Færslur

Rauðarárholt

Í “Sjómannadagsblaðinu” árið 2013 er m.a. fjallað um “Reykjavíkurvita”:

Engeyjarviti

Engeyjarviti.

“Allt frá því að þéttbýlismyndun hófst í landinu hefur Reykjavík verði í hópi stærstu verbúða landsins og er það enn. Sker og eyjar á Engeyjarsundinu hafa gegnum árin og aldirnar gert sjómönnum erfitt fyrir. Vitar og innsiglingarmerki hafa því skipt sjófarendur miklu máli.
Sögu Reykjavíkurvita, sem reyndar hefur gengið undir mörgum nöfnum, má rekja allt til ársins 1870. Þá kom Hafnarnefnd Reykjavíkur því til leiðar að sett var upp ljósker við Batteríið við Arnarhól, á svipuðum slóðum og Sænska frystihúsið reis síðar. Sama ár var ljósker sett upp í Engey.

Batteríið

Reykjavík – Batteríið lengst til vinstri.

Ljóskerið á Batteríinu þjónaði sæfarendum til ársins 1897 en þá ákvað Hafnarnefnd Reykjavíkur að reisa myndarlegan innsiglingarvita austarlega í Skuggahverfinu, á Helgastöðum við Lindargötu 65, skammt austan Bjarnaborgar. Vitatorg og Vitastígur draga nöfn sín af vitanum.

Rauðarárholt

Rauðarárholt 1946. Vatnsgeymarnir og vitinn.

Danska vitamálastjórnin teiknaði Skuggahverfisvitann og útvegaði þau tæki sem vitinn þarfnaðist. Vitinn var ferstrendur tveggja hæða turn. Jarðhæðin var hlaðin úr steini en efri hæðin var úr timbri, klædd listaþili. Olíugeymsla var á neðri hæð vitans en ljóshús og varðstofa á efri hæð. Á neðri stafninum var gluggi ljóshússins og járnsvalir framan við.
Í Skuggahverfisvitanum var í upphafi steinolíuljós, spegill og snúningstæki sem tók ljósið af með vissu millibili. Þar voru mislit ljóshorn, grænt, hvítt og rautt, sem voru samstillt ljóshornum Gróttuvita.

Sjómannaskólinn

Sjómannaskólinn – vitinn.

Árið 1911 var vitinn gasvæddur en þá fékkst skýrara ljós sem auðveldara var að greina frá öðrum ljósum bæjarins. Spegill vitans var fluttur í Engeyjarvita en snúningstækið í Arnarnesvita. Árið 1925 var vitinn endurbættur að nýju. Þá voru sett upp ný gasljóstæki með glóðarneti.
Eftir því sem byggðin í Reykjavík færðist austar á bóginn varð erfiðara að greina vitaljósið og því var Skuggahverfisvitinn lagður niður. Árið 1927 tók við annar viti, sá var uppi á vatnstönkunum á Rauðarárholti og var starfræktur til árisins 1944.
Ljóst var að finna þurfti innsiglingarvitanum varanlegan stað og þótti kjörið að koma honum fyrir í turni Sjómannaskólans sem þá var í undirbúningi. Þá var sagt að vitinn væri kominn á topp æðstu menntastofnunar sjómanna og mundi þaðan lýsa sjómönnum örugga leið í höfn og vera um leið yndisauki fyrir íbúa Reykjavíkur og stöðug áminning um mikilvægi sjómanna fyrir land og þjóð.
Vitinn er enn í Sjómannaskólanum en hann nýtist ekki sem skyldi því sjómenn sjá hann ekki lengur, háa turnhýsið við Höfðatorg byrgir þeim sýn. Og þá er spurning hvort nýr viti verði reistur í Reykjavík í framtíðinni.”

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 30.05.2013, Reykjavíkurviti, bls. 34.

Reykjavíkurviti

Skuggahverfisviti í Reykjavík var geislaviti sem ætlað var að lýsa leiðina inn á leguna við Reykjavík.