Skoðaður var forn “skírnarfontur” úr grágrýti við Hraun austan Þórkötlustaðahverfis. Hann fannst þegar verið var að grafa við fjárhús, sem þarna eru, en í fyrri tíð átti bænahús að hafa staðið þar norðan húsanna. Steininum var hent til hliðar í fyrstu, en Siggi (Sigurður Gíslason) á Hrauni lét grafa hann upp fyrir skömmu og er hann hinn fallegasti og merkilegasti gripur.
Að vandlega skoðuðu máli virðist steinninn einnig geta verið svonefndur stoðsteinn. Þeir voru hafðir undir burðarstoðum bæja, höggvið í þá fyrir stoðinni og hún látin standa í holunni. Dæmi þessa má t.d. sjá í gömlu Herdísarvíkurbæjartóftinni, en þar er stoðsteinn þar sem önnur burðarstoðin við útidyrnar var.
Siggi sýndi FERLIRsfélögum dys ofan vegar sem Kristján heitinn Eldjárn hafði mikinn áhuga á, en gafst ekki tími til að kanna, auk þess sem skoðaðir voru brunnar við bæinn og Gamlibrunnur úti á sandinum ofan við Hrólfsvík.
Um er að ræða fallega hlaðinn brunn, en er nú að mestu fylltur fosksandi. Loks var haldið upp Sandskarðið og upp í Hraunsleyni þar sem leynist ein fallegasta refagildra sem um getur. Um er að ræða krossgildru með fjórum inngöngum (en engum útgöngum).
Sigurður fór að rifja upp staðsetninguna eftir að FERLIR fór að grennslast um refagildrur á þessum slóðum. Niðurstaðan varð þessi ofan við Hraunsleyni. Hún er hlaðin úr hraungrýti. Tveir inngangar hennar er að mestu heilir og sá þriðji heillegur. Staðsetning hennar er nálægt refaslóð, með hraunkantinum.
Eldri refagildrur eru einnig sunnan við Hraunsleyni, en mun minni. Nokkur hætta er á að gildrunni verði raskað þegar kemur að framkvæmdum við Suðurstrandarveginn því hún fellur vel inn í hraunmyndina.
Þá var haldið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal og hann skoðaður. Steinninn er við gömlu þjóðleiðina áleiðis yfir að Méltunnuklifi á bak við Slögu. Vísa hefur verið ort um steininn og til er þjóðsaga um hann. Sú sögn hvílir og á steininum að í honum þrjóti sjaldan vatn.
Haldið var inn eftir dalnum og áfram inn Nátthaga og gengið á skarðið. Var þá komið inn í slétta sendna dalbreiðu vestan Stóra-Hrúts.
Gengið var að brúnum Merardala og þaðan til vesturs ofan í Geldingadal. Dalurinn var skoðaður fram og aftur sem og meint dys Ísólfs gamla frá Skála.
Gengið var upp úr dalnum að sunnanverðu og komið niður í Selskálina norðan Borgarfells. Á leiðinni yfir fellið blasti við stórkostlegt útsýni yfir allt vestanvert Reykjanesið.
Gengið var að Einbúa og skoðuð hlaðin forn hestarétt sunnan hans sem og lítið hlaðið skjól. Gömul leið liggur þarna þvert á og hefur verið talsvert kastað upp úr götunni. Líklega er þarna um að ræða hluta af Sandakravegi þeim, er jafnan er merktur inn á gömul landakort. Stefnir gatan á norðurhlíð Borgarfjalls. Skammt sunnar fannst haglega hlaðið refabyrgi og skammt sunnar þess fallegur stekkur.
Hraunkanturinn þarna er vel gróinn. Ekki er ólíklegt, ef vel væri leitað, að finna mætti seltóft í eða við einhvern hraunbollan, en afstaðan þarna er svipuð og í öðrum selsstöðum á svæðinu, enda líklegt að þessa svæði hafi verið nýtt til þeirra hluta.
Selskálin bendir til selstöðu, en í dag er ekki vitað hvar Ísólfsskáli hafði í seli fyrrum. Engin ummerki eru eftir selstöðu í sjálfri skálinni og ekki við Einbúa. Hins vegar bendir stekkurinn til selstöðu þarna á skjólsælum stað. Mikið af brönugrasi vex á börmum bollanna og talsvert gras er með köntunum, en óvíða annars staðar.
Gengið var með hraunkantinum niður að Ísólfsskálaréttinni gömlu (Borgarhraunsréttinni) og áfram fram hjá hjá fjárborg (Borgarhraunsborg) áður en göngunni lauk. Sagnir eru um að Viðeyjarklaustur hafi haldið fé í borginni, en það hafði ítök í fjölmörgum jörðum, einkum á norðanverðum Reykjanesskaganum. Um það er fjallað annars staðar á vefsíðunni. Eitthvert samhengi gæti verið með borginni og stekknum norðan við hraunkantinn. Ef svo hefur verið aukast enn líkur á að finna megi tóft eða tóftir á svæðinu. Líklegra er þó að í stekknum hafi verið heimasel frá Skála, enda stutt vegalengd þar á millum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.