Færslur

Sæskrímsli

Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landakönnuðir og kortagerðamenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir áreiðanlegustu heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit. Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo neinu næmi.
SkrímsliOftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri. Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi og enn eru að finnast kvikindi, sem talið hefur verið að ættu að vera útdauð fyrir löngu. Þannig fannst t.d. fyrir skömmu 33 feta “útdauður” sæormur við strönd Kaliforníu.

Merki Grindavíkur er Hafur; skírskotun til hafsins? Grindvíkingar hafa af og til talið sig hafa séð ýmislegt í sjóum og í gjám, sem erfitt hefur reynst að útskýra sem eðlilegan hlut. Einn sagði m.a. frá ferð í hina vatnsmiklu Grænubergsgjá ofan við Staðarhverfi. Hafði hann frétt af því að álar gengu upp í gjána og ætlaði hann að reyna að ná í nokkur stykki. Þegar íbúinn hafði komið sér fyrir eftir að hafa klifrað niður að vatnsfletinum rýndi hann niður í spegiltært undirdjúpið. Eftir að hafa setið á hækjum sínum stutta stund virtist sem “lítill” áll nálgaðist yfirborðið hægt og rólega. Teygði maðurinn sig þá fram og gerði sig tilbúinn að grípa fiskinn þegar hann kæmi nær, en honum hætti hins vegar að lítast á blikuna þegar “litli” állinn stækkaði óðfluga eftir því sem hann nálgaðist meira. Undir það síðasta sá maðurinn sitt óvænna, reis upp og ákvað að koma sér upp úr gjánni hið skjótasta – því ef héldi fram sem horfði myndi hún hvorki rúma bæði hann og aðkomudýrið, svo fljótt stækkaði dýrið í tíma og rúmi er það nálgaðist. Manninum varð svo mikið um að hann leit ekki aftur fyrir sig fyrr en hann hafði staðnæmst í Grindavík.

Þekkt er sú sögn í Grindavík að börn mættu ekki koma nálægt Silfru því í gjánni væri skrímsli er gæti tekið þau til sín. Fæstir höfðu séð skrímsli þetta því langflestir þorðu ekki að nálgast staðinn fyrir sitt litla líf. Þó voru til vansvefta Grindvíkingar sem höfðu það augum litið að næturlagi. Einn, sem ekki vildi láta nafn sitt getið, lýsti því svo: “Þetta er ægilegt skrímsli, dökkgrænt og ekki ólíkt krókudíl. Ég sá bara hausinn, en það var líka alveg nóg. Sennilega hef ég bara verið heppinn að sleppa lifandi frá óberminu. Við horfðumst á um stund og þá voru ekki nema u.þ.b. 5 metrar á millum.”
Sú trú hefur löngum verið meðal íbúa Grindavíkur, a.m.k. þeirra elstu, að sæskrímsli leiti upp í brunna og gjár ofan við Grindavík sér til hvíldar – enda nóg af hvorutveggja. Eitt skrímslið sást einu sinni sóla sig á jónsmessunótt á barmi Bjarnagjár, öðru (gæti þó verið það sama) brá fyrir í Hrafnagjá nokkrum árum seinna og nokkrir hafa talið sig sjá langmjótt trýni gæjast upp úr Gerðavallabrunnum af og til, einkum að kvöldlagi eða snemma morguns. Guðjón í Vík hefur bæði séð kvikindi bregða fyrir í Dalnum og í Vatnsstæðinu. Hefur það m.a. sést flatmaga á grasbakkanum innst í Nautagjá, sem þá var hvað næst byggðinni. Grindavíkurprestur, sem heyrði þá frásögn, bað viðkomandi lengstra orða að minnast ekki á atvikin því þau “gætu komið róti á sóknarbörnin”.
Allir geta verið sammála um að ekki hafa allir kimar hafsins og gjánna verið kannaðir og reyndar mjög fáir. Það ætti því, eðli málsins samkvæmt, að ve
ra erfitt að fullyrða að hvergi kunni að leynast dýr, sem “ekki eru til”. Hafmeyjar eru t.d. ekki óþekktar meðal grindvískra sjómanna (sjá t.d. um hafmeyna í Grindavík HÉR). Og hafgúur, sbr. eftirfarandi frásögn: “Svo hefur sagt Pétur Eyjólfsson skipari, að eitt sinn, er hann sigldi skútu sinni sunnan fyrir Eldeyjar og vestur á Jökuldjúp á Faxaflóa, sá einn háseta mannshöfuð ofan um brjóst standa úr sjó upp. Sá sagði, er hann sá þetta: „Hver djöfullinn er að tarna?” Pétur hljóp undan stýrinu og setti annan undir og bað að stýra hjá sýn þessari, en eigi á hana. Sagði hann svo, að andlit þetta væri sem stór altunnubotn með rauðgulu hári hrokknu. Eigi sáust hendur, nema líkt handleggjum til olnboga, en brjóst afarmikil. Sýndist honum sem holdslitur á vera. Sá hann og til alls andlitsskapnaðar, en allt ógurlega stórvaxið. En þá er Pétur var sigldur eigi alllangt umfram, seig skrímsl þetta allhóglega í sjó. Ætlaði Pétur það margýgi (hafgúu) verið hafa. Eigi heyrðu þeir neitt í henni láta, en líkast, að hún sneri sér við að gæta þeirra.”
“Árið 1590 kom út nýtt viðlagabindi, Additamentum IV, við kortasafn hollenska kortagerðarmannsins Abrahams Orteliusar, Theatrum orbis terrarum. Í því er kort af Íslandi. Höfundar er hvergi getið en tekið er fram að það sé stungið í eir 1585. Á kortinu er líka að finna tileinkun til Friðriks II Danakonungs frá Anders Sørensen Vedel (Andreas Velleius), hinum kunna sagnaritara Dana. Það er fyrir löngu orðið ljóst að Vedel er ekki höfundur kortsins og hefur ekki getað gert það. Kortið er það mikið tímamótaverk miðað við fyrri kort, þ. m. t. Norðurlandakort Orteliusar sjálfs frá 1570, að það má telja vafasamt að það sé gert eftir fyrirmynd erlends manns. Hér er ekki öðrum til að dreifa en Íslendingi og berast þá böndin fljótt að manni þeim er fjöllærðastur var allra landsmanna, Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum. Guðbrandur var hneigður til stærðfræði og hann átti bækur helstu stærð-, landfræðinga og kortagerðarmanna. Hann mældi hnattstöðu Hóla og fékk mjög nákvæma útkomu. Til er kort eftir hann af Norður-Atlantshafi og löndum umhverfis það frá árinu 1606. Íslandskort Guðbrands er ekki lengur til og ekki er vitað hvenær hann gerði það. Til er listi yfir kirkjur og firði sem hann virðist hafa notað við gerð þess. Ekki er heldur vitað með vissu með hverjum hætti kortið barst Orteliusi í hendur. Leitt hefur verið getu
m að því að hann hafi fengið það frá Vedel sem vann um þessar mundir að sögu Danaveldis, sem kom aldrei út, en með henni áttu að fylgja kort af ríkinu. Allt er ókunnugt um samband Guðbrands biskups og Vedels en líklegast er að Vedel hafi snúið sér beint til hans þegar kom að því að fá kort af Íslandi í hina fyrirhuguðu bók. Í lesmáli aftan á kortinu ber Ortelius Vedel fyrir ýmsu af því sem hann segir af landinu og hann talar um Vedel sem höfund kortsins. Þetta bendir til þess að eitthvað samband hafi verið á milli þeirra. Ortelius hefur eflaust ekki fengið frumkort Guðbrands frá Vedel og því ekki vitað að hann var höfundurinn. Þó að Íslandskort Orteliusar væri lengi vel eignað Vedel vissu þó sumir að hann var ekki höfundur þess. Finnur Jónsson biskup eignar Guðbrandi kortið án allra athugasemda í kirkjusögu sinni og danski sagnaritarinn Lyschander, samtímamaður Vedels, segir beinlínis að það sé eftir Guðbrand.

Kort Orteliusar er prentað í opnu arkarbroti en á baki er lýsing landsins á hinum ýmsu tungumálum sem kortasafnið var prentað á áður en yfir lauk. Talið er að Ortelius sé höfundur þessa lesmáls en mikið af því sem þar kemur fram er ættað frá Vedel og í síðari útgáfum var ýmsu bætt við m. a. úr Brevis commentarius eftir Arngrím Jónsson lærða sem kom út á þessum tíma.
Umhverfis landið svamlar mikill fjöldi hvala og ófreskja. Þau eru, ásamt rekavið, hafísum og ísbjörnum, merkt bókstöfunum A-Q sem vísa til skýringa á bakhlið kortsins. Ekki er vitað hvort eitthvað af þessum furðudýrum var á frumkorti Guðbrands eða hvort þau voru viðbætur Vedels og Orteliusar. Ýmis skrímsli á kortinu virðast eiga til einhvers skyldleika að telja við ófreskjurnar á Norðurlandakorti Olaus Magnus frá 1539 og í Kosmógrafíu Sebastians Münsters frá 1544. Íslensk nöfn nokkurra hvalategunda gætu þó bent til þess að einhver slíkur fróðleikur hafi fylgt kortinu frá biskupi þó að endanlega gerð sína hafi þau líklega fengið hjá þeim sem bjuggu kortið prentunar og gerðu myndamótið.
Ef litið er á landið í heild eins og það kemur fyrir á kortinu kemur brátt í ljós að lögun þess er fjarri því að vera rétt ef miðað er við nýjustu kort gerð með fullkomnustu tækjum. Landið er allt dregið of skörpum og beinum línum. Það vekur athygli hve mikið fer fyrir fjörðum, flóum og skögum í hlutfalli við aðra stærð landsins. Eflaust stafar þetta af því að strandlengjan var mönnum miklu kunnari en þeir hlutar er innar lágu. Stefnur fjalla og fljóta eru aðeins réttar í meginatriðum og upptök hinna meiri vatnsfalla eru biskupi flest ókunn. Hálendi er víðast hvar dregið af handahófi og þegar kemur að miðhálendinu er eins og allt fari úr böndunum hjá Guðbrandi og sýnir það ljóslega hve þessar slóðir voru mönnum ókunnar. Það sést best á því að Vatnajökull er ekki á kortinu og verður það teljast furðulegt því flestir hinna meiri háttar jöklanna eru sýndir. Vegna þess hve kortið gerir hálendinu lítil skil verður landið talsvert mjórra en efni standa til og of langt miðað við breiddina. Landið er látið spanna 23 lengdargráður sem er meira en helmingsaukning frá réttu lagi.
Kort Guðbrands biskups Þorlákssonar í gerð Orteliusar birtist síðan í útgáfum á kortasafni hans á hinum ýmsu tungumálum fram til ársins 1612. Langflest eintök af Íslandskorti Guðbrands sem þekkjast eru þannig til komin að bóksalar hafa rifið kortasafnið í sundur og boðið hvert kort fyrir sig til sölu. Mörg eintök af því hafa verið litskreytt.”
Frásögn af skrímsli í Kelifarvatni má sjá HÉR.

Heimild:
-http://kort.bok.hi.is