Færslur

Flókaklöpp

Sveinbjörn Rafnsson skrifaði um “Flókaklöpp” – Bergristur á Hvaleyri í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1974:

Lega fornminjanna
flokaklopp IAð grunni mun Hvaleyrarhöfði við Hafnarfjörð vera úr svokallaðri yngri grágrýtismyndun frá hlýviðrisskeiði jökultímans. Frammi á miðjum Hvaleyrarhöfða glyttir í jökulsorfnar grágrýtisklappir. Þar mun Álftanesjökullinn hafa gengið fram fyrir um 12000 árum; stefna jökulrákanna á klöppunum liggur þvert á Álftanesröðina. Þarna er útsýn góð bæði til Straumsvíkur og Hafnarf jarðar og út á Álftanes. Í áðurnefndar klappir hafa menn höggvið ýmis teikn og skráði greinarhöfundur og mældi bergristur þessar hinn 7. júlí 1970. Risturnar hafa verið gerðar í fjórar afmarkaðar klappir eða steina. Af meðfylgjandi rissmynd má sjá afstöðu þessara fjögurra steina en rétt er að geta þess jafnframt að klappir eru þarna fleiri þótt marklausar séu. Þó verða risturnar ekki greindar nú til gagns nema á þremur steinanna. Syðsta klöppin er nú ólæsileg og hraklega útötuð í steinsteypu eftir stríðsumsvif breta í heimsstyrjöldinni síðustu.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Allt í kringum steinana eru steinsteypt byrgi og byssustæði frá þeim tíma. [Á dögum Jónasar Hallgrímssonar hefur staðurinn verið „paa den nordvestlige Ende af det hoje og smukke Hvaleyrartún”, Rit eftir Jónas Hallgrímsson III (1933) bls. 144. í lýsingu Sigurðar Skúlasonar á steinunum segir hann þá „standa upp úr nýræktinni á höfðanum (í Vesturkotslandi).” Sigurður Skúlason (1933) bls. 27.] Steypan í þessi mannvirki hefur verið blönduð og hrærð á klöppinni syðstu; þó má enn greina einstöku höggna rák út undan steypuhúðinni. Bergristurnar eru á fornminjaskrá og því friðaðar forminjar.

Um fyrri rannsóknir Hvaleyrarrista
flokaklopp IIMargir hafa ritað um og rannsakað Hvaleyrarristurnar og mun þess nú getið að nokkru. Jónas Hallgrímsson skáld mun líklega fyrstur manna hafa rannsakað steinana fornfræðilega í júní 1841. Frásögn Jónasar einkennist af sannri gleði uppgötvarans og kveðst hann hafa fundið „paa en af disse Blokke, den regelmæssigste og smukkeste, flere gamle Runer”, í skýrslu sinni til Finns Magnússonar.
Þegar Jónas frétti fyrst af ristum þessum fór tvennum sögum af þeim; sögðu sumir þarna vera rúnir en sumir farmannanöfn. Taldi Jónas farmannanöfnin höggvin með latínustöfum ofan í rúnateiknin á steininum með flestar risturnar.

Hvaleyri

Hvaleyri – rúnaristur.

Slær hann þeirri hugdettu fram, þó með nokkrum hálfkæringi, að Hrafna-Flóki og skipshöfn hans hafi rist nöfn sín rúnaletri á steininn. [Rit eftir Jónas Hallgrímsson III (1933) bls. 144—5 og bls. 167—8 og athugasemdir Matthíasar Þórðarsonar á bls. 295. Rit eftir Jónas Hallgrímsson II (1932) bls. 80, 82: „Flókasteinninn minn, eður hvað ég á að kalla hann” og 108.] Jónas virðist einkum hafa gert sér grillur út af þremur atriðum, öllum vandmeðförnum og villandi, þegar hann slær þessu fram. Í fyrsta lagi Skarðsárbókartexti Landnámu; Björn á Skarðsá hefur tekið Hauksbókartexta upp í Landnámugerð sína en ekki Sturlubókartexta; í Sturlubók Landnámabókar er Hvaleyrar eða Hafnarfjarðar ekki getið. Hvaleyrar er sennilega getið í Hauksbókartexta Landnámu af því að snemma á öldum hefur þar þótt góð höfn, „Herjólfshöfn”. Nú er landslag þarna mjög breytt frá því sem var. [Gísli Sigurðsson (1961).]

flokaklopp III

Jón Jóhannesson álítur frásögn Hauksbókar „auðsæilega staðsögn úr Hafnarfirði” [Jón Jóhannesson (1941) bls. 178.] en þar getur eins vel verið um lærðan tilbúning að ræða. Breytir það engu um kunnugleika Hauks lögmanns Erlendssonar á þessum slóðum. [Jón Jóhannesson (1941) s. st. Helgi Guðmundsson (1967) bls. 46—8]. Jónas Hallgrímsson hefur sennilega stuðst við Landnámu-útgáfuna 1829 en þar er Skarðsárbókar-texta fylgt allnákvæmlega. Krítisk útgáfa Landnámsbókar kom ekki út fyrr en 1843. [Skarðsárbók (1958) bls. XLIV—XLV og bls. 6. – Landnámabók (1900) bls. 5 og 131]. Í öðru lagi hefur Jónasi verið ofarlega í huga orðrómurinn um farmannanöfn á steininum; þannig eru á steininum „Navnene paa det Skibsmandskab, som Vikingen Flóki havde med sig”.

Hvaleyri

Flókasteinn – ristur.

Í þriðja lagi virðist Jónas álíta að unnt sé að lesa með vissu úr fangamörkum steinsins eiginleg nöfn eigenda þeirra. Jónas hefur á veglegri teikningu af Flókasteini sínum sleppt ýmsu, bæði ártölum og skrauti, eins og hann getur um með þessum orðum: „De mange nyere Navne, som blot tjente til að vansire og forvirre Tegningen, er med Flid udeladte.” [Rit eftir Jónas Hallgrímsson III (1933) bls. 168 og 145, teikningin er á bls. 169 án skýringartexta. 1 Ny kgl. Saml. 3296, 4to, kapsel 9, sem er pappírar frá P. G. Thorsen, eru þrjár teikningar af hæsta Hvaleyrarsteininum: I „Frumrit” 28X19 sm með dönskum skýringartexta eftir Jónas Hallgrímsson (nú styrkt með lérefti). Eftir þessari teikningu er mynd sú sem hér er prentuð en neðst í vinstra horni hennar stendur með blýanti „Flókasteinn”. II Afrit 33X19 sm með íslenskum skýringartexta eftir Gunnar Hallgrímsson. Textinn er þýðing á I nema eftirfarandi: „teiknað þann 27 og 28 Júní 1841. af Gunnari Hallgrímssyni enn af Jónasi Hallgrímssyni þann 25 og 26 sama mánaðar”. Í vinstra horni neðst hefur Thorsen skrifað: „Fra Jonas Hallgrimssons p. 25. Nov. 1842. Th.”. III Afrit 27X17 sm með dönskum texta eins og í nema fyrirsögnin er: „Den saakaldte Flókasteinn (Flokesten) ved Havnefjord (Hafnarfjörður) i Island”. Pappírinn er hálfgagnsær].

flokaklopp IV

Nú víkur sögunni suður til Kaupmannahafnar þar sem Finnur Magnússon prófessor hefur tekið við skýrslu Jónasar um Flóka-stein. Ljóst er að Finnur hefur þegar í stað ginið við þessari flugu Jónasar. Í bréfi til C. C. Eafns hinn 22. október 1841 lýsir Finnur m. a. gögnum frá fornleifa-athugunum Jónasar Hallgrímssonar. Telur hann fyrst úrdrætti úr dagbókum Jónasar og síðan „dertil horende Tegning af ældgamle mærkelige Binderuner fra en stor Sten paa Hvaleyri ved Havnefjorden, (en af Figurerne har en paafaldende Lighed med en eller to paa Ammerwat-Stenen).” [Nationalmuseet i Kobenhavns arkiv, Island, Diverse ældre administrative Sager].
Hér hefur Finnur bætt gráu ofan á svart. Með Ammerwatsteininum er átt við danskan rúnastein sem nú er jafnan kallaður 0ster Logum steinninn. Stendur steinn sá við danska herveginn á Jótlandi og er talinn áletraður á víkingaöld.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – ristur.

Á steininum stendur með rúnum hairulfR, eða Herjólfur. [Danmarks Runeindskrifter (1942) dálkur 40—42]. Virðist Herjólfur Hrafna-Flóka hafa minnt Finn á Herjólf danska. Af pappírum P. G. Thorsens er ljóst að Finnur hefur haldið Flókasteinshugmynd Jónasar að fleiri vinum sínum í Höfn. Hefur Thorsen skrifað á minnismiða hjá sér eftirfarandi: „En Sten siges at være fundet paa Isl. 1841 om landnám.” [Ny kgl. Saml. 3296, 4to, kapsel 9, miði þessi er lítill, aðeins 10X4 sm að stærð].
Árni Helgason í Görðum er hinn næsti sem getur Hvaleyrarrista Segist hann í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842 hafa skoðað þær; „mörg nöfn gat ég þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýzkra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helzt meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn; sumstaðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er að þeir sem betur eru læsir geti þar fundið rúnir.”[Landnám Ingólfs III (1937—39) bls. 218]. Hér er orðrómurinn um farmannaristur kominn enn á ný enda skammt milli lýsinga. Líklegt er að beint eða óbeint samband sé milli lýsinga þeirra Árna og Jónasar.

flokaklopp V

Magnús Grímsson var nemandi í Bessastaðaskóla árið 1845. Var þá þegar farinn að vakna með honum áhugi á forn- og þjóðfræði og „dirfist” hann í februar sama ár til að skrifa Finni Magnússyni og spyrjast fyrir um rúnir. [Rigsarkivet, Finn Magnussens arkiv, Breve fra Islændere A 3, Magnús Grímsson til Finns, 27. 2. 1845]. Var það upphaf nokkurra bréfaskipta. Síðar á sama ári skrifar Magnús Finni aftur og segir þar m. a.: „Á Hvaleyri við Hafnarfjörð er steinn mikill sem Jónas sál. kvað hafa skoðað. Á honum eru bandrúnir margar, og hef ég tíðum reynt mig á að lesa úr þeim.” Enn segir Magnús: „sýnist mér ei ólíkt að hér væru nöfn Herjólfs og Þórólfs smjörs, sem getið er í Landn. 3. kap Af því ég efast ei um að þér hafið eptirrit, uppdrátt og nákvæma lýsingu steins þessa, sem í mörgu er merkilegur, þá gef ég ei um að skýra betur frá honum .. ,” [Rigsarkivet, Finn Magnussens arkiv, Breve fra Islændere A 3, Magnús Grímsson til Finns, 28. 8. 1845]. Ári síðar segir Magnús í bréfi til Finns: „Ekki hefi ég enn getað skoðað Hvaleyrarsteininn nákvæmar, en ég ætla samt að gjöra það.” [Rigsarkivet, Finn Magnussens arkiv, Breve fra Islændere A 3, Magnús Grímsson til Finns, 28. 2. 1846. Ekki minnist Magnús á Hvaleyrarstein í bréfi til Finns, 28. 6. 1847, sem geymt er í Ny kgl. Saml. 3296, 4to, kapsel 9].

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Af skrifum Magnúsar er ljóst að honum hefur verið mæta vel kunnugt um rannsókn Jónasar Hallgrímssonar á ristunum, svo vel að hann þekkir Flókasteinshugmynd hans og veit meira að segja að Finnur á bæði uppdrátt og eftirrit af steininum. Magnús er því í öllu háður hugmynd Jónasar Hallgrímssonar nm frásögn af steininum. Magnús hefur lengi haldið tryggð við þessa hugmynd. Árið 1854 hlaut Magnús, fyrir milligöngu Jóns Sigurðssonar, styrk til fornfræðaferða um Island frá „Det Kongelige Nordiske Oldskrift-Selskab”. Þá gafst Magnúsi tækifæri til að ferðast um Íngólfurs landnám” eins og hann orðar það í bréfi til C. C. Rafns. Segist Magnús hafa komið „til Hvaleyri’ hvor der efter min Mening, er den ældste Runeindskription i Landet.” [Ny kgl. Saml. 1599 IV, 2a fol. Magnús Grímsson til C. C. Rafns 14. 11. 1854].

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Þannig er hugdetta Jónasar orðin að fastri hugmynd hjá Magnúsi Grímssyni. Um afdrif þessarar hugmyndar um Hvaleyrarsteininn er ekki kunnugt, en vera má að Jón Sigurðsson hafi átt þátt í því að koma Magnúsi niður á jörðina. 1 handritasafni Jóns er varðveitt allgóð blýants teikning af hæsta Hvaleyrarsteininum, en henni hefur ekki verið veitt athygli áður. [17 JS. 149, fol.]. Ekkert bendir til að teikningin sé eftir Jón Sigurðsson sjálfan og ef litið er til þess sem hér hefur verið tilfært á undan er langsennilegast að Magnús hafi gert hana. Enginn skýringartexti fylgir teikningunni. Teikningin virðist einungis sýna efsta flöt steinsins alveg eins og teikning Jónasar. Hún er miklu nákvæmari um sumt og tilfærir ártölin á steininum. Hún er ekki áreiðanleg um allt en erfitt er að gera þessu fullkomin skil þar sem áletranirnar eru víða ógreinilegar og máðar. Teikningin er hér prentuð á bls. 78.

flokaklopp VI

Kristian Kálund getur Hvaleyrar í drögum að staðsögulýsingu Íslands. Segir hann að þar séu á nokkrum flötum klöppum „endel latinske forbogstaver og árstallene 1628 og 1777, samt nogle binderuner og lignende.” Segir Kálund að almennt sé haldið að verslunarmenn, sjómenn og aðrir, sem leið hafi átt þar hjá, hafi gert risturnar.  [Kristian Kálund (1877) bls. 28. Ummæli í Kristian Kálund (1882) bls. 102]. Er Kálund hinn fyrsti sem talar berum orðum um og tilfærir á prenti ártöl á Hvaleyrarsteinum. öðrum hefur þó ekki tekist að lesa ártalið 1628 á steinunum og er það því sennilega misskilningur Kálunds.
Sigurður Skúlason á greinargóða og sígilda lýsingu Hvaleyrarsteina í riti sínu um sögu Hafnarfjarðar. Er hann hinn fyrsti sem segir steinana með ristunum vera fjóra talsins. Áhugi Sigurðar beinist einkum að ártölum steinanna.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – ristur.

Þykir rétt að láta lýsingu hans á Flókasteini Jónasar fylgja orðrétta: „Á hæsta steininum, sem flest táknin eru höggin í, má lesa þessi ártöl á fletinum, sem upp snýr: 1657 (á þrem stöðum), 1673, 1681, 1697 og 1781; auk þessa er þar 87, sem á annað hvort að vera 1687 eða 1787. Á norðurhlið sama steins eru þessi ártöl, sem lesin verða með vissu: 1678, 1681, 1707 og 1723, en auk þess er þar höggið A 81 (— Anno 1681?), A 91 (— Anno 1691?) og 17C (— 1700).” Sigurður lýsir ristum á öðrum steinum svo: „Á allstórum bungumynduðum grásteini norðvestur af fyrr nefndum steini má á fjórum stöðum lesa ártalið 1777 (risturnar eru þar alls fjórar). Á flötum kletti suður af þeim síðast nefnda eru tvær ristur, en ekkert ártal. En á stórum flötum steini skömmu austar stendur ártalið 1657 og An 57 (— Anno 1657?).” [Sigurður Skúlason (1933) bls. 27]. Af afstöðuskissu þeirri sem hér fylgir má sjá hversu greinargóð þessi lýsing er.

flokaklopp VII

Upplýsingarnar um ártölin 1777 koma heim og saman við athuganir greinarhöfundar. Hvað varðar klettinn með tveimur ristum en engu ártali þá kom greinarhöfundur aðeins auga á eina ristu þar, bókstafina B H S í ramma. Yfirborð steinsins kann að hafa hulist jarðvegi að einhverju leyti, ekki síst vegna stríðsumbrotanna sem áður eru nefnd. Stóri flati steinninn skömmu austar, með ártali frá sautjándu öld, er klöppin sem nú er skemmd af steinsteypu. Sigurður minnist á tvo fyrri rannsakendur, þá Jónas Hallgrímsson og Árna Helgason. Telur Sigurður réttilega tilgátur Jónasar um aldur og uppruna markanna á hæsta steininum mjög fjarri sanni. Þó hafi Jónas haft rétt fyrir sér í því að rúnateiknin séu eldri en bókstafirnir og ártölin á steininum. Fremur er Sigurði í nöp við notkun Árna Helgasonar á orðinu „nöfn” um fangamörk á steininum. [Sigurður Skúlason (1933) bls. 28]. Rétt er í því sambandi að minnast þess að fangamörk voru áður fyrr notuð í stað nafnsundirskriftar, ekki síst af lítt læsum eða pennavönum mönnum, svo að orðalag séra Árna þarf ekki að vera mjög undarlegt.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – ristur.

Þá telur Sigurður það „vafalaust” að útlendingar, sjómenn og kaupsýslumenn, hafi gert sumar risturnar, en ekkert sé því til fyrirstöðu að Íslendingar hafi gert einhverjar þeirra. [Sigurður Skúlason (1933) bls. 29].
Er þó sönnu nær að ekkert er vafalaust í þessu efni. Loks álítur Sigurður rétt að tímasetja risturnar til 17. og 18. aldar og ef til vill til 16. aldar. Anders Bæksted ritar um Hvaleyrarristur í verk sitt um íslenskar rúnaristur. Fremur lítið er á lýsingu hans að græða þótt ágæt ritaskrá fylgi. Telur hann risturnar vera frá 17. og 18. öld.
Með Jónasi Hallgrímssyni hef jast rannsóknir Hvaleyrarrista árið 1841. Áhuginn er þá einkum bundinn við teikn lík rúnum, að öðrum ristum er lítt hugað. Blendingur sagna úr samtíðinni, heit þjóðernisrómantísk trú á fornritin ásamt frjóu ímyndunarafli móta einkum viðhorfin fram eftir 19. öldinni. Með Kálund á síðari hluta aldarinnar er ártölunum á steinunum loks veitt nokkur athygli og striki slegið yfir fyrri grillur um risturnar. Þegar Sigurður Skúlason ritar lýsingu sína á Hvaleyrarsteinum beinist öll athyglin að ártölum ristanna, að öðrum ristum er lítt hugað. Sigurður álítur risturnar einkum frá 17. og 18. öld sem og Bæksted sem minnist á risturnar í riti útgefnu 1942.
flokaklopp-228Um íslensk mörk og fangamörk og menningar-sögulegt gildi Hvaleyrarrista Af rannsóknarsögu varð ljóst að menn hafa nokkuð einhliða athugað tvenns konar teikn á Hvaleyrar-steininum. Teikn steinanna má vissulega greina í ártöl og teikn lík rúnum (varla umsvifalaust „bandrúnir”) og önnur teikn og skraut. En algjör aðgreining ártala og marka verður rannsakendum að fótakefli þegar til túlkunar kemur. Ártöl steinanna eru hin mikilvægustu til tímasetningar á ristunum ef þau eru ófölsuð. Helstu líkur til þess að ártölin séu frá þeim tíma sem þau nefna eru þrenns konar.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – ristur.

Í fyrsta lagi er staðsetning ristanna á hæsta steininum. Þar eru teiknin og ártölin svo óreglulega staðsett að ekki eru líkur til að þau hafi verið sett á sama tíma. Óregluleg dreifing í rúmi bendir til óreglulegrar dreifingar í tíma; slíkt kemur heim við hin mismunandi ártöl og mælir þannig gegn fölsun.
Í öðru lagi hafa menn á dögum Jónasar Hallgrímssonar (1841) ekki verið sammála um uppruna ristanna; yngsta ártalið á steinunum er 1781 og eru þá sextíu ár milli þess og sagnanna sem Jónas hefur, en það er nógur tími til þess að velkja munnlega sögu svo að mörg verði afbrigði hennar.
í þriðja lagi eru ýmis auðkenni ristanna, einkum þó að ártölin umlykja fangamörk sem eru gerðþróunarlega mismunandi en gerðir þeirra sýna nokkra fylgni við ártölin. Það er kunn fornfræði að mismunandi gerðir hluta og teikna benda til mismunandi tíma (typologi).
hvaleyri - kortHér á eftir verður drepið á nokkur atriði varðandi þróun marka og fangamarka á Íslandi og stöðu Hvaleyrarrista í þeirri þróun.
Þróun íslenskra marka og fangamarka er menningar-sögulegt efni sem að vissu leyti er tengt innsiglafræði (sfragistik) og fornbréfafræði (diplomatik). Einnig er það tengt réttarsögu með fornum lagagreinum um mörk og einkunnir. Breytingar á gerð og notkun marka og fangamarka eru háðar víðtækum samfélagslegum breytingum og um efnið verður því ekki fjallað nema mjög yfirborðskennt í grein sem þessari.
Áður en lengra er haldið er rétt að minnast ögn á nokkur orð og merkingar þeirra. Orðið fangamark má skýra með orðum Jóns Sigurðssonar þótt merking þess sé ef til vill nokkru víðtækari en hann segir: „Þesskonar mark, sem vottar um eign einstaks manns á hlutnum eða einræði yfir honum er kallað fángamark.” [24 JS. 496, 4to. Skýring í Finn Magnusen (1841) bls. 184: „bogstavlig oversat: fangne eller bundne Tegn” er mjög vafasöm].

Flókaklöpp

Flókaklöpp – ristur.

Orðið „búmerki” mun vera þýðing á danska orðinu bomærke, sennilega hefur islenska orðið um þetta einkum verið mark. Orðið bandrúnir eða bundnar rúnir (jafnvel samanstungnar rúnir) er notað um rúnastafi sem settir eru hver ofan í annan; þannig geta þeir myndað eitt teikn fyrir hvert orð, sbr. „Rista má rúnastaf einn fyrir ord hvört”. Samanburðarefni við Hvaleyrarheimildina er sennilega mikið að vöxtum þótt enn sé það lítið rannsakað. Árni Magnússon, Finnur Magnússon og Jón Sigurðsson söfnuðu allir eða rituðu um íslensk fangamörk. Árni Magnússon safnaði mörkum úr íslenskum innsiglum andlegra og veraldlegra manna. [Ljósprentuð í Sigilla Islandica I—II (1965—67)].
Finnur Magnússon veitti einkum athygli og safnaði mörkum af fornminjum og bergi á Íslandi. [Í Antiqvariske Annaler IV (1827) bls. 357—64 hefur Finnur Magnússon gert drög að skrá yfir þá staði þar sem búmerki er að finna höggvin í berg á Íslandi.

Sönghellir

Í Sönghelli.

Í Ny kgl. Saml. 3296, 4to, kapsel 9, eru tvö fangamarkasöfn, annað úr Sönghelli á Snæfellsnesi eftir séra Ásgrím Vigfússon, og hitt af kirkjuhurð á Hofi í Vopnafirði líklega eftir séra Guttorm Þorsteinsson; þessi söfn virðast komin frá íslensku prestaskýrslunum frá fyrri hluta 19. aldar um fornleifar. Finn Magnusen (1841) bls. 182—83].
Jón Sigurðsson safnaði miklu safni marka af íslenskum innsiglum. Ennfremur skrifaði Jón ritgerð, sem hann sendi til Homeyers prófessors í Berlín, og heitir hún í uppkasti „Um mark, fángamark (búmerki) á íslandi”. Þessi ritgerð er ef til vill með því greinarbesta sem ritað hefur verið um íslensk innsigli, og fylgja menningarsögulegar athugasemdir um mörk og fangamörk. [JS. 496, 4to. Þar er bæði búmerkjasafn og ritgerðaruppkast Jóns.]. Þegar Homeyer ritaði bók sína um „Die Haus- und Hofmarken” tók hann einnig með íslenskt efni og styðst um það nær eingöngu við úrvinnslu þeirra Finns og Jóns.
hvaleyri - skotgrofBúmerki eru þekkt frá fyrri tíma víða úr Norðurálfu, og jafnvel frá vorum dögum í Dölum Svíþjóðar. [C. G. Homeyer (1870). Mats Rehnberg (1938). Mats Kehnberg (1948)]. Þau voru hin mikilvægustu áður fyrr meðan menn kunnu almennt ekki að lesa eða skrifa. Þýðing þeirra hefur sennilega minnkað með undanhaldi ólæsis en engu að síður má gera ráð fyrir nokkurri íhaldssemi í notkun þeirra og svipmóti.
Prestar og embættismenn og embættisaðall kunnu vafalaust að lesa og skrifa á Íslandi fyrrum og vel má vera að meðal landeigenda hafi lestrar- og skriftarkunnátta verið venjuleg. Leiglendingar og vinnufólk, sem var allur þorri þjóðarinnar, þurftu hins vegar alls ekki að kunna að lesa og skrifa til að stunda störf sín. Þessu fólki var þó skylt að kunna og virða búfjár- og fangamörk.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Samkvæmt Jónsbók fóru allir leigusamningar á jörðum fram munnlega með tveimur vitnum en árið 1705 kvað konungleg tilskipan á um að jarðir skyldi leigja með skriflegum samningi og skriflegar kvittanir skyldu koma fyrir greidda leigu [30 Lovsamling for Island I (1853) bls. 623—24]. Varð þá brýn nauðsyn sérhverjum leiguliða að kunna að lesa og skrifa. Ekki er ólíklegt að minnkandi notkun búmerkja og endanlegt hvarf þeirra af sjónarsviðinu standi í einhverju sambandi við breytingar sem þessa. Jón Sigurðsson hefur bent á mikilvægi lagagreina um mörk og einkunnir bæði í Þjóðveldislögum og Jónsbók. [JS. 496, 4to.]. Norski réttarsögufræðingurinn Absalon Taranger nefnir með réttu einnig Járnsíðu (Hákonarbók).

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Í norskum lögum eru ekki hinar nákvæmu greinar íslenskra laga um mörk og einkunnir og telur Taranger þar nokkru valda um mikla sauðfjárrækt Íslendinga. [Absalon Taranger (1897) bls. 86—88]. Kann það vel að vera, en benda má á að ákvæði í Grágás um viðarmörk, sem sennilega hafa verið nokkurs konar búmerki,33 eru tekin upp bæði í Járnsíðu og Jónsbók. Þetta gæti því fremur bent til viðarskorts á Íslandi en sauðfjárfæðar í Noregi. Ekki er ástæða til að ætla annað en að búmerki og eyrnamörk búfjár hafi flust til Íslands þegar með frumbyggjum úr Noregi eða Vesturhafseyjum. Líklega er mark á fjöl með Hringaríkisskreyti frá Hólum í Eyjafirði eitt elsta íslenskt dæmi um búmerki. Þó þarf markið ekki að vera jafn gamalt skreytinu. Á Valþjófsstaðahurðinni má sjá mörk sem skorin hafa verið í umgjörðirnar um hinar eiginlegu myndkringlur hurðarinnar. Í þessu sambandi er athyglisverður til samanburðar markaskurður í norskum híbýlum og kirkjum.
hvaleyri-223

Á miðöldum var algengt víða um Evrópu að borgarar og bændur, sem ekki höfðu skjaldarmerki, notuðu búmerki í skildi innsigla sinna. Fram á sautjándu öld notuðu menn á Íslandi oft búmerki í innsigli sín. Samtímaheimildir votta að á þau hefur stundum verið litið sem bandrúnir sem lesa mátti úr. [Ole Worm’s Correspondence with Icelanders (1948) bls. 222, bréf frá Magnúsi Ólafssyni í Laufási 4. 9. 1630, í danskri þýðingu í Breve fra og til Ole Worm I (1965) bls. 227].
Líklegt er að eitthvert samband sé milli notkunar búmerkja almennt og notkunar þeirra á innsiglum. Segir Jón Sigurðsson í ritgerð sinni að á sautjándu öld sjáist enn almennt rúnaletur á innsiglum, „. .. og má finna þetta framyfir miðja öld, einkum meðan hángandi innsigli finnast fyrir bréfunum. Þareptir komu innsigli með latínsku bandaletri (sem nú er kallað allianceletur) með upphafsstöfum nafnanna (t. d. „S. M. S.” bundið á tvo vegu fyrir Skúla Magnússon). Á átjándu öld er þetta venjulegast, og mun ekki víða finnast rúnaletur á innsiglum. Nú á þessum tímum er það og sjaldgæft, en menn hafa full nöfn sín með latínustöfum.” [38 JS. 496, 4to.]. Ekki eru eiginleg búmerki skilgreinanleg sem skjaldarmerkjalegs eðlis (heraldísk), því að þau eru gerð úr einföldum strikum og þess vegna ekki unnt að gera ur þeim skjaldarmerkjalegar myndir sem samanstanda af lituðum flötum. Hins vegar mun ýmist að þau séu bundnar rúnir eða hreinlega merki sem ekki er unnt að leysa upp í letur. [C. G. U. Scheffer (1957) og Hallvard Trætteberg (1957)].

Flokaklopp-225

Víkjum nú að Hvaleyrarristum. Á elstu tímasettu ristunum, þ. e. þeim: sem ártölin 1653 og 1657 klofna um, má sjá að þær eru harla líkar búmerkjum. Þegar komið er „framyfir miðja öld” tekur við „allianceletur”, oft með endastafnum S. sem sennilega táknar -son. Ekki hafa þó allar tímasettar latínustafasamstæður endastafinn S. Er af þeirri ástæðu ef til vill unnt að leggja nokkurn trúnað á þá sögn, sem Jónas Hallgrímsson tilfærir, að útlenskir menn hafi klappað sum merkjanna í steinana. Hins vegar kemur þessi þróun, breytingin úr búmerki í allianceletur, nokkuð vel heim við ætlan Jóns Sigurðssonar. Þó ber að hafa í huga að Hvaleyrarristur eru ekki nógu stórt safn fangamarka til þess að þetta sé almennt óyggjandi. Mörg teikna hæsta steinsins eru ótímasett og hafa á sér ósvikinn blæ búmerkja. Bæði Jónas Hallgrímsson og Sigurður Skúlason álitu þau eldri en latínustafina eins og rakið er að framan. Það er að vísu rétt að yngsta tímasetta latínustafasamstæðan (LMB 1781) og eitt þessara marka skerast. Af því er þó erfitt að segja hvort muni eldra eða yngra, en með hliðsjón af tímasettum mörkum steinsins virðist álit þeirra Jónasar og Sigurðar líklegt til að vera rétt.

Hvaleyri

Hvaleyri – Minorsteinninn.

Má nú draga saman. Ártöl ristanna á steinunum frammi á Hvaleyrarhöfða eru sennilega ófölsuð; til þess bendir afstaða þeirra hvers til annars, gerðþróunarleg eindrægni markanna sem með þeim standa og ágreiningur um uppruna ristanna 1841, en þær eru þá orðnar svo gamlar að menn eru ekki sammála um hann. Heimildin um þróun íslenskra fangamarka á Hvaleyri mun eiga sér margar hliðstæður til samanburðar á Íslandi. Þá hefur verið drepið á söfnun og skrif um mörk, fangamörk og búmerki á Islandi og annars staðar. „Búmerki” hafa sennilega borist til Íslands með fyrstu mannabyggð.
Fornar lagagreinar benda til mikilvægi marka á Íslandi. Stuðst hefur verið við ritgerð Jóns Sigurðssonar „Um mark, fángamark (búmerki) á íslandi” og komist að þeirri niðurstöðu að hið takmarkaða fangamarkasafn á Hvaleyri komi vel heim og saman við frásögn Jóns af gerð fangamarka í innsiglum. Þá hefur þeirri tilgátu verið varpað fram að þverrandi notkun búmerkja standi í einhverju sambandi við vaxandi lestrar- og skriftarkunnáttu almennings og lagakröfur um skriflega jarðaleigusamninga í byrjun 18. aldar.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 71. árg. 1974, bls. 75-91.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.