Tag Archive for: Skálarétt

Ísólfsskáli

Í „Fornleifaskráningu í Grindavík, 3. áfanga árið 2004„, er m.a. fjallað um Ísólfsskála. Hér á eftir verður minnst á nokkurn fróðleik úr skýrslunni:

Ísólfskáli

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1915-1930; – Sæmundur G. Guðmundsson. Tóftir gamla bæjarins nær.

1703, eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 8. Aðrar orðmyndir nafnsins eru Ísuskáli og Ísiskáli. „Við til húsabótar hefur ábúandinn af reka þegar hann heppnast…Tún sendið mjög og liggur undir skriðum. Engjar öngvar. Útigángur mjög lakur…Grasa og sölvatekja er í fjörunni að nokkru gagni. Selveiði hefur áður nokkur verið og kynni enn að vera, ef ágreiningslaust væri við Krýsuvíkur ábúendur. En hjer eru misgreiningar nokkrar um landamerki og vita menn óglögt, hvör þessi hlunnindi má með rjettu brúka…Heimræði er af jörðunni vetur og sumar, en lendíng bág og brimasöm…Torftekja til húsaþaks og heytorfs sendin, og mjög bæði gagnslítil og erfið.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús. Þjóðskrá segir að íbúðarhúsið sé byggt 1932, en líklegra er að það hafi verið byggt í kreppunni 1930.

Vatnsból er erfitt bæði til nautnar fyrir menn og peníng sumar og vetur…“

1840: „Slétt tún eru á Ísuskála, en lítil rækt er í þeim; litlir eru hagar þar og fremur graslítið pláss, því fellin þar um kring að norðanverðu eru ber og graslítil eins og líka hraunið þar strax fyrir sunnan, sem nær allt til og þó langt austur fyrir Selatanga. Er þar líka vatnsskortur mikill nema fjöruvötn, sem bæði eru brúkuð til neyzlu og handa fénaði.“ segir í sóknarlýsingu.

Gamli bærinn

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

„Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.“segir í örnefnaskrá. Bjallinn er klettabelti sem liggur norður-suður ofan við túnið vestanvert, alveg frá sjó. Syðst og vestast í túninu, fast undir Bjallanum, er sumarbústaður en hann stendur í tóftum gamla bæjarins. Suðvestast í túninu, um 20 m norðan við sjávarkampinn.
„Á Ísólfsskála féll eldhús [í jarðskjálftum 28. og 29. janúar 1905].“ Athugasemd á túnakorti: „Bærinn fluttur frá sjó, byggður að stofni og kálgarðar árið 1916. Jörðin hafði þá verið í eyði 3 ár.“ Bærinn sem reistur var árið 1916 var timburhús og stóð hann á sama stað og steinsteypt íbúðarhús stendur nú (reist um 1930), í miðju túninu vestanverðu.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fjárhús við gamla bæinn.

Um 150 m fyrir suðvestan íbúðarhúsið er sumarbústaður sem stendur í tóftum gamla torfbæjarins sem búið var í fyrir 1916. Þar er greinilegur bæjarhóll, um 30X25 m að stærð og um 1 m hár. Sunnan undir bústaðnum sést í hluta tóftanna, en bústaðurinn hefur spillt þeim að mestu. Þrjú hólf eru greinileg og liggja frá austri til vesturs, snúa mót suðri. Öll hólfin eru opin til suðurs. Þau eru grjóthlaðin að innanverðu en tyrft er yfir og utan með þeim. Hleðslur eru mest um 1,5 m á hæð og umför allt að átta. Fast vestan við tóftirnar liggur heimreiðin að bústaðnum norður-suður, en fyrir vestan hana liggur garðlag norður-suður. Skipan torfbæjarins var þannig að vestast var baðstofan og norðan við hana var hlóðaeldhús. Austan við baðstofuna var svo hesthús og þar austan við var skemma.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

Bærinn snéri mót suðri og fyrir sunnan hann var kálgarður. Fyrir sunnan bæinn og kálgarðinn þar sem nú er sjávarkampur var brunnur, en hann var einnig notaður eftir að bærinn var fluttur. Í honum var ágætt vatn en dálítið salt.

Garðar

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – hlaðnir garðar ofan við bæinn.

„…Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga…Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar.
Vestan við þá heitir Lágar. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar.“, segir í örnefnaskrá AG. Lágar heitir sléttlendið fyrir austan Festi, uppi á hæðinni áður en ekið er niður að Ísólfsskála. Þar eru stæðilegir grjótgarða beggja vegna vegarins. Gróið sléttlendi.
„Er mikið hér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði.“, segir í örnefnaskrá AG. Garður liggur meðfram veginum, suðvestan við hann, en minni garðar sunnan við hann og einnig austan við veginn. Þeir sem eru vestan vegarins eru eldri, en þó hlaðnir eftir 1916. Þeir sem eru austan vegarins eru hlaðnir eftir 1950. Garðarnir eru mest um 1 m á hæð og sex umför. Um aldamótin 1900 var mikill uppblástur þarna og voru garðarnir hlaðnir til varnar honum. Nú er svæðið allt gróið. Garðarnir eru mörg hundruð metrar í heildina. Svæðið sem garðarnir ná yfir er um 300×300 m.

Skálarétt

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Skálaréttin var hérna megin við bæinn, síðar matjurtargarður.

Fast norðan við núverandi íbúðarhús á Ísólfsskála, um 130 m norðaustan við bæjarhólinn, er gerði. Þar var áður rétt, en síðan nýtt sem kálgarður. Í túni. Gerðið er hlaðið úr torfi og grjóti, snýr í norður suður og er opið til suðurs. Það er um 16X14 m að stærð. Hleðslur standa grónar, um 1 m á hæð en umför ógreinileg. Úr norðvesturhorni þess liggur garðlag til vesturs í átt að Ballanum. Þarna var rétt eftir 1916, kölluð Skálarétt, en síðan var hún flutt norður að Borgarfjalli. Þá var gerðið nýtt sem kálgarður.

Verbúð

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn. Sumarbústaður byggður á tóftunum. Framan við hann var gamla sjóbúðin.

„Brynjólfur biskup Sveinsson var fyrstur Skálholtsbiskupa til að hefja útgerð frá jörðinni, og lét hann reisa þar verbúð fyrir skipshöfnina á stólsskipinu. Hversu lengi útgerð stólsins á Ísólfsskála stóð, er óljóst, en 1734 fórst þar stólsskip og drukknuðu þá 10 menn.“ Ekki er vitað hvar verbúðin hefur staðið. Má vera að tóftirnar séu löngu horfnar undir kampinn en sjórinn gengur þarna mjög á landið. Ekki sést til fornleifar.“

Núverandi landeigendur hafa bæði vitneskju um brunninn, sem nú er horfinn undir kampinn, og gömlu sjóbúðina. Hún varð snemma hluti af útihúsum gamla bæjarins.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004, bls. 53-62.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.