Færslur

Grótta

Í Degi árið 2001 segir Freyja Jónsdóttir frá Gróttu:
Grotta-1“Fyrir Básendaflóðið 1799 þótti Grótta góð bújörð og hefur þar komið til að útræði þaðan var gott. Í Seltirningabók eftir Heimi Þorleifsson segir: „Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547 – 52, en nafnið þykir fornlegt og bendir til þess, að þar hafi lengi verið búið”. Grótta er eitt helsta kennileiti og útvörður Seltjarnarness. Hún geymir mikla og merkilega sögu sem ekki verður gerð skil í einni blaðagrein en reynt verður að draga fram það helsta. A átjándu öld var þarna mikil útgerð og segir í lýsingum Skúla Magnússonar að 1780 hafi verið gerðir út þaðan fjórir bátar.
Grótta var lengi hjáleiga frá stórbýlinu Nesi en ábúandi Gróttu mátti hafa sína eigin skipaútgerð. Að hafa sfna eigin útgerð hefur laðað að stórhuga útgerðarmenn þessara tíma. Stutt var á miðin og munaði miklu að róa frá Gróttu eða innan úr Reykjavík. En Grótta á sinn óvin þar sem Ægir gamli er, sem brýtur báru við strönd og sækist eftir landi Gróttutanga. Í aldanna rás hafa menn reynt að verjast landbroti með því að hlaða varnargarða við fjörukambinn.
Fyrsti nafnkunni ábúandinn var Sigurður Erlendsson, hann bjó í Gróttu árið 1696. Fram að flóðinu mikla eru á Gróttu sjö ábúendur fyrir utan það að stundum virðist hafa verið þar tvíbýli.
Í Básendaflóðinu voru ábúendur á Gróttu þau Sigurður Magnússon, fæddur 1751 og Guðrún Guðnadóttir, fædd 1748. Þau hjón virðast hafa búið áfram í Gróttu eftir flóðið þó að Grótta sé í sumum heimildum talin óbyggileg. Líklegt er að Sigurður hafi haft framfæri sitt af sjósókn og eða bátasmíði en hann er nefndur timburmaður í einu manntali (sjá Seltimingabók Heimis Þorleifssonar). Á heimili Sigurðar og Guðrúnar voru yfirleitt fimm til sex manns.
Grotta-2Jörðin hefur sennilega verið í eyði frá 1827 til 1840. En þar áður bjuggu á Gróttu Magnús Sigurðsson, sonur Sigurðar Magnússonar og Guðrúnar Guðnadóttur, fyrri ábúenda. Magnús var fæddur 1789. Kona hans var Ingibjörg Guðmundsdóttir, fædd 1797. Þau hjón fluttust að Bygggarði árið 1827.
Árið 1852 eru Jón Jónsson og Ketilríður Kristjánsdóttir farin að búa á Gróttu, ásamt þremur börnum sínum, Marju 4 ára, Ingjaldi 3 ára og Sigurði 1 árs. Þau bjuggu áður á Hvammi í Kjós, en lifðu á sjófangi eftir að þau fluttu að Gróttu. Jón var fæddur 1823 í Reynivallasókn. Ketilríður var fædd 1822 í Glaumbæjarsókn. Jón bjargaði tveimur mönnum úr sjávarháska út af Gróttutöngum árið 1859, en fórst sjálfur í sjóslysi með Einari í Ráðagerði 2. febrúar 1870. Ketilríður bjó áfram í Gróttu með bórnum sínum og fer ekki á milli mála að hún hefur verið kjarkmikil dugnaðarkona. Við manntal seint á árinu 1870 kemur fram að börn hennar og Jóns sem eftir eru í eyjunni með móður sinni eru: Marja 19 ára, Guðbjörg Dagný 12 ára og Jón 6 ára. En Ingjaldur og Sigurður koma ekki fram í Gróttu við það manntal. Þá er getið um einn vinnumann í Gróttu, Guðmund Helgason 45 ára.
grotta-11Samkvæmt manntali frá árinu 1880 bjó þá í Gróttu, Þórður Jónsson, 44 ára skipasmiður og sjómaður, fæddur í Reykjavíkursókn og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir 30 ára gömul, fædd í Stokkseyrarsókn. Einnig eru á heimilinu þrjú börn Þórðar frá fyrra hjónabandi: Pétur 15 ára, Þórður 13 ára og Guðrún 12 ára. Ennfremur fjögur börn þeirra hjóna: Sigurður 5 ára, Guðrún 4 ára, Þórður 3 ára og Guðbjörg á fyrsta ári. Það er eftirtektarvert að tvö börn af seinna hjónabandi Þórðar heita sömu nöfnum og tvö af börnum hans af fyrra hjónabandi. Þórður flutti í Mýrarhúsaskóla árið 1894 og gerðist þar umsjónarmaður. Þorvarður hefur búskap Árið 1901 er Þorvarður Einarsson, fæddur 1863 í Arnarbælissókn, tekin við búskap í Gróttu ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur, fæddri 1859 á Morastöðum í Kjós. Hjá þeim eru þrjú börn þeirra: Jón Albert 4 ára, fæddur í Saurbæjarsókn, Guðrún 3 ára og Vilborg 2 ára sem báðar eru fæddar í Reykjavíkursókn. Einnig eru á heimilinu Benjamína Sigurjóna Sigfúsdóttir 13 ára, dóttir húsfreyjunnar og Einar Jónsson 72 ára, ættingi sem varð ekkill 1892. Einar lifði á framfæri sonar síns og hefur líklega verið faðir Þorvarðar. Þorvarður mun hafa byrjað búskap í Gróttu árið 1895 en þá gaf Gróttutún ekki af sér nema tæp tvö kýrfóður og var bæði þýft og rýrt. Þorvarður var bæklaður og gekk við hækju en dugnaður hans hefur verið með eindæmum, hann sléttaði túnið og stækkaði og gaf það af sér um 90 hestburði af töðu þegar hann lést árið 1931. Guðrún kona hans lést árið 1929.
Fyrsti vitinn í Gróttu var reistur árið 1897. Kveikt var á vitanum 1. september sama ár. Turninn undir vitanum var 8 metra hár, úr grjóti og steinsteypu. Vitinn var með spegli og snúningsáhaldi, sem tók ljósið af með vissum millibilum. Þessi ljósabúnaður var fundinn upp af Fleischer yfirverkfræðingi í Danmörku.
grotta-12Árið 1912 var skipt um ljósabúnað vitans en upphafleg ljósakróna var notuð. Þá var sett upp blosstæki með dissousgasi. Árið 1918 var aftur skipt um tæki sem voru með gasglóðarnetlum og jókst ljósmagn vitans með því. Vitinn sem nú stendur í Gróttu er mun hærri en gamli vitinn. Kveikt var á honum 11. nóvember 1947. Þorvarður Einarsson bóndi á Gróttu tók við vörslu vitans og gegndi starfinu til dauðadags. Eftir hans dag tók Jón Albert sonur hans við vitavörslunni. Þorvarður varð eigandi að hálfri jörðinni Gróttu 17. maí 1904, sem hann keypti af Runólfi Ólafssyni í Mýrarhúsum. En 16. ágúst árið 1902 selja landssjóði Íslands jörðina Gróttu, þeir Guðmundur Einarsson í Nesi, Sigurður Ólafsson í Nesi, Guðmundur Ólafsson í Nýjabæ og Þórður Jónsson í Ráðagerði. Líklegt er að þarna sé um hálfa Gróttu að ræða því í afsalsbréfi stendur að býlið sé ekki metið til dýrleika og sé jarðarhúsa og kúgildalaust. Í kaupsamningi frá Runólfi Ólafssyni til Þorvarðar Einarssonar kemur fram að Runólfur eignast hálfa Gróttu með afsalsbréfi dagsettu 2 1 . ágúst 1902. Þann 29. apríl 1921 selur og afsalar í hendur landssjóði helming jarðarinnar Gróttu Þorvarður Einarsson og er þá býlið Grótta allt orðið í eigu landssjóðs.
Íbúðarhúsið sem enn stendur á Gróttu byggði Þorvarður 1904. Húsið var ein hæð og ris á hlöðnum kjallara. Byggt af timbri, klætt járni að utan og á þaki. Í kjallaranum er gólfið úr steinsteypu. Seinna var byggt ofan á húsið og er það nú með tveimur þriggja herbergja íbúðum. Gengið er inn í það um bíslag á suðurhlið. Lítill gluggakvistur er á suðurhlið á þaki.
grotta-5Fjögurra kúa fjós og hlaða stóðu skammt frá húsinu sem hvort tveggja var byggt úr timbri og járni. Mjög gestkvæmt var í Gróttu sérstaklega fyrst eftir að vitinn var reistur þar. Í Seltirningabók er þess getið að um 2600 gestir hafi komið í Gróttuvita frá því að hann var reistur og til ársins 1927 en þá var þrjátíu ára afmæli vitans. Eins og að framan greinir tók Jón Albert við vitavörslu að föður sínum látnum. Hann stundaði mest sjóinn en hafði fyrstu árin lítilsháttar búskap. Jón Albert byggði sjóbúð og bætti lendingaraðstöðuna með því að gera bryggju fyrir framan sjóbúðina. Á bryggjunni var braut sem gekk í gegnum sjóbúðina og handspil fyrir ofan sjóbúðina. Við brygguna var pallur sem báturinn var settur á sem síðan rann eftir brautinni, þannig að einn maður gat tekið bátinn upp. Jón Albert hugsaði vel um æðarvarpið í Gróttu og í hans tíð voru yfir hundrað kollur á hreiðrum. Um árabil bjó hann einn í Gróttu. Jón Albert Þorvarðarson drukknaði í róðri 12. júní 1970. Eftir lát hans hefur ekki verið búið í Gróttu.
Árið 1978 fékk Rotarýklúbbur Seltjarnarness sjóbúð Alberts til eignar. Systur Jóns Alberts gáfu Rotarýklúbbnum húsið með þeim skilyrðum að það yrði gert upp, en þá var sjóbúðin komin í niðurníðslu. Suðaustan við sjóbúðina var hjallur og geymslukofi fyrir vestan hana. Þessar tvær byggingar hafa nú verið rifnar. Rótarýmenn hafa gert sjóbúðina upp og nýlega var hún stækkuð til muna. Þeir hafa einnig verið ötulir við að halda fjörum eyjarinnar hreinum.
Seltjarnarnesbær eignaðist Gróttu 8. nóvember 1994. Fyrst var ráðist í að endurgera vitavarðarbæinn að utan og síðan að innan og koma honum í upprunalegt horf, en fjósið, hlaðan og kamar sem stóð þar skammt frá voru rifin. Nýtt hús hefur verið byggt norðan við vitavarðarbæinn sem er fyrirhugað fræðasetur.
Grótta er vel gróið friðland með fjölskrúðugu fuglalífi. Þar er mikið kríuvarp ásamt ótal öðrum fuglategundum. Líklegt er að flestar tegundir fugla sem hafast við á Seltjarnarnesi verpi að einhverjum hluta úti í Gróttu. Þar er einnig talsvert fjölskrúðugur fjörugróður. Frá 1. maí til 1. júlí ár hvert er eyjan alfriðuð og allar mannaferðir um hana óheimilar. Friðunin er til þess að auka fuglavarp í Gróttu en það hefur dregist saman á síðustu árum og þá sérstaklega æðarvarpið.
Nokkuð er um það að fólk virði ekki friðlandið og gangi um eyjuna þegar fuglinn er í hreiðurgerð, sem óhjáhvæmilega hefur í för með sér að fuglinn hrekst í burtu. Það hefur komið fyrir að út í Gróttu hafa komið menn þeirra erinda að tína egg. Þó er svæðið merkt sem friðland og næsta ótrúlegt að fólk skuli ekki virða það.”

Heimild:
-Dagur, 27. janúar 2001, bls. 1-III.

Grótta

Grótta – friðlýsing.