Færslur

Selatangar

Í Morgunblaðinu 14. júlí 1987 skrifaði fréttaritari þess í Vogum; “70 refir felldir í vor“. Af fréttinni að dæma virðist sem ör fjölgun hafi orðið á tófu á vestanverðum Reykjanesskaganum þetta árið.

Refur

Refur.

“Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt.
Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Refur

Refur.

Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. Í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
Ísólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði.
Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson, refaskyttur í Hafnahreppi, hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af um 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.

Refur

Dauður refur.

Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.” – EG

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Til fróðleiks má geta þess að refir hafa verið veiddir á Reykjanesskaganum allt frá landnámi. U.þ.b. 100 hlaðnar refagildrur bera þess glöggt vitni sem og hlaðin skjól refaskyttna. Margar sagnir eru til um þrautseigju skyttnanna er lágu úti daga og nætur í öllum veðrum, en minna hefur farið fyrir skráðum heimtum. Þó er vitað að refaskinn þóttu verðmæt verslunarvara fyrr á öldum.
Í dag má enn víða sjá minjar, bæði eftir veiðimennina sem og grenin, sem jafnan voru merkt með stein á steini. Glerbrotin benda til þess að þeir hafi jafnan haft með sér eitthvað til drykkjar!?

Heimild:
-Morgunblaðið 14. júlí 1987, “70 refir felldir í vor”, bls. 26.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.