Færslur

Skálabrekka

Í fornleifaskráningu fyrir Skálabrekku eystri í Þingvallasveit vegna deiliskipulags frá árinu 2020 má m.a. sjá eftirfarandi fróðleik:

Skálabrekka – saga jarðarinnar
Skálabrekka
Fyrst er greint frá Skálabrekku í Landnámu: ,,Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar; hann átti Helgu, dóttur Þórðar skeggja. Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá; hann hafði skip það, er Elliði hét; hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði. Hann var hinn fyrsta vetur með Þórði skeggja, mági sínum. Um vorið fór hann upp um heiði að leita sér landskosta. Þeir höfðu náttból og gerðu sér skála; þar heitir nú Skálabrekka. En er þeir fóru þaðan, komu þeir að á þeirri, er þeir kölluðu Öxará; þeir týndu þar (í) öxi sinni. Þeir áttu dvöl undir fjallsmúla þeim, er þeir nefndu Reyðarmúla; þar lágu þeim eftir áreyðar þær, er þeir tóku í ánni.“
Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var jörðin sjö hundruð að jarðardýrleika um 1700 og var í leigu en eigendur voru tveir. Jörðin var þá talin í landþröng og mætti stórum skaða af hestabeit lestamanna bæði að norðan og austan. Í Jarðatali árið 1947 var jörðin hins vegar tólf hundruð.
Ekki kemur fram í skráningunni, enda utan skráningarsvæðisins, að:
-Selstöðu á jörðin í sínu landi, sem þó hefur ei um lánga tíma brúkuð verið (JÁM 1703).
-Hólmar tveir grasivaxnir eru í vatninu og hinn þriðji graslaus, allir kallaðir Skálabrekknahólmar.
-Þessi jörð mætir og stórum skaða af hestabeit lestamanna, bæði Norðlendinga og Austanmanna, en ekki svo af alþingismönnum.

Fjárbyrgi ‒ rétt/gerði

Skálabrekka

Gerði ofan Skálabrekku.

Í örnefnalýsingu Skálabrekku segir: „Nátthagi eða Fjárbyrgi er hraunbolli, grasi gróinn, hringlaga, 35-40 m í þvermál, um 300 m í norður af Hellunesvík. Björn Ólafsson hlóð grjótvegg í kringum þennan bolla og byrgði þarna kvíærnar á næturnar, og ber hann nafn sitt af því. Bændur austan úr sveitum, sem ráku fé sitt til slátrunar til Reykjavíkur, fengu iðulega afnot af honum. Þar austur af eru Nátthagaflatir, beggja megin Árfarsins. Þessar flatir eru líka kallaðar Bakkar. Þeir hafa myndazt vegna framburðar Árfarsins. Þarna lágu ferðamannagötur, og var kallað að fara austur Bakka.“5 Þarna er enn varðveitt stórt sporöskjulaga gerði, sa. 30×26,4 m, hlaðið úr grjóti kringum grösuga dæld. Mesta hleðsluhæð er nú einungis um 0,5 m og breidd um 1 m. Svolítill inngangur virðist vera suðvestan megin, 1 m á breidd. Gerðið er sunnan við og alveg upp við gamla línuveginn. Þetta hlýtur að vera gerðið sem Björn hlóð. Miðað við að hann lifði til 1925 gæti það verið hlaðið á síðustu áratugum 19. aldar eða í upphafi 20. aldar. Sonur hans, Þorlákur Björnsson, tók síðan við búskap til 1941.

Smalabyrgi – tóft
SkálabyrgiÍ örnefnalýsingu segir síðan: „Á hraunbrúninni, rétt fyrir ofan við Nátthagaflatir, er Smalabyrgi, hlaðið úr grjóti, hringlaga, og gengið inn í það frá norðri. Veggirnir rísa hærra að sunnanverðu, móti rigningaráttinni. Inni í byrginu var sæti, hlaðið úr grjóti.“ Á þessum stað er rúst. Vestan megin í henni er greinilegt hólf með grjóthlöðnum veggjum, sa. 1 fm að innanmáli en 2,7 x 2 m að utanmáli. Hleðslan utan um þetta hólf er ágætlega varðveitt og nær norðvesturhornið mestri hleðsluhæð, um 1,3 m. Hleðslan er svolítið rúnuð að utan á norðurhliðinni sem snýr frá Þingvallavatni en að öðru leyti er mannvirkið ferhyrnt. Grjót úr veggjunum liggur allt í kring en mest hefur hrunið úr þeim sunnan og austan megin enda hefur meira mætt á þeim hliðum sem sneru að vatninu og rigningaráttinni. Norðaustan megin virðist vera annað hólf eða stétt. Stórir steinar eru inni í litla hólfinu og hefur mátt sitja á þeim. Inngangur í hólfið virðist þó öfugt við það sem segir í örnefnalýsingu vera suðaustan megin.
Þarna er því ekki fullkomið samræmi við örnefnalýsinguna en staðsetning þessa mannvirkis virðist þó vera svipuð og má því ætla að þetta séu leifar smalabyrgisins. Það er alveg upp við vegarslóða sem kemur þvert á línuveginn þar sem hann endar rétt eftir að hann kemur út um girðingu gamallar sumarbústaðarlóðar austan megin. Smalabyrgið er staðsett fast austan við vegarslóðann þar sem hann liggur norður frá línuveginum, skammt austan við norðurhorn sumarbústaðarlóðarinnar.

Lendingar – varir
SkálabrekkaVið vatnið eru góðar lendingar og fimm varir hafa greinilega verið ruddar. Sú vestasta er innst í Hellunesvík, austan megin, en hinar tvær eru sín hvoru megin við bátanaust nokkru austar við Hellunes, síðan eru tvær vestan á Grjótnesinu. Vörin var grafin í kringum 1970. Varirnar gætu bæði hafa verið notaðar fyrr og síðar. Í austustu vörinni eru tvær stórar hellur innst. Ekki eru neinar heimildir um þessar varir en í örnefnaskrá er nefnd vör sem er utan þessa svæðis. Virðist sem þær séu allar frá 20. öldinni.

Götur – leiðir
Götur, stígar, línuvegur og slóðar liggja fram og aftur um svæðið. Frá malarvegi sem liggur inn á svæðið má sjá götu sem liggur suður að Hellunesvík og síðan áfram í norðaustur meðfram vatninu. Önnur gata er greinileg norðan megin á svæðinu og liggur hún beint norður fyrir smalabyrgið og þaðan áfram í austur. Í vesturáttina liggur hún fyrir ofan lóð gamla bústaðarins, 1-8 m frá girðingu og sveigir síðan í suður við vesturhorn lóðarinnar. Þar greinist hún í tvennt: Ógreinileg slóð liggur í suðurátt að línuveginum og gerði en týnist áður en þangað kemur. Þessi gata gæti hafa tengst réttinni og smalabyrginu.
SkálabrekkaAnnar greinilegri stígur heldur hins vegar áfram í kringum girðingu sumarbústaðarins og tengist þá ef til vill honum. Milli þessa stígs og hins sem liggur meðfram vatnsbakkanum má sjá leifar af enn einni götu sem liggur austur að Nátthagaflötum eða Bökkum. Þarna gætu mögulega verið ferðamannagötur sem nefndar eru í örnefnalýsingu.
Það voru hins vegar bændur sem fóru um þær með fé sitt en ekki ferðamenn í nútímaskilningi. Flestar leiðirnar virðast vera frá 20. öldinni en ferðamannagötur ættu að vera eldri, frá seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Nýr slóði myndaðist núna í sumar þegar Rarik var að leggja jarðstreng í sumar á svæðinu. Sá slóði er fast upp við fjárbyrgið-gerðið og við smalabyrgið.

Heimildir:
-Fornleifaskráning Skálabrekku eystri vegna deiliskipulags, Antikva 2020.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Árnessýsla, bls. 372.

Skálabrekkusel

Skálabrekkusel.