Tag Archive for: Skálasandur

Festarfjall

Meðfram fræðslufæti Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, var gengið um Hraunssand og Skálasand undir Festisfjalli (Festarfjalli), þar sem þjóðsagan er tengist bergganginum og festinni á að hafa gerst.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli.

Svæðið lýsir stórbrotinni jarðsögu storkubergs, setbergs og myndbreytts bergs, gefur setlögun fyrri jökulskeiða og forðum sjávarstöðu til kynna og kynnir til sögunnar bergganga, syllur og innskot, sprungufyllingar, frumsteindir og samsetningu þeirra. Sjórinn hefur brotið sér leið inn rúmlega miðja eldstöð með öllum þeim „dásemdum“ sem því fylgir. Jarðfræðin og jarðsagan á nútíma er óvíða bersögulli en undir Festisfjalli.

Kristján ásamt félögum sínum hefur staðsett og aldursgreind svo til öll hraun á Reykjanesskaganum og þótt víða væri leitað. Hann þekkir jarðfræði skagans eins og handabökin á sér, enda kom frá honum í ferðinni hafssjór af fróðleik.
Eftir að hafa farið yfir Slokahraun, sem skv. mælingum Kristjáns er um 2300 ára gamalt (hann hafði drög að jarðfræðikorti af ofanverði Grindavík meðferðis) þar sem m.a. kom fram lega Vatnsheiðahraunsins og nýrra yfirspil Sundhnúkahraunsins, en hið nýjasta, Melhólshraunið, á hins vegar meginefni þess hrauns, sem bærinn stendur á eða við.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, í með drög að jarðfræðikortinu í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Örlög Melhólsins urðu lík og svo margra annarra fallegra gosgíga, að verða rótað upp og ekið undir vegi og hús.
Byrjað byrjað á því að fara niður á vestanverðan Hraunssandinn. Skoðuð voru berglög. Efst trjónar storkubergshraunlag, misþétt, en undir því er aska og gosmöl, þ.e. öfug gossagan. Undir hvorutveggja er móberg frá fyrra ísaldarskeiði. Forvitnilegt er að sjá ísaldarrákirnar á sléttyfirborðs jökul(set)berginu, móbergslagið þar ofan á og enn ofar það sem að framan greinir. Allt sést þetta mjög vel þarna á hraunstöllum þeim er hábáran hefur brotið niður og er smám saman að draga til sín. Víða má sjá bergganga upp í gegnum móbergið sem og sprungur, sem fyllst hafa með setlögum neðanfrá, en gosmöl og ösku ofan frá. Niðri á vestanverðum Hraunssandi er frábær aðstaða til að skoða hraun neðanfrá, þ.e. botninn á því þar sem það hefur runnið yfir og storknað á rakri gosmöl. Neðsta lagið ber þess glögg merki, en síðan þéttist bergið eftir því sem ofar dregur.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli neðst.

Hafaldan hafði tekið Dúnknahelli. Hellirinn, sem áður var orðinn nokkuð stór innvortis og með fallegu loftgati, lá nú eins og hrávirði neðan undir berginu. Ægisaldan hafði sprengt hellinn svo að segja frá berginu og skilið hann eftir berrassaðan fyrir verði og vindum.

Þegar gengið var undir Festisfjalli mátti vel sjá „festina“, berggang er gengur upp í gegnum fjallið. Um er að ræða fóðuræð fyrir yngra berg, en Festisfjall er lagskipt og hefur því orðið til í fleiru en einu gosi. Undir eru bólstranir, þá móberg, bólstra- og brotaberg þar fyrir ofan og loks móbergshetta með jökulsorfnu yfirborði. Austan við vestursnösina, sem skilur af Hraunssand og Skálasand þar austar, er annars konar berglag, olivíninnihaldríkara og enn austar brotabergskenndara. Austast er svo enn eitt berglagið.

Festarfjall

Festarfjall – jökulberg.

Jökulberg er undir neðsta bólstraberginu undir Festisfjalli, en annað slíkt lag tekur síðan við að nýju enn austar, undir Lambafelli. Um er að ræða jökulberg frá tveimur jökulskeiðum. Í þeim má vel sjá grannbergið, sem jökulsetið hefur hnoðað undir sig. Það er hnöttótt, en í nálægum móbergslögum má sjá köflóttara nærberg.
Í Rauðskinnu segir að „austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.“

Festarfjall

FERLIRsfélgar ferðast um neðsta hluta „Festarinnar“ undir Festarfjalli.

Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Inn undir bergið eru fallegir smáskútar.
Þar sem ekki var vel fært fótum lítilmátturga manna fyrir sæiðandi ytri snösina var ákveðið að nýta tímann og ganga til baka um Hraunssand og koma inn á Skálasand úr austri, frá Lambastapa.

Strax þegar komið er niður í fjöruna vestan Lambastapa, inn í svonefndar Mávafláar, kom í ljós ódílótt bólstraberg, rauðleitt. Annars var losaralegt brotabergið ráðandi. Jökulbergið er skammt að handan, niðurundir bjargbrúninni. Stigi var notaður til að komast niður af austari jökulbergsstappanum og áfram til vesturs inn á Skálasand. Þar tók við stórkostlegt útsýni um bergið, bæði austanvert Festisfjall og vestanvert Lambafell.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Skútar eru víða og sjá má glögglega jökulbergið þar undir. Ofar trjóna skessumyndir, en ljósbrúnar steinmóbergsklessur niðurundir. Þótti við hæfi að nefna þær skessuskít.

Toppurinn á ferðinni var uppgötvun Kristjáns á fóðuræð Lyngfells. Hún liggur upp í gegnum bergið skammt austan markanna, um 170 cm, breið neðst og liggur áleiðis út í sjó. Þar fyrir utan eru há sker er mynda nokkurn veginn hring. Ekki er með öllu útilokað að þau kunni að geyma fornan eldgíg er fóðraði bæði Festisfjall og Lyngfell, eða a.m.k. annað hvort þeirra.
Skammt austar er berggangur, er virðist nokkuð sprunginn. Hann er yngri en bergið umhverfis og virðist hafa fóðrað eldstöðvar ofar í landinu. Við vettvangsskoðun eftir gönguna komu í ljós tvö móbergssvæði sunnan Mókletta er gætu hafa verið afurðir þessa berggangs.

Festarfjall

Sjávarhellir í Festarfjalli.

Allt í ferðinni var hið fróðlegasta. Segja má að hún hafi verið svolítið innlegg í skráningu jarðsögu svæðisins.
Kristján var, sem fyrr sagði, hafsjór fróðleiks. Hann á nú nálægt fimm mánuðum til eftirlaunaaldurs, en virðist aldrei hafa verið frískari í viðleitni sinni og leit að nýjum uppgötvunum um myndun landsins.
Að lokinni göngu var þegið kaffi og meðlæti á Ísólfsskála þar sem farið var yfir helstu áhættuþætti og uppgötvanir ferðarinnar.
Staðreyndin er sú að einungis örfáir núlifandi (og þótt lengra væri leitað) hafa farið þá leið, sem farin var að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.