Gengið var upp í Stafnesheiðina með Jóni Ben Guðjónssyni frá Austur-Stafnesi. Hann þekkir svæðið líkt og lófann á sér.
Við fyrstu sýn virðist fátt áhugavert við ofanvert Stafneslandið, en þegar betur er að gáð er því öðruvísi farið. “Landið er skjóllaust yfir að líta og í rauninni hvergi hægt að skíta”, segir í einni hendingu ferðalangs er fór þar um fyrir skömmu. Öðrum finnst auðnin bæði dulúðleg og heillandi. A.m.k. er beitilyngi hvergi fallegra en þarna í miðri auðninni.
Skammt ofan við Stafnes, utan garða, er reisuleg innsiglingavarða fyrir hafnarlagið. Ofar í heiðinni blasir Pétursvarðan við. Að sögn Jóns var hún innsiglingarvarða inn á legurnar við Básenda, þá innri og ytri. Vörður voru á ströndinni fyrir hvora innsiglinguna, en þær báru báðar í Pétursvörðu. Hún mun hafa staðið þarna um langan tíma og ávallt haldist nánast óröskuð. Jón sagði að heiðin hefði mikið breyst frá því að hann var barn og unglingur. Þá hefði hún öll verið gróin, en nú væri heiðin norðanverð nánast örfoka.
Margt fé gekk um svæðið fyrrum, stundum of margt. Þá hafi leið legið upp frá Básendum svo til beina yfir til Keflavíkur með stefnu á Pétursvörðu. Gengið var fram á vörðubrot við leiðina á holtstanga skammt suðvestan við Pétursvörðu. Frá henni sást í vörðubrot á holtsbrún neðar í heiðinni. Þarna virðist hafa verið greið leið þarna á millum því er komið var spölkorn ofar í heiðina lá landið svo til flatt fyrir fótum og enn vel gróið. Jón sagði að Háaleiti hefði verið nálægt þar sem nú er flugturninn á Keflavíkurflugvelli. Leitið hefði verið um 50 m hátt og því vel greinilegt sem viðmið. Sjávargrandi hefði verið við Háaleiti er gaf til kynna að áður hafi landið verið mun lægra, en risið eftir að jökla leysti.
Leiðin hafi legið þar við, en nú sæist hvergi móta fyrir götunni, bæði vegna jarðvegs-eyðingarinnar að vestanverðu og flugbrauta-framkvæmdanna að austanverðu.
Þá var komið að Skjólgarði (eða Skjólgörðum eins og Jón nefndi hann). Um er að ræða bogadregna einfalda garðhleðslu, um 18 m. langa. Út frá henni til vesturs liggur um 7 m langur þverveggur. Hæst er hleðslan nú um 0.9 m. Jón sagði að garðurinn hafi verið um hærri þegar hann var strákur. Fyrir ofan garðinn er vel gróið sem fyrr sagði. Staðsetningin er ofan við brúnina áður en hallar niður að Básendum (Stafnesi).
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrrir Stafnes er m.a. getið um Skjólgarð og Pétursvörðu. “Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. Þar norður af er há klöpp, sem heitir Kiðaberg. Við Skjólgarðinn fyrrnefnda er komið upp fyrir hraunbeltið. Er þá fátt um nöfn. Heitir það Neðri-Mosar og Efri-Mosar, aðskilið af grjótbelti. Kiðaberg er há klöpp, sem fyrr var nefnd. Skammt suður og upp af Gálgum er fyrst hóll. Í honum er gren, sem heitir Kollóttagren. Hraunið upp af Gálgunum er nefnt Gálgahraun. Allmikið sunnar er Þórshöfn, sem fyrr getur, og er þar mjór og langur bás inn í hraunið. Þangað fóru kaupskip hér fyrr.
Ekkert er vitað um tilefni örnefnisins Pétursvarða né fólk það, sem hún er kennd við.”
Í suðvestri blasti Mjóavarða við, austan við Gálga (Gálgakletta (sjá meira HÉR)). Hún var innsiglingarvarða fyrir Þórshöfn. Í útliti eru Pétursvarða og Mjóavarða nánast eins og tvíburar.
Svo virðist sem Skjólgarður hafi verið ígildi fjárborgar, líkt og Stóri-Skjólgarður ofan við Innri-Njarðvík og krossskjólgarðurinn við Borgarkot. Aukin heldur, vegna þess að hann hefur verið í alfaraleið millum kaupstaðarins á Básendum og Keflavíkurbæjarins fyrrum, hefur garðurinn verið kærkomið skjól fyrir fólk á þeirr leið því óvíða er berangurinn meiri og skjólleysið augljósara en einmitt þarna. Augljóst var af ummerkjum að dæma, að þarna hefðu og aðrir haft eitthvert skjól, þ.e. Verndararnir í Heiðinni.
Frábært veður. Gangan tók 40 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stafnes – Ari Gíslason skráði.
-Jón Ben Guðjónsson, Austur-Stafnesi.