Tag Archive for: skátar

Krýsuvík

Skátafélag var stofnað í Hafnarfirði þann 22. febrúar 1925. Starfsemin hafði því varað í eitt hundrað ár þann 22. febrúar s.l.

Skátar

Skátar – merki Hraunbúa.

Hreyfingin hefur allan þennan tíma átt dygga og trausta félaga og gott forystufólk hér í Hafnarfirði og víðar. Góður félagsskapur, þroskandi uppeldi, útivist, ríkur skilningur og þekking á umhverfi og samfélaginu hafa einkennt skátastarfið. Þetta eru þau gildi sem fylgja öllum sem verið hafa góðir félagar í skátastarfinu alla tíð.

Félagsskapurinn stuðlar að vexti og þroska ungmenna, bæði sem einstaklinga og sem samfélagsþegna, með verkefnum og frumkvæði að leiðarljósi. Í skátahreyfingunni fá ungmenni tækifæri til að læra, öðlast sjálfstæði, hafa frumkvæði, vera lausnamiðuð og verða góðir leiðtogar sem eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð og stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu. Starfið stuðlar að vexti, þroska og framförum ungmenna. Þau fá tækifæri til að læra í gegnum skemmtileg, ögrandi og þroskandi verkefni, útivist og samveru. Í þessum verkefnum öðlast þau sterkara sjálfstraust og hugrekki sem verður að þykja dýrmætt vegarnesti til undirbúnings framtíðarinnar.

SkátiFramangreind gildi hafa þó ekki einungs verið bundið við skráða félaga í bækur hreyfingarinnar. Starfsemin hefur náð langt út fyrir hana, þótt leynt hafi farið, og má því segja að hún eigi sér miklu fleiri velvildarmenn í bænum en í fljótu bragði virðist.

Sumarið 1953 var tekin upp sú nýbreytni, að Hafnarfjarðarbær kom á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Milli 40 og 50 drengir dvöldust að öllu leyti í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Þeir héldu til í starfsmannahúsi Krýsuvíkurbúsins. Þessi starfsemi naut mikilla vinsælda meðal Hafnarfirðinga, enda bætti hún úr brýnni þörf. Færri drengir komust að en vildu. Í skólanum kynntust þeir ýmsum hagnýtum vinnubrögðum, voru undir góðum aga, lærðu að bjarga sér og var kennt að meta gildi vinnunnar.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir.

Meðal verkefna innan dyra þurfti að búa um rúm, þvo þvott, skúra gólf, vinna við eldhússtörf, leggja á borð og vaska upp. Utan dyra var unnið að lagfæringu og snyrtingu á lóðum, vinnu í gróðurhúsum, ræktun kartaflna, aðstoð við ræktunarframkvæmdir og heyskap, viðgerðir á girðingum og margt fleira. Auk þess stunduðu þeir íþróttir og leiki og fóru í langar gönguferðir undir leiðsögn.

Á árunum eftir 1960 voru drengirnir í vinnuskólanum í Krýsuvík á aldrinum 8-12 ára. Var þá lögð sérstök áhersla á leiki, og var drengjunum t.d. veitt sérstök tilsögn í knattspyrnu. Nutu þá fleiri drengir dvalar en áður, því starfað var í tveimur flokkum, og dvaldi hvor flokkur fimm vikur í Krýsuvík. Þeir unnu venjulega fimm til sex stundir á dag, og var vinnan sem áður fyrst og fremst í þágu búsins og gróðrarstöðvarinnar í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn að störfum…

Sumrin 1959 og 1960 unnu drengirnir í unglingavinnunni í Krýsuvík að skógrækt í skógræktargirðingunni í Undirhlíðum og settu þar niður samtals 100.000 trjáplöntur. Þessi skógræktarstörf voru unnin í samvinnu við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.

Vinnudagurinn hófst með morgunkaffi. Síðan var yfirleitt unnið í flokkum hálfan daginn. Einn varð verkstjóri er hélt öðrum að vinnu og skráði hjá sér verðskulduð laun hvers og eins, allt eftir dugnaði og ástundun. Um var að ræða afkastahvetjandi launakerfi. Eftir hádegisverð var gengið um fjöll og fyrnindi. Um helgar voru leikir eða íþróttakeppnir.

Krýsuvík

Krýsuvík – kappleikur…

Á kvöldin, fyrir kvöldkaffið, voru kvöldvökur eða kvikmyndasýningar á ganginum á fyrstu hæðinni, sem lauk með samsöng vors- eða sumarlags. Fyrir svefninn var farið með Faðirvorið. Allir áttu jafnan auðvelt með svefn eftir erfiðan dag.

Starfsfólk vinnuskólans var í einu orði sagt frábært. Það hafði utanumhald um hlutina, hélt uppi hæfilegum aga en veitti jafnfram nægan stuðning ef á þurftu að halda. Það var leiðbeinandi og gerði kröfur, en það verðlaunaði alla þá er áttu það skilið með eftirminnilegum hætti. Þannig eiga flestir þátttakendur vinnuskólans enn a.m.k. eitt handunnið viðurkenningaskjal, sem þeir fengu fyrir hvaðanæva það er þeir gerðu vel – í lok hvers tímabils.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir…

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands og svæðisleiðsögunám, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í nefndum og formaður nokkurra þeirra.

Sú „prófgráða“, sem hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn „útskrifaður“ frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnusklóadrengir við sundlaugagerð…

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður 1964 vegna ómerkilegar þrætur stjórnmálamanna bæjarins sem og tilkomu nýrra skilyrða í heilbrigðisreglugerð af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar stýrðu starfseminni, en skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum og stýrðu nemendum til verka. Má þar t.d. nefna skólastjórnedurnar Helga Jónasson og Hauk Helgason og skátaforingjana Ólaf Proppe, Hörð Zóphanísson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson, Sævar Örn Jónsson, auk kennaranna Eyjólfs Guðmundssonar og Snorra Jónssonar o.fl.

Krýsuvík

Krýsuvík – sigurvegarar…

Framangreindir aðilar nutu mikillar virðingar hinna 550 ungu Vinnuskólanemenda á tímabilinu, langt umfram það sem ætlast var til, bæði vegna mannkosta þeirra sjálfra, en ekki síst vegna þeirrar aðferðarfræði sem þeir notuðu. Fræðin sú var í anda skátahreyfingarinnar. Segja má að allir stjórnendurnir, sem og hver og einn, hafi verið hreyfingunni til mikils sóma í hvívetna.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er skátaforinginn Hörður Zóphaníason:

:Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…:.

Heimildir m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar – Krýsuvík.
-Saga Hafnarfjarðar.
-Alþýðublaðið 13. ágúst 1957, bls. 4.
-Alþýðublaðið 13. júlí 1962, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.
-Myndir tók Haukur Helgason.

-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-i/
-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-ii/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-i-krysuvik/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-rjomaterta-fyrir-goda-umgengni/

Krýsuvík

Krýsuvík.

Skátar

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Skátafélagsins Hraunbúa þann 22. febrúar 2025 er rétt að rifja upp frumsögu þess í Hafnarfirði. Í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1965 er sagt frá skátafélaginu á fertugasta aldursafmælinu það árið undir fyrirsögninni „Árdegið kallar, – áfram liggja sporin„.

Skátar„Hinn 22. fehrúar síðastliðinn voru 40 ár liðin frá því að skátastarf hófst hér í Hafnarfirði. Í hófi, sem Hraunhúar héldu af því tilefni, hélt félagsforingi þeirra ræðu þá er hér birtist. Er þar í stuttu máli drepið bæði á fortíð og framtíð skátastarfsins í Hafnarfirði.

Ágætu gestir, góðir félagar.
Það er 22. febrúar í dag á því herrans ári 1965, og eru því núna 40 ár frá því að skátastarf hófst hér í Hafnarfirði. Það er eðlilegt, að við stöldrum ögn við á þessum tímamótum, lítum yfir farinn veg og reynum þó um leið að skyggnast lítið eitt inn í framtíðina.
SkátarÞað hefur gengið á ýmsu á þessum 40 skátaárum hér í Hafnarfirði. Stundum hefur skátalífið staðið með blóma og stundum hefur haustað að. Þannig er því farið með allan félagsskap. Félagsstörfin ganga í öldum, stundum eru þau á öldutoppinum og stundum í öldudal. En félagsskapur, sem lifað hefur í fjörutíu ár, hefur óneitanlega sannað tilverurétt sinn og stendur orðið föstum fótum. En margt hefur breytzt á þessum fjörutíu árum.
Það var aðeins einn skátaflokkur, sem lagði upp hinn 22. febrúar 1925 klukkan 7 síðdegis.

Skátar

Kröfuganga á leið niður Strandgötu, húsið er Suðurgata 24 var áður Strandgata 52 betur þekkt sem Bristol.

Drengirnir, sem þarna hófu skátagönguna í Hafnarfirði, lögðu upp með bjartsýnina og skátahugsjónina að leiðarljósi. Hvort tveggja þetta reyndist happadrjúgt og nú eru að baki óteljandi skátaspor á 40 ára leið. Leiðin, sem þá var aðeins óljós troðningur, er nú orðin
að troðinni götu.
Það var Jón Oddgeir Jónsson, sem hafði forgöngu um að skátastörf byrjuðu hér. Eftir nýárið 1925 fær hann sér fjögurra daga frí, fer suður í Fjörð og kynnir drengjum í K.F.U.M. skátahreyfinguna. Og árangurinn verður sá, að skátaflokkur er stofnaður hinn 22. febrúar. Þessi fyrsti skátaflokkur tekur mjög myndarlega til starfa og hinn 5. apríl hafa allir stofnendurnir lokið 2. flokksprófi.

Skátar

Gamli barnaskólinn. Reistur 1902, þá sem Barnaskóli Garðahrepps. Stækkaður 1921. Skólinn við Lækinn var vígður 1927 og þá flutti sú starfsemi úr þessu húsi.

Og rúmri viku síðar eru teknir það margir nýliðar, að 4 flokkar verða starfandi. Það er komin skátasveit í Hafnarfjörð, en drengina vantar sveitarforingja. En fyrsti sveitarforinginn í Hafnarfirði fæst brátt, og var það Gísli Sigurðsson lögreglumaður, en Jón Gestur Vigfússon, sparisjóðsgjaldkeri, leit eftir og fylgdist með öllu skátastarfinu, var eins konar ábyrgðarmaður drengjanna.
Það er sýnilegt, að þessir fyrstu skátadrengir í Hafnarfirði hafa lagt sig fram um að vera trúir lögum og stefnu skátahreyfingarinnar.
Enda líður ekki á löngu, áður en ýmsir fara að veita þeim verðskuldaða athygli.

Skátar

Gamla „Svendborg 1912“ er skrifað aftan á myndina. Bokkless Brothers er skrifað á þak skemmunar.

Lítill vottur þess er bréf frá 20. febrúar 1927, sem nú er geymt í skjalasafni félagsins. En nú skulum við gefa bréfritara orðið:

„Kæru skátar. Rétt eftir að ég lagðist veikur haustið 1925 hvarf héðan af götunni gömul kona á leið heim til sín. Var nokkur þoka svo hún villtist. — Ég heyrði þessa getið strax, með því að blásið var í lúður til að safna fólki til leitar. Skátafélagið meðal annarra brá þá þegar við, fór frá störfum sínum í leitina og fann konuna. Ég get ekki gleymt því, hve vænt mér þótti um þennan röskleika félagsins og finnst mér hann vera fyrirboði þess, að það eigi margt nytsamt að vinna í framtíðinni.
Innlagt sendi ég félaginu 100 krónur sem þakklætisvott frá mér fyrir þetta fallega og heppilega mannúðarverk.
Yðar með vináttu og virðingu,
Ágúst Flygenring.“

SkátarÞetta bréf talar skýru máli um það, hvernig byrjunin tókst hjá skátunum, hvernig þeir komu áhorfendum utan félagsins fyrir sjónir. En í skjalasafni Hraunbúa er líka til afrit af svarbréfi skátanna til Ágústs og það er líka gott vitni um andann, sem þá er ríkjandi í félaginu. Það bréf var svohljóðandi:

„Hafnarfirði, 27. febr. 1927.
Herra Ágúst Flygenring, f.v. alþingismaður. Við höfum tekið á móti gjöf yðar með miklu þakklæti, og gleður það oss sérstaklega hve góðan skilning og góðan hug þér berið til skátastarfsemi okkar. Gjöfin barst til okkar einmitt á þeim degi, sem skátar um allan heim halda mikið upp á, nefnilega fæðingardag sir Róberts Baden Powells, stofnanda skátahreyfingarinnar.

SkátarVið viljum nú um leið geta þess að það, sem við gerðum er gamla konan tapaðist héðan haustið 1925 var það, sem allir aðrir skátar hefðu gert í okkar sporum. Við munum því ávallt reyna að verða þjóð vorri til gagns og sóma og verðskulda þannig, meðal annars, það traust, sem þér hafið sýnt okkur.
Okkur kom mjög vel að fá peningana frá yður, og finnst okkur það eiga vel við að nota þá meðal annars til að kaupa handa félögum okkar íslenzkan þjóðarfána, sem við viljum ávallt heiðra og vernda sem bezt.
Með kærri kveðju frá öllum hafnfirzkum skátum.
F.h. Skátafélags Hafnarfjarðar.
Guðrún Sigurðardóttir.
Jón Oddgeir Jónsson.“

Skátar

Skátaheimlið við Strandgötu – Hraunbyrgi.

Þessi tvö bréf segja okkur meira um félagið og andann á þessum árum en löng ræða. Félagið fetar með festu og öryggi skátabrautina.
Hér er hvorki tími né tækifæri til þess að rekja sögu skátanna í Hafnarfirði nákvæmlega í þessi fjörtutíu ár. Ég mun því stikla á stóru og nefna fá nöfn. Sagan og nöfnin munu betur rakin í félagsblaðinu okkar, Hraunbúanum, sem koma mun út nú á næstunni.
Tvö fyrstu árin eru skátarnir í Hafnarfirði til húsa á Suðurgötu 24. En árið 1927 flytja þeir starfsemi sína í kjallarann í Gunnarssundi 5, en þar á einn stofnendanna, Róbert Smidt, heima. Þar leigja þeir tvö herbergi. Þá byrja þeir að koma sér upp bókasafni og eignast til dæmis flestar Íslendingasögurnar.

Skátar

Skátaheimilið við Hrauntungu.

En svo fer að halla undan fæti fyrir skátastarfinu hér. Stofnendurnir, sem neistann kveiktu og hófu merki skátanna hér í bænum tvístrast í ýmsar áttir. Sumir fara burt úr hænum á ýmsa skóla, aðrir flytjast búferlum. Skátastarfið flytzt úr Gunnarssundi 5 á Hellisgötu 7 og síðar á Kirkjuveg 5. En svo lognast skátastarfið út af og það er ekkert skátafélag að finna í Hafnarfirði.
En hinn 22. febrúar 1937 koma aftur saman drengir, sem áhuga hafa á skátamálum. Átta drengir stofna skátaflokk og síðan hafa alltaf verið skátar í Hafnarfirði.
Hafnfirzku skátarnir hafa víða verið til húsa. Árið 1937 voru þeir á Suðurgötu 34 B, svo fær félagið lánað eitt herbergi í Gamla barnaskólanum, seinna lánar Jón Mathiesen þeim herbergi undir starfsemi sína og síðar Jón heitinn Gíslason.

Skátar

Þann 26. febrúar árið 2000 sameinuðust Björgunarsveitin Fiskaklettur og Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði undir merkjum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Næsta bækistöð skátanna í Hafnarfirði verður svo hermannaskáli, sem bærinn lánar þeim. 1945 fá skátarnir húsnæði í gömlu Svendborgarhúsunum og haustið 1947 kaupir félagið veitingaskála við Strandgötu fyrir 37 þúsund krónur. Þessi skáli var skírður Hraunbyrgi. Og þar átti skátastarfsemin heima til ársins 1962, hinn 1. júlí, er núverandi félagsheimili okkar var tekið í notkun, sem líka ber Hraunbyrgisheitið svo sem kunnugt er.
Útilegur og útilíf hefur alltaf verið snar þáttur skátastarfsins og þar hefur skálinn okkar við Kleifarvatn gegnt miklu og veglegu hlutverki. Við hann eru margar skátaminningar tengdar. Hann var byggður fyrir tæpum 20 árum, árið 1946.
Þá eru árin 1951 og 1963 merkisár í skátasögunni hér í Hafnarfirði, því að þá eru stofnuð Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði og St. Georgsgildi, samtök „gamalla“ skáta. Og í sumar verða vormótin orðin 25. Þannig er sagan okkar, skátanna í Hafnarfirði, í örfáum og stórum dráttum.
SkátarFélagið hefur vaxið með bænum. Það hefur þróazt með árunum og sniðið sér stakk eftir vexti. Nú er ekki aðeins einn flokkur á göngunni fram eftir veginum eins og árið 1925. Nú ganga eftir götunni tvær kvenskátadeildir með 102 kvenskátum og 38 ljósálfum, tvær drengjaskátadeidir með 124 drengjaskátum og 41 ylfingum, Hjálparsveit skáta með 74 félögum og St. Georgsgiklið, en þátttakendur í því eru 65. Og sem betur fer er öll þessi fylking samstiga og samhuga. Það er gæfa félagsins okkar í dag.

Skátar

Skátamót í Helgadal ofan Hafnarfjarðar.

Þess vegna höfum við t. d. verið þess megnug að leysa ýmis stór viðfangsefni á síðastliðnu ári. Ég minni á vormótið á Höskuldarvöllum með rúmum 600 þátttakendum, ég minni á að 36 skátar úr Hraunbúum sóttu skátamót í Noregi síðastliðið sumar og ég minni á Fiskasýninguna. Það er sagt að menn vaxi með verkefnunum og ég vona að Hraunbúar eigi sér alltaf stór viðfangsefni til þess að glíma við og reynist vandanum vaxnir að leysa þau.
Allt skátastarf er uppbygging, mótun og þjálfun mannkostanna. Starfið og skipulagið ekki verjandi að leggja hana á yngri herðar, ef annars er nokkur kostur. Þetta er stefna skátafélaganna í dag, hvar sem er í heiminum. Og það er trú mín að innan skamms verði þetta komið í gott lag hjá okkur Hraunbúunum.

Skátar

Jón Gestur Vigfússon (1892-1980) .

Deildarstjórnir eru eitt af því, sem bíður á næsta leiti. Erlendis er það víða skilyrði fyrir því að skátadeild megi starfa, að hún hafi deildarstjórn og foreldraráð að baki sér. Og það er skoðun mín, að núna vanti okkur ekki nema herzlumuninn til þess að koma þessu á. Og ég er þess fullviss, að deildarstjórnir og foreldraráð deildanna í Hraunbúum eiga eftir að verða skátahreyfingunni í Hafnarfirði ómetanleg stoð.
Eitt af því, sem við eygjum í næstu framtíð í skátastarfinu hér í Hafnarfirði er hverfaskiptingin. Hún hefur alls staðar gefið góða raun. Í hverfinu eru gjarnan tvær deildir, drengja- og kvenskátadeild. Þessar deildir hafa svo sameiginlegt húsnæði fyrir sig: Lítinn fundarsal, tvö, þrjú flokksherbergi, eldhúskytru. Afleiðing: Deildirnar standa miklu traustári fótum í umhverfi sínu.
Ef við lítum á félagið okkar í dag, er þegar kominn grundvöllur fyrir hverfaskiptingu. Í dag væri það ekkert óeðlilegt að skipta bænum í tvö hverfi, skipta um Lækinn. Þá þyrfti að komast upp lítið skátaheimili í Suðurbænum. Aðalmiðstöðin yrði eftir sem áður Hraunbyrgi.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn (1903-1985).

Þá er í dag grundvöllur fyrir þriðja hverfið inni í Silfurtúni. Allmargir skátar í Hraunbúum eru þaðan. En ólíkt væri það hægara fyrir þá ef þeir hefðu aðstöðu til þess, að allt aðalskátastarf þeirra færi fram þar heima. Og það mun ekki líða á löngu þar til þörf verður á að hverfin hér í Hafnarfirði verði þrjú, — og heimilin þrjú. Bjartsýni segir einhver, — og því ekki það?
Vorhugur og skátar eiga samleið. Og við getum sagt með Hannesi Hafstein:

Árdegið kallar, áfram liggja sporin,
enn er ei vorri framtíð stakkur skorinn.
Aldar á morgni vöknum til að vinna,
vöknum og tygjumst, nóg er til að sinna.
Hátt ber að stefna, von við traust að tvinna,
takmark og heit og efndir saman þrinna.

Hraunbúar. Áfram skal haldið. Merkið má ekki falla.
SkátarVið getum litið yfir farinn veg og séð hvað hefur áunnizt, séð hvernig ýmsir ágætir skátar hafa lagt sig alla fram félaginu til heilla og skátastarfinu til góðs. Og við eigum öll að setja metnað okkar í að reyna að gera eins. Hefja merkið hátt, leita á brattann, kæra okkur kollótt þótt á móti blási, sigrast á erfiðleikunum. Við eigum að lifa eftir kjörorðinu, að vera ávallt viðbúin.
Skátahugsjónin á að vera okkur aflgjafi.
Gleðileg jól!

Lög okkar og heit, bræðralag og friðarhugsjón eiga að vera okkur allt. Hugur okkar þarf að vera heill í skátastarfinu. Við verðum að vera viðbúin að fórna ýmsu fyrir skátastarfið. Við verðum að gefa okkur öll óskipt til að höndla kjarnann í skátalífinu, til þess að vaxa og verða nýtir menn. Við verðum að bera hag allra skáta um allan heim fyrir brjósti, þjást og finna til þegar eitthvað fer úrskeiðis, brosa og fagna, þegar rétt miðar.
Svanurinn frá Fagraskógi segir í einu kvæða sinna:

Ef hugur fylgir máli,
þá gefðu og gefðu allt.
Þeir glatast fyrst
sem engu fórna vildu.
Til himins kemur aldrei
hjarta, sem er kalt
og hikar við að gera sína skyldu.

Þetta skyldum við alltaf hafa í huga, og hika því aldrei að gera það, sem skátaskyldur okkar bjóða.
SkátarOg á þessum tímamótim skulum við allir Hraunbúar stíga á stokk og strengja þess heit, að duga og vera sannir skátar, lyfta merki skátanna hærra en nokkru sinni fyrr, leggja allt af mörkum, hvert og eitt einasta okkar, skátastarfinu til heilla og sjálfum okkur til gleði og hamingju. Þáð er bezta afmælisgjöfin, sem við getum fært félaginu okkar. Og við hina, sem rutt hafa okkur veginn eða stutt okkur í starfi, vil ég segja þetta. Hafið hjartans þökk og fylgi ykkur allar heillir. Þið hafið átt ykkar þátt í að skapa okkur skyldur, skylduna til þess að duga til þess að vera sannur skáti, og það er von mín og ósk á þessum tímamótum, að Hraunbúar verði ætíð og ævinlega um ófyrirsjáanlega framtíð þess megnugir að rísa undir þeim skyldum. Heill fylgi Hraunbúum og öllu skátastarfinu um ókomnar aldir.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1965, 24.12.1965, Árdegið kallar, – áfram liggja sporin, bls. 20-22.

Skátar

Skátaheimili Hraunbúa við Hjallabraut (Víðistaðatún) 2025.