Tag Archive for: seljabúskapur

Litla-Botnssel

RÚV var með fróðlegan talsmálsþátt 11. des. 2022 um seljabúskap á Íslandi; „Man ég það sem löngu leið – Samtíningur um seljabúskap á Íslandi„.
Eftirfarandi er lesið í þættinum: „Bernskuminning um Miðhópssel“ eftir Stefaníu S. Jósefsdóttur, birt í Húnavöku árið 1975″, „Minningar Þormóðs Sveinssonar úr Goðdölum„, „Sögukaflar af sjálfum mér“ eftir Matthías Jochumsson“ og „Sel og selfarir“ eftir Hólmgeir Þorsteinsson, birt í safnfritinu Heimdragi.

Stekkur

Smali og selsmatsseljur við stekk (kvíar).

FERLIR umbreytti framangreindum frásögnum að hluta yfir í eftirfarandi ritmál. Um er að ræða áhugaverðar upplýsingar um verklag í seljunum fyrrum, en slíkar frásagnir er sjaldnast að finna í skriflegum lýsingum um þessa merkilegu arfleifð íslenskrar búskaparsögu.

Bernskuminning um Miðhópssel“ eftir Stefaníu S. Jósefsdóttur birt í Húnavöku árið 1975:
„Frá ómunatíð hafa selfarir tíðkast hér á landi. Málnytupeningur, ær og kýr, var á hverju sumri fluttur til dala þar sem bithaga voru meiri og kjarnbetri en í heimahögum. Þetta var kallað að hafa í seli. Vafalaust má rekja þennan þátt landbúnaðarins alla leið til landnámsmannanna norsku því að um sel og selfarir er þegar getið í Íslendingasögunum. Enn munu vera á lífi fólk er man af eigin sjón og raun seljabúskap hér á landi. Selin voru útibú frá heimilinum til að nota beitilandið sem fjær lá bæjunum. Ærnar gerðu meira gagn þar en heima.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Selin voru jafnan byggð úr torfi og grjóti. Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var við að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þau þurrkuð. Það hét að hlóðarbaka trogin. Selsstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan til tvo daga. Lágmark var að þrídægra mjólkina. Þá var rennt úr trogunum.

Oft var stutt við rjómann með hendinni meðan undanrennunni var rennt burt. Undanrennan var flóuð – oft fjórir stórir pottar í einu. Síðan þurfti að ausa þessu upp og láta kólna undir skyrgerðina. Þá var hrært í það þétti sem var steinsíað skyr og látnir nokkrir dropar af hleypi út í. Síðan var þetta birgt niður til næsta dags og þá síðað. Það var um að gera að sía vel því þá súrnaði það síður og mátti geyma það eins og nýtt í langan tíma. Entist það yfirleitt allt árið og var notað í hræring og út í kjötsúpu sem mikið var borðað af.
Búnir voru til mjólkurostar og mysuostar líkir því sem þeir eru í dag. En draflinn var líka seiddur og búinn til seidduostur. Hann var brúnleiddur og borðaður heitur og þá sem morgunmatur. Mikið var drukkið að sýru á sumrin og er það áreiðanlegur hollur drykkur. Sýran var flutt heim í kvartilum en heima var hún geymd í tunnum.

Strokkur

Strokkur.

Fyrst eftir fráfærurnar var strokkað tvisvar á dag en sjaldnar er minnka tók í ánum. Úr strokknum var smjörið saltað og hnoðað í kökur sem geymdar voru í eldhúsinu fram á mitt sumar. Þá var smjörinu drepið í belgi, hnoðað og pressað þar til enginn dropi kom úr því. Voru belgirnir pressaðir milli á tveggja fjala og mátti hvergi sjá holu. Þannig geymdist smjörið langa lengi og var svo hart að ekki sá á því jafnvel þótt það væri flutt langar leiðir.
Af kindum var fleginn belgur. Síðan var hann rakaður og þveginn vandlega úr heitu sótavatni og skolaður á eftir. Var hann þá drifhvítur. Smjörinu var drepið inn um hálsopið og saumað fyrir.
Fyrst eftir fráfærurnar var flutt tvisvar í viku heim úr selinu en sjaldnar er leið á sumarið. Flutt var á þremur hestum. Á tveimur voru skrínur undir skyr á á þeim þriðja voru sýrukvartil. Smjör til heimilisnota var flutt jafnóðum heim en meginhluti þess var geymt í selinu þangað til það var flutt beint í verlsunarstað.

Smalaskjól

Smalaskjól.

Ein af mínum mestu ánægjustundum var að vera send í selið til að sækja smjör og osta sem vanhagaði um í svipinn. Þar var oft glatt á hjalla. Móðir mín fór ævinlega með töðugjöldin þangað þegar búið var að halda þau heima. Við unglingarnir fengum þá að fara með, leika okkur og tína ber í ábæti.
Ef rennt var úr trogunum þegar við vorum þar var rjóminn á efri gafli troganna ævinlega skilinn eftir og okkur leyft að borða hann. Þótti mjög gott að fá rjómagafl enda var rjóminn hnausþykkur og töggur í honum eins og öllum þessum góða selmat.
Maturinn sem búinn var til í seljunum var mikið búsílag fyrir heimilin og holl fæða.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Fært var frá seint í júní. All sumarið var selráðskona í selinu með litla dóttur sína með sér. Þar var einnig eldri kona og smali. Lengi höfðum við pilt sunnan af Miðnesi, sem reyndist mjög vel.
Á þessum árum kom allt kaupafólk að sunnan, s.s. frá Garði. Allt kaup var greitt í smjöri. Peningar voru þessu fólki einskis virði á móts við feitmetið. Kaupamaður fékk venjulega fjórðung smjörs í mánaðarkaup, en verð á fjórðungunum var þá 12 krónur.“

Minningar úr Goðdölum“ eftir Þormóð Sveinsson segir höfundur ölítið frá selstöðum í Skagafjarðardölum um síðustu aldramót (1900). Hér lýsir hann heimaseli:
„Alltaf var fært frá sama dag um tíundu sumarhelgina. Var þá strax flutt í selið og verið þar í fjórar vikur. Ærnar voru venjulega um 120 í kvíum. Aldrei voru þær hýstar og gætti einn [smali] þeirra á næturna og annar á daginn. Á selinu voru oftast fjórar stúlkur og tveir karlmenn og svaf fólk í fjárhúsgörðunum við rúmföt þó. Tvær stúlknanna fluttu skyrið heim í skrínum annan hvorn dag. Smjörinu var drepið í belgi og geymt heima þar til undir göngur. Þá var það sent í verslunarstað.

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Kýrnar voru einnig hafðar í selinu þennan tíma, utan ein. Mjólkurafurðirnar voru geymdar í húsi sér og lítill kofi var þarna, hafður fyrir eldhús.
Mjög svipað þessu sagði faðir minn mér frá seltímanum á Skatastöðum, en þar var haft í seli fram til um 188o eða vel að. En þar flutti allt fólkið fram með kýrnar þennan tíma. Þar var öll ullin þvegin, rifið hrís til kolagerðar svo og heyjað sem hægt var. Hann sagði mér og að sum haustin hafi 9 stórar tunnur, fullar af skyri, verið heima þar eftir sumarið. Af þessu má sjá hversu þessi atvinnugrein hafði áður fyrr.“

Sögukaflar af sjálfum mér“ eftir Matthías Jochumsson:

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

„Ekki voru allir selssmalarnir háir í loftinu eða miklir fyrir sér í þeim raunum er smalann hrjá – þótt þeim væri síðar á ævinni flestir vegir færir. Einn þeirra var þjóðskáldið Matthías Jockumsson, sem á æskuárunum gætti fjár móðurbróður síns, séra Guðmundar Einarssonar á Kvennabrekku í Dölum.
Matthías segir svo frá veru sinni í selinu: Eftir fráfærur fylgdi ég fénu fram á Geldingadal. Var ég þar smalapiltur í þrjú sumur. Hið fyrsta mun ég hafa staðið í stað með þroskun ef ekki miður en hin tók ég heldur við að gangast. Fyrsta sumarið átti Matthías í ólyndi við gildandi selsmatsseljuna. Þau samskipti þótti honum erfið, en voru og eru því miður ekki talin einstök þegar horft er til óæskilegra mannlegra samskipta í víðara samhengi í gegnum tíðina.
Í samanburði við fyrsta sumarið mitt í dalnum má heita að ég hafi lifað eins og sólkinshestur hin sumrin tvö. Þá var góð og gegn kona húsmóðir mín í selinu.“

Sel og selfarir“ eftir Hólmgeir Þorsteinsson frá Hrafnagili, birt í safnritinu Heimdragi, 4. bindi. Hólmgeir lýsir þar Hvassafellsseli í Djúpadal í Eyjafirði.

Hólmgeir Þorsteinsson

Hólmgeir Þorsteinsson (1884-1973).

„Ekki voru húsakynni seljanna ævinlega byggð fyrir þá starfsemi, sem þar fór fram heldur var stundum notast við gömul fjárhús eða einhverja slíka kofa.
Hvassafellsel var reglulegt selhús, sem var byggt aðeins fyrir þessa starfsemi og öll tilhögun hússins sniðinn í samræmi við hana. Selhúsinu var vel við haldið og í alla staði hið snotrasta.
Við skulum nú heyra hvernig Hólmgeir lýsir þessu seli og starfinu þar:
Selshúsinu var skipt í fernt; úr honum var innangegnt í mjólkurhús og búr. Nyrst var eldhúsið og var utangengt í það. Vestan við selið var fjárrétt og kvíarnar, langar og mjóar þar sem ærnar voru mjólkaðar.
Áður en flutt var í selið þurfti ýmis konar undirbúning – taka til ílát, kollur og kyrnur, selskrínur og potta og margskonar smærri áhöld. Gera smalaskóna og margt fleira.
Þegar í selið kom var byrjað að sópa veggi og gólf, þvo mjólkurbekkina, rúmstæði og borð. Og svo hófust daglegu störfin, tilbreytingarlaus frá degi til dags.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Þegar kvöldmjöltum var lokið ráku selssmalarnir ærnar fram dalinn. Röltu þær svo sjálfar hægt og bítandi fram í dalbotninn. Smalarnir heftu hesta sína og skriðu inn í smalabyrgi, sem var lítill kofi hlaðinn af grjóti og mosa troðið í göt og glufur. Á veggina voru látnar nokkrar spítur og ofan á þær hagalega raðað hellum og síðan þétt með leir og mosatægjum. Var þá þakið sæmilega vatnsþétt. Á gólfinu var lag af berjalyngi sem legið var á. Loks þurfti að finna hæfilega mosaþúfu til að hafa fyrir kodda. Engin hurð eða dyr voru á byrginu en þess í stað var gat á þeim veggnum, sem smalarnir skriðu inn um. Ef stormur var strengdu þeir poka fyrir gatið. Þarna lögðust þeir til hvíldar,  alklæddir með smalahundana á fótum sér. Til að breiða ofan á sig höfðu þeir gamlar rúmábreiður og úlpurnar sem þeir höfðu með sér til skjóls ef rigndi. Þeir voru fljótir að sofna.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.
Búsmali þurfti á stundum að hverfa frá selstöðum á Reykjanesskaga fyrr en áætlað var. Ástæðan var jafnan sögð „draugagangur“, en raunin var vatnsskortur.

Yfir nóttina þurftu þeir að fara út einu sinni eða tvisvar til að gæta þess að ekkert af ánum færi heimfyrir, en hætta var á því eftir fyrstu næturnar eftir fráfærurnar.
Um kl 6 til 7 að morgninum fóru smalarnir á kreik. Þeir byrjuðu á að grípa í nestisbitann sinn og miðla hundunum þeirra skammti. Hófst þá smölunin og síðan sigið heim á leið. Voru ærnar venjulega komnar í kvíarnar um kl. 11 á daginn. Tóku þá selsstúlkurnar til mjaltanna. Var tvímjólkað fyrir mjaltir og eftir mjaltir. Þótti eftirmjólkin mun smjörmeiri. Voru ærnar svo hafðar heima við uns kvöldsmölun hólfst. Fengu selssmalarnir sér þá smádúra. Þess á milli réttu þeir selsstúlkunum hjálparhöfnd, gripu í strokkinn, báru inn eldivið og sóttu vatn. Annars var fremur lítið sofið í selinu því alltaf var nóg að gera og allir fundu til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvíldi um að allt færi þeim sem best úr hendi sem þeim var til trúað.
Selsstúkurnar höfðu geysimikið og erfitt verk á hendi. Vinnudagur þeirra hófst snemma á morgnanna og stóð þangað til seint á kvöldin. Á morgnana byrjuðu þær á því að sækja kýrnar, sem lágu úti, og mjólka þær. Þá tóku þær til við mjólkurvinnsluna, sem hét að búverka. Mjólkin sem til féll um dagin var svo mikil að skipta varð henni við vinnsluna. Varð því að búverka tvisvar á dag. Öll þessi mjólkurvinnsla hvíldi á herðum selsstúlknanna auk hirðingar á sokkaplöggum og skóum smalanna. Og ekki hvað minnsti þátturinn í selsstarfinu var sífelldur þvottur á mjólkur- og skyrílátum, sem gerast alltaf tvisvar á dag. Til þess þurfti verulega að vanda svo ekki kæmist súr í mjólkina. Kæmi það fyrir var vís gellir við flóninguna að mjólkin hlypi í kost og mysu og væru til lítils nýt í selinu.

Mjólkurtrog

Mjólkurtrog.

Ílátin þurfti að sjóða í sjóðandi vatni og sóta og skola vandlega á eftir úr köldu vatni. Þetta útheimti mikinn og sífelldan vatnsburð. Það var því verulegt metnaðarmál stúlknanna að ekki kæmi hjá þeim gellir því hætta var á að um vanrækslu yrði um kennt.
Venjulega var fllutt heim tvisvar í viku skyr og smjör en sauðatað og fleira sem selfólkið þurfti með flutt til þess. Þannig liðu dagarnir í selinu í fábreyttni og kyrrð afdalanna.
Á sunnudögum kom það fyrir að ungt fólk í sveitinni gerði sér listitúr í selin. Þótti það auðfúsigestir og var fagnað vel og var veitt sykrað sauðaskyr og rjómi sem gestunum var nýnæmi á og þótti hið mesta lostæti. Gestirnir höfðu líka með sér ýmislegt sælgæti sem þeir veittu selfólkinu, stundum ofurlítinn brennivínstár út í kaffið. Þegar þessa gesti bar að garði var oft glatt á hjalla í selinu og mikill dagamunur.
Eftir u.þ.b. fjórar vikur í selinu voru ærnar reknar heim og selsstúlkur og smalar breyttum verustað. Var þá seltímanum lokið í það sinn.

Rjómatrog

Rjómatrog.

Um og eftir síðustu aldamót var víðast hvar hætt að færa frá og sú nýbreytti upp tekin að lá ærnar ganga með dilk. Var þá lagður fyrir róða aldagamall þáttur í lanbúnaði Íslendinga – fráfærurnar.
Síðustu selfarirnar i Eyjafirði voru 1803. Þótt stundum væri eritt og kalsamt fyrir selssmalana og þeir yrðu það þola vosbúð og einangrun voru þó miklu fleiri sólskinsdagarnir sem þeir geymdu í hugskoti sínu. Minningin um afdalakyrrðina og mildan árniðinn sem svæfði þá þegar þeir lögðust til hvíldar á mosakoddann sinn í litla byrginu var sem ljúfur draumur liði um vitund þeirra á efri árum. Nú er allt hljóðnað frá seljunum og húsin fallin. Þaðan heyrir ekki lengur hóað saman kvíaám, engin fráfærajarmur og ekkert strokkshljóð. Allt þetta hjúfrar sig í skauti minninganna um það sem einu sinni var.“

Heimild:
-https://www.ruv.is/utvarp/spila/man-eg-thad-sem-longu-leid/33824/a2i8g9

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Litla-Botnssel

FERLIR hefur löngum fjallað um seljabúskap á Reykjanesskaganum – m.a. lýst öllum 401 seljunum, sem þar er að finna, gerð þeirra og sérstöðu, aldri m.t.t. heimilda o.s.frv.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 131 skrifar Bjarni Guðmundsson um seljabúskap, bæði út frá staðbundinni athugun hans á seljum í Dýrafirði sem og almenn út frá sögum og sögnum. Þar segir m.a.:

„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum. Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga. Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi „Mig dreymir við hrunið heiðarsel“:

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Mig dreymir við hrunið heiðarsel: heyri ég söng gegnum opnar dyr, laufþyt á auðum lágum mel? Líf manns streymir fram, tíminn er kyr. Allt sem var lifað og allt sem hvarf er, það sem verður dvelur fjær ónuminn heimur, hulið starf; hús þessa dags stóð reist í gær.

Við göngum í dimmu við litföl log í ljósi sem geymir um eilífð hvað sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug framhjá er enn á sama stað. Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars
Reinton um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: „Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden)“.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða. Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum. Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Höfundur Laxdæla sögu notar heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar. Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:

Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu)

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur . . .

319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.

320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók.

Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .

330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Úr Jónsbók (tölur vísa til blaðsíðu):

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum. . .

147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Arasel

Ara(hnúka)sel – uppdráttur ÓSÁ.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] . . . Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er.“

Á vef HÍ 2020 má lesa eftirfarandi frétt:
„Flest þekkjum við og höfum sungið þetta kvæði Sveinbjarnar Egilssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík. Kvæðið vísar til horfins tíma á Íslandi, tíma þar sem kindur og kýr voru reknar á afskekkta staði fjarri bóndabæjum, í svokölluð sel, yfir sumartímann. Þar voru dýrin á beit og smalar eða vinnukonur höfðu það hlutverk að mjólka skepnurnar og hirða um þær.

Seljabúskapur tíðkaðist á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld líkt og víða í Evrópu. Þess konar búskapur er viðfangsefni Árna Daníels Júlíussonar, sérfræðings hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, og erlendra samsstarfsfélaga hans í rannsóknarverkefninu PECUS sem hlotið hefur styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

„Markmið PECUS-verkefnisins er tvíþætt: Annars vegar er viðfangsefni og hins vegar aðferð sem beitt verður til að fást við það. Viðfangsefnið er seljabúskapur í löndum Evrópu. Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“ og felst í að nota tölvuforrit til að greina og bera saman seljabúskap í löndunum fimm. Unnið verður með ókeypis forrit að svokallaðri „huglægri líkanagerð“ (e. mental modelling) með hin ýmsu seljakerfi sem viðfangsefni,“ útskýrir Árni Daníel sem hefur sérhæft sig í sögu íslenska bændasamfélagsins í rannsóknum sínum.

Nemendur og kennarar starfa saman að verkefninu

Lónakotssel

Lónakotssel.

Árni Daníel segir að frumkvæðið að rannsóknarverkefninu hafi komið frá Ítalíu, frá stofnun sem hefur sinnt ýmsum samevrópskum verkefnum á sviði skipulagsmála, landfræði og sögulegrar landfræði og nefnist U-space. Fulltrúar hennar hafi haft samband við rannsóknasamfélög í Grikklandi, Spáni, Bretlandi og Íslandi og leitað samstarfs og byggður hafi verið upp verkefnishópur.

Verkefnið hófst síðastliðið haust og stendur í tvö ár. „Hugmyndin er að fá kennara og nemendur til samstarfs í verkefninu. Nokkur námskeið og ráðstefnur verða haldin, í Newcastle á Englandi og Valencia og Sevilla á Spáni, og þangað verður kennurum og nemendum úr viðkomandi háskólum boðið til að vinna með viðfangsefni verkefnisins,“ segir Árni Daníel.

Hamrasel

Hamrasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“.

Seljabúskap hnignaði eftir Stórubólu
Ritaðar heimildir um seljabúskap er að sögn Árna Daníels að finna í íslenska fornbréfasafninu og víða í fornritum, eins Íslendingasögum og öðrum sögum. Þá megi finna ýmislegt um síðari alda seljabúskap mjög víða í ritheimildum og bendir Árni Daníel sérstaklega á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem gefi mjög nákvæmt yfirlit um ástandið í upphafi 18. aldar.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Hins vegar segir hann að seljabúskapur á Íslandi sé lítt rannsakaður. „Þó hefur ýmislegt komið í ljós um seljabúskap fyrr á tímum við fornleifaskráningu á síðustu áratugum og til er þýskt doktorsrit um seljabúskap á Íslandi frá 1979. Fornleifaskráning leiðir í ljós að seljabúskapur var miklu mun útbreiddari fyrr á öldum en t.d. 1702-1714 þegar miklar heimildir um seljabúskap voru skráðar í Jarðabók Árna og Páls. Við Eyjafjörð hefur komið í ljós að sel var nánast við hvert lögbýli til forna en þegar Jarðabókin var tekin hafði seljunum fækkað mjög mikið. Aðeins voru fá sel eftir í sýslunni miðað við það sem verið hafði. Svo er ekki vitað á hvaða tíma þessi sel störfuðu, hvort það var um skamman tíma eftir landnám eða hvort það var allar miðaldir. Þetta er mjög spennandi viðfangsefni sem vonandi verður unnt að ræða innan ramma þessa verkefnis,“ segir hann enn fremur.

Mjóanessel

Mjóanessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekkert er vitað um hvort íslenskum seljabúskap hafi svipað eitthvað til sams konar búskapar við Miðjarðarhaf en sá íslenski á rætur sínar að rekja til Noregs. „Norskur seljabúskapur er ekkert sérlega gamall í samhengi landbúnaðarsögunnar. Hann hófst þegar farið var að nýta land betur, að líkindum vegna aukinnar fólksfjölgunar um 200–300 e.Kr. Það kerfi var síðan flutt nær óbreytt hingað til lands en það liggur s.s. nær ekkert fyrir um það hversu lengi því var haldið við. Egon Hitzler gerir í doktorsritgerð sinni frá 1979 ráð fyrir að seljabúskap hafi hnignað eftir plágur 15. aldar og greinilegt er að seljabúskap hnignaði mjög eftir Stórubólu 1707. Þar var frekar um að ræða aðlögun að aðstæðum en hnignun því gróðurlendi á hvern íbúa er það mikið hér á landi að í rauninni var ekki þörf á seljabúskap eins og hann var stundaður í Noregi þar sem gróðurlendi er minna á hvern íbúa og þörf á að þaulnýta allan gróður,“ bendir Árni á.

Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við Miðjarðarhafssvæðið
Aðspurður segist Árni Daníel vona að verkefnið skili þekkingu á og færni í nýrri aðferðafræði í félags- og hugvísindum, sem hægt er að nota á breiðu sviði, ekki einungis í tengslum við seljabúskap. „Mikilvægt er þó að fjalla um og búa til gagnagrunn um rannsóknir og þekkingu á seljabúskap hérlendis sem gæti nýst til rannsókna á því sviði.“

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Alþjóðlegt samstarf verður sífellst stærri þáttur í starfi fræðimanna Háskólans sem skilar í senn nýjum hugmyndum inn í íslenskt vísindasamfélag og nýrri þekkingu og vinnuaðferðum innan fræðigreina eða í tengslum við afmörkuð viðfangsefni. „Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við lönd sem eru ekki svo nálægt okkur og tilheyra öðru svæði Evrópu, Miðjarðarhafssvæðinu. Nýjar aðferðir í akademískri vinnu eru alltaf velkomnar og mikil nauðsyn er á að kanna betur seljabúskap hér á landi“, segir Árni Daníel að endingu.“
Ástæða er til að vekja athygli á að „hnignun seljabúskapar í kjölfar farsótta fyrr á öldum“ verður að teljast eðlileg í ljósi aðstæðna á hverjum tíma. Hins vegar munu breyttir búskaparhættir hafa haft mun meiri áhrif en hingað til hefur verið gert ráð fyrir.

Á vef Fornleifastofnunar Íslands 6. desember 2022 má lesa eftirfarandi:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

„Í ár styrkti Rannís verkefnið „Þróun seljabúskapar á Íslandi 800-1800“ til þriggja ára. Í rannsókninni verður leitast við að svara spurningum um upphaf og hnignum seljabúskapar hér á landi og kannað hvaða vísbendingar seljabúskapur fyrri alda getur gefið um vist-, félags-, hag- og landbúnaðarkerfi á Íslandi frá 800 til 1800. Til að svara þessum spurningum verða nýtt ýmis verkfæri fornvistfræði, fornleifafræði og sagnfræði og eru aðferðir landsháttafornleifafræði í forgrunni. Sel voru eins konar útstöðvar frá bæjum. Þau voru gjarnan nokkurn spöl frá bæjum, inn til dala eða upp til fjalla og þar voru mjólkandi skepnur voru hafðar yfir sumartíma.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Á Íslandi voru vinna í seljum yfirleitt talin til kvennastarfa, a.m.k. á seinni öldum, en víða annars staðar í heiminum voru og eru það gjarnan karlar sem sjá um þessi verk, því þótt seljabúskapur hafi að mestu lagst af á Íslandi á 18.-19. öld er hann enn stundaður víðs vegar í heiminum. Margvíslegar athuganir hafa verið unnar á þessu fyrsta ári rannsókna.“
Framangreindar athuganir virðast ekki hafa skilað sér til áhugasamra um verkefnið.

Heimild:
-https://issuu.com/landbunadarhaskoli_islands/docs/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_lok/s/17199734
-https://www.hi.is/frettir/sameinast_um_ad_rannsaka_seljabuskap_i_evropu
-https://www.facebook.com/people/%C3%9Er%C3%B3un-seljab%C3%BAskapar-%C3%A1-%C3%8Dslandi-Transice/100083391214649/

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.