Tag Archive for: Sauðahellir

Flóðahjalli

Í Morgunblaðinu árið 2002 birtist grein undir fyrirsögninni „Tóftin á Flóðahjalla og horfin tíð í Urriðakoti„. Greinin var skrifuð af Þorkeli Jóhannessyni og Óttari Kjartanssyni. Hér birtist hluti hennar:

Flodahjalli-225„Ný tegund tófta hér á landi er leifar mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu.
Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson kynntu sér eina tóft þessarar gerðar sem er í Setbergslandi, á Flóðahjalla, sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftir á Íslandi hafa verið flokkaðar í tvo meginflokka: húsatóftir (tóftir íveruhúsa og peningshúsa af ýmsu tagi) og tóftir margvíslegra skýla (tóftir sæluhúsa, skothúsa, brunnhúsa, myllukofa eða fjárborga og fjárrétta svo að dæmi séu tekin). Ný tegund tófta hér á landi er að kalla tóftir mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu. Ein tóft þessarar gerðar er í Setbergslandi á Flóðahjalla sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ. Tóftin hefur vakið athygli okkar á reiðferðum um landið í kring og þá ekki síst vegna stærðar sinnar.
Urridakot-221Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Í Urriðakoti var áður sveit, en þar er nú útivistarsvæði borgarbúa – og í vændum er mikil byggð og þar á meðal bygging tæknigarða, ef trúa má fréttum (Morgunblaðið 27.6.2001). Segja má að sú gerbreyting á landnýtingu og lífsháttum, sem hér hefur orðið á síðustu áratugum, hafi fylgt í kjölfar hernáms Breta 1940. Við höfum þess vegna einnig freistast til þess að hyggja lítillega að horfinni tíð á þessum slóðum.

Flóðahjalli.

Flóðahjalli

Á Flóðahjalla.

Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Allbreitt skarð skilur Flóðahjalla til suðausturs frá Sandahlíð, sem er hæsti hluti Setbergshlíðar.

Flóðahjalli

Flóðahjalli og nágrenni – Herforingjaráðskort 1903.

Flóðahjalli er hæst um 125 m yfir sjávarmáli og Sandahlíð er svipuð á hæð. Skarðið á milli er í um það bil 100 m hæð. Þar liggur nú háspennulína til Straumsvíkur og línuvegur meðfram. Skarðið nefnist Klif, en var þó aldrei ferðaleið.
Norðaustanvert á Flóðahjalla er markagirðing milli Urriðakots og Setbergs. Þar hefur land greinilega blásið, en í verið sáð lúpínu. Sækir hún nú ört upp hjallann og að tóftinni. Norðan við heitir Urriðakotsdalur og Hraunflatir næst Búrfellshrauni. Þar hafa Oddfellowar eftir 1990 gert stóra og vel búna golfvelli á sínu landi, og var þar golfskáli risinn þegar 1992.

Hádegisholt

Hádegisvarðan á Hádegisholti.

Suðvestan undir Flóðahjalla, milli hans og Svínholts og Setbergsholts, er Oddsmýri, en Oddsmýrardalur er til suðurs. Oddsmýri hefur verið ræst fram og þar verið ræktuð tún frá Setbergi. Mýrin hefur án efa verið mjög blaut og gæti einhvern tíma hafa verið verið kölluð „flóð“ og af því sé nafngiftin Flóðahjalli dregin. Eldri og væntanlega réttari nafngift er Flóðháls. Frá mýrinni rennur Oddsmýrarlækur í Urriðakotsvatn (Urriðavatn). Í Oddsmýrardal, skammt innan við Oddsmýri, er beitarhúsatóft frá Setbergi. Þaðan er þægilegt að ríða eða ganga inn í botn Oddsmýrardals og svo áfram línuveginn til norðurs upp Klifið og síðan út eftir hjallanum að fornri og nokkuð hruninni vörðu fremst á Hádegisholti  (vafalaust hádegiseyktarmark frá Urriðakoti). Tóftin er nokkru framan við háhjallann, um það bil miðja vegu milli hans og vörðunnar. Þaðan er víðsýnt, ekki síst yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Flóðahjalli er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum.

Urriðakot

Urriðakot.

Norðaustan undir Flóðahjalla þar, sem heitir Flóðahjallatá, liggur svokallaður Flóttamannavegur, öðru nafni Elliðavatnsvegur eða Vatnsendavegur. Milli vegarins undir Flóðahjallatá og Urriðakotsvatns heitir Dýjamýri austar, en Þurramýri vestar. Dýjakrókar heita fjær undir Urriðakotshálsi (ranglega nefndur Urriðaháls í Mbl. 27.6.2001). Þar eru uppsprettur og úr þeim rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurramýrarlæk, á mótum Urriðakots og Setbergs, og svo í vatnið. Eru lækir þessir ásamt Oddsmýrarlæk helsta aðrennsli í vatnið ofan jarðar. Ef vernda á lífríki Urriðakotsvatns, ekki síst eftir að byggð færist nær beggja megin vatnsins, er því nauðsynlegt að friða bæði Dýjakróka og mýrlendið að sunnanverðu við vatnið. Frárennsli úr vatninu er í norðvesturhorni þess í landi Setbergs. Rennur þaðan lækur, Stórakrókslækur, nú að mestu í rásum og stokkum, sem sameinast Hamarskotslæk (Hafnarfjarðarlæk) neðan og vestan við Setberg. Gekk áður sjóbirtingur í lækinn, en hann hvarf eftir virkjunarframkvæmdir Jóhannesar Reykdals, síðar á Setbergi (föður Elísabetar Reykdals, sjá síðar) árið 19043. Jóhannes Reykdal var frumkvöðull um rafvæðingu hér á landi sem kunnugt er.

Urriðavatn

Urriðavatn 2023.

Austan Urriðakotsvatns stóð bærinn í Urriðakoti í grónu túni. Túnið er enn grænt, en bæjarins sér nú lítinn stað. Hádegisholt og varðan á því hefur vissulegs blasað vel við frá bænum og útsýni er sömuleiðis gott af holtinu í átt að bæjarstæðinu.
Á Urriðakotshálsi voru á stríðsárunum nokkuð stórar herbúðir Bandaríkjamanna. Þær sjást allvel á loftmynd frá l954 og enn má sjá þar húsgrunna og steinsteypuleifar frá þeim tíma. Það er víst einmitt hér, sem hinir nýju tæknigarðar skulu rísa.

Tóftin.

Flóð'ahjalli

Flóðahjalli – uppdráttur.

Tóftin er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla eins og áður segir. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þeir hafa því riðlast umtalsvert í áranna rás. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin furðustór að flatarmáli eða nærri 800 m². Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Verða þannig til tvö lítil ferhyrnd rými (ca. 2,5x 4 m og ca. 3×1,8 m að innanmáli og eitt hringlaga (ca. 4 m að innanmáli. Í öðru ferhyrnda rýminu fundum við leifar af timburfjölum og utan við hringlaga rýmið fundum við ryðgaða járnplötu, 1×1 m, með ca. 8 cm háum hnúð eða pinna á í miðju, en alls ekkert annað, sem bent gæti til mannvistar.
Á klöppinni syðst Flodahjalli-222eru nokkrar stafristur. Þar teljum við ótvírætt að höggvið hafi verið ártalið 1940, fangamarkið D. S. og væntanlega mannsnafnið J. E. Bolan. Þessi stafagerð er öll með sama breiða lagi. Auk þess má greina fangamörkin J. A. og G. H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940.
Elísabet Reykdal (f. 1912), sem alla tíð hefur búið á Setbergi, man vel eftir komu Breta í Hafnarfjörð sumarið 1940, og hún var í nábýli við þá og síðar Bandaríkjamenn. Hún minnist þess, að Bretar voru með gervifallbyssur (símastaura?) á Setbergshamrinum. Hún man einnig vel eftir Bretunum á ferð í einhvers konar beltabílum („einhvers konar smáskriðdrekar“) á vegaspottunum milli Setbergs og Urriðakots (þetta hafa verið svokallaðir Bren Gun Carriers). Telur hún líklegast, að Bretarnir hafi farið á bílunum upp á Flóðahjalla. Hún þvertekur fyrir, að Íslendingar hafi komið þar að verki.

Flodahjalli-223

Af bók prófessors Þórs Whiteheads, Bretarnir koma, má ráða, að meðal þeirra staða, sem Bretar óttuðust mest, að Þjóðverjar myndu nota til landtöku hér, voru lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði og í Kaldaðarnesi og höfnin í Hafnarfirði.
Strax hernámsdaginn (10. maí) voru hermenn sendir upp á Sandskeið og austur yfir Fjall í svo ólíkindalegum herflutningatækjum og hvítar Steindórsrútur voru. Til Hafnarfjarðar voru hermenn fyrst sendir fáum dögum síðar og svo að marki 18. maí, þegar liðsauki hafði borist til landsins með tveimur stórum herflutningaskipum. Þá voru fluttir 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sjóleiðis til Hafnarfjarðar. Þessir hermenn höfðu þó ekki strax yfir að ráða Brenvögnum, þar eð slík farartæki komu fyrst til landins í júlí um sumarið (9; bls. 132 og 212).

Camp Russel

Camp Russel á Urriðakotsholti – kort.

Þór Whitehead telur því einsýnt, að hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga hafi gert mannvirkið á Flóðahjalla. Hafi tilgangurinn verið sá að efla varðhöld og vígstöðu við Hafnarfjörð til þess að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja11. Ótvírætt er, að Bretar óttuðust mjög landgöngu Þjóðverja í Hafnarfirði, ef svo bæri við. Í bók Þórs er þannig mynd, sem sýnir menn úr herfylki Wellingtons hertoga á æfingu á holti við Hafnarfjörð. Í texta við myndina segir m. a.: „Bærinn var talinn einn líklegasti landgöngustaður þýsks innrásarliðs og Bretar gerðu ráðstafanir til að sprengja Hafnarfjarðarhöfn í loft upp“.
Öðrum okkar (Þ.J.) hefur nú borist svar við fyrirspurn til aðalstöðva herfylkis Wellingtons hertoga þess efnis, að tóftin („the stone defence work mentioned“) hafi verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons og tilgangurinn hafi verið svipaður og Þór Whitehead telur („…to cover open ground, which might have been used by enemy parachutists, road approaches to the town and, possibly, likely landing places on the coast“).

Urridakot-uppdrattur

Þessar upplýsingar eru byggðar á ritaðri frásögn eins þeirra hermanna, sem þarna komu við sögu og er enn á lífi. Í ljósi þessara upplýsinga þykir okkur líklegt, að byssustæði hafi verið í hringlaga rýminu (járnplatan leifar af því?) og einhvers konar vistarverur hefðu getað verið í ferhyrndu rýmunum (fjalaleifarnar leifar af timburgólfi?).
Urriðakot var áður konungseign og síðar ríkiseign, en komst í einkaeign 1890. Alþingishátíðarárið 1930 bjuggu þar og höfðu búið í áratugi hjónin Guðmundur Jónsson (1866–1941), frá Urriðakoti, og Sigurbjörg Jónsdóttir (1865–1951), frá nágrannabænum Setbergi og áttu þau jörðina. Þau eignuðust 12 börn og er frá þeim mikill ættbogi kominn.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; forn sel frá Hofstöðum.

Samkvæmt Fasteignabók 1932 var bústofn þeirra 140 sauðkindur og 5 kýr og auk þess 2 hross. Voru þá einungis fjórir bændur í Garðahreppi og aðliggjandi hreppum (Seltjarnarneshreppur, Bessastaðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur), sem voru fjárríkari en þau hjón og þar af einungis tveir, sem áttu að marki fleira fé en þau. Fimm kýr þótti og álitleg nautgripaeign í þá daga. Er því nokkuð ljóst, að Urriðakotshjón hafa orðið að halda vel á spöðunum til þess að sjá bæði bústofni sínum og sér og sínum börnum farborða.
Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824–1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: „Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.“

Urriðakot

Fjárhús í Urriðakotshrauni.

Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða. Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði sína við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Ef Guðmundur í Urriðakoti mætti nú rísa úr gröf sinni og skunda um Urriðakotsland, myndi honum án efa finnast púttarar í námunda við beitarhús sín og grillarar í námunda við sauðaskúta sinn framandlegir menn og óvelkomnir á sínu landi. Ef þeir hinir sömu skyldu hins vegar sjá mann koma hlaupandi við fót (Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur), er eins víst, að þeim yrði líkt við. Og þó! Þeim myndi án efa falla allur ketill í eld, þótt ekki væri nema vegna klæðaburðar mannsins. („Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði.“). Mjólkin úr kúnum var mjög spöruð heima fyrir og var hún vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Var mjólkin seld til Hafnarfjarðar og flutt á reiðingi allt fram undir 1930, að ökufær vegur var lagður milli Urriðakots og Setbergs. Um líkt leyti var tekið að nota heygrind til heyflutninga, en sláttuvél eignaðist Guðmundur aldrei.

Urriðakot

Urriðakot – uppdráttur.

Eitt var sérlega athyglisvert í tengslum við heyskap í Urriðakoti, en það var nýting fergins (tjarnarelftingar), sem óx í vatninu. Fergin er nú horfið í vatninu og því miður er engin mynd til af því sérstaka verklagi, sem tengdist nýtingu þess. Um þetta farast Guðmundi Björnssyni svo orð: „Ferginið stóð ca. 30 cm upp úr vatninu og glitti í það á köflum. Við sláttinn voru menn á þrúgum úr tunnustöfum eða klofháum stígvélum og höfðu nót á milli sín. Með gaffli var því skóflað í land og síðan þurrkað á svokallaðri Ferginisflöt. Það var svo gefið kúm sem fóðurbætir“. Svo mikill var þessi ferginsheyskapur í vatninu, að hann nam 40–50 hestburðum (ekki tíundað sérstaklega í Fasteignabók 1932). Voru kýrnar sólgnar í þennan „fóðurbæti“ og hafa án efa verið vel haldnar og í góðri nyt.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn. Fornleifauppgröftur neðst t.h.

Ferginið í Urriðakotsvatni var með vissu slegið 1952. Engin bein skýring er hinsvegar á því hvers vegna fergin er nú horfið úr vatninu.
Talið er, að það hafi horfið eftir 1973–1974 og orsökin hafi verið breytingar á frárennsli vatnsins. Önnur skýring kann þó að liggja beinna við, sem sé að vöxtur og viðgangur fergins í vatninu hafi verið háður því að það væri slegið reglulega.

Lok búskapar í Urriðakoti.

Urriðakot

Urriðakot – túnakort frá 1908.

Þau Guðmundur og Sigurbjörg hættu búskap í Urriðakoti 1935. Þau voru þó áfram í Urriðakoti með 20–30 kindur. Jörðina leigðu þau dóttur sinni og tengdasyni. Um mitt ár 1939 seldu þau tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin frá Urriðakoti 1941. Að heimsstyrjöldinni lokinni komst jörðin í eigu Oddfellowa. Eftir það bjuggu ýmsir á jörðinni fram undir 1960. Þá fór jörðin endanlega í eyði og skömmu síðar brann bærinn þar.

Urriðakot

Urriðakot.

Sú verðbólga, er hófst í landinu í kjölfar hernáms Breta, gleypti andvirði jarðarinnar og urðu Guðmundur og Sigurbjörg þá eignalaus. Auður þeirra fólst því í börnum þeirra og öðrum afkomendum líkt og hefur orðið hlutskipti fjölmargra annarra, sem hafa séð eignir sínar fuðra upp í verðbólgubáli. Sonarsynir Urriðakotshjóna, sem jörðina keyptu, fengu í desember 1944 nafni jarðarinnar breytt í Urriðavatn. Það var óþarfaverk að breyta fornu nafni jarðarinnar. Nafninu Urriðakoti er því haldið hér í samræmi við örnefnalýsingu Svans Pálssonar frá 19787.“

Heimildir:
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: Fjórar leiðir í Gjáarrétt. Hesturinn okkar, 1. og 2. tbl. 1983.
-Elísabet Reykdal (f. 1912), Setbergi, viðtal 20. apríl 1998.
-Guðmundur Björnsson (1917-2001), augnlæknir, prófessor, Reykjavík (viðtöl apríl 1998 og maí 2000). Einnig Urriðakotsættin. Niðjatal (handrit 1995) og fleiri gögn (nr. 5, 7 og 13 hér á eftir). – Guðmundur var ættaður frá Urriðakoti og að nokkru alinn þar upp og var þar gerkunnugur. Höfundar eru í þakkarskuld við Guðmund heitinn fyrir þann áhuga, sem hann sýndi snuddi þeirra og fyrir lán á heimildum.
-Golklúbbur Oddfellowa (Heimasíða á Netinu).
-Urriðavatnsland. Oddfellowreglan. Handrit, 1987.
-Valgarð Thoroddsen: Elzta rafstöð á Íslandi. Ársskýrsla Sambands íslenzkra rafveitna 12. ár (bls. 175–181). Reykjavík 1955.
-Svanur Pálsson: Örnefnalýsing í Urriðakotslandi. Handrit 15.10. 1978. – Svanur Pálsson er ættaður frá Urriðakoti og er þar gerkunnugur.
-Ólafur Valsson, kortagerðarmaður: Útvegun loftmynda og gerð korts
-Þór Whitehead: Bretarnir koma. Vaka-Helgafell, 1999.
-Páll Lýðsson: Hernaðarsaga stórveldis. Þjóðólfur 11.12. 1967.
-Þór Whitehead: Persónulegar upplýsingar (1999 og 2001). – Höfundar eiga Þór að þakka að hafa komist í samband við ritara herfylkis Wellingtons hertoga, bls. 12.
-Bréf D. L. J. Harraps, majórs, ritara herfylkis Wellingtons hertoga, aðalstöðvum herfylkisins í Halifax, Vestur-Jórvíkurskíri, til Þ. J., dagsett 17.8.2001.
-Jón Sigurðsson í Skollagróf: Þáttur af Jóni á Setbergi. Handrit, 1996.
-Jónína Hafsteinsdóttir, Örnefnastofnun: Persónulegar upplýsingar (22.1. 2001).
-Svanur Pálsson: Bréf til Þ.J., dags. 24.9. 2001.

Heimild:
-Morgunblaðið 13. janúar 2002, bls. 10-11.

Urriðakot

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Jónshellar

Gengið var norður með Vífilstaðahlíð að Ljóskollulág. Ofan lágina liggur Selstígur frá Vífilstaðaseli, sem er þarna uppi í hlíðinni. Ekki er vitað hvaðan nafngiftin er komin, en ekki er ósennilegt að hún heiti eftir fyrstu ljóskunni, þ.e. ljóskollóttri á.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

Þegar komið var að Kolanefi var vent til vinstri og litið á Sauðahelli, sem þar er utan í hraunkantinum. Skeifulaga hleðsla er fyrir munnanum. Inni er rúmgóður fjárhellir, fyrir ca. 10-15 væna sauði. Í skjóli þessu voru hafðir sauðir frá Urriðakoti og þeim gefið þar á gaddinn (á jörðina). Heyið var borið í þá frá bænum.
Haldið var vestur yfir Flatahraun að hlaðinni Sauðahústótt vestast í Urriðakotshrauni. Húsið er nokkuð heillegt, en hleðslurnar bera með sér að það hafi líklega verið hlaðið eftir 1900. Gengið var áfram vestur yfir hraunið og var þá komi á Kúadalastíg. Stígnum var fylgt til norðurs að Stekkjartúnsrétt (Gamla rétt), fallega hlaðinni rétt í krika við vesturjaðar hraunsins. Norðan við réttina liggur stígur inn í hraunið, Grásteinsstígur. Grásteinn er þarna inn í hrauninu, alveg við stíginn.

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól.

Gengið var áfram norður með hraunkantinum og á Dyngjuhól. Um hólinn liggja landamerki Urriðakots og Vífilstaða. Dyngjuhólsvarða er á hólnum, en auk hennar hafa verið hlaðnar þar nokkrar aðrar vörður. Hóllinn var nefndur Dyngjuhóll af Urriðakotsfólkinu, en hann sést ekki frá bænum. Í hólnum er lítil dyngja. Þessi hóll heitir einnig Hádegishóll frá Vífilstöðum.
Frá Dyngjuhól blasa Maríuhellar við í norðri. Landamerkjalínan liggur um hellana að Miðaftanshóli inni í Svínahrauni (Vífilstaðahrauni).

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar.

Maríuhellar eru nýnefni á hellunum. Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðsti hellirinn heyrði til Urriðakoti og var nefndur Urriðakotshellir en hinn Vífilsstöðum og var því nefndur Vífilsstaðahellir. Sagnir eru þó til um að Vífilsstaðir hafi notað syðri hellinn, þ.e. þann sem er gegnumgengur, enda getur það vel verið svo um tíma. Auk þeirra var talað um þriðja hellinn, Draugahellir, en hann átti að vera þröngur niðurgöngu og ósléttur.

Maríhellar

Maríuhellar.

Gengið var um svæðið. Nyrsti hellirinn er í stóru jarðfalli. Í norður úr því er stórt op og þar fyrir innan rúmgóður hellir, ca. 30 metra langur. Mold er á gólfi. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Líklegast er þarna um Vífilsstaðahelli að ræða. Sunnan af honum er enn stærra og mun grónara jarðfall. Í því er mjög rúmgóður hellir til vesturs. Hægt er að ganga í gegnum þann hluta. Þessi hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Frosin grýlukerti héngu niður úr loftinu í hundraðatali og gáfu þau hellinum dulúðlegt yfirbragð. Í austanverðu jarðfallinu er einnig víður hellir. Inni í hvelfingunni er op á loftinu. Þarna er líklegast um Urriðakotshelli að ræða því sjá má hleðslur undir girðingu austan hans, á milli þessarra tveggja hella. Skammt vestan við vestara opið á hellinum, sem hægt er að ganga í gegnum, er hraunsprunga. Niður í hana liggur op. Þegar niður er komið tekur við rúmgóður hellir. Sver hraunsúla er á vinstri hönd, en rúmgóður hellir framundan.

Jónshellar

Jónshellar.

Liggur hann um 50 metra niður hraunið. Á leiðinni er gat til hægri og innan þess nokkuð rúmgóður hellir. Ekki er óvarlegt að álykta að þarna sé um svonefndan Draugahelli að ræða. Áður fyrr voru engir vegir á þessu svæði og fullorðnir ekki viljað að börn væru mikið að fara ofan í þennan helli því með slæm ljós gæti verið erfitt að finna leiðina út þar sem gatið er bæði lítið og liggur upp á við. Af því tilefni hafi verið búin til sagan af veru draugs í hellinum – til að fæla fólk frá.
Gengið var norðvestur eftir Moldargötum með vesturjarðri Svínahrauns, niður að vestasta hraunnefinu áður en beygt til með hlíðinni áleiðis að Urriðakoti. Þar var haldið beint inn á hraunið til austurs. Eftir stutta göngu var komið að Jónshellum. Þeir eru undir klettavegg er snýr að Vífilsstöðum. Mikið kjarr og hár trjágróður er allt um kring. Jónshellar eru þrír skútar. Einn er sýnum stærstur og einn hefur greinilega verið notaður sem fjárskjól. Hleðsla er fremst í skútanum, en fyrir innan er slétt moldargólf. Þessi skúti gæti auðveldlega hýst 40-50 rollur.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Í kverkinni þar sem hellarnir eru, er gamall timburpallur. Sennilega hefur fólk af Vífilstaðahælinu gengið þangað á góðum dögum til að njóta veðurblíðunnar á þessum fallega stað.
Gengið var eftir Jónshellustíg austur yfir hraunið. Á köflum hefur stígurinn verið lagaður til og hlaðið í lægðir. Staðnæmst var við hlaðinn fjárhús Vífilstaða vestan við Vatnsmýrina og þau skoðuð áður en haldið var að upphafsreit.
Veður var með ágætum – stillt og bjart. Gangan tók 2 klst og 3 mín.

Urriðakotshraun

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Sveifluháls

Þeir eru margir sauðahellarnir og sauðaskjólin á Reykjanesskaganum.
Til var þó einn slíkur er bar það nafn; Sauðahellir. Hann var og er á Sveifluhálsi sunnan Sandfellsklofa. Um er að ræða sérstaklega Sandfellsklofifáfarið svæði því gamla þjóðleiðin, Undirhlíðaleið, lá undir vestanverðum hálsinum, en mjög fáir fóru þá með honum ofanverðum. Gömul gata upp á hálsinn frá Sandklofa bendir þó til þess að sú leið hafi verið farin fyrrum, enda Sveifluhálsinn allur sérstaklega auðveldari yfirferðar en almennt hefur verið talið. Líklega má telja að þessi leið hafi verið fjölfarnari en ætla mætti, þótt engin séu þar sporin. Hafa ber í huga að yfirborðið er þarna móberg og basaltsandur. Öll ummerki á yfirborði hverfa því við fyrstu veðrabrigði, eins og dæmin sanna.
Sauðir voru jafnan í hávegum hafðir, einkum góðir sauðir. Á sumrum héldu þeir hópinn og er nefndur Sauðahellir til sanninda um það. Enn í dag (árið 2010) má finna sterka sauðalykt í hellinum. Raunar er hellirinn sá ekki einn, heldur tveir, með stuttu millibili, og ættu því að heita Sauðahellar.
Sveifluháls-4Annars er svæðið þar sem hellirinn/hellarnir eru bæði allnokkuð sérstakt en þó eðlilegt miðað við þróun eldgosa í gegnum árþúsundin. Sveifluhálsinn myndaðist í goshrinu undir jökli á ísaldarskeiði. Myndun hans er móberg. Gígarnir ofan við Sandfellsklofa og Norðlingasand mynduðust hins vegar á sprungurein á núverandi hlýskeiði. Um hefur verið að ræða lítið gos með litlu hraunrennsli og miðað við útlit þess og gróninga gæti verið um hraun að ræða frá svipuðum tíma og Ögmundarhraun, eða frá því á 12. öld. Afstaða þessi er ekki studd neinum vísindalegum rökum.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík segir m.a. um svæði þetta: „L.M. línan af Undirhlíðum liggur um Markrakagil, sem einnig ber ýms önnur nöfn, svo sem: Markrakagil, Marrakagil, Melrakkagil, Markrakkagil. Gil þetta á að vera fjórða gil í Undirhlíðum frá Vatnsskarði að telja, en öll eru þau nafnlaus. Niður undan Undirhlíðum liggur Undirhlíðavegur eða Krýsuvíkurvegur gamli, sem lá frá Hafnarfirði upp í Námur og Krýsuvík. 

Sauðahellir

Undan öðru gili er lítil flöt, nefnist Ráðherraflöt. Svo segir að eitt sinn á búskaparárum Jóns Magnússonar í Krýsuvík 1900–1912 þá hittust þeir þarna á flötinni Jón bóndi og Hannes Hafstein ráðherra. Þar af kom nafnið. Hér spölkorn vestar var komið að miklum gíg, sem nú er horfinn. Nefndist hann Hálsgígur. Vegurinn lá sunnan undir honum að Vatnsskarðshálsi hrygg lágum, sem lá út úr Undirhlíðum eða Undirhlíðarhorni. Vegurinn lá upp á hálsinn og niður af honum og sveigir þá inn undir Vatnsskarð.
Sveifluháls-5Hér á hrauninu rétt við voru tveir gígar, gjallhaugar miklir, er nefndust Rauðhólar, Rauðhóll eystri og Rauðhóll vestri. Milli þeirra lá Vatnsskarðsstígur út að Fjallinu eina. Við stíginn sagði Guðmundur Tjörvi bóndi í Straumi 1895–1925, að væri greni það sem við hefði átt að miða þegar landamerkin voru gerð 1890, því Vatnsskarð væri hið eiginlega Melrakkaskarð. Vatnsskarðsgreni er því þarna á hrauninu og Vatnsskarðsflöt neðanundir skarðinu. Frá Sandfellsklofagígum, Rauðhólum og Hálsgíg er runnið hraun það sem kallað er Nýjahraun og er nokkuð af því hér og heyrir því Krýsuvík til. Vegurinn liggur upp frá flötinni í norður og fyrir múla nafnlausan og síðan inn með honum. Hálsinn á aðra hönd, vinstri en á hægri hraunið. Í þessu hrauni er Sandklofahellir og Sandklofatraðir eða Hrauntraðir þaðan og langt niður á hraun, þar sem aðrar traðir koma inn á þessar. Vegurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur. Uppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna. Þá kemur Norðlingaháls liggur fram og norður út hálsinum. Vegurinn liggur upp hann og niður af honum á svo nefndar Stórusteinaflatir. Stóri steinar hafa hrunið hér niður ofan úr klettabelti í hálsinum. Hér eru Köldunámur. Löngu kulnaður jarðhiti eða hver.
Upp frá Köldunámum er gengið í Folaldadali — Sveifluháls-6miðdalinn. Nú er langur kafli, örnefnalaus. Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg.“
Svo mörg voru þau orð – enda standa þau óröskuð enn þann dag í dag. Af lesningunni má sjá að Gísli hafði ekki litið Sauðahelli auga. Hann er ekki í alfaraleið hefðbundinna leiða til og frá Krýsuvík, en engu að síður hefur hann verið vel kunnur kunnugum á Krýsuvíkuleiðunum. Sem fyrr sagði gátu kunnugir gjarnan haldið á hálsinn, hvort sem þeir komu Undirhlíðaleiðina um Sandsfellsklofa eða syðri Stórhöfðastíginn upp með austanverðri Hrútargjárdyngju í stað þess að þræða undirlendið með hálsrótinni að norðanverðu. Ætlunin er að rekja nyrðri Stórhöfðastíginn í næstu FERLIRsferð.
Sauðaanganin er a.m.k. enn í Sauðahelli/Sauðahellum á framangreindum stað.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

 

Urriðakot

Í Fornleifaskráningu fyrir Garðabæ árið 2009 má m.a. sá eftirfarandi um Urriðakot, sem var fyrrum í Garðabæ:

Ural shot

Urridakot –  Túnakort 1918.

„Bærinn stóð suðvestan í Urriðakotsholti norðaustan við Urriðakotsvatn. Bærinn stóð nálægt miðju túninu“, segir í örnefnaskrá SP. Á túnakorti 1918 sést Urriðakot í miðju túni og samanstendur úr sjö sambyggðum húsum. Þar af sýnast tvö þau suðvestustu vera úr torfi en tvö þau norðaustustu úr steini og gengur aftur af þeim minna torfhús. Tvö hús eru auk þess sýnd sem opnar tóftir. Stefnan er norðvestur-suðaustur. Skv. Fasteignabók var þarna komið timburhús með vatnsveitu árið 1932 (bls. 23). Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Bærinn stóð austur og upp frá Urriðavatni, við það kennt (…) því sem næst í miðju túni.“ (Uk. A20/Bt. B443). Í örnefnalýsingu 1988 segir:

Ural shot

Urridakot.

„Urriðakot er jörð í Garðabæ. Bærinn stóð suðvestan í Urriðakotsholti, norðaustan við Urriðakotsvatn. Bærinn stóð nálægt miðju túninu.“
„Túnið lá í halla í holtinu.“ segir í Fornleifaskráningu RT og RKT.
Á bæjarhólnum í dag eru leifar af yngsta bænum frá miðri síðustu öld en Urriðakot fór í eyði 1958. Grunnarnir af húsunum eru allir mjög greinilegir. Það eru háir steyptir veggir sem enn standa og bárujárnsleifar inni í tóftunum. Það er sennilegast að bærinn hafi alltaf staðið á núverandi bæjarstæði.
Bæjarhóllinn er nokkuð hár og breiður og hægt er að sjá á vettvangi að hóllinn er manngerður. Það er því nokkuð öruggt að undir yngstu húsunum er að finna mannvistarleifar,“ segir í Fornleifaskráningu RT og RKT.

Ural shot

Urriðakot – kort 1908. Götur til norðurs og vesturs eru merktar.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt ferningslaga útihús skammt (ca 6 m) suðvestan við bæjarhúsin. „Tóftin orðin mjög sokkin en sést þó enn á vettvangi“, segir í fornleifaskrá RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús skammt vestur af syðsta bæjarhúsinu. Útihúsið virðist vera um 4 m vestur af bæjarhúsunum og 2 m norður af útihúsi. „Þessar tóftir eru orðnar sokknar og sjá má móta fyrir grjóthlöðnum undirstöðum“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 110 m suðvestur af bæjarhúsum Urriðakots. „Hún (tóftin) er aflöng úr torfi og hefur stefnuna norður-suður… Leifar af grjóthlöðnum undirstöðum af útihúsinu fundust á vettvangi, tóftin er 11 m á lengd og 2,5 m á breidd. Líklega hefur grjót út túninu verið sett í útihúsið eftir að það var rúst. Stór steinn er við suður endann,“ segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 140 m SSV af bæjarhúsum Urriðakots og fast vestan við kálgarð.
„Ekki sáust nein merki um þessa tóft en leifar af kálgarðinum sáust óljóst á vettvangi, en mun betur á loftmyndinni“, segir í Fornleifaskrá RT og RTK

Urriðakot 1958

Urriðavatn og Urriðakot 1958 – loftmynd. Túngarður, bæjarhús og útihús sjást vel.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 90 m suður af bæjarhúsum Urriðakots og um 20 m suðvestur af útihúsi. „Á túnakorti 1918 er ferhyrningslaga torfhús neðan við ærhús …líklega lambhús sem nefnt er í Örnefnalýsingu 1988: „Túnið austan traðanna …var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð og lambhúsið neðar““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Tóftin af lambhúsinu snýr í N-S og er inngangur að norðan. Hefur hún verið grjót- og torfhlaðin, lengd um 11 m og breidd 9. Hleðsluhæð frá 20 cm til 50 cm. Rústin er töluvert sokkin í sinu“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Urriðakot

Urriðakot og Camp Russel, neðst t.h, 1958 – loftmynd.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús rúma 60 m suður af bæjarhúsum Urriðakots og um 20 m norðaustur af lambhúsi. „Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Túnið austan traðanna …var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð og lambhúsið neðar.“…Fjárhúsin má líklega sjá á túnakorti 1918 en þar eru tvö hús í túninu austan traðar…annað, væntanlega ærhúsið, uppi við túngarð …en hitt nokkru neðar“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

„Á Túnakortinu er ærhúsið byggt úr torfi, tvískipt með stefnuna norður-suður. Fjárhúsin sem við skráðum á vettvangi eru sennilega byggð ofan á eldri útihúsum. Húsgrunnurinn sem stendur enn er steyptur og má sjá leifar af bárujárnsplötu í tóftinni, þó eru líka leifar af torf og grjóthleðslu í hluta rústinni, sem eru merki um eldra hús. Við suðurenda hefur verið hlaða og í sjálfu fjárhúsinu má sjá garð og steypt fjárbað“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Urriðakot

Urriðakot.

„Suður frá bænum lágu traðir, hlaðnar úr torfi og grjóti. Traðirnar svo sléttaðar út 1918. Í eystri traðarveggnum var stór steinn, sem ekki var hreyfður, þegar traðirnar voru sléttaðar“, segir í örnefnaskrá SP. „Á Túnakorti 1918 má sjá traðir sem liggja frá bænum suðvestur um túnið. Þetta eru líklega Suðurtraðir sem svo eru nefndar í Örnefnaskrá 1964, „traðir með tveimur görðum“ sem lágu „frá bæ niður undir Dýjakrók“ Suðurtraðarhlið hét svo hliðið “ þar sem saman komu garðar traða og túns““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Það má sjá fyrir hvar traðirnar lágu en þær voru sléttaðar út og því horfnar að mestu leyti“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK. Ekki sást til traðanna við vettvangsskráningu.

Urriðakot

Urriðakot.

„Urriðakotsbærinn stóð í Urriðakotstúni, nær miðju. Umhverfis túnið var Urriðakotstúngarður, hlaðinn af torfi og grjóti. Suðurtúngarður sunnan að túninu. Austurtúngarður að ofan og Vesturtúngarður vestan“, segir í örnefnaskrá GS. „Túnið austan traðanna var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð, og lambhús neðar“, segir í örnefnaskrá SP. „Á Túnakorti 1918 má sjá að túngarður liggur kringum túnið að sunnan, austan og norðan. Í Fasteignabók 1932 kemur fram að algirt var í kringum Urriðakot með túngarði og girðingu…Örnefnaskrá 1964 ber hins vegar saman við Túnakortið: „Urriðakotstúngarður: garður af torfi og grjóti umhverfis túnið, að norðan, austan og ofan og sunnan, allt niður í Dýjamýri““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Túngarðurinn er ágætlega varðveittur og er auðvelt að rekja hann allan eins og hann er á túnakortinu frá 1918. Sést vel að garðurinn er hlaðinn úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er frá 30 cm og allt að 1 metra. Hann hefur þó á stöku stað sokkið töluvert en með góðu móti væri hægt að varðveita hann allan og lagfæra þar sem hann er lægstur. Það er ekki ólíklegt að garðurinn sé í grunninn frá elstu tíð“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK

Urriðakot

Urriðakot.

„Ofan (norðaustan) bæjarins var Uppitúnið. Þar alveg við túngarðinn, beint upp af bænum, var fjárrétt, sem síðast var notuð u.þ.b. 1934-35“, segir í örnefnaskrá SP. Aðhaldið er fast austan við túngarðinn, upp af bæjarrústum Urriðakots.
Umhverfis aðhaldið er grasigróið þýfi, en austar og ofar í holtinu er mest megnis lyng. Búið er að ryðja veg þvert yfir Urriðakotsholt frá norðri til suðurs að Elliðavatnsvegi og liggur vegur þessi rúmlega 50 m austur af aðhaldinu.
Aðhaldið er hlaðið úr grjóti, grónu skófum og nokkrum mosa og er vesturveggur þess hluti af túngarði Urriðakots. Utanmál er um 12×6 m og snýr aðhaldið N-S. Um 2 m breiður inngangur er að sunnan. Fremur stórt grjót er í hleðslunum og þær virðast vera nokkuð tilgengnar, nema að garðurinn hafi í upphafi ekki verið vandlega hlaðinn. Mest er hægt að greina 5 umför og hæstar eru hleðslurnar um 1 m og rúmlega 1 m breiðar.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt gata sem liggur frá norðurmörkum túns, suður að bæjarhúsum. „Nyrst í túninu var slétta, sem kölluð var Kinn, en niður af henni úti undir garði var laut, sem kölluð var Snorralaut…Rétt fyrir neðan Snorralaut lá gata frá bænum norðvestur úr túninu“, segir í örnefnaskrá SP.
Gamalt tún, vaxið þykkri sinu og byrjað að þýfast.

Urriðakot

Urriðakot – uppdrátur.

„Neðan við traðirnar í mýrarjaðrinum rétt utan við túnið var brunnurinn, en leiðin frá brunninum til bæjar lá um traðirnar. Frá brunninum liggur Brunnrásin eftir mýrinni út í vatnið“, segir í örnefnaskrá SP.
„Niðurflöt var slétta kölluð ofan frá bæ niður að vatni sunnan við Hólmana. Neðst í Niðurflötinni var Brunnurinn, vel upphlaðinn brunnur“ segir í örnefnaskrá GS. Samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, hefur brunnurinn líklega verið við NA-verðan jaðar Dýjamýrar við enda Brunnrásarinnar, sem þaðan liggur í kræklóttum farvegi til NNV í Urriðavatn.
Brunnrásin er við gróna mýri og er þýft allt í kring. Í SSA-endanum er Brunnrásin breiðari en nær Urriðakotsvatni og myndar smá poll, um 2×1 m að stærð, sem er hinn gamli brunnur. Þar er að finna nokkuð af meðalstóru grjóti sem gæti verið ættað úr fallinni hleðslu. Grjótið er þó mjög tilgengið og yfirgróið.

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

„Mýrin sunnan við túnið heitir Dýjamýri. Ofan við veginn rétt fyrir sunnan túnið er Grjótréttin, rústir gamallar réttar, sem móðir mín veit ekki, hvenær hætt var að nota“, segir í örnefnaskrá SP. „Úr Suðurtraðarhliði lá Urriðakotsstígurinn. Ofanvert við hann mýrarblettur, nefndist Hlandpollur, og þar fyrir ofan Grjótrétt, rústir gamallar réttar. En suður af var Dýjakrókshóll“, segir í Örnefnaskrá GS. Heimildamaður, Svanur Pálsson man ekki eftir að hafa séð þessa rétt, en hún mun hafa verið sunnan túns og norðan Elliðavatnsvegar. Þar er nú grasi gróið þýfi.
Ekki sást til réttarinnar við vettvangsathugun, kann að vera að hún hafi verið rifin og grjótið nýtt í önnur mannvirki, t.d. er nokkuð um mannvirki úr seinni heimsstyrjöld í næsta nágrenni.

Urriðakot

Urriðakot – ábúendur.

„Í austurhorni Dýjamýrar eru uppsprettur undan holtinu, og kallast það svæði Dýjakrókar. Ofan við Dýjakróka er lítill hóll, Dýjakrókarhóll. Í hólnum var talið búa huldufólk og sá afi minn, Guðmundur Jónsson bóndi í Urriðakoti, konu, sem hann þekkti ekki sækja vatn í fötum í Dýjakróka snemma á þessari öld“, segir í örnefnaskrá SP. Dýjakrókahóll er syðst í Urriðakotshlíð, skammt norðan Elliðvatnsvegar, sunnan túns og austan innkeyrslu að Urriðakoti. Umhverfis hólinn er gróið, en nokkuð mikið stórgrýti stingst gegnum gras, lyng og mosa á hólnum.

Urriðavatn

Urriðavatn – Dýjakrókahóll fyrir miðju.

„Frá Urriðakoti lá Gjáarréttargata upp Dýjakrókaflöt, norðan við Dýjakrókarhól og upp á Urriðakotsháls, venjulega stytt í Háls … Um Urriðakotsháls liggur nú bílvegur, sem venjulega er kallaður Flóttavegur eða Flóttamannavegur. Hann liggur milli Hafnafjarðar og Suðurlandsvegar og var lagður af bretum á Stríðsárunum. … Hið opinbera nafn hans á vegamerkjum er Elliðavatnsvegur, en einnig er hann nefndur Vatnsendavegur…Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. … Örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir. Sauðhellirinn er norðan við vörðu við Gjáaréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingjum í Vífilsstaðalandi“, segir í örnefnaskrá Urriðakots SP. „Þá lá hér undir Hraunhólnum Gjáarréttarstígur og síðan norðan hraunbrúnarinnar, fyrst um Maríuflöt eða Maríuvelli undir Hlíðarhorninu og síðan inn eftir lægð milli Vífilsstaðahlíðar og hraunsins,“ segir í örnefnaskrá Vífilsstaða GS.

Urriðakot

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Gjáarréttargata er undir Elliðavatnsvegi þar sem hann liggur úr landi Urriðkots austur í land Vífilsstaða að Maríuvöllum. Þar hefur Gjárréttargata sveigt til suðurs á svipuðum slóðum og Heiðmerkurvegur og marlarbornir gönguslóðar meðfram honum eru í dag. Gatan hefur legið yfir þröngt og gróið sléttlendi milli Flatahrauns og Vífilsstaðahlíðar, þar vex nú mosi, gras og trjágróður. Gatan sést enn greinilega þegar komið er ofan í Selgjár og liggur hún þar meðfram austur brún gjárinnar.
Gjárréttargata er að miklu leyti undir nýrri vegi, en hún er þó afar greinileg þegar komið er ofan í Selgjá og liggur þar meðfram eystri gjárbarminum. Gatan er sem nokkrar samhliða rásir í jörðinni og er vel gróin.

„Á holtinu beint upp af fjárhúsunum efst á Austurtúninu, sem áður voru nefnd, er Dagmálavarða, eyktarmark frá Urriðakoti, en norðar uppi á háholtinu er Stóravarða. Hana hlóð Jón Þorvaldsson, afi heimildarmanns, og var hún mjög vel hlaðin, en hefur nú verið spillt“, segir í örnefnaskrá SP. „Upp af Grjótrétt, þar sem holtið er hæst, er Stóravarða“, segir í örnefnaskrá AG.
„Stóravarða: Stór varða á Urriðakotsholti, þar sem það er hæst. Þar er staurasamstæða fyrir raflínu Suðurnesja,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi.
„Varðan stendur ennþá á klöppinni, neðst í henni er óvenju stórt grjót,“ segir í fornleifaskráningu RT og RTK

Urriðakot

Urriðakot – vegurinn um Vesturmýri.

„Í miðri Vesturmýri liggur Urriðakotsvegur yfir vatnslænu, sem nefnist Kelda. Við vegagerðina var hún brúuð og brúin nefnd Keldubrú. Áður var hún stikluð á steinum nokkru norðar“, segir í örnefnaskrá SP. Í skráningu RT og RTK var tekið hnit við Keldubrú en þar er ekki að finna frekari lýsingu á mannvirkinu né ástandi þess.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

„Mýrin sunnan vegar, en norðaustan undir Hrauntanga, kallast Kriki. … Norðavestan við Krikann, norðan vegarins, sem áður var nefndur, skagar hraunnef út í mýrina. Það kallast Kvíanef. Norðan undir því er rétt, sem kallast Kvíar. Síðast var fært frá 1918, og var þá búinn til stekkur í öðrum enda Kvíanna. Það var í eina skiptið, sem heimildamaður man eftir því að fært var frá, því það hafði ekki verið gert í langan tíma fyrir 1918“, segir í örnefnaskrá SP. Kvíarnar eru hlaðnar við austanverða hraunbrúnina fast vestan við Vesturmýri, um 200 m suður af nýju BYKO búðinni að Kauptúni 6 í Garðabæ og um 500 m NV af bæ.
Kvíarnar eru fast austan í úfnu hrauni, sem er að stórum hluta gróið grasi, mosa og lyngi, en fast vestan við er þýfð og grasi gróin mýri. Kvíarnar nýta sér náttúrulega hraunbrún og skarð í hrauninu sem hlaðið er við með hraungrýti til að skapa lokað aðhald.

Urriðakot

Urriðakot – kvíar.

Kvíarnar eru aflangar N-S, allt að 30 m á lengd og 3 m breiðar (með hleðslu). Við suðurenda er skilrúm sem myndar lítið hólf, um 2×2 m að utanmáli og inn af hólfinu gengur lítill hellisskúti inn í hraunið. Hellismunninn er um 1 m hár og 0,5 m breiður, en skútinn er ekki nema rúmlega 2 m djúpur en þrengist svo mikið. Einnig er hlaðið afmarkað hólf við norðurenda Kvíanna, sem er um 3 x 1,5 m N-S að stærð.
Miðja Kvíanna er eitt stórt hólf, allt að 25 m langt og 2 m breitt að innanmáli. Langveggir norðurhluta Kvíanna eru náttúrulegir sprunguveggir, allt að yfir 2 m háir, en hlaðið er fyrir N-endann. Eystri langveggur suðurhlutans er hlaðinn úr hraungrýti, um 4 umför og hæstur rúmlega 1 m. Mest er um miðlungsstórt hraungrýti í hleðslunum. Um 1 m breiður inngangur er um miðbik hins hlaðna eystri langveggs.

Urriðavatn

Urriðavatn – rétt.

„Í Hrauntanga rétt norðvestan við Mjóatanga er stór klettur með sýlingu í. Hann kallast Sýlingarhella og er á mörkum Urriðakots og Setbergs“, segir í örnefnaskrá SP. „Mjóitangi er kallað þar sem hraunið gengur lengst út í vatnið að vestan…Vestur af Mjóatanga er klettur sem kallast Sýlingahella“, segir í örnefnaskrá AG. Sýlingarhella er um 40 m norður frá Urriðakotsvatni, ef landamerkjagirðingu milli Urriðakots og Setbergs er fylgt, en girðingin liggur þvert á helluna.
Sýlingarhella er náttúrulegt hraunbjarg á úfinni hrauntungu sem gengur út í Urriðakotsvatn. Ekki er hægt að sjá að hellan sé tilklöppuð, sýlingsnafnið á líklega við spísslaga skarð sem gengur niður í helluna að ofan.

Miðaftansvarða

Miðaftansvarða.

„Norðvestur af norðurenda Vesturmýrar er hraunið tiltölulega slétt og flatt og kallast þar Flatahraun. Þar liggur nú akvegur, sem nefndur er Reykjanesbraut. Norður af Flatahrauni er nokkuð áberandi hóll með vörðu, Miðaftanshóll. Hann er á mörkum Urriðakots, Hafnarfjarðar og Vífilsstaða“, segir í örnefnaskrá SP.
Miðaftanshóll er einn mest áberandi hóllinn í Hafnarfjarðarhrauni. Hann er um 300 m suður af Hagakotslæk, í beinni línu frá grænum reit milli Bakkaflatar og Sunnuflatar. Miðaftanshóll er í fremur úfnu hrauni og er að nokkru leyti gróinn lyngi og grasi.
Varðan sem nú stendur á Miðaftanshól er ekki gömul. Hún er hlaðin úr hraungrýti og er steypt á milli umfara. Í steypulagið undir efsta grjótinu er letrað ártalið „1960“. Flatamál vörðunnar er 1×1 m og er hún 1,5 m á hæð.

Vífilsstaðir

Urriðakot-Dyngjuhóll.

„Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smáhorn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. … Nokkurn spöl suðaustur af hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu“, segir í örnefnaskrá SP.
„Grásteinsstígur lá fram hjá Grásteini frá Hraunhornsflöt að Kolanefsflöt,“ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Stígurinn hlykkjast til suðausturs inn á kargann á vesturmörkum Flatahrauns, úr viki sem er 30m ASA af rétt. Þaðan liggur stígurinn að beitarhúsi.
Grásteinsstígur er í úfnu og mosavöxnu hrauni. Stígurinn er ruddur í gegnum hraunkargann frá golfvelli og austur að beitarhúsi. Á Flatahrauni austan kargans var ekki mögulegt að rekja stíginn lengra sökum snjóa og gróðurs, þó að samkvæmt örnefnalýsingu hafi hann legið alla leið austur yfir Flatahraun að Kolanefsflöt. Grásteinsstígur hefur að líkindum ekki verið reiðgata heldur gönguslóði, sökum erfiðrar yfirferðar um hraunið.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

„Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smá horn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. … Nokkurn spöl suðaustur af Hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu. Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt, sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún“, segir í örnefnaskrá SP. „Í hrauninu suðaustur af Grásteini er hóll sem kallast Einbúi. Suðvestur af Einbúa er réttarbrot, þar er svokallað Stekkjartún“, segir í örnefnaskrá AG.
„Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauninu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar“, segir í örnefnaskrá GS. „Stekkatúnsréttin: Rétt þessi er nú (1964) horfin með öllu. Þarna hafa verið byggðir sumarbústaðir. Erfitt með vatn,“ segir í Skrá yfir örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
Stekkatúnsrétt er í litlu viki í karganum á vesturmörkum Flatahrauns, fast austan í golfvellinum. Rúst hennar er um 160 m SSV en rúst stekksins, um 220 m NV af rétt og hátt í 950 m SA af bæ. Samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, er réttarrústin sem hér er skráð líklegast Stekkatúnsrétt.
Fast austan við réttina er golfvöllur, sem hefur að líkindum farið yfir hluta mannvirkisins, en hún er annars í grónu viki inni í afar hrjóstrugri hraunbrún. Birki vex milli hólfs og garðlags, en einnig virðist jarðrask hafa átt sér stað sunnan við hólfið og norðan við garðinn.

Urriðakot

Urriðakot – nafnlausa réttin.

„Við hraunið, nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Í hvammi neðan við Kúadali er rétt þétt við hraunbrúnina. Innst í réttinni er lítill skúti,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Réttin er fast vestan við hraunkargann sem myndar vesturbrún Flatahrauns, við austanverðan golfvöllinn. Réttin gamla er rúmlega 220 m suðaustur af réttarbroti, um 130 m VNV af beitarhúsi og um 1,2 km SA af bæ.
Að austanverðu er réttin byggð fast í úfið hraun sem er að mestu gróið mosa og lyngi, en skammt vestan við er golfvöllur og hefur hluti garðs sem tengist að réttinni að vestanverðu verið rifinn þegar völlurinn var gerður.
Eftir af réttinni er eitt hólf og um 20 m langt garðlag sem gengur austur úr því. Hólfið er um 10×6 m að utanmáli, snýr N-S og er inngangur að norðan. Réttin er hlaðin úr meðalstóru hraungrýti sem er ekkert tilklappað. Hleðslurnar eru mest um 1,3 m á hæð, 7 umför og þykkt er víðast um 0,5 m. Lítill skúti er í hrauninu syðst á austurhlið hólfsins, 2 m breiður, rúmlega 1 m djúpur og 0,7 m hár, og er austurveggur hólfsins hlaðinn yfir náttúrulega hraunþekju skútans. Um 2 m norðan við innganginn í hólfið er vesturendi 430 m langs garðs sem sem liggur SV-NA yfir Flatahraun.

Selgjá

Selgjá.

„Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjáar, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi“, segir í örnefnaskrá SP.
„Austan við Sauðahelli er Selgjá sem er lægð í hraunið er nær upp að Búrfelli þótt hún heiti ekki því nafni alla leið“, segir í örnefnaskrá AG. „Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir. Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu í 11 sambyggingum því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18. öld“, segir í örnefnaskrá GS.
Mikið af rústum eru í Selgjá og eru þær allar, sem og Norðurhellar, friðlýstar af Kristjáni Eldjárn með lögum frá 1964. „Slétt tún (hagi), um 100 m langt og 40-50 m breitt NV við hraun þar NV af melur, kjarr og grastorfur.“ Botn Selgjár er sléttur og gróinn grasi, mosa og lyngi og mynda gjárbarmarnir náttúruleg aðhald fyrir búfénað.
Selgjárhellir er náttúrulegur hellir í mosa og grasivöxnu hrauni. Hraunhellir þessi hefur áður verið lengri en hrunið saman að hluta í öndverðu svo labba þarf upp úr NV enda Selgjár og niður aftur í 7×3 m dæld sem er framan við hellismunnann.

Urriðakot

Urriðakot – Selgjárshellir.

Selgjárhellir er um 8-10 m djúpur SA-NV, 4 m breiður og lofthæð er 1,2-1,5 m. Í botni hans er mikið grjót. Tveir stuttir grjótgarðar hafa verið hlaðnir fyrir munnann og á milli þeirra er 1 m breiður inngangur. Í hvorum grjótgarði eru 7-9 umför og eru þeir 0,5-1,2 m háir og 1 m breiðir.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá. Sauðahellir, einnig nefndur Þorsteinshellir.

„Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. … Örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir. Sauðhellirinn er norðan við vörðu við Gjáaréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingjum í Vífilsstaðalandi. … Þessi hellir mun hafa verið notaður á svipaðan hátt og fyrr nefndur Sauðahellir, en fyrir minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Við vesturenda Selgjár er Sauðahellir efri“, segir í örnefnaskrá AG.

Selgjá

B-steinninn í Selgjá.

„Við norðausturbarm Selgjár, niðri í gjánni, er svokallaður B-steinn, en svo er nefnd hraunhella, sem rís þar upp á rönd líkt og legsteinn og bókstafurinn B hefur verið höggvinn í“, segir í örnefnaskrá SP. Steinninn er ofan í gjánni, næstum fast við eystri gjáarbarminn, um 180 m SA frá Selhelli við norðurenda Selgjár. Steinninn er í grónu hrauni.
B-steinn er hraunhella, um 1 m há, hátt í 0,5 m breið og 0,2 m á þykkt. Lag B-steins minnir helst á legstein og snýr hann flatri framhliðinni til vesturs. Framan á steininn, við hægra horn hans að ofan, er klappað B, um 20 x 10 sm í þvermál. Stafurinn líkur ekki ýkja ellilega út og er líklega frá því snemma á 20. öld. Hugmyndir hafa verið uppi um að stafurinn standi fyrir „brunn“, en samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, eru engar líkur til þess þar sem enginn brunnur er á þessum slóðum.

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

„Austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem Sauðahús“, segir í örnefnaskrá GS. „Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett“, segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Fjárhústóftin syðri er um 470 m NV af Selgjárhelli, skammt frá öðru háspennumastri frá Heiðmerkurvegi.
Fjárhústóftin er uppi á hárri mosa- og grasigróinni hæð í hrauninu. Tóftin er hlaðin uppvið náttúrulegt bjarg, sem myndar hluta suðurveggjar hennar. Innanmál tóftarinnar er 6×2,5 m A-V og dyr eru á vesturvegg. Veggirnir eru um 0,8 á hæð og um 1-2 m á breidd. Nokkuð hefur hrunið úr hraunhleðslum veggjanna, sem eru grónar mosa, grasi og lyngi. Gluggi er hlaðinn í suðurvegg tóftarinnar.

Urriðakot

Urriðakot – Selgjárhellir.

„Selstæðið þarna (Vestast í Selgjánni) var einnig nefnt Norðurhellar, Norðurhellnasel“, segir í örnefnaskrá GS. „Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar. Heimildarmaður kannast ekki við þessi nöfn úr mæltu máli,“ segir í örnefnaskrá SP. „Þetta nafn (Norðurhellar) á þessum stað er að finna í sóknarlýsingu síra Árna Helgasonar í Görðum frá 1842. Einnig segir frá þessu örnefni í lögfesti Þorkels prests Arngrímssonar frá 1661,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Norðurhellar eru skammt norðan við Selgjá, og ætti Selgjárhellir og Sauðahellir efri að flokkast með þeim, enda á sömu slóðum og hlutar af sama hellakerfi.
Hraunið er að mestu gróið mosa, lyngi og grösum. Við yfirferð um svæðið fundust 8 hellar til við bótar við Selgjárhelli [034] og Sauðahellinn efri, en snjór hamlaði nánari könnun þeirra. Hellarnir beint upp af (NV af) Selgjárhelli, virðast vera stærstir og í þeim mætti hugsanlega finna hleðslur. Þar af í helli A, sem er um 30 m NV af Selgjárhelli, virðist vera hlaðið þak úr meðalstórum hraunhellum sem er að hluta hrunið.

Hádegisholt

Hádegisvarðan á Hádegisholti.

„Flóðahjallavarða: Varða þessi átti að vera á Flóðahjalla, fyrirfinnst ekki,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Jafnframt segir í skrá þeirri að „Hálsinn“, „Urriðakotsháls“ og „Flóðahjallaháls“ séu allt örnefni á sama hálsinum og að „Flóðahjallatá“ sé „Vestur og upp frá Hálsinum“ og að þar hafi landamerkjavarðan átt að standa. „…Flóðahjallatá, en þar var Flóðahjallatávarða ,“ segir í örnefnaskrá GS. Varðan er á tá sem stendur út úr NV horni Flóðahjalla, fast sunnan við Urriðavatn og er þar vítt útsýni til allra átta. Flóðahjallavarða er rúmlega 300 m NV af herminjum. Varðan er á 30-40 m hárri hæð, á lúpínu-, mosa- og lyngigrónum mel, en gras grær næst vörðunni. Varðan er hrunin, en eftir er grjóthrúga, 3×2 m að flatarmáli N-S og 0,6 m há.

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

Ekki var saga hverrar rústar eða hver rúst skráð nákvæmlega, en herminjar eru ekki verndaðar í þjóðminjalögum. Þó hefur sú hefð skapast á síðustu árum að slíkar minjar eru skráðar en ekki mældar upp nákvæmlega eins og gert er þegar um fornleifar er að tefla. Eins og sést á kortinu er um er um allstórt svæði að ræða og fjöldi húsgrunna og annarra minja mikill“. segir í fornleifaskráningu RT og RKT. Herminjarnar eru á gróðurlitlu og grýttu svæði austast á Urriðaholti.
„Herminjar eru margar enn greinilegar í Urriðaholti, fæstar heillegar… Ber mest á steinsteyptri stjórnstöðinni, nokkrum steyptum grunnum, litlum turni og hliði inn á svæðið“. Á korti á bls. 67 í skýrslunni RT og RKT eru teiknuð upp um 40 mannvirki á svæðinu. Telja má nánast öruggt að hér sé komið braggahverfi er kallaðist Russell og var í Urriðakotsholti.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifarannsóknarsvæðið.

Fornleifauppgröftur fór fram á Urriðakoti árið 2010. Í ljós komu fornar selstöður, væntanlega frá Hofstöðum. Urriðakot á sér ekki langa sögu í heimildum en bæjarins er fyrst getið á 16. öld. Átti því enginn von á því þarna myndu koma í ljós svo umfangsmiklar minjar sem raun ber vitni.

Urriðaholt

Urriðaholt- snældursnúður eftir uppgröft.

Við uppgröftinn hafa fundist skáli, fjós, geymsla, búr og soðhola frá landnámi fram á 11. öld. Nánari aldursgreining þarf að fara fram til að hægt sé að segja hvort minjarnar séu frá fyrstu tíð landnáms. Frá miðöldum – eða rétt eftir 1226 – hafa fundist leifar af búri, eldhúsi og skemmu, en ekki hefur komið í ljós neitt íveruhús frá þeim tíma. Það kann að hafa staðið ofan við uppgraftarsvæðið.

Merkilegir gripir fundust á svæðinu, fyrst og fremst snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með áletruðum rúnum. Fátítt er að finna gripi með rúnaristum á Íslandi. Auk þess hafa fundist tvær perlur frá víkingaöld, bökunarhellur, brýni, innflutt frá Noregi, járnhnífar, naglar og ýmsar bronsþynnur.

Margt bendir til þess að þarna hafi verið seljabúskapur en ekki föst búseta. Er það mjög áhugavert þar sem ekkert sel hefur verið að fullu rannsakað á Íslandi.

Í Fornleifaskráning í Urriðaholti árið 2005 segir m.a. eftirfarandi um Urriðakot:

Urriðakot

Urriðakot 2005.

„Urriðakot er fyrst nefnt í jarðaskiptabréfi árið 1563, ein 19 jarða sem konungur fær ískiptum fyrir jafnmargar sem renna til Skálholtsstóls. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var kotið árið 1703 hálfbýli í eigu konungs, ekki með „fyrirsvar nema tilhelmings á móts við lögbýlisjarðir“. Ábúendur voru þeir Þórður Magnússon og Ólafur Ingimundarson en í Manntali sama árs er í stað hins síðarnefnda tilgreindur Guðmundur Nikulásson. Hjá Þórði bjó ein þjónustustúlka en með hinum 27 ára gamla Guðmundi var móðir hans, Ása Ólafsdóttir, ekkja, yngri systur hans, Steinunn og Þóra, og Ásdís Ásbjarnardóttir, 6 ára „sveitarómagi“. Í Manntali árið 1801 bjuggu á jörðinni hjónin Hannes Jónsson og Þorgerður Þorsteinsdóttir með Sigríði, 15 ára dóttur, og þrjá litla syni 2-5 ára. 15 árum síðar var dóttirin flutt að heiman en fæðst hafði önnur, Kristín. Þegar Manntal var tekið árið 1845 var þetta fólk á brott og Eyjúlfur nokkur Gíslason, 22 ára, orðinn bóndi í Urriðakot og Guðrún Gísladóttir 24 ára, ráðskona hjá honum. Ef til vill hafa þau verið systkini en bæði voru úr Ölvesi og þaðan var líka 16 ára gömul vinnukona þeirra, Þuríður Þorgeirsdóttir. Samkvæmt Jarðatali var Urriðakot komið í bændaeign árið 1847 og ábúandi einn leigjandi. Jörðin er einnig nefnd í Jarðabók 1861. 1932 var hún samkvæmt Fasteignabók í einkaeigu og sjálfsábúð eða sjálfsnytjun. Hún lagðist í eyði um miðja 20. öldina en var áfram nytjuð frá næstu jörðinni Setbergi.

Urriðakot

Urriðakot – útihús 2005.

Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld alls 20 álnir. Hún skiptist til helminga milli ábúenda og gallst í fiski í kaupstað, áður heim til Bessastaða. Leigukúgildi var eitt, hálft hjá hvorum og greitt í smjöri til Bessastaða. Ábúendur uppyngdu það sjálfir. Þórður átti tvær kýr og eitt hross og Ólafur eina kýr að hálfu en jörðin fóðraði þrjár. Kvaðir voru mannslán um vertíð sem þeir guldu til skiptis, dagsláttur og lambsfóður af báðum og tveir hríshestar árlega. Þegar Páll Beyer varð umboðsmaður konungs tók hann þó aðeins einn á tveimur árum. Aðrar kvaðir, svo sem skipaferðir og heyhestur til fálka sem bændum bar að bera, voru sjaldan heimtar. Ábúendur lögðuuppbótarlaust við til húsabótar í fjórtán ár og Þórður kvartaði yfir að hafa tekið viðhúsunum í lélegu ásigkomulagi. Þeir höfðu hrístekju til kolagjörðar og eldiviðar í landi konungs, torfristu og stungu. Engjar voru votlendar. Nokkur silungsveiði var ílandareigninni en hún þó ekki stunduð. Dýrleiki jarðarinnar taldist 3 1/3 hundruð árið 1847 en 17,4 ný hundruð 1861. Þegar kom fram á 20. öld var matsverðið 111-115 hundruð kr., kúgildi fimm, sauðir 140-50 og hrossin eitt eða tvö. Urriðakotstún hafði mest allt verið sléttað þegar Túnakort var gert árið 1918, þá 3,3 ha og 14 árum síðar fengust 154 hestburðir í töðu en 115 í útheyi. Vestan túnsins voru engjar, mýrlendi og móarætur.

Urriðakot

Urriðakot – fjárhús 2005.

Í Landamerkjaskrá frá 1890 segir: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar frammí vörðuna sín megin á Norðurhellragjáarbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni úr henni í Álp[t]artanga, þaðan í hellu sem er í miðjum hrauntanganum, kölluð Sílingarhella úr henni í uppmjóan háan Klett með Klofavörðu uppá sín megin [við] Stóra Krók og í gamlar Fjárrjettargrjótgirðingar í moldarhrauni, og uppí áðurnefnda Urriðakots Fjárhellra.“Undir skjalið rita Nikulás Jónsson, eigandi Urriðakots, Jón Þorvarðsson, bóndi í Urriðakoti og Jón Guðmundsson í Setbergi en Þórarinn Böðvarsson gerir eftirfarandi athugasemd: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju að öðruleyti en því, að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það, sem Vífilstaðir eiga sjerstaklega.“ Urriðakot er innan hinna fornu merkja á landi Garðakirkju á Álftanesi.

Urriðakot var sums staðar skrifað Aurriðakot eða Örriðakot en eftir að það lagðist í eyði var nafninu breytt í Urriðavatn.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.
–Fornleifaskráning í Urriðaholti, Ragnheiður Traustadóttir, 2005.

Maríhellar

Urriðakotshellir – fjárhellir.