Færslur

Sjálfkvíar

Gerð var leit að Sjálfkvíum á Kjalarnesi.
Í örnefnalýsingu fyrir Esjuberg segir frá því að; “einu sinni endur fyrir löngu stálu tveir strákar messuklæðum úr Móakirkju og skáru þau niður í skóna sína. Þeir voru síðan hengdir í Sjálfkvíum í Móanesi og dysjaðir þar allri alþýðu til viðvörunar. Sjálfkvíar eru klettar niður við sjó [skammt neðan við núverandi þjóðveg]. Dálítið bil er á milli þeirra, og fellur sjór þar inn um flóð.”
SjálfkvíarStröndin á þessu svæði er við skorin og því erfitt að staðsetja Sjálfkvíarnar utan við Leiðhamra. Þá kom bargvættur skyndilega til sögunnar, Sigurður Einarsson, ábúandi á svæðinu. Hann sagðist vel þekkja til staðarins. Hann væri skammt vinstra megin við yfirgefinn sumarbústað er verið væri að endurbyggja ofan við ströndina. Um væri að ræða klof eða klettaskorning, sem tré hefði verið látið yfir og staðurinn notaður sem aftökustaður – að því er heimildir herma.
Eftir þessa lýsingu var auðvelt að staðsetja Sjálfkvíar. Þær eru ómerktar líkt og önnur merkisörnefni á Kjalarnesi.
Heitið Sjálfkvíar er þekkt víðar á Suðvesturlandi, t.d. í Leirunni við Garð og Innri-Hólm við Akranes og þá ekki alltaf í sömu merkingu orðsins. “Svo virðist sem lífsviðurværi fólksins í Leirunni hafi að langmestu leyti verið sótt til sjávar, en fátt verið af skepnum. Sel frá bæjunum voru engin, enda kannski heiðarlandinu ekki fyrir að fara. Skepnuhaldið fór því nær eingöngu fram við bæina, fjöruna og næsta nágrenni.
Á Leirunni mátti hafa sauðfé með Innri-Hólmurnákvæmri aðgæslu fyrir sjó. Misstu bændur  oft fé sitt í sjóinn, því fyrir utan Hólm og innan Gufuskála er bás, sem Sjálfkvíar heita, er fé vildi oft flæða, en ómögulegt að bjarga, því þverhnýptir klettar eru fyrir ofan.” Hér eru Sjálfkvíar notaðar í merkingu “sjálfhelda”.
Innri-Hólmur var einnig nefndur Ásólfshólmur. Þar bjó fyrstur írskur maður, Þormóður Bersason. Hann byggði líklega kirkju á staðnum. Árið 1096, þegar tíundarlögin voru sett, var þar kirkja. Illugi rauði, sem bjó á Hofsstöðum í Hálsasveit, skipti á búi, fé og konu við bóndann að Innra-Hólmi. Þetta féll konu hans, Sigríði svo illa, að hún hengdi sig í hofinu. Konan, sem hann fékk í skiptum, entist ekki lengi og hann kvæntist Þurðíði, systur Harðar Grímkelssonar, sem varð góður vinur mágs síns framan af eða þar til Illuga fékk nóg af yfirgangi Harðar. Eitt sinn lenti Hörður við 23. mann í Sjálfkvíum í landi Illuga og smöluðu Akrafjallið. Illugi safnaði liði og barðist við Hólmverja á meðan þeir slátruðu fénu og fluttu á skip. Svo sagði a.m.k. í Harðar sögu og Hólmverja, 28. kafla.
Frábært veður. Gangan tók 10. mín.

Leiðhamrar

Kort af svæðinu frá 1903.