1801 bjó á Bakka Einar Bjarnason ásamt konu sinni Rannveigu Sigmundsdóttur, 14 ára syni, Guðmundi, og 10 ára fóstursyni, Jóni. Hjá fjölskyldunni voru vinnukonan Guðrún og Bergsveinn nokkur sem var vanfær og að hluta á framfærslu hreppsins en lifði þó einnig á eigin handverki. Sjálfstætt bjuggu jarðnæðislausu hjónin, Bjarni Einarsson húsmaður og fiskari, trúlega sonur bóndans, og Ingibjörg Narfadóttir. Þegar Manntal var tekið fimmtán árum síðar voru þessar fjölskyldur á brott en Guðmundur Einarsson orðinn vefari og vinnumaður hjá nýjum hreppstjóra á Hausastöðum. Á Bakka voru komin hjónin Árni Ketilsson og Kristjana Ólafsdóttir, áður þjónustufólk hjá prestshjónunum í Görðum. Auk þess að vera sjálfstæður bóndi var Árni nú orðinn meðhjálpari séra Markúsar í Görðum. Þau Kristjana áttu þrjár dætur og einn son á aldrinum 1-18 ára og höfðu einn vinnumann, Gísla Jónsson sem áður var á Hausastöðum. Auk þess sáu þau fyrir Sigríði Magnúsdóttur, 62 ára niðursetningi og voru alls átta í heimili. Enn höfðu orðið ábúendaskipti árið 1845 en þá var þar Brandur Jakobsson grasbóndi ásamt þremur börnum sínum, vinnukonu og vinnumanni, niðursetningi og gamalli konu, Hallfríði Ófeigsdóttur sem var „sjálfrar sinnar“. Annar var Jón Höskuldsson úr Pálshúsum, lóðs og fiskari sem e.t.v. hefur verið búsettur í ónefndri þurrabúð  við Bakkabryggju. Í Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi aðeins einn og jörðin áfram kirkjueign, hún er nefnd í Jarðabók 1861 og í Fasteignabókum, enn undir kirkjunni 1932. 1942-44 var hins vegar ekki lengur búið á jörðinni og í dag liggur hún undir Pálshús.

Garðahverfi

Lóðarsteinn við Bakka.

Til forna og fram um 1565 fylgdi Bakka Garðamýri og var landskuld þá fjórar vættir fiska og vallarsláttur, leigukúgildi tvö og mannslán um vertíð auk annarra kvaða sem héldust áfram. Séra Þorkell Arngrímsson lagði hins vegar mýrina til Garðastaðar, lækkaði landskuldina og tók burt annað kúgildið og mannslánið. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 80 álnir og galst með þremur fiskavættum og vallarslætti. Jón Pétursson bóndi lagði við til húsabótar með styrk séra Ólafs Péturssonar sem einnig uppyngdi hið eina kúgildi jarðarinnar. Fyrir það fékk presturinn smjör eða fisk en hálfar leigur féllu niður þar eð verkamenn voru í fæði á Bakka. Jón átti í kvikfénaði fjórar kýr, jafnmargar ær, tvevetra sauð og sjö veturgamla, þrjú lömb, tíu gimbrar, hest og tvö hross. Jörðin fóðraði þrjár kýr og hefur fóður m.a. verið sótt í Bakkavik, smástararblett sem skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 er „fast vestan við Bakkahrygg […]“ en hann liggur að Garðamýri. Kvaðir voru dagsláttur, hríshestur sóttur í skóg kirkjunnar eða almenning og hestlán nýtt til að færa heim eldivið og til ferða innansveitar einn eða tvo daga. Heimræði var allt árið, lending í Bakkavör og inntökuskip þegar vel fiskaðist. Sölvafjara hafði eyðilagst vegna ísa og fjárbeitar en fjörugrös mátti tína að gagni og hrognkelsafjara var nokkur. Skv. Örnefnaskrá frá 1964 voru „hrognkelsaveiðar miklar“ í svonefndum Bakkaþara. Jörðin hafði móskurð í Dysjamýri en brenndi einnig þöngla til eldis. Árið 1847 var dýrleiki hennar enn óviss, landskuld 60 álnir og kúgildi eitt en 1861 taldist hún 10,6 ný hundruð. 1932 var hún metin á 35 hundruð kr. en þá hafði kúgildum fjölgað í þrjú, sauðir voru 20 og hrossið eitt. Úr 1100 m² görðum fengust 12 tunnur matjurta og hlunnindi voru áfram hin sömu. Jörðin var nytjuð frá kaupstaðnum og hey af henni flutt þangað. Tíu árum síðar var fasteignamatið 47 hundruð kr. Bakkatún lá undir skemmdum vegna sjávarágangs en var 2 ha þegar kom fram á 20. öld. Bærinn var margfluttur undan sjó gegnum aldirnar og eru rústir þess sem síðast stóð nú að hverfa. Bakkafjörur og Bakkakambur hét neðan túnsins en norðan megin var Garðamýri og þar fyrir handan Garðar. Að vestan eru Pálshús og næst sjónum Dysjar.
Skv. Jarðabókinni 1703: Backe. Kallast lögbýli því það hefur fult fyrirsvar, en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða so sem aðrar hjáleigurnar í hverfinu.
Jarðardýrleikinn er óviss. Eigandinn er Garðakirkja. Ábúandi Jón Petursson.

Garðahverfi

Tóft við Bakka.

Landskuld lxxx álnir. Betalast með iii vættum fiska og vallarslætti á kýrfóðurs velli eins og á Dysjum. Bóndinn fæðir verkamenn og hefur þar fyrir kvittar tíu álnir af leigunum.
Við til húsabótar leggur ábúandi með styrk hússbóndans.
Leigukúgildi i. Leigur betalast hálfar með smjöri eður fiski til staðarhaldarans, en hálfar falla niður sem sagt er. Kúgildin uppýngir staðarhaldarinn.
Kvaðir eru dagsláttur, gjörist in natura. Hrísshestur er sækist í kirkjunnar skógarland so lengi það varir, síðan kannske í almenning ef þar er þá nokkuð. Hestlán uppá sama máta sem skrifað er um Dysjar.
Kvikfjenaður er iiii kýr, iiii ær, i sauður tvævetur, vii veturgamlir, lömb iii, gimbrar x, i hestar, ii hross. Fóðrast kann iii kýr. Heimilismenn v.
Heimræði er þar árið um kring og lending brúkanleg, kunna og inntökuskip að vera ef vill og voru þá vel fiskaðist. Sölvifjara hefur til forna verið, en nú eyðilögð af ísi og of mikilli fjárbeit.
Hrognkelsfjara nokkur.
Fjörugrös í minna lagi, þó að gagni. Eldivið af mó sker ábúandinn í Dysjamýri, item brennir þönglum þá við liggur.
Túnið spillist stórlega af sjó, sem það brýtur og sand á ber; hefur þetta smám saman ágjörst so að menn segja að bærinn hafi þess vegna þrisvar frá sjónum fluttur verið og sýnist að túnið mestan part muni með tíðinni undir gánga.
Þessum bæ fylgdi til forna Garðamýri (ein mýri þar í hverfinu). Var þá landskuldin á Bakka fjórar vættir og vallarslátturinn að auki.
Leigukúgildi voru þar tvö og mannslán um vertíð fyrir utan þær nefndu kvaðir.
Mýrin tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útheyiss slægjum og færði so aftur landskuldina, item tók burt það eina kúgildið og mannslánið.

Skotbyrgi (stríðsminjar)

Garðahverfi

Leifar skotbyrgis neðan Bakka.

Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er. Bretar byggðu þar tvö loftvarnarbyrgi á stríðsárunum, og eru þau nú að fara í sjó.“ Í Fornleifaskráningu 1984 segir að jarðhús hafi verið byggt ofan í eitt þessara byrgja „en þau voru mörg hér frammi á bakkanum, með skotgröfum á milli. Sumt er brotið af ofan í flæðarmál, annað á leiðinni þangað. Mikið brýtur hér af landi að sögn heimamanna í Pálshúsum.“

Býli (býli)
Við sjávarkambinn vestan við bæjarstæðið á Bakka var skv. Túnakorti 1918 „þurrabýli og tún þar fyrir neðan, brotið á dögum núlifandi manna“. Þetta hefur verið við Bakkabryggju sem lá suðvestur út frá jörðinni.
Staðsetningarinnar vegna virðist ekki út í hött að tengja þetta ónafngreinda býli hafnsögumanninum í Garðahverfi en einn slíkur, hinn þrítugi Jón „lóðs“ var á Bakka þegar Manntal var tekið árið 1845. Bústaður hans er ekki nákvæmlega tilgreindur en hann ólst upp á næsta bæ, sonur ábúenda í Pálshúsum, Höskulds Þorsteinssonar og Kristrúnar Guðlaugsdóttur. Jón var giftur Þóru Sigurðardóttur og áttu þau tvær dætur sem báðar hétu Sigríður. Þess má svo minnast að kletturinn Þórarinn fram af Bakkabryggju og Dysjabryggju var ysta skerið við innsiglingu til Hafnarfjarðar gegnt Helgaskeri.

Bakkastekkur (stekkur)

Garðahverfi

Bakkastekkur.

Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Norður frá Bala er hraunsnef lítið“, Mónef. „Nokkru norðar þar sem Garðavegurinn liggur út af hrauninu, er“ Hvítaflöt, „vel gróin þúfnakargi. […] Nokkru norðar með hraunbrúninni gengur enn hraunsnef fram í mýrina“, Oddsnef eða Hraunsnef. „Norðar tekur við hraunsnef stærst af þessum hraunsnefjum“, Bakkastekksnef, „Þar austan við var stekkur frá Bakka, sér enn.“
Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir að Mónef gangi fram í Dysjamýri (185-70) en Hvítaflöt sé gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar liggur upp á“ Garðahraun. „Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Bakkstekkur í skjólgóðum bolla sem opnast til norðurs „í hraunjaðrinum sunnan við austurenda nýræktar í Dysjamýri“. Hann er hringlaga, gerður úr þurri grjóthleðslu.
Veggjaþykkt er um 1-1,1 m og er veggurinn vestan megin í hraunbrúninni. Þvermál að innan (í austur 95°) er um 5,6 en þvert á 5,3. Um 1,4-1,5 m breitt hlið er á stekknum austan megin og liggur aðhaldshleðsla úr grjóti frá því 16,5 m til austurs. Stekkurinn var ekki í notkun í tíð Tryggva Gunnarssonar núverandi ábúanda í Grjóta.

Dysjar (býli)

Garðahverfi

Dysjar.

Dysjar eru nefndar meðal Garðakirkjujarða í máldögum þegar árin 1397 og 1477, í Jarðaskrá kirkjunnar 1565 með ábúandann Jón Markússon og í Gíslamáldaga 1570. Skv. Jarðabók Árna og Páls var þetta lögbýli í eigu Garða og árið 1703 bjó ekkjan Valgerður Nikulásdóttir á hálfri jörðinni með sex manns í heimili. Hinn helmingurinn var ábúandalaus um nokkurt skeið og hafði séra Ólafur í Görðum af honum nytjar en af Manntali má sjá að Ásmundur Gissurarson flutti þangað sama ár ásamt kvinnu sinni Hildi Guðmundsdóttur og 11 ára sveitarómaga. Bændur með jarðnyt voru einnig tveir árið 1801, Jón Þorsteinsson og Hans Ormsson hreppstjóri, og hafa búið á Vestur-Dysjum og Austur-Dysjum sem var stærri bærinn. Jón var giftur Iðunni Jónsdóttur og bjuggu hjá þeim 22 ára dóttir, Guðrún, og Guðbrandur Hannesson vinnumaður.

Dysjar

Dysjar, Bakki, Pálshús – Túnakort 1918.

Hreppstjórafrúin Vigdís Jónsdóttir var ljósmóðir að atvinnu. Heimilismenn voru 12 og meðal vinnumanna Narfi Jónsson, trúlega sonur hjóna í einu tómthúsi jarðarinnar, Jóns Narfasonar og Solveigar Hannesdóttur. Jarðnæðislaus eins og þau var einnig nafni hreppstjórans Arnórsson, titlaður húsmaður og fiskari og átti heimili ásamt konu sinni og föður. Fyrir fimmta býlinu var loks handverkskonan og ekkjan Ragnheiður Jónsdóttir sem bjó ásamt móður sinni og 82 ára gömlum húsmanni. Einhver af þessum fjölskyldum hefur væntanlega haldið til í hjáleigunni Dysjakoti en aðrar þurrabúðir eru ekki nafngreindar á Dysjum. Í Manntal 1816 var fólkið flutt og ekki vitað hvert nema hvað Guðrún Jónsdóttir frá Vestur-Dysjum giftist Bjarna Sveinssyni húsmanni í Sjávargötu. Jónar tveir höfðu hins vegar tekið við ábúð í Dysjum, bókbindari með konu og þrjú börn sem fyrir tilviljun var alnafni fyrri ábúanda, og svo Þorgrímsson nokkur með sjö í heimili, þeirra á meðal mæðgurnar Herdís Símonsdóttir húskona og Ástríður Jónsdóttir, rétt komin yfir tvítugt. 28 ára gamall sonur húsbóndans, Gamalíel, mun síðar hafa flust í áðurnefnda hjáleigu. Í Manntali 1845 hafði aftur fjölgað á jörðinni en þá var í Vestur-Dysjar kominn Erlendur Halldórsson, þrítugur bóndi og fiskari með konu og þrjú börn, að líkindum sonur Halldórs Erlendssonar í Hlíð. Sjötti heimilismaður hans var Pétur gamli Jónsson sem var á sveitinni. Vigfús Hjörtsson á hinum Dysjabænum hafði sjö í heimili og bjó þar áfram Ástríður, dóttir Herdísar, ekkja og sjálf komin með titilinn húskona og lifði á handiðn. Með henni var fimmtán ára gömul dóttir, Guðrún. Þá voru tómthúsmennirnir þrír, Þórvaldur Sæmundsson með konu og barn, Sigvaldi Árnason með konu og Guðmundur Gíslason með vinnukonu og barn. Loks bjó á jörðinni Ólafur Bjarnason smiður og hafði níu í heimili. Þegar Jarðatal var tekið 1847 voru Dysjar enn í eigu kirkjunnar og ábúendur tveir. Þær eru nefndar í Jarðabók 1861 og voru áfram kirkjueign skv. Fasteignabókum árin 1932 og 1942-4. Dysjar eru skv. Fasteignamati ríkisins enn í ábúð og skráður eigandi Úlfhildur Kristjánsdóttir.

Garðahverfi

Dysjar.

Árið 1565 galt Jón Markússon í landskuld þrjár vættir fiska, mannslán og vallarslátt, jörðinni fylgdu tvö kúgildi og bóndi hafði eins dags sölvatekju í landi staðarins. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld orðin hundrað álnir sem guldust með fjórum fiskavættum í kaupstað og vallarslætti. Kúgildi var eitt á jörðinni og borgaði Valgerður það hálft með fæði til vallarsláttarmanna en auk þess með fiski eða smjöri til staðarhaldara sem bar að uppyngja það. Kvaðir á hvern ábúanda voru dagsláttur, hríshestur og hestlán. Í bústofninum voru tvær kýr en fóðrast kunnu þrjár. Heimræði var allt árið og uppsátur í Dysjavör. Jarðardýrleiki var enn óviss 1847 en landskuld hafði lækkað í 80 álnir. Kúgildið var sem áður eitt. 1861 taldist jörðin 11,5 ný hundruð. 1932 var verðið 37 hundruð kr. fyrir Vestur-Dysjar og 51 hundruð fyrir Austur-Dysjar. Fyrrnefnda bænum fylgdu tvö kúgildi og 20 sauðir, þeim síðarnefnda þrjú kúgildi og 30 sauðir og einn hestur hvorum. Matjurtagarðar sem við gerð Túnakorts 1918 voru 900 m² á Vestur-Dysjum og 1100 m² á Austur-Dysjum höfðu minnkað í 480 m² vestan megin en stækkað í 1220 m² austan megin og fengust árlega úr þeim tíu og átján tunnur garðávaxta. Jörðin hafði útræði og hrognkelsaveiði hefur verið í Dysjaþara af Dysjabryggju. Árin 1942-4 eru aðeins nefndar Austur-Dysjar og var fasteignamat þeirra orðið alls 61 hundruð kr. Nautgripir voru fjórir, sauðirnir jafn margir og áður og hesturinn einn. Úr görðunum fengust um 24 tunnur og auk fyrri hlunninda nefnd mótekja.
Túnið skiptist í Dysja-Vesturbæjartún sem skv. Túnakortinu var 1,2 ha og Dysja-Austurbæjartún sem var 2,1 ha, þ.e. „allstórt“ eins og segir í Örnefnaskrá 1964 en þar eru sérstaklega nefndir nokkrir túnskikar: Hólsflöt ofan bæjanna og Minkaflöt austarlega, kennd við minkabú sem þar var í eina tíð. Brúarflatir þrjár sem urðu til eftir að Dysjamýri var ræst fram og ræktuð og liggja meðfram henni og eru kenndar við mýrarveginn Dysjabrú og neðan þeirra er loks nýræktin Dýjaflöt. Frá túnunum er einnig sagt í Örnefnalýsingu 1976-7: „Austan bæjar á Dysjum er túnið sundurskorið af skurðum og teygist upp í Dysjamýrina. Næst bænum er Gerði, þá er Hólsflöt og síðan Minkaflöt. Þar ól Guðmann [Magnússon] eitt sinn minka. Þá er Dýjaflöt og þar fyrir austan Brúarflatir, þrjár flatir, aðgreindar með skurðum, og liggja þær að veginum. Allar þessar flatir hafa verið skírðar í seinni tíð, enda ekki svo langt síðan þær hafa verið ræktaðar.“ Norðan í túninu var svo Dysjakot sem öðru nafni hét Gamlakot og kallaðist þar Dysjakotsvöllur eða Gamlakotsvöllur. Dysjatún var að mestu umgirt garði.
Þetta er syðsta jörðin í Garðahverfi og voru Bakki og Pálshús að vestan og norðan. Austar var jörðin Bali og nefndist vestasti hluti Balamalar Dysjamöl. Að norðaustan var Dysjamýri og við sjóinn suðvestan megin neðan bæjanna hétu Dysjafjörur.
Skv. Túnakortinu heita Dysjar öðru nafni Desjar. Við Fornleifaskráningu 1984 taldi heimildakona skrásetjara nafnið komið frá Völvudys en hún er hins vegar í Miðengislandi. Á Túnakorti er athugasemd um þetta í tengslum við landbrot við Dysjar af völdum sjávar: „Hér munu og hafa brotnað upp síðan í fornöld engjar miklar. – Og líklegra að býlin séu kend við des: (hey) en við dys (dauðra) þar á röku láglendinu.“

Garðahverfi

Dysjar 2013.

Skv. Jarðabókinni 1703: Dysiar. Lögbýli kallað því það hefur fullkmið fyrirsvar sem aðrar sveitarjarðir, en stendur þó í óskiftu Garðarstaðarlandi og samtýniss við Garða, nema hvað túnið alleina er afdeilt.
Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum. Eigandinn er Garðastaður.
Ábúandinn á hálfri er ekkjan Valgerður Nichulásdóttir; en hálfa jörðina lætur staðarhaldarinn, prófasturinn Sr. Ólafur brúka fyrir þá orðsök að ei hefur bygða fengið þetta næsta ár.
Landskuld af allri jörðunni er ll álnir. Betalast með iiii vættum fiska í kaupstað og vallarslætti á kýrfóðurs velli, sem að sje fjörutíu málfaðmar í hvört horn ferskeytt, og fæðir bóndinn verkmennina sjálfur og hefur fyrir það fæði hálfa kúgildiss leigu kvitta. Áður var hjer iii vætta landskuld og þessi vallarsláttur, sem reiknast tuttugu álnir, þá fylgdi og mannslán um vertíð til staðarhaldarans, so sem kvöð, en nú er sú kvöð af og í þann stað aftur komin hin fjórða vætt fiska í landskuldina. Við til húsabótar leggja ábúendur.
Leigukúgildi er i með allri jörðinni, og hefur Valgerður það nú til byggingar. Leigur hálfar betalast í fiski eður smjöri heim til staðarhaldarans, en hálfar falla niður fyrir fæði vallarsláttarmanna sem áður segir. Kúgildið uppýngir staðarhaldarinn. Kvaðir eru dagslættir tveir ef tveir búa á en einn ella. Item hrísshestar tveir ef tveir á búa, annars einn, og hestlán tvö ef tveir á búa en einn ella, og brúkast til að færa heim eldivið, til ferða innsveitiss eður þvílíks annars um einn dag eður tvo og ekki fremur. Kvikfjenaður ii kýr. Fóðrast kann iii kýr á allri jörðunni.
Heimilissmenn hjá Valgerði vi. Heimræði er hjer árið um kring og lending góð, varir stórar nóg so inntökuskip mætti gánga, og heyrir þá sú undirgift leiguliða til.
Túnunum spillir sjáfarágángur.

Vestur-Dysjar (býli)

Garðahverfi

Dysjar og Vestur-Dysjar (h.m.).

Á Túnakorti 1918 má sjá tvær stórar torfbyggingar í bæjarstæðinu, væntanlega bæina tvo en sá vestari skiptist í tvö aflöng hólf og hið vestara aftur í tvö ferningslaga hólf. Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skv. Fasteignabók eru Vestur-Dysjar enn úr torfi árið 1932 en þær eru ekki nefndar árin 1942-4 og hafa væntanlega verið komnar úr byggð þá. Í Örnefnaskrá 1964 er talað um Dysjar Vesturbæ og Dysjar Austurbæ. Stóðu bæirnir „lítið eitt aðgreindir fram um 1900“. Í Örnefnalýsingu frá 1976-7 segir: „Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. Dysjavör er vestan við Balamöl. Gömlu bæirnir á Dysjum stóðu frammi á sjávarbakkanum, beint niður af íbúðarhúsinu, sem nú er. Nú hefur sjór brotið alveg upp að gamla bæjarstæðinu. Fast fyrir norðan núverandi íbúðarhús er fjós og hlaða, byggt um 1944-45. Bílskúr tengir það íbúðarhúsinu. Fjárhús er fast norðaustan fjóssins. […] Íbúðarhúsið á Vestur-Dysjum stendur, eins og nafnið bendir til, rétt vestan við Austur-Dysjar og gripahús og hlaða frá Vestur-Dysjum rétt sunnan hússins. U.þ.b. 15 m sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir […]“. Þeir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar Fornleifaskráning fór fram 1984, annar þeirra, líklega sá vestari, var alveg farinn en „hleðslugrjót sést í bakkanum“.
Skv. Túnakortinu 1918 er eystri bærinn, Austur-Dysjar eða Dysjar-Austurbær, ögn stærri er sá vestari. Hann skiptist í fjögur hólf og hefur stefnuna suðvestur-norðaustur. Byggingarefnið virðist vera torf en skv. Fasteignabókum var þar komið timburhús árið 1932 og járnvarið 1942-4.
Bæirnir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar Fornleifaskráning fór fram 1984 en annar þeirra, líklega Austurbærinn var beint norðvestan fjóss og hlöðu sem fundust, milli þeirra „og útihúss sem þarna er nú“.

Dysjabrunnur (vatnsból)
Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Dysjabrunnur „austan bæjanna […] í mýrlendri flöt“. Brunnurinn sést ekki á Túnakortinu 1918 en þar er hins vegar „pollur“ á þessum slóðum í Dysjatúni og nokkru austar byrjar „mýri“.

Dysjakot/Gamlakot (býli)

Garðahverfi

Garðahverfi – fornleifar.

Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Syðsta jörðin og næst sjó er Dysjar. Þar ofan túns var býli, sem nefnt er nú Gamlakot. Nú er þar kálgarður, og þar sem vegurinn liggur heim, er stykki í túni, sem heitir Gamlakotsvöllur.“
Skv. Örnefnaskrá 1964 var þetta „þurrabúð í Dysjatúni upp með veginum“ ýmist nefnt Dysjakot eða Gamlakot og hefur annaðhvort verið „kennt við Gamla er þar bjó, eða verið upprunalegasta kotið við Dysjar“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir nánar frá: „Skammt norðan Dysja, en lengra frá sjónum, eru Pálshús. Á milli Dysja og Pálshúsa var gamalt býli, nefnt Dysjakot. Síðasti ábúandinn þar hét Gamalíel Jónsson, kallaður Gamli. Var kotið í hans tíð nefnt Gamlakot. Dysjakotsvöllur nefndist þríhyrnd spilda, sem fylgdi kotinu. Í tíð Gamla var einnig farið að kalla hana Gamlakotsvöll.

Dysjar

Dysjar – Dysjakot (Gamlakot).

Gamlakot og Gamlakotsvöllur er nú komið í tún.“ Ekki er kotið merkt inn á Túnakortið árið 1918 enda hefur það verið komið í eyði fyrir þann tíma. Þar virðist þó mega sjá garðinn miðja vegu milli Dysja og Pálshúsa. Þegar svæðið var kannað við Fornleifaskráningu 1984 fannst heldur ekkert nema þessi garður.
Dysjakot eða Gamlakot er hvorki nefnt í Jarðabókum né Manntölum en auk þeirra sem bjuggu á Vestur-Dysjum og Austur-Dysjum voru stundum þrjár eða fjórar fjölskyldur í sér húsnæði. Virðist líklegt að fólk Ragnheiðar Jónsdóttur
handverkskonu, Jóns Narfasonar tómthúsmanns eða þá Hans Arnórssonar húsmanns sem öll eru nefnd í Manntali árið 1801 hafi átt þarna heimili. Síðasti ábúandi hjáleigunnar, Gamalíel, sonur Jóns Þorgrímssonar á Austur-Dysjum, hefur eftir Manntali að dæma flutt í kotið fljótlega upp úr 1816 en það jafnvel farið í eyði áður en næsta Manntal var tekið 1845. Nafnsins vegna gæti Helga Gamalíelsdóttir, fyrst vinnukona í Miðengi, síðan húsfreyja í Hausastaðakoti verið skyld Gamla í Gamlakoti. Aldur hennar útilokar þó að hún hafi verið dóttir hans.

Heimild:
-Garðahverfi – fornleifaskráning 2002, Þjóðminjasafnið 2004.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni (ÓSÁ).