Færslur

Raufarhólshellir

Um “Raufarhólshelli“, stærsta hraunhellinn á Suðurlandi, er nánast þrjár samhljóma frásagnir í Ísafold 1909, Fjallkonunni sama ár og í Lögberg 1933. Hér er frásögnin úr síðastnefna blaðinu:

“Allir kannast við stærstu hella landsins, Surtshelli, Stefánshelli og Víðgelmi, en það eru ótrúlega fáir Sunnlendingar, sem kannast við, eða hafa komið í stærsta hellinn hér sunnanlands: Raufarhólshelli í Ölfusi.
Hér skal sagt nokkuð frá helli þessum og því, sem um hann hefir verið skrifað, en jafnframt bent á þær leiðir, sem bestar eru að honum.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Raufarhólshellir er í Eldborgarhrauni skamt frá bænum Vindheimm í Ölfusi. Þangað er akfært á bílum. Leiðin frá Reykjavík liggur um þjóðveginn austur, en skamt fyrir austan Kamba er beygt út af þjóðveginum til suðurs út á braut þá er liggur um Hjallahverfið og að Vindheimum. Frá Vindheimum er gengið til norð-vesturs um hálfrar stundar gang, og e r þá komið að hellinum.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Hellirinn er ekki auðfundinn og er því betra að spyrja vel til vegar á Vindheimum, en þeir sem vanir eru að ferðast eftir landabréfum munu þó geta fundið hellinn tilsagnarlaust, eftir hinum nýja uppdrætti Herforingjaráðsis af SV-landi; þar er hellirinn greinilega merktur. Aðra leið en þessa má og fara að hellinum. Ef farið er á bílum t. d. að Kolviðarhóli eða Hveradölum og síðan gengið um Lágaskarð til suðausturs út í Eldborgarhraun. Leiðin frá Hveradölum að hellinum er um 10 km. Báðar þessar leiðir eru bráðskemtilegar.

En þeim, sem fara hina síðarnefndu leið, vildi eg benda á, að til þess að fara ekki alveg sama veg til baka frá hellinum er mjög skemtilegt að ganga lítið eitt vestur, um hin svo nefndu Þrengsli. Þá sjá menn um leið hið fyrirhugaða vegstæði nýja þjóðvegarins austur, því hann á að liggja um Þrengslin fram með Raufarhólshelli og niður í Ölfusið.
Hellirinn dregur nafn sitt af hól nokkrum skamt frá hellismunnanum, sem Raufarhóll heitir. Grasi gróin lág liggur að hellismunnanum og gengur hellirinn ofan í hraunið úr norðurenda lágarinnar. Raufarhólshellir er um 1 km. að lengd.
Víðast er hátt undir loft í hellinum og fallegar hvelfingar sumsstaðar. Marga einkennilega dropasteina er þar að sjá bæði í lofti og á gólfi. En það skemtilegasta, sem þarna er að sjá, eru íssúlurnar, sem standa á víð og dreif um hellisgólfið. Þær eru gildar mjög og margar um mannhæðar háar og gætu verið verðir hinna huldu vætta, sem hellinn byggja.
– Þegar liður á sumarið minka íssúlur þessar mikið vegna hitans.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Þótt merkilegt megi virðast hafði hellir þessi aldrei verið neitt rannsakaður fyr en árið 1909 að 5 ungir og röskir Reykvíkingar hjóluðu austur í Hveradali, en gengu síðan þaðan um Lágaskarð að Raufarhólshelli. Þeir rannsökuðu hellinn rækiliega; mældu og tóku myndir.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Frásögn um ferðalag þeirra birtist í Ísafold þ. 21. júli 1909. Hér skal birtur hluti af þeirri frásögn: “Þjóðsögur hafa gengið um þenna hellir (þ. e. Raufarhólshelli) að hann sé eitthvert feiknaflæmi. Þær sögur kveiktu fyrir tveim árum forvitni í þrem mönnum hér, svo að þeir lögðu upp til að kanna hellinn. Einn þeirra var Sveinn Guðmundsson járnsmiður hér í bænum. Þeir komust 300 faðma inn í hellinn. Þá brast þá ljós, svo þeir urðu frá að hverfa. ‘
Á sunnudaginn var (þ.e. 18. júlí 1009) lögðu fimm piltar upp héðan úr bænum, til þess að kanna hellinn að nýju: Sveinn Guðmundsson, sá er nú var nefndur, Guðbrandur Magnússon prentari (nú forstjóri Áfengisverslunar ríkisins), Carl Ólafsson ljósmyndari, Páll Magnússon járnsmiður og Stefán Guðmundsson trésmiður. Þeir voru vel búnir að ljósfærum, höfðu með sér þrjú karbid-ljósker, og 10 faðma langt snæri til mælinga. Þeir komust inn um allan hellinn. Hann reyndist 508 faðma langur, um 10 faðma breiður að jafnaði og 10—35 álna hár, á að giska. Lengdin er álíka mikil eins og frá Læk (Lækjartorgi mundi nú vera sagt) hér í bænum austur að Mjölni (gamla mulningsverksmiðjan rétt fyrir innan vatnsþró).

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Auk þess eru þrír afhellar út úr honum, einn 26 faðma langur, annar 37 faðma, og þeir báðir allháir. Hinn þriðji er 50 faðma langur, en ekki nema um 2 álnir á hæð. Jarðföll eru þrjú, en öll á fyrstu 30 föðmum, þegar þeim sleppir, er myrkurgeymurinn óslitinn inn í botn. Einn þessara félaga (G.M.) hefir farið um Surtshelli — Honum fanst meira um Raufarhólshelli að ýmsu leyti.”
Tiltölulega fáir hafa farið í hellinn síðan að þessir framtakssömu Reykvíkingar rannsökuðu hann.
Þess má þó geta að árið 1915 gengu nokkrir menn frá Eyrarbakka í hellinn. Fóru þeir um hann allan og tóku þar margar myndir. í fyrravor fór Jón Víðis mælingam. í hellinn ásamt starfsfólkinu á Vegamálaskrifstofunni og tók hann þá ágæta mynd við eitt jarðfallið í hellinum. Einnig höfum við Skátarnir farið í hann nokkrum sinnum.
Og nú á næstunni mun Ferðafélag Íslands efna til farar í hellinn og ættu þá sem flestir Reykvíkingar að nota það ágæta tækifæri til að skoða hann.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Hellirinn er ekki greiðfær. Stórgrýti og urð þekur botninn og verður því að gæta hinnar mestu varúðar þegar í hann er gengið. Einkum er nauðsynlegt að hafa góð ljós og vcra vel skóaður, því vei þeim, sem hætta sér á lágum götuskóm í slíkar göngur, því þeir munu misstíga sig og meiða.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Eins og áður er minnst á, heitir hraun það, sem Raufarhólshellir er í Eldborgarhraun. Um það segir Þorv. Thoroddsen meðal annars í bók sinni “Lýsing Íslands, 2. b. bls. 129: Ýms líkindi eru til þess, að þetta hraun sé það, sem getið er um að hafi runnið árið 1000, þegar kristni var lögtekin á Íslandi. “Þá kom maðr laupandi, ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann laupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: “Eigi er undr í at guðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði; “Um hvat reiddust guðin þá, er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?” Áður var það ætlun manna, að það hefði verið Þurárhraun, sem þá myndaðist, en hitt er líklegra, að það hafi einmitt verið Eldborgarhraun, sem þá brann.” – Jón Oddgeir Jónsson —Lesb.
Sjá MYNDIR af Raufarhólshelli.

Heimild:
-Fjallkonan, 28. tbl. 24.07.1909, Raufarhólshellir, bls. 110.
-Ísafold, 46. tbl. 21.07.19.0, Raufarhólshellir, bls. 182.
-Lögberg, 26. tbl. 29.06.1933, Raufarhólshellir, bls. 2.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.