Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg skrifar um „Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi“ á seinni hluta 19. aldar í Sunnudagsblað Alþýðublaðsins árið 1939:
„Ég, Einar Þorsteinsson, er fæddur 8. desember 1870 í Móakoti hjá Hjalla í Ölfusi. Faðir minn var Þorsteinn Teitsson, sonur Teits Helgasonar hafnsögumanns á Eyrarbakka, er bjó í Einarshöfn. Móðir mín var Guðlaug Hannesdóttir frá Hjalla. Faðir hennar, Hannes Guðmundsson, var lengi bóndi á Hjalla og víðar í Ölfusi. Er ég var 6 ára að aldri var ég tekinn til uppfósturs af Ólafi Jóhannessyni og Ragnhildi Ísleifsdóttur, sem þá bjuggu á Mosastöðum í Kaldaðanesshverfi. Þegar ég var 16 ára, fluttu fósturforeldrar mínir að, Hreiðurborg í Kaldaðarnesshverfi — og bjuggu þar frá því.
Veturinn 1887 var farið að tala um, að ég færi eitthvað á vertíðinni, til að læra sjóstörf, og ná í einhvern afla. Var þá leitað til föður míns, hvort hann myndi ekki geta komið mér fyrir á sama skipi og hann réri á, og var talað um hálfdrætti. — Þá voru mikið notuð handfæri í Herdísarvík, en þar réri faðir minn. Þetta gekk vel, ég fékk að vera í skjóli föður míns, sem kallað er. Skyldi ég hafa helming af því sem ég drægi á færi og svo hálfan hlut — þegar fiskað var á línu (lóð).
Svo leið að vertíð. Þá fór ég til föður míns, en hann bjó þá í Hraunshól hjá Hrauni í Ölfusi. Það var áður búið að fara með útgerð mína, skrínu með kæfu og smjöri. Það var væn kind í kæfu og 2—3 fjórðungar af smjöri og hangikjöt. Svo voru skinnklæði, brók og skinnstakkur, og hey í poka á bálkinn, í rúmstæðið — og ekki má gleyma harðfiskinum, sem hafður var líka.
Eins og fyrr segir, fór ég til föður míns, og gengum við svo til Herdísarvíkur, beint út sanda og hraun til Vogsósa. Stönzuðum þar, og svo áfram til Herdísarvíkur. Formaður okkar var Þorkell Jónsson vinnumaður hjá Árna Gíslasyni fyrrverandi sýslumanni í Skaftafellssýslu, sem þá bjó í Krýsuvík. Árni átti skipið og tvö önnur, sem gengu þarna á vertíðinni. Formenn fyrir þeim hétu Einar frá Nýjabæ og Guðmundur, sem kallaður var ráðsmaður.
Þessa vertíð voru þarna 6 skip. Árni átti 3. Bjarni Hannesson bjó þá í Herdísarvík, bróðir Guðmundar, sem lengi var í Tungu í Flóa. Hann átti víst 2 skip — eða þeir mágar í félagi, Björn Eyjólfsson og Bjarni. Björn Eyjólfsson var bróðir Sólveigar konu Bjarna. Þau systkini voru börn Eyjólfs frá Þorlákshöfn — Björnssonar frá Þúfu í Ölfusi. En móðir þeirra var Sigríður Jónsdóttir, Geirmundarsonar, þess sem getur um í Kambránssögu. Sjötta skipið var með að mig minnir Sæmundur Ingimundarson frá Stakkarvík, og held ég að Bjarni hafi átt það. Flest af þessum skipum hafði víst smíðað Björn Eyjólfsson. Hann var smiður mikill bæði á járn og tré. Var til þess tekið, hvað hann var mikilvirkur og vandvirkur, alltaf var hann í smiðjunni, þegar landlegur voru á vertíðinni. Meira um Björn segir síðar.
Nú var ég kominn í útver og leið vel. Ekki gaf nú strax á sjó, og hafði ég lítið að gjöra, enn faðir minn var ekki iðjulaus. Hann var alltaf að smíða ýms búsáhöld, fötur, bala, tunnur o.m.fl. Hann var smiður með afbrigðum, smíðar voru hans aðalatvinna — nema um sláttinn var hann oftast við heyvinnu.
Nú byrjuðu róðrar, og man ég vel eftir fyrsta róðrinum. Það var gott sjóveður og verið með færi. Ég hafði aldrei á sjó komið fyrr, en ég kunni áralagið, hafði lært það á Ölfusá. Það var tregur fiskur — og dró ég einn fisk. Ekki var ég sjóveikur, hefi enda aldrei til sjóveiki fundið. Svo lagaðist með dráttinn. ég dró töluvert, þó dálítið misjafnt. Stundum dró ég hlutinn, það er að segja eins og þeir fengu í hlut, stundum minna.
Einu sinni dró ég 40 fiska. Þá fékk skipið 24 í hlut. Voru þá teknir af mér 16 fiskar. Það stóð svoleiðis á skiptum — og hafði ég þá jafnan hlut og hinir. Það kom mikið undir því hvernig stóð á skiptum, hvað formaður tók mikið af mér, stundum tók hann lítið, stundum meir en helming. Svo var farið að fiska með línu, þá fékk ég hálfan hlut. Línan var stutt, 2 bjóð með 6 strengjum, 60. faðma löngum í hvoru bjóði, og ein og hálf alin á milli króka.
Þegar fiskirí var, þá stóð þétt á línunni á löngum kafla, oft á hverju járni. Línan var dregin í austurrúmi og dregin hægt. Þá lét formaður mig vera með færið mitt aftur í skut, og þar dró ég oft töluvert þó ferð væri á skipinu. Náttúrulega var drift á færinu líkt og á seglskipi, sem liggur á fiskiríi, tökum t.d. kútter. Þegar komið var inn á legu, skammt undan lendingunni, var stanzað og farið að seila, og var andæft þar meðan seilað var. Svo var seilunin hnýtt saman og þeim síðan hnýtt í 60 faðma langt kaðaltó, sem kallað var hlaupató. Tóið var undið í hnykil, sem látinn var velta í skutnum, og skyldi bitamaður gæta þess, að ekki stæði við eða tefði fyrir tóinu að rekjast fljótt, og eins að gæta að því að hnykillinn færi ekki upp úr skutnum. Ef brim var, þá var beðið eftir lagi, og kallaði formaður lagið og sagði: — Róið nú vel, piltar! Svo var róið hart upp í fjöru, og stökk hver út við sinn keip og skipinu kippt upp þangað til því var borgið fyrir eða bjargað frá sjó. Síðan voru seilarnar dregnar upp. Svo ef róið var aftur, fóru sumir að beita þessi tvö bjóð, en hinir að bera upp fiskinn, og þurfti stundum að ná úr honum beitu, því að beitt var gotu (hrognum).
Fiskurinn var borinn upp á byrðarólum. Það var dregið af seilarólinni á byrðarólina, og svo lyfti vanalega annar upp á axlir hins. Var svo hringur af fiski allt í kring, bæði bak og fyrir. Fiskurinn var borinn á skiptavöll og skipt þar í köst, sem kallað var, tveir hlutir saman í kasti. Vanalega skipti formaður. Þarna á skiptavellinum var gert að, hausað og flatt. Fiskurinn svo borinn inn á tún og lagður þar í kös, raðað þétt hverjum við annan. Svo löngu seinna borinn upp fyrir tún og lagður þar á grjótgarða í hrauninu til herzlu. Mest af fiskinum var hert þessa vertíð, eitthvað víst saltað af skipshlutunum. Ekki man ég hvaða verð var á fiski þessa vertíð eða vorið eftir, en 2 eða 3 árum seinna var verðið á harðfiski 160 krónur skippundið (160 kíló).
Allt var hirt, hausar hertir, hrogn söltuð, svil söltuð, sundmagi og kútmagi saltað. Sundmaginn svo verkaður á vorin og lagður inn í verzlanir, en stundum fluttur heim og étinn. Allt hitt raskið notað til heimilis uppi í sveitunum, og töluvert flutt oft heim af harðfiskinum. Það má ekki gleyma að skýra frá því, að alltaf var lesin sjóferðabæn. Og fyrstu vertíðina, sem ég reri í útveri, var lesin föstuhugvekja og lesnir Passíusálmar, ekki sungnir. Það var sama þótt seint væri komið til búðar að kveldi, þá var það ekki vanrækt. Það er nú lítið að segja meira frá þessari vertíð, sem ég var fyrst í Herdísarvík.
Veturinn 1888 fór ég ekkert til sjós, varð að vera heima af því að fóstri minn réðist til Eyrarbakka til aðgerðar á fiski á vertíðinni, svo ég varð að vera heima við skepnuhirðingu, svokallaðar gegningar.
Veturinn 1889 reri ég í Selvogi hjá gömlum manni, sem Guðni Ásmundsson hét. Hann átti heima í Austurnesi í Voginum. Frá þeirri vertíð er lítið að segja. Það fiskaðist lítið vegna ógæfta, því að brimasamt er í Selvogi þegar sunnanátt er, og þessa vertíð hamlaði veðurátta sjógæftum og afla. Þá bjó í Nesi í Selvogi Guðmundur Ólafsson, þá orðinn gamall maður, faðir Þorbjarnar, sem bjó í Nesi eftir föður sinn. Þorbjörn reri í Þorlákshöfn margar vertíðir og var þar formaður. Um hann gerði Brynjólfur frá Minna-Núpi þessa formannsvísu:
Þreytir halur þorskveiði,
Þorbjörn alinn Guðmundi
Nes- frá -sal í Selvogi,
sá er talinn hraustmenni.
Þegar ég reri í Nesi í Selvogi, bjó í Ertu rétt fyrir norðan Nes Húnbjörg Hannesdóttir móðursystir mín. Nikulás sonur hennar var þá formaður með skip, sem þau áttu. Hjá henni var líka annar sonur hennar, sem Símon hét, og þriðja son átti hún, sem Þórður hét og bjó þá í Torfabæ í Selvogi. Þessir fyrverandi bræður voru synir Erlendar Símonarsonar, sem átti heima í Torfabæ, en Húnbjörg og Erlendur voru þá skilin að samvistum. Þarna kynntist ég frændfólki mínu og réði mig hjá Nikulási næstu vertíð. Þá um vorið 1889 flutti Húnbjörg með sonum sínum, Nikulási og Símoni, að Hlíð í Selvogi. Hlíð er uppi við fjallið við norðausturhorn Hlíðarvatns, en er nú komin í eyði fyrir löngu. Þá flutti líka Nikulás skipið út til Herdísarvíkur og reri því þaðan. þangað til það fórst, sem síðar segir.
Svo kemur vertíðin 1890. — Það var oftast kominn þorri þegar ég flutti færur mínar úteftir; reiddi ég á hesti og var eina nótt og tvo daga í ferðinni. Þegar ís var á Ölfusá, mátti fara alveg beina leið að sjá fyrir sunnan Selvogsheiði, sem maður segir sjónhending frá Hreiðurborg, annars varð að fara yfir ána í Óseyrarnesi. Svo fór ég aftur alfarinn föstudaginn síðastan í þorra, og það var farið að róa í fyrstu viku góu, ef gæftir voru.
Nú er að segja frá sjóbúðinni, sem Nikulás byggði. Hún var úr snyddu og grjóti veggir og gaflar, svo timburþak með spón yzt, svo hún lak ekki í rigningum, en hún var mjög köld þegar frost voru, sem oft var á þessum árum. Viðvíkjandi kuldanum í búðinni get ég sagt sögu, sem þykir ótrúleg nú á tímum. Í landlegum þegar var norðanrok og gaddar, rokið svo mikið, að ekki var viðlit að fara á sjó, þá var það eina vertíð að það kom fyrir að við fórum fjórir upp í eitt rúmið og breiddum ofan á okkur upp að mitti teppi og það, sem til var, og sátum svo réttbeinis með loðhúfur á höfði og máske líka vöttu á höndum og spiluðum svo á spil. Svo þegar okkur varð of kalt, fórum við að hita okkur á því að fara í tusk, fyrst inni, svo kannske úti í glímu og tusk, og þegar við vorum búnir að fá í okkur hita, þá var farið að spila aftur. Það var engin búð eins köld og þessi, því hinar voru allar með snyddu- eða torfþökum. Það var ekki verið að hafa ofna í svona húsum í þá daga. Kaffið var hitað á olíuvél og hún hitaði nú heldur lítið. Sumar búðir höfðu smiðjukofa til að hita í rétt við búðina. Í þessari búð var ég í 5 vertíðir. Ekki man ég hvenær það var, sem kaldast var. Það hefir verið á árunum milli 1890—94.
— Þessa vertíð, sem frostin voru mest, voru aðallega notuð færi við fiskirí, að minnsta kosti í Herdísarvík og Selvogi. Það var mikið fiskirí í Herdísarvík í eina viku, það voru þrí- og fjórhlaðin skipin á dag. Ég man það alveg víst, að Nikulás fékk einn daginn í þeirri viku 120 í hlut í 12 eða 13 staða skipti. Þó voru sumir hærri, mig minnir að Björn Eyjólfsson fengi þann dag 140 til hlutar.
Þetta stóð eina viku. Við fengum í þeirri viku um 600 til hlutar, og það varð lítið meira. Mig minnir að við fengjum tæp 7 hundruð hlutar alla vertíðina. — Fiskurinn var mjög feitur, svo að það urðu vandræði með ílát undir lifrina, því að svoleiðis hagaði til, að útgerðarmaður átti að útvega hlutaflamönnum kagga eða tunnu undir lifrina. Það komu kaggar austan úr Ölfusi, og svo var lifur látin í þvottakör, en úr svoleiðis ílátum rann lýsið og fór mikið til spillis. Frostið var svo mikið, að við naumast gátum náð innan úr fiskinum, drifum svo mikið af honum í fönn óflöttum, þangað til seinna. — Þessa miklu fiskiviku var það eitt kvöld, að við vorum að gera að fiski, og ég var að bera í slorskrínu á bakinu eitthvert rask. Það var band í báðum göflum, og var því smeygt á aðra öxlina, en það var dimmt orðið og ósléttur vegur, svo ég datt og rak niður aðra hendina og meiddi mig mikið á þumalfingri, sintognaði og leið illa um nóttina og gat ekki róið morguninn eftir, og þótti mér heldur dauflegt einum í búðinni. Ekki tapaði ég hlutnum, þeir gáfu mér hlut.
Morguninn eftir fór ég með á sjóinn, og var haft til styrktar hendinni, svokallað róðrarbelti, og var ég í andófi, því að ég gat ekki dregið fisk. Veður var gott, hér um bil logn, svo að það var lítið andóf. Fiskur var nógur, svo að þeir fylltu skipið á stuttum tíma. Síðan var róið til lands. Sjór var svo ládauður, að ekki var nokkur hreyfing við land, svokölluð ládeyða. Nú gat ég ekki seilað, svo að ég var látinn halda skipinu meðan seilað var (þegar svona ládeyða var, var ekki seilað úti á legu eins og fyr segir). Í þetta sinn var um stórstraumsfjöru, og voru stórir steinar þar úti, sem ekki sást á, svo að skipið tók niðri og vildi standa, svo að ég fór að færa mig dýpra, en gætti ekki nógu vel að mér, og fór sjór upp fyrir brókina; en það var óþægilegt, því að frost var mikið.
Þegar búið var að seila, hellti ég úr brókinni og fór út aftur í annan róður. Það var sama fiskiríið og frekar fljótt verið að hlaða skipið, en mér varð töluvert kalt svona votum. Þegar komið var til lands aftur, hafði ég orð á því við formanninn, að bezt væri að ég yrði eftir í landi með manninum, sem bar upp fyrri farminn, því að þá hitnaði mér og allt hefði beztu endalok. Og það varð úr, að ég varð eftir og fór að bera upp og lyfti félagi minn á mig byrðunum, en hann lyfti sjálfur á sig, því að hann var heilhentur. Ég fór þrjár ferðir í brókinni, þá var mér farið að hitna og fór svo úr henni, en var í skinnstakknum. Þetta hafði góðan enda, mér varð ekkert meint við, en svona lagað þyrfti ég ekki að bjóða mér nú á dögum. Við vorum margir vel upp aldir á þeim dögum ungu mennninir og klæddir hlýjum íslenzkum ullarfötum, sem við hjálpuðum til að vinna sjálfir, að minnsta kosti margir. Oftast yar ég búinn að sitja í vefstól frá því á jólaföstu og þar til ég fór í útver, og svo var um fleiri, sem ég þekkti. Svo reri ég daglega eftir þetta meðan gæftir héldust, en eins og ég hefi áður sagt, stóð mesta fiskiríið eina viku eða vel það.
Svo er ekki meira markvert að segja af þessari vertíð, það gekk allt sinn vanagang, vertíðarnar voru flestar líkar hver annarri. Það var oftast nóg að gera seinni partinn þegar fisklaust var orðið við að herða og hagræða harðfiskinum.
Um þessar mundir verður vart breytinga í Herdísarvík. Bjarni Hannesson deyr, sem var þaf bóndi- og formaður lengi. Þá bætist við skip frá Hjálmholti í Flóa. Formaður á því var Sveinbjörn Ólafsson frá Hjálmholti, og annað úr Selvogi, formaður Guðmundur Sigurðsson. Auk þessara tveggja voru þar þá formenn: Guðmundur Jónsson, sem kenndur var við Hlíð í Selvogi, ættaður frá Keldum á Rangárvöllum, bjó tæp 40 ár í Nýja-bæ við Krýsuvík. Kona hans er Kristín Bjarnadóttir frá Herdísarvík. Búa nú í Hafnarfirði. 4. formaður Jóhann Níelsson, 5. Nikulás Erlendsson, 6. Björn Eyjólfsson, 7. Ingimundur Jónsson.
Nú er næsta vertíð eftir frostavertíðina. Þá var byrjað með handfæri, og skyldi nú fiska með sama lagi og síðast liðna vertíð, en það brást. Það var verið með færi nokkra daga og fiskaðist lítið sem ekkert. Svo er það einn dag, að allir eru á sjó og ekkert fékkst — 2—3 í hlut. En svo er það rétt fyrir hádegi þenna dag, að eitt skipið tekur sig upp og fer í land, mig minnir það væri Guðmundur Jónsson. Hann fór í land til að reyna að beita línu með slógi og hrognum úr þessum fiskum, sem þeir drógu á færin. Hann rær svo aftur og leggur línuna, en það kom heldur skriður á hina, þegar þeir sáu að fiskur kom á hverju járni þegar hann fór að draga línuna. Það ruku „allir“ í land og beittu línu og reru út aftur og fengu hleðslu. Svo stóð hlaðfiski meðan gaf, ég man ekki hvað það voru margir dagar. Nú var fiskurinn lifrarminni og rýrari en vertíðina næstu á undan, en það mun hafa náðst líkt fiskatal, og segir svo ekki meira af þessari vertíð.
Þá ætla ég að segja dálítið frá vertíðinni 1895. Þá var ég með Birni Eyjólfssyni, það var síðasta vertíðin, sem ég reri í Herdísarvík og sú sjöunda. Björn hafði alltaf verið þar hæstur með hlut. Nú var hann orðinn heilsulaus, en það var samt betra að hafa hann með á sjóinn. Einu sinni gat hann ekki farið með okkur á sjó í 3 daga, og var þá einn hásetinn formaður, en þá daga gekk ekki vel að fiska. Svo hresstist Björn aftur og tók við formennsku, en hann kom eftir þetta alltaf ríðandi á hesti til skips heiman frá bænum, en verbúðirnar voru skammt frá þar, sem skipin stóðu. Svo hjálpuðum við honum eða réttara sagt létum hann upp í skipið á þurru áður en við settum á flot, svo stýrði hann og sagði fyrir og réði sjóferðinni. Það fiskaðist töluvert þessa vertíð framan af á vanalegum miðum, og um miðjan marz var frekar gott fiskirí.
Svo kom 16. marz, sá eftirminnilegi dagur. Gott veður um morguninn og enda allan daginn. Allir réru. Svo komu skipin að nokkuð snemma; ég man ekki hvað klukkan var. Björn kom með þeim fyrstu og um sama leyti önnur skip.
Það var seilað og lítið staðið við í landi. Björn hafðði það lag, að láta okkur vera til skiptis í landi, að bera upp fiskinn, og þennan dag var komið að mér, og skyldi ég bera upp og annar með mér, og svo gerðu hinir líka; þeir skildu eftir menn í landi. Þegar við rérum í land, var komin töluvert þykk alda í sjóinn. Um sama leyti og þessi 5 skip voru að fara, komu þau tvö, sem eftir voru, og þau fóru ekki út aftur, því það brimaði svo fljótt, að það varð ófært að heita mátti á svipstundu. Þennan dag nauðlentu í Þorlákshöfn um 60 róðrarskip af Eyrarbakka, Stokkseyri og Loftsstöðum. Þar var þá hvergi lendandi fyrir brimi. Selvogsskipin lentu við illan leik í Selvognum. Barst þar einu skipi á í lendingunni, og drukknaði einn maður. Það var eina manntjónið, sem af brimi þessu hlauzt, og þótti það sérstakt lán, að það varð ekki meira, eins og á stóð þá.
Formenn á skipunum, sem landi náðu þennan dag, voru Guðmundur Jónsson og Ingimundur Jónsson, en skipin átti Sólveig Eyjólfsdóttir, sem þá bjó ekkja í Herdísarvík. Þegar hin skipin 5, sem úti voru, leituðu lands, var komið stórveltubrim, svo að þau lögðu öll frá, settu upp segl og sigldu til hafs.
Það sáust nokkrar franskar skonnortur úti fyrir, og skipin héldu til þeirra. Tvær voru næstar, og komu skipin fyrst öll að annarri, og Frakkar fóru að taka á móti þeim, en Björn sá, að þarna yrði þröngt fyrir skip og menn, og þó verst fyrir skipin, svona mörg aftan í einu stórskipi, og fór í annað, sem var skammt frá. Þar var þeim vel tekið og skipið sett aftan í skonnortuna.
Skipið, sem Björn komst í hélt sér við á seglum um nóttina og sigldi svo með róðrarskipið austur og inn á leið þar til komið var hér um bil móts við Herdísarvík, þá var brimið lægt, og leiðin fær inn, og Björn lenti heilu og höldnu fyrir hádegi. Skonnortan, sem hafði fjögur skipin, sigldi vestur fyrir Reykjanes og missti tvö skip aftan úr sér undan Grindavík og hin tvö í Reykjanesröst. Skilaði svo af sér öllum mönnunum í Höfnunum, og komu þeir gangandi til Herdísarvíkur eftir nokkra daga. Þetta var mikið tjón fyrir þá, sem áttu skipin, sem töpuðust. Það voru fengin lánuð eða leigð skip austur á Eyrarbakka og flutt til Herdísarvíkur, svo hægt væri að halda áfram róðrum.
Skipin töpuðust ekki öll. Þau, sem slitnuðu aftan úr skonnortunni undan Grindavík, sáust þaðan, þegar birti af degi, og Grindvíkingar sóttu þau, og voru þau óskemmd. Annað var skip Nikulásar Erlendssonar; það keyptu Grindvíkingar. Hitt var skip Guðmundar Sigurðssonar og var flutt til Herdísarvíkur aftur. Hin tvö klofnuðu í Reykjanesröst, Hjálmholtsskipið og Krýsuvíkurskipið, Þorlákshafnar og Selvogs.
Nú fóru skipin úr Herdísarvík að róa austur á Forir; en þá var ekki hægt að fara nema einn róður á dag; en þá var línan beht á sjó, ef ekki fékkst nóg í skipið í kastinu. Svona langan veg var ekki hægt að fara, nema gott sjóveður væri. Það var svo langt og erfitt, ef norðaustan vindur var, að komast þangað austur eftir, því að oftast er þarna með suðurströndinni einstreymis vesturfall eða straumur. Við fengum þarna töluverðan afla.
— Alltaf var Birni heldur að versna, en þó var hann formaður okkar vertíðina út. Það var dæmafátt, að svona veikur maður færi á sjó dag eftir dag. Það mátti segja um hann, að þar væri verið að til hinztu stundar. Hann lézt 3. júní um vorið, og mun banamein hans hafa verið krabbamein. Björn Eyjólfsson hafði verið sjósóknari mikill um sína daga. Var lengi formaður í Þorlákshöfn, í Vogum við Faxar flóa, og síðast í Herdísarvík, þar sem hann hvíldist eftir vel unnið starf. Hann var líka skipasmiður og hafði smíðað fjölda róðrarskipa, stór og smá. Svo þegar ekki var trésmíði, þá var hann í smiðju við járnsmíði, og þar mátti sjá röskleg og lagleg handtök, á meðan hann hafði heilsu.
Með svona mönnum eins og Birni, höfðu verið margir dugnaðarsjómenn, frá því að hann byrjaði sjómennsku á unglingsárum til þess síðasta. Það hefir verið mikils virði í peningalegu tilliti, sem Björn flutti í land á sinni löngu formannstíð, náttúrlega með hjálp háseta sinna; — en það er ekki sama, hver ræður á sjó.
Ég ætla að greina hér frá atviki, sem sýnir sjósókn Björns nokkrum vertíðum áður en síðast segir frá. Þá réri hann einskipa; hinum þótti ekki fært, og var víst ekki álitlegt. Þá réri ég hjá Nikulási. Björn réri þessa vertíð tvisvar einskipa, og í báðum róðrum fiskaði hann veL Í annað skiptið brimaði meðan hann var úti, og það var mikið brim þegar hann fór. Þegar sást til hans koma, þá skinnklæddu sig allar skipshafnir, sem í landi voru, til þess að taka á móti honum. Þegar hann sá fólkið í fjörunni, hleypti hann upp á hæsta sjó, og skipið var tekið með öllu saman, fiski og mönnum, og drifið upp, svo brimið næði því ekki. Svo var stanzað og farið að tala við karlana, og allir voru glaðir og kátir yfir að allt skyldi fara vel. Við sem í landi vorum, urðum hálfsmeikir um skip og menn í svona miklu brimi.
Það var oft mikið um hval á þessum árum. Man ég þó sérstaklega eftir einni vertíð, sem óvenjulega mikið var af honum. Sáum við þá stundum stórar vöður af hval skammt þar frá, sem við lágum við færin. Þá var það stundum, ef fiskur var tregur, að Björn Eyjólfsson tók sig upp og kippti rétt að hvalagerinu og dró þar nógan fisk.
Ég réri hjá Nikulási, þegar þetta var, en honum var hálfilla við að vera nærri stórfiskavöðum og notaði ekki þessa aðferð, og það gerðu held ég ekki aðrir en Björn.
Ekki var Björn aðgerðarlaus þegar legið var yfir fiski. Færi hans var alltaf úti, og hann dró manna mest á skipi sínu. Einu sinni var talað um, að hann myndi hafa dregið nærri því helminginn af fiski þeim sem á skip kom, en þá fékk hann 20 í hlut. Þetta hefir kannske ekki verið bókstaflega rétt, en það sýndi hvaða álit haft var á dugnaði hans. Einu sinni síðustu vertíðina, sem hann lifði, 1895, var sótt austur í Forir eins og fyrr er ritað.
Það var einn laugardagsmorgun norðaustan stormur, og var að sjá sandrok austur á sandi fyrir neðan Selvogsheiði, svo það þýddi ekki að leggja á stað austur í Forir, svo þeir fóru út í leirinn, skammt út fyrir sundið um morguninn, allir nema Björn af því að laugardagur var til að afbleyta línuna. Svo klukkan 10 fyrir hádegi voru þeir komnir aftur. En rétt umsama leyti sást ekkert sandrok austur á sandi, því þá var að lægja vindinn. Rétt í þessum svifum kemur þá félagi okkar inn í búðina og segir að Björn sé að koma ríðandi ofan eftir frá bænum.
Björn hafði þá séð að veður fór batnandi, enda verið að bíða eftir því. Svo var lagt á stað og gekk vel. Við fengum bezta veður og vorum víst 12— 13 tíma í túrnum gg lentum í myrkti um kvöldið. Svo á sunnudaginn fórum við að slægja og fletja fiskinn. Svona túrar þóttu góðir í þá daga. —Við sjómenn í Herdísarvik, sem áttum heima í Ölfusi og Flóa, fórum vanalega heim einu sinni á vertíð, og helzt um bænadagana eða páskana. Það var eina vertíð (þá reri ég hjá Nikulási) að við fórum nokkuð margir á miðvikudaginn fyrir skírdag, því að þá var ekki sjóveður. Það þekktist ekki í þá daga að róið væri á helgum dögum, þó var nú brugðið út af því í þetta sinn, því þegar við komum til Herdísarvíkur um kvöldið á föstudaginn langa, þá voru þeir að gera að fiski, sem ekki fóru heim, þeir höfðu sameinað sig og róið þremur skipum og fiskað töluvert. Við gátum lítið sagt við þessu, þó þótti okkur þetta atvik leiðinlegt, og töluvert undarlegt, af því að þetta var alveg nýtt fyrirbrigði, að róa á helgum degi.
Svo kemur atvik fyrir haustið eftir, sem lyfti undir þjóðtrúna, eða þessa vanalegu trú fólksins í þá daga, og sem máske er til enn. Það sem vildi til haustið eftir var það að tvö af þessum skipum, sem róið var á föstudaginn langa, fuku og brotnuðu. Skipin voru höfð í veggjahárri rétt og bundin niður á hvolfi, tog í þeirri rétt voru hin skipin líka en þau sakaði ekki. Í Herdísarvík er mikið hvassviðri, þegar hann er hánorðan, þá stendur veðrið af fjallinu, og eru þá feikna sviptir, sem allt rifa upp sem ekki er reglulega gengið frá.
Þegar vetrarvertið var úti, fóru oft margir okkar til Faxaflóa, til að róa þar á vorvertíðinni. Við lögðum af stað 10.—11. maí með pjönkur okkar á bakinu. Fórum upp svokallað Mosaskarð, og svo beina línu yfir Lönguhlíðarfjall, og niður Kerlingarskarð, og fyrir vestan Helgafell, um Vífilstaði til Reykjavíkur.
Þetta var 7—8 tíma gangur ef gott færi var en um þetta leyti árs var oft ófærð á fjallinu. — Þá var ekki atvinnuleysi, ég held að orðið atvinnuleysi hafi ekki verið til, og ekki einu sinni í Reykjavík, enda var Reykjavík ekki stór bær þá.
Nú eru vertíðarhugleiðingar mínar frá Herdísarvík að þrotum komnar. Eftir þetta réri ég á Eyrarbakka, og fór svo til austfjarða laust eftir aldamótin, og segir ekki af því í þetta sinn, og víst aldrei, nema þetta: að ég var þá 24 ára að aldri til 55 ára alltaf á sjó mikið til af árinu, á ýmsum förum og fleytum, róðraskipum, kútterum, vélbátum, fiskveiðaskipinu Súlunni samfleytt í 9 mánuði. Og fyrir innan 24 ára aldur á vetrar- og vorvertíðum við róðra á áraskipum eins og fyr er ritað. Þessum fyrnefndu árum var ég 16 úthöld, sumar og haust formaður hjá Konráði Hjálmarssyni í Mjóafirði. Ef ég færi að skrifa um öll þessi ár, allt miðbik ævinar yrði það stór bók, sem sagt heil ævisaga. Ég er ekki fær til þess – og kemur því ekki til mála.
Að lokum ætla ég að gjöra svolítinn útúrdúr og segja frá refaveiðum. Vorið 1894 var ég vormaður í Herdísarvík. Fór ekki þaðan um lokin. Var við fiskverkun og smalamennsku, en svo þurfti líka að veiða refi alveg eins og þorsk, því refir eru slæðir í sauðfé. Það fannst refagreni í Herdísarvíkurlandi um vorið. Þá bjó á Vogsósum Þórður Eyjólfsson, ættaður frá Grímslæk í Ölfusi, síðar kenndur við Vindheima. Hann var refaskytta í Selvogshreppi. Þórður var látinn vita af gneninu, og svo fór hann tilbúinn til að liggja við það. Ábúandi í Herdísarvík átti að láta mann með skyttunni, svo ég var látinn fara með nesti og nýja skó.
Grenið var uppi í Lönguhlíðarfjalli í norðaustur af Geitahlíð. Þegar við komum að greninu, sá Þórður fljótt hvar aðaldyrnar voru, sem refahjónin gengu helzt um. Svo fundum við okkur stað í leyni, en sáum þó til dyranna. Þegar við vorum búnir að liggja þarna eins hálfan tíma, kom refurinn út úr greninu og Þórður hleypti af byssunni og rebbi steinlá. Stór og mikill grár refur. Svo lágum við áfram, í tvö dægur, og sáum aldrei læðuna eða heyrðum í henni. Svo fórum við heim, og Þórður fór til Vogsósa, svo kom hann aftur eftir tvo daga. Þá sagði hann að bezt væri að nesta sig vel, því nú bjóst hann við að verða lengi, 5—7 dægur, því að nú skyldi til skarar skriða við grenlæðuna. Við fórum með dýraboga og yrðling, sem Þórður hafði veitt á öðru greni, og skyldi kvelja hann til þess að narra læðuna að. Svo var hann með línu, öngla og hrátt kjöt til að beita fyrir yrðlingana, sem enn voru í greninu. Þegar við vorum búnir að liggja og sitja langan tíma heyrðum við læðuna gagga og orga langt frá. Þórður sagði, að hún hefði ekki að greninu komið síðan refurinn var skotinn, og væri nú júgrið farið að harðna. Hann sagði mér að kvelja yrðlinginn, sem við vorum með, það þótti mér leitt verk. Svo fórum við að veiða yrðlingana, sem inni voru í greninu, og náðum 5, enn ekki sást læðan enn, við heyrðum oft í henni, og heldur var hún að færa sig nær.
Þarna lágum við í fimm dægur í seinna sinnið. Var nú Þórði farin að þykja löng biðin. Lítið var sofið, við reyndum þó að sofna til skiftis. Þegar langt var liðið á fimmta dægur segir Þórður við mig, að ég skuli liggja kyr, og láta lítið bera á mér. Hann kvaðst ætla að ganga í kring og vita hvað hann sjái. Svo ligg ég nokkuð langan tíma, þangað til ég heyri skot, svo ligg ég enn litla stund, þá kemur Þórður með læðuna dauða. Hann hafði þá mætt henni á bak við stóran klett og var þá ekki lengi að miða á hana, og hún lá. Nú var Þórður búinn að vinna grenið, 2 dýr og 5 hvolpa. Svo var haldið heim.“
Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 40. tbl. 05.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinnson frá Hreiðuborg, bls. 4-5 og 8.
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 41. tbl. 08.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg, bls. 4-5.