Færslur

Öskjuhlíð

Þrír letursteinar með áletruninni “Landamerki 1839” afmörkuðu jörðina Skildingarnes frá Víkurbænum í Reykjavík.
Öskjuhlid-223Í grein í Morgunblaðinu 17. apríl 2005 er umfjöllun um byggðina undir yfirskriftinni “Skildinganes-kauptún”. Þar segir m.a.: “Sunnan í Skildinganeshólum stóð veglegt steinhús, þar átti heima frú sem hét Margrét. Börnum stóð stuggur af frúnni og kölluðu krakkarnir hana Hóla-Möngu. Þegar Margrét, sem alltaf var prúðbúinn utandyra, sást fara með strætó niður í bæ, áræddu krakkarnir að leika sér sunnanmegin í hólunum. Þar efst var steinn sem í var grafið LANDAMERKI 1839.”
Í Morgunblaðinu 9. ágúst 1994 sagði Magnús Sigurðsson í umfjöllun um Skerjafjörð – sjálfstæða byggð með sérstæðu yfirbragði: “Um Skildinganeshóla lágu áður mörk milli jarðarinnar Skildinganess og Reykjavíkur og þar var m. a. landamerkjasteinn frá 1839, sem nú er varðveittur í Árbæjarsafni.”
Í Fornleifaskráningu fyrir vestanvert Öskjuhlíðarsvæðið frá árinu 2006 segir m.a.: “Nokkur saga er tengd landamerkja-steininum. Skildinganes var um miðbik 16. aldar orðin sjálfstæð jörð, engu að síður voru landamerki hennar og Reykjavíkur ekki skýrt afmörkuð fyrr en árið 1787. Þá hafði Reykjavík fengið kaupstaðarréttindi og var land jarðarinnar ákvarðað í tengslum við það. Voru þá mörk Skildinganess og Reykjavíkur dregin frá Lambhól við Skerjafjörð, upp í Skildinganeshóla við Suðurgötu (Hjónagarða), þaðan austur í vörðu við Öskjuhlíð og að lokum í Fossvog við Hangahamar að austan, við Nauthólsvík. Fljótlega var reynt að hnekkja þessari niðurstöðu og spannst af því mikil deila sem leystist ekki fyrr en með sáttagerð árið 1839. Var hún í flestu samhljóða útmælingunni frá 1787. Til að taka af öll tvímæli var landamerkjalínan vörðuð þremur steinum, einum við Lambhól, öðrum í Skildinganesi og þeim þriðja í Öskjuhlíð. Á alla steinanna var höggvið orðið „Landmerke“ og ártalið 1839.
Oskjuhlið-223Lýsing: Steinninn er jarðföst klöpp með áletruninni “Landamerke 1839”, klappaðri á eina hliðina. Ofan á hann er merkt X. Hann er um 1,5 m á lengd og 1 m á hæð.
Á vísindavef HÍ er fjallað um örnefnið Ökjuhlíð: “Öskjuhlíð getur verið gamalt nafn. Hún hefur vafalaust tilheyrt landnámsbænum Vík (Reykjarvík) frá upphafi. Nafnið Víkurholt, sem nefnt er í máldaga Víkur frá 1379 gæti átt við Skólavörðuholt en þó fremur Öskjuhlíð, þar sem segir: “Víkurholt með skóg og selstöðu”.
Elín Þórðardóttir hét síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 gaf hún vitnisburð um landamerki Reykjavíkur og Skildinganess, meðal annars með þessum orðum: “Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð”. Nafnið hefur stundum verið stytt því að í áreiðargerð vegna landamerkja, þar sem farið er eftir landamerkjum jarða til upprifjunar eða staðfestingar, frá 1787 er talað um “Trevarder paa Hlidin”. Jónas Hallgrímsson nefnir Öskjuhlíð í dagbók sinni frá 1840.

Landamerkjasteinn 1839

Að minnsta kosti frá því um miðja 19. öld bar hæðin einnig nafnið Eskihlíð. Á korti frá 1850 er nafnið Öskjuhlíð aðalnafnið en Eskihlíð smáletrað. Býlið Eskihlíð (síðar við Miklatorg) var þó ekki stofnað fyrr en 1891.
Eski (eskigras) hefur fundist í hlíðinni en líklegra er að nöfnin Öskjuhlíð/Eskihlíð séu dregin af líkingu við öskjur, sem höfðu kúpt lok og voru notaðar meðal annars til að geyma í lín (einkum höfuðbúnað kvenna). Orðin askja, eski og eskja merkja hið sama, oft notað í fleirtölu, trafaöskjur = trafeskjur. Eski er upphaflega trjátegundin askur, en síðan haft um ílát úr þeim viði. Tvímyndir nafnsins kunna því að hafa þekkst frá fornu fari: Eskihlíð og Öskjuhlíð, samanber Eskiholt (Eskjuholt) og Öskjuholt á Mýrum.

letursteinn-222

Í Alþýðublaðinu 1963 var rætt við Lárus Sigurbjörnsson, forstöðumann Skjala- og minjasafns Reykjavíkurborgar. Í viðtalinu kom eftirfarandi m.a. fram:  “Þá sagði hann okkur frá öðrum merkilegum steini, sem nú stendur í heygarðinum fyrir norðan Árbæ. Er það landamerkjasteinn Reykjavíkur og Skildinganess. Var þessi steinn settur 1839 eftir miklar landamerkjadeilur. Voru tveir aðrir settir, annar í Eskihlíð og hinn á Lambholt. Sá sem er í Árbæ var á Skildinganesshólnum. Lárus hefur leitað að hinum steinunum, en ekki fundið. Sá, sem var á Skildinganesshólnum hafði verið bylt, líklega á stríðsárunum. Á honum stendur „Landamerki 1839″.”
Skv. nýjustu upplýsingum (2011) mun landamerkjasteinninn frá Skildinganesi hafa verið fluttur aftur á Skildingarneshóla fyrir 1994 sbr. Fornleifaskrá Bjarna F. Einarssonar. Þegar FERLIR kíkti á staðinn nýlega (2012) lá steinninn þar efst á hólnum, ekki á hvolfi sem fyrrum, en hallaði þó letrinu “undir flatt”.

Heimildir:
-http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1012796/
-Bjarni F. Einarsson, Fornleifaskrá Reykjavíkur, 1995.
-http://www.arbaejarsafn.is/Portaldata/12/Resources/skjol/skyrslur/skyrsla_130.pdf
-http://www.mbl.is/greinasafn/grein/149422/
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning lóðar Háskóla Reykjavíkur, Öskjuhlíð – Nauthóll, 2006.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=5169
-http://skerjafjordur.blog.is/blog/skerjafjordur/entry/101846/
-Alþýðublaðið 30. júní 1963, bls. 16.
-Helgi M. Sigurðsson og Yngvi Þór Loftsson, Öskjuhlíð, náttúra og saga. Reykjavík 1993, bls. 7-24.
-Íslenskt fornbréfasafn III, bls 340.
-Íslenskt fornbréfasafn XV, bls. 258.
-Ólafur Lárusson, Byggð og saga. Reykjavík 1946, bls. 106.
-Jónas Hallgrímsson, Ritverk II (1989), bls. 364.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – landamerki.