Gengið var að hellunum í Urriðavatnshrauni. Á litlu svæði eru a.m.k. sex hellar, þar af þrír nokkuð langir, en hinir hafa verið notaðir sem fjárskjól. Í einum þeirra, Þorsteinsshelli (Sauðahellirinn syðri), eru miklar hleðslur er mynda þverskiptan niðurgang í tvískiptan hellinn.
Annar fjárhellir (Selgjárhellir) er skammt norðaustar, í norðvesturenda Selgjár, sem einnig var nefnd Norðurhellragjá. Hleðslur eru fyrir opi hans. Þá eru fyrirhleðslur í helli skammt norðan hans (Sauðahellirinn nyrðri). Sá hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Einnig eru hleðslur í helli vestan við Þorsteinshelli. Hellar þessir gengu áður undir samheitinu Norðurhellar.
Selgjá hét Norðurhellragjá eða Norðurhellagjá. Í henni eru margar minjar selsbúskaparins fyrr á öldum. Í jarðabókinni 1703 er getið um sel frá átta kóngsjörðum á Álftanesi. Ávallt er getið um selstöðurnar í þátíð svo allnokkur tími virðist hafa verið síðan þær lögðust af. Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður, sem allar eru byggðar upp við gjárbarmanna, a.m.k. um 20 byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar.
Sauðahellirinn syðri er hér nefndur Þorsteinshellir, en undir því nafni mun hann hafa gengið um tíma er samnefndur maður Þorsteinsson, þá ábúandi í Kaldárseli, notaði hellana sem fjárskjól um aldamótin 1900. Um hann er fjallað í lýsingu um Kaldársel hér á vefsíðunni. Urriðakotsdalastígur/Gjáarréttarstígur lá þarna skammt frá hellinum um Mið-Tjarnarholt.
Opnað hefur verið inn í langan helli í jarðfalli skammt norðvestan við Þorsteinshelli. Þá er Skátahellir alllangur. Varða er ofan við op hans. Þriðji langhellirinn er skammt norðar. Gróið er í kringum opið. Fara þarf niður undir lágt klapparholt. Þar opnast rás inn undir hraunið. Gömul mosavaxin varða er skammt frá opinu. Því miður gleymdist ljóskerið svo ekki var hægt að fara mjög langt inn eftir rásunum að þessu sinni. Ljósið frá farsímanum dugði þó fyrstu 30 metrana, svona til að skoða hvers konar rásir var um að ræða. Fyrir innan opið á síðastnefndu rásinni er hleðsla, líkt og einhver hafi haft þar bæli um tíma. Augsýnilega hafði þó ekki verið farið þangað niður um allnokkurn tíma.
Urriðavatnshraun er hluti af Búrfellshrauni. Hraunið er komið úr Búrfellsgíg, sem blasir þarna við í enda Búrfellsgjár. Selgjáin hefur verið hluti þessarar hrauntraðar, en vegna misgengis og hreyfingu landsins, er hún nú allnokkru hærri en Búrfellsgjáin. Misgengið gengur þarna áfram við sunnanverðar Smyrlabúðir að vestanverðu og Hjallana að norðanverðu. Hraunið hefur runnið í tveimur kvíslum vestur milli grágrýtishæðanna og allt í sjó úr í Hafnarfirði og Skerjafirði. Á leiðinni heitir hraunið ýmsum nöfnum, s.s. Urriðvatnshraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Garðahraun, Flatahraun, Gálgahraun, Hafnarfjarðarhraun, Gráhelluhraun og e.tv. fleiri nöfnum. Guðmundur Kjartansson (1972) fékk gerða aldursákvörðun á mó undan Búrfellshrauni við Balaklett og samkvæmt því er hraunið um 7200 ára.
Í syðri hraunkvíslinni eru t.d. Hvatshellir, Kershellir og Kethellir (Selhellir). Skammt norðar í nyrðri hraunkvíslinni (sömu og Norðurhellarnir) eru Maríuhellar, öðru nafni Urriðakotshellir og Vífilsstaðahellir.
Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu heldur hrauntröð, þ.e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma. Hraunrennslið þvarr mjög snöggt í Búrfellsgjá og farvegurinn tæmdist nær því í botn. Hellarnir við enda Selgjár eru við enda hrauntraðarinnar
Frá sjónarmiði hellafræðinnar er Búrfellsgjáin merkilegasta fyrirbærið í Búrfellshrauni, en í hrauninu eru einnig nokkrir hellar, m.a. þeir sem hér eru nefndir.
Frábært veður – stilla og hlýtt – Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson – 1990.
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur R. Guðmundsson -2001.