Skálholt.
Talið er, að fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, hafi verið frumkvöðull aftökunnar, en aðrir fyrirmenn í Skálholti samþykkt hana.
Kristján skrifari ætlaði að hverfa frá Skálholti vegna ágreinings um hvað skyldi verða um þá feðga. Lét fógetinn söðla hesta sína og bjóst til brottfarar. Þeir Marteinn biskup og Daði í Snóksdal gengu þá til hans og drukku honum til af silfurkerjum, sem þeir gáfu honum síðan til þess að sefa reiði hans. Við það frestaði hann brottför sinni, og mun þá hafa samist, að þeir feðgar þrír skyldu hálshöggnir.
Skálholt fyrrum.
Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel.
Skálholt – minnismerki um Jón Arason og syni hans.
Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.
Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: “In manus tuas, domine, commendo spiritum meum” – herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.
Eftirmáli – janúar 1551
Tóftir Kirkjubóls.
Norðlenskir vermenn drápu alla danska vetursetumenn á Suðurnesjum til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans nú rétt fyrir Pálsmessu svo að ekki lifir utan einn, sem slapp frá þeim og komst í Skálholt. Meðal þeirra, sem að velli voru lagðir, var fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, er stóð fyrir aftöku Hólafeðga.
Þremur nóttum fyrir Pálsmessu komu sextíu norðlenskir vermenn suður á Reykjanes, og er það almannarómur, að Þórunn á Grund, dóttir Jóns biskups, hafi búið þá til ferðar og lagt svo fyrir, að þeir skyldu drepa alla Dani, sem þeir fengju færi á, hvar sem til þeirra næðist.
Kirkjuból – grafstæði.
Fógetinn, Kristján skrifari, tók sér gistingu að Kirkjubóli á Miðnesi með förunauta sína hjá Jóni bónda Kenrikssyni. Norðlendingar héldu uppi njósnum umferð hans, og um kvöldið eða nóttina dreif að flokka manna, sem slógu hring um bæinn. Voru þar komnir Norðlendingar þeir, sem talið er að Þórunn á Grund hafi gert út til hefnd. Voru þeir allir með hettur og hökustalla, svo að ekki yrðu borin á þá kennsl.
Norðlendingum varð það fyrst fyrir, er þeir sáu, að til bardaga myndi koma, að þeir létu kalla séra Jón Bárðason út, svo að hann fengi ekki mein af vopnum manna, og þekktist hann þegar boð þeirra um undankomu. Síðan rufu þeir húsin og veittu Dönunum atgöngu er þeir þóttust hafa brotið sér nógu greiða leið. Féllu allir þar inni, sjö eða níu, nema fógetinn, sem komst út, nokkuð sár. Var hann í hringatreyju, sem járn bitu ekki á, og fékk varist enn umhríð, uns til koma einn sveina Þórunnar á Grund. Hann var með lensu í hendi og kvaðst skjótt skyldu finna lagið á fógeta. Lagði hann lensuna neðan við treyjuna upp í smáþarmana. Rak fógeti þá upp hljóð, er hann kenndi lagsins, og lýsti piltinn banamann sinn. Meðal þeirra, sem drepnir voru á Kirkjubóli, var ungur sonur fógetans, Baldvin að nafni.
Kirkjuból – loftmynd 1954.
Þegar lokið var vígum, drógu Norðlendingar líkin norður fyrir garð á Kirkjubóli, þar sem þeir urðuðu þau í einni kös.
Á Bústöðum á Seltjarnarnesi bjó danskur maður og var honum gerð aðför ásamt fleirum, s.s. að Másbúðum. Alls voru það fjórtán menn, sem Norðlendingar vágu í einni lotu til hefnda eftir Jón biskup og syni hans.
Lík Jóns biskups Arasonar og sona hans, Björns og Ara, voru í apríl 1551 grafin upp að kórbaki í Skálholti og færð heim til Hóla. Hlutu þau leg í kirkjunni.
Vígðalaug á Laugarvatni.
Á leiðinni norður var komið við á Laugarvatni, þar sem tjaldað var yfir líkin, þau þvegin og búið sem best um þau. Kisturnar voru reiddar á kviktrjám og við hverja kistu voru hengdar litlar bjöllur eða klukkur, sem hringdu látlaust við hverja hreyfingu hestanna. Hvar sem þeir fóru um sveitir, flykktist fólk að þeim, einkum vanheilt og sjóndapurt, til þess að snetra kisturnar, ef það mætti verða því til bötunar, og fannst mörgum þeim verða að hyggju sinni.
Dönsk herskip voru send til Íslands í júlí 1551. Og tóku höfn í Eyjafirði. Flotaforingjarnir riðu til Hóla með sveit manna. Lögðu þeir hald á það, er þeim þótti fémætt og séra Björn Gíslanson hafði ekki áður komið undan í gröft eða geymslu. Helstu klerkar, sýslumenn, lögréttumenn og bændur voru kvaddir á Oddeyri og látnir sverja konungi hollustueiða.
Upplýsingaskilti á Laugarvatni.
Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns biskups Arasonar, leyndist í úthaga um sumarið. Bjóst hún fyrst um í Vindáshlíð í mosalituðu tjaldi, samlitu jörðinni, en var síðar flutt á Glóðafeyki upp á Ökrum í Blönduhlíð, þar sem hún þótti óhultari.
Otti Stígsson lét taka Jón Kenriksson, bónda á Kirkjubóli á Miðsnesi, af lífi, ásamt einum hjáleigubændanna þar syðra. Var Jóni fundið það til saka, að hann hefði ekki bannað Norðlingum að rjúfa bæinn að Kirkjubóli, er þeir fóru að Kristjáni skrifara og fylgismönnum hans. Menn þessa lét Otti færa inn í Straum og reisa þar höggstokk, hjól og stengur. Voru þeir Jón Kenriksson leiddir þar ti höggs, höfuð þeirra sett á stengurnar og bolirnir hjólbrotnir í viðurvist, er þangað var stefnt. Síðan var allt látið standa sem komið var, öllum þeim til viðvörunar, er þar fóru um.
Hörð hríð var gjörð að banamönnum Kristjáns skrifara og annarra Dana, sem norðlenskir vermenn vágu á Suðurnesjum. Voru þeir allir dæmdir óbótamenn á Öxarárþingi. Sextán Norðlendinganna flúðu land með enskum kaupförum og fiskiskipum. Konungur féllst síðan á að þeim yrði leyft að kaupa sér frelsi, þar eð ekki var unnt að ná til margra þeirra, sem fremstir voru í flokki.
Skálholt á miðöldum.
Þórunn á Grund var fjórgift og loks svipt sjálfræði. Hún andaðist í desember 1593. Með henni var fallin einn helsti skörungur meðal kvenna á landinu. Hún var komin nokkuð á níræðisaldur. Var séra Sigurður á Grenjaðastað einn á lífi barna Jóns biskups Arasonar.
Hálfri öld eftir víg Jóns biskups Arasonar og sona hans var kyn hans þó orðið næsta fjölmennt, einkum þó kynkvísl séra Björns Jónssonar á Melstað.
Sjá meira um eftirmálana.
Heimild m.a.:
-Öldin okkar.
Kirkjuból – grafstæði.