Við norðurbakka Hafravatns er upplýsingaskilti. Á því stendur:
„Hafravatn – Vatnsvík
Héðan má fara hringleið um Uxamýri í áttina að Reykjum og síðan upp með Varmá og áfram að Borgarvatni. Þaðan er gengið að Hafravatnsrétt og til baka meðfram Hafravatni. Syttri hringur er að Borgardal og yfir Reykjaborg og síðan niður að Hafravatnsrétt og meðfram Hafravatni til baka. Einnig liggur gönguleið héðna á Úlfarsfell og ennfremur er hringleið umhverfis Hafravatn.
Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar
Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.
Leiruvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár: Leirvogsá, Kaldakvísl og Varmá. Leiruvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingvalla og annarra landshluta.
Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ. Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímansfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem er friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, Varmá og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, Grettistak á Þverfelli og Seljadal. Fornar þjóðleiðir, seljarústir og aðrar sögulega minjar eru einnig víða við gönguleiðirnar.
Jarðfræði
Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýskeiði og í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.
Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslum við virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal eru þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.
Gróður
Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. Gróður teygir sig frá sjávarsíðunni, upp dalina og fellin. Ofan til eru fellin gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjargil, sunnan undir Helgafelli, hafa verið merktar nokkra tegundir úr íslenskri flóru.“