Tag Archive for: Rauðamelsrétt

Vorréttin

Gengið var með manni, fæddum í Straumi fyrir um 70 árum, eftir Gerðisstíg frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel. Norðan Rauðamelsins, undir Rauðamelsklettum, eru Neðri-Hellar, fjárhellar frá Gerði.

Vorrétt

Vorréttin.

Ofar með kapelluhraunskantinum er Rauðamelsréttin, eða Vorréttin, fallega hlaðin. Enn ofar við hraunkantinn eru Efri-Hellar, fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Hægt er að ganga á milli þessara staða eftir gömlum stíg, en Gerðisstígurinn liggur vestar og ofar í grónu hrauninu, á milli Kapelluhrauns og Selhrauns. Stígurinn er nokkuð vel varðaður og tiltölulega auðvelt að fylgja honum. Þegar komið er skammt upp fyrir Efri-hella er há varða á vinstri hönd, svolítið frá stígnum. Hún stendur ofan við Kolbeinshæðahelli, en hellirinn er nokkurn veginn þar sem Kolbeinshæðir byrja að norðanverðu. Þetta er rúmgóður fjárhellir.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Frá honum er stutt eftir á stígnum að Kolbeinshæðaskjóli. Skjólið sést vel á grasi grónu svæði fyrir framan það og í næsta nágrenni. Það er í skúta í vestanverðum hæðunum og er hlaðið fyrir. Áður var reft yfir og má enn sjá leifar timburverksins. Fjárskjól þetta var notað frá Þorbjarnastöðum. Sunnan við skjólið er sléttur hraundalur áður en komið er upp á hæðirnar þar fyrir ofan. Suðvestan er Straumsselshöfði, en í skammt suðri má sjá háa vörðu á hól. Hún stendur skammt norðvestan við Gjásel. Frá því er stutt í Straumssel í vestri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Gengið var áfram upp með hraunkantinum og beygt með honum til vesturs og síðan til norðvesturs með kanti Selhrauns og yfir á Straumsselsstíg. Allt þetta svæði er nokkuð gróið, en mun auðveldara yfirferðar en selhraunið sjálft, sem er nokkuð úfið.
Gengið var til norðvesturs vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel og að hlaðinni rétt undir hraunhól sunnan við Þorbjarnastaði. Svæðið við réttina er nokkuð gróið og nefnist það Stekkjatún. Í vestur frá því er há varða upp á hól. Hún heitir Miðmundarvarða og er eyktarmark frá Þorbjarnastöðum (kl. 15:00 í sólarstað).
Gangan tók um klukkustund í björtu og góðu veðri.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðaskjól.

Bekkjaskúti

Gengið var um Gerðisstíg, að Neðri-hellum, Vorréttinni og Efri-hellum og síðan yfir Seljahraun að klettasvæði sunnan línuvegarins. Hraunið á því svæði, þegar halla tekur til suðurs, er þarna mjög stórbrotið.

Rauðamelsrétt

Í Rauðamelsrétt.

Þá var vent til vesturs inn á Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) (Skógargötu) og stefnan tekin til suðurs. Suðvestan af götunni, áleiðis upp í Óttarsstaðasel, í litlu jarðfalli, er Sveinshellir. Hleðslur eru við innganginn, en fyrir honum eru þéttar birkihríslur, sem fylla jarðfallið og loka hellinum svo til alveg. Óttastaðaselsstígurinn var genginn spölkorn til baka en síðan var beygt út af honum til norðausturs og haldið skáhallt yfir hraunið að línuveginum og yfir hraunkantinn norðan hans þar sem það er þrengst (örfáir metrar). Þaðan var greiður gangur niður að Alfaraleið. Við Þorbjarnastaði var litið á Kápuhelli og Gránuskúta, en fyrir honum eru svolitlar hleðslur.

Rauðamelsrétt

Rauðamelsrétt.

Við Neðri-hella er hlaðið gerði í hraunkantinum (Kapelluhraun). Hleðsla er innan við hraunkantinn og hlaðið er fyrir breiða sprungu, gróna í botninn sunnan við hellana. Fyrir meginhellinum er hleðsla.

Efri-Hellar

Efri-Hellar.

Þessir hellar hafa verið notaðir sem fjárskjól. Sama á við um Efri-hella, sem eru þarna skammt ofar, einnig á grónu svæði næri því utan í hraunkantinum. Falleg hleðsla er fyrir munnanum og einnig í jarðfalli skammt austar. Ofan við hellana gnæfir andlitslaga hraunklettur. Sagan segir að við Efri-hella geti verið mikill draugagangur á köflum, líkt og í Hrauntungum, sem eru þarna skammt ofar. Í þeim er einnig hlaðið fyrir fjárskjól, auk fleiri minja.

Vorréttin er undir Kaplahrauni, fallega hlaðinn. Frá henni er greiður gangur út af Gerðisstígnum upp að Kolbeinshæðaskjóli, enn einu fjárskjólinu á svæðinu.
Að þessu sinni var strikið hins vegar tekið yfir Selhraunið, þvert á Straumsselsstíginn og yfir á Óttarstaðaselstíg (Rauðamelsstíg/Skógargötu) og að Bekkjaskúta. Hann er þar uppi í stóru jarðfalli, einnig fallega hlaðið fyrir.

Sveinsskúti

Sveinsskúti.

Austar er Sveinsskúti, en á milli skútanna er hlaðið lítið byrgi, skjól fyrir einn mann. Annars er hraunið þarna einstaklega fallegt, einkum að haustlagi. Ofar er Óttarstaðaselið með Norðurskúta, Tóhólaskúta, Rauðhólsskúta, Nátthaga, stekk, vatnsstæði og öðrum mannvirkjum er prýtt getur eitt sel. Þá er hægt að fylgja Skógargötunni áfram upp í Skógarnef og áfram upp Mosana áleiðis að Trölladyngjusvæðinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gengið var í rólegheitum í gegnum hraunið niður að Þorbjarnarstöðum og kíkt á nafngreinda skúta þar. Þorbjarnastöðum tilheyra mörg mannvirki í Hraununum, s.s. Þorbjarnastaðaborgin, líklega Fornasel í Almenningum og jafnvel Gjáselið, fjárhellir ofan við Brunntorfur, heimaréttin og Þorbjarnastaðréttinn suðaustan við bæinn, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta innan seilingar fyrir þá, sem vilja og nenna að hreyfa sig svollítið í sagnaríku og fallegu umhverfi.
Veður var bjart, stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Vorrétt

Vorréttin.