Færslur

Festarfjall

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur má m.a. sjá pistil eftir ritstjórann, Óskar Sævarsson, um Silfru og Festarfjall. Þar segir:

Sifra

Silfurgjá.

“Silfurgjá heitir gjá ein í Grindavík, skammt frá Járngerðarstöðum. Gjáin ber nafn af kistum tveim er þar eiga að vera geymdar.
Skulu kistur þessar vera úr skíru silfri og að öllum líkindum ekki alveg tómar af öðru verðmæti. Kisturnar eru yfirskyggðar og ósýnilegar, en þær losna og koma í ljós ef bræður tveir frá Járngerðarstöðum sem báðir heita sama nafni ganga í gjánna, en samtímis verður dóttir bóndans á Hrauni, sem er austastaði bær í Þórkötlustaðahverfi, að ganga undir festina í Festarfjalli.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall heitir fjallið sem gengur þverhnýpt í sjó fram milli Hrauns og Ísólfsskála. “Festin” sem fjallið dregur nafn sitt af er í raun basaltgangur sem liggur í gegnum fjallið niður í sjó, en þó gegnt fyrir festarendann um fjöru.

Festarfjall

“Festin” í Festarfjalli.

Festin á í raun réttri að vera úr skíru silfri, þótt hún sé svona ásýndum og losnar hún ef stúlkan gengur undir hana á sömu stundu og piltarnir hverfa í gjána.
En sá galli er þó á gjöf Njarðar að þessi bóndadóttir frá Hrauni verður að heita sama nafni og tröllskessa sú sem kastaði festinni fram af fjallinu. En enginn veit hvað sú skessa hét eða heitir eða hvort hún er lífs eða liðin. Á þeirri stundur sem tröllskessan kastaði festinni fram af fjallinu hét þar Siglubergsháls sem fjallið er, en bergið Sigluberg þar sem festin liggur.

Festarfjall

“Festin” í Festarfjalli neðst.

Hér er þá komin hin forna sögn sem gengið hefur manna á millum í árhundruð hér í Grindavík. Staðirnir og örnefnin sem fram koma eru sem greypt í mannlífið og er skemmst frá því að segja að t.d. félgasheimlið okkar hét Festi, nokkur fyrirtæki hafa borið nöfn eins og Silfurhöllin, Festi h/f og Silfurberg sem voru útgerðarfyrirtæki.
Í gamali kálfskinnsbók (að öllum líkindum að finna á Írlandi) frá anno 400 post Cristum natum ritast; að Ísland hafi verið byggt Írum er hafi hingað út farið á 8 skipum og verið hér á landinu í 200 ár.

Festarhringur

Festarhringur.

Eftir það er mælt að niðjar þeirra er byggð áttu á Írlandi hafi hingað komið og séð hér yfir 50 elda og var þá útdautt hið gamla fólk (nefnt Troll í hinu gamla handriti).
Þar komur og fram örnefnið Siglubergsháls; ritast “Og við Sigubergsháls sem skuli hafa verið í Grindavík” skyldu ískir hafa fest skipum sínum, þá hingað komu og segja gamlir menn að um stórstraumsfjöru megi þar sjá járnhringa fasta í sjávarklöppum.”

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2022 – Silfra og Festarfjall, Óskar Sævarsson, bls. 103.

Silfra

Í Silfurgjá.

Silfurgjá

Utan við Vatnsstæðið á Járngerðarstöðum í Grindavík er gjá; Silfurgjá. Hún var jafnan nefnd Silfra af heimamönnum. Um þessa gjá, sem er ein af nokkrum, s.s. Stamphólsgjá, Bjarnagjá og Hrafnagjá, á þessu svæði, hefur spunnist eftirfarandi þjóðsaga:

Silfra norðvestan Vatnsstæðisins

“Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.”

Silfra á loftmynd - norðvestan Vatnsstæðisins

Hér er um tvenns konar sagnakenndan fróðleik að ræða; annars vegar er vatnsfyllta gjáin Silfra enn vel sýnileg norðvestan við Vatnsstæðið á Járngerðarstöðum og hins vegar hefur gjá sú er Gjáhús voru jafnan kennd við, austan Vatnsstæðisins, verið fyllt upp “svo nú eru þar grónar brekkur”. Gjá sú, sem hér um ræðir, var fyrrum skammt vestan við Garðshorn, sem nú stendur við Kirkjustíg í Grindavík, þ.e. suðvestan við gömlu kirkjuna, sem endurreist var frá Stað og síðar varð að leikskóla. Gamlir, en síungir Grindvíkingar (ennlifandi) muna gjá þessa. Hún var tiltölulega stutt og afgirt, enda bæði hyldjúp og með háum bergveggjum. Kolsvart, en tært, vatnið, endurpeglaði sérhvert andlit er niður í hana leit. Innfæddir stóðu jafnan í þeirri trú að þarna væri Silfra. Gjáin var hættuleg, en nálægð kirkjunnar endurspeglaðist í girðingunni umhverfis. Eftir stífa austanátt mátti  gjarnan finna rauðan fimmhundruðkarl eða jafnvel fjólubláan þúsundkarl fastan í henni. Það þóttu börnunum stórir “karlar” í á daga, löngu fyrir daga kvótakónganna.
Börnin voru jafnan vöruð við Silfru. Sagt var að ef þau færu of nærri gjánni gæti Gjárskrímslið, sem byggi þar undirniðri, náð til þeirra. Líklega var þetta bara sagt til að fæla þau frá gjánni – enda full ástæða til. Þar bar, sem félli í gjánna, átti ekki afturkvæmt.
Skömmu eftir 1960 var “Silfra” fyllt af möl. Fljólega greri yfir og gras óx á hvyrfli hennar. Gjárhúsgjárinnar skammt sunnar biðu sömu örlög. Brunnar við gömlu húsin voru og fyllti upp – og hurfu. Þetta var gert til að koma í veg fyrir hugsanleg slys á börnum – skiljanlega.
Silfurgjá sú sem er norðvestan við Vatnsstæðið á Járngerðarstöðum er hluti af stærra sprungusvæði. Hrafnagjá og Bjarnagjá suðvestan við Gerðavallabrunna, jafnvel Grænabergsgjá allnokkru vestar, eru hluti af sama sprungusvæðinu. Þarna eru skýr flekaskil Atlantshafshryggjarins er skilja Ameríkufleka jarðskorpunnar frá Evrópuflekanum. Vestanverð Grindavík er á austanverðum flekaskilunum. Íbúarnir fyrrum vissu af þessu. Þeir byggðu sé lítil hús og þá jafnan á öðrum hvorum sprungubarminum. Núverandi íbúar byggja sér stærri hús, jafnvel beggja vegna gjá. Þeir mega eiga von á að jafnvel sitt hvor hjónarúmshlutinn endi með tíð og tíma á Bjarnagjá og Hrafnagjá suðvestan Gerðisvallabrunnasitthvorum heimsálfaflekanum. Þá er og líklegt að uppfylltar gjárnar rísi upp einn slæman veðurdag við óhagstæð skilyrði og krefjist þess, sem þeim bar m.v. hinar þjóðsögulegu forsendur. Allir geta þó andað léttar; það er ekki víst að það gerist í dag eða á morgun – það getur alveg eins gerst í næstu viku.
Í dag er Silfra (Silfurgjá) skammt suðsuðvestan við götuna Norðurvör. Um hana, líkt og aðrar gjár við Grindavík, flæðir ferskvatn. Gjáin er vinsæll köfunarstaður froskafara, en sjá hængur er á að ferskvatnsstraumurinn í gjánni vill ógjarnan sleppa þeim sem hann ásælist. Enn þann dag í dag eru álög þjóðsögunnar því virk áhrínisorð – þótt á annan veg megi virðast. Áður var varnaðurinn falinn í silfurkistu og varnaði til handa þeim er hana ásældist. Í dag er varnaðurinn fólginn í því að ásælast ekki silfurtært vatn Silfurgjárinnar – því þá mun illa fara. Grindvíkingar og nærsveitingunar – GÆTIÐ VARÚÐAR þar sem Silfra er annars vegar, þá mun ykkur farnast vel!

Heimildir m.a.:
-Rauðskinna I, bls. 41
-Óbirt “Grindavíkursaga”

Silfra

Silfurgjá.