„Sælir FERLIRsfélagar,
ég var að kíkja inn á ferlir.is og sá færsluna um Ródólfsstaði. Mér fannst alveg magnað að lesa þetta og get bætt aðeins við þetta.
Ég var aldrei fyllilega sáttur við staðsetninguna undir Efri-Rótólfsstaðahæð/Rana og þótt einhver kolalög hefðu komið í ljós fór ég að hallast að því að þetta væru kolagrafir en ekki byggingaleifar. Svæðið undarlegt að byggja á og ég skildi ekki hvernig Brynjúlfur hafi getað séð túngarð á staðnum. Ég hef litið á loftmyndir af svæðinu endrum og sinnum síðan þá og nú síðast í miðjum mars seinastliðnum tók ég eftir staðnum umrædda 600 metrum suðvestar.
Ég gekk að þessum stað kvöldið 22. maí. Þetta var degi eftir að Gunnar Valdimarsson gerði sér ferð á staðinn og ég get staðfest að á þessum dögum var frekar hvasst. Hvílík tilviljun að tveir einstaklingar — með sama nafn — hafi gengið að þessu með eins dags millibili! Og að sama skapi gleðilegt og algjörlega frábært að fólk hafi áhuga á þessu. Það var veðurgluggi um kl 22 til að fljúga yfir svæðið og ég náði að myndmæla það, útbúa hæðalíkan sem og samsetta loftmynd. Síðan þá hef ég legið á þessu og melt en þegar þú skrifaðir um Mjóaness-selið um daginn áttaði ég mig á að þetta þurfi auðvitað að tilkynna og var byrjaður að skrifa stutta lýsingu til að senda á Minjastofnun. Ég sendi þér textann hér fyrir neðan og einnig nokkrar myndir í viðhengi. Þarna er loftmynd, hæðalíkan, frumtúlkun frá 24. maí og staðsetning Ródólfsstaða + nærliggjandi selja út frá leiðum og slóðum (ég hef teiknað skipulega upp allar leiðir á Þingvallasvæðinu). Svo er nýrri túlkun hjá mér, nokkuð svipuð en ég hef tekið sumt út og bætt öðru inn.
Við Gunnar nafni minn Valdimarsson höfum túlkað þetta mjög svipað í grundvallaratriðum og það er hughreistandi, enda erfitt að greina á milli rofbletta og eiginlegra minja á þessum slóðum. Vatnsbólið er reyndar um 50 m vestan túngarðsins. Þetta rímar við Mjóaness-selið og Hamrasel og ég velti fyrir mér hvort þetta sé gömul selstaða frá Mjóaness- og/eða Miðfellsbændum. Auðvitað getur þetta líka hafa verið býli, sbr. nafnið en maður verður ekki var við mikla húsakosti þarna. Mér finnst áhugaverðast að hugsa um þessi garðlög, bæði m.t.t. aldurs og svo er líkt og það séu tveir garðar þarna, annar ferhyrndur og hinn hringlaga. Og að þeir skarist jafnvel á?! Hvað ætli þetta segi okkur svo um sögu náttúrunnar. Var nægur hvati að hafa einn fjárhelli eða er þetta kannski minnisvarði um horfna skóga fornaldar. Svo er spurningin um „Bæjarstæði“ úr sóknarlýsingunni 1840 — ef það hefur yfir höfuð verið til, þá er kannski spurning hvort það sé undir hæðinni 600 m norðaustar.
Ródólfsstaðir eru staðsettir um 1300 metra norðaustur af Miðfellsfjalli, sunnan undir lágum, mosavöxnum grjótbala. Greinileg leið liggur frá staðnum suðvestur í átt að Miðfelli og virðist halda áfram alla leið til Mjóaness. Önnur leið liggur framhjá Ródólfsstöðum metð stefnu NV-SA milli Gjábakka/Arnarfells og Grímsness. Útlit svæðisins kemur hér um bil heim við lýsingu Brynjúlfs Jónssonar árið 1905. Óglöggar rústir (1) eru norðan við áðurnefnda leið, nokkuð litlar eða um 10 m á lengd og þeim svipar frekar til selstöðu en eiginlegs fornbýlis. Um 20 metrum sunnar eru tveir hellar (5) hlið við hlið og hafa líklega verið fjárhellar.
Þetta byggðamynstur rímar við nærliggjandi sel Mjóaness við Selshelli 1,5 km norðvestar og Hamrasel + Hamraselshelli 2,2 km austar. Aftur á móti eru Ródólfsstaðir frábrugðnir seljunum að því leyti að hér er stórt garðlag (2-4) upp við rústirnar (1) líkt og túngarður, um 100 x 50 metrar að flatarmáli. Garðlögin eru mjög fornleg útlits og líkur eru á að þau séu frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Mögulega hefur garðurinn upprunalega verið ferhyrndur, um 50 x 50 m að stærð, en síðar færður út til vesturs. Um 100 metrum norðvestan rústanna (1) er djúpt brunnstæði (6).
Fleiri hugsanlegar minjar gætu leynst á Ródólfsstöðum en frekari rannsókna er þörf til að meta eðli þeirra. Eru það tvær dældir, ein (7) austarlega í „túninu“ og önnur (8) um 50 m austan „túngarðsins,“ hvorar tveggja möguleg brunnstæði. Nokkrar þústir (9-12) innan „túnsins“ minna á forn mannvirki og enn aðrar (13-15) skammt utan þess. Svæðið er þó afar illa farið, traðkað og uppblásið og því geta ýmsið rofblettir minnt á fornar byggingar. Því þyrfti helst að staðfesta mögulega minjastaði með kjarnaborun.
1. Tóft, um 10 x 6 m að utanmáli, snýr hér um bil N-S. Veggir hennar hafa breitt vel úr sér og eru um 2.5 m að þykkt. Hleðslusteinar eru áþreifanlegir skammt undir sverði. Tóftin er reist upp við garðlag (2) og er inngangur á suðurgafli í átt að fjárhelli (5), sem er um 20 m sunnar. Mannvirkjabrot eru sjáanleg við austurgafl tóftarinnar; líklega eru þau hluti af túngarðinum en e.t.v. gætu hér einnig verið leifar annarrar tóftar. Vel má vera að þetta séu leifar fornrar selstöðu og tengist fjárhellinum. Þetta er líklega tóftin/tóftirnar sem Brynjúlfur getur um árið 1905.
2. Mjög fornlegt garðlag eða túngarður, mikið fallnir og um 2-3 m á breidd. Vegghæð er 20-30 cm. Austurhelmingur garðsins er greinilegri en hann virðist nær ferhyrndur, að SV-horninu undanskildu þar sem hann liggur upp við tóft (1). Ekki er endilega víst að garðurinn sé samtíma tóftinni. Garðlagið heldur áfram vestan við tóftina og liggur í sveig þar til hann fjarar út.
3. Mjög ógreinilegar útlínur sem minna á garðlag. Nánari athugana er þörf til að meta hvort um er að ræða fornleifar. Mögulega hefur upprunalegi túngarðurinn verið um 50 x 50 m, en síðar stækkaður til vesturs (um 100 x 50 m) og þessi hluti túngarðsins rifinn. Fleiri ógreinileg mynstur samsíða þessum má greina örfáum metrum austan þessara útlína en þau voru ekki teiknuð upp.
4. Hugsanleg norðurhlið garðlags (2). Frekari athugana er þörf til að meta hvort garðurinn hafi legið hér yfir höfuð en hér er hann teiknaður með góðum vilja.
5. Jarðfall með tveimur hellum, sem hafa líklega verið nýttir sem fjárhellar. Illa farin grjóthleðsla er á milli hellanna, sem eru um 7 m djúpir og lágir til lofts. Nokkuð af kindabeinum í þeim vestari, líklega frá síðari tímum.
6. Ríflega tveggja metra djúp dæld um 50 m vestan garðlags (2) sem hefur verið brunnstæði.
7. Gróin dæld, um 40 cm djúp og ríflega 1.5 m í þvermál. Ekki er útilokað að hún sé leifar brunnstæðis eða einhvers konar mannvirkis en þyrfti að athuga nánar á vettvangi.
8. Rétthyrnd dæld um 50 m austan garðlags (1), 4 x 5 m að flatarmáli og um 1 m djúp. Mögulega hefur hér verið annað brunnstæði en athuga þyrfti það nánar á vettvangi.
9. Ógreinileg ferhyrnd þúst, 9 x 7 m að utanmáli. Líklega er þetta til komið vegna landrofs en athuga mætti þústina nánar. Ef þetta er mannvirki gæti þetta verið stekkur og tengt tóft (1).
10. Lág, gróin dæld, um 30-40 cm djúp og lítill kantur umhverfis hana, um 10×10 m að flatarmáli, staðsett í SA-horni túns. Athuga mætti þennan grasblett betur og athuga hvort hér hafi mannvirki staðið.
11. Rétthyrnd upphækkun í norðanverðu túni, um 11 x 7 m að flatarmáli og um 45 cm há. Hún er nokkuð grýtt og mosavaxin að innan og gæti verið náttúrufyrirbæri. Útlitið minnir þó mjög á húsarúst og ráðlagt væri að athuga fyrirbærið nánar. Það finnst fyrir grjóti í ‘veggjum’ þegar gengið er ofan á fyrirbærinu.
12. Lágur kantur, um 8 x 7 m að flatarmáli. Líklega er þetta einungis rof en athuga mætti fyrirbærið nánar og hvort hér hafi verið mannvirki.
13. Lítil nibba rétt norðan túngarðs, þarna er virkt rof og einhverjir steinar að koma í ljós. Ekki er þó víst að þeir teljist til fornleifa.
14. Mjög dauf upphækkun og litabreytingar á gróðri, 10 x 6 m að flatarmáli, rétt vestan túngarðs (2). Ekki er þó víst að það sé vegna fornleifa.
15. Afar ógreinileg upphækkun, 8 x 4.5 m að flatarmáli, líklegast náttúrulegt en mætti athuga nánar á vettvangi.
Ég hlakka til að heyra frá þinni ferð á staðinn og hvort eitthvað nýtt komi í ljós.“
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905 – Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 46-47, segir um Rótólfsstaði: „Fyrir ofan Miðfellsfjall í Þingvallasveit, nokkuð langt upp í hrauninu, er rúst af fornbýli, sem nefnt er Rótólfsstaðir. Mjög ógjörla sér til rústanna. Með aðgætni má þó sjá ferhyrnda túngirðingu, sem er gild dagslátta að stærð og við vesturhorníð vottar fyrir óglöggum rústum, sem eg treysti mér þó ekki til að mæla og enda ekki til að lýsa svo gagn verði að. Skamt vestur þaðan er hraunhola, sem oft kvað standa vatn í; það er brunnurinn. Hið merkilegasta við þessa rúst er nafnið: »Rótólfsstaðir«, sem auðsjáanlega á að vera Eódólfsstaðir (o: Róðólfsstaðirj. Þar eð menn vita eigi af manni með því nafni hér á landi í fornöld, öðrum eu Róðólfl biskupi, þá kemur manni ósjálfrátt í hug, að hann muni í fyrstu hafa sezt að á þessum stað, álitið hagkvæmt fyrir trúboðið að búa nálægt alþingi. En svo hafi hann brátt flutt sig að Lundi og síðast að Bæ, eftir því sem reynslan sýndi honum hvað bezt kæmi í hald.
Auðvitað getur þetta fornbýli verið kent við annan Róðólf, sem menn hafa ekkert af að segja. En hvað sem um það er, þá hygg
eg að t í Róíólfsstaðir bendi á það, að snemma á öldum hafi mannsnafnið verið borið fram Ródólfr, en ekki Róðólfr, sem síðar varð, og að d í þessu bæjarnafni hafi snemma orðið að t og það síðan haldist. Annars er líklegt að þar hefði komið ð fyrir d eins og í mannsnafninu. Og sú breyting (ð fyrir d) virðist hafa verið komin á áður rit hófust hér á landi.“
Brynjúlfur virðist meira upptekinn að sagnfræðilegum heimildum minjanna en þeim sjálfum.
Þegar meintar minjar Rótólfsstaða eru skoðaðar af FERLIRsfólki mátti sjá þar ummerki garða og fleiri fornra minja. Fjárskjólið tvískipta sunnan garða bar með sér augljósar tvískiptar steinhleðslur. Eystri hlutinn hefur væntanlega verið nýttur sem búr. Vestari hlutinn hefur verið nýttur sem fjárskjól, a.m.k. um tíma.
Tvískiptir veggir umhverfis minjasvæðið virðast augljósir. Innan í ofanverðum eystri hluta þeirra virðast vera minjaleifar.
Ofan minjasvæðisins er varða, sem hefur verið breytt í smalaskjól. Sunnan þess er mosagróinn stekkur (ofan garðs). Þaðan að sjá er augljós þvergarður niður að fyrrum selstöðu (ofan fjárhellisins). Þar mótar fyrir þremur rýmum; dæmigerðum selstöðum á þessu landssvæði sem slíkum. Að öllum líkindum hefur selstaðan verið nýtt þarna um tíma, bæði eftir að „bærinn“ lagðist af og löngu áður en selstöður lögðust af á þessu svæði (sbr. Mjóanessel þarna skammt vestar), líkt og Hamraselið þarna skammt austar.