Færslur

Selur

Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa margt fróðlegt, m.a. eftirfarndi um seli:

Selur

Selur á Skógtjörn.

“Víða um heim er talsverð hjátrú sem tengd er selum með einum eða öðrum hætti. Mönnum þykir skepnan falleg, einkum skinn hennar og augu. Oft hefur selum þótt svipa til manna, sérstaklega höfuðlag þeirra, og sagt er að selurinn hafi mannsaugu. Þetta hefur meðal annars orðið til þess að í þjóðtrúnni fer ýmsum sögum af því að selir séu menn í álögum eða framliðið fólk.
Í þjóðtrú Grænlendinga og annarra selveiðiþjóða skipar selurinn sérstakan sess og þær óskráðu reglur sem gilda um selveiðar og meðferð selsins draga dám af þessari þjóðtrú.
Í Færeyjum er til sú trú að selir séu fólk sem hefur fyrirfarið sér í sjó eða drukknað af öðrum ástæðum. Þar í landi hafa því margir haft illan bifur á selveiðum. Færeyingar veiða í rauninni afar lítið af sel hvort sem þjóðtrúin ræður þar nokkru um eða ekki.

Selur

Selur á Skógtjörn.

Hér á landi fylgir selnum talsverð þjóðtrú. Margir þekkja söguna af því þegar Sæmundur fróði (1056-1133) fór heim úr Svartaskóla og lét kölska breyta sér í sel og synda með sig til Íslands. Vilji menn lesa meira um Sæmund er þeim bent á svar Sverris Jakobssonar við spurningunni Hvar var Svartiskóli sem Sæmundur fróði sótti?
Annars segir þjóðsagan um uppruna sela að þeir séu hermenn Faraós. Þeir drukknuðu í Rauðahafinu er þeir hugðust elta Móses þegar hann leiddi Ísraelsmenn þurrum fótum yfir hafið á flótta frá Egyptalandi, sem kunnugt er af frásögum Biblíunnar. Hermennirnir urðu allir að selum en hundar sem þeim fylgdu urðu að steinbítum.

Selur

Selur í Skógtjörn.

Sagt er að einu sinni á ári gangi selirnir á land, sumir segja á nýársnótt, aðrir þrettándanótt (sjá Er það satt að sum dýr tali mannamál á þrettándanum? eftir Rakel Pálsdóttur), Þá kasti þeir hömum sínum, öðlist manneðli sitt á ný og dansi og skemmti sér á ýmsa lund. Af samskiptum manna og sela þessa nótt fer mörgum sögum bæði í þjóðtrú okkar Íslendinga og nágranna okkar, þar á meðal Færeyinga.

Selur

Selur á Skógtjörn.

Einna þekktust slíkra sagna hér og í Færeyjum er sagan af bóndanum unga sem gekk til sjávar á nýársnótt og varð vitni að landgöngu og skemmtan selanna. Hann fylgdist með framferði þeirra um stund og hreifst mjög af fegurð stúlknanna, enda dönsuðu þær naktar í tunglsljósinu. Hann sá hvar hamirnir lágu og ákvað að taka einn þeirra og geyma.
Þegar hillti undir dögun tóku selirnir á sig hamina og stungu sér í sjóinn, allir nema ung stúlka, sú sem átti haminn er bóndinn hafði tekið. Bóndinn neitaði að fá henni aftur haminn þótt hún þrábæði hann, fékk hana með sér heim og tók sér fyrir konu. Haminn læsti hann niður í kistu og bar lykilinn ávallt á sér. Mikið óyndi var ætíð í konunni þótt hún yndi hag sínum vel að öðru leyti og elskaði mann sinn.
Liðu nú fram stundir og eignuðust þau sjö börn, á sjö árum. En þá gerðist það að bóndi var að fara til sjós, skipti um buxur og gleymdi lyklinum heima. Konan stóðst þá ekki mátið, opnaði kistuna og náði hamnum. Þegar bóndi áttaði sig á að hann hafði gleymt lyklinum sneri hann til lands og sá þá hvar konan var komin niður að sjó og hafði farið í haminn. Hann heyrði hana telja harmatölur sínar og mæla fram þessa vísu:
Mér er um og ó,
ein af fólki Faraó,
á sjö börn í sjó
og sjö á landi þó.

Selur

Selur í Skógtjörn.

Að svo mæltu stakk hún sér í sjóinn og sneri ekki aftur. En þegar börn bónda voru síðar að leik í fjörunni sást selur synda skammt frá landi og segja sumir að hann hafi kastað leikföngum til barnanna. Bóndinn varð hins vegar aldrei samur eftir þetta og dó að lokum af harmi (sbr. Sigfús Sigfússon: Ísl. þjóðs. IV, 187-188).
Dýrahljóð geta verið misjöfn eins og mannanna. Oftast er þó sagt að asninn hríni. Selurinn er sagður góla.
Alls eru þekktar 33 tegundir hreifadýra (Pinnipedia) en þær eru flokkaðar í tvær yfirættir (e. superfamily). Annars vegar er það yfirættin Phocoidea en til hennar teljast 18 tegundir hinna eiginlegu sela: átuselur, weddell-selur, pardusselur, ross-selur, landselur, útselur, beltanóri, hringanóri, bajkalselur, kaspíaselur, vöðuselur, kampselur, blöðruselur, blettanóri, sandvíkurselur, munkselur, skerjasæfíll og kóngasæfíll.”
Meðfylgjandi mynd af selum eru teknar við Skógtjörn á Álftanesi.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6378
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=73613

Selur

Selur í Skógtjörn.

Ísólfsskáli

Örnefnin “látur” og “sel” eru víða við Reykjanesskagann, s.s. Selsker, Selhella og Sel[ja]vogur] og Selhelluvogur í Ósum, Selsker við Sandgerði (Fuglavík), Selvík við Hólmsberg, Látrar og Láturtangar við Hvassahraun, Selatangar austan Ísólfsskála, Selalátur á Selatöngum, Látur og Litla- og Stóra-Látraflöt fremst á Þórkötlustaðanesi, Selaklettar við Garð að auðvitað að Selvogi ógleymdum. Örnefnin Selsker og Selatangar eru einnig við Stafnes.

LandselurÍ örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker segir m.a: “Nokkur smásker sunnan við grynnri bátaleguna í Sandgerði heita Selsker. Bæjarskerseyri öll tilheyrir Bæjarskerjum (nema Borgarklettur) og er söguleg fyrir ýmsa hluti. Þar hefi ég séð mest af sel saman kominn fyrir aldamót. Þeir lágu í mörgum hópum uppi á Eyrinni um fjöru og tugum saman í hverjum hóp eins og fjárbreiður. En þegar sjór hækkaði og undir þá féll, moraði öll víkin af sel og raunar báðum megin Eyrar. Bændurnir höfðu selanætur, sem þeir lögðu í Eyrarsundin á hentugustu staði, Og munu hafa haft drjúga veiði, einkum fyrr á tíma.
ÚtselurMeðan fjöruþang var eina eldsneytið, var Eyrin óþrjótandi náma og fengu margir aðrir en eigendur að njóta góðs af því, fyrir litla eða enga þóknun. Og Bæjarskerseyri var auðug af sölvum, en það kunnu þeir bændur, sem fluttir voru á Miðnes austan af Síðu, vel að meta, þar voru söl notuð sem mannafóður um miðja 19. öld. Það var að vísu ekki almennt gjört á Miðnesi í mínu minni, en þeirra var aflað í stórum stíl til skepnufóðurs og þóttu ómissandi.
SelatangarÁ tíma seglskipanna, einkum meðan mest var af frönskum skonnortum, svo að telja mátti um og yfir hundrað daglega í Stafnesdjúpi, strönduðu þau oft við Miðnes, þegar útsynningarnir dundu á með brimi og myrkri. Eyrin, lág en föst fyrir, teygði anga sinn um eina sjómílu út, hún var því sem eins konar gildra fyrir skipin, enda strandaði fjöldi þeirra á Eyrinni.
Þó nokkrir áratugir hafi þessu öllu breytt, selurinn horfið af Eyrinni, síðan vélbátar komu með skelli eins og vélbyssuskothríð.”
Hér er þess getið að skothríð fæli selinn frá látrum, enda mun staðreyndin vera sú.
Í örnefnalýsingu fyrir Ísólfsskála segir: “Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum.” Nótarhellir er við Seltanga. Örnefnið er af sömu ástæðum þar.

HringanóriLátur eða sellátur er svæði nærri sjó, þar sem selir kæpa (eignast kópa). Sellátur er að finna víðast hvar þar sem selir halda sig, og eru meðal annars allvíða við strendur Íslands. Látur eru yfirleitt nærri flæðarmálinu, og selirnir liggja þar á fjöru en svamla í sjónum á flóði. Í einu látri geta verið allt frá fáeinum dýrum upp í mörg hundruð. Það hefur löngum verið talið til hlunninda, ef látur voru í námunda við bæi, enda hafa selir verið veiddir frá fornu fari, fyrst vegna kjöts og skinna, en í seinni tíð einkum vegna skinna (þá aðallega kópar) og til að halda hringormi í skefjum.

KampselurHvallátur eru einnig til, og setti Bjarni Einarsson þá tilgátu fram að þau væru kennd við rosmhvali, það er að segja rostunga. Sú tilgáta þykir mjög sennileg, en er erfitt að sannreyna þar sem rostungar eru orðnir sárasjaldgæfir við Ísland.

Sellátur fyrirfinnast víða við strandlengju Íslands. Landselir eru flestir á svæðinu frá Ströndum til Skaga við Húnaflóa

VöðuselurÍ nágrenni Reykjavíkur þykir látur við Stokkseyri og Eyrarbakka einna best til þess að skoða seli, þótt ekki haldi margir þeirra til þar. Hindisvík á Vatnsnesi er sögð vera besti staður landsins til að skoða seli, en látrið þar var friðað um 1940 fyrir atbeina Sigurðar Norland (1885-1971), sem þar bjó.

Selir halda mest til í látrum frá fengitíma og þangað til kóparnir eru orðnir vel syndir. Tvær selategundir kæpa við Ísland, landselur og útselur, og er yfirleitt betra að komast að landselslátrum ef menn eru forvitnir eða í veiðihug.

Fengitími landsela er í ágúst og september og þeir kæpa á vorin, í maí og júní, í látrunum. Kóparnir liggja fyrstu vikuna en taka svo til sunds. Þegar kóparnir eru byrjaðir að braggast, þá byrja fullorðnu selirnir að fara úr hárum, seinni Blöðruselurhluta sumars, áður en fengitíminn hefst að nýju, en þá halda selirnir sig frekar til sjós.

Útselir byrja að kæpa á haustin og stendur kæpingin yfir frá október fram í febrúar. Kópar útsels halda til á þurru landi þangað til þeir hafa skipt um feld, og þegar þeir eru byrjaðir að stálpast, á vorin, þá hefst fengitími fullorðnu selanna.

Þar sem látur eru koma þau gjarnan fyrir í örnefnum. Þannig eru til Sellátur í Tálknafirði og Sellátranes í Rauðasandshreppi, Hvallátur og Látrabjarg í Vestur-Barðastrandarsýslu. Látrar eru til (og hafa bæði þekkst sem Sellátur og Hvallátur að fornu) og Látraströnd í Suður-Þingeyjarsýslu og Sellátur er bæði til í Breiðuvíkurhreppi í Snæfellsnessýslu og í Helgustaðahreppi í Suður-Múlasýslu. Hvallátur heitir eyjaklasi á Breiðafirði, og Hvallátradalur er í Lambadalshlíð í Dýrafirði.

Rostungur

Við Ísland kæpa tvær tegundir sela, landselur (Phoca vitulina) og útselur (Halichoerus grypus). Fjórar tegundir í viðbót eru þekktar hér við land sem flækingar, en þær hafa ekki kæpt hér svo vitað sé. Þessar tegundir eru vöðuselur (Phoca groenlandica), kampselur (Erignathus barbatus), blöðruselur (Cystophora cristata) og hringanóri (Phoca hispida). Einnig hafa rostungar (Odobenus rosmarus) sést hér við land en þeir eru þó mjög sjaldséðir.

Þegar skoða á sellátur er vert að hafa í huga að villt dýr, líkt og selir og fuglar, geta verið viðkvæm fyrir umferð manna og því ber að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar þau eru skoðuð:

Til að njóta heimsóknar í sellátur til fulls er nauðsynlegt að vera útbúinn góðum sjónauka. Ekki er æskilegt að fara nær selum á landi en ca. 100 metra. Ef dýrin breyta hegðun sinni, gerast óróleg eða flýja í burtu frá þér er það  merki um að þú sért kominn of nálægt.
SelláturTil að ná góðum myndum af dýrunum er nauðsynlegt að vera útbúinn myndavél með góðri aðdráttarlinsu. Það er frekar ólíklegt að ná góðum myndum af selum og fuglum á venjulegar myndavélar.
Gakktu rólega og hljóðlega um heimkynni villtra dýra. Forðastu hróp, köll, hlaup og snöggar hreyfingar.
Þó selir séu afskaplega fallegir, geta þeir einnig verið hættulegir ef þeim er ógnað. Vinsamlegast snertið því ekki veik eða særð dýr, heldur látið vita á afgreiðslu Selasetursins eða til landeigenda.
Vinsamlegast snertið ekki kópa sem villst hafa frá móður sinni. Hættulegt getur verið að fara á milli kóps og urtu.
Vinsamlegast snertið ekki fuglsunga, eða veika og/eða særða fugla heldur látið vita á afgreiðslu Selasetursins.
Leyfið dýrunum að skoða ykkur, forvitinn selur getur t.d. synt ansi nálægt sé honum ekki ógnað á neinn hátt. Tillitsemi borgar sig.

Heimild m.a.:
-Wikipedia.com
-Selasetur Íslands.

Selir

Selir á Skógtjörn á Álftanesi.