Færslur

Sjóslys

Í Ægi 1914 er yfirlit yfir “Botnvörpuskip sem strandað hafa við strendur Íslands 1896-1906“:

Ása

Kútterinn Ása 1902.

“Nítján eru þau, skipin sem liggja hingað og þangað með ströndum fram hjer við land, sem strönduðu á 10 árum, og fleiri eru komin síðan. Sum þessara skipa liggja rjett við land, sum eru á þurru landi og af þeim eru mörg óbrotin en sandorpin, og talið ógerningur að ná þeim út. Þau eru sem hjer segir:

Nafn skipsins:  Heimili: Strandár;
1. Thoyetme  Fleetwood  1896.
2. Präsident Herwig   Geestemünde   1898.
3. Richard Simpson  Hull  1899.
4. Oceanic Hull  »
5. Engjanes  Rvík(Vídalín)  »
6. Friedrich  Geestemünde  1900.
7. Spaniel  Hull  »
8. Cleopatra  Hull  1901.
9. Lindsey Grimsby »
10. Aulaby (Anglaby) Hull 1902.
11. Rriton Hull »
12. Jamesia Grimsby »
13. Africa Grimsby »
14. Adeline Hull 1903.
15. Spring Flower Hull »
16. Molops Hull »
17. St. George Grimsby »
18. Friedrich Albert Geestemünde »
19. Würtenberg Nordenham 1906.

Togari
Þetta er það sem liggur ónotað í fjörunum hjer, og vart hægt að færa sjer það í nyt, því flest skipin liggja á þeim stöðum, þar sem björgunartilraunir mundu vera afarörðugar og kostnaðarsamar.
Til skýringar við þessa skipaskrá skal hjer tekið fram, að nr. 4 liggur við Skerjafjörð, nr. 11 við Stapa undir Jökli, nr. 12 við Bervík, nr. 17 við Ásmundarstaðavík á Melrakkasljettu, nr. 18 og 19 við Skeiðarársand, nr. 1, 2 og 6 við Skaftárós, nr. 3 og 9 við Mýrdalssand, nr. 16 við Rangársand, nr. 8 við Stokkseyri, nr. 5 og 10 milli Grindavíkur og Reykjaness, nr. 14 við Hafnarberg, nr. 7, 13 og 15 við Útskálaskaga.”

Í Ægir 1927 segir m.a. um tvö framangreindra sjóslysa:
-“„Engjanes”, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. Menn björguðust allir.”
-“„Anglaby”, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur.”

Í framangreindum Ægi 1927 er “Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850-1927” eftir Einar G. Einarsson, Garðhúsum í Grindavík:

Einar G. Einarsson

Einar G. Einarsson í Garðshúsum.

Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850—1927.
1. „Delphin”, frönsk loggorta, strandaði á Kasalóni laust eftir 1850. Menn björguðust allir. Skip þetta var tekið út sumarið eftir. Keyptu það Sveinbjörn Ólafsson kaupmaður í Keflavík o. fl.
2. „Beta”, dönsk jakt lítil. Rak hún á land í Hrólfsvík, en skipshöfn mun hafa druknað í hafi. Var skipið á leið til Búða með vörur.
3. „Kapracius”, frönsk skonnorta, strandaði á Þorkötlustaðabót. Menn björguðust allir.
4. „Vega” 30. apríl 1885, þýsk skonnerta, með saltfarm til Reykavíkur, strandaði á Þorkötlustaðnesi. Menn björguðust allir.
5. „Brise”, frönsk skonnerta, standaði á Arfadal. Skip þetta hafði orðið fyrir ásiglingu á hafi úti og sigldi upp vegna leka, um bjartan dag.
6. „Lonaine”, frönsk skonnerta. Strandaði 28. apríl 1885 á Hraunssandi og var leka um kent. Menn björguðust allir.
7. „Petit Jean”, frönsk skonnerta. Rak upp á Hraunsfjörur og varð ekki vart við neinn mann. Hafa því að líkindum allir drukknað áður en skipið kom að landi.
8. „Glitner”, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðvík 11. júlí 1896. Menn björguðust allir.
9. „Fortuna”, dönsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 29. júlí 1897. Allir björguðust.
10. „Flora”, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðavík 7. júlí 1903. Menn björguðust.
11. „Oddur”, gufubátur frá Eyrarbakka. Rak á land á Járngerðarstaðavík. Menn björguðust.
12. „Minna”, þýsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 17. júlí 1906. Mannbjörg.
13. „Henrij Rheid”, mótorbátur frá Hafnarfirði, Rak á land á Járngerðarstaðavík 16. febrúar 1907. Mannbjörg.
14. „Engjanes”, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. Menn björguðust allir.
15. „Rapid”, norskt flutningagufuskip strandaði á sama stað og nr. 14. Strandið kent, að sést hafi ljós í glugga, er yfirmenn álitu að væri Reykjanesviti, einnig skekkju á áttavita. Þetta skeði 15. nóv. 1899, kl.
3 árdegis. Menn björguðust.
16. „Anglaby”, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur.
17. „Sheldon Abbey”, ensk skonnerta, strandaði á Þorkötlustaðanesi. Var með salt og tunnufarm til Reykjavíkur. Menn björguðust.
18. „Varonell”, enskur togari, strandaði á flúðum, utan við Járngerðarstaði 20. janúar 1913. Þrír menn drukknuðu, en hinum tókst að bjarga.
19. „Karl Markmann”, þýskur togari. Rakst á sker, líklega Þorkötlustaðanes, en losnaði aftur og sökk skipið skammt undan landi 8. des. 1913. — Menn björguðust á skipsbátnum og náðu landi á Sandvík vestan við Reykjanesvita.
20. „Resolut”, mótorkútter frá Reykjavík, strandaði vestan við Hásteina 10. spet. 1916. Hafði stýri bilað. — Mannbjörg.
21. „Schlutrup”, þýskur togari. Strandaði við Stekkjarnef. Menn björguðust allir.
22. „Anna”, færeyskur kútter, strandaði austan við Staðarberg 3.—4. apríl 1924. Týndust allir menn 15 að tölu; ráku 9 á land og voru jarðsungnir hér í Reykjavík 11. apríl. („Anna” hét áður „Sléttanes” og var keypt héðan).
23. „Ása”, togari H. P. Duus-verslunar í Reykjavík. Strandaði á flúðum vestan við Járngerðarstaði. Áttavitaskekkju kent um. Allir björguðust.  (Skipið nýtt).
24. „Hákon”, mótorkútter frá Reykjavík. Strandaði við Skarfatanga 9. maí 1926. Sigldi á land í svörtum bil. Menn björguðust i skipsbátnum.

Þessa skýrslu um skipaströnd hefir hr. kaupmaður Einar G. Einarsson í Garðhúsum tekið saman eftir beiðni, og bætir eftirfarandi við:

Gufuskip

Reykvískt gufuskip.

„Til skýringar skýrslu þessari vil ég taka þetta fram, að hún er skrifuð eftir minni og ekki þar stuðst við nein heimildarrit eða minnisbækur og vegna þess er flestum ártölum slept, samt geri ég ráð fyr að hún sé í öllum aðalatriðum rétt og að ekki sé neitt skip rangtalið, sem hér hefir strandað á þessu timabili. En frekari upplýsingar um þetta má eflaust fá í Þjóðvinafélagsalmanakinu, yfir þann tíma, sem það nær, svo og í bókum Gullbringusýslu, þvi fram til síðustu tíma voru öll skipströnd meðhöndluð af sýslumönnum.
Ása5 skip eða nr. 8—12 í skýrslunni, hafa slitnað upp á Járngerðarstaðavík. 2 skip, nr. 2 og 7 hafa sennilega rekið mannlaus á land, skipshafnir verið búnar að skilja við þau, eða hafa drukknað á rúmsjó, og 2 skipin, nr. 5 og 6, líklega siglt viljandi á land.
Öll hin skipin, 15 að tölu, hafa strandað af einhverjum atvikum, sem menn ekki hafa getað ráðið við, og þá líklega í mörgum tilfellum, að einhverju leyti, af skekkju á áttavitum. Í því sambandi mætti ef til vill geta sér til, að hraunið hér, sem alstaðar liggur út í sjó, kunni að vera mengað þeim efnum (járni), er hafi áhrif á áttavitana. – Garðhúsum 27. júní 1927. (Sign.) Einar G .Einarsson.

Togari

Hákon RE 113, áður kútter Haraldur MB 1 frá Akranesi sem kátir karlar voru á.

Skýrslan og skýringar þessar eru settar í „Ægi” til þess að benda á, að hér muni eigi vanþörf að vitaverði hið bráðasta komið upp. Síðasta Alþingi hafði þetta með höndum og munu undirtektir hafa verið hinar bestu og að sögn vitamálastjóra, mun viti verða reistur á Hópsnesi á komandi sumri.
Til áréttingar því, sem hr. Einar G. Einarsson segir um áttavitaskekkju á þessum slóðum, sem sjómenn hafa orðið varir við, geta þar einnig verið óreglulegir straumar, sem bera skip úr leið.

Hópsnes

Hópsnesviti/Þórkötlustaðaviti. Vitin sá arna er í landi Þórkötlustaða og þar með á Þórkötlustaðanesi. U.þ.b. 120 metrar eru í landamerki Hóps frá vitanum.

Mönnum er það ekki hulið, að vegna jarðskjálfta, hefir komið fyrir að Reykjanesviti hefir ekki logað þegar hann átti að gjöra það. Er því brýn nauðsyn, að fyrirhugaður viti í Grindavík, sendi frá sér ljós, sem sé vel aðgreint frá Reykjanesljósinu, svo aldrei komi það fyrir, að skip, sem úr hafi koma, geti vilst á þeim. Hafi orðið að slökkva ljósið á Reykjanesvitanum í fyrra vegna jarðskjálfta, getur hið sama orðið í ár og önnur ár.

Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson.

Enginn segir fyrir, hvenær skip þurfi á Reykjanesvita að halda; getur það orðið jafnt í jarðskjálfta, þegar ekki er auðið að sýna ljós, og þegar alt er í lagi; en sökum þessa mikla ókosts Reykjaness fyrir sjófarendur, virðist svo, sem brýn nauðsyn heimti, að Grindavíkurvitinn verði góður viti vegna þess, að svo getur viljað til, að hann verði eini landtökuvitinn á þessum hættulegu slóðum.
(Ég hef bætt ártölum og mánaðardögum inn í skýrslu Einars eftir föngum). – Reykjavík, 15. okt. 1927. Sveinbjörn Egilson.

Í framhaldinu verður hér fjallað stuttlega um strand togarans Kinston Period H 55 sunnan Kalmanstjarnar árið 1934.

Strand utan við Kalmannstjörn 1934

Kalmanstjörn

Kingston – strandið 1934.

„Myndin er líklega tekin 26. febrúar 1934. Maðurinn til hægri er líklega Jón Bergsveinsson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélags Íslands. Strandaði togarinn er frá Kingston útgerðarfélaginu í Hull. Það strand sem passar best við myndina er strand Kingston Peridot H 55 rétt sunnan Kalmannstjarnar í Höfnum. Togarinn sigldi á land aðfararnótt 24. febrúar 1934 en skemmdist lítið. Jón fór á staðinn með fluglínutæki og hjálpaði ásamt slysavarnarsveitinni í Höfnum áhöfninni í land samdægurs. Varðskipið Óðinn og breska björgunarskipið Henry Lancaster komu og drógu skipið út 26 febrúar.“ (BÞ 2018)

Heimildir:
-Ægir, 9. tbl. 01.09.1914, Botnvörpuskip sem strandað hafa við strendur Íslands 1896-1906, bls. 117.
-Ægir, 10. tbl. 01.10.1927, Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850-1927 – Einar G. Einarsson, Garðhúsum 27. júní 1927, skráð af Sveinbirni Egilssyni, bls. 220-221.
-Sarpur.is

Gufuskip

Gufuskip-Baldur RE 146-1913.