Tag Archive for: Ratleikur Hafnarfjarðar 2020

Ratleikur Hafnarfjarðar

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú haldinn í 23. sinn. Umsjónamaður leiksins er Guðni Gíslason hjá Hönnunarhúsinu (Fjarðarfréttum).
Ratleikskortin má m.a. finna í sundlaugum bæjarins, á skrifstofu Ráðhússins og á N1 við Lækjargötu. Góðar göngur….

1. Fornubúðir (verslun)

Fornubúðir

Fornubúðir

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri segir m.a.: „Þá er komið að Óseyrartjörn. Hér tekur Grandinn mikinn sveig út í höfnina. Nefnist þar Kringla, en innsti hluti Grandans heitir Háigrandi og Grandahöfuð. Hér stóð verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð í eina tíð, Fornubúðir.“
Á síðustu öld sást enn móta fyrir grunnum verslunarhúsa á Grandanum, en þær eru nú að mestu horfnar.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

2. Móðhola (draugur) – Hvaleyrarhraun

Móðhola

Móðhola.

Vesturlandamerki Hvaleyrar að norðanverðu lá niður í Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem alfaraleiðin lá upp á Kapelluhraunið (hún var því miður eyðilögð við jarðvegsraskið í hrauninu). Frá Þórðarvík og innar nefnast Gjögur, og liggur leiðin innanvert við þau. Skarfaklettur er innarlega á Gjögrunum og enn innar Háanef. Suður af því liggur leiðin hjá djúpri gjótu, nefnist Móðhola, en Móðhóll klapparhryggurinn, sem holan er í. Þar þótti reimt hér fyrrum, en andríkur prestur í Görðum kom af þessum reimleikum og ku hafa kveðið drauginn Móða niður. Enn er þó allur varinn góður í gjótunni; merki hafa horfið úr henni án skýringa.

3. Miðaftanshóll (landamerki, járnbraut)

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll.

Árið 1918 gekk í garð með almennu atvinnuleysi hér í Hafnarfirði og eins í Reykjavík. Stofnað var til svokallaðrar dýrtíðarvinnu. Það var lagning nýs vegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Í suð-vestur um hraunið átti vegurinn að liggja og Miðaftanshóllinn að hverfa að helmingi undir veginn, þaðan eftir hrauninu niður á melinn norðan Setbergshamars og yfir Kaplalæk, svo um Sjávarhraunið niður á Hörðuvelli og tengjast þar Lækjargötunni. Þetta átti að verða bezti og breiðasti vegur landsins fram að þessu, nefnilega 7 metra breiður, svo breiður, að auðvelt væri að leggja járnbrautarteina á annarri vegarbrúninni, þeirri eystri. Vegagerðinni var aldrei lokið, eins og svo oft á þessum tíma.
Enn í dag má sjá leifar af dýrtíðarvinnunni við Miðaftanshól. Öðrum köflum vegagerðarinnar hefur því miður verið spillt. Varðan á hólnum er fyrrum hornmark milli landa Garðalands, Hafnarfjarðarlands og landa Urriðakots, Hagakots og Vífilsstaða.

4. Hagakotsstígur (selstígur)

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Í Urriðakoti við Urriðakotsvatn hefur verið seljabúskapur til forna. Þar hafa verið grafin upp mannvirki frá landnámstímanum sem hafa verið túlkuð sem kúasel, það er sumardvalastaður eða eins konar útibú frá bæ þar sem kýr voru hafðar yfir sumartímann. Fundist hafa leifar af skála, fjósi og húsi til mjólkurvinnslu og ostagerðar sem og soðholu. Þá eru þar nokkrar kynslóðir af yngri seljum með þrískiptum húsum, baðstofu og búri auk eldhúss, sem ná frá 13. til 15. aldar. Selsstaðan hefur væntanlega verið frá Hofstöðum og liggur selsstígurinn um Hagakot og Hafnarfjarðarhraun að Urriðakoti.

5. Gráhella (fjárhús)

Gráhella

Tóftir við Gráhellu.

Í örnefnalýsingu fyrir Setberg segir m.a.: „Landamerkjalínan liggur hér upp á hraunið, sem nefnist Gráhelluhraun, og er nú tunga þessi öll undir umsjón Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Hraunið er kennt við stóran stein, Gráhellu; við hana vestanverða eru Gráhellutættur eftir stekk eða fjárhús. Úr Gráhellu liggur línan í Setbergssel. Selvogsgatan liggur áfram suður frá Svínholti að Setbergshlíð, ýmist við hlíðina eða út á hrauninu, þar til kemur að Háanefi innst á hlíðinni, og héðan liggur gatan í selið. Þessi staður er reyndar einnig kallaður Kethellir, Kershellir og Kjöthellir.“

6. Setbergshlíð (fjárhús)

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar komið er fyrir Háanef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi. Hlaðnir veggir hússins er mjög vel greinilegir, sem og heystæðið. Á brúninni sunnan Húsatúns er Húsatúnsvarða. Mikil sumarumferð var um Selvogsgötuna fyrrum, en hún liggur í gegnum Setbergsselið. Vegna þessa ákvað Setbergsbóndinn að flytja aðstöðuna frá götunni og upp á holtið.

7. Dyngjuhóll (landamerki)

Dyngjuhóll

Varða á Dyngjuhól.

Landamerki Vífilsstaða og Urriðakots lá um Máríuhella, en Urriðakotsfjárhellir, sem þar er heyrði til Urriðakoti. Þegar haldið var suður með hraunbrúninni var fyrst fyrir Dyngjuhóll eða Hraunhóll (Hádegishóll frá Vífilsstöðum) með Dyngjuhólsvörðum. Á Dyngjuhól eru tvær markavörður. Suðvestan undan hólnum var Dyngjuhólsflöt. Sunnan við tók við Bruninn. Þar út í er Smyrilsklettur og Grásteinn, en framhjá honum lá Grásteinsstígur (nú ágætur göngustígur).

8. Flóðahjalli (stríðsminjar)

Flóðahjalli

Grjótbyrgi á Flóðahjalla.

Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Hjallinn er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum. Tóft er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin er nærri 800 m². Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Á klöppinni syðst á Flódahjallieru nokkrar stafristur. Þar er höggvið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J.E.Bolan. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940. Tóftin („the stone defence work mentioned“) mun hafa verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons, sem var hluti af herdeild Camp Russel í Urriðaholti.

9. Urriðakotshraun (fjárhús)

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – fjárhús – Kjarval.

Um er að ræða „Fjárhústóftina syðri“, skv. heimildum. Það var upphaflega reist sem Sauðahús. Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða. Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum.
Þessa húsatóft sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi. Í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega „Fjárrétt“.

10. Vífilsstaðaborg (fjárborg, Heiðmörk)

Vífilsstaðaborg

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Misvísandi upplýsingar voru lengi vel um staðsetningu svonefndrar „Vífilsstaðaborgar“ og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En hún fannst fyrir nokkrum árum – á ólíklegasta stað. Um er að ræða hlaðnar tvískiptar fjárhústóttir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóftin, sú stærri, liggur frá suðri til norðurs. Dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn.
Stór, hringlaga tóft, er augljóslega fjárborgin. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni og er hún að verða fórnarlamb vanrækslu. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá. Nýlega var gerður vélgerður stígur svo til alveg við mannvirkin, en eins og flestum ætti að vera kunnugt njóta fornminjar ákveðinnar friðhelgi í tiltekinni fjarlægð frá nútímaframkvæmdum.

11. Kringlóttagjá (hrauntjörn)

Kringlóttagjá

Í Kringlóttugjá.

Búrfellshraun rann í fjórum hrinum fyrir u.þ.b. 8000 árum. Síðasta hrinan rann til suðurs að Valahnúkum og Kaldárhnúkum. Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg.
Í lok gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni. Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá. Kringlóttagjá er hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.

12. Húsfellsbruni n/Húsfells (refagildra)

Húsfell - refagildra

Refagildra ofan við Húsfell.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind. Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Fyrrum, eftir gerð Heiðmerkurgirðingar, var sett hlið á girðinguna til þess að tryggja ábúanda Vatnsenda aðgengi með fé í land sitt þar fyrir ofan, í svonefndan Húsfellsbruna; ávallt hefði verið litið svo á að Húsfellsbruni væri í eignarlandi Vatnsenda annars vegar og Elliðavatns hins vegar og ekki nýttur af neinum öðrum. Ávallt var gengið út frá því að mörkin lægju frá Húsfelli í hól, kallaður Einiberjahlíð, sem liggur á mörkum Vatnsendalands og Garðakirkju. Úr Einiberjahlíð lágu mörkin legið í Kóngsfell. Norðan undir Húsfelli er fallega hlaðin refagildra að gamalli hefð.

13. Valahnúkar (tröll)
Valahnúkar eru taldnir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér.
Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.

14. Helgafell (Kastali)

Helgafell

Kastali í Helgafelli.

Helgafell er móbergshryggur og eitt af mest áberandi fjöllunum í fjallahringnum ofan Hafnarfjarðar. Það er um 340 m hátt, víða bratt og hömrótt. Mjög vinsælt er að ganga á fjallið og er þá auðveldast að fara frá Kaldárseli upp á hrygginn norðanmegin í fjallinu. Fallegt útsýni er af Helgafelli og má meðal annars sjá hvernig hraun í nágrenninu hafa runnið og landslagið liggur.
Í næsta nágrenni Hafnarfjarðar eru mörg móbergsfjöll og má þar meðal annars nefna Bláfjöll, Vífilsfell, Kóngsfell, Rauðuhnjúka, Valahnjúkar og Húsfell. Móbergshryggir, eins og fellin og hnúkarnir, hafa myndast í gosi á langri sprungu undir jökli á kuldaskeiði ísaldar.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).

Efst á Helgafelli er Riddarinn. Hann átti tvífara í Brunanum (mið af sjó), en hann var fjarlægður vegna rasks á sínum tíma – umhugsunarlaust. Suðaustan í Helgafelli er hár klettaveggur, nefndur Kastalinn.
Rotaryklúbbur Hafnarfjarðar endurnýjaði útsýnisskífuna á fellinu þann 18. júní 2019.

15. Óbrinnishólahellir (fjárskjól)

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Óbrinnishólahraun er með yngstu hraunum í Hafnarfirði. Það er að miklum hluta úfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f.Kr. Í hrauninu stendur Stakur, blásinn malarhóll sem var vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak. Í Óbrinnishólakeri, sem er mosavaxin hrauntjörn, er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en opið inn að öðru leyti. Rásin er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en annars er gólfið nokkuð slétt. Hellirinn er ágætt athvarf, en hann er fornt fjárskjól sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman. Óbrinnishólarnir er nú óðum að hverfa vegna malartöku.

16. Brunatorfur (Þorbjarnastaðaborg)

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins efst í Brunatorfunum (Brund-, Brunn-), svonefnd Þorbjarnastaðarfjárborginni, ein sú stærsta og heillegasta í umdæmi Hafnarfjarðar. Borgin er og mjög falleg. Ef horft væri niður á hana er hún ekki ósvipuð merki tiltekinnar sjónvarpsstöðvar (Skjár 1). Borgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Guðmundar frá Haukadal (Álfsstöðum), Jónssonar frá Fossi)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Líklega hefur staðið til að topphlaða borgina ef marka má miðjugarðinn, lögun hleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana. Ef að líkum lætur hefur börnunum verið bannað að ljúka verkinu, enda ekki verkfræðilega mögulegt að topphlaða svo stóra fjárborg. Þorbjarnastaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesi, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnastöðum var einmitt ættaður úr Selvogi, sem fyrr sagði.

17. Efri-Hellar (fjárhellir)

Efri-hellar

Efri-hellar – fjárskjól.

Við hraunbrún Brunans ofan Gerðis í Hraunum eru tvö fjárskjól; Neðri-hellar og Efri hellar. Í þeim síðarnefndu er hlaðið framan við tvo langa skúta í grónum bala, sem í raun eru samtengdir. Þetta eru gamlir fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Skjól þessi eru dæmigerð fyrir fjárskjól fyrri tíma – þegar sérstaklega hönnuð hús eða skjól, önnur en fjárborgir, fyrir fé þekktust ekki. Ofan við hellana var Bruninn jafnan nefndur Brenna.
Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, Hrauntunguhellrar, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast.

18. Sigurðarskúti (fjárhellir, falleg ásýnd)

Sigurðarskúti

Sigurðarskúti.

Norðan undir Sigurðarhæð, vestan Straums og sunnan Óttarsstaða, var Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili (brann). Ekki langt suður af Glaumbæ er hellisskúti, sem Sigurðarhellir heitir. Hleðsla nokkur er fyrir skútann og á einhver Sigurður að hafa haldið þar til í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við tímabundið í hellisskútum sem þessum hellum. Sunnan við munnan eru leifar gerðis.
Suðvestur af skútanum er mikill klapparrani og hár. Suðaustan í honum er feiknamikið jarðfall. Fyrir endanum á því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þar mun augljóslega hafa verið stöðull og nátthagi fyrir kýr.

19. Vatnagarðahellir (fjárskjól)

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Vatnagarðahellir er skammt utan við merkin móti Lónakoti. Þau lágu um Vatnagarða. Þarna er fjárhellir, sem hlaðið hefur verið fyrir, og gengið hefur undir nafninu Vatnagarðahellir og Vatnagarðafjárskjól, syðst í Vatnagörðunum, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, sem og nokkrar tjarnanna ofan Lónakots. Líklegt má þó telja að Lónakotsbændur hafi löngum nýtt fjárskjólið, enda handhægara fyrir þá en Óttarsstaðabændum, sem hefðu þurft að fara um langan veg í skjólið. Annars voru fjárskjólin í Hraunum nýtt af útigangsfé fyrrum – þrátt fyrir landfræðilega afmörkun einstakra bæja. Vatnagarðahellir er dæmigert fjárskjól á Reykjanesskagnum, með munna mót vestri; í skjóli fyrir vondum vetrarveðrum.

20. Smalaskálahæð (byrgi)

Smalaskálahæð

Smalaskálahæð – byrgi.

Vestan við Rauðamel stóra (nú grjótnáma) er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi refaskyttu. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Á honum er rammi um fyrrum listaverk; „Slunkaríki“.
Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, Óttarsstaða (Kristrúnarborg) frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Smalabyrgið sjálft, sem hæðin er kennd við, er hlaðið utan í hraunklett, skammt sunnan við gamla Keflavíkurveginn (Suðurnesjaveginn).

21. Tobbuklettsrétt (hleðslur)

Tobburétt

Tobburétt vestari – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Selhraun (ofan Þorbjarnastaða og vestan Þorbjarnarstaða-Rauðamels) eru engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur (Straumsselsstígur vestari), sem lá allt til Krýsuvíkur, „jafnframt fjallreiðarvegur á kafla“, eins og segir í örnefnalýsingu.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að „framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri“. Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum og sést vel þegar genginn er stígurinn upp í Gjásel og Fornasel. Tobbuvarðan vestari hefur verið lagfærð og sést vel norðan Tobbuklettsréttar. Hleðslur réttarinnar eru enn vel greinilegar.

22. Brennusel (kolagrafir, milklar hleðslur)

Brennisel

Brennisel.

Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni (angi af eldra Afstapahrauni). Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni (Gvendarbrunnshæðarskjóli) suður yfir hraunið og þaðan upp í Mjósundavörðu. Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn. Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker.
Í örnefnalýsingu segir: „Töluvert norðvestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti.“
Brennusel er greinilegt kolasel. Selstöðum fyrrum voru til ýmissa nota, s.s. til fjár- og kúahalds, kolagerðar, fugla- og eggjatekju o.fl. Í dag eru slíkar selstöður nefndar „útstöðvar“ á fínu fjölmiðlafornleifamáli.
Framan við miklar hleðslur í jarðfalli eru leifar húss og skammt austar er hlaðið skjól. Áberandi varða er ofan við aðstöðuna.

23. Hólsbrunnshæð (stórbrotið jarðfall)

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni neðan Lónakotssels og ofan Alfaraleiðarinnar milli Útnesja og Suðurnesja eru fá. Ofan vegarins liggur landamerkjalínan (enn sjást í hrauninu einstaka girðingastaur á stangli sem og undirhleðslur) um Taglhæðarvörðu á Taglhæð. Þaðan um Hólsbrunn og Hólsbrunnsvörðu á Hólsbrunnshæð, sem eiginlega er klapparflatneskja allmikil um sig. Þaðan liggur svo línan um Skorásvörðu á Skorás ofan selsins og þaðan í Mið-Krossstapa.
Á Hólsbrunnshæð er gríðarlegt jarðfall, sem hæðin dregur nafn sitt af (það er líkt og náttúrulegur brunnur í laginu). Ekki er ólíklegt að jarðfallið sé hluti af mikilli neðanjarðarhraunrás er nær upp að Urðarási ofan krosstapanna og jafnvel lengra upp í Hrútargjárdyngjuhraunið.

24. Lónakotssel (sel)

Lónakotssel

Landamerkjavarða við Lónakotssel.

Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, „liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel (varðan sú er áberandi utan í hraunhól við landamerkjagirðinguna skammt austan við austasta stekkinn í selinu). Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár (eru reyndar fjórar) aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali er klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.“

25. Straumssel (sel)
„Þegar Flánum sleppir, tekur við mikil brekka og hraunið, úfið mjög. Þar taka við svonefndir Katlar, djúpir hraunbollar og hraunhryggir. Ofar taka svo við Straumsselshöfðar. Sunnarlega í höfðunum er Höfðavatnsstæði uppi á hól. Þar er á sumrum drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra. Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann. Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús er hér innan garðs, og hér er Selsgarðurinn, matjurtagarður. Austur frá Selinu var Selsbrunnurinn eða Straumsselsvatnsstæði, sem er ker, og þrýtur þar aldrei vatn. Suður og upp frá selinu er Straumsselshæð. Þar á er Straumsselshæðarvarða og sunnan í hæðina er Straumsselshæðarskjól.“
Þegar komið er í Straumssel eru tóftir Tjörvabæjarins mest áberandi. Straumsselið sjálft er skammt austar. Tóftir þess eru vel greinilegar.

26. Óttastaðasel (sel)

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Óttarsstaðasel er sunnan við Meitla. Í þeim er Meitlaskjól. Frá Meitlunum blasir selið við. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru. Snúa dyr austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilegar verið reft yfir þetta skjól og það þá verið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparker með vatni, á annan metra að dýpt. Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt (nátthagi), sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“
Í Óttarsstaðseli má finna flest það er prýðir dæmigert sel á Reykjanesskaganum; selsstíg, selsvörðu, vatnsból, fjárskjól, nátthaga, stekki og selshús; baðstofu, búr og eldhús.

27. Sauðabrekkuskjól (hellisskjól)

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkuskjól.

„Efst í Óttarsstaðalandi, dálítinn spöl suðaustur af Búðarvatnsstæði, er allmikið jarðfall, sem nefnist Sauðabrekkugjá. Hún liggur frá suðvestri til norðausturs, og er hár barmur að norðanverðu, en lágt að sunnan. Hrafninn verpir oft í norðurbarminum. Gras er í botninum og að sunnanverðu við gjána. Stóra- Sauðabrekka er sunnan gjárinnar, en Litla-Sauðabrekka norðan hennar. Mosar eru kallaðir í hrauninu rétt sunnan gjárinnar. Krýsuvíkurmörkin liggja yfir þá. Aðeins sunnan við gjána og vestan við Stóru-Sauðabrekku eru Sauðabrekkuskjól við Sauðabrekkuhella. Þaðan er stutt vestur í Markhelluhól. Í honum er klöpp, sem nefnist Markhella, og eru klappaðir i hana stafirnir Ótta., Hvass., Krv. Er þetta hornmark á milli Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur.“
Sauðabrekkuskjólið hefur greinilega verið ætlað smölum fyrrum til að grípa til í misjöfnum veðrum fjarri öllu nærtæku; gólfið er flórað og hella er lögð yfir glugga.

Sjá nánari fróðleik um einstaka framangreinda staði á www.ferlir.is.
Tengsl við Ratleikinn á Fjarðarfréttum HÉR.

Hólsbrunnshæð

Hólsbrunnshæð.