Færslur

Skálafell

Ábending hafði komið um hleðslu austan við gíginn á Skálafelli úti á Reykjanesi.

Skálafell

Skálafell.

Frá rótum gígsins suðaustan megin eru um 20 m að jarðfalli og hleðslan er austast í því, upp undir brún, fremur vönduð ca 2×2 m, einhvers konar vaktstaður. Önnur grjóthlaðin tótt, hringlaga, ætti að vera austar í hrauninu. Ætlunin er að leita að og skoða þessar minjar.
Gengið var frá borholusvæði, sem slóði liggur að skammt suðaustan við Gunnuhver. Skálafellsgígurinn blasti við í norðvestri. Haldið var upp melana á milli hraunhóla í átt að gígnum. Austan við gíginn sást nefnd hrauntröð. Liggur hún til austurs frá gígnum, áleiðis að miklu misgengi nokkru austar. Fremst er allnokkurt grunnt jarðfall. Austast í því er hleðslan.

Skálafell

Skálafell – byrgi.

Svo virðist sem þetta geti verið skjól refaskyttu. Ef staðið er við skjólið og horft til suðurs má sjá svo til allt ofanvert Krossavíkurbjargið og gróðursvæðið þar. Þegar gengið var þar s.l. vor, frá litla vitanum á Tánni áleiðis að Skálafelli, var komið að a.m.k. þremur merktum grenjum. Líklega tengist skjól þetta grenjavinnslunni.
Gullkollurinn teigði sig upp úr sandinum og reyndi að baða sig í sólskininu.

Gengið var upp á gígbarminn, að Skálabarmshellisopinu. Við opið er skrifað orðið “Örelda”, “Grelda” eða eitthvað álíka, sem upplýsingar vantar enn um. Áletrunin er í steypu, sem mökuð hefur verið á klöppina. Gæti verið frá tímum vitabygginganna á Valahnúkum, á Vatnsfelli (Bæjarfelli) eða á Tánni.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Hugað var að hringlaga hleðslunni, sem vera átti austar í hrauninu, en hún bar ekki fyrir augu að þessu sinni. Farið verður aftur um svæðið við hentugleika og þá skoðað svæðið með hrauntröðinni, misgengið og yfir að Háleyjarbungu.
Í bakaleiðinni var litið á tóftir útihúsa, grunn húss og garða við Gunnuhver, þar sem Hoyer hafði bú, stundaði ræktun og gerði m.a. blómapotta úr leir, á fyrri hluta 20. aldar (sjá í annarri FERLIRslýsingu).
Frábært veður – sól og lygna. Gangan tók 34 mín.

Skálafell

Gígur Skálafells – flugmynd.

Skálafell
Leitað var að Varma í Skálafelli, vestustu dyngju Reykjanesskagans (78 m.y.s.). FERLIR hafði áður skoðað Skálabarmshellir, sem utan í efsta gíg fellsins.
Fara þarf niður í hellinn á bandi því hann er um 5 metra djúpur – til að byrja með. Í allt er hellirinn um 50 metra langur og um 15-17 metra djúpur, frá brún og þar sem hann endar í sandi. Bratti rásarinnar er svipuð og á barmi gígsins utanverðum. Þegar staðið er uppi á hinum formfagra gíg Skálafells má sjá fallegar hrauntraðir til austurs og suðvesturs. Í vestri er gígskál. Ef gengið er til vesturs niður hana í átt að Valbjargargjá (misgengi) má sjá opið á Varma – ef rétt er gengið. Það lítur ekki mikið yfir sér – 2 til 3 m2 að stærð. Í tæplegu frosti, eins og nú var, sést gufa koma upp um opið, líkt og nokkur smáop önnur á leiðinni.
Skálafell er sennilega hluti af lengri gossprungu, líkt og flest gos á Reykjanesskaganum. Hreiðrið í norðnorðaustri er líklega hluti hennar, sem og nokkrir aðrir gígar. Í lok gossins hefur hraun og gjóska haldið áfram að koma upp úr megingígnum, Skálafelli. Dyngjan hefur gefið af sér verulegt magn kvíku því meginhluti Reykjanesstáarinnar er frá henni komin. Líkt og í öðrum dyngjum leita hrauntaumar út úr hliðum þeirra. Þannig hefur suðvesturgígurinn myndast og hrauntaumur leitað úr honum til vesturs. Ein hraunæðin er Varmi.
Háhitasvæði er norðan í Skálafelli þar sem nú er Gunnuhver og nálæg hverasvæði. Vitað er að svæðið allt var mun virkara einungis fyrir áratug síðan. Þar, skammt uppi í hlíðum Skálafells, fæddist m.a. Litli Geysir (eða 1918) skömmu eftir aldamótin 1900 og lifði þar um tíma – en dó síðan. Á unglingsárum sínum gaus hann allt að 20 metra háum vatnsstrókum með ennþá hærri gufutaumum.
Þegar komið var niður í Varma blasti við falleg hraunssúla. Hægt var að fara beggja megin við hana, en vinstri leiðin var valin að þessu sinni, enda sú hægri þrengri og varfarnari. Bæði eru nippur í henni og auk þess meiðir hún hnén. Vinstri leiðin er greiðfærari og augljósari.
Þegar komið var í gegnum rúmgóða þrengingu við súluna lækkaði rásin. Gólfið er slétt, en hrjúft. Fara þarf á hnjánum inn, en fljótlega er komið inn í bæði breiðan og rúmgóðan ráshluta með fínum sandi í botni, líkt og er í fordyrinu. Fögur sjón tekur við góðu ljósmagni – langar rætur úr lofti. Hitinn í hellinum er um 20°C svo auðvelt væri að fara þarna niður að vetrarlagi á stuttbuxum einum fata – ef ekki væru hraunibburnar fyrrnefndu.
Rásin er heil og hækkar þannig að hægt er að ganga hokinn in eftir henni. Vel má sjá hvítar útfellingar á gólfi og á veggjum. Þá breikkar rásin, en hækkar ekki. Fara þarf á hnjánum áfram að gjóskubyng og hruni. Þar er hægt að komast áfram á maganum. Að spolkorn skriðnum virðist hitna enn á ný í rásinni. Loks virðist loftið sigið niður og verulega áhættusamt að halda áfram. Eflaust mætti reyna það með áræðni og sæmilegri fífldirfsku, en hvorutveggja myndi örugglega taka enda skammt þar vestar því bergveggur gjárinnar (misgengisins) getur varla verið langt undan. Sandur er í “endaþarminum”, en fróðlegt er að sjá á leiðinni hvernig hann hefur sigið niður í gegnum bergið, borist niður rásina með aðstoða vinda og vatns um opið og loks lokað henni. Helst er á sjá samlíkingar þessa í Sundhnúkahellunum. Inni í enda virðist ekki var um sama hitauppstreymi og á hinum, fyrrnefndu, köflunum tveimur, sem fyrr er getið.
Haldið var til baka upp eftir rásinni og reynt að njóta þess að skríða á hreinum og fínum sandinum í stað þess að hnjámeiðast á grófum hraunbotni.
Uppi við opið liggur rásin spölkorn upp á við, en lokast með fínum sandi. Ljóst er að sandurinn kemur ofan frá – enda lýtur hann, eins og annað, lögmálum þyngdaraflsins sem og “miðjulögmáls jarðar”. Allt það, sem jörðin hefur gefið, dregur hún til sín og formar síðan til búnings á ný, ýmist sem basalt eða myndbreytt (höfundur fékk 10 á jarðfræðiprófi).
Varmi er um 170 m langur í það heila.
Þegar komið var út var komið myrkur – Reykanesvitarnir lýstu lárétta sjónarröndina, hvor í kapp við annan, hvítir gufustrókar virkjanasvæðis misviturrar mannskepnunnar lýstu hins vegar lóðrétt líkt og fingur “Júlíusar” í “Neðra” – svo til beint upp í loftið í logninu – og bæði Karlinn og Eldey í fjarska birtust sem þjóðsagnakenndir risar við annars spegilsslétta sjónarrönd Ægis – handan hins mikilúðuga Valahnúks. Þvílík sýn. Og ekki spillti dulúðlegt mánaskinið fyrir. Slíka upplifun á sérhver mannsskepna ekki nema einu sinni á lífsleiðinni – og það með mikilli heppni.
Ferðin tók 1 klst og 11 mín.

Skálafell

Skálafell.