Færslur

Strompahellar

Stefnan var tekin á Bláfjöll, nánar tilekið Strompasvæðið. Strompahraunið er auðugt af hellum, s.s. Langahelli, Djúpahelli, Tanngarðshelli, Krókudílahelli, Rótahelli, Ranghala, Rósahelli, Bátahelli, Goðahelli og fleirum, sem munu koma við sögu síðar í FERLIRslýsingum af þessu svæði. Nú var ætlunin hins vegar einungis að skoða svæðið kíkja í Langahelli.

Langihellir

Í Langahelli.

Á leiðinni um Bláfjallaveginn var ákveðið að kíkja í Dauðadalahellana undir Markraka. Þar er Flóki einna lengstur og margflóknastur, eins og nafnið ber með sér. Ekki er ráðlegt að fara niður og inn í hann nema með öðrum og þá eftir að hafa gert ákveðnar ráðstafanir áður því auðvelt er fyrir ókunnuga að villast í hellinum. Aðrir smáhellar eru þarna í hrauninu, sem vert að að skoða.

Stromparnir í Strompahrauni eru fallegir smágígar, mosavaxnir. Neðan þeirra er hraunið holuga. Langihellir er um 700 metra langur í heildina. Hann er vestan við Djúpahelli.

Strompahellar

Í Strompahellum.

Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru einnig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Nyrsti hluti Langahellis nefnist Goðahellir. Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.
Vegna þess hve botninn er sléttur og engu hruni fyrir að dreifa í hellnum, sem telst kostur, er auðvelt að fara um hann með krakka.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi eftir Björn Hróarsson

Bláfjallahellar

Bláfjallahellar – uppdráttur ÓSÁ.