Færslur

Bolalda

Snemma árs 1897 fóru bræðurnir Þorsteinn Kjarval og Ingimundur fiðla fótgangandi úr Ölfusi yfir Hellisheiði.

Sandskeið

Vatna-sæluhúsið við Sandskeið.

Þeir sungu sálma á leiðinni að Kolviðarhóli þar sem þeir gistu; næsta dag lentu þeir í blindbyl í Svínahrauni og var nauðugur einn kostur að gista í Vatnakofanum, rústir hans eru örskammt frá vegamótum Suðurlandsvegar og Bláfjallavegar, sjá ljósmynd.
Í þessari fjallaferð var Ingimundur fiðlulaus en sálmasöngurinn brást þeim bræðrum ekki; vindgígjan annaðist undirleikinn. Morguninn eftir var komið sæmilegt veður og næturgestirnir í húsi sælunnar héldu áfram för sinni í áttina að höfuðstað Íslands.

Vatna-Sæluhús

Vatna-Sæluhúsið við Sandskeið.

Vatna-Sæluhús

Eftirfarandi upplýsingar bárust FERLIR í tölvupósti: “Ég fann tvær rústir á Sandskeiðinu  þ.e. við austur endann. Þetta virðast vera hlaðnir brunnar rétt við þar sem gamla þjóðleiðin lá upp á Bolaöldurnar. Ef þið hafið áhuga á að skoða þetta, þá hefði ég ánægju af að sýna ykkur staðinn.”
HleðslurGengið var að framangreindum hleðslum skv. ábendingum viðkomandi. Þær eru á grónum mel skammt frá uppþornaðri stórri tjörn er gæti hafa tilheyrt Fóelluvatnasvæðinu, undir svonefndu Ölduhorni. Gamli akvegurinn liggur þar skáhallt upp Ölduna. Nýrri vegur hefur síðan verið gerður upp hana svolítið vestar. Aðrir vegir eru þarna, en þeir hafa verið hluti af braggahverfi, sem þarna var á stríðsárunum og tengdust Sandskeiði. Varðturn var þarna ofar við veginn og hlið.
Fyrirhuguð er stækkun á flugvallarsvæðinu á Sandskeiði til austurs. Framangreindar hleðslur eru skammt innan þess svæðis.
Þarna gæti hafa verið gömul þjóðleið  vestan við vatnasvæðið, framhjá sæluhúsi, sem er á klapparhól þar nokkru norðar. Hún gæti líka hafa legið á millum vatnanna, ofan við Neðri-Fóelluvötun að vestanverðu og síðan vestan með Efri-Fóelluvötnum og þá nokkuð austar.

Hleðsla

Hleðslurnar sjást, en eru jarðlægar. Önnur virðist hringlaga, en óreglulegri lögun á hinni. Eitt hleðslufar virðist hafa verið um að ræða. Bil milli þeirra er ca. 12 metrar. Hugsanlega gæti þarna hafa verið mörkuð brunnsvæði fyrir menn og skepnur á leið um þjóðleiðina, en hafa ber í huga að stutt hefur verið í dýpra vatn skammt austar, auk þess lækir millum vatnanna hafa verið þarna skammhendis.
Hleðslurnar eru í línu milli braggasvæðis á Ölduhorni og mannvirkjanna á Sandskeiði. Líklegt má telja að þarna hafi verið stauralína á stríðsárunum. Púkkað og hlaðið hefur verið utan um staura þarna á melnum, enda meira en tveggja metra djúp mold undir ef tekið er mið af nálægum skurði. Þegar staurarnir hafa verið fjarlægðir hefur grjótið færst til og jafnvel sigið að hluta vegna frostverkunnar og þannig smám saman myndað “brunnlaga” hleðslu.
Þegar umhverfið var skoðað nánar beindist athyglin ekki síst að sæluhúsatóftinni fyrrenfndu.

Sandskeið

Í landamerkjalýsingu Elliðakots (Helliskots) frá Guðmundi Magnússyni, bónda þar, segir m.a.: “Að austanverðu: frá árfarinu til suðurs eptir nefndri stefnu beint í Vífilfell. Að sunnanverðu: frá Vífilsfelli niður Sandskeiðið niður fyrir Vatna-Sæluhús og svo eptir árfarinu fyrir sunnan neðri–Vötnin að þúfu, sem stendur á holtstanga fyrir neðan neðri–Vötn; þaðan eins og ræður syðsta kvíslin af Fossvallaánni…”
Hér er getið um “Vatna-Sæluhús” á nefndum stað. Á öðrum stað er sagt frá Vatnasæluhúsinu, sbr. umfjöllun um Fóelluvötnin: “Efri- og Neðri-Fóelluvötn eru sunnan við Lyklafell og austan við Vatnaás í núverandi landi Kópavogs, samsafn smátjarna og polla í grennd við Sandskeið, kringum þjóðveg 1 ofan við Reykjavík.

Sæluhúsið

Vatnasvæðið virðist hafa tilheyrt Vilborgarkoti og Helliskoti (Elliðakoti) samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en báðar þessar jarðir eru þar skráðar í Mosfellssveit. Í Jarðabókinni er talað um óvissu í þessum efnum, sérstaklega varðandi Vilborgarkot sem þá, í byrjun 18. aldar, hafði lengi verið í eyði. Ábúendur Helliskots (Hellirskots) í Mosfellssveit og Hólms í Seltjarnarneshreppi höfðu þá lengi nýtt land Vilborgarkots. Frá þessum tíma er því ruglingurinn kominn um nýtingu Vilborgarkotslands. Í Jarðabókinni er sagt að jörðin Vilborgarkot gæti aftur byggst upp og þyrfti þá greinilega að skoðast hve vítt landeign þessarar jarðar verið hefði sem kunnugir menn meina að ekki hafi verið alllítið (Jarðabók III:287-288).
Þorvaldur Thoroddsen nefnir vötnin Fóelluvötn. Hann segir malar- og grjótfleti þar myndaða af vatnsrásum frá Lyklafelli. Fóelluvötn flæða yfir stórt svæði í leysingum en á sumrin er þar oftast þurrt. Sæluhús var byggt við Fóelluvötn um 1835 af Jóni hreppstjóra á Elliðavatni upp á eigin kostnað en síðan var skotið saman 50 ríkisdölum því til viðhalds (Þorvaldur Thoroddsen 1958 I:125). Tryggvi Einarsson frá Miðdal nefnir vatnið Tóhelluvatn (sjá örnefnalýsingu Elliðakots í Örnefnastofnun Íslands).
Í Jarðabók Árna og Páls er Fóhölluvot nefnd (ritháttur óviss). Þar segir að engjar séu nær engar heima við bæinn Hólm í Seltjarnarneshreppi en útheyjaslægjur brúkaðar þar sem heita Fóhölluvot (Jarðabók III: 283). Aftur á móti nefnir Hálfdán Jónsson Fóelluvötn í lýsingu Ölfushrepps 1703. (Sjá meira hér um sæluhús við Efri-Fóelluvötn. Einnig HÉR og enn meira HÉR. Fjallað verður nánar um sæluhúsin á þessu svæði síðar.)
Fóella er fuglsheiti, oftast kölluð hávella (Clangula Fóellahyemalis). Þessi mynd orðsins kemur fyrst fyrir á 17. öld í fuglaþulu: “Fóellan og hænan, hafa öndina væna.” (Íslenzkar gátur, skemtanir vikivakar og þulur IV 1898:243). Aðrar myndir þessa orðs eru fóerla (Jónas Hallgrímsson), fóvella (Skýrslur Náttúrufræðifélagsins) og e.t.v. fleiri af svipuðum toga. Uppruni er óljós, e.t.v. ummyndun á hávella. Hugsanlegur er einnig skyldleiki við fó- eins og í fóarn. Kjörlendi fóellunnar er votlendissvæði og heiðavötn. Líklegt er því að vötnin séu kennd við fuglinn þótt hann sé þar ekki áberandi lengur. Myndin Tóhelluvatn er að líkindum afbökun, tilkomin sem skýringartilraun á nafni sem hefur annars þótt torkennilegt. Sömu sögu er að segja um Fóhölluvot.
Sú þjóðtrú er enn lifandi að há vatnsstaða í Fóelluvötnum að vori boði mikið rigningasumar. Einnig er til sú sögn að til forna hafi runnið á mikil úr Þingvallavatni og hafi hún átt leið um þar sem Fóelluvötn eru nú og náð sjó á Reykjanesi. Kaldá mun eiga að vera leif af þeirri á.
Fóellutjörn er einnig til í Selvoginum.”
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.
-óbyggðanefnd – úrskurður (Stór-Reykjavík).
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – örnefni.

Sæluhús

Sandskeið

Pétur Jónsson hafði samband við FERLIR.
Sandskeid - slys-2“Sælir, var að skoða vefinn hjá ykkur og þá sérstaklega um flugvélaflök. Sá ekkert þar um leifar af vél sem er á Sandskeiði. Greinilega var um vopnaða vél að ræða þar sem brunnin og sprungin skothylki eru á svæðinu.”
Pétur var spurður hvort hann vissi eitthvað meira um sögu vélarinnar, tildrög slyssins og hverjir voru þar í áhöfn? Og hvar brakið er staðsett?”
“Veit ekkert meira um þetta flak en sá það fyrst þegar ég fór til rjúpnaveiða, sennilega árið ’83. Fór svo aftur í fyrravor og sá það aftur, það var samt töluvert af hlutum. Get vísað á staðinn.”
Farið var með Pétri á vettvang. Hann gekk óhikað að slysstaðnum. Allnokkurt smábrak var þar í gróinni brekku. Greinilegt var að flugvélin hafði rekist beint í brekkuna, eldur komið upp og vélin brunnið. Sprungin skothylki voru á vettvangi með áletruninni F A 42.
Sandskeid - slys-3Leitað var til Eggerts Nordahls og Sævars Jóhannessonar um nánari upplýsingar um flugvélina og slysið.
Eggert sagði: “
Þarna fór niður í spinni Lockheed P-38F Lightning orrustuflugvél árið 1943. Ryðfríar klemmur eru “typcal” fyrir þá tegund.” Eggert á í fórum sínum ýmsan fróðleik, bæði um þetta óhapp sem og mörg önnur frá þessum árum.
Á vettvangi, nú 67 árum eftir atvikið, mátti, sem fyrr sagði, sjá ýmislegt smálegt þarna í hlíð hólsins. Ekki er vitað til þess að þessi litli og venjulegi hóll í landslaginu beri neitt sérstakt nafn og mætti því, í minningu atviksins, nefna hann Flugslysahól.
Hér var um að ræða 29. flugvélaflakið frá stríðsárunum er staðsett hefur verið á Reykjanesskaganum.
P48Svifflugfélag Íslands var á þessum árum staðsett á Sandskeiði. Félagið var stofnað 10 ágúst 1936. Aðalhvatamaður var Agnar Kofoed-Hansen eftir flugnám í Danmörku. Hafði honum verið boðið til Lundby, þar var flugvöllur þar sem æft var svif og renniflug.
Veturinn 1937, þann 31. jan. var svo fyrsta svifflugsæfingin í Vatnsmýrini.
Og um haustið er Sandskeiði við Vífilsfell komið í nokun og hefur félagið verið þar síðan. Árið 1938 var samkomulag við Þjóðverja um að hingað kæmi svifflugleiðangur og var kostnaði skipt þannig að Svifflugfélagið greiddi ferðir og uppihald en þjóðverjar sköffuðu dráttarflugvél og svifflugur. Sótti Sviflugfélagið til Seltjarnarhrepps að á fá leyfi til að gera flugsvæði og að byggja flugskýli á Sandskeiði í afrétti hreppsins. Á fundi hreppsnefndar 5. maí 1938 var samþykkt erindi Svifflugfélagsins. Á þessum tíma var Kópavogur ekki til sem sjálfstætt hreppsfélag, var hluti af Seltjarnarneshreppi.
Sandskeid - slys-5V
ið hernám Breta og síðar hersetu Bandríkjamanna var Sandskeið tekið undir skotæfingasvæði og var Sandskeiðið nánast allt sundur skotið. Og en þann dag í dag má sjá sprengjugíg[a] á Sandskeiði rétt utan við girðingu á norðurenda Norður/Suðurbrautar. Bretar höfðu órökstuddan grun um að félagar í Svifflugfélaginu væru hallir undir stjórnvöld í Þýskalandi. Voru þess vegna ekkert vinsamlegir gagnvart Svifflugfélaginu varðandi svifflug og var sagt að þeir hefðu grun um að Sandskeið væri hugsamlegur flugvöllur Þjóðverja.
Haldið áfram uppbyggingu á Sandskeiði og var 1944 keypt bogaskemma “Bragginn” sem stóð á Geithálsi ofan Reykjavíkur, var skemman tekin niður og sett upp á Sandskeiði og er í dag nýtt sem véla- og vagnageymsla.
Sævar sagði: “Atvikið varð 25. apríl 1943 kl. 15:45. Um var að ræða P38 orrustuflugvél er hrapaði og brann á “Sandkeidi range”. Flugmaðurinn, laut. F.E. Eichman, lést í slysinu”.

Heimildir:
-http://www.cec.archlight.info/?
-Eggert Nordahl.
-Pétur Jónsson.
-Sævar Jóhannesson.

Kópavogur

Herkampur við Sandskeið (Arnarþúfum).