Færslur

Fjárskjól

Gengið var til vesturs frá Krýsuvíkurvegi skammt norðan við Bláfjallafleggjara, meðfram skógræktargirðingu og yfir Stórhöfðastíg. Stefnan var tekin á Gömluþúfu. Gamlaþúfa er í sprungnum hraunkletti í u.þ.b. 110 m hæð yfir sjó. Hún sést vel frá Straumsseli og áður fyrr var hún þekkt kennileiti á Straumsselsstíg áleiðis að Fjallinu eina.

Gamla þúfa

Gamla þúfa.

Eftir stutta göngu var komið í krosshlaðið fjárskjól ofan við Brunntorfur, líklega frá Þorbjarnarstöðum ( fallega hlaðin fjárborg frá bænum er þarna skammt norðvestar) vandlega falið í grunnu jarðfalli. Hlaðinn er gangur áleiðis inn, en síðan klofnar hann til hægri og vinstri. Skjólin eru á hvora hönd.
Fuglasöngur var í lofti og hvarvetna sáust smáfuglar skjótast undan fótum þátttakenda. Notað var tækifærið og hreiður þúfutittlings, inn undir lyngbakka. Eggin voru varla stærri en lambaspörð.

Refur

Refur.

Þegar komið var upp á hæðirnar heyðist tófa gagga skammt frá. Sást hvar gráskellótt lágfóta skokkaði hægt samhliða hópnum í u.þ.b. 50 metra fjarlægð í sömu átt. Líklega sú sama og hefur verið að hnupla þurrkuðum þorskhausum úr fiskhjalla þarna skammt norðar. Hún stoppaði af og til, leit í átt að hópnum og gaggaði tvisvar, sennilega til merkis um yfirvonandi hættu. Eftir að hafa fylgst með tófunni stutta stund var ákveðið að stríða skolla svolítið. Golan var á bakið. Hópurinn staðnæmdist á holti og lét tófuna sjá sig.

Stórholtsbyrgi

Stórholtsbyrgi.

Einn úr hópnum hélt áfram eftir hraunlægðunum í sömu stefnu og beygði síðan til vinstri, þvert fyrir ætlaða leið dýrsins, og beið þar á bak við hraunhrygg. Hópurinn hélt síðan áfram, rebbi stóð upp og fylgdi fyrra hátterni. Fylgst var með rebba þar sem hann stöðvaði þegar hópurinn stöðvaði, settist, gaggaði tvisvar og var síðan kyrr, en stóð upp þegar hópurinn færði sig. Svona gekk þetta nokkra stund uns rebbi var svo til alveg kominn að þeim er beið. Þá stóð sá hægt upp og beið. rebbi átti aðeins nokkra metra í hann þegar hann áttaði sig, stóð grafkyrr, rak upp gól, tók síðan til fótanna þvert á fyrr leið og hvarf. Fuglasöngurinn fyllti loftið á ný. Lóan settist á nálægan stein og virtist alveg óhrædd við tvífættlingana.

Brunntorfufjárskjól

Brunntorfufjárskjóls er ekki getið í skráðum heimildum. Samt er það á þeim stað, sem það er.

Mörg greni voru merkt á leiðinni (tveir steinar á tveimur til þremur stöðum umhverfis greni).
Nákvæmlega klukkustund tók að ganga að Gömluþúfu. Hún er áberandi í Almenningum ofan við Straumsselið. Þegar komið var að henni tyllti rjúpa sér á þúfna og horfði yfir svæðið. Umhverfis þúfuna eru nokkrar vörður og merkt greni. Eftirtektarvert var hversu hljótt var við þúfuna. Þar heyrðist ekki fuglasöngur. Sennilega eru grenin þarna í búsetu þessa stundina. Hafurbjarnarholt er austar og þar eru einnig merkt greni. Neðar er Stórholts og þar eru Stórholtsgrenin. Hlaðið byrgi grenjaskyttu er utan í holtinu. Ekki er ólíklegt að það hafi verið hlaðið af sömu skyttunni og byrgið við Efri-Straumsselshella (Jónas Bjarnason).
Gengið var til baka svo til beina línu að upphafsreit. Lognið var nær algert og kvöldkyrrðin mikil.
Frábært veður.

Gamla Þúfa

Gamla Þúfa.