Árið 2007 skrifaði Helgi Þorláksson grein í Vesturbæjarblaðið um „Ufsaklett og Selsvör„. Þar segir m.a.:
„Ufsaklettur er norðvestur af torginu sem er fyrir fram JL-húsið við Hringbraut 121 og hann á sér merka sögu. Hún verðu reifuð stuttlega í eftirfarandi samantekt.
Fyrir hálfri öld var fjaran við götuna Ánanaust eitt helsta athafnasvæði æskufólks vestast í Vesturbænum og hafði verið lengi; krossfiskar og ígulker voru algeng leikföng barna, steinum og glerbrotum, sem sjórinn hafði núið og nuggað, var safnað, kerlingum var fleytt, hlaupið undan öldunni, færi rennt, stálpaðir strákar fóru í þönglastríð eða lögðu í ævintýraferðir á prömmum, og fleira var sér til gamans gert. Margir minnast ljúfra æskuára í fjörunni við Ánanaust, t.d. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, sem átti heima á Ásvallagötu og kallaði sig „fjörubarn” í útvarpsviðtali við Jökul Jakobsson, muni ég rétt. Merkilegt vitni um bjartar bernskuminningar er Ufsaklettur sem stóð einu sinni í fjörunni skammt fyrir norðan Selsvör, þegar hún var og hét, við enda Hringbrautar. Meðfylgjandi mynd sýnir afstöðu klettsins, eins og hún var. Á sínum tíma var mæld staða Ufsakletts áður en hann lenti í uppfyllingu. Sá sem mun einkum hafa beitt sér fyrir þessu var Grétar Jónsson, fyrrum starfsmaður Reykjavíkurhafnar, og átti heima á Vesturvallagötu 7 í æsku sinni. Hann vildi ekki týna Ufsakletti með öllu og hafði í huga að síðar mætti grafa hann upp og koma fyrir varanlega aftur.
Tuttugu strákar taka sig saman
Grétar fékk hóp stráka úr Vesturbænum til að styðja þá viðleitni að láta grafa klettinn upp og úr því varð árið 1993, með tilstuðlan borgarverkfræðings. Þá voru. í forystu fyrir strákahópnum með Grétari þeir Sigurður Þ. Árnason, fyrrum skipherra hjá Landhelgisgæslunni, og Rafn Sigurðsson, fyrrum framhaldsskólakennari, báðir úr Lautinni, en svo nefnist svæðið milli Holtsgötu og Bráðræðisholts. Við þá hef ég báða rætt og þeir hafa lesið þessa samantekt mína í drögum og gert athugasemdir. Þremenningarnir fengu strák af Ásvallagötunni, Guðmund J. Guðmundsson, formann Dagsbrúnar, til að styðja við málefnið, og saman sendu þeir borgaryfirvöldum bréf árið 1993 og aftur 1994 og báðu í seinna bréfinu um að hlaðið yrði undir klettinn og komið fyrir merkingu. Þeir töluðu í nafni 20 manna hóps og vildu að fram kæmu á skilti þessi orð um Ufsaklett, „Hann tengist manndómsvígslu stráka í Vesturbænum”. Hinum nýuppgrafna kletti var í fyrstu komið fyrir á torginu framan við JL-húsið við Hringbraut en þetta torg mætti nefna Selstorg.
Um aldamótin síðustu skyldi torgið svo endurhannað og hækkað. Áhyggjur vakti að erfitt yrði áhugasömum að komast að klettinum úti á torginu, vegna mikillar umferðar, og var þá rædd hugmynd um að koma honum fyrir þar sem hann hafði staðið áður, eða sem næst því, en að vísu ofan á uppfyllingunni. Umræddur hópur Vesturbæjarstráka samþykkti þetta á fundi og forkólfarnir sendu borgaryfirvöldum bréf um málið í árslok 1999 og lögðu jafnframt til að torgið yrði nefnt Selstorg.
Kjartan Mogensen landslagsarkitekt, sem ráðamenn borgarinnar fólu að skipuleggja torgið, sat fundinn og var með í ráðum um frágang við Ufsaklett. Hann var síðan settur ofan á uppfyllinguna, sem næst sínum gamla stað, öllum aðgengilegur. Hörður Óskarsson prentari, þekktur á sjötta áratuga 20. aldar sem miðvörður í meistaraflokki KR í knattspyrnu, hafði meðferðis ljósmynd af klettinum þar sem hann stóð á upprunalegum stað og gat ekki verið vafa undirorpið að klettur sá sem komið var fyrir norðvestan við torgið, var hinn eini sanni Ufsaklettur og snýr eins og hann gerði á gamla staðnum.
Mikilvægi Ufsakletts
Sá sem þetta ritar, mun yngri en umræddir Vesturbæjarstrákar, man vel hversu mikið aðdráttarafl kletturinn hafði snemma á sjötta áratug síðustu aldar þar sem hann stóð allhátt norðan Selsvarar. Hann dró til sín krakka, kannski helst stráka, sem stóðust ekki mátið að klifra upp á hann, til dæmis til að renna þaðan færi og veiða þyrskling eða ufsa. Stundum fréttist að sumir fengju lax, eftir því sem hermt er. Mest þótti varið í að klífa klettinn þegar gætti öldugangs, leita þá lags til að komast upp og stökkva síðan niður áður en næsta holskefla riði yfir.
Þarna stendur hann, nánast í beinu framhaldi af Sólvallagötunni, kletturinn sem nefndur var í upphafi þessarar samantektar. Þetta er sjálfur Ufsaklettur, en fáir munu þekkja sögu hans. Hún er vel þess virði að halda henni til haga, vekur ljúfar minningar um liðna tíð og björgunarsagan er merkur vitnisburður um þörf manna fyrir að leggja rækt við sameiginlegar minningar. Slíkar minningar tengjast mikilvægri vitund um sameiginlegan uppruna og stuðla að samsemd. Þeir sem stóðu fyrir að bjarga Ufsakletti voru æskufélagar úr Vesturbænum og þegar klettinum var komið fyrir á gamla staðnum voru þeir líklega flestir við lok starfsferils, hver á sínu sviði. Þeir áttu með sér fundi og sögðu sögur um lífið í gamla Vesturbænum. Kletturinn var miðlægur í minningum þeirra og þeir tengdu hann manndómsvígslu.
Ég undirritaður gerðist afskiptasamur sumarið 1999, skrifaði borgarverkfræðingi bréf og vildi láta flytja Ufsaklett af torginu yfir á sjávarkambinn, sem næst gamla staðnum, og lagði jafnframt til að torgið yrði nefnt Selstorg. Mér var þá sagt frá strákahópnum, sem ég vissi ekki um, og Sigurður Þ. Árnason bauð mér að vera með á fundi þeirra, sem ég gerði, mér til mikillar ánægju.
Gagnlegt að merkja
Þetta er rifjað upp hérna ma. af því að fyrirhuguð stækkun sjóvarnargarðs við Ánanaust og færsla göngustígs, og framkvæmdir sem þessu fylgja, gæti vakið þá hugmynd að best væri að færa klettinn, svo að um muni, eða jafnvel flytja brott. Sú saga sem hér hefur verið rakin sýnir að það væri synd og skömm og lausleg könnun mín bendir til að unnt eigi að vera að leggja nýjan stíg í fullri breidd án þess að færa klettinn. Ástæða er til að merkja Ufsaklett í von um að það gæti orðið honum til nokkurrar varnar og haldið lífinu í sögu hans. Og takist vel til um sjóvarnir væri kjörið að koma fyrir bekk hjá klettinum og stuðla að því að hér á stígamótum geti verið áningarstaður fyrir hina fjölmörgu sem njóta útivistar á stígunum við sjóinn.
Það er annað sem mætti líka merkja. Eins og fleiri á höfundur þessa pistils góðar minningar tengdar Selsvör, bátum, hrognkelsum og grásleppukörlum. Áður var stunduð sókn frá Selsvör á djúpmið en Rafn Sigurðsson telur að slíkir róðrar hafi verið hættir á þriðja áratug síðustu aldar. Eftir það voru aðeins stundaðar hrognkelsaveiðar úr vörinni, sumir höfðu þær sem aukavinnu og svo reru líka gamlir sjómenn sem voru komnir í land en áttu erfitt með að slíta sig frá sjónum, eftir því sem Rafn hermir. Af grásleppukörlum þarna var kannski þekktastur á sjötta áratug síðustu aldar Pétur Hoffmann eða öðru nafni Pétur H. Salómonsson sem átti heima við vörina, og var reyndar ekki einn um það.
Pétur segir af sér sögur í bókinni “Þér að segja”, veraldarsaga Péturs Hoffmanns Salómonssonar sem Stefán Jónsson færði í letur. Núna mun fólk af yngri kynslóðum kannski helst kannast við Pétur af því að til er um hann söngurinn Hoffmannshnefar, við texta Jónasar Árnasonar.
Margir komu við í Selsvör fyrir ríflega hálfri öld til að kaupa sér í soðið og þar gat verið líflegt. Strákar hjálpuðu til við að setja fram báta eða ráða þeim til hlunns og fengu stundum að fljóta með þegar vitjað var um.
Eftir að fyllt var upp í Selsvör ofanverða, trúlega árið 1959, hefur hún smám saman verið að hverfa með auknum uppfyllingum og niðurbroti sjávar. Ég tel þó að á mikilli fjöru megi greina síðustu leifar hennar og vísa á meðfylgjandi mynd því til staðfestingar. Milli vararinnar, sem ég þykist greina, og Ufsakletts, þar sem hann er að finna á uppfyllingunni fyrir norðan hana, eru um 30 metrar. Ég legg til að Selsvör verði líka merkt og tilgreini frekari ástæður þess hér á eftir.
Sorpa, Selsvör og Öskuhaugar í einni bendu
Svo mjög er farið að fyrnast yfir hvar Selsvör er að í sérstakri grein um hana í alfræðisafninu Wikipedia, sem finna má á netinu (www.juugle.info/is/Selsvör), segir að hún hafi verið þar sem núna er endurvinnslustöð Sorpu og að áður hafi verið urðunarstaður á sama stað, þ.e. ruslahaugar. Þessi endurvinnslustöð er fyrir vestan Mýrargötu og æðispöl frá Selsvör þar sem hún er við enda Hringbrautar. Þessi ónákvæmni á sér líklega þá skýringu að skammt frá endurvinnslustöðinni var Litla-Selsvör, fyrir neðan núverandi Vesturgötu, kennd við Litla-Sel, og munu hafa verið ruslahaugar hjá vörinni í eina tíð. Önnur ranghugmynd er sú að ruslahaugar hafi verið við Selsvör sjálfa (Stóra-Sels vör), umrædda vör við enda Hringbrautar, en það mun aldrei hafa verið. Haugarnir þar sem Pétur Hoffmann fann dýrgripi voru kallaðir Öskuhaugarnir eða Haugarnir og voru í fjörunni við Eiðsgranda, fyrir sunnan Grandaveg. Ég þykist muna að um miðbik sjötta áratugar síðustu aldar hafi rusli einkum verið ekið á svæðið svo að segja beint þar fyrir framan sem síðar varð til gatan Rekagrandi.
Athygli vekur hve fjaran þar sem haugarnir voru er orðin hrein og fjörusandurinn freistandi til athafna. En erfitt er að klöngrast ofan í fjöruna hér við Eiðsgranda og væri eðlilegt að gera tröppur til að auðvelda fólki, ungu og gömlu, að komast hérna að sjónum, svo sem til að vaða, fleyta kerlingar eða skoða fjörulífið eða bara til að spígspora í sandinum. Þarna gæti líka verið gaman að koma fyrir upplýsingum
Selsvör og Stóra-Sel
Ærið tilefni er til að merkja Sels-vör, ekki aðeins vegna umrædds ruglings heldur vegna þess að þetta er ein helsta og þekktasta vör í Reykjavík. Hún er kennd við bæinn Sel eða Stóra-Sel sem var lögbýli á 14. öld og er ætlandi að þá þegar hafi vörin verið til, í einhverri mynd. Stóra-Sel er við Holtsgötu 41, á baklóð, og þar stendur enn steinbær sem mun hafa verið reistur árið 1884 og ætti að sýna honum verðugan sóma. Í slíkum steinbæjum áttu oft heima útvegsbændur sem lifðu af sjávarafla og höfðu nokkurt jarðnæði fyrir skepnur (grasbýlingar) og svo hinir sem nefndust jafnan tómthúsmenn og lifðu eingöngu af sjávarafla og vinnu sem féll til. Á seinni hluta 19. aldar gerðu margir þessara manna út opna báta, ekki aðeins til að veiða hrognkelsi uppi við landsteina á vorin heldur einkum til þorskveiða um hávetur, jafnvel allt suður í Garðsjó, og þurfti áræði til og kunnáttu.
Um þetta má fræðast í bókinni Þættir úr sögu Reykjavíkur. Í Stóra-Selsvör drógu á land báta sína undir lok 19. aldar ekki einungis útvegsbændur frá Stóra-Seli heldur líka tómthúsmenn frá Pálshúsum, að talið er (þar sem er Hringbraut 117 eða 119) og af norðanverðu Bráðræðisholti, svo sem Háholti og Lágholti. Enn fremur af Melnum en þá mun átt við býli sem var gegnt Ásvallagötu 53-5, eða þar um bil (taldist til Sólvallagötu 31). Úr umræddri vör reru líka sem formenn, Snorri Þórðarson í Steinsholti sem Snorrakot mun kennt við (síðar Holtsgata 1) og Jón Ingimundarson í Selsholti eða Jónskoti (Holtsgötu 3). Er um þetta farið eftir þeim Ágústi Jósefssyni heilbrigðisfulltrúa og Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi, sem skráði eftir Ólafi Jónssyni fiskmatsmanni. Stærstu bátarnir, þeir sem haldið var á djúpmið, voru sex- og áttæringar og á þeim voru ófáir aðkomumenn sem fengu inni hjá útvegsbændum og tómthúsmönnum.
Þetta er merkileg saga um framfarir, fólksfjölgun og bættan hag sem átti rætur í betri bátum, hagkvæmari seglabúnaði og harðari sjósókn. Framfarirnar birtust ma. í vandaðri húsakynnum, þar sem voru steinbæir, eins og á Stóra-Seli. Þessa ber að minnast og liður í því væri að merkja Selsvör. Það mætti gera með því að setja stólpa með skilti við fyrirhugaðan garð og gera tröppur sem auðveldi fólki að fara upp á garðinn til að fá yfirsýn. Óttist yfirvöld að tröppurnar ýti undir fólk að fara sér að voða með því að ganga á garðinum, eða feta sig um illfært stórgrýti niður að sjónum, mætti kannski afmarka útsýnisstaðinn með traustri girðingu. Eftir mikinn ágang sjávar á síðastliðnum vetri voru lítil merki um að hann hefði borið sand og möl á land við Selsvör enda var hún önnur tveggja þrautalendinga við Reykjavík, hin var Grófin.
Að sunnanverðu í Selsvör teljast vera leifar af hlöðnum garði eða fremur mætti tala um vegg. Í Fornleifaskrá Reykjavíkur frá árinu 1995 segir (bls. 175), „Til stendur að endurhlaða garðinn og koma fyrir upplýsingaskilti á staðnum”. Því miður hefur dregist úr hömlu að koma fyrir skilti. Upplýsingar á slíku skilti þyrftu ekki að vera mjög rækilegar, áhugasömum mætti vísa á fyllri upplýsingar á heimasíðu borgarinnar á netinu. Vegginn má sjá á meðfylgjandi mynd sem er ný og væri nokkurs virði að halda við sem síðustu minjum um vörina. Segir í fornleifaskránni að hleðslusteina úr veggnum megi sjá á víð og dreif hið næsta honum. Auðvitað er hætt við að þeir gangi úr skorðum að nýju en þannig var raunveruleikinn áður fyrr og menn létu sig hafa það að lagfæra vörina og hreinsa hana eftir þörfum.
Niðurlagsorð
Framtak strákanna vestast í Vesturbænum sýnir ríka þörf fyrir tengsl við fortíðina. Ummerkjum um líf og starf á fyrri tíð hefur verið eytt jafnt og þétt, stundum alveg án þess að nauður ræki til þess. Okkur er þarft að staldra stundum við og minnast þess að merki fortíðar hafa oft í sér fólgin mikil verðmæti, jafnvel þótt þau láti lítið yfir sér.“
Helgi Þorláksson fjallar um Stórasel og Ufsaklett í Mbl. 11. des. 1993. Þar segir hann m.a.: „Mikil saga og merk; Stórasel á sér langa og merka sögu. Fólki þykir fróðlegt að heyra að hér hafi Reykjavíkurbændur haft í seli á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Nálægðin við Vík vekur margar spurningar um seljabúskap að fornu. Selið fékk uppreisn og varð fullgild jörð, svonefnt lögbýli, fyrir 1379. Þá var jörðin í eigu Víkurkirkju og það er skýring þess að þarna varð síðar prestsetur. Útræði hefur sjálfsagt valdið mestu um þessa upphefð, róið var árið um kring frá Seli samkvæmt Jarðabók þeirra Áma og Páls og mun þá hafa verið lagt úr margfrægri Selsvör. Selið hefur verið hin mikla viðmiðun vestast í Vesturbænum; önnur býli tóku nafn eftir því, Miðsel, Litlasel, Jórunnarsel, Ívarssel, og eftir þessum seljabýlum nefnist Seljavegur. Miðsel er horfið en hin standa enn. Hringbraut liggur vestast milli Bráðræðisholts og Selsholts. Holtsgata heitir eftir Selsholti og milli hennar og Sólvallagötu er Selland enda nefndist vestasti hluti Sólvallagötu Sellandsstígur í eina tíð. Auk Selsvarar má líka nefna Selsker sem er væntanlega nefnt eftir Seli. Selsingar nefndust tómthúsmennirnir á seljabæjunum og í öðrum tómthúsum í Selsholti. Mesti uppgangstími reykvískra
tómthúsmanna var á seinni hluta 19. aldar, þeir reru þá alla leið suður í Garðsjó á vetrarvertíð á breyttum og bættum seglbátum og gerðu sér steinbæi sem tóku torfbæjum langt fram. Þessir menn öfluðu saltfisksins sem var skýringin á tilveru Reykjavíkur. Einn þessara tómthúsmanna var Sveinn Ingimundarson sem reisti steinbæinn í Stóraseli.
Steinbæirnir voru einu sinni um 150 en núna standa aðeins um 20, að sögn, sem vitni um þessa sérreykvísku húsagerð og hefur enn fækkað nýlega.“
Heimild:
–Helgi Þorláksson, Vesturbæjarblaðið 6. tbl., 10. árg., júní 2007, bls. 8-9.
-Helgi Þorláksson – Mbl. 11. des. 1993, bls. 46.
-Mbl. 15. des. 1993, bls. 4 (mynd og texti).
-Mbl. 09. nóvember 1996 – C.