Tag Archive for: Reykjavík

Breiðholt

Í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur um „Borgarhluta 6 – Breiðholt„, segir m.a. um sögu bæjarins Breiðholts, Breiðholtssel og nágrenni:

Breiðholtsbærinn

Breiðholt
Landamerki Breiðholtsjarðarinnar lágu í vestri, suðri og suðaustri að nágrannajörðunum Digranesi, Hvammkoti (Fífuhvammi) og Vatnsenda, sem tilheyrðu upphaflega Seltjarnarneshreppi en síðar Kópavogshreppi. Í norðri og norðvestri lágu landamerki Breiðholts að jörðunum Bústöðum, Ártúni og Árbæ. Til norðausturs afmarkaðist land Breiðholts af Elliðaánum.
Elstu heimildir um jörðina Breiðholt eru frá 14. öld. Elsta örugga heimildin er skrá frá 1395 yfir jarðir sem Viðeyjarklaustur eignaðist í tíð Páls ábóta. Þó er talið líklegt að jarðarinnar sé getið í eldri heimild, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá 1313, þar sem talað er um jörðina „Holt“, en þar er sennilega átt við Breiðholt.

Breiðholt

Breiðholt og nágrenni – herforingjakort frá 1906.

Vísbendingar eru um að við bæinn hafi verið kirkjugarður og kirkja, en mannabein fundust nokkrum sinnum við jarðrask á bæjarhólnum og í nágrenni hans í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar.
Kirkju í Breiðholti er ekki getið í kirknaskrá Páls biskups um 1200 en af frásögn um jarteikn í Þorláks sögu hins helga frá 1325 að dæma virðist hafa verið þar bænhús eða kirkja sem helguð var heilögum Blasíusi. Hann var verndari nautasmala og svínahirða, tóvinnufólks, vefara, skóara, steinhöggvara og skipasmiða og gott þótti að heita á hann gegn allskyns hálskvillum meðal annars. Frásögnin segir frá því að dag einn hafi Hallur smalamaður Snæbjörns bónda á „Bútsstöðum“ (Bústöðum) komið heim frá fé og fallið í öngvit. Þegar hann rankaði við sér hafði hann misst mál sitt og var mállaus í sjö daga.
Breiðholt
Snæbjörn bóndi hét þá á hinn heilaga Blasíus biskup að smalamaðurinn skyldi ganga í Breiðholt og gefa þangað lýsi ef hann mætti endurheimta heilsu sína, en þegar það dugði ekki til kallaði bóndi til Guð og Þorlák biskup. Litlu síðar sofnaði smalinn og komu þá biskuparnir báðir Blasíus og Þorlákur til hans í svefni. Eftir það vaknaði hann alheill lofandi Guð og hina blessuðu biskupa. Í öðrum heimildum kemur einnig fram að bænhús hafi verið í Breiðholti, en aflagt fyrir 1600. Rústir kirkjunnar og kirkjugarðsins eru nú horfnar, en líklegt er talið að kirkjan hafi staðið fast upp að bæ, jafnvel á eða við sjálfan bæjarhólinn og grafreiturinn umhverfis hana.
Breiðholt varð eign konungs við siðaskipti eins og aðrar jarðir Viðeyjarklausturs og kemur fyrir í Fógetareikningum frá 1547 til 1552. Árið 1580 var jörðin á meðal nokkurra konungsjarða í Skálholtsstifti sem ákveðið var að láta ganga til framfærslu eða stuðnings prestum í tekjurýrum brauðum, eins og kemur fram í opnu bréfi Jóhanns Bochholts lénsmanns til Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups frá því ári. Jörðin var þannig afhent kirkjunni og heyrði eftir það undir Víkurkirkju og seinna Dómkirkjuna í Reykjavík.

Breiðholt

Breiðholt – örnefni.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er jörðin sögð lénsjörð fyrir prest sem þjónaði kirkjum á Seltjarnarnesi, honum til framfærslu eða uppihalds. Ekki er getið um að á staðnum hafi þá verið kirkja eða bænhús. Á jörðinni voru þá tveir ábúendur. Á öðrum helmingnum bjuggu hjónin Þórálfur Höskuldsson og Ásta Jónsdóttir og voru þar fimm í heimili. Bústofn þeirra var fjórar kýr, sjö ær, tvær gimbrar, einn sauður veturgamall, sjö lömb og einn foli þrevetur. Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Loðvík Jónsson. Hjá honum voru þrír í heimili og bústofninn þrjár kýr, ein kvíga mylk, einn kálfur, þrjár ær, fjögur lömb og eitt hross. Til hlunninda töldust hrísrif, torfrista og stunga, mótaka og lyngrif nokkurt. Engjar spilltust af vatnságangi. Dýrleiki var óviss en landskuld var eitt hundrað sem skiptist jafnt á milli ábúendanna tveggja.
Breiðholt
Seint á 18. öld munu hafa búið í Breiðholti Hjörtur Eiríksson (um 1743-1793) og Rannveig Oddsdóttir (f. um 1744) ásamt börnum sínum, en þau fluttu þaðan 1788 að Bústöðum.
Prestar munu að jafnaði ekki hafa setið í Breiðholti, en þó bjó þar séra Árni Helgason sem var dómkirkjuprestur og biskup á árunum 1814-

Breiðholt

Breiðholt – túnakort 1916.

1825.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Breiðholt lénsjörð, dýrleiki ekki metinn en sýslumaður mat hana á 20 hundruð.
Árið 1856 fékk þáverandi ábúandi í Breiðholti, Árni Jónsson, sérstök verðlaun fyrir jarðabætur.

Á síðari hluta 19. aldar virðist jörðin hafa legið undir miklum ágangi ferðamanna því þá þurftu ábúendur þar oftar en ekki að auglýsa að bannað væri að nota Mjóumýri sem áningarstað eða til beitar, en Mjóamýri var lægðardrag suðaustarlega í landi Breiðholts, vestan undir Vatnsendahvarfi (á þeim slóðum þar sem gatan Jaðarsel liggur nú).

Breiðhol

Breiðholtsbærinn 1916.

Seint á 19. öld bjuggu í Breiðholti hjónin Björg Magnúsdóttir (1847-1930) og Jón Jónsson (1840-1898) ásamt börnum sínum þrettán. Í búskapartíð þeirra var allstórt bú í Breiðholti. Dóttir þeirra, Þóra Petrína Jónsdóttir (1891-1987), hefur sagt frá búskaparháttum, staðháttum og örnefnum í Breiðholti á þeim tíma. Samkvæmt frásögn hennar voru þá um sex til tíu kýr á býlinu, um 200 fjár og sex til átta hross. Einnig voru hross og naut Reykvíkinga tekin í hagagöngu yfir sumarið. Smjör, rjómi og skyr var selt til Reykjavíkur og stundum mjólk. Volg laug var í mýrinni fyrir neðan túnið í Breiðholti og var hella lögð út yfir laugina og þvottur þveginn þar. Mór var tekinn við Engjarnar svokölluðu í Breiðholtsmýri, niður undir Digraneshálsi. Þar þótti góður mór og fengu ýmsir að taka þar mó, m.a. kunningjar úr Hafnarfirði sem annars urðu að brenna mosa. Mikill umferð ferðamanna og gestagangur var í Breiðholti á þessum tíma, t.d. komu þar við bændur austan úr sveitum með fé sitt á leið til slátrunar á haustin og börn úr Reykjavík komu í berjamó.
Skömmu eftir lát Jóns árið 1898 keypti breskur maður, H.A. Payne að nafni, jörðina Breiðholt af kirkjunni fyrir 10.500 krónur, en Björg bjó þar áfram ásamt börnum sínum til ársins 1903. Í borgarhlutanum Breiðholti eru nú þrjár götur nefndar eftir þremur af dætrum Jóns og Bjargar: Maríubakki, Lóuhólar og Þórufell.

Breiðholt
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur Elliðaárnar af H.A. Payne ásamt jörðunum Breiðholti, Árbæ og Ártúni og eignaðist þannig allan veiðirétt í ánum. Breskir veiðimenn munu hafa haldið áfram að leigja Elliðaárnar fram að fyrri heimsstyrjöld en eftir það tóku íslenskir veiðimenn við. Árið 1925 fól bærinn Rafmagnsveitu Reykjavíkur umsjón með Elliðaánum en frá því að Stangveiðifélag Reykjavíkur var stofnað árið 1939 hefur það haft Elliðaárnar á leigu. Við Elliðaárnar er mikið af örnefnum sem tengjast veiðum í ánum.
Efri veiðihús Payne voru á árunum 1937-1940 lánuð Húsmæðrafélagi Reykjavíkur sem hafði þar sumardvalarstað fyrir efnalitlar mæður og börn þeirra en árið 1940 voru þau tekin til afnota af hernámsliðinu. Annað húsanna, líklega styttra húsið sem stóð sunnar og var vörslumannshús, hefur staðið fram yfir 1960 því það er sýnt á korti af svæðinu frá því ári, en líklega hefur það verið fjarlægt skömmu síðar, því það sést ekki á loftmynd.

Búskapur í Breiðholti á 20. öld
Breiðholt
Í upphafi 20. aldar komst jörðin Breiðholt í eigu Reykjavíkurbæjar, eins og áður segir. Með lögum árið 1923 var jörðin svo lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Búskapur var þó áfram stundaður í Breiðholti fram yfir miðja 20. öld.
Þegar bærinn keypti Breiðholt árið 1906 var jörðin leigð til ábúðar Guðna Símonarsyni, sama ábúanda og verið hafði þar, líklega frá því að Björg Magnúsdóttir flutti þaðan 1903, með þeirri kvöð að leggja mætti vatnspípur um landið og að ekki yrði tekinn meiri fénaður í það til hagagöngu en formaður bæjarstjórnar samþykkti.
Breiðholt
Bæjarhús og tún Breiðholtsbæjarins voru mæld upp og teiknuð á kort árið 1916. Á kortinu má sjá að þá stóðu sjö hús í samfelldri bæjarröð á hlaðinu. Húsin stóðu þar sem nú er opið svæði milli húsanna Grjótasels 21 (b. 1979) og Skógarsels 39 (b. 1992). Þar eru sjáanlegar rústir sem eru leifar af síðustu baðstofu eða íbúðarhúsi bæjarins.
Þrjú útihús stóðu sunnan við bæinn, þar sem nú er húsið Grjótasel 21. Fleiri útihús voru ofar í brekkunni austur af bænum, á þeim slóðum þar sem gatan Seljaskógar liggur nú vestan húsanna númer 20-24 við Akrasel. Tún bæjarins voru afmörkuð með túngörðum. Í gegnum hlaðið lá vegur frá nágrannabænum Fífuhvammi innst í Kópavogsdal, sem hélt svo áfram austur að Vatnsendavegi.
Eignin var brunavirt árið 1924 og voru húsin í bæjarröðinni þá enn sjö talsins auk þriggja útihúsa. Syðst í röðinni var geymsluhús eða skemma sem sneri göflum í norður-suður (5,5×3,3 m að stærð,), byggð úr bindingi en með torf- og grjótvegg við norðurgafl.
Breiðholt
Áfastur við austurhlið hennar var geymsluskúr úr sama efni (5,5×1,8 m að stærð,). Norðan við skemmuna var íbúðarhús eða baðstofa sem sneri göflum í vestur-austur (10×5 m að stærð), byggð úr bindingi og klædd utan á hliðum með torfi og grjóti, en stafnar klæddir borðum og járni. Geymslukjallari (1,6 m hár) var undir vesturhluta hennar og við vesturgaflinn var lítill inngönguskúr (sjá myndir 14 og 15). Við norðurhlið baðstofunnar var eldhússkúr (10 x 2,5 m að stærð), byggður úr bindingi með norðurhlið úr torfi og grjóti. Við norðurhlið hans var önnur eldhúsbygging (8×4 m að stærð), byggð úr torfi og grjóti. Eldiviðarhús úr torfi og grjóti (8×3 m að stærð) var við norðurhlið þeirrar byggingar.

Gróðrarstöðin Alaska í Breiðholti

Breiðholt

Breiðholtsfjósið – síðar Gróðrastöðin Alaska.

Jón H. Björnsson landslagsarkitekt (1922-2009), sem stofnaði og rak gróðrarstöðina Alaska við Miklatorg (Vatnsmýrarveg 20) frá 1953, keypti eignina Breiðholt árið 1960 og tók um leið við því leigulandi og erfðafestulandi sem henni fylgdi. Í Breiðholti kom Jón upp annarri gróðrarstöð undir nafninu Alaska og hafði þar jafnframt sumardvalarstað fyrir fjölskylduna. Þá stóðu á landinu íbúðarhúsið og steinsteyptu útihúsin sem byggð höfðu verið á fimmta áratugnum, en auk þess gömul bárujárnsklædd skemma og skúrbygging sem notuð var sem hænsnahús. Af loftmyndum að dæma virðist gamla baðstofan hafa staðið allt fram á síðari hluta áttunda áratugarins.
Jón girti allt svæðið af og flutti þangað alla trjáplönturækt sem hann hafði áður haft í Hveragerði. Þarna hafði Jón viðamikla ræktun og trjáplöntusölu til ársins 1963 en varð þá að gera hlé á rekstri stöðvarinnar vegna mikils tjóns sem varð á ræktuninni vegna vorhrets og var rekstur Alaska þá leigður út í nokkur ár. Eftir að Jón tók aftur við fyrirtækinu árið 1967 rak hann einnig teiknistofu í Breiðholti, í íbúðarhúsinu sem byggt hafði verið á fimmta áratugnum.

Breiðholt

Breiðholt – loftmynd 1957.

Í byrjun áttunda áratugarins missti Jón mikinn hluta landsins þegar ákveðið var að taka Breiðholtsblett I úr erfðafestu vegna skipulags og væntanlegra byggingarframkvæmda á svæðinu. Ræktunarlönd og fyrrum tún sem tilheyrðu Breiðholtsbletti I lentu vestan götunnar Skógarsels við skipulag og uppbyggingu Seljahverfisins á þessum tíma og voru á því svæði (Suður-Mjódd) sem afhent var Íþróttafélagi Reykjavíkur, sem byggði þar seinna upp aðstöðu sína. Eftir þetta færðist rekstur gróðrarstöðvarinnar meira í átt að verslunarrekstri í stað trjáplönturæktunar og árið 1975 innréttaði Jón fjósið og hlöðuna á staðnum sem verslunar- og geymsluhús og var verslun Alaska opnuð þar í nóvember það ár.

Breiðholtssel

Breiðholt

Breiðholtssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selið var líklega ekki langt frá gatnamótum Heiðarsels og Hjallasels. Í örnefnaskrá Breiðholts segir: „Neðan við Mjóumýri er svo Selhryggur, sem er að mestu í Fífuhvammslandi, en upp af honum og norðan hans eru Selflatir og Selið. Það hvorttveggja er í Breiðholtslandi.“ „Frá Miðmundahæð og beina línu austur að Markakletti hét Selhryggur …“ . Upp af Selhrygg og norðan hans var Selið og Selflatir. Þóra [Jónsdóttir] man ekki eftir selrústum. Sel og Selflatir voru í Breiðholtslandi … . Selflatir voru á milli Selhryggs og Fálkhóls.“ Færikvíar voru notaðar í Breiðholti og í örnefnalýsingu er frásögn Þóru Jónsdóttur sem sat yfir ásamt systur sinni í mörg sumur: „Hinumegin við Rásina var blettur, þar sem færikvíar voru hafðar. Tæplega fimmtíu ær voru mjólkaðar í kvíunum. Þóra sat hjá mörg sumur með eldri systur sinni. Þær voru með ærnar á ýmsum stöðum, Hörðuvöllum, Kjóavöllum (sem mest voru í Vatnsendalandi) og víðar. Valdir voru beztu blettir, sem völ var á að beita ánum á, og var leyft að fara með þær í annarra lönd í því skyni.“
Breiðholt
Lýsing: Horfið, en greina má rúst á loftmynd af Breiðholti frá árinu 1970, norðan megin við Rásina. Þar má greina þriggja hólfa rúst sem gæti hafa verið selið og líklega sá blettur sem færikvíarnar voru á,
eins og kemur fram í örnefnaskrá.

Heimild:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 6 – Breiðholt, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2021.

Breiðholt

Breiðholtssel – loftmynd 2020.

Í „Íslenskar þjóðsögur og ævintýri“ er sagt frá brunni að Hofi á Kjalarnesi: “
Á Hofi a Kjalarnesi er brunn-2æfagamall dómstaður og blótstaður. Þar er brunnur einn, sem aldrei er byrgður, og sem ekki má heldur byrgja. Sá er sögn um brunn þenna, að á meðan hann se opinn, varist hvert barn brunninn, og jafnvel úngbörnin snúi frá honum og kræki lángar leiðir út fyrir hann. En ef brunnurinn er byrgður, sé þess víst að vænta að eitthvert barn detti í hann, og drukkni. Mörg dæmi þykjast menn vita til þessa. (Eptir Dr. Mauiers Isl. Volkss. 180. bls.)“.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri 1862, bls. 661.

Hof

Hof á Kjalarnesi og nágrenni – loftmynd.

 

Leiti

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 1971 um „Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun„. Hér er greinin birt að hluta:

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Allmörg hraun eru í nágrenni Reykjavíkur, en aðeins eitt þeirra hefur þó náð inn fyrir núverandi borgartakmörk. Þetta hraun hefur runnið niður eftir farvegi Elliðaánna og út í Elliðavog, þar sem það endaði í flötum tanga. Á þessum slóðum gengur hraunið undir nafninu Elliðaárhraun, en hefur annars ýms nöfn á ýmsum stöðum, eins og títt er. Jarðfræðilega er heppilegt að kenna hraun við eldvarpið eða eldvörpin, sem það er komið úr, sé þess kostur. Að sjálfsögðu felur slíkt ekki í sér að gömul og þekkt örnefni í hrauninu skuli felld niður. Þetta er aðeins til hægðarauka að nota eitt og sama nafn um sama hraunið. Nafnið er þá aðeins notað sem jarðfræðilegt hugtak, ekki sem nýtt örnefni.

Fyrstu rannsóknir
Leitarhraun
Ekki er mér kunnugt um, að neinar rannsóknir hafi verið gerðar á því, hvaðan hraun þetta er komið, fyrr en sumarið 1954, að við Tómas Tryggvason unnum að gerð jarðfræðikorts þess af Reykjavík og nágrenni, sem út kom 1958 (Tryggvason og Jónsson 1958).
Það kom þá í minn hlut að kortleggja suðurhluta svæðisins, og þá rakti ég þetta hraun alla leið austur fyrir austurtakmörk kortsins. Áður hafði mér verið sagt, að það væri komið sunnan af svæðinu við Kóngsfell. Þorvaldur Thoroddsen hefur auðsjáanlega gert sér gxein fyrir að hraun hafi runnið ofan frá Bláfjöllum niður hjallana og niður að Rauðhólum, en hann telur líklegast að Elliðaárhraunið sé úr Rauðhólum komið (Ferðabók I, bls. 123—124, Rvík 1958).

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Einn hluti þessa hrauns hefur öðrum fremur vakið athygli vísindamanna fyrir löngu, en það eru Rauðhólar við Elliðavatn. Þeir hafa verið rækilega skoðaðir af ýmsum, þó ekki væru menn á eitt sáttir varðandi uppruna þeirra. Voru þeir ýmist taldir raunverulegir eldgígir eða gervigígir, án þess að gerð væri grein fyrir á hverju niðurstaðan væri byggð. Einn af þeim fyrstu, sem skoðaði Rauðhóla, var Frakkinn Eugéne Robert, sem var jarðfræðingur í leiðangri Paul Gaimards 1835—1836. Telur hann hólana gervigígi, en getur ekki um, hvaðan hraunið sé komið. Skýring hans virðist þó hafa fallið í gleymsku í meira en 100 ár. Síðan hafa margir um þetta mál fjallað, og skoðanir verið skiptar, hvað snertir uppruna hólanna.
Þegar Þorleifur Einarsson (1960) vann að jarðfræðirannsóknum á Hellisheiði og á svæðinu austan við Bláfjöll, athugaði hann forna eldstöð suðaustan undir Bláfjöllum, skammt sunnan við Ólafsskarð. Þessir gígir nefnast Leitin, og komst Þorleifur að þeirri niðurstöðu, að þar væru upptök hraunsins og nefndi það því Leitahraun.

Leið hraunsins rakin

Leitarhraun

Leitarhraun – uppdráttur.

Ekki verður Leitahraun hér rakið lengra en austur að Draugahlíðum, en þaðan má rekja það óslitið alla leið út í Elliðavog. Það hefur fallið í þröngum fossum niður af Bolaöldum og Vatnaöldum, sem hvort tveggja eru misgengishjallar, en breiðst nokkuð út þar á milli, og niður á Sandskeið. Ekki verður séð, hvað langt það nær þar til suðurs, því sandlög hylja það, en líklegt virðist, að það sé undir svifflugvellinum a.m.k. Sandlög þessi eru framburður úr gili, sem liggur suður með Bláfjöllum að vestan. Tvö önnur hraun hafa og komið þar sunnan að og er hið eldra þeirra nyrzt líka hulið sandlögum úr þessu sama gili.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Mót þess hrauns og Leitahraunsins eru hulin og því ekki vitað, hvort er eldra. Norðurtakmörk Leitahrauns eru hins vegar nokkuð ljós á þessum slóðum. Það hefur fiætt um sléttuna alla norður með Vatnaási langleiðina norður að Stangarhól og Litla-Lyklafelli. Frá Sandskeiði hefur hraunið svo runnið áfram vestur eftir og myndar víðáttumikla og hallalitla hraunsléttu norðvestur af Fóelluvötnum. Er þessi hraunslétta á kortinu nefnd Mosar. Þegar hraunflóðið var búið að fylla þessa lægð hæðanna á milli, hefur það á ný fallið um þrönga farvegi, þar sem það er sums staðar aðeins fáir metrar á breidd og breiðist ekki út svo teljandi sé, fyrr en það kemur á sléttan flöt, Fossvelli, austan við Lækjarbotna. Þar breiðist það nokkuð út á ný, en suðurtakmörk þess eru hulin yngra hrauni, sem komið hefur sunnan að um skarðið milli Sandfells og Selfjalls. Það hraun endar í hárri brún rétt norðan við beygjuna á þjóðveginum, þar sem hann liggur upp úr Lækjarbotnum. Mun brekka sú heita Fossvallaklif.

Tröllabörn

Tröllabörn – gervigígar.

Hraunið, sem þarna endar og er svo áberandi, hef ég nefnt Hólmshraun II. Augljóst er af því, sem hér er sagt, að Hólmshraun II er yngra en Leitahraun. Fram af áður nefndri brún hefur Leitahraun fallið út á sléttar grágrýtisklappir rétt norðvestur af gamla gististaðnum Lögbegi. Þar er hraunið sums staðar aðeins 0,6—0,75 m þykkt (1. mynd). Má af því marka, hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið. Í þessu sambandi má geta þess, að ég lít svo á, að hér hafi verið um dyngjugos að ræða, og að líta beri á Leitin sem dyngju. Á áðurnefndum stað klofnar hraunið í tvær kvíslar, fellur meginkvíslin vestur, en hin norður með Fossvallaklifi og þekur þá sléttu, sem nú nefnist Nátthagamýri, en við norðurrönd hennar er grunn tjörn, Nátthagavatn. Þarna hafa í hrauninu myndazt nokkrir gervigígir, lágir og lítt áberandi. Hafa þarna verið tjarnir, þegar hraunið rann, og bólstraberg hefur myndazt þar. Megin hraunstraumurinn hélt áfram vestur og breiddist út um sléttlendið vestan við Lækjarbotna hæða á milli. Norðurtakmörkin eru víðast hvar greinileg, en suðurtakmörkin víðast hulin yngri hraunum og er svo allt vestur að Gvendarbrunnum. Þessi hraun eru Hólmshraunin og eru þau fimm að tölu.

Hómsborg

Hólmsborg í Hólmshrauni II.

Skammt vestan við Lækjarbotna koma fyrir gervigígir í hrauninu, eru þar nokkrir mjög snotrir katlar úr hraunkleprum báðum megin við þjóðveginn. Þeir eru nefndir Tröllabörn. Hraunsléttan er svo nær mishæðalaus, þar til kemur nokkuð vestur fyrir Geitháls, en þar eru nokkrir gervigígir við norðurrönd hraunsins í röð, sem nær vestur undir Hólm. Lítið eitt vestar hefur hraun sunnan að runnið því sem næst þvert yfir Leitahraun. Liggur vesturrönd þess hrauns fast að Gvendarbrunnum. Hraun þetta er mjög þunnt. Það hef ég nefnt Hólmshraun I og er það elzt þeirra hrauna. Þau eru komin af svæðinu við Kóngsfell.
Rauðhólar
Nokkru vestar eru svo Rauðhólar eða réttara sagt, það sem eftir er af þeim. Hefur hraunið þar án efa runnið út í vatn og því hafa gervigígarnir myndazt. Fyrir vestan Rauðhóla er hraunið slétt og takmarkar Elliðavatn að norðan og austan, þ.e.a.s. eins og vatnið var áður en Elliðaárnar voru virkjaðar. Það hefur svo runnið um þröngt sund norðan við Skyggni. Myndast svo enn ein hraunsléttan í því og nær hún norður með Selási að vestan. Nyrzt á því svæði þrengist enn á ný um hraunið, og er það mjög mjótt, þar sem vatnsveitubrúin nú er. Svo beygir það vestur, fellur fram af allhárri brún vestan við Árbæjarstíflu, beygir loks til norðurs og endar í flötum tanga í Elliðavogi, nálægt því 300 m norðan við þjóðveginn. Hefur það þá runnið því sem næst 28 km leið frá eldvarpinu.

Rauðhólar

Rauðhólar

Rauðhólar.

Heita má að hin forna fegurð og töfrablær Rauðhólanna sé nú horfinn, og ekki var með öllu ástæðulaust að lítil stúlka, sem fór þar um fyrir nokkrum árum, spurði, hvort þetta væru Rauðholur. Þar standa nú eftir gjall- og hraunstabbar, sem þó eru harla fróðlegir. Oft hef ég komið í þessa sundurrifnu Rauðhóla, en sjaldan farið þaðan án þess að hafa séð eitthvað nýtt.
Það eru tiltölulega fáir staðir til, þar sem skoða má innviðu gervigíga og er nokkurs virði að hafa slíkan stað nálægt höfuðborginni og hinum ört vaxandi háskóla. Ekki þarf að efa, að hraunið hefur þarna runnið út í vatn, og að það er megin orsök myndunar gervigíganna. Hitaveita Reykjavíkur lét bora rannsóknarholu í Rauðhólum 1962. Var þá borað í gegnum Leitahraun, sem á þessum stað reyndist um 7 m þykkt. Undir því var fyrst leirlag um 1 m þykkt, þar eftir jökulurð og loks grágrýti. Ekki náðist sýnishorn af þessum leir, en líklegt þykir mér, að um kísilgúr hafi verið að ræða og sé það botnset hins forna vatns. Þykk lög af því efni eru bæði í Elliðavatni og Vífilsstaðavatni og eru raunar í flestum ef ekki öllum stöðuvötnum hérlendis, þar sem hraun liggja að.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Víða má í gjallstáli Rauðhóla sjá gulnaðan, stundum rauðbrenndan leir, bæði innan í brotnum hraunkúlum og sem laus stykki í gjallinu. Þetta er kísilgúr, sem án efa á rætur að rekja til vatnsins, sem hraunið forðum rann út í og fyllti. Svona má og sjá í gervigígum víða um land, t.d. í Landbroti, við Mývatn og í Aðaldal. Þetta eru ferskvatnsmyndanir.
Fróðlegt er að sjá þarna göng eftir gas, vafalaust að mestu leyti vatnsgufu, og hversu þau eru frábrugðin gasgöngum í eldstöðvum. Í eldstöðinni eru gasgöngin brynjuð innan af hraunglerungi, semer endurbrætt hraun. Slíkt ætti að jafnaði síður að koma fyrir í gervigígum, enda þótt það sé sennilega til. Gæti þetta verið nokkur hjálp við að greina gervigíg frá eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Leitahraun er dæmigert helluhraun. Það hefur verið afar þunnfljótandi, runnið næstum eins og vatn, og vafalaust verið mjög heitt, þegar það rann. Dæmi, sem sanna þetta, má víða sjá í hrauninu. Áður er á það drepið, hvað þunnt það er, þar sem það hefur runnið út á grágrýtisklöppina við Lækjarbotna. Á nokkrum stöðum þar fyrir austan, þar sem vatn hefur grafið inn undir hraunröndina, má sjá hvernig það hefur runnið utan um grágrýtisbjörg og fyllt svo að segja hverja smugu. Loks má geta þess, að nokkuð er um hella í þessu hrauni, þó ekki séu þeir stórir í þeim hluta þess, sem hér um ræðir. Nokkrir eru austur á Vatnaöldum, rétt norðan við gamla þjóðveginn.

Aldur hraunsins

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar og Elliðavatn fjær.

Það eru nú bráðum 20 ár síðan fyrst var gerð aldursákvörðun á mó, sem Jóhannes Áskelsson (1953) fann undir Leitahrauni rétt ofan við brúna yfir Elliðaár. Samkvæmt C1 4 aldursákvörðun reyndist mórinn 5300 ± 340 ár.
Sumarið 1965 lagði Vatnsveita Reykjavíkur nýja vatnsæð til borgarinnar. Var þá sprengdur skurður í gegnum Leitahraun suður og vestur af Elliðaárstöðinni. Við norðurjaðar hraunsins nær beint suður a£ stöðvarhúsunum var hraunstorkan svo þunn, að hún brotnaði undan þungri jarðýtu. Kom þá í ljós, að undir hrauninu var mýri, sem vaxin hefur verið birkikjarri áður en hraunið rann. Mátti þarna tína búta af birkihríslum, sem nú voru orðnar að viðarkolum. Þótti mér rétt að nota þetta efni til nýrrar aldursákvörðunar, og var hún framkvæmd af dr. Ingrid U. Olsson á rannsóknarstofu háskólans í Uppsala í Svíþjóð (U-632). Sú aldursákvörðun sýndi, að gróðurleifarnar eru 4630 ± 90 ára, þ.e. töluvert yngri en samkvæmt fyrri aldursákvörðun. Hefur hraunið því runnið um 2680 árum fyrir okkar tímatal eða á þeim sömu árum og egypzkir verkamenn strituðu við byggingu hins mikla Cheops pýramída á Egyptalandi austur.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.11.1971, Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun – Jón Jónsson, bls. 49-63.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Þverárdalur

Í Þverárdal hefur verið sagt að væri flugvélabrak. Þar áttu að vera leifar af breskri Hawker Hurricane flugvél er farist hafði átt þarna árið 1941. Sögunni fylgdu upplýsingar um að leifar flugvélarinnar væru neðst við fjallsræturnar í vestanverðum dalnum, dreifðar yfir allnokkurt svæði og að erfitt væri að koma auga á það. Aðrir hafa sagt að engar leifar séu þar að finna, allar löngu grafnar undir skriðu.

Hawker Hurricane

Ætlunin var að afla nánari upplýsingar um leifarnar og síðan ganga um dalinn til vettvangsskoðunnar.
Að sögn Karls Hjartarssonar mun óhappið hafa orðið þann 23. september 1941 skv. slysaskráningarskýrslum Breta. Um var að ræða Hurricane I flugvél. Flugmaðurinn fórst þegar flugvélinn skall á hamravegginn í u.þ.b. 1800 fetum. Karl sagðist einhverju sinni hafa leitað ásamt öðrum um allan vestanverðan Þverárdal, en ekkert fundið. Flugvélin átti að hafa lent í bergvegg í u.þ.b. 600 m hæð og brakið fallið niður hlíðina.
Byrjað var á því til gamans sem og af fagurfræðilegum ástæðum að ganga upp Þverárdalinn að austanverðu, með hlíðum Þverfells, vesturhlíða Móskarðshnúka. Þar hallar dalurinn allnokkuð, jafnt og þétt, á fótinn, en þegar komið var inn fyrir dalinn miðjan hallaði hann niður innanvert.
Á vettvangi undir HátindiEfra er bergstandurinn hár og tilkomumikill. Úr honum koma nokkur gil, misstór og mislitótt; ljósbrúnir lækir á annars svörfuðu berginu. Skriður eru innst í dalnum. Þar var gengið niður að Þverá og staðnæmst, skyggnst og gónt upp hlíðar og á snarbratta hamra. Þegar engin verksummerki sáust um aðkomuefni var Þverá fylgt til baka í rólegheitum í von um að finna ummerki eftir flugvélina við árfarveginn. Háar brúnir Hátinds virtust himinháir þar sem staðið var svo til beint undir þeim. Auðvelt var að ganga niður með ánni. Sumsstaðar rennur hún um berar klappir, en annars staðar hefur hún rutt á undan og frá sér malar- og grjótkömbum.
Ekkert bólaði á leifum af umræddri vél, sama hversu vel umhverfið var gaumgæft. Ekkert brak var að sjá í dalnum.
Annar staður gat vel komið til greina – og jafnvel líklegri slysavettvangur, þ.e. Grafardalur – sá næsti að vestanverðu, handan við Grafarkotshálsinn.
Og þá virtist ekki vera um annað að ræða en að halda upp með Grafará og upp í Grafardal með Þverárkotsháls og Hátind (903 m.y.s.) á hægri hönd og Kistufellið (830 m.y.s.) á þá vinstri. Áður var þó ákveðið að staldra við og leita að einhverjum, sem áður hafði gengið um Þverárdalinn og þekkti þar til. Eftir að hafa fundið einn slíkan var aftur lagt af stað inn dalinn, nú upp með honum vestanverðum. Gangan upp eftir tók um 50 mínútur, enda bæði blankalogn og steikjandi sólarhiti.
Á vettvangi undir HátindiSlysstaðurinn í Hátindi hefur haft á sér þjóðsagnakenndan blæ. Einhverjir hafa vitað af slysinu, en örfáir komið á vettvang. Nokkrir hafa leitað að leifum vélarinnar, en ekki fundið. Hefur jafnvel verið álitið að allar leifar flugvélarinnar hafi grafist undir skriðu í fjallshlíðinni. Af ummerkjum að dæma var það þó ekki að sjá. Í breiðri skriðu neðan undir tilkomumiklu ónafngreindu gili voru allnokkrar leifar Hurricaneflugvélarinnar. Skriðan er hins vegar bæði stór og breið svo henni hefur auðveldlega tekist að breiða sig yfir meginhluta vélarinnar á þeim 66 árum, sem liðin voru frá óhappinu. Vel mátti t.a.m. grjótsjá afurðir vetrarins í skriðunni. Þarna var huti vængs, fótabúnaðar, flapsastýrisstangar o.fl. o.fl. Meginleifarnar voru í 1200-1300 f.y.s., en þó var ákveðið að feta skriðuna upp í 1800 fetin. Þar var engar leifar að sjá, enda augljóst ef einhreyfilsflugvél með svo öflugum hreyfli sem hurricane-vélin var með flygi á sléttan bergvegginn myndi fátt vera eftir til stórræðna.
Hawkins Hurricane flugvélarnar, sem fluttar voru hÁ vettvangi undir Hátindiingað til lands, komu í kössum og voru settar saman hér. Þegar meiri þörf var fyrir þær annars staðar voru þær teknar í sundur, settar í kassa og síðan skipað um borð í eitthvert flutningaskipið á leið til Englands.
Saga Hurrican-vélanna er að mörgu leiti merkileg.
Árið 1938 hóf RAF (Konunglegi breski flugherinn) að taka Spitfire Mk. I í notkun. Flugmennirnir tóku strax miklu ástfóstri við vélina, enda var hér um að ræða risastökk fram á við, hvort sem menn höfðu áður flogið Gloster Gladiator eða fyrstu einþekju-orrustuvél RAF; nefndri Hawker Hurricane – en sögu Hurricane-vélarinnar var þó hvergi nærri lokið enn.
Hawker Hurricane var fyrsta einþekja Breta í seinni heimstyrjöldinni. Á næstu mánuðum var smám saman unnið að því að útbúa fleiri orrustuflugsveitir með þessu nýja stolti RAF. Það gekk þó ekki jafn hratt og menn hefðu óskað, enda voru fjárveitingar af skornum skammti og því engin plön um að skipta eldri tegundum alveg út í bráð. Ýmsar smávægilegar endurbætur voru þó gerðar á vélinni, t.d. var upphaflegu loftskrúfunni, tvíblaða Á vettvangi undir Hátindi“fastri” tréskrúfu, skipt út fyrir nýja þríblaða málmskrúfu með breytilegri aðfallsstillingu (variable pitch – constant speed propeller), sem nýtti afl hreyfilsins mun betur, líkt og gert hafði verið við eldri flugvélategundir.
Þegar Seinni heimsstyrjöldin hófst í september 1939, áttu Bretar aðallega þessar Hawker Hurricane, en einnig Boulton-Paul Defiant.
Hawker, aðalhönnuður Sydney Camm’s Hurricane raðarinnar er í rauninni einn vendipunkturinn í sögu flughernaðarins. Flugvélin reyndist vera sú þrautseigasta í baráttunni um Bretland sumarið 1940 – þegar Leifturstríð Nazistanna virtist óstöðvandi. Þessar flugvélar sinntu einnig öðrum hlutverkum á stríðsárunum, allt til enda. Hurricaninn var fyrsta breska einþekjuorrustuvélin, sem fyrr sagði, og fyrsta orrustuvélin til að komast 483 kph (300 mph) í beinu flugi. Upphaflega hafði flugvélin þó verið hönnuð og Á vettvangi undir Hátindiþróuð frá því um miðjan fjórða áratug aldarinnar. Í fyrstu varð niðurstaðan sú að einþekjur væri álitnar óstöðugar og of rótækar til að geta skilað tilætluðum árangri sem orrustuflugvélar. Framtíð henar virtist því ekki álitleg.
Árið 1925 var Camm tilnefndur sem aðalhönnuður „H. G. Hawkers Engineering Company“, fyrirrennara „Hawkers Aircraft Ltd.“ Á því ári hannaði Camm einþekjuorrustuvél og þótt hún væri ekki fullbyggð skyldi hann vel að tvíþekjur gætu aldrei farið hraðar en einþekjur. Tveir vængir orsökuðu einfaldlega meiri dragvind en einn. Kominn var því tími til dramatískra ákvarðana í orrustuflugvélatækninni. Árið 1933, undir stjórn Camms, byrjaði Hawkers-hönnunarliðið að vinna að nýrri einþekju. Formleg ákvörðun um hönnunina var tekin í hernaðarráðuneytinu breska í ágúst 1935. Camm og lið hans völdu vatnskælda 660 hestafla Rolls-Royce Goshawk vél sem afl fyrir hina nýju flugvél. Hún var kölluð „the Fury Monoplane“. Fljótlega vék hann þó fyrir nýrri hreyfli, fyrirrennara hins þjóðkunna „Rolls-Royce Merlin“-hreyfils fyrir valinu. Flugvélin flaug fyrsta sinni 6. nóvember 1935.
Um 600 frumgerðir voru gerðar af flugvélinni fyrir 3. júní 1936. Þetta var ein stærsta framleiðsluáætlun, sem gerð hafði verið á friðartímum. Þann 27. júní var Hurricane- vélin fyrst skírð.
Hurrican-vélarnar spiluðu stórt hlutverk í Seinni heimstyrjöldinni, einkum í Orrustunni um Bretland á tímabilinu júlí og október 1940.
Orrustunni um Bretland lauk snemma í nóvember þegar Skriðan niðurávið - Þveráin neðstGöring skipaði þýska flughernum að varpa sprengjum á breskar borgir að næturlagi. Þá var Hurricane flugvélunum breytt þannig að þær voru búnar búnaði til að geta séð að næturlagi – svo og öflugri hreyfi. Þær voru því sniðnar að því að fljúga í myrkri.
Meira en 4,700 Hurricane-flugvélar voru smíðar í fyrstu – til mismunandi nota. Þær voru ýmist búnar 40 mm fallbyssum undir vængjum, sem flutningavélar eða til skyndiárása á hersveitir á jörðu niðri. Í september 1944 höfðu 12.233 slíkar flugvélar verið smíðaðar, sem segir nokkuð um þörfina og notagildið á þessum árum.
Staðreyndin er að leifarnar undir austurhlíðum Hátinds eru vitnisburður um flugslys á sögulegum tíma. Þótt þær virðast hvorki merkilegar í augum fornhandritasérfræðinga né nútíma sjónvarpsþáttagerðastjórnenda eru þær óneitanlega áþreifanlegur vitnisburður um tvennt; örlög flugmanns (einstaklings með þrár og kenndir) sem og fórnarlambs fjöldans í „laklegri“ stjórnunarmynstri tímabilsins sem og tækniþróun þess tíma, en jafnframt sinnuleysi þeirra er fullnægja eiga nú sögulegri heimildaskráningu og upplýsingu til almennings þessa lands, sem bæði vill njóta útivistar og fræðast. Á vettvangi, undir austurhlíð Tátinds, er a.m.k. hvergi að sjá fróðleik þetta sögulega atvik frá 23. september 1941.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Þverárdalur

Hawker Hurricane.

 

Lambagras

FERLIR hafði áður skoðað tóftir gamla bæjarins að Elliðakoti, sem eru á ási norðan Nátthagavatns.
ÚtihúsNú var ætlunin að skoða heiðina ofan bæjarins. Ljóst var að fenginni reynslu, þrátt fyrir nokkrar dýrar fornleifaskráningar og -kannanir vegna vega- og virkjunarfram-kvæmda, að hvergi væri þar allra sýnilegra minja getið. Svo virðist sem fornleifafræðingar hafi við þá vinnu valið auðveldasta kostinn; rakið vörður og gamlar þekktar götur, en ekki lagt á sig að fara um svæðið fet fyrir fet, enda bæði erfitt og tímafrekt – og tíminn eru jú peningar þegar slík vinna er annars vegar. En hvers á verkkaupinn að gjalda?
Einkennandi fyrir tóftirnar að Elliðakoti, sem enn standa, eru reglulega tilhöggvnir steinar, allir að svipaðri stærð. Um er að ræða stórt skepnuhús og annað minna, líklega sauðakofa, sem breytt hefur verið í hænsnahús. Íbúðarhúsið hefur staðið á grunni vestan skepnuhússins.
Heimagarðurinn er í brekku á móti suðvestri. Heimtröðin er norðan hans. Gamlir Útihúshleðslugarðar umlykja heimatúnið. Norðaustan í því eru garðar umhverfis matjurtargarð. Sunnan bæjarins, á klapparholti, er snyrtilega hlaðin tóft. Ekki er að sjá að tóftin hafi verið þekjuð eða notuð. Þó gæti hafa verið hlið í henni framanverðri. Þá gæti þana verið um að ræða „sýningarbás“ í vegghleðslu með grjótinu úr námunni, en í holtinu er steinnáma og þar hefur að öllum líkindum mest af grjótinu í skepnuhúsin og önnur hlaðin hús verið sótt. Stafaáletrun er á einum steini útihúsanna.
Bærinn hefur staðið undir lágu hamrabelti. Ofan hans liggur gata um Miðdalsheiði, framhjá Selvatni og áfram upp með Lyklafelli, Draugatjörn og að Kolviðarhól annars vegar og hins vegar áleiðis að Grafningi við Þingvallavatn. Um er að ræða svonefnt nyrðra vegarstæði á þjóðleiðinni austur fyrir fjall, en deilur stóðu um það um 1880 á hvora leiðina ætti að leggja áherslu m.t.t. til samgöngubóta. Þessi leið var ákjósanlegri þar sem hún sneiddi ofan við Fóelluvötn og þær ófærur sem Sandskeiðið var.
VarðaBúið var í Elliðakoti fram til 1940. Brá þá síðasti bóndinn búi. Búið var þó í húsnum fram til 1948 eða 1949. brunnu húsin þá og fór jörðin þar með endanlega í eyði.
Þegar farið er um þetta svæði er hvergi merkingar að sjá. Engar aðgengilegar upplýsingar er að fá um það. Í fornleifaskýrslum er einungis fjallað um vörður og einstaka tóft, en hvergi svo vitað sé um um býlin sjálf, fólkið og minjarnar. Svæðið í heild er mjög fallegt og ákjósanlegt til útivistar, en sagnfræðilega einangrað. Hvort það er af ásettu ráði eða ekki skal ósagt látið.
TóftirSem fyrr sagði hafði áður verið farið um tóftir Elliðakots. Einnig hafði verið farið um svæðið nærliggjandi neðanvert (sjá HÉR). Að þessu sinni var  haldið um það ofanvert. Sem og búast mátti við voru þar vörður við gamlar leiðir, s.s. Konungsvegina 1907 og 1930 og Austurleiðina um Lyklafell og Hellisskarð. En það sem vakti sérstaka athygli, og virðist af einhverjum óskiljanlegri ástæðu ekki hafa verið skráð, eru útihús frá Elliðakoti. Um er að ræða hlaðin þrískipt samliggjandi hús. Dyr á vestasta rýminu snýr mót vestri og dyraveggurinn stendur enn að mestu, u.þ.b. 160 cm hár þar sem hann er hæstur yfir dyrum. Miðrýmið hefur haft op á mót suðri sem og austasta opið. Þetta mannvirki er að öllum líkindum frá síðustu búsetuárum Elliðakots því veggir hafa að mestu leyti verið byggðir úr timbri en með hlöðnum grunnveggjum. Lambagrasið í nánd gaf tilganginn til kynna. Umhverfis eru án efa um fleiri minjar – ef vel væri að gáð.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Hið agnarsmáa

Rauðarárholt

Í „Sjómannadagsblaðinu“ árið 2013 er m.a. fjallað um „Reykjavíkurvita“:

Engeyjarviti

Engeyjarviti.

„Allt frá því að þéttbýlismyndun hófst í landinu hefur Reykjavík verði í hópi stærstu verbúða landsins og er það enn. Sker og eyjar á Engeyjarsundinu hafa gegnum árin og aldirnar gert sjómönnum erfitt fyrir. Vitar og innsiglingarmerki hafa því skipt sjófarendur miklu máli.
Sögu Reykjavíkurvita, sem reyndar hefur gengið undir mörgum nöfnum, má rekja allt til ársins 1870. Þá kom Hafnarnefnd Reykjavíkur því til leiðar að sett var upp ljósker við Batteríið við Arnarhól, á svipuðum slóðum og Sænska frystihúsið reis síðar. Sama ár var ljósker sett upp í Engey.

Batteríið

Reykjavík – Batteríið lengst til vinstri.

Ljóskerið á Batteríinu þjónaði sæfarendum til ársins 1897 en þá ákvað Hafnarnefnd Reykjavíkur að reisa myndarlegan innsiglingarvita austarlega í Skuggahverfinu, á Helgastöðum við Lindargötu 65, skammt austan Bjarnaborgar. Vitatorg og Vitastígur draga nöfn sín af vitanum.

Rauðarárholt

Rauðarárholt 1946. Vatnsgeymarnir og vitinn.

Danska vitamálastjórnin teiknaði Skuggahverfisvitann og útvegaði þau tæki sem vitinn þarfnaðist. Vitinn var ferstrendur tveggja hæða turn. Jarðhæðin var hlaðin úr steini en efri hæðin var úr timbri, klædd listaþili. Olíugeymsla var á neðri hæð vitans en ljóshús og varðstofa á efri hæð. Á neðri stafninum var gluggi ljóshússins og járnsvalir framan við.
Í Skuggahverfisvitanum var í upphafi steinolíuljós, spegill og snúningstæki sem tók ljósið af með vissu millibili. Þar voru mislit ljóshorn, grænt, hvítt og rautt, sem voru samstillt ljóshornum Gróttuvita.

Sjómannaskólinn

Sjómannaskólinn – vitinn.

Árið 1911 var vitinn gasvæddur en þá fékkst skýrara ljós sem auðveldara var að greina frá öðrum ljósum bæjarins. Spegill vitans var fluttur í Engeyjarvita en snúningstækið í Arnarnesvita. Árið 1925 var vitinn endurbættur að nýju. Þá voru sett upp ný gasljóstæki með glóðarneti.
Eftir því sem byggðin í Reykjavík færðist austar á bóginn varð erfiðara að greina vitaljósið og því var Skuggahverfisvitinn lagður niður. Árið 1927 tók við annar viti, sá var uppi á vatnstönkunum á Rauðarárholti og var starfræktur til árisins 1944.
Ljóst var að finna þurfti innsiglingarvitanum varanlegan stað og þótti kjörið að koma honum fyrir í turni Sjómannaskólans sem þá var í undirbúningi. Þá var sagt að vitinn væri kominn á topp æðstu menntastofnunar sjómanna og mundi þaðan lýsa sjómönnum örugga leið í höfn og vera um leið yndisauki fyrir íbúa Reykjavíkur og stöðug áminning um mikilvægi sjómanna fyrir land og þjóð.
Vitinn er enn í Sjómannaskólanum en hann nýtist ekki sem skyldi því sjómenn sjá hann ekki lengur, háa turnhýsið við Höfðatorg byrgir þeim sýn. Og þá er spurning hvort nýr viti verði reistur í Reykjavík í framtíðinni.“

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 30.05.2013, Reykjavíkurviti, bls. 34.

Reykjavíkurviti

Skuggahverfisviti í Reykjavík var geislaviti sem ætlað var að lýsa leiðina inn á leguna við Reykjavík.

 

Arnesarhellir

Oscar Clausen ritar um Arnes útileguþjóf í Lesbók Morgunblaðsins árið 1941:

Arneshellir

Í Arneshelli í Garðabæ.

„Frá Arnesi útileguþjóf er sagt í þætti Gísla Konráðssonar [Lbs. 1259 4to.] af Fjalla-Eyvindi, Höllu og fjelögum þeirra, en af því að Arnes er eiginlega sögulegasta persónan í þessu fjelagi, að Eyvindi undanskildum, er ekki úr vegi að segja nokkuð sérstaklega frá honum.
Arnes var Pálsson og ættaður af Kjalarnesi og er sagt að foreldrar hans hafi haft mikið dálæti á honum í uppvextinum og alið hann upp í eftirlæti, og ekkert vandað um við hann þó að hann sýndi varmensku og ójöfnuð á unglingsárunum. Hann var þegar á unga aldri hinn knálegasti maður og svo fóthvatur að fáir hestar tóku hann á hlaupum, þó að þeir væru vel fljótir, en harðgeðja var hann og grimmur í skapi og fram úr hófi fégjarn. — Þegar Arnes var orðinn iitileguþjófur var lýst eftir honum á Alþingi 1756 og er honum þá lýst svo, að hann væri smár vexti, smá- og snareygður, með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur, með litla vörtu hárvaxna neðarlega á kinninni, gjörnum á að brúka það orðtak „karl minn“. En síðar er honum lýst svo: „Lágur vexti, þrekinn, kringluleitur, þó kinnbeinahár, munn við hæfi, litla höku, snar og dökkeygur, dökkur á háralit, mælti við völu“. —
Eftir Akrafjallsveruna sprettur Arnes, fyr en varir, aftur upp á fornum stöð um og gjörir nú vart við sig við Elliðaárnar fyrir innan Reykjavík. Þar var þá þófaramylla frá klæðaverksmiðjum Skúla fógeta, í Reykjavík og gætti hennar danskur maður, — bóndi frá Sjálandi — og bjó hann á Bústöðum. Einn morgun var sá danski snemma á ferli og gekk til myllunnar, en sá þá að gluggi var þar brotinn og þegar hann gáði inn, sá hann hvar maður lá sofandi á gólfinu og hafði staf og poka sjer við hlið. — Sá danski greip þetta hvorutveggja og hljóp með það heim til Bústaða, en skömmu síðar vaknaði hinn sofandi maður og elti hann. Bóndinn kallaði þá til konu sinnar og sagði henni að senda ,,meystelpu“, sem hjá þeim var til Reykjavíkur og láta bókhaldara verksmiðjanna vita hvað í efni væri. Hann sagði henni að láta ,,meystelpuna“ fara út um reykháfinn á eldhúsinu svo lítið bæri á og biðja menn í Reykjavík að bregða þegar við og koma sem fljótast, því að sjer litist mjög illa á gestinn, sem kominn væri til sín. —

Arnesarhellir

Arnesarhellir við Elliðaár.

Í bæjardyrunum snjeri sá danski sjer við og hafði járn í hendinni, en í því bar komumann þar að, en það var Arnes og heimtaði hann nú staf sinn og poka. Bóndi neitaði að láta það af hendi og sagði Arnesi að hann skyldi þá reyna að ná því úr greipum sjer. Ekki þorði Arnes að ráðast á karlinn, en eftir nokkur orðaskifti og heitingar á milli þeirra varð það úr, að Arnes gekk í bæinn og þáði heita mjólk, hefir eflaust verið orðinn langsoltinn. — Bústaðabóndinn gerði nú allt til þess að tefja fyrir Arnesi og var altaf, öðru hvoru, að hlaupa fram í bæjardyrnar til þess að gá að hvort nokkur kæmi úr Reykjavík. Hann var í þungu skapi og setti járnið um þverar dyrnar, en var svo sjálfur fyrir framan svo að Arnes kæmist ekki út. Arnes var hvergi smeikur og gjörði nú skyndiáhlaup á þann danska. Hann hljóp til og greip járnið, en snaraði sjer síðan að bónda og skelti honum flötum á ganginn, tók staf sinn og poka og hljóp út úr bænum og yfir á Digranesháls. Þaðan sá hann svo til hóps manna úr Reykjavík, sem voru komnir innan til á Öskjuhlíðina og hjeldu nú með Bústaðaholti. Bóndi hjelt nú til móts við þá og svo labbaði allur skarinn inn. að Elliðaám. Þegar þangað kom, þorðu þeir ekki yfir árnar, þótti þær ófærar gangandi mönnum og hjeldu upp með þeim, en Arnes hafði hlaupið yfir þær þar efra og sáu þeir á eftir honum. Snjór hafði fallið og var því sporrækt. Eltu þeir nú Arnes þrjátíu í hóp, flest vefarar úr Reykjavík, en þegar Arnes sá þá veita sjer eftirför, sneri hann við og hvarf þeim. Þeir ráku þá för hans suður að Hofsstöðum norðan Vífilsstaðavegs. Hljóp hann þaðan í Garðahraun yfir Vífilsstaði eða Hraunlæk, en þeir eltu hann enn. Arnes tók nú það ráð að halda sig hrauninu og stikla á hraunstríkum, svo að ekki sáust spor hans, enda mistu þeir af honum og leyndist hann í hrauninu um nóttina. Ekki gáfust Reykvíkingar samt upp við þetta og var nú safnað enn meira liði til leitarinnar að Arnesi. —  Um kvöldið var sent til Hafnarfjarðar, um Álftanes og í Garðahverfið að smala mönnum og skipuðu þeir sjer kringum hraunið uni nóttina, því að ekki átti Arnes að sleppa. Allan daginn eftir var hans leitað, en alt var það að árangurslausu og að svo búnu fóru leitarmenn hver heim til sín og þótti ver farið en heima setið. Ekki var grunlaust um, að einhverjir þarna ekki langt frá hefðu hjálpað Arnesi og leynt honum, og voru hjónin á Hofsstöðum tekin föst og sökuð „um bjargir“ við Arnes, en að lÖgum mátti honum enginn bjargir veita eða verða honum að nokkru liði, og er það harla einkennilegt þar sem hvergi sjest að hann hafi þá verið dæmdur fyrir þjófnað. Þessi Hofstaðahjón meðgengu það, að þau hefðu ..haldið Arnes á laun“ tvo eða þrjá vetur, soðið fyrir hann matvæli og hjálpað honum á ýmsa vegu. — Sýslumaður í Gullbringusýslu var þá Guðmundur Runólfsson, Jónsson frá Höfðabrekku. Hann hafði þessi mál með höndum og dæmdi hann hjónin á Hofsstöðum í miklar fjesektir fyrir það að hafa liðsinnt þessum hælislausa afbrotamanni. — Um þessar mundir var mikið um þjófnaði á Suðurlandi og var það mest kent útileguþjófum, en samt var það nú ekki fyrr en eftir þetta að Arnes lagðist út fyrir fult og alt, og yfirgaf mannabygðir. Það er nú af Arnesi að segja, að hann leyndist í Hafnarfjarðarhrauni altaf meðan á leitinni stóð og leitarmennirnir voru þar að verki og úr hrauninu fór hann ekki fyr en leitinni var hætt og allir voru farnir heim til sín. Áður en hann yfirgaf hraunið faldi hann vel og gróf peninga sína, en þeir höfðu verið í pokanum, sem Bústaðabóndinn danski hafði hrifsað frá honum, þegar hann kom að honum sofandi í þófaramyllunni, og honum hafði verið svo annt um að ná aftur. — Ekki þorði Arnes að hafast við í nágrenni höfuðstaðarins, en brá sjer inn fyrir Hvalfjörð og gjörðist nú útilegumaður.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Síðaan brá hann sjer til æskustöðvanna, suður á Kjalanes og lagðist í Esjuna, og fór þá jafnskjótt að hverfa fjenaður manna. Í Esjunni urðu menn fyrst varir við Arnes þannig, að hann sást oft fáklæddur á hlaupum í hitum að sumrinu og var hann þá að afla sjer eldiviðar til þess að sjóða við slátur það, sem hann hafði stolið. Stundum sást hann koma hlaupandi úr fjallinu ofan í byggð til þess að stela sjer mat og öðru, sem hann þá vanhagaði um. —
Það ljek líka orð á því að Arnes ætti eitthvert hæli eða athvarf einhversstaðar í byggðinni þegar honum lægi mest á og margt þótt ust menn verða varir að hann hefði haft saman að sælda við bóndann í Saltvík á Kjalarnesi sem Þorkell hjet Tómasson, og svo fannst líka fjársjóður, sem Arnes átti og hafði falið einhversstaðar og var það ekki nein smáræðisupphæð, 20 spesíur, 8 dalir krónuverðs og 12 dalir sléttir. — Þorkell í Sandvík var bendlaður við að hafa haft þessa peninga með höndum fyrir Arnes og þótti nú augljóst að Arnes lægi einhversstaðar í Esjunni. — Þegar sýslumaðurinn, Guðmundur Runólfsson frjetti þetta, sendi hann menn til þess að ná Arnes og taka Þorkel bónda í Sandvík fastan og færa sjer þá báða. Var nú safnað liði á Kjalarnesi og leitað fjallið. Fannst hreysi Arnesar, en sjálfur komst hann undan og er sagt, að hann hafi þá átt fótum sínum fjör að launa, þó segja sumir að í þetta skifti hafi hann brugðið fyrir handahlaupum, en talið er ólíklegt að hann hafi þurft þess, þar sem hann var svo frár á fæti að fljótustu hestar höfðu hann ekki á sprettinum.
Eftir að yfirvaldið hafði komið hendur yfir Arnes og flutt í Gullbringusýslu var hann oft lánaður í vinnu að Bessastöðum og er sagt, að alt af, þegar færi gafst. Hafi hann vitjað peninga sinna, sem hann hafði grafið í Garðahrauni og tekið var eftir því, að aldrei skorti hann aura.
Arnes kom sjer svo vel í vinnunni á Bessastöðum, að Wibe amtmaður fjekk konung til þess að náða hann að fullu. Sagt er, að Arnes hafi með snarræði sínu bjargað heilli skipshöfn úr sjávarháska á Álftanesinu, en allar kringumstæður að því eru gleymdar.
Arnes varð gamall maður, en varð aldrei snauður og hafði altaf nokkur peningaráð. Þó að alt væri honum andstætt og öfugt fyrri hluta æfinnar, þá var hann á elliárunum vel látinn af öllum, sem hann kyntist. Að lokum var Arnes niðursetukarl í Engey og þar dó hann 91 árs gamall 7. september 1805 og var jarðaður fjórum dögum síðar í kirkjugarðinum í Reykjavík. Þar hvíla lúin bein hans.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 13. júlí 1941, bls. 233-235.
-Lesbók Morgunblaðsins 17. ágúst 1941, bls. 277-278.

Arnes Pálsson

Fylgsni Arnesar í Elliðaárhólma.

Aðalstræti

Henry A. Hálfdansson skrifar m.a. um fyrstu búsetu í Reykjavík í Sjómannadagsblaðið árið 1966:
„Enginn getur nú með vissu sagt, hvar Ingólfur og Hallveig byggðu sinn fyrsta bæ í Reykjavík. Þótt öndvegissúlurnar bæri á land annaðhvort á Kirkjusandi eða Rauðarárvík, töldu þau sér áreiðanlega heimilt að byggja sér heimili þar, sem þeim sýndist bezt í landareigninni. En hvar var það? Landnáma segir, að Ingólfur hafi reist bæ sinn í Reykjavík við Arnarhól neðan við Heiði. Þetta fyrir neðan Heiði, er enginn afmarkaður staður, samanber að framan. Skáli sá hinn mikli, sem hann reisti undir öndvegissúlur sínar og sem enn stóðu þar seint á Sturlungaöld, gæti hafa staðið hvar sem er á hinu gamla Arnarholti, sem nú er uppnefnt og kallað Skólavörðuholt.
Sennilegast er, og það mun álit flestra, að skáli Ingólfs hafi staðið einhvers staðar þar, sem nú er Landsbókasafnið og stjórnarráðshúsið Arnarhvoll, eða ekki allfjarri Lindinni, því varla hefur hann verið reistur langt frá drykkjarvatni. Þarna stóð líka bærinn Arnarhóll, sem hefur verið aðalbýlið í Reykjavík frá fyrstu tíð.
Af hverju jörðinni var skipt og annað býli var reist niður í kvosinni, sem kallað var Vík, það getur enginn maður sagt með neinni vissu, en auðvitað mun Ingólfur hafa haft víða útróðra- og búðsetumenn. Hann hefur reyndar strax reist fleiri bæi en Arnarhól og sett þar yfir hjón sín eða skyldulið. Má þar t. d. nefna úti á Nesi, inni í Lauganesi, í Gufunesi, Árbæ, Elliðavatni, svo maður tali ekki um eyjarnar, og þó lengra sé leitað.
skali-221Ingólfur var ekki við eina fjöl felldur í þeim efnum, og nægir í því sambandi að benda á Skálafell. Það er hinn eini staður, sem öruggar heimildir eru fyrir, að hann hafi byggt á, svo nákvæmt sé. Skálafellið blasir vel við frá Arnarhóli. Þar uppi er eitt það dásamlegasta útsýni, sem hugsazt getur. Þaðan getur maður séð Þingvelli og Reykjavík frá einum stað. Þaðan hefur verið hægt að sjá mest af landnámi Ingólfs. Það er því ekki að furða, þótt Ingólfur fengi augastað á Fellinu og kysi að dvelja þar í tómstundum.
Ef einhver er spurður að því, hvar sé hjarta Reykjavíkur í dag, stendur það í flestum, að gefa rétt svar. Þeir meira aS segja nefna ótal staði, sem á engan hátt eiga við hinn rétta. Þó er hjartastaður Reykjavíkur í dag nákvæmlega sá sami og daginn, sem Ingólfur gaf Víkinni nafn.
Þesst staður er Héðinshöfði, skammt þar frá sem bráðabirgða ráðhús borgarinnar stendur núna og nálægt þeim stað, þar sem framtíðar lögreglustöð borgarinnar er að rísa. Það er eins og enginn hafi tekið eftir þessu nema Einar skáld Benediktsson, er valdi sér þarna búsetu á sínum tíma og gaf staðnum nafn eftir æskuheimili sínu við Húsavík.“

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 29. árg. 1966, 1. tbl. bls. 15-18.

Arnarhóll

Reykjavík og nágrannajarðir 1703.

„Hegningarhúsið er hlaðið steinhús reist árið 1872 af Páli Eyjólfssyni gullsmið. Húsið var friðað 18. ágúst árið 1978 samkvæmt 1. málsgrein 26. og 27. greinar þjóðminjalaga nr. 52/1969 og tekur friðunin til ytra borðs þess ásamt álmum til beggja hliða og anddyri með stiga. Hæstiréttur var þar til húsa á árunum 1920 – 1949.
Í hegningarhúsinu voru sextán fangaklefar, litlir og þröngir og loftræsting léleg. Fangaklefarnir voru auk þess án salernis og handlaugar. Á efri hæð voru skrifstofur og salur sem áður hýsti bæjarþingsstofuna, Landsyfirrétt og síðar Hæstarétt þar til hann flutti í nýbyggingu við Lindargötu árið 1947.
„Fyrsti fanginn kom í hegningarhúsið fyrir 80 árum. Árið 1869 voru sett ný hegningarlög fyrir Ísland og hafði stiórnin samið þau mjög eftir danskri löggjöf. Var tekið fram í lögunum sjálfum að þau skyldi taka gildi 1. ágúst 1870, en þó sleginn sá varnagli, að þeim skyldi ekki beitt fyrr en skilyrði væri fyrir hendi. Mun hafa verið svo til ætlazt að mörg fangahús væri þá komin upp og allsheriar hegningarhús fvrir land allt í Reykjavík. En dráttur varð á því, og þess vegna var þessi varnagli sleginn. Það var ekki fyrr en árið 1871 að mæld var út lóð í Efri-Þingholtunum í Reykjavík, við Skólavörðustíginn, handa hinu fyrirhugaða hegningarhúsi. Átti þetta að verða allmikið hús á þeirra tíma mælikvarða og byggt úr steini.

Að sjálfsögðu var Íslendingum ekki treyst til þess að reisa svo vandað og mikið hús, og voru fengnir danskir menn til að standa fyrir smíðinni, Bald timburmeistari og Liiders múrari. Reykjavíkurbær lagði fram 4135 rdl. 53 sk. til byggingarinnar og Hegningarhúsið í Reykjavík tryggði sér um leið 200 ferálnir í húsinu til sinna þarfa. Fékk bærinn þarna tvær stofur til umráða. Annað var þingstofa bæjarins, sem enn er þarna, en hitt var svonefndur „borgarasalur“. Átti að halda þar almenna borgarafundi, en til þess var stofan brátt of lítil. Í þessari stofu var hæstiréttur frá því að hann var stofnaður og þangað til hann fluttist í hin nýju húsakynni sín á Arnarhóli. Nú er þetta hluti af íbúð yfirfangavarðar. Smíði hússins gekk heldur seint, en þó var henni lokið að mestu árið 1873. En áður en húsið væri tekið í notkun, þótti nauðsynlegt að setja lög um hegningarvald það, er veita skyldi stjórn hegningarhússins. Frumvarp um þetta lagði stjórnin fyrir Alþingi 1873, en þingið neitaði algjörlega að fallast á það.“
Alþingi taldi það vegna ómannúðlegt. Sendi það frumvarpið frá sér með beiðni til konungs um að það yrði ekki gert að lögum.
Þessi afstaða Alþingis var að engu höfð, og var frumvarpið óbreytt gefið út 5. janúar 1874 sem tilskipun um stjórn hegningarhússins.
Með tilskipun 28. febrúar s. á. var svo ákveðið að frá 15. ágúst skyldi öll hegningarvinna, sem menn væri dæmdir til hér á landi samkvæmt hinum nýu hegningarlögum, úttekin í hegningarhúsinu í Reykjavík. Enn voru og gefnar
út reglur 22. júní 1874 um meðferð fanga og mataræði, og var allt þetta samið eftir dönskum lögum og tilskipunum.
Seint á þessu ári flyzt fangavörðurinn, Sigurður Jónsson, í húsið með fjölskyldu sína. En fyrsti fanginn kemur ekki þangað fyr en 26. janúar 1875, og eru því liðin rétt 80 ár á miðvikudaginn kemur frá þeim atburði. Er því ekki úr vegi
að athuga hvað þessi maður, er svo að segja vígði hegningarhúsið, hafði til saka unnið.
Fyrstu afbrotin: Maður þessi hét Guðlaugur Sigurðsson og var fæddur í Reykjavík 8. júlí 1852. Árið 1872 er hann talinn til heimihs í Grjóta hjá móður sinni, Sigrúnu Guðlaugsdóttur, sem var ekkja. Hann er þá tvítugur að aldri. Þar er einnig bróðir hans Sigurður, tveimur árum eldri. Þá átti margt fólk heima í Grjóta. Voru þar talin sjö heimili og tveir lausamenn, samtals 31 maður. Svo virðist sem Guðlaugur hafi um þessar mundir lagzt í óreglu, og kemst hann undir manna hendur þá um sumarið.
Hinn 3. ágúst er dómur felldur yfir honum í aukarétti Reykjavíkur í máli, sem réttvísin hafði höfðað gegn honum fyrir þjófnað og gripdeildir. Er þess þar getið, að hann hafi aldrei sætt ákæru fyr. Nú er hann borinn ýmsum sakargiftum og hefur meðgengið allt. Fyrsta afbrot hans er talið það, að haustið áður hafi hann hnuplað hnakk og tveimur kössum og falið undir bát niðri í fjöru. En ekki var felustaðurinn öruggari en svo, að menn fundu þetta og var þýfið tekið af honum. Virðist svo sem ekki hafi verið gert meira úr því að sinni, en það er nú rifjað upp, þegar aðrar sakir bætast við. Þá var honum gefið að sök að hafa farið inn í hús Robb kaupmanns, sem var opið, og gengið rakleitt inn í stofu og stolið þar áttavita og sálmabók. Hvort tveggja mun þó hafa verið tekið af honum aftur og þjófnaðurinn ekki verið kærður. En svo var það í júnímánuði þá um sumarið, að Guðlaugur kom inn í einhverja búð hér í bænum og sá poka liggja þar á gólfinu, og fekk þegar ágirnd á honum. Poka þennan átti sveitarmaður nokkur, sem nefndur er E. Einarsson. Var í pokanum „lítilræði af afhöggnum hæklum af nautgrip, brennivínsflaska, hnífur og brýni“. Guðlaugur þreif pokann og hljóp út
með hann, en þetta komst fljótt upp og var málið kært. Guðlaugur var tekinn og fannst hjá honum pokinn með hæklunum og hnífnum, en brýninu hafði hann glatað og brennivínið hafði hann drukkið. Fyrir þessar sakir var hann dæmdur til að sæta „5 daga fangelsi við vatn og brauð í fangahúsi Reykjavíkur kaupstaðar“. Er látið skína í að þessi dómur sé hafður vægur, vegna þess að hinn ákærði sé mjög ungur að aldri og hafi ekki sætt neinni ákæru fyr. Annar dómur Hinn 7. apríl 1873 er Guðlaugur dæmdur öðru sinni, og eru sakargiftir nú meiri og alvarlegri en fyrr, og allt hefur Guðlaugur meðgengið.
Þess er þá fyrst að geta, að rúmum mánuði eftir að hann hafði verið dæmdur, laumaðist hann „inn í ólokað hús P. Ólafssonar og faldi sig þar í heyi“. Þessi P. Ólafsson mun sennilega vera Pétur hattari, sem átti heima í Aðalstræti 6. Pétur var heima þegar Guðlaugur laumaðist inn í húsið, en gekk út skömmu síðar. Þá fór Guðlaugur á stúfana og náði þar í skrúfur og ýmislegt fleira smávegis, sem hann stakk í vasa sinn. Svo náði hann þar einnig í „hér um bil 4 pund af
smjöri, viðlíka af kaffi og 10 pund af riklingi.“
Var hann kominn með þetta fram að útidyrum þegar Pétur bar að. Sá Guðlaugur þá sitt óvænna, skildi þetta allt eftir og hljóp út fram hjá Pétri. Varð Pétur var við manninn, en þekkti hann ekki vegna myrkurs. Rakst hann svo á smjörið, kaffið og riklinginn í anddyrinu og bar það allt inn aftur.
Þá um haustið hafði Guðlaugur hnuplað tvennum sokkum, sem voru hengdir til þerris hjá húsi frú Herdísar Benediktsen í Austurstræti 10. Og rétt fyrir jólin hafði hann stolið deshúsi og bókarslitri í veitingahúsi Einars Zoéga. Var deshúsið virt á 2 rdl. og hefur því verið vandað.
Nokkru eftir hátíðar hafði Guðlaugur svo farið inn í ólæst íbúðarhús Halldórs Kr. Friðrikssonar skólakennara í Kirkjustræti, og stolið þar gulri olíukápu og tveimur kútum með slatta af mjöli og byggi, og ennfremur skál með mjólk. Var þetta allt geymt í inngönguskúr hjá húsinu. Segir í dómnum að þetta hafi „fundizt aftur hjá honum, og er aftur skilað að öllu leyti, að fráteknu mjöli, byggi og mjólk, fyrir hvað endurgjalds hefur ekki verið krafizt.“
Í marzmánuði 1873 hafði Guðlaugur svo brotizt inn í fiskhjall nábúa síns, Eiríks Ásmundssonar útgerðarmanns í Grjóta, föður Árna kaupm. og leikara. Hjallur þessi var læstur, en Guðlaugur komst inn í hann með því móti, að hann braut fyrst einn rimil með steini og gat svo rykkt þremur öðrum úr með handafli, enda er sagt að rimlarnir hafi verið veigalitlir og gamlir.

Síðan tók Guðlaugur þarna úr hjallinum 9 bönd af fiski (18 fiska), sem Eiríkur átti ekki, heldur voru eign Pálínu Ólafsdóttur. Fyrir þetta var hann kærður. Seinna þennan sama dag lagði Guðlaugur leið sína að húsi Páls Melsteds yfirréttarmálaflutningsmanns við Austurvöll (þar sem nú er Sjálfstæðishúsið). — Þetta var gamla húsið, sem Páll hafði keypt af Álaborgar-Jóni. Húsið var ólæst þegar Guðlaug bar að því, og fór hann þar rakleitt inn í búr og náði sér þar í „tvö brauð, eitt eða tvö stykki af osti, nokkuð af soðnu kjöti, en kokkhúslampa hafði hann þess utan stungið í vasa sinn.“ Var hann kominn með þetta fram í anddyri, en þá var komið að honum og allt af honum tekið.
„Auk þessa er hinn ákærði orðinn uppvís með eigin játningu að því, að hafa fundið gamlan vasahníf og klæðisvettlinga, sem eru næsta lítils virði, án þess hann hafi lýst þessum hlutum, en sú hegning, er hann kynni að hafa bakað sér fyrir ólöglega meðferð á fundnu fé, fellst undir þá hegningu, er honum verður ákvörðuð fyrir þjófnað.“ Fiskarnir, sem hann tók úr hjalli Eiríks í Grjóta komu ekki til skila og var hann dæmdur til að greiða Pálínu andvirði þeirra að fullu, og einnig allan málskostnað. Síðan var hann dæmdur fyrir þjófnað í 8 mánaða hegningarvinnu, er afplánast mætti með 27 vandarhagga refsingu. En í 8 mánuði skyldi hann vera háður sérstöku eftirliti lögreglustjórnarinnar.

Þriðji dómur Hinn 12. nóvember 1873 er Guðlaugur svo dæmdur í þriðja sinn í aukarétti Reykjavíkur fyrir þjófnað og óráðvandlega meðferð á fundnu fé. — Málavextir voru þessir: Hinn 15. október var Guðlaugur staddur inni í eitingastofu Einars Zoéga. Þar var einnig maður nokkur, er Gunnar Árnason hét. Meðan Gunnar þessi var að tala við þriðja mann, laumaðist Guðlaugur að honum og tókst að hnupla úr vasa hans peningabuddu, sem í voru 3 rdl. og 16 sk. Komst Guðlaugur undan með þetta og fleygði buddunni, en peningana, sem í henni voru, afhenti hann móður sinni daginn eftir.
Þetta sama kvöld braut Guðlaugur tvær rúður í húsi Bergs Þorleifssonar söðlasmiðs við Skólavörðustíg. Seildist hann svo inn um gluggann og náði þar í „maskínuhníf“, sem söðlasmiðurinn átti. Fór hann með hnífinn heim til sín og faldi hann í rúmi sínu um nóttina. Ekki mun honum hafa virzt sá felustaður öruggur, því að daginn eftir fór hann með hnífinn vestur að Hlíðarhúsum og faldi hann þar í skurði. Þessi hnífur var hinn mesti forlátagripur, hafði kostað 9 rdl. 32 sk. Eftir tilvísan Guðlaugs fannst hnífurinn þarna í skurðinum og mun hafa verið óskemmdur, því að Guðlaugur hafði vafið hann innan í þangrusl.
Þá játaði Guðlaugur það, að hjá búð Havsteins kaupmanns hefði hann fundið buddu, sem í voru 6 rdl. Þessa buddu hefði hann hirt og ekki lýst henni. Var þetta um sömu mundir og Vilhjálmur nokkur Halldórsson hafði tilkynnt lögreglunni að hann hefði týnt buddu með þessari peninga upphæð í. — Þótti líklegt að hér væri um sömu budduna að ræða. En fyrir 5 ríkisdali af þessum peningum hafði Guðlaugur keypt sér kind, og einum ríkisdal hafði hann sólundað. Var í réttinum gerð krafa um að Guðlaugur yrði dæmdur til þess að greiða lögreglusjóði Reykjavíkur þessa 6 rdl., svo að hægt væri að koma þeim til eigandans, ef hann gæfi sig fram. Dómur fell nú þannig, að Guðlaugur skyldi sæta 16 mánaða hegningarvinnu, er afplánast mætti með tvisvar sinnum 27 vandarhagga refsingu, og skyldi hann vera háður eftirliti lögreglustjórnarinnar í 16 mánuði. Auk þess var hann dæmdur til að greiða Gunnari Árnasyni 1 rdl. 16 skildinga (en það var mismunurinn á því, er fannst hjá honum, eða móður hans, og því sem hann hafði stolið frá Gunnari). Bergi Þorleifssyni skyldi hann greiða 40 sk. fyrir rúðurnar, er hann braut. Lögreglusjóði Reykjavíkur skyldi hann greiða þá 6 rdl. er hann hafði fundið, og auk þessa skyldi hann greiða allan málskostnað. Allt þetta skyldi greitt innan hálfs mánaðar, að viðlagðri aðför að lögum.
Þess má geta, að Guðlaugur kærði sig aldrei um að sér yrði skipaður málsvari í réttinum. Málið var einfalt frá hans hálfu í hvert skifti, hann meðgekk allar yfirsjónir sínar, og tók dómunum mótmælalaust.
Fyrsta dóminn, 5 daga við vatn og brauð, mun hann hafa tekið út í „svartholinu“ svonefnda, sem var í húsinu þar sem nú er Haraldarbúð. En ekki hafði sú refsing nein áhrif á hann, því að tæpum mánuði eftir að hann er laus, fer hann að hnupla aftur. Síðan sætir hann tvívegis líkamlegri refsingu, eftir því sem vottað er í réttarbókum, fyrst hýddur 27 vandarhöggum og síðar fangavist. En þessar refsingar geta ekki stöðvað hann á þeim óheilavegi, sem hann var á, og enn kemst hann undir manna hendur og fær dóm.
Fjórði dómur Hinn 12. nóvember 1874 er Guðlaugur enn kærður, og nú fyrir innbrot og tilraun um þjófnað. —
Voru málavextir þessir: Um miðjaan október hafði hann verið seint á ferli á götum bæarins, en þá var talið að menn væri seínt á ferli ef klukkan var farin að ganga ellefu. Mvrkur grúfði þá yfir allt, því að ekki voru götuljósin. búðum hafði verið lokað og ljós slökkt víðast hvar í íbúðarhúsum. Þá kom Guðlaugi allt í einu til hugar að brjótast inn í eitt af vörugeymsluhúsum W. Fischers kaupmanns við Aðalstræti og stela þaðan. Og hann lét ekki sitja við umhugsunina eina. — Umhverfis verslunarhúsin var hár skíðgarður. Hann kleif nú yfir skíðgarð þennan, braut rúðu að vestanverðu á austasta geymsluhúsinu. Síðan náði hann sér í tunnu, til að standa á, og af henni komst hann inn um gluggann og inn í húsið. En ekki hefur hann farið varlega, því að menn urðu begar varir við ferðir hans.
Var svo komið að honum inni í húsinu áður en honum tókst að stela neinu. Fvrir þessar sakir var honum stefnt, en nú fór sem fyrri, þegar hann var yfirheyrður, að hann játaði á sig fleiri yfirsjónir. Hann sagði frá því, að veturinn áður hefði hann stolið tveimur fiskum úr salti frá Jóni Ólafssyni, húsbónda sínum. En Jón kom að honum og tók af honum fiskana og kærði hann ekki.
Þá sagði hann frá því, að þá um haustið hefði hann stolið höggpróu og nokkrum látúnshringum frá Óla Finsen póstmeistara. Fundust þessir munir hjá honum og var þeim skilað til póstmeistarans.
Dómur í þessu máli var kveðinn upp í aukarétti Reykjavíkur hinn 8. desember 1874. Þar segir svo: „Þessi brot ákærða. sem áður hefur verið dæmdur þrisvar og straffaður fyrir þjófnað, ber að heimfæra undir 234. gr. hegningarlaganna. sbr. 45. og 47. gr. sömu laga, og virðist hegning sú, sem hann fyrirfram hefur til unnið, þegar á annan bóginn er litið til þess, að ákærði er mjög þjófgefinn, en á hinn bóginn tekið til greina, að hann er ungur og þýfið er ekki mikils virði, en ákærði fús að meðganga — hæfilega metin 16 mánaða betrunarhúsvinna. Svo ber honum og að greiða allan af máli þessu löglega leiðandi kostnað.“
Guðlaugur ferði sig ánægðan með þennan dóm, og svo er hann fluttur sem fyrsti fangi í hið nýja Hegningarhús og kemur hann þangað hinn 26. janúar 1875. kl. 12 á hádegi. Þarnaa skvldi hann nú sitja í lfl mánuði. Í fangaskrá hegningarhússins er hann kallaður vinnumaður, ógiftur og barnlaus. — Í athugasemdadálki stendur þetta: „Með því að hlutaðeigandi prestur og læknir ekki þekktu neitt til um framferði eða heilbrigðisástand sakamannsins, verður þess hér einnngis getið, sem hann sjálfur í þessu tilfelli ber. Sakamaðurinn getur þess, að hann ávallt hafi verið heilsugóður og aldrei legið neina stórlegu, nema árið áður en hann fermdist hafi hann legið í taugaveikinni“. Sóknarprestur var þá Hallgrímur Sveinsson, síðar biskup. Hafði hann tekið við embættinu 1871, og hefur ekki þekkt neitt til Guðlaugs. Jón Hjaltalín var héraðslæknir, en þar sem Guðlaugur hafði aldrei þurft að leita læknis, hefur Hjaltalín verið ókunnugt um heilsufar hans.
Í seinasta dóminum er Guðlaugur talinn „mjög þjófgefinn“, en þjófur hefur hann þó ekki verið. Ljós vottur þess er það, hve óhönduglega honum tekst til í hvert sinn hann anar áfram og oftast nær er komið að honum og þýfið tekið af honum. Þetta, ásamt ýmsu öðru, ber vott um að stelsýkin hafi aðeins sótt á hann undir áhrifum áfengis.
Ýmislegt ber og vott um að hann hafi verið talinn meinleysismaður, og mÖnnum hafi verið gjarnara að vorkenna honum, en taka hart á yfirsjónum hans. Í dómunum skín það alltaf í gegn, að dómendur vilja hlífast við, bæði Árni Thorsteinsson sem dæmdi hann þrisvar sinnum, og Lárus Sveinbjörnsson, sem dæmdi hann síðast. Þeir finna honum það báðir til málsbóta að hann sé ungur að aldri, og hafi fúslega meðgengið allt. Og þetta, hvað Guðlaugur er fús á að játa yfirsjónir sínar, ber ekki vott um að hann hafi verið harðsvíraður þjófur. Virðist það og vera undir tilviljan komið hvað hann hrifsar í hvert skifti. Þó er eins og hann hafi slægst eftir að stela því er matarkyns var, og gæti það bent til þess að þröngt hafi verið í búi hjá móður hans. Það ber og vott um að hann hafi ekki verið illa kynntur, að menn bregðast við á svipaðan hátt. þegar hann stelur frá þeim. Halldór Kr. Friðriksson yfirkennari vill ekki kæra hann og heimtar engar bætur fyrir missi sinn. Páll Melsted vill ekki heldur kæra hann, og sama máli gegnir um Robb kaupmann, þótt Guðlaugur væri staðinn að stuldi inni í stofu hjá honum. Jón Ólafsson húsbóndi hans lætur sér og nægja að taka af honum fiskana, sem hann stal. Virðist þetta allt benda til þess að menn hafi vorkennt Guðlaugi og vitað að honum var þetta hnupl ekki sjálfrátt. Lýkur svo hér að segja frá fyrsta fanganum í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.“
Síðasti fanginn í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg gekk þaðan út í frelsið kl. 10:50 þann 1. júní 2016.

Heimildir:
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3282319
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3272022
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=327203s

Hegningahúsið

Múlasel

Landnámsbæjarins „Múla“ er getið í 11. kafla Landnámubókar.
Jörðin lá á milli Leirvogsáar og Esjubergssel-402Mógilsáar. Síðan virðist staðsetning bæjarins, eftir öllum sólarmerkjum (heimildum) að dæma, hafa týnst. Þegar gögn eru skoðuð, s.s. Jarðabækur, einkum sú frá 1703, virðast tvær staðsetningar koma helst til greina; annars vegar núverandi Hrafnhólar og hins vegar jörðin Stardalur. En byrjum á því að skoða skráðar heimildir:
Í „Skrá um friðlýstar fornleifar“, (fyrsta útgáfan 1990) segir: „Hrafnhólar. Sámsstaðarústir, suðvestanundir Stardalsfjalli, fast uppi við brekkuna. Sbr. Árb. 1908: 11-12. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 16.11.1938. Fornleifum þessum er friðlýst á jörðina Stardal, Kjalarneshr., þótt þær séu í landi Hrafnhóla. (Þjms. Könnun um friðlýstar fornleifar. Svar Magnúsar Jónssonar, Stardal).“

Í þessu skyni voru m.a. tóftir Sámsstaða skoðaðar, með hliðsjón af leifum bæjar „Halls goðlausa Trollafoss-31Helgasonar er nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla“, sbr. fyrrnefnda lýsingu í 11. kafla Landnámubókar.
Í
Árbók Hins íslenska fornleifafjelags árið 1908 lýsir Brynjúlfur Jónsson t.a.m. Sámsstöðum: „Suðvestanundir Stardalsfjalli, stuttri bæjarleið fyrir ofan Tröllafoss í Leirvogsá, er eyðibýli, sem heitir Sámsstaðir og segja munn mæli, að þar hafi verið kirkjustaður. Þesa sjást þó eigi merki svo fullyrt verði. En rústir eru þar miklar og eftir þeim að dæma hefir þar verið stórbýli. Enda er þar túnstæði bæði mikið og fagurt. Liggur það milli lækja tveggja, er koma ofan úr fjallinu um stórt skarð, sem er uppundan túnstæðinu. Heitir Stardalsfjall fyrir austan skarðið. En fyrir vestan það er hamrastapi, mikill og einkennilegur, sem kallaður er ýmist »Amtið« eða „Stiftamtiðið“, og vita menn nú eigi um tildrög til þess örnefnis.

Mulasel-21

Túnstæðið er afhallandi og liggur upp að brattri brekku. Er bæjarrústin fast upp við brekkuna og liggur samhliða henni, þ. e. a. s. frá austri til vesturs. Hún er nál. 10 faðm. löng og skiftist í 2 tóftir, er hvor gengur af enda annarar og eru mjög svo jafnstórar. Hefir hin vestri glöggvar dyr mót suðri, en framveggur hinnar eystri er svo niðursokkinn um miðjuna, að ekkert verður fullyrt um dyr á honum. Þar hafa þær þó hlotið að vera, ef engar dyr hafa verið gegnum miðgaflinn, sem ekki sést að verið hafi. Breidd rústarinnar er nál. 3 faðm. Austur og fram frá henni er dálítil kringlótt upphækkun, um 4 faðm. í þvermál. Engi sjást þar tóftarskil. En vestaná sér fyrir dyrum, eða uppgöngu. Ósagt læt eg hvort þetta hefir verið »borg« og er fallin saman, eða á þessari upphækkun hefir staðið dálitið hús, gert af viði einum.
Svo sem 7—8 faðm. fram frá bæjarrústinni er önnur rúst, nál. 6 faðm. löng frá Samsstadir-22suðaustri til norðvesturs og bakhússtóft aftur af miðjunni. Framveggur rústarinnar er mjög niðursokkinn. Þó má greina sérstaka tóft í norðvesturendanum, eigi allstóra, og hefir hún dyr mót suðvestri. Hún virðist eigi hafa haft samgöng við aðaltóftina. En sú tóft er svo aflöguð og óglögg, að ekki er hægt að lýsa henni. Þar austuraf er sérskilin rústabreiða, sem eigi sjást tóftaskil í. Er hún nál. 5 faðm. breið austur og vestur og nál. 3 faðm. breið. Raunar eru takmörkin eigi vel glögg. Bakvið hana vottar fyrir þvergarði. En eigi sjást skil á, hve langur hann hefir verið, eða hvort hann hefir beygst að rústabreiðunni. Hafi svo verið, gæti hann verið leifar af kirkjugarði. Jarðvegur er hér nokkuð þykkur og í mýkra lagi. Verður hann víst mjög blautur á vorin, er leysingarvatnið sígur í hann úr hinni háu og bröttu brekku fyrir ofan.
Er þvi eðlilegt, að rústirnar séu Samsstadir-232niðursokknar og aflagaðar á löngum tíma. Bygðin mun hér hafa lagzt snemma niður, og er þessa bæjar hvergi getið, svo eg hafi séð.“
Svo mörg voru þau orð. Í afrakstri af einni af könnunarferðum FERLIRS má sjá eftirfarandi á vefsíðunni www.ferlir.is um Sámsstaði: „Tóftin er efst í hallandi túnbleðli austan við niðurgrafinn árfarveg undir hlíð Stardalshnúks. Í grasi grónum, afmörkuðum, tóftunum er staur með málmplötu á. Á henni er nákvæmlega engin áletrun [arið 2003] eða annað er gefur til kynna hvers vegna hún er yfirleitt þarna á þessum stað. Líklega hefur einhvern tímann staðið á þessu litla skilti: „Friðlýstar fornleifar“. Jafnvel fyrir áhugasamt fólk gefur staurinn nú ekki neitt til kynna, ekki einu sinni að þarna kunni að vera friðlýstar minjar.

Hrafnholar-201

Munnmæli eru, sjá nánar hér á eftir, um að þarna hafi fyrrum verið „kirkjustaður en legið í auðn síðan drepsótt var hér á landi, þ. e. Plágan mikla 1402“, eða svo er hermt eftir elstu mönnum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Um eigendur þeirrar kirkjujarðar vissi enginn neitt að segja enda vart von á því þeirrar kirkju getur hvergi í skjölum. Bæði nafnið og ummerki benda til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og gott skjól fyrir flestum fjandsamlegum veðrum.
Ef „bæjarstæðið“ er skoðað af nákvæmni og þekkingu mætti strax ætla að þarna hafi verið sel, eða nokkar kynslóðir selja, a.m.k. eru tóftirnar allar verulega „seljalegar“; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð, en mismunandi gerð og sjá má í seljum á þessu svæði (Reykjanesskaganum).
Vitað er að margir bæir í Mosfellssveit og Kjalarnesi áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp (Sámsstaðir) gætu Stardalshnukur-201hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna um tíma, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum.
Stardalshnúkur er áberandi kennileiti til norðurausturs. Hann myndaðist við að hraunkvika tróðst upp í móberg inni í í Stardalsöskjunni. Móbergið er enn hægt að skoða í giljum upp af Sámsstöðum, sem koma niður úr fyrrnefndu skarði, Sámsstaðaklauf.“…
Í bókinni Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, er m.a. fjallað um landnám í Mosfellsveit. Þar segir um landnámsmennina: „Landnámabók (Landnáma) greinir frá því að liðlega 400 nafngreindar fjölskyldur, ásamt vinnufólki, þrælum og búpeningi, hafi numið land á Íslandi á árunum eftir 870. Landnám Ingólfs Arnarssonar náði frá Hvalfjarðarbotni, suður um Þingvallavatn og austur að Ölfusi og öll nes út. Hann byggði bæ sinn í Reykjavík“.
Mogilsa-201Í Landnámubók segir: „Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi frá Mógilsá og var kvæntur Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, en Helgi og Þórður voru bræðrasynir. Örlygur gamli Hrappsson, bróðir Þórðar, fékk hluta af landnámi Helga bjólu og settist að á Esjubergi á Kjalarnesi þar sem hann byggði fyrstu kirkju á Íslandi eftir því sem Landnáma hermir. Þriðji frændi Þórðar var Hallur goðlausi sem fékk land frá Leirvogsá og að Mógilsá í Kollafirði.“
Í fyrrnefndum 11. kafla Landnámu segir: „Hallur goðlauss hét maður; hann var son Helga goðlauss. Þeir feðgar vildu ekki blóta og trúðu á mátt sinn. Hallur fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár. Son Halls var Helgi, er átti Þuríði Ketilbjarnardóttur; þeirra son var Þórður í Álfsnesi, er átti Guðnýju Hrafnkelsdóttur. Hallur bjó í Múla.“

Leirvogsa-301

Í skýrslu Óbyggðanefndar, sem jafnan mikil vinna hefur verið lögð í, segir m.a. um Múla: „Bæjarnafnið Múli er óþekkt og ekki víst hvar bæjarins er að leita [Haraldur Matthíasson, Landið og Landnáma. 2. b. Reykjavík 1982. s. 83-84].
Í Jarðabók ÁM og PV frá 1703, segir m.a. á bls. 338 í þriðja bindi um jörðina „Hafnhoolar“ (sem í dag heitir Hrafnhólar): „Þetta er forn eyðijörð og veit enginn hvað lengi í auðn verið hefur, þar til að í tíð Heidemanns er hjer að nýju bær gjör fyrir sextán árum, og hefur síðan viðhaldist til þess í fardögum 1703 það lagðist aftur á ný í eyði“.
Leirvogsá hafi skipti í upphafi löndum Múla og Skeggjastaða, sbr. „Það afmarkast af Leirvogsá til norðurs, Laxnesi og Skógarbringum til vesturs og suður og Selvangi og Selholti til austurs“.
Í Markusarsel-201Selholti á Selvangi m.a t.d. finna leifar að svonefndu „Markúsarseli“. Það mun þó ekki hafa tilheyrt landnámsbænum, af ummerkjum að dæma. Í örnefnalýsingu fyrir Skeggjastaði er getið um selstöðu „norðan við Geldingatjörn“ uppi í heiðinni – og má sjá móta fyrir hinni þar á mosavöxnum mel (með góðum vilja).
Hverfum aftur að Jarðabókinni 1703. Þar segir m.a um Stardal: „
Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíu árum, og kemur hjer sá enginn fram, sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkrun tíma bygt ból verið. Einn maður fertugur þykist heyrt hafa einhvörn segja þar skuli hafa verið bygð, áður drepsótt kom hjer á land, en þó kann hann öngvan mann að nefna þann á þessu samkvæmi, til hvurst hann þykist þetta heyrt hafa.
Þar í mót eru flestir hjer, er þykjast muna það Haukafjoll-201hafi af gömlum mönnum efað verið, hvort nokkurn tíma hafi hjer í fyrndinni bær staðið, og tveir frómir menn, sem báðir muna glögt föður sinn, og voru þá fulltíða menn er hann andaðist, segja föður sinn hafa það haldið, að aldrei hefði þessi Stardalur í gamla daga bygður bólstaður verið, og var faðir þeirra yfir nírætt, þá er hann andaðist. Þessari meiningu þess gamla manns samhljóðar það, er fólk hjer saman komið þykist heyrt og endurtekið hafa sögn og meiningu gamallra manna hjer í sveitinni, þá til hefur talað orðið um nýbýli þetta, einkanlega um það tímaskeið er fyrst var þessi bygð reist fyrir 30 árum, sem áður er getið. Hitt er almennilega kunnugt og gömlum, að þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney, sem hjer er áður getið.“
Esjubergssel-uppdrattur-2006Ekki er getið um selstöðu frá Stardal í Jarðabókinni.
Um „Samstader“ segir og í Jarðabókinni: „Forn eyðijörð, sem almennilega segist áður skuli verið hafa kirkjustaður og legið í auðn síðan drepsótt var hjer í landi. Eigandinn hvör verið hafi áður í fyrnd veit enginn að segja. Nú er það um lánga æfi eignað kóngl. Majestat, og brúka kóngsjarða ábúendur hjer grasnautn alla. Einkanlega hefur í lánga tíma frá Esjubergi hjer í því landi, sem þessari jörðu halda menn tilheyrt hafa, selstaða brúkuð verið, þar sem heitir Esjubergs sel. Jörðin meina menn að ekki byggjast kunni til gagnsmuna fyrir landþröngvar sakir og þess annars að tún þau, er verið hafa, eru mjög uppblásin og spillt af skriðum.“ Ekki er minnst á selstöðu frá „Hafnhoolum“ í nefndri Jarðabók.
Skeggjastadir-201Til að gera langt mál stutt er niðurstaðan þessi: Vissulega eru, m.t.t. vænlegrar staðsetningar, líkur á að fornbýlið „Múli“ hafi verið þar sem Hrafnhólar eru nú. Þar má m.a. finna gamla garða og gerði, en hvorki eru þar ummerki eftir fornan skála né aðrar mjög fornar rústir. Vitað er að „Hafnhoolar“ hafi haft verulegt land til umráða þá og þegar bærinn byggðist á um 1780. Bærinn sá virðist hins vegar hafa verið skamman tíma í byggð. Á 18. öld er hann byggður upp að nýju og þá nefndur „Hrafnhólar“.
Eina örnefnið „Múli“ er suðaustan við Stardalsbæinn… Líklegt má telja að bærinn hafi tekið mið af nálægðinni. Auk þess er bæjarstæðið á lour-301ákjósanlegum skjólsælum stað vestan undir Múlanum. Vatnsgóður lækur rennur niður með bæjarstæðinu.
Vel má hugsa sér að þarna hafi í upphafi landnáms byggst upp bær, hann hafi farið hallloka, s.s. fyrir „Pestinni“, hann lagst af og í framhaldinu hafi staðurinn verið nýttur sem selstaða frá bæjunum neðar í landnáminu, þ.e. milli Leirvogsár og Mógilsár.
Selstöðurnar síðustu lögðust allflestar af hér á landi í kringum 1870 og sumar jafnvel mun fyrr. Selminjarnar á „“Sámsstöðum“ bera keim af þeirri þróun, því líklegt verður að telja að í þeim kunni að leynast svarið við hinu fyrsta landnámsbýli á svæðinu. Það kæmi ekki á óvart að það hafi verið þar sem núverandi Stardalsbær er nú (eða skammt frá). Örnefni, s.s. „kornakrar“, benda t.d. til þess að bærinn sjálfur, þrátt fyrir ungan aldur, kunni að hafa verið þarna, jafnvel frá fyrstu tíð.

Heimildir:
-Landnámabók, 11. kafli.
-Árbók Hins íslenska fornleifafjelags 1908, bls. 11-12.
-Skrá yfir Friðlýstar fornleifar 1990.
-Mosfellsbær, saga byggðar í 1000 ár.
-Jarðabók Ám og PV 1703, þriðja bindi, bls. 336-338.
-Haraldur Matthíasson, Landið og Landnáma. 2. b. Reykjavík 1982. s. 83-84.

Sámsstaðir

Sámsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.