Tag Archive for: Reykanesskagi

Reykjanes

Hugtakið Reykjanes hefur löngum verið á reiki meðal fólks. Á gömlum landakortum er Reykjanesið sagt vera vestan línu sem draga má milli Sandvíkur í suðri og Stóru-Sandvíkur í norðri vestast á Reykjanesskaganum.

Reykjanes

Reykjanes – kort 1952.

Jón Th. fjallar um Reykjanesskaga í ferðalýsingum sínum og á þá jafnan við Landnám Ingólfs, þ.e. vestan línu, sem dregin er milli Ölfusárósa og Hvalfjarðar (Kollafjarðar). Eggert og Bjarni lýsa Reykjanesinu og Reykjanesskaga og eiga þá yfirleitt við svæði vestan línu milli Ölfusárósa og Kópavogs.
Á Netinu er lýst sveitarfélögunum á Reykjanesi, þ.e. Grindavík, Reykjanesbæ, Höfnum, Sandgerði, Garði og Vogum. Sveitafélögin kynna sig yfirleitt sem hluta af Reykjanesinu. Um bergfræðina á Reykjanesinu segir m.a.:
“Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.”

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Þá segir um Reykjanes: “Jarðskjálftar tíðir. Fjögur til fimm söguleg gos á Reykjanesi á tímabilinu 875 – 1340 og hraun u.þ.b. 16 talsins. Hraun við Hlíðarvatn frá 1340. Ögmundarhraun frá 1150. Hraun efst í Heiðmörk og Í Bláfjöllum u.þ.b. 1000 ára. Svínahraun gæti verið kristintökuhraunið frá 1000. Svartahraun við Bláa lónið frá 1226. Kapelluhraun frá 1150. Afstapahraun frá sögulegum tíma. Stampahraun og Arnarseturshraun frá 1226. Búrfellshraun er ca. 7200 ára (C14), gæti verið eitthvað yngra vegna skekkjuvalds C14 aðferðarinnar, sem er óþekktur. Kapellu- eða Nýjahraun rann á fyrri hluta 11. aldar (1010-1020). Heilög Barbara, verndari ferðamanna, jarðfræðinga og málmbræðslumanna. Lindir austan álvers gáfu Straumsvík nafn (nú listamannamiðstöð). Einnig miklar lindir austan Straumsvíkur. Hrútagjárdyngjuhraun ná frá Hvaleyrarholti að Vatnsleysuströnd (Vatnsleysuvík). Þar taka við Þráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefndt Arnstapahraun. Eldra Hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því).

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára).

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára). Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Stöðugar og hægfara hreyfingar hafa valdið miklum sprungum í þeim. Nýrri hraun ofan á fela líka eldri sprungur. Vogar (áður Kvíguvogar) og Vogastapi (Kvíguvogastapi; grágrýti). Stakksvogur á milli. Misgengi sunnan vegar við Vogastapa, Grímshóll með vörðu (75m). Lábarið grjót alls staðar meðfram vegi um Vogastapa. Vogastapi og Miðnesheiði eru gamlar dyngjur. Keflavíkurflugvöllur er á dyngju. Sandfellshæð er dyngja.
Stapafell myndaðist undir ís eða í sjó.

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur. Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík. Grindavík fær neyzluvatn frá Svartsengi en fékk áður 12°C heitt vatn, sem hafði flest einkenni hitaveituvatns. Sandey í Þingvallavatni er u.þ.b. 2000 ára. Leitarhraun, þar sem Raufarhólshelli er að finna, er u.þ.b. 4800 ára.”
Þarna er Reykjanesið teygt alla leið til Þingvalla, sem er reyndar það lengsta, sem tekist hefur að koma því hingað til.
Á nat. is er Reykjanesið sagt vera “yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri.”

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Á nat.is eru taldir upp áhugaverðir staðir á Reykjanesi. Þar eru nefndir staðir frá Reykjanesvita upp í Brennisteinsfjöll og allt þar á milli, s.s. Selatangar, Þráinsskjöldur, Keilir og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Silungsveiði er sögð góð í vötnum á Reykjanesi, s.s. í Djúpavatni, Hlíðarvatni og Kleifarvatni. Söfn eru sögð nokkur, þ.á.m. Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Ljóst má af framangreindu að hin almenna túlkun á Reykjanesinu nær langt út fyrir Reykjanestána. Segja má að nú orðið sé svæðið vestan höfuðborgarinnar jafnan nefnt Reykjanes eða Reykjanesskagi í daglegu tali.
Reykjavík varð samheiti yfir alla byggðina ofan lítillar víkur, sem nú er horfin. Reykjanesbær varð samheiti yfir Keflavík, Njarðvíkur og Hafnir. Svona mætti lengi telja.
Mikilvægt er að aðilar noti Reykjaneshugtakið á sem jákvæðastan hátt þannig að sem best nýting megi verða á því sem flestum til hagsbóta.

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn.