Færslur

Brim

Eftirfarandi umfjöllun um hæð sjávarborðs við strendur Íslands birtist í Náttúrufræðingnum 1947 og var fyrri greinin af tveimur um Landnám Ingólfs. Lýsir hún hvernig sjórinn hefur verið að brjóta af landinu og jafnframt hvernig það hefur smám saman verið að lækka. Af því leiðir að ýmsar fornar minjar, sem upphaflega voru niður við ströndina, eru nú horfnar. Skýrir það m.a. hvers vegna ekki hafa fundist fleiri fornmannagrafir á svæðinu en raun ber vitni, auk þess sem allflestar elstu landnámsminjarnar má telja horfnar með öllu.

Hæð sjávarborðs við strendur Íslands
Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á hnettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til.
En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sums staðar að síga, en rís á öðrum stöðum. En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar.
Selvogsviti gamliEn um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér. Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.

Landnám Ingólfs
Verður nú byrjað á landnámi Ingólís austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölf’usá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár.
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorláksliöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925). Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.

SELVOGUR
NesEngin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.
Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).
Strandarkirkja tilurdVestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð.
Að minnsta kosti er óhklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
FjaraSelvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta fjárborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna). Í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.

GRINDAVÍK
Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkur-hreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó. Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi.

ThorkotlustaðahverfiSvo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt hann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 18411), að mikill vatnsskortur sé á Ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á Ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.
Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.

StadarvorJarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin”. Vera má, að fleira kunni að hafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu. En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er hétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,” segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur.

JarngerdarstadirHann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,” en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi”. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið allgott beitiland, ef ekki líka slægjuland.”

KengurLoks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.” Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
FornavorUm hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tilheyra. En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.”
Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru. Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925.

StrondinÍ því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau. Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness, og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.”

Heimild:
-Ólafur við Faxafen; Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Landnám Ingólfs, Náttúrufræðingurinn 17. árg., 1. tbl. 01.04.1947, bls. 41-44.

Grindavíkurbrim

Grindavíkurbrim.