Gengið var frá Hrísakoti í Brynjudal um forna þjóðleið upp á Hrísháls, svonefndan Flúðastíg. Við hann er m.a. heit laug. Haldið var upp með Hvalskarðsá um Hvalskarð og inn að Hvalvatni (378 m.y.s.) með Súlur (1095 m.y.s.) og Hvalfell (848 m.y.s.) til sitt hvorrar handar. Framundan var Skinnhúfuhöfði þangað sem ferðinni var heitið. Í Skinnhúfuhelli bjó samnefnd tröllskessa.
Lúther Ástvaldsson á Þrándarstöðum í Brynjudal sagði forna leið, m.a. kirkjuleið, hafa verið um Hríshlíð um svonefndan Flúðastíg við Laugarlæk og yfir Hrísháls. Gatan hafi líklega legið þar allt frá þjóðveldisöld. Áður hafi verið fallegar hleðslur utan í stígnum í hlíðinni og hann flóraður á kafla, en eftir að Skógræktin hafi byrjað að athafna sig á Hrísakoti hefði verið farið með torfærutæki upp eftir stígum og hann aflagaður. Heit laug er ofarlega í hálsinum við gömlu leiðina, í Laugalæknum. Þar má enn sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á síðustu öld. Þá sagði Lúther frá fornum bæjum, s.s. Múla og Þorbrandsstöðum. Sá fyrrnefndi var undir Múlafjalli í norðanverðum dalnum, en var færður suður yfir ána, í Skorhagaland, um 1600. Enn megi sjá tóftir í gamla bæjarstæðinu.
Í örnefnalýsingum Hrísholts (Hrísaholts) í Brynjuadal segir m.a.(Þorlákur G. Ottessen)*:“Heim við Hrísakotsbæinn var lind vestur við þar sem mýrin og túnið mættust, sem vatn var alltaf sótt í, alltaf kölluð Lindin. Þar fraus aldrei. Austan við bæinn var lækur, alltaf kallaður Lækurinn. Hann kom úr Bæjargili, sem er nokkuð stórt gil fyrir ofan bæinn, þar sem hægt var að ganga upp á Múlafjall til að stytta sér leið.
Þegar farið var inn yfir Hrísháls inn í Botnsdal, var farið fram hjá fjárhúsunum og þau þá höfð á hægri hlið og farið fram að svokölluðum Laugalæk, sem er beint upp af Gráakletti og skiptir löndum. Síðan var farið upp Laugabrekkur, sem eru kjarrivaxnar neðan til og liggja meðfram læknum. Upp í brekkunum var dálítið engjastykki, sem nytjað var frá Hrísakoti. Í þessum brekkum var Laug, pyttur, sem seytlaði úr í lækinn. Í Lauginni var ca. 40° hiti. Laugalækur var ekki vatnsmikill.“
Ari Gíslason segir í sinni lýsingu um þessa: „Ef gengið er upp vestan við dalinn upp hálsinn, er þar nefnt Hrísasneið upp á Hrísháls. Fram af Hrísasneið er Laugalækur, smálaug þar í brún, og brekkur upp við hálsbrún heita Laugabrekkur. Þessi lækur er allvatnsmikill.“
Gengið var upp með Laugalæk eftir stíg, sem liggur að heitavatnslindinni fyrrenndu. Á vettvangi mátti sjá alls kyns drasl, bæði járn og timbur. Augljóst var að þarna hafði fyrrum verið hlaðin umgjörð um lindina, en hleðslan var að mestu komin undir bakka er skreið fram úr hlíðinni. Einhverju sinni hefur verið byggt yfir lindina með timbri og bárujárni. Inni var þá trékerald tl baða, en síðar hefur verið sett handsnúin þvottavél (tunna með tveimur þvertrjám). Ljóst er að staðurinn hefur bæði verið notaður til baða og þvotta á meðan Hrísakot var í byggð.
Flúðastígur var rakinn áfram upp á Múlafjall og stefan síðan tekin á Hvalsskarð, yfir Leggjabrjót.
Hvalfell er móbergsstapi (848 m.y.s.) sem varð til við eldsumbrot undir jökli. Efst er þó grágrýti sem bendir til þess að eldgosið verið komið upp fyrir vatnsborðið og hraun náð að renna ofan á gjóskulögunum. Vegna móbergsins í neðri hluta fjallsins, hafa ár og lækir átt mjög auðvelt með að sverfa gil, gljúfur og hvilftir í fjallið og er það eitt af einkennum þess.
Súlurnar eru nokkrar, s.s. Miðsúla (1086 m.y.s.), Háasúla (1023 m.y.s.), Syðstasúla (1093 m.y.s), Vestursúla (1089 m.y.s.) og Súlnaberg (954 m.y.s.).
Í Hvalsskarði var gengið fram á hringlaga hleðslu undir flögubergsbakka. Þarna var greinilega um fornt gerði eða rétt að ræða; sennilega rúningsrétt. Glæðuskrautið þar efra er óvíða fegurra. Þarna gætu vel verið fleiri minjar ef gaumgæft væri og meiri tíma varið til leitar og skoðunnar á svæðinu.
Ofan Hvalsskarðs blasir Hvalvatnið, stórt og mikið. Í þjóðsögunni um Melabergsmanninn (Rauðhöfða) segir m.a. að Melabergsmaðurinn verði að ægilegu illhveli sem sest að í Faxaflóa og eirir þar engu. En eins og í öllum góðum þjóðsögum kemur prestur nokkur til sögunnar sem veit lengra en nef hans nær og tekst að seiða hvalinn inn eftir Hvalfirði og upp ána sem rennur í fjörðinn. Það var hvalnum mjög erfitt sökum vatnsleysis.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson minnast á „lygilega munnmælasögu“ í Ferðabók sinni og segir þar að fyrir ofan Hvalvatn séu risastór ævaforn hvalbein.
Lengi var Hvalvatn talið vera dýpsta vatn landsins, 160 m, en síðar kom í ljós að Öskjuvatn á metið, 217 m. Ekkert undirlendi er vatnsmegin við Hvalfell, en víðar sléttur norðan og austan megin vatnsins.
Undir litlum klettahöfða um það bil kílómetra í austur frá stíflunni, er Arnesarhellir.
Í fyrrnefndri ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar segir um Hvalvatn: „Hvalvatn á Botnsheiði verður að teljast til merkisstaða í sýslu þessari. Það dregur nafn af hvalbeinagrind, sem sagt er að hafi fundist þar. Alþýða manna segir, að enn sé þar að finna geysistórt hvalbein, og sagnir erlendis frá herma, að slíkar leifar sé þar að finna frá dögum syndaflóðsins.
Af þessum ástæðum þótti okkur ekki fært að láta Hvalvatns ógetið með öllu. Við höfum ekki komið þar, en fullyrðingar tveggja greinagóðra manna hafa sannfært okkur um, að leifar þær sem frá var greint, séu einungis mosavaxinn steinn.“
Af þessu má draga þá ályktun, að Eggert og Bjarni hafi ekki alltaf látið vafasamar sögur hlaupa með sig í gönur. Þeir hafa áreiðanlega verið að velta fyrir sér nafninu á vatninu og firðinum og fundist upplagt að bæta sögunni við.
Sjá meira um Hvalvatn HÉR og HÉR.
Skinnhúfuhöfði er handan vatnsins. Hann er kenndur við tröllskessuna Skinnhúfu, sem bjó í helli í höfðanum, eftir því sem þjóðsögur herma. Fjær skartaði Kvígindisfell sinni fegurstu snæhettu í sólskininu.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
-*Þorlákur G. Ottesen, f. 20. júlí 1894. Var frá 4-23 ára aldurs á Ingunnarstöðum og í Hrísakoti. Páll Bjarnason skráði 27. ágúst 1976.
-Lúther Ástvaldsson frá Þrándarstöðum.
-Ari Gíslason – örnefnaskráning -ÖÍ.