Norðan húsa nr. 76-78 við Austurkór í Rjúpnadalshlíð í Kópavogi er tóft beitarhúss frá Fífuhvammi (Hvammkoti). Við tóftina er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:
“Minjar um eldri byggð í landi Kópavogs er víða að finna. Helstar sem enn eru greinilegar ber kannski að nefna rústir gamla bæjarins í Digranesi og tóftirnar á þingstaðnum við ósa Kópavogslækjarins.
En víða eru merki um hversdagslíf Kópavogsbúa fyrr á öldum þótt ekki beri mikið á þeim. Eitt af þeim er þessi tóft hér í Rjúpnadalshlíð.
Tóftin er um 10×15 metrar og er innan landamerkja Fífuhvamms. Svo heitir jörðin frá árinu 1891, áður hét hún Hvammkot. Um þessa tóft hafa engar ritheimildir fundist. Fólkið sem gerði hleðsluna og stafaði hér er og verður því miður nafnlaust og ástæður hennar á huldu.
En þótt ekki finnist heimildir um þennan stað hindrar það okkur ekki við að velta vöngum yfir tilgangi mannvirkjanna.
Í seljum var búfénaður haldinn á sumrin í bithaga, þar var mjólkað og mjólkin unnin. Oft voru þrjú hús í seljum, búið í einu, mjólkin geymd í öðru og það þriðja eldhús. En þessi tóft er ekki nema í rétt tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem bæjarhúsin í Hvammkoti stóðu (þar er nú bílastæði við Melalid 8 og 10). Um selstöður segir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, en þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757, að sel séu oft í tveggja mílna fjarlægð eða lengra frá bæjum. Ein dönsk míla var rúmlega sjö og hálfur kílómetri og því er þesssi tóft of nálægt bænum til að sennilegt megi telja að hér sé um sel að ræða.
Líklegra er að þetta hafi verið kvíar frá Hvammkoti. Kvíar voru réttir fyrir ær sem lömbin höfðu verið færð frá. Þegar fráfærurnar höfðu borið um vorið voru lömbin alin við heimajörðina en ærnar mjólkaðar í kvíum. Vegna nálægðarinnar við bæjarhúsin og stærðar tóftarinnar verður það að teljast sennileg skýring á tilgangi þessara húsa.”
Rétt er að benda á að tóftirnar bera þess greinileg merki að þarna hafi fyrrum verið beitarhús með heimkuml að baki. Bjarni F. Einarsson skráði minjarnar sem “beitarhús” í endurskoðaðri Fornleifaskrá Kópavogs 2020.