Eftirfarandi upplýsingar bárust FERLIR í tölvupósti: “Ég fann tvær rústir á Sandskeiðinu þ.e. við austur endann. Þetta virðast vera hlaðnir brunnar rétt við þar sem gamla þjóðleiðin lá upp á Bolaöldurnar. Ef þið hafið áhuga á að skoða þetta, þá hefði ég ánægju af að sýna ykkur staðinn.”
Gengið var að framangreindum hleðslum skv. ábendingum viðkomandi. Þær eru á grónum mel skammt frá uppþornaðri stórri tjörn er gæti hafa tilheyrt Fóelluvatnasvæðinu, undir svonefndu Ölduhorni. Gamli akvegurinn liggur þar skáhallt upp Ölduna. Nýrri vegur hefur síðan verið gerður upp hana svolítið vestar. Aðrir vegir eru þarna, en þeir hafa verið hluti af braggahverfi, sem þarna var á stríðsárunum og tengdust Sandskeiði. Varðturn var þarna ofar við veginn og hlið.
Fyrirhuguð er stækkun á flugvallarsvæðinu á Sandskeiði til austurs. Framangreindar hleðslur eru skammt innan þess svæðis.
Þarna gæti hafa verið gömul þjóðleið vestan við vatnasvæðið, framhjá sæluhúsi, sem er á klapparhól þar nokkru norðar. Hún gæti líka hafa legið á millum vatnanna, ofan við Neðri-Fóelluvötun að vestanverðu og síðan vestan með Efri-Fóelluvötnum og þá nokkuð austar.
Hleðslurnar sjást, en eru jarðlægar. Önnur virðist hringlaga, en óreglulegri lögun á hinni. Eitt hleðslufar virðist hafa verið um að ræða. Bil milli þeirra er ca. 12 metrar. Hugsanlega gæti þarna hafa verið mörkuð brunnsvæði fyrir menn og skepnur á leið um þjóðleiðina, en hafa ber í huga að stutt hefur verið í dýpra vatn skammt austar, auk þess lækir millum vatnanna hafa verið þarna skammhendis.
Hleðslurnar eru í línu milli braggasvæðis á Ölduhorni og mannvirkjanna á Sandskeiði. Líklegt má telja að þarna hafi verið stauralína á stríðsárunum. Púkkað og hlaðið hefur verið utan um staura þarna á melnum, enda meira en tveggja metra djúp mold undir ef tekið er mið af nálægum skurði. Þegar staurarnir hafa verið fjarlægðir hefur grjótið færst til og jafnvel sigið að hluta vegna frostverkunnar og þannig smám saman myndað “brunnlaga” hleðslu.
Þegar umhverfið var skoðað nánar beindist athyglin ekki síst að sæluhúsatóftinni fyrrenfndu.
Í landamerkjalýsingu Elliðakots (Helliskots) frá Guðmundi Magnússyni, bónda þar, segir m.a.: “Að austanverðu: frá árfarinu til suðurs eptir nefndri stefnu beint í Vífilfell. Að sunnanverðu: frá Vífilsfelli niður Sandskeiðið niður fyrir Vatna-Sæluhús og svo eptir árfarinu fyrir sunnan neðri–Vötnin að þúfu, sem stendur á holtstanga fyrir neðan neðri–Vötn; þaðan eins og ræður syðsta kvíslin af Fossvallaánni…”
Hér er getið um “Vatna-Sæluhús” á nefndum stað. Á öðrum stað er sagt frá Vatnasæluhúsinu, sbr. umfjöllun um Fóelluvötnin: “Efri- og Neðri-Fóelluvötn eru sunnan við Lyklafell og austan við Vatnaás í núverandi landi Kópavogs, samsafn smátjarna og polla í grennd við Sandskeið, kringum þjóðveg 1 ofan við Reykjavík.
Vatnasvæðið virðist hafa tilheyrt Vilborgarkoti og Helliskoti (Elliðakoti) samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en báðar þessar jarðir eru þar skráðar í Mosfellssveit. Í Jarðabókinni er talað um óvissu í þessum efnum, sérstaklega varðandi Vilborgarkot sem þá, í byrjun 18. aldar, hafði lengi verið í eyði. Ábúendur Helliskots (Hellirskots) í Mosfellssveit og Hólms í Seltjarnarneshreppi höfðu þá lengi nýtt land Vilborgarkots. Frá þessum tíma er því ruglingurinn kominn um nýtingu Vilborgarkotslands. Í Jarðabókinni er sagt að jörðin Vilborgarkot gæti aftur byggst upp og þyrfti þá greinilega að skoðast hve vítt landeign þessarar jarðar verið hefði sem kunnugir menn meina að ekki hafi verið alllítið (Jarðabók III:287-288).
Þorvaldur Thoroddsen nefnir vötnin Fóelluvötn. Hann segir malar- og grjótfleti þar myndaða af vatnsrásum frá Lyklafelli. Fóelluvötn flæða yfir stórt svæði í leysingum en á sumrin er þar oftast þurrt. Sæluhús var byggt við Fóelluvötn um 1835 af Jóni hreppstjóra á Elliðavatni upp á eigin kostnað en síðan var skotið saman 50 ríkisdölum því til viðhalds (Þorvaldur Thoroddsen 1958 I:125). Tryggvi Einarsson frá Miðdal nefnir vatnið Tóhelluvatn (sjá örnefnalýsingu Elliðakots í Örnefnastofnun Íslands).
Í Jarðabók Árna og Páls er Fóhölluvot nefnd (ritháttur óviss). Þar segir að engjar séu nær engar heima við bæinn Hólm í Seltjarnarneshreppi en útheyjaslægjur brúkaðar þar sem heita Fóhölluvot (Jarðabók III: 283). Aftur á móti nefnir Hálfdán Jónsson Fóelluvötn í lýsingu Ölfushrepps 1703. (Sjá meira hér um sæluhús við Efri-Fóelluvötn. Einnig HÉRÂ og enn meira HÉR. Fjallað verður nánar um sæluhúsin á þessu svæði síðar.)
Fóella er fuglsheiti, oftast kölluð hávella (Clangula hyemalis). Þessi mynd orðsins kemur fyrst fyrir á 17. öld í fuglaþulu: “Fóellan og hænan, hafa öndina væna.” (Íslenzkar gátur, skemtanir vikivakar og þulur IV 1898:243). Aðrar myndir þessa orðs eru fóerla (Jónas Hallgrímsson), fóvella (Skýrslur Náttúrufræðifélagsins) og e.t.v. fleiri af svipuðum toga. Uppruni er óljós, e.t.v. ummyndun á hávella. Hugsanlegur er einnig skyldleiki við fó- eins og í fóarn. Kjörlendi fóellunnar er votlendissvæði og heiðavötn. Líklegt er því að vötnin séu kennd við fuglinn þótt hann sé þar ekki áberandi lengur. Myndin Tóhelluvatn er að líkindum afbökun, tilkomin sem skýringartilraun á nafni sem hefur annars þótt torkennilegt. Sömu sögu er að segja um Fóhölluvot.
Sú þjóðtrú er enn lifandi að há vatnsstaða í Fóelluvötnum að vori boði mikið rigningasumar. Einnig er til sú sögn að til forna hafi runnið á mikil úr Þingvallavatni og hafi hún átt leið um þar sem Fóelluvötn eru nú og náð sjó á Reykjanesi. Kaldá mun eiga að vera leif af þeirri á.
Fóellutjörn er einnig til í Selvoginum.”
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild m.a.
-óbyggðanefnd – úrskurður (Stór-Reykjavík).
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – örnefni.