Nokkur fornmannaleiði eru í Mosfellsbæ. Má þar nefna Þormóðsleiði í Seljadal, Hraðaleiði á mörkum Hraðastaða og Mosfells, Æsuleiði við Æsustaði, Skeggjaleiði hjá Skeggjastöðum, Úlfarsleiði í Úlfarsfelli, Reynisleiði við Reynisvatn og Egilsdys í Tjaldanesi neðst í Mosfellsdal.
Samkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði.
Sá maður í Mosfellssveit (-bæ) sem veit manna best um þau þá fyrrum heygðu er heitir Bjarki Bjarnason og býr að Hvirfli í Mosfellsdal. Hann er margfróður um sögu byggðarinnar enda lagt sig fram við að varðveita gamlar sagnir og sögur af svæðinu.
Áður en eftirgrennslan hófst var vitað að í örnefnalýsingum kemur fram að „Þormóðsleiði er týnt, eftir því sem ég best veit. Hef heyrt að bóndinn í Þormóðsdal hafi sléttað það út“, „Hraðaleiði er áberandi hóll vestast á túnunum á Hraðastöðum“, „Skeggjaleiði er týnt“, „Egilsdys er lítill hóll í svonefnum Víðirodda vestast í Mosfellsdal þar sem árnar koma saman“ og „Æsuleiði er hóll miðja vegu á milli Norður-Reykja og Æsustaða.“ Ekki beint örvandi til leitar, en FERLIR er þekktur fyrir annað en uppgjöf.
Bjarki fylgdi FERLIR um Mosfellsdalinn með það fyrir augum að reyna að staðsetja Æsuleiði, Hraðaleiði og Egilsdys, en Þormóðsleiði virðist hafa farið forgörðum er nýi vegurinn var lagður um Seljadal rétt neðan við býlið Þormóðsdal upp í grjótnámið sunnan í Grímannsfelli (sjá „Þormóðsdalur – minjar og annað gull“ á vefsíðunni undir Lýsingar). Þá er ekki vitað hvar Skeggjaleiði kann að vera. Að þessu sinni var hvorki gerð leit að Úlfarsleiði eða Reynisleiði, en að sjálfsögðu verður gerður út leiðangur í það verkefni fyrr en seinna.
Þegar gengið var að Hraðaleiði vakti stórt hringlaga, næstum jarðlægt, gerði athygli þátttakenda. Auk þess að skoða fyrrnefnda staði var kíkt á Jónssel ofan við Seljabrekku.
Samkvæmt þjóðminjalögum eru haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið, taldir til fornleifa. Hins vegar getur þurft að horfa til þess að „dysjar“ þurfa ekki endilega að vera raunverulegar dysjar heiðins fólks. Bjarki gat þess t.d. að hvorki Hraðastaða né Æsustaða væri getið í fornum skráðum heimildum. Einungis væri um að ræða munnmælasögur sem gengið hafa í sveitinni um langan tíma. Sama sagan væri um Skeggja á Skeggjastöðum, Þormóð í Þormóðsdal, Reyni á Reynisvatni og Úlfar á Úlfarsfelli, sem reyndar nefndist áður Úlfmannsfell. Sögurnar virðast hafa orðið til líkt og aðrar þjóðsögur þar sem reynt var að finna tilvist þeirra stað með því að vitna til óráðinna sagna og jafnvel áþreifanlegum sönnunum, þ.e. dysjunum.
Hvað um það – sögurnar eru góðar og hafa staðið fyrir sínu um langan tíma, þ.e. þjónað þeim tilgangi sem þeim var ætlað. Það ber þó, með framangreint í huga, að taka sögunum með hæfilegum fyrirvara. Fróðlegt er þó að skoða staðsetningu framangreindra dysja og leiða út frá sögnum um að þau hafi jafnan verið fyrst staðsett á mörkum jarða og síðar á mörkum gróinna bletta umhverfis bæjarstæði. Æsuleiði er einmitt í jarðri fyrrum gróins svæðis, Hraðaleiði er á mörkum jarðarinnar að vestanverðu og Egilsdys er á mörkum jarðar að suðvestanverðu.
Túnasléttur voru versti óvinur fornra mannvistarleifa á öndverðri síðustu öld. Á þeim tíma voru ótal forn mannvirki jöfnuð við jörðu og sléttuð. Skipti þá engu hvort um var að ræða fornar grafir eða annað. Heimafólkið eitt vissi gjarnan
um tilvist þeirra og gætti þess vel að þeim væri ekki raskað, enda fylgdi oft lýsing á hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér, jafnvel þótt ekki gerðist annað en að þau væru nytjuð. Átti kýr á bænum þá gjarnan að drepast, sjómenn að drukkna, heimilisfólk að veikjast og/eða deyja eða aðrar skelfingar að dynja yfir. Ástæðurnar voru jafnan af tvennum toga; annars vegar til að auka líkur á varðveislu þess, sem fólkið trúði í alvöru að væri satt, og hins vegar til að standa vörð um aðrar varhugaverðari ástæður, s.s. grafir skepna er látist höfðu úr miltisbrandi eða þar sem fatnaður fólks var grafinn er látist hafði úr svartadauða eða spænsku veikinni og svo mætti lengi telja.
Æsuleiði er norðvestan undir rótum gróinnar brekku í túni Æsustaða. Að sögn Bjarka eru Æsustaðir alls ekki svo gamalt býli. Þeir eru einn hluti af nokkrum frá Reykjum. Sunnar er Æsustaðafjall og norðvestar Helgafell. Milli þeirra er skarð, Skammaskarð. Handan og suðaustan þess er Skammidalur. Þar eru minjar stekks eða annarrar rústar.
Gömul kona, sem bjóð að Æsustöðum hefði fylgt honum um túnið á sínum tíma með það fyrir augum að staðsetja Æsuleiði. Þá hefði hann haldið að leiðið væri áberandi gróinn rofhóll undir brekkunni, en gamla konan hefði hins vegar bent honum á ílanga þúst, um 8 m langa og 2.5 m breiða, skammt norðar undir brekkurótunum. Hæðin er um 0.8 m. Leiðið snýr nokkurn veginn á lengdina í suður/norður. Þarna á Æsa gamla að hvíla. Teknir voru GPS-punktar á dysina.
Í Æsileiði á landnámskonan Æsa að liggja. Æsuleiði er álagablettur sem ekki má slá. Álagablettirnir eru fleiri því auk Æsuleiðis er slíka bletti einnig að finna á Hrísbrú, Norður-Reykjum, Úlfarsá (Álagablettur og Álagabrekka) og Úlfarsfelli. Blettina má ekki, skv. gömlum sögnum, slá eða eiga við á annan hátt.
Álfabyggð er skráð á átta bæjum í sveitarfélaginu, Blikastöðum, Helgafelli, Hraðastöðum, Miðdal, Mosfelli, Óskoti, Reykjakoti og Suður-Reykjum. Um 450 metra suður af bæjarhúsunum á Helgafelli er hóll sem nefndur er Sauðhóll. Samkvæmt gamalli sögn hafði bóndinn á Helgafelli einhvern tíma verið að reka heim fé neðan úr Skammadal í austanbyl. Sá hann þá mann á undan sér sem einnig var við fjárrekstur. Hvarf maðurinn fyrir Sauðhól en þegar bóndi kom sjálfur fyrir hólinn sást hvorki af honum tangur né tetur. Taldi bóndi víst að maðurinn hefði horfið inn í
hólinn með allt féð en það voru víst sauðir. Var þarna því um huldumann að ræða en ekki mennskan mann.
Sauðhóll er á því svæði þar sem nú er fyrirhugað að rísi ný íbúðarbyggð. Tekið var fullt tillit til hólsins og mun hann standa áfram inni í hinni nýju byggð.
Mjög margar af þeim fornleifum sem skráðar voru í Mosfellsbæ tengjast landbúnaði, , t.d. útihús, stekkir, kvíar, réttir, nátthagar, fjárborgir, sel og mógrafir. Margar þessara minja eru enn greini-
legar.
Að sögn Bjarka er Víghóll áberandi kletthóll suðvestan við Norður-Reyki. Að sögn fyrrum ábúanda á jörðinni mun hóllin hafa heitið Kvíahól og þá dregið nafn sitt af kvíahleðslum, sem þar hefðu verið undir honum.
Þá var gengið að Hraðaleiðinu. Það er á vesturmörkum jarðarinnar. Skurður vestan hennar undirstrikar mörkin. Dysin er um 15 m löng og um 6 metra breið. Hæðin er um 1.5 m. Ummerkin benda, ef satt er, til þess að þarna hafi höfðingi verið dysjaður. Leiðið liggur, líkt og Æsuleiði, nokkurn veginn suður/norður.
Gamla íbúðarhúsið að Hraðastöðum sem byggt var 1923 og hefur verið endurbyggt. Það er dæmigerður fulltrúi hins „íslenska sveiser“ og mikilvægt sýnishorn ákveðins tímabils í sögu
bændabýla hérlendis (Hörður Ágústsson).
Fyrrnefnt gerði, sem uppgötvað var vestast á túninu á Hraðastöðum, skammt sunnan Þingvallavegar, hefur verið nokkuð stórt. Nú er það um 20×20 m að ummáli, hringlaga. Hringurinn er um 0.20 m hærri en túnið umhverfis. Litabreyting er í hringnum miðað við umhverfið. Ef mjög vel er að gáð má sjá móta fyrir hleðslum í hringnum.
Ljóst er að þarna hefur verið mannvirki áður en túnið var sléttað. Hvort sem það hefur verið hringlaga rétt eða eitthvað annað er ástæða til að skoða það sérstaklega. Enn er t.a.m. ekki vitað hvar Kjalarnesþing var til forna, hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hvers vegna skyldi það ekki hafa verið þarna – áleiðis til Þingvalla.
Mosfell er ekki langt undan sem og aðrar merkisjarðir fyrrum. A.m.k. kosti væri ástæða til að gaumgæfa þennan stað mun betur. Ekki er vitað hér og nú hvort hann hafi verið uppgötvaður áður sem fornleif svo tekinn var GPS-punktur á hann – ef einhver áhugi skyldi vakna hjá einhverjum.
Innar er Helgadalur. Þar er Katlagil í Grímannsfelli. Í því er hlaðin tóft, sem skoða þarf við tækifæri.
Þá var haldið að Egilsdys. Fyrsti legstaður Egils Skallagrímssonar er sagður í greinilegum haug eða hól á Tjaldanesi. Haugurinn eða hóllinn er nú afgirtur innan hestagirðingur – af einskærri tillitssemi við söguna. Sagnir herma að Egill hafi verið grafinn upp þegar kirkja var reist að Hrísbrú. Margir hafa reyndar velt vöngum um afdrif beina Egils. Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert.
Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar.
Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“
Bein Egils munu skv. þessu hafa verið flutt í gömlu kirkjuna, sem nú er reyndar verið að grafa upp í fornleifauppgrefti að Hrísbrú, en síðan þaðan í gamla kirkjugarðinn við Mosfellskirkju, sem væntanlega hefur staðið skammt austar en núverandi kirkja – há og hnarreist.
Loks var haldið í Jónssel ofan Seljabrekku. Sagt er frá því annar staðar á vefsíðunni ( Bringur – Helgusel – Mosfellssel – Jónssel undir Lýsingar). Bjarki gekk öruggum skrefum inn á óslegin austurtún bæjarins. Hann sagðist hafa farið þangað einu sinni með Guðjóni Bjarnasyni, þáverandi ábúanda. Hann hefði vísað á selstóftirnar. Þeir hefðu gengið frá bænum, en á leiðinni hafi þeir komið að folaldi í skurðfestu svo einungis höfuðið hafi staðið upp úr. Tekist hefði að bjarga því, en vegna þessa atviks hafi gangan verið einstaklega eftirminnileg.
Leifar Jónssels eru austarlega á grónum túnum Seljabrekku, en þó enn óhreyft. Sjá má móta fyrir útlínum húsanna. Ekki er þó gerlegt að ákvarða veggi einstaka rýmishluta svo öruggt megi teljast. Tækifærið var notað til að rissa minjarnar upp og mæla. Einnig voru teknir GPS-punktar, en þeir reyndust vera þeir sömu og teknir voru í tilefni framangreindrar lýsingar. Munurinn var einungis sá að nú var grasið hávaxnara en áður.
Ljóst er þó að selstóftin hefur greinst í þrennt. Gengið var inn í aðalrýmið úr suðri. Norðaustan við tóftirnar mótar fyrir stekk eða kví. Vestan tóftarinnar er gamalt vatnsstæði. Jónsselslækur er norðar og er selið reist á suðurbakka lækjarins. Frá selinu sést vel hvar lækurinn liggur enn ósnertur þar sem hann liðast upp (ætti að vera niður) brekkuna suðaustanverða, en norðvestar hefur verið grafinn skurður í hann með stórvirkum vinnuvélum.
Hinar hlöðnu tóftarhleðslur, sem lýst var að Jórunn í Bringum hefði notað við heyskapsverkin í byrjun 20. aldar, virðast nú horfnar niður í þykkan svörðinn. Svona er hin „eilífa hringrás“.
Frábært veður.