Eftirfarandi frásögn Magnúsar Gíslasonar í Garðinum er í félagsriti Landssambands eldri borgara, 9. árg. 2004.
“Menn hafa lengi velt fyrir sér hvaðan Garðurinn dregur nafn sitt. Margir telja hann draga nafn sitt af því, þegar jarðeigendur voru að ryðja grýtta jörðina til ræktunar fyrir bústofn sinn og nýttu grjótið í garðhleðslu bæði til skjóls og varnar ágangi dýra. Talið er að garðarnir í hreppnum hafi náð 60 km að lengd og af þeim sé nafn byggðarlagsins dregið.
Aðrir telja að það fái ekki staðist. Samkvæmt íslenskum málvenjum ætti það þá að heita Garðar. Þeir sem hafa rannsakað nafnið ofan í kjölinn fyllyrða að Garðurinn dragi nafn sitt af Skagagarðinum mikla sem var 1500 metra langur, hlaðinn úr hnausum og grjóti og náði meðalmanni í öxl.
Var hæð hans í samræmi við ákvæði um garða í landbrigðaþætti Grágásar, lögbók þjóðveldisaldar. Þar segir að taka skuli menn tvo mánuði ár hvert til hleðslu. Augljóst virðist að garða hafa landnámsmenn byrjað að hlaða næst því að velja sér bæjarstæði, af þeirri gildu ástæðu að kvikfé var grunnur undir tilveru þeirra og vörslugarðar því nauðsynlegir.
Sagan hermir Skagagarðinn reistan í landnámi Steinunnar gömlu á Reykjanesskaga, en svæðið var í landnámi Ingólfs Arnarssonar sem gaf frænku sinni land suðurmeð sjó. Rausnarleg gjöf Ingólfs, en hin veraldarvana Steinunn vildi ekki standa í þakkarskuld við frænda sinn og galt fyrir landið með flekkóttri heklu enskri, þ.e. ermalausri kápu með áfastri hettu – lítið gjald fyrir landssvæði sem seinna náði yfir tvo hreppa.
Misjafnar skoðanir eru á hvar Steinunn gamla tók sér bólfestu (þótt flestir hallist að því að hún hafi búið að Gufuskálum), en tengsl hennar og landnámsmanna á Rosmhvalanesi sýna að nesið hefur sennilega verið numið fyrir 890.
Rosmur er gamalt heiti yfir rostunga, sem bendir til að þeir hafi verið við Reykjanes á öldum áður og landsmenn fundið þá rekna á fjörur.
Rosmhvalanes tók að byggjast snemma á landnámsöld. Fólki fjölgaði ört, enda búsældarlegt. Sendin moldin var frjósöm til akuryrkju, graslendi nokkuð, og heiðin lyngi og kjarri vaxin. Stutt á fengsæl fiskimið, svo að fólk hafði nóg að bíta og brenna, en náttúruöflin gátu sett strik í reikninginn. Á Reykjanesi skalf jörðin og brann svo sem merkin sanna. Fyrir nesinu voru eldsumbrot, hraun vall upp af sjávarbotni. Fara sögur af ferlegum umbrotum allt frá árinu 1000 og oft síðan. Stórar hraunbreiður eru undir fiskimiðunum í Garð- og Miðnessjó.
Árið 1226 varð mikið gos í sjó út af Reykjanesi, og svokallað miðaldalag lagðist yfir nesið og Skagagarðinn. Gróður spilltist svo mikið aðmenn sneru sér meira að fiskveiðum, sem urðu helsti atvinnuvegur á Rosmhvalanesi um aldaraðir. Fiskurinn var hertur í skreið og nánast slegist um hvern ugga. Lýsið varð verðmæt afurð.
Gróðurinn jafnaði sig smám saman eftir öskufallið og landbúnaður öx að nýju, eins og graslendið leyfði.
Heimildum ber ekki saman um hvenær og hvers vegna kornrækt lauk innan Skagagarðsins. Sumir telja að öskulagið ásamt kólnandi verðáttu sé ástæðan. Aðrir hafna því og benda á að kornið sé einær jurt sem vaxi í öskusalla. En eftir aldamótin 1300 jókst innflutninur korns verulega og lækkaði allt niður í fjórðung landauraverðs miðað við skreið, helst vegna þess að Austur-Evrópumenn létu kristnast og Hansakaupmenn fóru að flytja korn frá Úkraínu og Litháen og selja á vægu verði á Norðurlöndum, en sóttust eftir fiski til föstunnar. Líklega hefur þessi innflutningur bunið enda á kornrækt Íslendinga.
Þar með lauk upprunalegu hlutverki Skagagarðsins, en þjóðsagan um gullkistuna lifir enn. Hún er grafin í Skálareykjum, þar sem vörsluhliðið var, en rétt er að taka fram, að staðurinn er friðlýstur.
Á gamla akurlendinu innan Skagagarðsins var stundaður búskapur um aldir, en hefur nú lagst niður, utan nytja hestaeigenda. Breski flugherinn naut góðs af sléttlendinu á stríðsárunum og lagði þar 1500 metra flugbraut 1940 sem hann notaði í tvö ár, þar til flugvöllurinn var lagður í Miðsnesheiði 1942.
Skagagarðurinn, mannvirkið forna, er löngu fallinn, en þó sést móta fyrir honum ef vel er gáð.”
-Magnús Gíslason í Garðinum.