Færslur

Sauðabrekkuskjól

Ætlunin var að rekja þann kafla Hrauntungustígs er liggur frá Hrauntungum upp að Sauðabrekkugjá. Hlutarnir beggja vegna liggja nokkurn veginn ljósir fyrir, en á Í Sauðabrekkugígaskjóliþessum kafla ofanverðum koma a.m.k. þrjár götur til greina, einkum að austanvörðu. Í leiðinni var m.a. litið á Fjallsgrensvörðuna, Fjallsgrenin og Sauðabrekkugjárgígaskjólið.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Hrauntungustígurinn er ein af hinum gömlu þjóðleiðum millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Markmiðið var að eftir þessa ferð lægi ljóst fyrir hvar “meginleið” Hrauntungustígsins hafi legið fyrrum.
Sem fyrr sagði var aðaltilgangur ferðarinnar að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur á milli Sauðabrekkugjár að Fjallgrensvörðunni á hæsta hluta Almennings. Þessi kafli virðist hafa reynst mörgum erfiður og fáum hefur tekist að rekja hann réttu leiðina. Líklega er torræðið ein af ástæðum þess að Hrauntungustígurinn hefur greinst í nokkrar leiðir ofan við Sauðabrekkugjár, flestar austar en sú sem hér var ætlunin að greina.
Í SauðabrekkugígaskjóliGengið var upp austanverðan Almenning. Mikið kjarr er nú aftur komið í Almenning, en hann var fyrr á öldum eitt helsta hrísforðabúr Hraunamanna og Álftnesinga og eitt besta beitarland, sem völ hefur verið á á Reykjanesskaganum. Stefnan var tekin upp fyrir Þrísteinsvörðu með beina stefnu á Fjallgrensvörðuna. Austan hennar var beygt til suðurs og miðið sett á Fjallsgreinin norðan Sauðabrekkugjárgígaraðarinnar ofan Sauðabrekkugjár.

Grenin eru a.m.k. tvö. Það austara er merkt með lítilli vörðu, en norðvestan við það vestara er hlaðið skjól fyrir refaskyttuna. Skammt vestar er hlaðið byrgi í lítilli klettasprungu. Frá því sést vel yfir neðri hluta hraunsléttunnar norðan grenjanna. Skolli hefur ekki getað komist þeim megin að grenjunum óséður.
Þá var haldið upp í Skjólið í Sauðabrekkugjárgígunum. Það er í einum gíganna. Gengið er inn um þröngt op, en þegar inn er komið er þar rúmgott skjól. Innsti hluti gólfsins hefur verið flóraður svo þar hefur verið hið besta bæli. Gluggi er á skjólinu, en hella fyrir. Op er fyrir stromp. Separ eru í loftum svo þarna inni er fagurt um að litast. Að öllum líkindum hefur þetta verið afdrep fyrir refaskytturnar í Fjallsgrenjunum – og jafnvel aðra er leið áttu um og þekktu vel til, því opið er ekki auðfundið.
Meginhluti Almennings er hraun úr Hrútargjárdyngju. Þó má sjá yngri hraun þar inni á milli, s.s. hraun úr gígum Sauðabrekkugjár. Hraunið hefur verið þunnfljótandi og líklega tekið fljótt af. Meginhluti hraunsins er, líkt og gígarnir, norðan gjárinnar, en hún er auk þess að vera sprunga er Sauðabrekkugjá misgengi. Það er mest áberandi efst í gjánum, upp undir austanverðum Sauðabrekkum. Lítill hrauntaumur hefur runnið til austurs, myndar þunnfljótandi tjörn og m.a. fyllt upp samhliða djúpa sprungu austan Sauðabrekkugjár. Einungis lítill hluti, sennilega sá dýpsti og breiðasti, hefur “lifað af” fljóðið, en á veggjum hans má sjá hvernig þunnfljótandi hraunið hefur smurt veggina. Um merkilegt jarðfræðifyrirbæri er þar um að ræða.
Og þá var að hefjast handa við að greina Hrauntungustíginn frá þeim stað er hann kemur inn á gjána. Stígurinn sést mjög vel austan gjárinnar og er auðrakinn þaðan áleiðis að Hrútárgjárdyngu. Þá er hann mjög áberandi ofan við gjána þars em hann liggur um slétt helluhraun Sauðabrekkugjárgíganna. Hraunið er einungis þakið mosa, en að mestu ógróið að öðru leyti er segir nokkuð til um aldur þess.
Skammt norðvestan gíganna beygir gatan upp á hrauntjarnarbrún með stefnu til norðurs. Stígar þar geta auðveldlega

Fjallgrensvarðaafvegaleitt fólk, en ef mjög vel er að gáð má sjá stíginn liðast “mjúklega” um hraunið. Þar er hann bæði breiður og augljós. Austan við stíginn er jarðfall og í því rúmgóður skúti (gott skjól – 6359316-02200230). Þá heldur stígurinn áfram um annars nokkuð slétt hraunið. Þessi kafli hefur afvegaleitt marga, en að þessu sinni voru kjöraðstæður til rakningar. Stígurinn sást mjög vel í hrauninu. Þegar komið er út úr nýrra hrauninu taka við gróningar. Þar stefnir stígurinn til vinstri, áleiðis að Fjallsgrensvörðu, sem er áberandi á þessari leið.
Við vörðuna greinist Hrauntungustígur í tvennt, vinstri og hægri, en báðir angarnir koma saman á ný neðan við holt eitt (varða á því) suðvestan Hafurbjarnaholts. Þaðan liðast stígurinn um norðanverðan Almenning að Gjáseli og frá því áfram inn á Skógræktarsvæði ríkisins. Þar hefur trjám verið plantað í stíginn. Vörðurnar má sjá í skóginum, en nauðsynlegt er að saga niður þau tré, sem eru í stígsstæðinu, enda bæði ágætt og skemmtilegt að leyfa stígnum að halda sér um hraunið niður að Hrauntunguopinu. Stígurinn liggur inn í tungurnar og er augljós, framhjá hlöðnu Hrauntunguskjólinu og að brún þeirra að norðanverðu. Þar hefur hrauninu verið eytt sem og stígnum.
Ef haldið er áfram yfir hrauntungusvæðið og stefnt á vörðu þar að handan kemur stígurinn í ljós að nýju. Þar sést hann vel þar sem hann liðast niður að Krýsuvíkurvegi. Vestan vegarins er slétt hraunhella og færi vel á því að gera þar lítið bílastæði og láta stíginn enda við það. Óþarfi er að rembast við hann lengra, enda svæðið þar austan við nú óðum að byggjast óðslega upp til lengri framtíðar.
Um er að ræða fallega gamla þjóðleið millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Hér að framan er lýst þeirri leið stígsins, sem telja verður skemmstan þar á millum. byrgiGengið er um fallegt hraunlendi með miklu og stórbrotnu útsýni á allar hendur – alla leiðina.
Ástæða er til að viðhalda hinum mörgu gömlu þjóðleiðum á Reykjanesskaganum. Vaxandi áhugi er meðal fólks að fá tækifæri til að feta í fótspor forfeðra og – mæðra og njóta þess umhverfis og þeirrar náttúru er þau urðu aðnjótandi fyrrum.
Ef leiðin væri gengin enda á milli tæki það ca. 6 klst.
Frábærlega skemmtilegt slagveður er setti dulúðlegt yfirbragð á fjarrænt útsýnið. Vel mátti ímynda sér hvaða takmarkaða skjól fólk fyrr á öldum hafði af fatnaði sínum við þær “hefðbundu” aðstæður er nú voru á svæðinu. Þátttakendur voru nú í þeim besta hlífðarfatnði, sem völ er á, en gegnblotnuðu samt. Á móti kom að tiltölulega hlýtt var í veðri svo gangan var fyrst og fremst ánægja yfir að uppgötva “týnda” hlekkinn sem og kærkomið tækifæri til að grandskoða svæði, sem sjaldan er gengið – af fáum.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkufjárskjól.

Sauðabrekkuskjól

Gengið var frá Fjallsgjárenda við Krýsuvíkurveg með stefnu á Markhelluhól. Ætlunin var að koma við í Búðarvatnsstæðinu, kíkja á Sauðabrekkuskjólið og skjólið í Sauðabrekkugjárgígum, Fjallsgrenin og Gapið.

Markhella

Markhella – áletrun.

Svæðið, sem mótað er af u.þ.b. 8000 ára gömlu Hrúargjárdyngjuhrauninu, er þversprungið svo vissara er að fylgjast vel með vörðunum framundan. Þær vísa á brýr á gjánum. Ofan við fyrstu gjána var gengið yfir Stórhöfðastíginn. Frá honum lágu tvær aðrar greinilegar götur upp í heiðina. Litlar vörður voru við þær. Stígurinn liggur frá Ástjörn um Hédegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleikisteinsháls og út með Hamranesi og út á Selhraun. Gengið er suður með Stórhöfða þar sem Kaldársel blasir við, en þá hlykkjast leiðin á hraunhrygg að bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brundtorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum fjallsrótum fylgt að Hrútargjárdyngju. Þar mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðaleið sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg.

Sauðabrekkugjá

Sauðabrekkugjá.

Stefnan var hins vegar tekin á grónar brekkur vestan við Sauðabrekkugjá. Frá þeim sást vel í suðurenda gjárinnar. Skv. landakortum er Stóra-Sauðabrekka sögð vera þar ofan og við suðurenda gjárinnar. Hún er vel grónin og beitarvæn. Sauðabrekkuhellar nefnast nokkrir hraunhellar sunnan hennar. Í raun nefnast þeir Moshellar. Í norðanverðum Sauðabrekkum er Sauðabrekkuskjólið, sem smalar Hraunamanna nýttu sér sem afdrep. Ofan við skjólið stóð stoltur hrútur með tvær ær og þrjú lömb. Sá hafði gefið beitarhólfi reykneskra fjárbænda og bæjarstjórnum svæðisins langt nef. Að sögn Lofts Jónssonar, Grindvíkins, fóru smalar Grindvíkinga inn að Hrútagjá fyrsta daginn og gistu þar í skúta. Þar gæti hafa verið um nefnt Sauðabrekkuskjól að ræða.

Sauðabrekkufjárskjól

Sauðabrekkufjárskjól (Moshellar).

Frá suðurenda Sauðabrekkugjár, eftir u.þ.b. 30 mín. gang, sást yfir að Markhelluhól. Gengið var að hólnum. Á honum eru áletranir; ÓTTA, HVASSA og KRÝSV. Þesssar jarðir eru sagðar liggja að klofnum klettadrangnum. Ofan á honum er tiltölulega nýleg varða. Skessuflétta er efst á brúnum sprungunnar, en steinarnir í vörðunni eru án mosa.
Í kröfugerð Óbyggðanefndar er sagt að “landamerkin séu í skoðun og til nánari athugunar, en “Markhelluhóll” mun þó vera þinglýstur markpunktur og síðan er dregin lína um Grænavatnseggjar í svonefndan Dágon.”

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur árið 1890 er Markhelluhóll sagður “hár steindrangi við Búðarvatnsstæðið”. Þegar staðið er við helluna má sjá í norðvestri háa vörðu. Ef letrið á hellunni er skoðað er ljóst að það er tiltölulega nýlegt. Bæði bendir mosinn umhverfis til þess sem og leturgerðin. Stafurinn “a” aftast í “Hvassa” bendir til þess að letrið hafi verið höggvið í steininn á 20. öld. Það eitt vekur tortryggni með hliðsjón af eldri landamerkjabréfum þar sem landamerkin eru áður sögð hafa verið við Búðarvatnsstæðið. Líklega má alveg eins færa rök fyrir því að mörkin séu þar, u.þ.b. kílómetra norðar, en nú er talið.

Áberandi götu var fylgt með hraunjarðinum niður að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikigirðingin. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað ti af mannhöndum. Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýniið vítt og falegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einskonar búðir. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hast við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.

Búðavatnsstæði

Búðarvatnsstæði.

Þegar farið er upp á hraunjaðarinn ofan við Búðarvatnsstæðið sést að einungis er um mjótt hraunhaft að ræða. Í beina línu til norðvesturs sést fyrrnefnd varða. Hún er hlaðin úr sléttum hraunhellum. Eðlilegt hefur verið að hlaða vörðuna þarna því hún er í beinni línu úr Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots við Hraunsnes, og sést því vel þegar komið er úr norðri. Búðarvatnsstæðið hefur verið þungamiðjan í lýsingum fyrri alda, enda fáum slíkum til að dreifa svo ofarlega í Almenningi. Það hefur því óumdeilt verið eitt helsta kennileiti í heiðinni fyrrum. Ekki er óraunhæft að álykta að um það hafi markalínan verið dregin og þar með hafa allar jarðirnar þrjár átt tilkall til þess, enda sennilega einn helsti áfangastaður á ferðum fólks milli byggðalaganna. Þar hefur verið tilvalið að slá upp búðum yfir nóttina, enda um “hálfnaðarleið” að ræða.

Markhella

Við Markhellu.

Haldið var yfir að Sauðabrekkugjárgígum. Efst í þeim er náttúrlegt skjól; Sauðabrekkuskjól. Hraunbekkur er í því og gluggi á hlið. Steinn var fyrir opinu. Skammt frá skjólinu liggur Hrauntungustíg yfir gjána. Henni var fylgt niður á stíginn. Þar sést vel hvar stígurinn liggur til suðausturs eftir sléttu helluhrauninu og yfir gjána.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum þar sem hann liggur yfir gjána.
Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa og stefnt á miðja Hrútargjárdyngju, þónokkuð vestur af fjallinu eina. Leiðin liggur að Hrúthólma þar sem farið er um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt i Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.

Ginið

Ginið.

Fjallsgrenin eru þarna skammt norðar á sléttu helluhrauninu. Í því eru fjölmargir skútar og rásir. A.m.k. tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttur eru við grenin.
Frá Sauðabrekkugjárgígum nyrðri hefur runnið þunnfljótandi helluhraun, bæði til norðurs og suðurs. Hraunið er lítið, en sker síg úr grónu Hrútargjárdyngjuhrauninu. Í því sunnanverðu er Gapið, u.þ.b. 15 metra djúpt. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið þarna niður í sprungu og fyllt hana, nema þar sem hún hefur verið dýpst og breiðust. Þar hefur hraunið ekki náð að fylla hana að fullu. Sigið var ofan í Gapið fyrir u.þ.b. ári síðan. Það er í rauninu merkilegt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri, sem fáir vita af. Það kemur þó vel fram á loftmyndum.
Rjúpa lá á hreiðri skammt austar. Eggin voru 12 talsins.
Gengið var yfir Stórhöfðastíg. Ljóst er að ekki er um einn afmarkaðan stíg að ræða þótt einhver eða einhverjir hafi sett upp litlar vörður við einn þeirra. Sjá má hann vel mótaðan á a.m.k. þremur stöðum í hrauninu, en allir stefna stígarnir í sömu átt, að Fjallinu eina vestanverðu. Segja má því að ekki sé um einn tiltekinn Stórhöfðastíg að ræða þarna í grónum Almenningnum heldur fleiri. Þeir eru þó misgreinilegir á köflum.
Gangan tók 2 klst og 22 mín. Frábært veður.

Sauðabrekkufjárhellar

Sauðabrekkufjárhellar (Moshellar).