Færslur

Völundarhúsið

Við gömlu Selvogsgötuna undir Tvíbollum eru nokkrir myndarlegir hraunhellar. Má þar nefna Völdundarhúsið, Spenastofuhelli og Rósaloftshellir. Hellarnir eru greinilega í útrásum frá meginrásinni, sem vel má greina af hinum miklu Grindarskörðjarðföllum ofar í hlíðinni, norðvestan við gígana. Meginrásin hefur borið mikið fóður frá þeim, en eftir því sem neðar dró hvíslaðist hún í nokkrar minni. Nyrst í djúpu og stóru ílöngu jarðfalli má sjá eina rásina. Önnur er þar sem Spenastofuhellir er ráshluti og þriðja er rásakerfi Völdundarhússins. Rósaloftshellir er hluti af fjórðu rásinni og eflaust mætti greina fleiri ef vel væri leitað. Enn neðar hafa þessar rásir síðan komið aftur saman í eina eða tvær. Hjartartröð og Leiðarendi eru hlutar af þeim rásum.
Stutt var um liðið síðan FERLIR fór í Spenastofuhelli með viðkomu í Völdundarhúsinu. Nú var gagngert farið á vettvang til að skoða betur síðarnefnda hellinn og jafnframt kíkja inn í Rósaloftshelli. Stutt er á milli opanna. Þannig eru ekki nema u.þ.b. 50 metrar milli meginopa Spenastofuhellis og Völdundarhússins og ekki nema um 20 metrar milli Völdundarhellis og Rósaloftshellis.
Meginop Völdundarhússins er í um 20 m ílöngu jarðfalli, ca. 4 m breiðu. Greiðar leiðir eru bæði í norður og suður inn úr jarðfallinu. Nyrðri hlutinn er áhugaverðari, enda margflóknari, litskrúðugri og með meiri fjölbreytni í hraunmyndunum.
Fallegar storkumyndanir eru á gólfi svo og líkt og bátur á hvolfi. Annað op er skammt ofar. en ca. 10 m suðaustan við neðra niðurfallið er 1-2 m breitt op. Innan við það tekur við rúmgóður hellir með nokkrum opum. Út frá rásinni er ýmis göng og þverrásir í allar áttir, jafnvel í hálfhringi.
Hliðarrásir eru víða þröngar, en litfagrar. Í einum ganginum eru mjó undirgöng sem óvíst er hvort fara má um. Hellirinn er líklega um 100 metra í heildina. Hann hefur þó ekki verið skoðaður til hlítar.
GrindarskörðÞegar komið er inn í nyrðri hlutann er hægt að velja um tvær rásir. Ef farið er niður í þá hægri má fljótlega sjá ógreiðfæra hliðarrás til vinstri. Hún mætir hliðrrás úr vinstri rásinni. Neðar er rauðleitur flór sem er líkur snigli á gólfi hellisins. Á veggjum má sjá hvernig hraunáarhæðin í rásinni hefur verið frá einum tíma til annars. Litlir separ eru í lofti. Rásin hlykkjast niður á við og þrengist. Hliðarrás liggur til vinstri. Þarna er gólfið brúnleitt og hefur þar lag lagst ofan á annað með þunnu lagi, sem síðan hefur brotnað upp í flísar. Lítið sem ekkert hrun er í þessum hluta hellisins. Hægt er að fara áfram á fjórum fótum og eflaust munu fleiri afhellar opnast þar neðra. Sú leið var hins vegar ekki farin að þessu sinni.
Þá var haldið niður í vinstri rásina í nyrðri hlutanum. Greina má hversu stór rásin hefur verið áður en þakið féll og jarðfallið myndaðist. Brúnleitara hraun er í þessari rás. Afrás er til hægri. Þverrás hærgi hellishlutans kemur inn í hana, en meginhlutinn heldur áfram niður á við, milli rásanna tveggja. Hún var ekki könnuð að þessu sinni. Þess í stað var haldið niður á við. Lítil þverrás er til vinstri. Stór steinn virðist loka leiðinni áfram, en hægt er að fara framhjá honum. Það er líka þess virði. Komið var inn í lítið rauðleitt herbergi með fáum, en fallegum spenum. Þarna hefur hrauneðja dvalið um stund áður en hún hefur náð að bræða grannbergið og leita áframhaldandi leiðar – um granna rás, sem síðan hefur lokast á eftir henni.
Skoðað var upp í syðra op rásarinnar. Innan við það er hrun. Hellirinn skiptist í tvennt. Ef haldið er upp eftir hægri rásinni er fljótlega komið að litlu jarðfalli, sem hægt er að komast upp úr. Einnig er hægt að skríða áfram inn undir hraunhelluna og eflaust eitthvert lengra. Vinstri rásin er heil. Hún leggur lítillega upp á við. Vinstra megin er sylla og rás innan við þröngt ílangt op. Rásin heldur áfram upp á við, en þrengist verulega. Meginhraunstraumurinn hefur runnið þarna um á leið sinni niður hlíðina.
GrindarskörðSkammt norðaustan við meginopið er lítið gat, sem þó er hægt að fara niður um. Undir því er sléttbotna rás. Þegar farð er til suðurs er komið inn á sylluna fyrrnefndu. Norðurleiðin lofar góðu. Hún virðist víkka þar sem hún hallar niður á við og beygja síðan. Henni var ekki fylgt að þessu sinni þar sem skriðbúnaðurinn var ekki með í för. Þetta er rás sem vert væri að kanna nánar við tækifæri.
Rósaloftshellir er stuttur. Op hans er í u.þ.b. 30 m ílöngu jarðfalli, svipuðu að breidd og Völdunarhúsið. Þessi hluti rásarinnar er ekki nema ca. 10 metra löng, en loftið er sérstakt. Um er að ræða nokkurs konar sepamyndun, nema hvað hún er mun minni en margflóknari. Þannig hefur orðið til mynstur er minna sumsstaðar á rósir. Af þeim dregur hellirinn nafn sitt.
Eins og fyrr sagði má sjá hvar hraunið hefur runnið niður hlíðar, sem einhverju sinni hefur verið nyrðri hluti Lönguhlíðar. Síðan hafa fæðst efst á brún hennar nokkrir klepra- og gjallgígar á sprungurein. Þríhnúkar, sem reyndar sumir vilja staðsetja sem hluta Stóra-Kóngsfells og Drottningar (Þríhnúkar) því hinir eiginlegu Þríhnúkar eru fjórir þegar horft er á þá frá austri, eru hluti þessarar gossprungu. Hún opnaðist skömmu eftir að fyrstu norrænu landnámsmennirnir settust að á Suðvesturhorni landsins. Líklega hefur það verið fyrsta eldgosið sem þeir hafa séð hér á landi. Síðan, í þessari sömu goshrinu, rann Kristnitökuhraunið. Þá opnaðist sprunga skammt vestar og sunnar er fæddi Nýjahraun, Afstapahraunið yngra og Ögmundarhraun.
Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma.
Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun. Gos í Tvíbollum, Stórabolla skammt norðar og Syðstubollum skammt sunnar, hafa orðið í þessari hrinu. Að vísu má sjá gíga á sprungureinum nokkur ofar og nær Bláfjöllum. Telja verður líklegt að þau hafi orðið í upphafi goshrinunnnar enda liggja hraunin er runnu úr Bollunum til suðausturs yfir þeim. Bollahraunin (þ.á.m. Þríhnúkahraunin) hafa því orðið til á síðari hluta goshrinunnat og miða má afmæli Völdundarhússins og Rósaloftshellis við það tímabil.
GrindarskörðÞegar horft er upp ú undirhlíðar Bollanna má bæði sjá hversu hraunstraumurinn hefur verið mikill, en um leið takmarkast af umhverfinu, þ.e. hæðum og lægðum í hlíðunum. Gamburmosinn er þar allsráðandi, en þess fyrir utan má sjá vel gróna “hlíðaróbrennishólma”.
Eldvirkni á skaganum virðist vera nokkuð reglubundin – goslotur verða á um þúsund ára fresti. Hver lota stendur í nokkur hundruð ár. Síðasta slík goslota hófst síðla á tíundu öld og stóð fram undir miðja þrettándu öld. Í hverri goslotu eru nokkrar goshrinur. Eins og við er að búast er síðasta goslotan best þekkt. Hún hófst með goshrinu í Brennisteinsfjallakerfinu og gaus á þremur stöðum, líklega á nokkurra ára eða áratuga bili. Austasta gossprungan er austan undir Bláfjöllum, á henni eru Eldborgir nyrðri og syðri þar sem Kristnitökuhraunið (Svínahraunsbruni) kom upp árið 1000. Mikil gos urðu á stuttri gossprungu sitthvoru megin við Kóngsfell í Bláfjöllum. Frá þeirri sprungu runnu feiknmikil hraun niður undir Sandskeið, ofan í Heiðmörk og vestur undir Húsfell. Vestasta sprungan liggur í suðvestur frá Tvíbollum í Grindaskörðum og frá henni runnu hraun niður með Höfðunum ofan Hafnafjarðar og niður undir Sædýrasafnið sáluga. Einnig runnu hraun frá henni til suðurs og ofan í Herdísarvík.
Við fyrstu sýn virðist svæðið hrjóstrugt á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum eins og t.d. í Tvíbollahrauni og setur hann óneitanlega mikinn svip á landið. Grámosi (gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng, sortulyng og beitilyng. Lítið sem ekkert er um kjarrlendi á þessu svæði. Kjarrgróður er einkum norðanmegin á svæðinu.
GrindarskörðStór hluti fólkvangsins eru melar og bersvæði. Gróður er mjög strjáll á slíku landi og einungis harðgerðar tegundir þrífast þar, t.d. melskriðublóm, holurt, geldingahnappur og lambagras.
Þéttur valllendisgróður liggur víða undir fjallshlíðum með ríkjandi grastegundum; týtulíngresi, hálíngresi og blávingli. Flest eru valllendin tún fornra bæja eða selja eins og örnefnin gefa til kynna: Selvellir, Seltún og Vigdísarvellir.
Mýrargróður er helst að finna í suðurhluta fólksvangsins. Stærst er mýrin við Stóra Lambafell, en þar vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa, engjarós, mýrardúnurt og horblaðka.
Jarðsaga svæðisins er fyrir margra hluta merkileg – og að mörgu leyti sýnilegri en gengur og gerist annars staðar í þessum landshluta. Svæðið er virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum. Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin hefur verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin og virðast koma í hrinum sem koma á um 1000 ára fresti og stendur yfir í u.þ.b 200 ár. Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru Bláfjallaeldar sem hófust árið 930 og stóðu yfir í u.þ.b. 100 ár. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151. Í gosinu opnaðist um 25 km löng sprunga og rann hraunið til svávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan myndaðist Ögmundarhraun í þessu gosi en að norðan rann Nýjahraun sem flestir nefna Kapelluhraun. Í þriðju goshrinunni urðu Reykjaneseldar sem stóðu yfir frá 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó þar sem Eldey reis upp úr sjónum.
Rósaloftshellir Eldvirkni raðar sér á svokallaðar sprungureinar þar sem eru gosstöðvar og opnar gjár. Oft eru sigdalir eftir endilöngum sprungureinunum og gígaraðir. Sprungureinarnar eru yfirleitt 25 -50 km langar og 5-7 km breiðar. Tvær þeirra fara um Reykjanesfólkvang, þ.e Krýsuvíkurrein og Brennisteinsfjallarein sem liggja frá suðvestri í norðaustur yfir Reykjanesskagann.
Jarðlögin á þessu svæði líkt og víðast hvar á Reykjanesskaganum eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólsturberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin eftir að jökull hvarf af svæðinu. Í Krýsuvík, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Það eru væntanlega leifar af fornum dyngjum og hafa líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka suður af Lönguhlíð. Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og Núpshlíðarháls og Sveifluháls eru móbergshryggir sem hafa hlaðist upp undir jökli. Sömu sögu má segja um Lönguhlíð, þá er fóstraði Bollana. Syðst og austast í fólkvanginum er Krýsuvíkurhraun, forsög

ulegt sprunguhraun. Norðan þess eru nokkur hraun runnin úr Brennisteinsfjöllum eftir landnám. Vestast í fólkvanginum er Ögmundarhraun frá árinu 1151. Það fæddist í annarri af hinum miklu goshrinum á Skagagnum. Sú hefur verið nefnd eftir Krýsuvíkur-Trölladyngjureininni. Goshrinan hófst árið 1151 og gaus þá á um 25 km langri sprungu sem lá skáhallt yfir skagann um Móhálsadal. Úr suðurhluta hennar rann Ögmundarhraunið og tók af m.a. hinn forna Krýsuvíkurstað. Úr norðurendanum rann Kapelluhraun í sjó fram sunnan Hafnarfjarðar. Um 1188 gaus aftur og rann þá að líkindum svonefnt Máfahlíðarhraun.
Síðasta hrinan var í Reykjanesreininni og stóð hún í nær þrjá áratugi, frá um 1210 til 1240. Fyrst gaus við Eldey 1210 eða 1211 og reis þá núverandi Eldey úr sjó.
Hvert eldgosið rak svo annað, en mest virðast umbrotin hafa verið árið 1226 en þá gaus í sjó við Reykjanestána og öskuna lagði til norðausturs yfir Reykjanesskagan, upp í Borgarfjörð og austur í Þingvallasveit. Í kjölfarið runnu nokkur hraun, Yngra-Stampahraun, Eldvarpahraun, Illahraun (á því stendur orkuverið í Svartsengi) og Gíghæð við Grindavíkurveginn.
SpenastofuhellirAf framangreindu má sjá hversu t.d. hellar Tvíbollahrauns sem og annarra hrauna geta gefið greinargóðar upplýsingar um myndun og rennsli afurða gíganna, sem enn má sjá víðast hvar. Þeim, einkum þeir eru nærtækilegastir vegagerðarmönnum, fer þó óðum fækkandi. Sú verður og reyndin með hellana, ef ekki verður staðið vörð um þá sérstaklega. Að fenginni reynslu má sjá að venjulega hefur verið vaðið í nærtækustu hraungígana. Þannig hafa margir þeirra farið forgörðum. Má nefna Eldborg undir Trölladyngju, Moshól undir Núpshlíð og Rauðhól (Hraunhól) undir Vatnsskarði. Gígar þessir voru mikil náttúruundur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir eru meðal þess áhugaverðasta sem ferðamenn hafa verið að sækjast eftir á Íslandi. Skemmdar eða fjarlægðar eldborgir verða hins vegar ekki endurheimtar. Eins og þær líta út í dag, hálfsundurgrafnar, eru þær eiginlega bara slæmt minnismerki um skammtímaverðmætamat mannskepnunnar.
Neðar í hraunum Stórabolla og Tvíbolla má enn finna fallega hella, s.s. Flóka, Litla-Flóka og Dauðadalahellana. Allir hafa þeir sín einkenni, liti og myndunarsögu þótt uppruninn sér oftast einn og sá sami.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
http://www.os.is/blafjoll/blafjoll2.html
http://www.hafnarfjordur.is/hafnarfjordur/upload/files/pdf/adalskipulag/umhverfi_og_utivist.pdf

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.