FERLIR hafði fyrir skömmu hnitsett Hrafnabjargagötuna milli Hlíðargjár og fornbæjarins Hrafnabjarga.
Nú var ætlunin að rekja Prestastíginn, gleymda þjóðleið frá Barmaskarði um Hrafnarbjargaháls að Ármannsfelli. Þá var og tilgangurinn að rekja efri (nyrðri) hluta Hlíðarstígs milli Hrafnarbjargagötu og Prestastígs. Á milli þeirra gatna liggur síðan Hrafnabjargavegur áleiðis að Hrauntúni. Prestastígur lá um Litla-Hrauntún og átti því að skoða rústir þess eyðikots í leiðinni.
Lagt var af stað undir Stórkonugili í Ármannsfelli, skammt sunnan Hofmannaflatar. Á sléttum hraunhrygg mátti greina vörðubrot. Þegar að því var komið mátti sjá að þarna hafi fyrrum staðið myndarleg varða. Gata lá með henni með stefnu til suðausturs inn á Prestahraun. Norðvestan vörðunnar hallaði niður og mátti þar greina djúpa gróna götu. Við hlið hennar er fjárgata. Ljóst var að Prestastígurinn hinn forni væri nú vel gróin gata og við hlið hennar á hvora vegu mætti greina kindastíga, sem ekki mætti láta rugla leitina.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifaði um Prestastíginn í Árbókina árið 1905: “Forn vegur liggur yfir ofanvert Þingvallahraun. Hann liggur frá Reyðarmúla (nú Reyðarbarmi til norð-vesturs yfir Hrafnabjargaháls, ofan af honum skamt vestur frá Hrafnabjörgum, norður hjá bæjarrústinni, sem þar er og svo þvert yfir hraunið til Ármannsfells og kemur á þjóðveginn litlu fyrir neðan Hofmannaflöt. Þessi vegur heitir Prestastígur. Er sagt að prestar af Vesturlandi hafl oft farið hann í Skálholtsferðum sínum. Og svo er að sjá, sem Sturla Sighvatsson hafi farið hann, er hann fór Apavatnsför. Það er miklu beinna en að fara um Þingvelli. En mjög er þessi leið ógreið víðasthvar, svo mjó að eigi getur farið nema 1 hestur í senn og að því skapi er hún grýtt. En hvar sem hún liggur um greiðfæra bletti, verður hún að mörgum og djúpum götum. Þar af sést, að allmikil umferð hefir verið þar fyrrum. Nú er Prestastígur ekki notaður.”
Prestastígur er ekki merktur inn á kort og því var kærkomið að reyna að rekja hann í gegnum Prestahraunið, gegnum Litla-Hrauntún, yfir Hlíðargjá, um Kræklur, framhjá býlinu Hrafnabjörgum og áleiðis upp hálsinn suðvestan Hrafnabjarga(fjalls).
Í Lögréttu árið 1919 segir m.a. um Litla-Hrauntún: “Litla-Hrauntún stóð langt norðri á Þingvallahrauni hjer um bil miðja vegu milli Ármannsfells og Hlíðargjár. Liggur sú gjá norður af Hrafnagjá.” Þá segir um Hrafnabjörg: “Sá bær stóð fyrir ofan Hlíðargjá upp undan svokölluðum Prestastíg. Er sögn manna, að þar hafi verið hálfkirkja til forna. Þar sjest enn fyrir mannvirkjum.”
Rétt er að geta þess varðandi “hálfkirkjuna” að hennar er getið á uppdrætti Brynjúlfs af tóftunum af Hrafnabjörgum. Á þeim tíma, um og í kringum aldarmótin 1900, var jafnan reynt að staðsetja goðhús, hálfkirkjur eða bænhús við að það talið var fornar bæjarrústir. Það átti að vera til marks um aldur þeirra. Við seinni tíma rannsóknir á þessum “goðhúsum” hafa nánast engin þeirra reynst hafa verið slík.
Þegar gengið var um Prestahraun áleiðis upp í Kræklur mátti vel sjá hversu rýrt þetta forna hraun var af gróðri. Tré var helst að sjá undir hólum og í lægðum.
Í framangreindum skrifum í Lögréttu er fjallað meira um “Þingvelli við Öxará”: “Þingvallasveit er með einkennilegustu og fegurstu sveitum hjer á landi. Í fornöld mun hún líka hafa verið með bestu búsældarsveitunum, sem marka má af þjettbýlinu, sem þar hefur verið.
Nú er hún ekki nema skuggi einn hjá því sem áður var, hvað búsældina snertir, — á þeim tíma er hún öll var gróðri vafin og skógi skrýdd. Í sveitinni er nú skógurinn takmarkaður á litlu svæði, á hrauninu norður af Þingvallavatni milli Almannagjár og Hrafnagjár. Og allstaðar bera þessar skógarleifar vott um, að þeim er ofþjakað af fjárbeit.
Hraunylurinn, jarðvegurinn og veðursældin hafa haldið skóginum við — þar sem hann er, annars væri hann fyrir löngu upprættur, og bæirnir komnir í eyði, sem mest nota hann. En allar líkur eru til að samt reki að því, fyr eða síðar, að hann hverfi með öllu, ef ekki verður tekið bráðlega í taumana.
Engar brigður er hægt að bera á það, að Þingvallasveit hefur öll verið skógivaxin í fornöld, og það jafnvel alla leið norður undir Skjaldbreið. Það sannar bæði landslagið, jarðvegurinn og loftslagið. Sveitin liggur langt frá sjó, en þó ekki hærra en 100—200 metra yfir sævarflöt. Saltir sævarvindar hafa ekki náð að blása inn á þetta svæði, er skapað hafi skóginum aldur.
Ekki stafar skógeyðingin heldur af eldgosum eða skriðum. Hún á eingöngu rót sína að rekja til óskynsamlegrar aðferðar mannanna sjálfra, sem búið hafa við skóginn. Þeir hafa rifið hann upp með rótum, höggið hann takmarkalaust og ofboðið honum með fjárbeit. Mörgum hefur verið illa við skóginn, þótt hann tefja fyrig smalamensku og rýra ullina á sauðfjenu á vorin, og óskað honum því norður og niður. Þess eru dæmi enn í dag, að bændur á skógjörðunum hafa haft það á orði, og þeir væru búnir að kveikja í skóginum og brenna hann til kaldra kola, ef þeir vissu það ekki fyrirfram, að landið mundi blása upp á eftir og breytast í gróðurlausa auðn.
Hræðslan við þetta hefur hlíft skóginum á einstaka stað á landinu. En menn hafa þó ekki alstaðar verið svo skynsamir að sjá þetta — fyr en eftir á, — þess vegna hefur verið herjað á skóginn með fjárbeit, eldi og járni, — gengdarlaust og fyrirhyggjulaust, hann upprættur á stórum svæðum og landinu breytt í eyðimörk.
Í Þingvallasveit hlaut skógurinn fyrst að hverfa af bersvæði, hálsum, hæðum og halllendi, þar sem ekkert skjól var í neinni átt, og minst var mótstöðuafli gegn eyðingunni. Jafnskjótt og skógurinn hvarf breyttust skilyrðin fyrir hann að vaxa upp aftur, enda hafði hann ekkert næði til þess vegna sauðfjárbeitar. Og þegar skógurinn var horfinn alstaðar í sveitinni, nema á litlum bletti í Þingvallahrauni, fengu allir bændur í sveitinni samt undantekningarlaust aðgang að skóginum til fjárbeitar, kolagerðar, eldiviðar og raftviðar.
Vegna þess hve mikið orð fór af skógargæðunum í Þingvallahrauni, náðu bændur úr öðrum hjeruðum ítaki í honum, gerðu þar til kola, og sóttu þangað óspart eldsneyti. Í eina tíð átti Skálholtskirkja ítak í Þingvallaskógi. Þá var og sóttur viður í Þingvallaskóg neðan úr Grafningi, hjeðan af Suðurnesjum og vestan úr Kjós. Engan þarf því að furða þótt skógarleifarnar i Þingvallahrauni sjeu nú rýrar, eftir alt sem á undan er gengið.
Jarðabók Árna Magnússonar telur 30 jarðir i Þingvallasveit árið 1711; af þeim voru 14 í eyði. Ennfremur hafði Á. M. það eftir munnmælum, að 50 bæir hefðu verið i sveitinni fyrir pláguna miklu (Svartadauða) 1402, og að Hrafnabjargir hafi staðið í miðri sveit. Sá bær stóð langt norð-austur í hrauninu niður undan Hrafnarbjargaklettum. Umhverfis þann stað er nú gróðurlaust og berblásið hraun að kalla má. Bygðabýli í Þingvallasveit eru nú 16 að tölu og eyðibýlin 15, sem menn vita fyrir víst að voru í ábúð fyr á tímum. Flestöll eru þau nefnd í jarðabók Á. M. Og eru þau þessi:
1. Bárukot fyrir ofan Almannagjá, en norðan Öxarár. Var af sumum mönnum bær þessi kallaður Þverspyrna eða Fótakefli. Kotið var fyrst bygt árið 1684, og var í ábúð aðeins 8 ár og lagðist svo í eyði.
2. Grímastaðir eða Grímakot var skamt fyrir norðan Bárukot. Árið 1711 sást þar votta fyrir garðhleðslu og mun að líkindum sjást fyrir henni enn. Bær þessi mun áður hafa heitið
Grímsstaðir og kendur við Grím hinn litla, sem getið er um í Harðarsögu og Hólmverja, og bygði hann þar fyrstur og hafði stórt bú.
3. Múlakot, af sumum nefnt Mosastaðir, var sunnan undir Sleðási norður við Ármannsfell. Um 1680 var sá bær bygður upp úr fjárhúsum frá Svartagil. Ekki hafði það verið í ábúð nema eitt eða tvö ár.
4. Litla-Hrauntún stóð langt norðri á Þingvallahrauni hjer um bil miðja vegu milli Ármannsfells og Hlíðargjár. Liggur sú gjá norður af Hrafnagjá.
5. Hrafnabjörg. Sá bær stóð fyrir ofan Hlíðargjá upp undan svokölluðum Prestastíg. Er sögn manna, að þar hafi verið hálfkirkja til forna. Þar sjest enn fyrir mannvirkjum.
6. Bövarshóll er örnefni í skóginum skamt frá Vellankötlu. Býli þetta var komið í eyði löngu fyrir 1700. — Sagt er að býlið hafi tekið nafn af Böðvari nokkrum, sem kvað hafa bygt það fyrstur. Um 1680 er sagt, að maður nokkur að nafni Sæfinnur nafi búið þar rúmlega hálft ár eða svo, og hafi þar dáið.
7. Ölkofra var bær norðaustur í hrauninu frá Þingvöllum. Fyrir austan Skógarkot er enn þá örnefni, sem heitir Ölkofrastaðir og Ölhóll. Mun sá bær hafa dregið nafn af Þórhali. Ölkofra, sem Ölkofra-þáttur er af. Gerði Ölkofra öl á alþingi til fjár sjer. Hann kveikti í Goðaskógi í Þingvallahrauni. Þá var bær hans kallaður Þórhallastaðir í Bláskógum. Bær þessi var í ábúð um 1700, en þar áður ýmist bygður eða í eyði.
8. Þórhallastaðir. Sá bær lagðist í eyði í Svartadauða, en löngu seinna er sagt, að bærinn hafi verið bygður upp aftur þar sem Skógarkot er nú, og að þar hafi þeir staðið áður. Hjer virðist eitthvað blandað málum með eyðibýlin. Að líkindum hafa Þórhallastaðir og Ölkofra verið sami bærinn, og ýmist verið kenndur við Þórhall eða Ölkofra, og færður þangað, sem Skógarkot er nú. Þó ei ekki loku fyrir það skotið, að hjer geti verið um tvo bæi að ræða.
9. Eiríksstaðir eru sagðir að hafa staðið fyrir norðan Mjóafell, milli þess og Skjaldbreiðar. Bæiar þessa er getið í Bárðarsögu Snæfellsáss og Ármannssögu. Eiríkur frá Eiríksstöðum var einn þeirra manna sem glímdu á Hofmannafleti.
10. Fíflavellir áttu að hafa verið í landsuður frá Skjaldbreið. Getið er um þenna bæ í Ármannssögu.
11. Rótólfsstaðir voru norðan undir Miðfellsfjalli.
12. Kárastaðakot var bygt úr Kárastaðalandi um 1685. Þar var búið í 6 ár, svo lagðist það i eyði.
13. Neðridalur var bær í dalnum norður af Stíflisdal. Hann lagðist í eyði í Svartadauða. Um 1700 sást þar votta fyrir girðingum og tóttum.
14. Hólkot var í landsuður frá Stíflisdal. Þar var bygð fyrir Svartadauða. Sagt er, að þar hafi sjest fyrir tóftum og garðhleðslu.
15. Móakot var bygt á 19. öld, milli Skálabrekku og Heiðabæjar. Það var í ábúð aðeins sárfá ár.
Hvort nokkuð er hæft í því, að 50 bæir hafi verið í Þingvallasveit á 13. og 14. öld og þar áður, og að Hrafnabjargir, sem áður eru nefndar, nafi staðið í miðri sveit, er ekki hægt að fullyrða; hefur það ekki verið rannsakað. En ekki er ósennilegt að svo hafi verið, því að skógarsveitir voru yfirleitt mjög þjettbýlar til forna. Til þess að ganga úr skugga með það, þarf að rannsaka alt það svæði, sem líkindi eru til að bygðin hafi náð yfir í Bláskógum. Sagt er, að enn sjáist leifar af tóftum norður undir Skjaldbreið. En hvort það eru fornar bæjarrústir, vita menn ekki. Svo gæti víðar fundist, ef vel væri leitað. Hafi bygð verið áður í Þingvallahrauni, á skóglendi, þar sem nú er algerlega berblásin jörð, hafa bæirnir lagst í eyði af öðrum orsökum en þeim, að menn fengjust ekki til að búa á jörðunum, ef það hefði verið nokkur leið. Jarðirnar lögðust í eyði sökum þess, að skógurinn var rifinn og upprættur með öllu, en landið bljes upp og varð óbyggilegt.
Að líkindum hefur alt svæðið fyrir norðan og austan Þingvallavatn heitið Bláskógar til forna. Hefur það verið mjög víðáttumikið land, og alt skógi vaxið. Í útjöðrum skógarins, þar sem bygðin náði lengst til fjalla, var jarðvegurinn, að líkindum, mjög þunnur ofan á hrauninu, þar var hættan mest fyrir uppblæstri. Enda byrjaði uppblásturinn þar. Vindurinn skóf jarðveginn alveg ofan á hraun, þar sem skógurinn var upprættur, og jafnt í kringum býlin sem annarstaðar. Skógarkjörrin sem stóðu eftir hjer og hvar í afdrepi hjeldust ekki við til lengdar. Þegar alt var berblásið í kring um þau, vindur og vatn svarf að utan, þangað til allur gróður var upprættur. Túnkragarnir kringum kotin stóðu lengst, því að þar var ofurlítil rækt í jarðveginum, og gróðurmoldin þjettari fyrir, en urðu þó að lokum vindi og vatni að bráð, svo ekki sást örmull eftir af þeim heldur.
Skógeyðingin og uppblástur landsins færðist smámsaman suður eftir Þingvallahrauni og tók með sjer hvert býlið á fætur öðru og jafnaði þau að jörðu. Það er því ekki að undra, þótt litlar eða engar menjar sjáist eftir horfnu býlin í Þingvallasveit. Nú eru að eins eftir 4 býli í Þingvallahrauni; verður ekki annað sjeð, en að þau eigi fyrir höndum sömu útreið og horfnu býlin.
Skóginum er spilt enn í dag á þessu svæði, og landið blæs árlega upp. Þegar hraunið er orðið bert og nakið, verður það smámsaman mosavaxið. Með tímanum fúnar mosinn og myndar nýjan jarðveg, — nýja gróðurmold. — Jurtafræ berst á ný yfir á jarðveginn og festir þar rætur, og hraunið klæðist aftur grösum og skógi.
Náttúran ræktar sig sjálf á þennan hátt, ef hún má vera sjálfráð; en til þess þarf hún að njóta algerðar friðunar um langan aldur. Skógurinn hefur hingað til verið lifæð býlanna á Þingvallahrauni. Jafnskjótt og hann hvarf, hurfu býlin líka. Og þessir 4 bæir: Þingvellir, Skógarkot, Hrauntún og Vatnskot, sem segja má að sjeu leifar af heilli sveit í Þingvallahrauni, standa og falla með skóginum. Þeir hverfa úr sögunni fyr eða síðar, af sjálfsdáðum, þegar skógurinn er horfinn. Ef ekki tekst að halda í skóginn, verður fornhelgi þingstaðurinn — hjarta landsins, sem kallað er — svo útleikinn í framtíðinni, að þar sjást engar minjar fornra mannvirkja, og umhverfi hans eintóm gróðurlaus eyðimörk. Það var níðingshönd, sem breytti skóglendinu í gróðurlausa auðn og öræfi. Og það þarf volduga verndarhönd til að hjálpa náttúrunni að græða og bæta aftur það, sem spilt hefur verið. Verður það ekki gert með öðru mót, en að afgirða svo vítt svæði, sem skógur vex á í Þingvallahrauni, eða svæðið frá Ármannsfelli, milli Almannagjár og Hrafnagjár, suður að Þingvallavatni.
Gera síðan Þingvelli að friðlýstum þjóðskemtigarði til gagns og gleði fyrir þjóðina, og hafa þar griðastað öllum íslenskum jurtategundum, sem þar geta þrifist og aukið kyn sitt, óáreitt um aldur og æfi. Þetta getur ekki komist í framkvæmd, nema því að eins að búpeningsrækt sje útrýmt á þessu svæði. Og þá verður að taka ábúð af 4 býlum, sem eru á Þingvallahrauni, og áður eru nefnd. En búskapnum hefur alt af farið hnignandi öld eftir öld á jörðum þessum. Því til sönnunar má geta þess, að árið 1397 voru 14 kýr á Þingvöllum, en 1711 voru þær ekki orðnar fleiri en 7. Nú mun ekki hægt að hafa þær fleiri en 3. Hrauntún var 1711 selstöð frá Þingvöllum. Þar var ekki sjálfstæð ábúð fyr en á 19. öld. Má þar nú hafa 1—2 nautgripi. Á Skógarkoti voru árið 1711 9 nautgripir. Nú munu þar vera 2—3.
Á Vatnskoti voru þá 4 kýr og 3 geldneyti. Túnkraginn gefur nú ekki af sjer hálft kýrfóður, hvað þá meira. Enda hefur kotið lengi verið í eyði. En fyrir nokkrum árum síðan var það tekið í ábúð. Á þessum 4 jörðum eru engar útheysslægjur, eða hafa verið, aðrar en þær, sem sækja verður langt út fyrir Þingvallahraun. Af þessu má sjá, að búskapnum hefur farið hnignandi að sama skapi og skóginum. Jarðirnar gefa nú ekki af sjer meira ræktað fóður en ein lítilfjörleg jörð annarstaðar á landinu. Á Þingvöllum er fjölbreyttari og einkennilegri náttúra, en í nokkurri annari sveit á Íslandi.
Auk þess er staðurinn svo frægur úr sögu landsins, að þjóðgarður á þessum stað mundi bera órækan vott um ræktarsemi Íslendinga til sögu þjóðar sinnar, engu síður en til náttúru landsins. Mönnum er nokkurn veginn ljóst, hvar merkustu og helstu sögustaðirnir eru á Þingvöllum. Þar verður að setja glögg merki, sem sýna við hvaða menn og atburði þeir eru tengdir, svo að menn, sem koma á þingstaðinn, geti áttað sig á þeim. Eins og áður er drepið á, verður að taka ábúð af jörðunum í Þingvallahrauni, til þess að þjóðgarðsstofnunin geti náð tilgangi sínum.
Fáir eða engir munu neita því, að þjóðgarðsstofnun á Þingvöllum sje rjettmæt. Og staðurinn vel þess virði, að svo verði með hann farið. En það gagnar lítið að viðurkenna þetta í orði, án þess að gera eitthvað til að koma þeirri hugmynd í framkvæmd. G. D.”
Þegar komið var yfir Hlíðargjá og upp í Kræklur blasti Presthóll, sprunginn hraunhóll, við. Við skoðun í og við hólinn komu í ljós leifar af hlöðnu skjóli og tóft, líklega sæluhús. Skjólið er inni í hólnum en tóftin fast suðaustan við hann.
Prestastígnum var fylgt upp fyrir tóftir Hrafnabjarga – og síðan til baka að Ármannsfelli. Stígurinn er enn vel greinilegur ef athyglinni er haldið. Sem fyrr sagði er hann víða gróinn, en kindagata fylgir honum drjúgan hluta leiðarinnar. Leiðin er auðgengin og einstaklega falleg á að líta.
Tækifærið var notað til að hnitsetja stíginn.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905, Brynjúlfur Jónsson, bls. 47.
-Lögrétta, 14. árg. 19. tbl. 07.05.1919, Þingvellir við Öxará, bls. 67.