Margir, sem leið eiga framhjá Seltjörn á norðurmörkum Grindavíkur, veita eldri grágrýtissteinum athygli þar sem þeir liggja ofan á yngri hraunum. Í fljóti bragði virðist tilurð þeirra stinga í stúf við öll eðlileg lögmál. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði eftirfarandi í Náttúrufræðinginn um grettistök í nútímahraunum og þ.á.m. björgin við Seltjörn: „Allir kannast við hin svo nefndu grettistök, stórbjörg, sem oft er tildrað ofan á minni steina eins og þau hefðu verið færð þangað af mannahöndum, eða sem liggja á fáguðum klöppum ein síns liðs, stundum á brúnum hárra fjalla. Þjóðtrúin hefur sett þau í samband við Gretti hinn sterka og má vera, að í því felist ævaforn dýrkun orkunnar, og er það naumast framandi fyrir okkar tíma. Hvert mannsbarn veit að um er að ræða björg, sem jöklar hafa borið með sér og orðið hafa eftir, er jökullinn bráðnaði. Það vekur því enga athygli að finna þau á landi, sem jökull hefur gengið yfir, en talsvert er öðru máli að gegna, er þau verða á vegi manns ofan á hraunum, sem runnið hafa löngu eftir að ísöld lauk.
Seltjörn sú, sem hér er um að ræða, er sunnan við Vogastapa og skammt vestan við Grindavíkurveg. Hún er milli grágrýtisklappa í sigdal, sem stefnir norðaustur-suðvestur og fyllir þann hluta hans, sem lægstur er. Eftir lægðinni milli grágrýtisásanna vestur af Seltjörn hefur runnið hraun eftir að ísöld lauk og eftir að sjór hvarf af þessu svæði, en síðla á síðustu ísöld gekk sjór yfir það, eins og sjá má af lábörðu grjóti víðs vegar um Vogastapa. Hraun þetta er komið frá Sandfellshæð, sem er stór dyngja um 5 km vestur af Stapafelli.
Hrauntungan, sem runnið hefur austur eftir áðurnefndum sigdal nær austur í Seltjörn. Skammt vestur af tjörninni liggur dreif af grágrýtisbjörgum ofan á þessu hrauni. Steinar þessir eru í ýmsum stærðum, allt frá sæmilegum „hálfsterk“ upp í björg, sem vart eru minna en 8—10 tonn. Þau liggja ofan á hrauninu og hvergi hef ég séð þess merki að þau hafi sokkið ofan í það, en víða má sjá hraungára (hraunreipi) liggja inn undir steinana og án þess að hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, þótt um stórbjörg sé að ræða. Sum björgin liggja þvert yfir sprungur í hrauninu. Engin merki sjást þess, að grágrýtisbjörgin hafi orðið fyrir hitaáhrifum frá hrauninu. Björg sem þessi eru dreifð í jökulurðinni um allan Vogastapa, en hvernig hafa þau komist ofan á hraunið? Það kostaði mig talsverðar vangaveltur að komast að því sanna hvað þetta varðar, en ég tel það nú liggja fullkomlega ljóst fyrir.
Grágrýtisbjörgin eru ættuð af svæðinu sunnan Vogastapa og skriðjökull hefur skilið þau eftir á jökulhefluðum klöppum, væntanlega ekki langt frá þeim stað, þar sem þau eru nú. Meðan stóð á gosum í Sandfellshæð hefur hraunið náð að renna austur dalinn milli grágrýtisásanna allt austur í Seltjörn. Hraun þetta er dæmigert dyngjuhraun. Það hefur verið þunnfljótandi, heitt og hefur runnið nánast eins og þunn leðja og því mun hraunið þarna ekki þykkt. Hraunið hefur runnið umhverfis grágrýtisbjörgin og undir þau, lyft þeim upp og síðan hafa þau borist með hraun straumnum eins og jakar á vatni. Hraunkvika, sem misst hefur verulegan hluta af því gasi, sem upprunalega var í henni, hlýtur að hafa nokkru hærri eðlisþyngd en storknað hraun enda þótt munur á efnasamsetningu þeirra sé nánast enginn. Hliðstæður eru vatn og ís og sú staðreynd, að storknaðir hraunflekar fljóta á rennandi hrauni. Nánast enginn munur er á samsetningu hraunanna frá Sandfellshæð og grágrýtisins (Jónsson 1972) og hlutfallið milli eðlisþyngdar hins rennandi hraun og grágrýtisbjarganna því væntanlega ekki ósvipað og milli íss og vatns.
Grágrýtið á Suðurnesjum og eins kringum Reykjavík er yfirleitt frauðkennt og eðlisþyngd þess virðist að mestu leyti vera á bilinu 2,66—2,78 og ólivíninnihald um 8—14% (Jónsson 1972).
Hvað grettistökin ofan á nútímahrauni varðar, hef ég fundið þau víðar en við Seltjörn. Eitt slíkt heljarbjarg liggur ofan á hrauni suðaustan við Vogastapa og dálitla dreif af slíkum framandsteinum er að finna norðan í Brúnum, þ. e. utan í dyngjunni miklu, sem er norðan undir Fagradalsfjalli, en frá henni eru Strandar- (Vatnsleysustrandar) hraunin komin. Af ofannefndu má ljóst vera, að þar sem svona björg finnast getur aðeins verið um eitt hraun ofan á jökulurðinni að ræða.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 45.árg. 1975-1976, bls. 205-209 – [HEIMILDARIT; Jónsson, 1972: Grágrýtið, Náttúrufr., 42: 21-30].