Eftirfarandi eru glefsur úr handrituðum minningum Sigurðar Þorlákssonar, trésmiðs í Hafnarfirði.
Sigurður var bróðir Kristmundar í Stakkavík, síðar á Brunnastöðum. Í minningum sínum segir hann m.a. frá uppvextinum, sveitardvöl meðal ókunnugra á Vestfjörðum, vinnumennsku í Herdísarvík á fyrri hluta 20. aldar, verbúðarlífinu þar, upphaf búskapar Kristmundar í Stakkavík, lífsbaráttunni og mannlífinu í Hafnarfirði o.fl. Hér verður getið um dvöl hans í Herdísarvík hjá Þórarni bónda Árnasyni.
Í minningunum kemur fram að faðir Sigurðar var Þorlákur Guðmundsson, fæddur á Eyvindarstöðum á Álftanesi, 16. mars 1842. Móðir Sigurðar var Anna Sigríður Davíðsdóttir frá Bakka í Vatnsdal, fædd 9. júlí 1856. Systkini Sigurðar voru Júlíus (1881), Kristmundur (1883), Anna (1886), Sigríður Rósa (1889), Sigurður Gunnlaugur (1891) og Una Jarþrúður (1896). Ekki er getið um fæðingarár Sigurðar.
….“Kristmundur bróðir minn var mikill áhugamaður fyrir sauðfé. Hann var búinn að eignast fáeinar kindur, en honum þótti ekki gott að hafa þær í bænum. Kaldársel var þá komið í eyði, en fjárhúskofi stóð þar uppi. Hann fékk afnot af Kaldárseli og fór með kindur sínar þangað og hafði þær þar ein 2 til 3 ár. Þetta hlýtur að hafa verið erfitt, að gegna fénu þar, og eiga heima í Hafnarfirði og stunda þar vinnu, og ganga fram og til baka…”
“…Kristmundur var þá vinnumaður í Hvassahrauni, hann fór með mér að Herdísarvík, við fórum þangað gangandi. Þrúða systir mín var þar þá. Við fórum snemma á sunnudagsmorgni, og þegar við komum að Herdíasarvík, fréttum við að verið væri að ferma hana í Strandarkirkju, svo við héldum áfram þangað, og vorum við ferminguna. Það merkilega skeði, að hún þekkti mig, sú eina af mínu fólki, þó var hún aðeins 5 ára þegar ég fór vestur. Ég dvaldi rúman mánuð fyrir sunnan og nú kom að því að fara vestur aftur….”.
“….Ég var hjá foreldrum mínum um veturinn, en það var frekar lítið að gera. Þrúða systir mín var þá vinnukona í Herdísarvík, svo ég tók mig til og fór í heimsókn til hennar. Þetta var á jólaföstunni. Ég fór klukkan 8 um morguninn á stað og ætlaði að fara Grindarskörð yfir fjallið. Ég vissi nokkurn veginn afstöðuna, en hafði aldrei farið þessa leið áður. Ég fór í góðu veðri að heiman, en þegar upp að fjallinu kom, skall á þreifandi bilur, en lygn. Síðan held ég upp á fjallið. Eftir góða stund kem ég að gjótu, sem mér virtist vera gamall eldgígur. Eftir 1 ½ tíma kem ég á sama stað og endurtekur sig þrisvar. Þá sé ég að ég er orðinn villtur, tek mig því til og gref holu í snjóinn með löngum broddstaf, sem ég var með og leggst og ligg þarna eina 4 tíma. Mér leið ekkert illa, nema mér var kalt á fótum, en gat náð skónum af mér og gat haft fæturna í sokkaleggjunum og þá leið mér betur. Ég var vel búinn svo að mér var ekki kalt.
Það var kominn talsverður skafl yfir mig, en ég hafði nóg loft, hafði stöngina til að rétta upp úr skaflinum.
Nú fór ég að brjótast upp úr fönninni, en ekkert vissi ég hvar ég var staddur, eða hvert halda skyldi. Ég taldi að stutt væri til Herdísarvíkur. Þegar upp úr fönninni kom frusu fötin mín, því það voru svo þykk vaðmálsföt, og var mér því erfitt um gang, held samt áfram, en veit ekkert hvert halda skal.
Klukkan 8 um morguninn eftir er ég kominn niður í Lækjarbotna rétt fyrir ofan Hafnarfjörð, þar þekkti ég mig. Svo það er nú skammt heim. Ég var orðinn bæði þreyttur og svangur, búinn að vera sólarhring í túrnum og oftast á labbi. Ekki hafði ég hugmynd um hvar ég hafði farið ofan af fjallinu, að líkindum fyrir austan Grindarskörð, því fjallið er allstaðar svo bratt annars staðar.
Tveimur árum síðar, þegar ég var að smala, rakst ég á staðinn þar sem ég gróf mig í fönnina, fann stafinn, hann hafði brotnað þegar ég var að grafa mig í fönnina. Það var í Brennisteinsfjöllunum, einn eða tvö tíma frá Herdísarvík.
Svona fór um sjóferð þá, en ekki dugði að hætta við ferðina. Eftir jólin bauðst mér samfylgd með manni sem var að fara til Krýsuvíkur og slóst ég í ferð með honum, og fór svo einn þaðan til Herdísarvíkur. Þetta er auðvitað helmingi lengri leið. Nú gekk allt vel, og ég komst til Herdísarvíkur, og var þar nokkra daga.
Síðan varð mér samferða til baka Indriði Guðmundsson, sem var þá vinnumaður þar.
Í Herdísarvík bjó þá Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar, sýslumanns frá Kirkjubæjarklaustri, síðar bóndi í Krýsuvík. Kona Þórarins var Ólaf Sveinsdóttir. Hann spurði mig hvort ég vildi ekki koma til sín vinnumaður í vor. Ég sló til og fór þangað um vorið. Þrúða fór þaðan sama vorið, og fór þá til foreldra okkar. Þarna var margt fé, um 6 til 7 hundruð ær. Það gekk úti allan veturinn. Það var erfitt að smala því á vorin, því bæði var mikil yfirferð, og féð villt. Við vorum tveir við smalamennskuna á vorin. Þetta vor vorum við Indriði saman. Það gekk vel hjá okkur því við vorum samhentir við það. Það var smalað daglega og rekið í rétt, og rúið, og mörkuð lömb, sem ekki var búið að marka í haganum.
Mér þótti skrýtið fyrirkomulag hjá Þórarni, að þegar maður var búinn að hafa mikið fyrir að koma því heim, að hleypa því út úr réttinni, klukkan 10 á kvöldin, það sagði hann að hefði alltaf verið vani hjá sér. “Þetta þykir mér ljótur vani”, sagði ég. “Maður er búinn að hafa það mikið fyrir að koma því heim”. Ég sagði, að mér fynndist sjálfsagt, að hleypa ekki út úr réttinni fyrr en búið væri að rýja það sem væri orðið það fyldið, að hægt væri að taka af því ullina.
Meiningin hjá auminga karlinum var auðvitað að hlífa okkur við of löngum vinnutíma. En þetta var mjög vitlaust fyrirkomulag. “Það er þá best að bæta úr því, úr því að þið óskið eftir því”. Þetta var mjög gott heimili og húsbændurnir ágætis manneskjur.
Á heimilinu voru húsbændurnir, við smalarnir tveir, það er að segja tvo mánuði, hinn tímann einn, og gömul kona, sem Hólmfríður hét. Hún var búin að vera 30 ár vinnukona hjá föður Þórarins, svo þegar hann hætti að búa fór hún til Þórarins, og gaf honum Prófentu sína, það var svo kallað þegar gamalt fólk afhenti, ef það átti eitthvað til, og áttu þá húsbændurnir að sjá fyrir þeim til dauðadags, án þess að borga því kaup. Þetta var dygðugt hjú, og ágætis kerling. Hún hefur verið komin yfir sjötugt þegar ég var þarna. Hún var hjá þeim til dauðadags.
Þórarinn sagði mér, að þegar hún var hjá foreldrum hans, á sínum yngri árum, hefðu maður beðið hennar sér til konu. Áður en hún lofaðist honum, fer hún til sýslumanns, og segir honum frá þessu og spyr hann hvernig honum lítist á þetta. Hann ráðlagði henni að eiga ekkert við þetta. “Auðvitað af því að hann vildi ekki missa hana”, sagði Þórarinn og hún var kyrr og giftist aldrei.
Það var mikið borðað af kjöti í Herdísarvík, vanalega þrisvar á dag. Til miðdags var alltaf kjötsúpa, elduð úr tómri mjólk. Á morgnana var kalt kjöt og hveitibrauð og silungur á vorin og sumrin, aldrei annar fiskur. Á kvöldin brauð, slátur og kjöt. Kjötsúpan var alla daga ársins, jóladaginn eins og aðra daga. Ég varð aldrei leiður á kjötsúpunni, enda var kjötið mjög vel verkað, húsmóðirin sjálf saltaði alltaf kjötið, og tókst það mjög vel.
Það var venja að slátra til heimilisins 75 til 100 lömbum á haustin, svo það mátti heita sæmilegar byrðir handa fjórum manneskjum. Fimmti maðurinn var tvo mánuði. Um vorið sagði ég einhvern tímann við Þórarinn að mér finndist lélegt að umgangast svona margt fé og eiga enga kind sjálfur.
“Já, það er nú satt”, segir hann og fer og nær í kind, og segir: “Þessa máttu eiga”. Ég var ekkert sérlega hrifin af henni, og segi: “Ég hefði nú helst viljað velja mér hana sjálfur”.
“Jæja, þá skalt þú gera það”. Ég sá að hann móðgaðist við mig aumingja karlinn, hann hafði nefnilega mjög lítið vit á kindum að mér fannst, og hefur náttúrlega valið mér það besta sem honum fannst.
Eftir að búið var að smala og rýja um vorið, fór Indriði og var ég þá einn eftir með gamla fólkinu. Þetta var nú dálítið einmanalegt, því maður sá ekki mann utan heimilisfólið, svo mánuðum skipti. Trjáreki var þarna töluverður og var það notað til eldsneytis, að mestu leiti, og varð að reiða það heim af fjörunum, og saga það og höggva í eldinn. Svo byrjaði búskapurinn, það voru tvö tún, heimatúnið, og svo nefnt Gerði, þar sem fjárhúsin voru, þau gáfu af sér um 200 hesta af heyi, engar útengjar voru.
Á bænum voru 2 kýr og 2 hestar, 6 til 7 hundruð ær, vanalega sett á 100 lömb á haustinn. Féð gekk úti allan veturinn, og var aldrei gefin heytugga. Mest voru tekin á gjöf 10 lömb, og þá lítin tíma.
Um haustið kom Kristmundur bróðir í heimsókn til mín. Hann var þá búinn að vera nokkur ár vinnumaður norður í Húnavatnssýslu, og átti þar margt fé og tvo hesta. Hann hafði fargað fénu og bar sig nú aumlega, að eiga enga kind. Hann sagðist eiga mikið af peningum. Hann sagðist vilja fara til Manitopa, og vildi fá mig með sér. “Ég á nóga peninga fyrir okkur báða”, sagði hann, en ég var ekkert hrifinn af því. Hann langaði til að vera nálægt mér.
Næsti bær við Herdísarvík er Stakkavík. Þar bjó ekkja með tveimur börnum sínum uppkomnum, Láru og Gísla. Hún hét Valgerður Scheving. Hún hafði lítið bú, eitthvað um 30 ær, 1 hest og 1 kú. Sonur hennar var mjög duglegur maður, en lítið hneigður fyrir búskap, því hugurinn hneigðist að sjónum.
Nú vildi Valgerður ná sér í vinnumann svo Kristmundur réði sig fyrir næsta ár. Um veturinn réri hann í Grindavík. Hann kom til mín áður en hann fór í verið. Hann sagði: “Mikið leiðist mér að eiga enga kind, geturðu ekki útvegað mér eina rollu hjá Þórarni”? Það gerði ég, og býst við að honum hafi liðið betur á eftir. Svo bað hann mig um að geyma sparisjóðsbókina sína, meðan hann væri í verinu, “en ef ég kem ekki aftur, máttu ega hana”, sagði hann.
Um lokin kom hann, og fór þá að Stakkavík. Um haustið brá hann sér austur í Landssveit og keypti sér 50 veturgamlar ær, og 10 fyrir mig. Það þótti nú nokkuð mikið að vinnumaður skyldi hafa 50 ær og hest, eða hérumbil helmingi fleira en húsbændurnir.
Næsta ár giftist hann Láru, dóttur Valgerðar. Þá var komin í eyði næsti bær, Hlíð. Tók hann hana á leigu og nitjaði báðar jarðirnar, þar var nefnilega töluvert stórt tún, og nokkrar útengjar, en í Stakkavík var mjög lítið tún. Honum búnaðist þarna mjög vel, og fjáreignin komst upp í 6 hundruð síðar. Það var töluverð silungsveiði í vatninu, en það var mjög erfitt að búa þarna.
Um þetta leyti komu menn að máli við Þórarinn, sem höfðu hug á að gera út skip til sjóróðra í Herdísarvík. Áður hafði verið gert út þaðan fyrir mörgum árum. Hann var nú ekkert hrifinn af því, hann sagði mér að það hefði eiginlega engin heimilisfriður verið, þegar útgerðin var þar.
En hann gekkst inn á það, að leyfa þeim uppsátur fyrir hálfan hlut af skipi, ef þeir gengust inn á það, ef þeir ættu erindi við sig, þá kæmi ekki nema einn maður af skipi, og helst sami maðurinn. Nú var hafist handa að byggja verbúðirnar, þær voru byggðar milli túns og Gerðis, veggir úr torfi og grjóti, með torf þaki, gluggi á suðurstafni, fyrir ofan dyrnar, lengd 12 álnir og breidd 6 álnir. Rúm voru 4 öðru megin meðfram veggjum, og hinum megin 3. Þetta var pláss fyrir 13 menn og sváfu tveir í rúmmi, nema formaðurinn einn.
Þarna voru 6 búðir, sambyggðar með þykkum grjótvegg á milli, í öllum búðunum voru moldargólf, þar skammt frá var og salthús, það var timburhús.
Það var byrjað að róa þarna veturinn 1914. Það voru 6 tólfróin skip með 13 manna áhöfn, svo það fjölgaði heldur betur mannskapnum í Herdísarvík um veturinn. Átroðningur var ekki mikill af þessum mönnum, enda fyrirfram ákveðið að svo yrði ekki.
Næsta vor fór ég í kaupavinnu að Brúsastöðum í Þingvallasveit….”.
“Næsta vetur reri ég í Herdísarvík hjá Gísla í Stakkavík. Við vorum 13 á skipinu. Það var skipt á 16 staði hver maður lagði sér til 2 net, en útgerðin stjóra og stjórafæri og ból og bólfæri, og tók einn hlut fyrir það, svo var bátshlutur og formannshlutur.
Mat þurfti maður að hafa til vertíðarinnar. Brauðin, sem voru rúgbrauð, hengdum við upp í salthúsinu og geymdust þau furðu vel, smjör og kæfu geymdum við í skrínum sem hafðar voru fyrir ofan mann í kojunum. Prímus var til að hita á kaffi og svo suðum við stundum fisk.
Í Herdísarvík var fremur góð lending, nema í suðaustanátt. Ef brim var, seiluðum við fiskinn útá, fiskurinn var dreginn upp á svonefndar seilarólar og dreginn svo að landi, síðan þræddur á byrgðarólar í hæfilega bagga og borinn á bakinu, á þann stað sem gert var að aflanum.
Það var töluvert langt hjá okkur, um tíu mínútna gangur, svo var aflanum skipt, í svonefnd köst, voru tveir menn um kastið og gerðu þeir svo að í félagi. Skipin voru sett upp með gangspili sem var efst á kambinum, það var trésílvalningur með járnbolta innan í sem lék í járnlegu, spækur voru fjórar sem gengu inn í sívalninginn, í brjósthæð, síðan var gengið í kring, bandið, sem fest var í bátinn, vafðist um sívalninginn þar til báturinn var kominn nógu hátt upp. Tveir menn studdu bátinn meðan hann var settur upp, og einn maður lagði fyrir, sem svo var kallað, hvalbein og tréhlunna. Það var mikið léttara að setja, ef kjölurinn skarst ekki niður í mölina. Það var eingöngu róið með net, mig minnir að við fengjum 300 fiska í hlut yfir vertíðina….”..
-Úr handritaðri bók Sigurðar, “Gamlar minningar” – Sigurður Þorláksson, trésmiður frá Hafnarfirði – útgefið 1980.