Færslur

Sigvaldi Kaldalóns

Eftirfarandi ljóð Guðmundar E. Geirdals var tileinkað Sigvalda Kaldalóns, tónskáldi, en eins og kunnugt er bjó Sigvaldi í Grindavík. Ljóðið heitir “Gleymdu ekki að hlusta…” og birtist í ljóðabók Guðmundar “Lindir niða” er gefin var út árið 1951. Ljóðið minnir Grindvíkinga og aðra á hversu mikilvægt er að kunna að hlusta á þögnina, umhverfið og njóta þess “ævintýralands”, sem þeir eiga.

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

Komir þú í Grindavík um glæsta júnínótt,
gleymdu ekki að hlusta þegar allt er kyrrt og hljótt.

“Maðurinn í hrauninu” hörpu sína slær,
hreinni tónum enginn úr strengjunum nær.

Þér finnst hraunið lifna og ljóma slá á sand,
litla víkin breytist í ævintýraland.

Þarna ríkir ástin og æskuvonin hlær.
Úthafið og byggðin þér færist hjarta nær.

Berg og hólar opnast og álfar fara á kreik,
þeir iðka faldafeykinn við hörpuslagans leik.

Strönd

Strönd.

Hafgúur á ströndinni stíga léttan dans,
stefna brúnaljósum í áttina til hans.

Fögur er sú hönd, sem þér opnar æðri svið
og eyrað næmt, sem hlerar hinn dulda strengjaklið.

Það hjarta er milt og göfugt, sem gengur list á hönd
og gullnar perlur finnur á þagnarinnar strönd.

Mundu að vaka og hlusta, þó að morgunn færist nær,
því “maðurinn í hrauninu” gígju sína slær.”

Sundhnúkur

Við Sundhnúk.

Mikilvægt er fyrir Grindvíkinga, líkt og alla aðra, að kunna að hlusta. Sagt er að virk hlustun sé góð leið til að láta öðrum líða betur – og verða sjálf/ur fróðari á eftir. Það er því til mikils að vinna – án nokkurs tilkostnaðar.

Vilji til að hlusta felur í sér virðingu og hvatningu. Hlustun er lykill að góðum samskiptum því “maður hlustar á þann sem maður virðir”. Það er slæmur síður að grípa fram í fyrir fólki, en slíkt virðist því miður of algengt á meðal landans. Sá sem hlustar á síður á hættu að missa af gullkornum.

Sjá minnisathöfn um Sigvalda í Grindavík HÉR.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns.

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarði um lækninn og tónskáldið Sigvalda Kaldalóns var vígt 10. nóvember 1996 en það er staðsett við Kvennó. Af því tilefni flutti Gunnlaugur A. Jónsson, barnabarn Sigvalda, ávarp í Kvenfélagshúsinu:

Grindavík

Afhjúpun minnisvarðans.

Góðir áheyrendur!
Fyrir hönd Kaldalónsfjölskyldunnar vil ég af heilum hug þakka þá ræktarsemi sem þið Grindvíkingar sýnið minningu afa míns, Sigvalda S. Kaldalóns, læknis og tónskálds, með því að reisa honum fagran minnisvarða og boða af því tilefni í dag til þessarar ánægjulegu samkomu nú á 50. ártíð Sigvalda.
Þessi ræktarsemi ykkar og trúfesti við minningu Sigvalda Kaldalóns er í fullu samræmi við hlýhug Grindvíkinga og velvild í hans garð alveg frá byrjun, og raunar í takt við aðdragandann að því að hann settist að hér í Grindavík þegar hann var skipaður héraðslæknir í Keflavíkurhéraði árið 1929 í óþökk Læknafélagsins. Sú saga er kunnari en svo að hana þurfi að rifja upp.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi ásamt Einari Dagbjartssyni.

En óhætt er að segja að Grindvíkingar hafi tekið hinum nýskipaða lækni opnum örmum með Einar í Garðhúsum í broddi fylkingar sem tók Sigvalda og fjölskyldu hans inn á heimili sitt meðan verið var að reisa honum læknisbústað hér í Grindavík.

Það fer vel á því að minnisvarðinn um Sigvalda skuli reistur hér við Kvenfélagshúsið því með því félagi starfaði Sigvaldi mikið enda lét hann jafnan mikið til sín taka á sviði menningarmála í Grindavík og hefur Einar Einarsson skólastjóri í Grindavík komist þannig að orði að ár Sigvalda hér hafi verið eins og „menningarleg vígsla í héraðinu” og að áhrifin af veru hans hér verði aldrei þurrkuð út, og víst er um það að lögin “Suðurnesjamenn” og “Góðan daginn Grindvíkingur” munu seint gleymast Suðurnesjamönnum.

Í Grindavík bjuggu þau hjónin Sigvaldi og Margrete Kaldalóns í fimmtán ár og voru árin hér að mörgu leyti frjóustu ár Sigvalda á tónlistarsviðinu þrátt fyrir að hann ætti lengst af við heilsuleysi að stríða. Margir hafa orðið til að vitna um þá miklu gestrisni sem einkenndi menningarheimili þeirra hjóna.
Margir af kunnustu listamönnum þessarar þjóðar dvöldu á heimili þeirra lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna Gunnlaug Scheving listmálara, Stein Steinarr skáld og Ríkharð Jónsson myndhöggvara að ógleymdum bróður Sigvalda, Eggerti Stefánssyni rithöfundi og söngvara.

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarðinn.

Í sumum tilfellum var dvöl þessara kunnu listamanna á heimili Sigvalda ekki aðeins lyftistöng fyrir menningarlíf í Grindavík heldur fyrir alla þjóðina. Þannig hafa Grindavíkurár Gunnlaugs Scheving hlotið þann sess að vera sérstakur kapítuli í sögu íslenskrar myndlistar, eins konar óður til íslenskra sjómanna með svipuðum hætti og lag Sigvalda Kaldalóns „Suðurnesjamenn”.
Móðir mín, Selma Kaldalóns, hefur lýst því hvernig faðir hennar samdi lög sín: “Hann samdi þegar hann var í stemmningu,” hefur hún sagt og bætir við: “Hann samdi stundum úti á göngu, raulaði þá fyrir sér lagstúf og spilaði strax, þegar hann kom heim. Oft samdi hann líka seint á kvöldin eða á nóttunni. Það kom líka fyrir, að hann reis frá matborðinu og gekk að hljóðfærinu til þess að leika það, sem þá sótti á hann. Hann hafði þörf fyrir að láta aðra njóta með sér og stundum fór hann út á götu og mætti kannski sjómanni, sem var að koma upp úr skipi, og sagði við hann: – Komdu snöggvast inn með mér, ég ætla að spila fyrir þig lag, – það er nýtt lag.”
Sigvaldi varð snemma mjög heilsuveill, og þegar þar við bættist að hann gat aðeins lagt stund á tónsmíðar í hjáverkum frá annasömum læknisstörfum er með ólíkindum hve miklu hann fékk áorkað. Það er þó ekki magn tónsmíðanna sem mun halda nafni hans á lofti um ókomin ár heldur sú staðreynd að fjölmörg laga hans urðu svo að segja á svipstundu þjóðareign og eru það enn þann dag í dag.
Jóhanns skáld úr Kötlum komst þannig að orði um tónlist Sigvalda í minningargrein:

Grindavík

Kvenfélagshúsið.

„Vart mun finnast sú sál á Íslandi, að hún hafi ekki einhverju sinni orðið snortin af söngvum hans, vart sú rödd, sem ekki hefur reynt að taka undir þá. Eins og mild kveðja vorboðans hafa þeir borizt efst upp í dali, yzt út á nes, bóndinn hefur raulað þá yfir fé, sjómaðurinn á vaktinni, heimasætan á meðan hún beið unnustan síns. Þetta eru tónar alþýðunnar í upphafningu norræns blóma, yljaðir af hjartaglóð snillingsins. Þetta eru tónar, sem allir skilja og eiga og þess vegna geta þeir ekki dáið.”
Það var ekki ætlun mín að rekja hér æviferil afa míns, Sigvalda Kaldalóns, heldur fyrst og fremst að þakka ykkur Grindvíkingum fyrir þá ræktarsemi sem þeir hafa nú í dag með svo afgerandi hætti sýnt minningu Sigvalda Kaldalóns. Alveg sérstaklega vil ég þakka menningarmálanefnd Grindavíkur fyrir hennar þátt í þessu máli og ánægjuleg kynni af nefndarmönnum meðan á undirbúningi þessarar minningarhátíðar hefur staðið.
Af kynnum mínum af því ágæta fólki er ég þess fullviss að menningarmálin eru í góðum höndum hér í Grindavík sem fyrr.
Enn á ný: Kærar þakkir og til hamingju með minnisvarðann.

Hér má sjá myndband frá athöfninni.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi og Karen Margrethe.

Árið 1929 fluttist til Grindavíkur skáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns, með komu hans þurftu grindavíkingar ekki lengur að sækja læknisþjónustu til Hafnarfjarðar eða Keflavíkur.
Hagur bæjarbúa af Sigvalda var mikill, hann hafði mikil áhrif á félags- og mennngarlífið. Leið Sigvalda til Grindavíkur var ekki auðveld. Þegar staða héraðslæknis í Keflavík losnaði árið 1929 upphófst mikið átakamál milli Læknafélagsins og Jónasar frá Hriflu sem þá var dómsmála- og heilbrigðisráðherra.
Læknafélagið sá til þess að einungis ein umsókn bærist um þetta starf en fyrir tilstilli manna í ráðuneytinu og hugsanalega Jónasar barst á borð umsókn frá Sigvalda Kaldalóns. Var Sigvaldi ráðinn til embættisins en Læknafélagið sem var á móti ráðningunni beitti ýmsum brögðum meðal annars að sjá til þess að enginn í Keflavík myndi hýsa hann.
Þrátt fyrir mótlætið þáði Sigvaldi starfið og sá Jónas frá Hriflu um að hann fengi húsaskjól í Grindavík og að bæjarbúar myndu reisa honum bústað sem þeir stóðu við.

Grindavík

Læknishúsið – Hamraborg, Vesturbraut 4. Byggt 1930. Teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Sigvaldi varð vinsæll í Grindavík, átti hann það til að kalla til sín fólk af götunni bara til þess eins að spila fyrir það og gestagangur einkenndi heimilislíf læknishjónanna, þess má geta að nokkrar þjóðþekktir einstaklingar bjuggu hjá þeim hjónum um tíma. Gunnlaugur Scheving listmálari bjó hjá þeim í rúmlega eitt ár og þar urðu til hans merkustu sjávarmyndir. Halldór Laxness bjó hjá þeim hjónum meðan hann vann að Sölku Völku. Steinn Steinar fékk einnig að njóta góðs af gestrisni læknishjónanna og vann við sín hugarefni.
Sigvaldi missti heilsuna mjög skyndilega sumarið 1945 og ári seinna fluttu þau hjón aftur til æskustöðva hans. Þá var starfs- og tónlistardögum hans lokið og einu ári síðar lést hann.
Árið 2004 var stofnað í Grindavík klúbbur til heiðurs Sigvalda Kaldalóns, klúbburinn hefur tvíþætt hlutverk annað er að vera bakhjarl knattspyrnudeilarinnar og hitt er að halda í heiðri verkum Sigvalda Kaldalóns með því að halda tónleika og menningartengda atburði.

Heimild:
-http://www.grindavik.is/listaverk
-http://grindavik.is/felogogsamtok og Jón Þ.Þór 1996,bls.315-320.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi. Læknishúsið er fyrir miðri mynd.