Færslur

Páskabóla

Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð við Hlíðarvatn. Elstu tóftirnar, landnámsbærinn, voru þar sem nú er nes út í vatnið skammt austan við veiðihús SVFH. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær á kaf, líkt og gamli Stakkavíkurbærinn. Vestar eru tóftir útihúsa og ofan vegar eru tóftir og garðar enn eldri minja. Í Hlíð var síðast búið 1906 eða fyrir tæpri öld. Gerður verður uppdráttur af minjasvæðinu.
Gengið var um Hlíðarskarð. Þoka var í skarðinu og ofan við það, en lygnt og hlýtt veður.

Páskabóla

Páskabóla.

FERLIRsfélagi, sem var fyrir nokkruvið athuganir á gömlum leiðum og götum ofan við Stakkavíkursel, rakst þar á op í hraunhól. Undir niðri var gat, dýpi undir og hugsanlegar rásir. Síga þurfti niður um opið. Annar FERLIRsfélagi hafði nú bæði hannað bandstiga til að sigra dýpið og einnig þjálfað sig að bera hann þá vegalengd sem til þurfti.
Þrátt fyrir mikla og snögga hækkun fyrsta hluta leiðarinnar blésu þátttakendur varla úr nös þegar upp var komið. Kynjabergmyndanir tóku við efst í skarðinu og ekki varð þokan til að draga úr kyngimögnuninni. Engin varða er á spotta á götunni eftir að Hlíðarskarðsvörðunni sleppir. Stefnan var því tekin á vörðu, sem vitað var af ofan mela, og var vörðunum ofan hennar síðan fylgt upp undir Vesturása. GPS-punktur var hafður til viðmiðunar, en hann reyndist því miður rangur þegar á þurfti að halda. Nú voru dádýr góð. Brugðið var á eitt af hinum þjálfuðu FERLIRsráðum; gengið upp fyrir mögulegt leitarsvæði og svæðið síðan línuleitað til suðurs, vestan götunnar. Fannst þá gatið skömmu síðar. Hraunhóllinn var nær fullur af snjó, en eftir að innihaldið hafði verið kannað kom í ljós heil, falleg og stór hraunbóla, 12 x 22 metrar og um 7 m á hæð. Rás var austur úr henni, en fremur stutt. Kaðalstiginn kom sér vel, bæði við að komast niður og ekki síður til að komast upp aftur. Ekki er að sjá að neitt dyldist þarna umfram það sem áður var. Ákveðið var að gefa hellinum vinnuheitið “Páskabóla” í tilefni stundarinnar.
Nýr GPS-punktur var tekinn. Bólan er tilvalinn áningarstaður fyrir ferðalanga um Hlíðarskarðsveg í misjöfnum veðrum – ef þeir bara hefðu stiga meðferðis.
Á leiðinni til baka var farið um Hlíðarskarð. Niðurgangur gekk vel, en þessi ferð verður ekki afturgenginn.
Erfið og hröð 13 km ganga (3 klst og 2 mín). Gott veður, þrátt fyrir dimma (en umfeðmingasama) þoku á köflum.

Páskabóla

Opið.