Í örnefnalýsingu fyrir Krók í Grafningi eftir Guðmund Jóhannesson, Króki, kemur fram að Krókssel sé austan við Kaldá, “mjög fornar rústir; í Selmýri og Stardal var stundum slegið.”
Ölfusvatn eða Vatn er fyrst nefnt í máldaga kirkjunnar þar, sem talinn er frá 1180. Samkvæmt Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 var hálft heimaland Ölfusvatns kirkjueign. Ekki er minnst á Hagavík.
Krókur er nefndur í Gíslamáldögum frá því um 1570. En þangað var kirkjusókn að Ölfusvatni. Þá átti Ölfusvatnskirkja hálft heimalandið. Eftir því mætti ætla að Krókur hafi verið sérstök jörð og lögbýli eins og kemur fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en bæði Krókur og Ölfusvatn (Hagavík, hjáleiga Ölfusvatns) voru þá eign Skálholtsstóls. Ölfusvatn og Krókur áttu selstöður í heimalöndum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Ölfusvatn átti selstöður í Gamlaseli undir Selhól vestan Ölfusvatnsáar og væntanlega síðar Nýjaseli á Seltungum sunnan Mælifells, vestan Þverár. Ekki er ólíklegt að Ölfusvatn hafi um tíma selstöðu þar sem síðar varð Hagavík.
Stefnan var tekin á Krókssel. Gengið var til suðurs með vestanverði Víðihlíð, austan Ölfusvatnsáar. Lokaður vegur er að sumarbústöðum í hlíðinni. Þegar kom að mótum Þverár og Kaldár var þeirri síðarnefndu fylgt áleiðis upp að Selmýri. Farið var yfir á mótum Stapafellslækjar og Kaldánni fylgt alveg að upptökum austast í Stardal. Þar kemur hún úr lind norðan í rótum nafnlauss fells er lokar af Djáknapoll ofanverðan. Mætti það þess vegna heita “Djákninn” til heiðurs sögunni. Áin kemur úr safaríkjum lækjum á leiðinni, en upptökin eru í lindinni, sem væntanlega er affall Djáknapolls.
Rétt neðan norðvestanvert Súlufell er nokkurt gil í Kaldá. Gengið var upp með því að austanverðu. Foss er efst í gilinu, en ofan hans beygir áin meira til suðurs, með vesturhlíðum fellsins. Beint ofan gilsins, á austurbakkanum, eru tóftir Krókssels. Tvö rými með dyr til norður, að ánni. Erfitt gæti verið að koma auga á þær, en FERLIRsfélagar eru orðnir öllu vanir. Tóftirnar, sem voru á kafi í sinu, eru alveg upp undir rótum fellsins. Selstígurinn liggur yfir tóftirnar, en hann er raunar hluti af gamalli þjóðleið (gamli suðurferðavegurinn skv. örnefnalýsingu Guðmanns Ólafssonar) frá Villingavatni og Krók til vesturs, um Moldarklif, norður fyrir Stapafells og áfram til suðurs og upp með fellinu vestanverðu, um Þverárdal og Ölkelduháls í Brúnkollublett og síðan Milli hrauns og hlíða, vestur að Kolviðarhóli. Brúnkollublettur var aðaláningarstaður ferðamann á þessari leið. Gatan yfir Þverána á vaði þars em FERLIRsfélagar áðu á leið sinni að Nýjaseli (sjá Grafningsel…) með viðkomu í Nýjaseli á leiðinni upp með Laka. Hálsinn, sem gatan kemur yfir norðan Súlufells heitir Hempumelur að sögn Egils Guðmundssonar, bónda á Króki. Þar segir sagan að djáknin hafi verið færður úr hempunni áður en honum var drekkt í pollinum efra. Ástæðuna taldi Egill hafa verið einhver kvennamál.
Þótt tóftirnar séu að mestu jarðlægar mótar enn fyrir rýmum. Sel þetta er greinilega mjög fornt, eins og fram kemur í örnefnalýsingunni.
Selmýri er vestan Kaldár, stór hallandi mýrarfláki. Spölkorn ofar er Stardalur, vel gróinn og beitarvænn. Við skoðun á austurbakka Kaldár austast í Stardal, þar sem áin á upphaf sitt í lindinni fyrrnefndu, virðast vera mjög fornar tóftir, nánast jarðlægar. Þúfnamyndun er þarna, en ekki er með öllu útilokað að þarna undir kunni að leynast enn eldri leifar af seli. Bergstál skálalaga Súlufells rís hátt í suðaustri. Ekki er vitað um nafnið á skálinni, en hún gæti þess vegna hafa heitið Selskál. Við komuna á þennan birtist mótökunefnd óvænt (um miðjan apríl) – tvær gráar kindur, tvíburar. Egill sagði síðar að þær hlytu að hafa verið Villingavetningar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Krók eftir Guðmund Jóhannesson.
-Örnefnalýsing Guðmanns Ólafssonar af Króki.
-Jarðabók ÁM 1703.